Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2006
Mánudagur, 31. júlí 2006
Mánudagspósturinn 31. júlí 2006
Ég renndi yfir grein Hallgríms Helgasonar, föður bláu handarinnar, á síðum Fréttablaðsins í morgun þar sem hann fjallar um landbúnaðarkerfið íslenzka og hversu úrelt og fáránlegt það er. Þetta er vitaskuld hárrétt hjá Hallgrími og aldrei of oft minnt á það á meðan þetta blessað kerfi er við líði. Bændum er haldið í fátækt í gegnum opinberar niðurgreiðslur fyrir tilstuðlan landbúnaðarkerfisins í stað þess að þeim sé veitt frelsi til að markaðssetja sína vöru á frjálsum markaði eins og aðrir öllum til hagsbóta.
Það furðulegasta við þetta allt er kannski það að það munu einmitt vera bændur sjálfir sem eru mest mótfallnir því að landbúnaðarkerfið verði afnumið og frelsi komið á. Í því sambandi mætti nefna að á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sl. haust fórum við nokkrir ungir sjálfstæðismenn í ræðustól undir forystu Davíðs Arnar Jónssonar og lögðum fram þá tillögu að kerfið yrði afnumið.
Þetta framtak vakti augljóslega mikla reiði á meðal bænda í salnum og komu þeir nokkrir í ræðustól í kjölfarið til að lýsa yfir megnri andstöðu sinni við tillöguna. Var augljóst af máli þeirra að þeir voru bæði reiðir og hneykslaðir yfir þessu "uppátæki" okkar unga fólksins sem eru vitaskuld furðuleg viðbrögð þó ekki nema í ljósi þess að afnám landbúnaðarkerfisins hefur lengi verið eitt af helztu stefnumálum ungra sjálfstæðismanna. Og ef við eigum ekki að tala fyrir okkar stefnumálum á landsfundi Sjálfstæðisflokksins og reyna að koma þeim í gegn, hvað höfum við þá þangað að gera?
Ég fagna því vissulega gagnrýni Hallgríms á landbúnaðarkerfið og vona eins og hann að þetta úrelta niðurgreiðslukerfi ríkisins verði afnumið sem allra fyrst. Að sama skapi vona ég að þar verði ekki látið staðar numið og úrelt niðurgreiðslukerfi ríkisins til handa íslenzkum listamönnum og rithöfundum verði að sama skapi afnumið hið fyrsta. Einhvern veginn efast ég þó um að rithöfundurinn Hallgrímur sé reiðubúinn að taka undir það sjónarmið. En kannski ef hann væri bóndi...
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
Mánudagspósturinn | Breytt 27.4.2007 kl. 22:27 | Slóð | Facebook
Sunnudagur, 30. júlí 2006
Gullkornið á sunnudegi
Gullkorn á sunnudagi | Breytt 27.4.2007 kl. 22:27 | Slóð | Facebook
Miðvikudagur, 26. júlí 2006
Hvenær mismunar maður fólki og hvenær ekki?
Formaður Samtaka fiskvinnslu án útgerðar (SFÁÚ), Óskar Þór Karlsson, flutti erindi á síðasta aðalfundi samtakanna. Þar fjallaði hann meðal annars um sjómannaafslátt: ,,Þetta teljum við jafngilda ríkisstyrk til fiskvinnslu á sjó. Við höfum því ákveðið nú að gera þá kröfu til ríkisins, og munum fylgja henni eftir af fullum þunga, að þá skuli einnig veittur samskonar skattaafsláttur til verkafólks sem vinnur þessi sömu störf í okkar fyrirtækjum. Annað teljum við brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.
Það sem formaðurinn kallar ,,samskonar skattaafsláttur er sjómannaafslátturinn svokallaði en hann forðaðast að nota það réttnefni enda felst það í hugtakinu að sjómannaafsláttur er ætlaður sjómönnum. Fullyrðingar Óskars um að það að fiskverkafólk í landi fái ekki sjómannaafslátt þrátt fyrir að sinna að einhverju leyti svipuðum störfum og sjómenn sé brot á 65. gr. stjórnarskrárinnar styðjast ekki við nein lögfræðileg rök. Tilvikin eru fullkomlega ósambærileg hvað þetta varðar. Þau rök sem færð hafa verið fram fyrir sjómannaafslætti er enda ekki þau að vegna eðlis þess starfs að gera að fiski sé nauðsynlegt að fólk sem það gerir greiði lægri skatta. Rökin (ef einhver) hafa fyrst og fremst falist í því að um hættuleg og mikilvæg störf sé að ræða sem krefjast mikilla fjarvista. Á sama tíma geta menn ekki nýtt sér ýmsa afþreyingu eða þjónustu ríkisins, sem fjármögnuð er með skattpíningu, í sama mæli og landkrabbar.
Ég fagna því, út af fyrir sig, að menn séu tilbúnir til þess að skoða það að fólk borgi til ríkisins (ef eitthvað) í réttu hlutfalli við magn þeirrar þjónustu sem það fær frá því. Þetta getur hinsvegar með engu móti talist fullnægjandi röksemdafærsla þar sem þá er aðeins verið að taka einn þátt fyrir, eina stétt manna. Hinsvegar væri hægt að segja það um mun fleiri stéttir að þær sinntu sínum störfum mikið fjarri þjónustu ríkisins. Auk þess eru mælikvarðarnir ófullkomnir, það er fráleitt að fullyrða að allir sjómenn nýti sér þjónustu ríkisins í minna mæli en allir sem vinna í landi. Enginn vill hinsvegar vera vondur við sjómenn, og því er oft erfitt að taka þessa umræðu. Staðreyndin er þó sú að afslátturinn er ekki styrkur til sjómanna heldur styrkur til útgerðarmanna.
Mun líklegra er að tilvist sjómannaafsláttarins, sem slíks, sé brot á jafnræðisreglu heldur en sú staðreynd að hann taki ekki til fleiri stétta. Jafnræðisreglan, 65. gr. stjórnarskrárinnar, er eins og önnur ákvæði stjórnarskrárinnar stutt og skorinort. Allir skulu vera jafnir fyrir lögum..., er í raun það eina sem þar segir sem máli skiptir. Jafnræðisrök SFÁÚ hníga að því að allir ættu að fá sjómannaafslátt, ekki bara fiskverkafólk. Þegar svo er komið að allir fá sjómannaafslátt er ekki lengur um skattaafslátt að ræða heldur almenna tekjuskattsprósentu. Hér er frekar um sérhagsmunapot, með stjórnarskránna að vopni, að ræða heldur en réttlætismál.
Þessi umræða er angi af stærra máli, en æ oftar má heyra menn nota það sem rök fyrir enn meiri mismunun að mismunun sé til staðar. Einnig eru þau rök notuð fyrir auknum ríkisútgjöldum að ríkið eyði peningum hvort sem er í ýmsa vitleysu. Af hverju þá ekki að bæta við enn einni mismununinni eða enn einni vitleysunni? Það sem menn eiga að beita sér fyrir er að slíkri mismunun, eða slíkri fjársóun, linni.
Davíð Þorláksson
(Greinin birtist áður á www.sus.is)
Stjórnmál - almennt | Breytt 27.4.2007 kl. 22:28 | Slóð | Facebook
Sunnudagur, 23. júlí 2006
Gullkornið á sunnudegi
"The greatest honor of a man is in doing good to his fellow men, not in destroying them."
Gullkorn á sunnudagi | Breytt 27.4.2007 kl. 22:28 | Slóð | Facebook
Föstudagur, 21. júlí 2006
Samfylkingin og sjálfstæð utanríkisstefna - enn og aftur
"Gagnrýnin skoðun á kostum ESB-aðildar umfram EES er hér brýnt verkefni. Ekki er nóg að skoða stöðu EES-samningsins eins og verið er að gera í nefnd forsætisráðherra. Það tengist einnig brottför varnarliðsins, sem mun gera Íslendingum kleift að reka sjálfstæða utanríkisstefnu eftir nær sextíu ára fylgispekt við Bandaríkin."
Þessi merkilega málsgrein er tekin úr grein Margrétar S. Björnsdóttur um Samfylkinguna sem birtist í Morgunblaðinu 15. júlí sl. og borið hefur nokkuð á í hinni pólitísku umræðu síðan. Og hvað er svona merkilegt við hana spyr án efa einhver. Jú, hún gengur ekki upp. Hún byrjar á því að talað er fyrir því að Ísland gangi í Evrópusambandið. Og síðan er talað um sjálfstæða íslenzka utanríkisstefnu.
Raunin er sú að ef Íslendingar tækju upp á þeirri vitleysu að ganga í Evrópusambandið yrði ekki rekin nein sjálfstæð íslenzk utanríkisstefna. Aðeins yrði þá um að ræða sameiginlega utanríkisstefnu sambandsins sem aftur myndi, eins og annað innan sambandsins, seint taka mið af hagsmunum Íslands og íslenzku þjóðarinnar.
Og þessu til viðbótar í ljósi málsgreinar Margrétar. Hvað með að skoða galla Evrópusambandsaðildar? Á s.s. alveg að horfa framhjá þeim? Þeir eru sennilega óþægilega margir...
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is
Stjórnmál - almennt | Breytt 27.4.2007 kl. 22:29 | Slóð | Facebook
Miðvikudagur, 19. júlí 2006
Hver á fiskinn í sjónum?
Fyrir nokkru undirbjuggu útvegsmenn málshöfðun á hendur ríkinu vegna skerðingar sem þeir höfðu orðið að sæta vegna úthlutunar byggðarkvóta og línuívilnunar. ,,Lögspekingarnir og fyrrverandi alþýðubandalagsmennirnir Össur Skarphéðinsson og Kristinn H Gunnarsson voru yfirlýsingaglaðir á heimasíðum sínum vegna þessa. Það að vinnuveitendur í þessari mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar kjósi að láta reyna á réttindi sín fyrir dómstólum sagði Össur að væri ,,...fráleit ósvífni... en Kristinn sagði að útvegsmenn væru ,,...útbólgnir af hroka og skeytingarleysi....
Ekki er því úr vegi að fara í stuttu máli yfir ummæli þessara manna.
Össur vildi meina að útgerðarmenn ættu ekki fiskinn í sjónum. Í sjálfu sér er það alveg rétt hjá honum, enda getur enginn átt óveiddan fisk sem ekki er afmarkaður með nokkrum hætti. Útvegsmenn hafa heldur ekki haldið því fram að þeir eigi þenna fisk heldur aðeins nýtingarrétt að auðlindinni.
Kristinn sagði ríkið geta breytt úthlutunarkerfi aflaheimilda og jafnvel afnumið það með öllu. Í sjálfu sér er það alveg rétt að ríkið getur þetta en það er ljóst að ef eignar- eða atvinnuréttindi einhverra verða skert þá bera að bæta tjón sem af því hlýst. Vinstri stjórn sem þannig stæði að málum gæti valdið því að tuga eða hundruða milljarða skaðabótakröfur stofnuðust á hendur ríkinu.
Kristinn hélt áfram: ,,Veiðiheimildir, sem hafa verið keyptar, mynda engan eignarrétt, aðeins rétt til að nýta heimildina samkvæmt ákvæðum laganna. og svo: ,,Menn geta aðeins átt það sem þeir kaupa.
Fyrir utan hróplegt ósamræmi milli þessar tveggja setninga virðist Kristinn ekki hafa hugmynd um það að nýtingarréttur er ein tegund eignarréttar og nýtur jafnframt verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar. Ekki er hægt að lá neinum fyrir að þekkja ekki eignarrétt eins og lófann á sér en slíkir menn, sem Kristinn, ættu þá frekar að halda sér saman en að básúna fáfærði sína.
Þess ber að geta að ef aflaheimildir eru skertar þá er fyrst og fremst verið að skerða réttindi sem menn hafa keypt sér. Ætla má að allt að 90% aflaheimilda séu nú í höndum annarra aðila en þeirra sem fengu þær upphaflega. Telja menn eitthvað réttlæti vera í því að kippa fótunum undan mikilvægustu atvinnugrein okkar með því að hrifsa af henni dýrmætustu eign hennar? Eign sem hefur verið keypt af þeim sem greinina stunda? Auk þess voru þeir sem fengu aflaheimildir upphaflega úthlutað í fullum rétti. Áður en fiskveiðistjórnkerfi var komið á til hindra ofveiði var sókn svo að segja frjáls. Til að gæta að stjórnarskrárvörðum atvinnuréttindum útvegsmanna var rétt að úthluta aflaheimildum til þeirra sem höfðu þá verið að stunda greinina. Með þessum hætti var gætt að áunnum atvinnuréttindum þeirra með því að breyta þeim í eignarrétt yfir aflaheimildum.
Útvegurinn hefur þá sérstöðu miðað við aðrar atvinnugreinar að þeir þurfa að sæta því að ákvarðanir misvitra stjórnmálamanna geti skilið milli feigs og ófeigs. Ein greina þarf hún að sæta ríkisforsjá í svo miklum mæli. Til að standa vörð um hagsmuni sína er því eðlilegt að þeir leiti til dómstóla. Hvaða aðra leið ættu þeir svo sem að fara til að gæta réttar síns?
Davíð Þorláksson
(Greinin birtist áður á www.sus.is)
Stjórnmál - almennt | Breytt 27.4.2007 kl. 22:30 | Slóð | Facebook
Mánudagur, 17. júlí 2006
Mánudagspósturinn 17. júlí 2006
Þann 30. maí sl. tilkynntu barnaníðingar í Hollandi þá ætlun sína að stofna eigin stjórnmálaflokk sem heita á á frummálinu Naastenliefde, Vrijheid en Diversiteit eða í íslenzkri þýðingu Mannkærleikur, frelsi og fjölbreytni. Flokknum er ætlað að berjast fyrir lögleiðingu á kynlífi á milli fullorðinna og barna og vill hann m.a. að löglegur samræðisaldur í Hollandi verði færður úr 16 árum og niður í 12 ár áður en hann verði afnuminn með öllu, að það verði ekki lengur ólöglegt að eiga barnaklám og að lágmarksaldur þeirra, sem taka þátt í gerð klámefnis, verði lækkaður úr 18 árum og niður í 16 ár. Í viðtali við hollenzka dagblaðið Algemeen Dagblad sagði Ad van den Berg, einn af stofnendum flokksins, að uppeldi barns snerist einnig um að kynna það fyrir kynlífi. Barnaníðingaflokkurinn vill ennfremur að dýr fái aukin réttindi og að kynlíf með samþykki á milli manna og dýra verði leyft.
Ég er vonandi ekki einn um að fá í magann!! En af hverju kemur þessi viðbjóður manni ekki svo ýkja mikið á óvart? Og enn síður að þetta skuli gerast í Hollandi? Þetta er því miður alls ekki einsdæmi enda hafa hliðstæðar þreifingar t.a.m. átt sér stað hjá barnaníðingum í Danmörku. Ekki er heldur langt síðan ég las að það færðist í vöxt í Svíþjóð að fólk tæki upp á þeim viðbjóði að stunda kynlíf með dýrum!
Alltof margir eru einfaldlega komnir út á algerar villigötur í frjálslyndi svo vægt sé til orða tekið!
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is
Mánudagspósturinn | Breytt 27.4.2007 kl. 22:30 | Slóð | Facebook
Sunnudagur, 16. júlí 2006
Gullkornið á sunnudegi
"We have not successfully rolled back the frontiers of the state in Britain, only to see them re-imposed at a European level."
Gullkorn á sunnudagi | Breytt 27.4.2007 kl. 22:31 | Slóð | Facebook
Föstudagur, 14. júlí 2006
Á Ísraelsríki að semja við hryðjuverkamenn?
Eins og allir vita er ástandið fyrir botni miðjarahafs verið viðkvæmt síðustu daga. Allt hófst þetta þegar hryðjuverkamenn á vegum Hamas samtakanna réðust á hóp ísraelska hermanna og tóku einn þeirra í gíslingu. Nú hefur það sama gerst en liðsmenn annara illræmdra hryðjuverkasamtaka, Hezbollah, hafa tekið aðra tvo ísraelska hermenn í gíslingu. Ísraelsmenn hafa svarað með hernaðaraðgerðum á stöðvar fyrrnefndra hryðjuverkasamtaka. Þó vill það nú þannig til að helstu stöðvar Hamas samtakanna eru ráðuneyti á heimastjórnarsvæði þjóðar sem vill kenna sig við Palestínu. Einnig má taka fram að samkvæmt könnunum í Palestínu styðja um 80% íbúa svæðisins að Hamas samtökin ræni fleiri hermönnum.
En það er athyglisvert að skoða viðbrögðin við hernaðaraðgerðum Ísraelsmanna. Aðalaáherslan í fjölmiðlun eru ,,harðar aðgerðir Ísraelsmanna og fleira í þeim dúr.
Til að mynda leyndi sér ekki hlutdrægni NFS þegar flutt var frétt af málinu. Þar segir m.a. um ástandið í Líbanon, ,,Nær allir sem hafa látist eru óbreyttir borgarar og hræðslan er allsráðandi, enda ekkert grín að vita aldrei hvar næsta loftskeyti lendir.
Hvaða rugl er þetta eiginlega? Þarna eru að eiga sér stað átök sem auðvitað allir vildu óska að væru ekki. En ákvað sá sem skrifaði fréttina fyrir NFS að hræðslan væri allráðandi? Var hann kannski á svæðinu til að finna hræðsluna?
Og áfram heldur það (feitl. mín eigin.):
,,Stjórnvöld í Ísrael telja nóg komið, eins og heimsbyggðin hefur fengið að verða vitni að. Um allan heim kveður þó við sama tón, aðgerðir Ísraela eru allt of harðar. Bæði Jacques Chirac Frakklandsforseti og Romano Prodi, forsætisráðherra Ítalíu fordæmdu árásirnar í dag og sögðu þær úr öllu samhengi.
Sem fyrr eiga Ísraelar þó hauk í horni þar sem Bandaríkjamenn eru. Þeir beittu í gær neitunarvaldi, þegar lögð var fram ályktun innan ráðsins, þess efnis að Ísraelar létu þegar af hernaðaraðgerðum sínum, gegn því að hermennirnir tveir yrðu látnir lausir.
Það er nokkuð við þetta að athuga. Ég feitletraði sum orðin sjálfur til að leggja áherslu á hvað mér finnst miður við þetta.
En í fyrsta lagi, þá kveður ekki við sama tón um allan heim. Aðeins örfá ríki hafa (eða öllu heldur örfáir þjóðarleiðtogar) hafa fordæmt árásirnar í dag og í gær. Það má vel vera að það sé ósk þess sem skrifaði fréttina að ALLUR heimurinn fordæmdi þær en svo er nú ekki.
Í öðru lagi, þá er ekki nauðsynlegt að segja að Ísraelsmenn eigi hauk í horni ,,þar sem Bandaríkjamenn eru. Er að eitthvað nýtt að þjóðir skuli lýsa yfir stuðningi við hvor aðra? Þó að það henti ekki fréttamanni NFS þá er það ekki óalgengt. Og af hverju er hvergi minnst á afskipti Írana? Á heimastjórn Palestínu hvergi ,,hauk í horni. Eða kallast það kannski bara eðlilegur stuðningur?
Í þriðja lagi þá fjallaði ályktun öryggisráðsins ekki um að Ísraelsmenn létu af hernaðaraðgerðum sínum, gegn því að hermennirnir yrðu látnir lausir. Ísraelsk yfirvöld hafa þegar tilkynnt að þau muni hætta aðgerðum ef hermennirnir verða látnir lausir. Það þarf ekki Öryggisráð SÞ til þess. Nei, tillagan fól það í sér að árásirnar yrðu fordæmdar, ekkert annað. Bandaríkjamenn beittu neitunarvaldi sínu. En fréttastofan þarf að fara með rétt mál.
Ekki einfalt mál
En reynum að horfa aðeins rökrétt á hlutina. Á forsætisráðherra Ísraels að sætta sig við það að hermönnum úr her hans sé rænt og þeim hótað lífláti nema hann gangi að kröfum mannræningjanna. Hvernig dettur formanni Ísland-Palestínu að segja að hernaðaraðgerðirnar séu löngu undirbúnar og að mannrán hermannsins sé aðeins tylliástæða fyrir árásunum? Þekkir hann hernaðarstrúktúr Ísraelsmanna? Finnst honum í lagi að Hamas samtökin hafi rænt hermanninum?
Rétt er að minna á að Líbanon hefur ekki staðið við ályktum SÞ númer 1559 sem fjallar um það að ríkisstjórn landsins skuli án tafar reyna að afvopna Hezbollah samtökin. Ekkert hefur verið aðhafst í því. Þau hafa fengið að starfa og hreyfa sig í landinu eins og þau vilja, notað flugvelli, brýr og vegi til að aðhafast og halda uppi starfssemi. Þess vegna eru það þessi mannvirki sem eru skotmörk Ísraelsmanna. Því miður falla óbreyttir borgarar í slíkum átökum.
En hvað gerist ef Ísrael semur við hryðjuverkamenn? Jú, í næstu viku verður fleiri hermönnum rænt í þeirri von að fá fleiri fanga lausa og svo koll af kolli.
Stjórnvöld í Palestínu og Líbanon geta endað þessar aðgerðir strax. Með því að leggja áherslu á að hryðjuverkasamtökin láti hermennina úr haldi og afvopni þau síðan. Það er nú ekki mikið flóknari en það.
Hringlagaháttur Íslands-Palestínu
Félagið Ísland-Palestína lætur ekki bíða lengi eftir sér og auglýsir mótmælafundi (sem reyndar fór mjög lítið fyrir) og sakar Ísraelsmenn um stríðsglæpi og fleira í þeim dúr.
Þannig hefur formaður félagsins skrifað harðorða grein á vef samtakanna sem oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hafa lýst yfir hatri á Ísrael og Ísraelsmönnum. Meðal annars er sérstakur liður á síðunni þar sem fólk er hvatt til að sniðganga ísraelskar vörur. Aftur og aftur horfir félagið framhjá hryðjuverkaaðgerðum Hamas samtakanna og leggur jafnvel blessun sína yfir þau.
Formaður félagsins reynir einnig að gera lítið úr Qassam eldflaugum sem ,,andspyrnuhópar (eins og hann kallar það) nota til að skjóta á ísraelsk heimili. Þau séu lítil miðað við þróuð vopn Ísraelsmanna og séu aðallega notuð til að hræða og valdi sjaldan manntjóni.
Nú, jæja, þá hlýtur bara að vera í lagi að skjóta slíkum flaugum á heimili fólks. Fyrst þau drepa ekkert mjög marga. Seinna í greininni sakar hann Ísraelsmenn um að hræða almenning á heimastjórnarsvæði Palestínu með því að nota svokallaðar hávaðasprengjur. Auðvitað telur hann slíkt vera alveg hræðilegt. Það má lesa það út úr grein formannsins að það sé í lagi að fólk skjóti Qassam eldflaugum á hús en ekki að Ísraelsmenn noti hávaðasprengjur. Hér er ég ekki einu sinni að reyna að snúa út úr orðum formannsins. Hatur hans á Ísrael og Ísraelsmönnum skín greinilega í gegnum skrif hans.
Af hverju fordæmir félagið ekki mannránin? Af hverju fordæmir félagið aldrei þegar öfgafullir múslimar sprengja sig í loft upp á kaffihúsum eða strætó í Ísrael? Af hverju mótmælir félagið aldrei tilgangi hryðjuverka sem er að drepa sem flesta óbreytta borgara?
Finnst Sveini Rúnari í lagi að fyrrnefndir hryðjuverkahópar hafi ráðist á hermenn Ísraelsmanna, drepið nokkra og rænt öðrum? Ef svo er, af hverju segir hann það ekki bara beint út?
Félagið Ísland-Palestína getur ekki alltaf bent á að Hamas samtökin hafi komist til valda á lýðræðislegan hátt. Auðvitað gerðu þau það og eiga þar með alveg rétt á að vera við völd á heimastjórnarsvæðinu. En það gerir þau ekki að minni hryðjuverkasamtökum að hljóta lýðræðislega kosningu. Það að heilaþvo ung börn til að stunda ,,heilagt stríð gegn annari þjóð og hvetja þau til að framkvæma sjálfsmorðsárás er auðvitað ekkert annað en hryðjuverk. Þó að þú byggir leikskóla á sama tíma og þú drepur aðra vegur það ekki á móti.
Talar Chirac fyrir alla Evrópu?
Og út í annað en þó þessu tengt. Chirac Frakkalandsforseti hefur fordæmt árásir Ísraelsmanna í Líbanon. Hann segir þær úr samhengi við allt annað og að þær nái ekki nokkurri átt. En orðalag forsetans var skrautlegt, ,,Ég, eins og allir aðrir Evrópubúar, tel að árásirnar séu ekki í nokkru samhengi. Hvernig dettur manninum í hug að hann tali fyrir alla Evrópubúa? Þetta skiptir svo sem ekki miklu máli núna en gæti orðið athyglisvert síðar þegar Chirac telur sig ætla að tala fyrir alla Evrópubúa.
Maður spyr sig einnig hvernig hann myndi bregðast við ef frönskum hermönnum yrði rænt og þeim haldið í gíslingu? Af orðum hans í dag má dæma að hann myndi lítið aðhagast. Eða gildir það bara um suma?
En svona til að fyrirbyggja allan misskilning þá vil ég nú taka fram að ég vona að núverandi ástand vari ekki lengi. Vonandi heldur her Ísraelsmanna sig að einhverju leyti til hlés og ef ekki þá vona ég að saklausir borgarar verði ekki fyrir árásum. Einnig er vonandi að hryðjuverkamenn láti af starfssemi sinni - en það er hins vegar mjög ólíklegt.
En það sem gerir þessi mál ennþá flóknari er að engin ríki eiga í stríði. Ekkert ríki hefur lýst yfir stríði á annað ríki heldur er Ísraelsher að elta hryðjuverkasamtök yfir landamæri og slíkt er nú ekki algengt. Ef að einhver ríkisstjórn í Mið-Austurlöndum lýsir yfir stríði, s.s. Sýrland, Líbanon eða Íran þá fyrst verða læti. En við skulum vona að ekki komi til þess.
Mið-austurlönd | Breytt 27.4.2007 kl. 22:31 | Slóð | Facebook
Miðvikudagur, 12. júlí 2006
Hlutverk fjölmiðla
Ég hef lengi haft áhuga á fjölmiðlum og skrifað um þá hér á þessu vefriti. Til að mynda er hægt að nálgast grein hér og aðra hérna. Hér verður enn fjallað um fjölmiðla og hlutverk þeirra.
Oft er haft á orði að fjölmiðlar séu fjórða valdið í þjóðskipulaginu. Þá er átt við að þeir sinni og gegni því hlutverki sem ekki er ákveðið fyrirfram í stjórnarskrá eða með lögum. Samkvæmt lögum höfum við framkvæmdarvald, löggjafavald og dómsvald. Fjölmiðlar eru að margra mati fjórði liðurinn sem sinnir réttarfari landsins ef þannig er hægt að orði komast.
En þá er ekki úr vegi að velta fyrir sér, eru fjölmiðlar í raun fjórða valdið? Eru fjölmiðlar einu réttu upplýsingamiðlar fyrir almenning? Fara þeir með rétt mál hverju sinni án allrar hlutdrægni eða eigin skoðanna? Geta eða eiga fjölmiðlar að vera hlutlausir?
Og ef enn lengra skal haldið skal skoða hverjir eiga fjölmiðlana. Mega eigendur fjölmiðla nota þá sér í hag og/eða öðrum í óhag? Mega eigendur ritstýra fjölmiðlum sínum, eða eiga þeir að ritstýra þeim? Við vitum fyrir víst að þau þrjú stjórnsýsluvöld sem áður voru upptalin eru hönnuð til að sinna réttarfari, löggjöf og framkvæmdum almenningi í hag. Að sjálfsögðu eru skiptar skoðanir á því hvort slíkt sé öllum almenningi í hag hverju sinni en þess vegna höfum við stjórnmálamenn og flokka sem hægt er að skipta um reglulega. Um vald og hlutverk þessara þriggja stjórnsýsluliða er ekki deilt og verður ekki gert hér.
En um hlutverk fjölmiðla er deilt á hverjum degi. Hvernig geta þeir verið fjórða valdið þegar fáir einstaklingar eiga þá? Hvernig geta þeir sinnt upplýsingaskyldu (eða öllu heldur þjónustu) við allan almenning? Hvernig getur hinn almenni maður verið viss um að fjölmiðlar starfi í hans þágu líkt og stjórnsýslustigin gera?
Eiga fjölmiðlar að vera hlutlausir?
Já, hlutverk fjölmiðla er vandasamt. Burtséð frá því hvort hægt sé að skilgreina þá sem fjórða valdið eða ekki hafa þeir veigamiklu hlutverki að gegna í samfélaginu og af því hlýst ábyrgð sem er vandmeðfarin. Og af hverju er hér fullyrt að hlutverki þeirra fylgi ábyrgð? Jú, þeir eru inni á heimilum samfélagsins á hverjum degi og flytja fréttir og umfjöllun af málefnum líðandi stundar. [1] Þeir velja sér að mestu sjálfir fréttaefni og ráða því hversu mikið og hvernig fjallað er um ákveðin mál.
Þá er engann veginn hægt að ætlast til að fjölmiðlar séu hlutlausir. Um leið og fjölmiðill velur sér mál til umfjöllunar er hann hættur að vera hlutlaus. Ólafur Teitur Guðnason kemst ágætlega að orði í formála bókar sinnar, Fjölmiðlar 2004. Þar segir Ólafur Teitur:
Að mínu viti er hlutleysi innantómt markmið í fréttamennsku og reyndar beinlínis rangt markmið. Í fyrsta lagi tekst engum að víkja skoðunum sínum alveg til hliðar og því ákaflega villandi að gefa í skyn að það sé gert. Í öðru lagi er augljóst að það felst í starfi fréttamanna að þeir beiti dómgreind sinni og dragi ályktanir. Hvernig meta þeir öðruvísi hvað er fréttnæmt og hvað ekki? ... Það, að halda því fram að fréttamenn séu hlutlausir, er eingöngu til þess fallið að eyða nauðsynlegri umræðu um hvort mat þeirra hafi verið eðlilegt og ákvarðanir þeirra réttar. Fréttamenn eiga ekki að keppa að því að vera hlutausir. Þeir eiga að keppa að því að vera sanngjarnir. [2]
Það er ástæða fyrir því að hér er tekin upp umræðan um hlutleysi fréttamanna. Þeir sem nýta sér þjónustu þeirra og leita sér upplýsinga hjá þeim þurfa að vita að hverju er gengið og geta gert fyrirvara á þeirra þjónustu eða upplýsingum sem gefnar eru. Þá þarf á sama tíma að liggja ljóst fyrir hvernig fjölmiðlinum er ritstýrt. Og að sjálfsögðu hver er að ritstýra þeim.
Fjölmiðlar eru ekki fjórða valdið
Áður en lengra er haldið er nauðsynlegt að skilgreina fjölmiðil sem fyrirtæki. Um fjölmiðla eiga að gilda sömu lög og um önnur fyrirtæki.
Ég hafna þeirri kenningu að fjölmiðlar séu fjórða valdið. Það eru engin lög eða reglur sem skilgreina fjölmiðla sem slíkt. Jafnvel þó að hópar innan samfélagsins líti á fjölmiðla sem gegna eigi því hlutverki að vera fulltrúi almennings gagnvart stjórnvöldum þá þýðir það ekki að svo sé. Hvorki fjölmiðlar, aðstandendur þeirra, fræðimenn né þjóðfélagshópar geta tekið sér slíkt vald. Það getur enginn tekið sér það vald að vera fulltrúi alls almennings nema þeir sem kjörnir eru sem slíkir samkvæmt lögum. Kenningin um fjórða valdið er aðeins sögusögn (e. myth) sem á sér engar rætur í raunveruleikanum og hvað þá innan laganna. Óskrifuð lög og hugsanleg almannavitund er ekki raunveruleg og það að fjölmiðlar líti á sig sem fjórða valdið er aðeins fyrrnefnd sögusögn.
Fjölmiðlar sinna afþreyingu og miðla upplýsingum til almennings. Þeir velja sér hins vegar sjálfir hvaða upplýsingum þeir miðla áfram og hvernig þær eru bornar fram. Almenningur velur sjálfur á hvern hann vill hlusta og hvaða upplýsingar hann telur sig þurfa að leitast eftir. Það er einstaklinganna í sjálfvald sett að leita þeirra upplýsinga sem það telur sig þurfa frá hinu opinbera. Með þessum orðum er ég þó ekki að gera lítið úr hlutverki fjölmiðla. Þeim er að sjálfsögðu heimilt að flytja almenningi fréttir og upplýsingar, opinbera spillingu ef hún á sér stað og veita stjórnvöldum aðhald ef þeir svo kjósa. Það þýðir hins vegar ekki að þeim beri skylda til þess eða að þeir séu yfir aðra hafnir. Hver er tryggingin fyrir því að þeir fari með rétt mál eða að þeir beri fram fréttir á réttan og sanngjarnan hátt? Svarið eru auðvelt, hún er enginn. Og ef fjölmiðlar veita stjórnvöldum aðhald, hver veitir þá fjölmiðlum aðhald?
Eigendur njóti eignarréttar
Ef líta á á fjölmiðla sem hvert annað fyrirtæki verður ekki hjá því komist að viðurkenna eignarrétt eigenda á fyrirtækjum sínum, þar á meðal fjölmiðlum. Með því er hægt að færa rök fyrir því að það sé eðlilegt að eigendur fjölmiðla ráði ritstjórnarstefnunni. Neytendur fjölmiðla gera þá ráð fyrir því og neyta vörunnar með þeim fyrirvara að þeir viti hverjir eigendurnir eru og hver ritstjórnarstefna miðilsins er.
En þá þarf líka að liggja ljóst fyrir hver á fjölmiðlana. Á því hafa ekki verið miklir vankantar á Íslandi. Hins vegar hefur Fréttablaðið eitt gerst brotlegt að upplýsa ekki um eigendur sína. Fréttablaðið varð, undir stjórn fyrri eigenda, gjaldþrota fyrir nokkrum árum. Nokkrum vikum síðar kom blaðið út aftur. Sami ritstjóri sat áfram en ekki var upplýst hverjir eigendurnir voru. Það er að mínu mati ósiðlegt og óeðlileg fjölmiðlamennska. Neytendur fjölmiðla þurfa eins og áður sagði að vita að hverju þeir ganga þegar þeir neyta vörunnar. Ef einstaklingur eða fyrirtæki vill setja á fót fjölmiðil til höfuðs stjórnvöldum er honum það heimilt. Að sama skapi er honum heimilt að setja á fót fjölmiðil til að upphefja stjórnvöld eða stjórnmálaflokka. En að leyna því hver á ákveðin fjölmiðil er merki um að ekki sé allt með felldu og að eitthvað annað liggi að baki en að flytja heiðarlegar fréttir.
Eigendum þessara fjölmiðla er að sjálfsögðu heimilt að færa fréttir og umfjöllun eins og þeim sýnist. En eins og áður sagði er það síðan neytendans að meta á hvorn hann hlustar og tekur trúanlegan. Í Bandaríkjunum liggur nokkuð ljóst fyrir hvar fjölmiðlar standa gagnvart stjórnvöldum. Þar lýsa ritstjórnir fjölmiðlanna yfir stuðningi við ákveðna frambjóðendur og ritstjórnarstefna miðlanna er í samræmi við það. Það er gott af því að þá vita neytendur fjölmiðlanna að hverju þeir ganga en eru ekki að vonast eftir hlutleysi sem ekki er til.
[1] Þetta er sagt með fyrirvara um það að fjölmiðlum sé á annað borð hleypt inn á heimilin. Eg tel að það heyri til undantekninga að svo sé ekki.
[2] Ólafur Teitur Guðnason, Fjölmiðlar 2004. Bókafélagið Ugla, Reykajvík 2005. bls. 11
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004