Leita í fréttum mbl.is

Hlutverk fjölmiðla

Ég hef lengi haft áhuga á fjölmiðlum og skrifað um þá hér á þessu vefriti. Til að mynda er hægt að nálgast grein hér og aðra hérna. Hér verður enn fjallað um fjölmiðla og hlutverk þeirra.

Oft er haft á orði að fjölmiðlar séu fjórða valdið í þjóðskipulaginu. Þá er átt við að þeir sinni og gegni því hlutverki sem ekki er ákveðið fyrirfram í stjórnarskrá eða með lögum. Samkvæmt lögum höfum við framkvæmdarvald, löggjafavald og dómsvald. Fjölmiðlar eru að margra mati fjórði liðurinn sem sinnir réttarfari landsins ef þannig er hægt að orði komast.

En þá er ekki úr vegi að velta fyrir sér, eru fjölmiðlar í raun fjórða valdið? Eru fjölmiðlar einu réttu upplýsingamiðlar fyrir almenning? Fara þeir með rétt mál hverju sinni án allrar hlutdrægni eða eigin skoðanna? Geta eða eiga fjölmiðlar að vera hlutlausir?
Og ef enn lengra skal haldið skal skoða hverjir eiga fjölmiðlana. Mega eigendur fjölmiðla nota þá sér í hag og/eða öðrum í óhag? Mega eigendur ritstýra fjölmiðlum sínum, eða eiga þeir að ritstýra þeim? Við vitum fyrir víst að þau þrjú stjórnsýsluvöld sem áður voru upptalin eru hönnuð til að sinna réttarfari, löggjöf og framkvæmdum almenningi í hag. Að sjálfsögðu eru skiptar skoðanir á því hvort slíkt sé öllum almenningi í hag hverju sinni en þess vegna höfum við stjórnmálamenn og flokka sem hægt er að skipta um reglulega. Um vald og hlutverk þessara þriggja stjórnsýsluliða er ekki deilt og verður ekki gert hér.

En um hlutverk fjölmiðla er deilt á hverjum degi. Hvernig geta þeir verið fjórða valdið þegar fáir einstaklingar eiga þá? Hvernig geta þeir sinnt upplýsingaskyldu (eða öllu heldur þjónustu) við allan almenning? Hvernig getur hinn almenni maður verið viss um að fjölmiðlar starfi í hans þágu líkt og stjórnsýslustigin gera?

Eiga fjölmiðlar að vera hlutlausir?

Já, hlutverk fjölmiðla er vandasamt. Burtséð frá því hvort hægt sé að skilgreina þá sem fjórða valdið eða ekki hafa þeir veigamiklu hlutverki að gegna í samfélaginu og af því hlýst ábyrgð sem er vandmeðfarin. Og af hverju er hér fullyrt að hlutverki þeirra fylgi ábyrgð? Jú, þeir eru inni á heimilum samfélagsins á hverjum degi og flytja fréttir og umfjöllun af málefnum líðandi stundar. [1] Þeir velja sér að mestu sjálfir fréttaefni og ráða því hversu mikið og hvernig fjallað er um ákveðin mál.

Þá er engann veginn hægt að ætlast til að fjölmiðlar séu hlutlausir. Um leið og fjölmiðill velur sér mál til umfjöllunar er hann hættur að vera hlutlaus. Ólafur Teitur Guðnason kemst ágætlega að orði í formála bókar sinnar, Fjölmiðlar 2004. Þar segir Ólafur Teitur:

Að mínu viti er hlutleysi innantómt markmið í fréttamennsku og reyndar beinlínis rangt markmið. Í fyrsta lagi tekst engum að víkja skoðunum sínum alveg til hliðar og því ákaflega villandi að gefa í skyn að það sé gert. Í öðru lagi er augljóst að það felst í starfi fréttamanna að þeir beiti dómgreind sinni og dragi ályktanir. Hvernig meta þeir öðruvísi hvað er fréttnæmt og hvað ekki? ... Það, að halda því fram að fréttamenn séu hlutlausir, er eingöngu til þess fallið að eyða nauðsynlegri umræðu um hvort mat þeirra hafi verið eðlilegt og ákvarðanir þeirra réttar. Fréttamenn eiga ekki að keppa að því að vera hlutausir. Þeir eiga að keppa að því að vera sanngjarnir. [2]

Það er ástæða fyrir því að hér er tekin upp umræðan um hlutleysi fréttamanna. Þeir sem nýta sér þjónustu þeirra og leita sér upplýsinga hjá þeim þurfa að vita að hverju er gengið og geta gert fyrirvara á þeirra þjónustu eða upplýsingum sem gefnar eru. Þá þarf á sama tíma að liggja ljóst fyrir hvernig fjölmiðlinum er ritstýrt. Og að sjálfsögðu hver er að ritstýra þeim.

Fjölmiðlar eru ekki fjórða valdið

Áður en lengra er haldið er nauðsynlegt að skilgreina fjölmiðil sem fyrirtæki. Um fjölmiðla eiga að gilda sömu lög og um önnur fyrirtæki.

Ég hafna þeirri kenningu að fjölmiðlar séu fjórða valdið. Það eru engin lög eða reglur sem skilgreina fjölmiðla sem slíkt. Jafnvel þó að hópar innan samfélagsins líti á fjölmiðla sem gegna eigi því hlutverki að vera fulltrúi almennings gagnvart stjórnvöldum þá þýðir það ekki að svo sé. Hvorki fjölmiðlar, aðstandendur þeirra, fræðimenn né þjóðfélagshópar geta tekið sér slíkt vald. Það getur enginn tekið sér það vald að vera fulltrúi alls almennings nema þeir sem kjörnir eru sem slíkir samkvæmt lögum. Kenningin um fjórða valdið er aðeins sögusögn (e. myth) sem á sér engar rætur í raunveruleikanum og hvað þá innan laganna. Óskrifuð lög og hugsanleg almannavitund er ekki raunveruleg og það að fjölmiðlar líti á sig sem fjórða valdið er aðeins fyrrnefnd sögusögn.

Fjölmiðlar sinna afþreyingu og miðla upplýsingum til almennings. Þeir velja sér hins vegar sjálfir hvaða upplýsingum þeir miðla áfram og hvernig þær eru bornar fram. Almenningur velur sjálfur á hvern hann vill hlusta og hvaða upplýsingar hann telur sig þurfa að leitast eftir. Það er einstaklinganna í sjálfvald sett að leita þeirra upplýsinga sem það telur sig þurfa frá hinu opinbera. Með þessum orðum er ég þó ekki að gera lítið úr hlutverki fjölmiðla. Þeim er að sjálfsögðu heimilt að flytja almenningi fréttir og upplýsingar, opinbera spillingu ef hún á sér stað og veita stjórnvöldum aðhald ef þeir svo kjósa. Það þýðir hins vegar ekki að þeim beri skylda til þess eða að þeir séu yfir aðra hafnir. Hver er tryggingin fyrir því að þeir fari með rétt mál eða að þeir beri fram fréttir á réttan og sanngjarnan hátt? Svarið eru auðvelt, hún er enginn. Og ef fjölmiðlar veita stjórnvöldum aðhald, hver veitir þá fjölmiðlum aðhald?

Eigendur njóti eignarréttar

Ef líta á á fjölmiðla sem hvert annað fyrirtæki verður ekki hjá því komist að viðurkenna eignarrétt eigenda á fyrirtækjum sínum, þar á meðal fjölmiðlum. Með því er hægt að færa rök fyrir því að það sé eðlilegt að eigendur fjölmiðla ráði ritstjórnarstefnunni. Neytendur fjölmiðla gera þá ráð fyrir því og neyta vörunnar með þeim fyrirvara að þeir viti hverjir eigendurnir eru og hver ritstjórnarstefna miðilsins er.

En þá þarf líka að liggja ljóst fyrir hver á fjölmiðlana. Á því hafa ekki verið miklir vankantar á Íslandi. Hins vegar hefur Fréttablaðið eitt gerst brotlegt að upplýsa ekki um eigendur sína. Fréttablaðið varð, undir stjórn fyrri eigenda, gjaldþrota fyrir nokkrum árum. Nokkrum vikum síðar kom blaðið út aftur. Sami ritstjóri sat áfram en ekki var upplýst hverjir eigendurnir voru. Það er að mínu mati ósiðlegt og óeðlileg fjölmiðlamennska. Neytendur fjölmiðla þurfa eins og áður sagði að vita að hverju þeir ganga þegar þeir neyta vörunnar. Ef einstaklingur eða fyrirtæki vill setja á fót fjölmiðil til höfuðs stjórnvöldum er honum það heimilt. Að sama skapi er honum heimilt að setja á fót fjölmiðil til að upphefja stjórnvöld eða stjórnmálaflokka. En að leyna því hver á ákveðin fjölmiðil er merki um að ekki sé allt með felldu og að eitthvað annað liggi að baki en að flytja heiðarlegar fréttir.

Eigendum þessara fjölmiðla er að sjálfsögðu heimilt að færa fréttir og umfjöllun eins og þeim sýnist. En eins og áður sagði er það síðan neytendans að meta á hvorn hann hlustar og tekur trúanlegan. Í Bandaríkjunum liggur nokkuð ljóst fyrir hvar fjölmiðlar standa gagnvart stjórnvöldum. Þar lýsa ritstjórnir fjölmiðlanna yfir stuðningi við ákveðna frambjóðendur og ritstjórnarstefna miðlanna er í samræmi við það. Það er gott af því að þá vita neytendur fjölmiðlanna að hverju þeir ganga en eru ekki að vonast eftir hlutleysi sem ekki er til.

Gísli Freyr Valdórsson


[1] Þetta er sagt með fyrirvara um það að fjölmiðlum sé á annað borð hleypt inn á heimilin. Eg tel að það heyri til undantekninga að svo sé ekki.

[2] Ólafur Teitur Guðnason, Fjölmiðlar 2004. Bókafélagið Ugla, Reykajvík 2005. bls. 11


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband