Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2006

Mánudagspósturinn 10. júlí 2006

Friðbjörn Orri Ketilsson hittir naglann hressilega á höfuðið í nýlegri færslu á heimasíðunni sinni. Oftar en ekki er nauðsynlegt að koma með slíkar myndlíkingar til þess að fólk skilji hlutina, jafnvel í tilfellum þar sem í raun er um að ræða hluti sem ættu að vera frekar augljósir. Færslan hljóðar svona:

„Fyrir nokkru var öskrað á mig með háværri rödd og nokkurri fyrirlitningu „Hvar er svo þetta góðæri sem allir eru að tala um? Ég hef ekki séð krónu af því ennþá.“ Það sem ég benti þessum ágæta einstakling jafn harðan á var að góðæri er ekki efnislegur hlutur sem vinalegir menn ganga með í hús og skipta á milli fólks. Góðæri er ástand sem skapast þar sem nóg er af tækifærum og möguleikum fyrir duglega og þróttmikla einstaklinga og gott er fyrir þá að ná árangri. Var mér þá svarað því til að góðærið væri aðeins fyrir þá ríku og öllum væri sama um hina. Ég svaraði því þá aftur til að slíkt væri rangt og að góðæri væri eins og sólskinið en þeir njóta þess aðeins sem nenna að fara upp úr sófanum eða fram úr rúminu og út þar sem það er. Sólskinið verður ekki borið inn til þeirra sem ekki nenna að fara út. Að sama skapi er góðærið ekki sett í fötur heldur er til staðar fyrir þá sem vilja njóta þess.“

Málið er einfaldlega að það er alltaf nóg til að fólki sem vill fá alla skapaða hluti upp í hendurnar án þess að hafa neitt fyrir þeim. Aðrir eiga þá að borga brúsann. Kannski fyrirfinnst þessi tilhneiging í einhverjum mæli hjá flestum, en sem betur fer átta margir sig á því að slík krafa er hvorki eðlileg né æskileg fyrir þjóðfélagið. Ef allir hugsuðu svona væri allt á öðrum endanum og velferðina eftir því. Enginn myndi einfaldlega nenna að gera neitt og allir ætlast til þess að einhverjir aðrir gerðu það sem gera þyrfti. Niðurstaðan yrði þá að enginn gerði neitt og allir töpuðu.

Það þarf einfaldlega að vera hvati í þjóðfélaginu til að standa sig og ná árangri sem síðan skilar sé til þjóðfélagsins í heild. Sá hvati er að fólk uppskeri eins og það sái. Fólk geti ávaxtað sitt pund sem mest fyrir eigin atorku og framkvæmdasemi í stað þess að því sé refsað t.d. með háum sköttum sem síðan eru oftar en ekki notaðir til að hlaða undir fólk sem er ekki tilbúið að leggja það á sig sem þarf til að ná árangri í lífinu. Það nær enginn árangri í einu eða neinu sem kemst upp með það að varpa ábyrgðinni á eigin hagsmunum yfir á aðra.

Góðærið, sem verið hefur á Íslandi á undanförnum árum, er einmitt gott dæmi um þetta eins og Orri réttilega fjallar um. Það hefur verið góðæri hér á landi sl. Ár. Það er einfaldlega ekki hægt að deila um það. Tölurnar tala sínu máli og við Íslendingar höfum aldrei haft það eins gott og í dag. Langt því frá raunar. Allir hafa klárlega notið þess í einhverjum mæli þó einhverjir geri sér ekki grein fyrir því eða eru ósáttir við sinn hlut. En til þess að njóta góðra tíma til fullnustu þarf að nýta sér aðstæður og grípa þau tækifæri sem gefast en ekki, eins og Orri segir, hanga í sófanum og nenna ekki að fara út og njóta sólskinsins en ætlast þess í stað til þess að einhver beri það inn til manns.

Vinstrimenn, „take notes!“

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is


Gullkornið á sunnudegi

"If you don’t have time to do it right, when will you have time to do it over?"

– John Wooden, Körfuboltaþjálfari


Góður kommúnisti - góður Evrópubúi?

Fyrir ekki svo löngu síðan sá ég brezkan sjónvarpsþátt sem sýndur var í Ríkissjónvarpinu og fjallaði um Kim Jong Il, einræðisherra Norður-Kóreu. Í þættinum var m.a. minnzt á það sem kallaðist "a good communist" (góður kommúnisti) í kommúnistaríkjunum á tímum kalda stríðsins, og kallast sjálfsagt enn í þeim sem eftir eru.

Ég hafði nú heyrt þetta orðalag oft áður, góðir kommúnistar voru víst sagðir vera þeir sem sögðu já og amen við línunni frá Moskvu, þ.e. frá hinu yfirþjóðlega valdi sem þeir trúðu margir hverjir á í blindni sem var Komintern, aþjóðasamband kommúnista. Þeir sem kynnt hafa sér þá sögu vita að það var nánast sama hvað ráðamenn í Sovétríkjunum og Komintern tóku upp á að gera eða segja, yfirleitt var það meira eða minna réttlætt af forystumönnum kommúnista, hvort heldur sem var hér á Íslandi eða erlendis.

Íslenzkir kommúnistar sáu margir fyrir sér framtíðarríkið Sovét-Ísland og vildu að Ísland yrði kommúnískt ríki og tæki sér stöðu við hlið annarra slíkra. Almenningi var lofað gulli og grænum skógum þegar þessu markmiði hefði verið náð og ekkert var gefið fyrir fullyrðingar um að kommúnistaríkin væru ólýðræðisleg og miðstýrð langt úr hófi fram.

Þetta minnti mig óhjákvæmilega á hliðstætt fyrirbæri í nútímanum, nefnilega Evrópusambandið. Maður hefur nefnilega ósjaldan heyrt talsmenn sambandsins skírskota til einhvers sem þeir kalla "a good European" (góður Evrópubúi). Á þetta er ævinlega minnzt þegar t.a.m. er rætt um þjóðaratkvæðagreiðslur sem hafa farið öðruvísi en Evrópusambandið hefur viljað. Við slík tækifæri eru íbúar viðkomandi ríkja ekki "góðir Evrópubúar" sem segja já og amen við öllu sem ákveðið er í Brussel, gagnrýnislaust.

Ekki verður betur séð en að talsmenn Evrópusambandsins hér á landi trúi í blindni á hið yfirþjóðlega vald, Evrópusambandið. Þeir sjá ennfremur fyrir sér framtíðarríkið ESB-Ísland og lofa okkur Íslendingum gulli og grænum skógum ef við göngum í sambandið og afsölum okkur sjálfstæði okkar. Þeir gefa heldur ekkert fyrir augljósan lýðræðisskort innan Evrópusambandsins og gríðarlega miðstýringu. Línan frá Brussel er ávallt rétt í þeirra augum og að því er virðist algerlega yfir gagnrýni hafin. Brussel veit einfaldlega miklu betur hvað okkur er fyrir beztu en við sjálf að þeirra mati – alveg eins og Moskva áður í augum margra kommúnista.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is

(Upphaflega ritað í lok árs 2003)


Enn um skatta

Nú styttist í að landsmenn fái til baka álagningarseðla frá Ríkisskattstjóra. Í einhverjum sveitafélögum á almennur skattborgari von á endurgreiðslu ef útsvar sveitafélagsins er nógu lágt. Í flestum sveitafélögum er það þó ekki þannig þar sem flest þeirra innheimta hámarskútsvar. Einhverjir hefðu haldið að við hægri menn værum orðnir þreyttir á að gagnrýna háa skatta, en því fer fjarri, sérstaklega þegar skattar á Íslandi eru 36,72%.

Það er því ekki úr vegi að huga að nokkrum atriðum varðandi skattheimtu og eyðslu á skattfé almennings.

Á síðustu mánuðum vetrar skila Íslendingar af sér upplýsingum um það hve mikið þeir höfðu í laun á síðasta ári og hvaðan þau laun komu. Jafnframt gefa þeir upp hvað þeir borguðu mikið í skatta, lífeyrissjóði og svo frv. Mönnum er s.s. gefinn kostur á að sýna sínar bestu hliðar með heiðarleika og kostgæfni. Telja þarf upp, laun, sjóði, sparifé og svo frv

En eins og fyrr segir eru skattar á Íslandi háir, tæp 37%. Það þýðir að maður sem vinnur 8 tíma vinnu á dag fær aðeins borgað í sinn vasa um 5 tíma. Þá skulum við ekki gleyma að hann á eftir að borga skatta af nánast öllu öðru sem hann gerir, þ.e. vsk af matvörum og sérvörum, afnotagjald sjónvarpsins, bílaskatt og svo mætti lengi telja. Það er því óhætt að segja að skatturinn teygi anga sína í nánast allt sem við gerum.

Það er þó ekki þar með sagt að öll skattheimta sé slæm. Við búum í landi þar sem fólk vill fá nauðsynlega samfélagsþjónustu s.s. löggæslu, almennt eftirlit, heilsugæslu og svo frv. Við erum líka þannig úr garði gerð að við viljum sjá um þá sem minna mega sín, að sjálfsögðu. Menn geta síðan deilt um hversu langt á að ganga í velferðarmálum. Eitt skal þó tekið skýrt fram og það er að bygging íþróttaleikvangs, byggðaþróun, nýsköpun, stuðningur við ýmiss félagasamtök og svo frv. hefur ekkert með velferðarkerfi að gera heldur er þarna búið að taka ranglega af heiðarlegu fólki til að borgar fyrir áhugamál og sérþarfir annarra.

En ég er hinsvegar á móti óhóflegri skattheimtu. Það er staðreynd að tekjuskattur einstaklinga er of hár hér á landi. Skattur á að vera tekjulind nauðsynlegustu verkefna ríkisins. Skattheimtu á hvorki að nota sem tekjujöfnuð milli einstaklinga eða fyrirtækja, og ekki sem fjáröflun fyrir gæluverkefni stjórnmálamanna. Það er einn megintilgangurinn með skrifum okkar. Að opna augu fólks fyrir því hvernig lífinu skal háttað með sem minnstum afskiptum ríkissins og með frjálsu vali einstaklinga. Oft vilja ráðamenn gleyma því að skattpeningar eru eign almennings en ekki eign einstakra sveitafélaga og/eða ráðamanna.

Hingað til hefur íslenska ríkið og sveitafélögin alltaf fundið sér eitthvað til að gera með skattpeningana og í framhaldi af því hefur ekki verið svigrúm til skattalækkana. Einstaka ríkisstjórnir, eins og sú sem núna situr, hafa þó tekið sig til og borgað inn á höfuðstól erlendra lána og lækkað þannig greiðslubyrði ríkisins. En hvað hefði gerst ef þessi ríkisstjórn hefði aðeins setið í fjögur ár? Kannski eitthvað svipað og gerðist hjá R-listanum?

Mjög mikilvægt er að þeir aðilar sem kosnir eru af almenningi fari með og sýni ábyrgð þegar um er að ræða fjármuni almennings.

Gísli Freyr Valdórsson


Mánudagspósturinn 3. júlí 2006

Það er sennilega að bera í bakkafullan lækinn að fjalla um fylgishrun Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum Fréttablaðsins og Gallups. Það hljóta að vera miklar áhyggjur í herbúðum flokksins vegna þessa sem og alvarlegar vangaveltur um það hvort ekki sé rétt að skipta aftur um formann (eins og gert var síðast fyrir rétt rúmu ári) og þá biðja jafnvel Össur Skarphéðinsson um að taka á ný að sér forystu flokksins. Eða bara einhvern annan. Það er a.m.k. ljóst að Ingibjörgu Sólrúnu hefur algerlega mistekizt að standa undir þeim væntingum sem gerðar voru til hennar og rúmlega það.

---

Annars stendur víst til að stofna sérstakan stjórnmálaflokk á Íslandi sem berjast á fyrir hagsmunum innflytjenda. Þetta mun vera önnur tilraun til þess að stofna slíkan flokk, en fyrri tilraunin fór fram árið 2002 ef ég man rétt. Af þeirri flokksstofnun varð þó aldrei eins og stundum vill verða, en markmið hans var aðallega að gera innflytjendum frá Suðaustur-Asíu auðveldara með að setjast að hér á landi. Af einhverjum ástæðum þótti þannig við hæfi að gera hagsmunum ákveðins fólks hærra undir höfði en annarra á grundvelli kynþáttar. Það vantaði þó ekki að þeir, sem hugðust stofna þennan flokk, sökuðu ýmsa aðra um að mismuna fólki eftir kynþáttum...

Hvað nýja innflytjendaflokkinn annars varðar verður kannski einna helzt fróðlegt að vita hvort hann muni aðeins hafa stefnu í innflytjendamálum eða öðrum málaflokkum líka? Og þá hvaða stefnur? Eða hvort hugmyndin er að um verði að ræða svokallaðan eins-máls-flokk? Svona t.d. eins og Frjálslyndi flokkurinn var í fyrstu og margir vilja meina að sé ennþá raunin. Kemur í ljós.

Að öðru leyti er þetta framtak kannski einna merkilegast í ljósi þess að (oftar en ekki sjálfskipaðir) talsmenn innflytjenda á Íslandi hafa lagt mikla áherzlu á það að þeir innflytjendur sem sezt hafa að hér á landi séu afar ólíkir innbyrðis, hafi ólíkan bakgrunn, ólíkar skoðanir, og ólíka hagsmuni og því sé rangt að setja þá alla undir einn hatt – eða í einn flokk?

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is


Gullkornið á sunnudegi

"If there are things you don’t like in the world you grew up in, make your own life different. "

 

– Dave Thomas, Stofnandi Wendy’s

 


« Fyrri síða

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband