Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2005

Mánudagspósturinn 8. ágúst 2005

Vinstri-hægri kvarðinn, sem stuðst hefur verið við í áratugi og jafnvel aldir, hefur löngum reynzt ófullkominn og ávísun á talsverð vandamál þegar staðsetja hefur þurft menn og málefni pólitískt. Ég persónulega hef um árabil verið mun hrifnari af því sem ég vil kalla “tígulkerfið” sem jafnan er notazt við í pólitískum prófum sem hægt er að taka á netinu í því skyni að staðsetja sig pólitískt (sjá mynd hér fyrir neðan). Frjálshyggjuvefsíðan “Advocates for Self-Government” hefur t.a.m. að geyma slíkt próf sem ég held að gefi merkilega góða vísbendingu um pólitíska staðsetningu fólks, þá sér í lagi miðað við það hversu fáum spurningum fólki er gert að svara en þær eru aðeins tíu talsins.

Samkvæmt kerfinu má skipta pólitískum skoðum í stórum dráttum í fimm flokka en þeir eru eftirfarandi (athugið að þetta er miðað við bandarískt stjórnmálalandslag, eitthvað sem flestir átta sig sennilega fljótt á):

Frjálshyggjumenn (Libertarians) styðja hámarks frelsi í bæði persónulegum og efnahagslegum málum. Þeir leggja áherzlu á minna ríkisvald sem hafi það eina hlutverk að vernda einstaklingana frá kúgun og ofbeldi. Frjálshyggjumenn leggja ennfremur áherzlu á ábyrgð einstaklingsins, eru andsnúnir opinberri skriffinsku og sköttum, styðja góðgerðastarfsemi, umbera mismunandi lífsstíla, styðja markaðsfrelsi og standa vörð um borgaraleg réttindi.

Íhaldsmenn (Right Conservatives) leggja áherzlu á frjálsræði í efnahagsmálum en styðja gjarnan lög til verndar „hefðbundnum gildum“. Þeir eru andvígir of miklum afskiptum hins opinbera af efnahagslífinu á sama tíma og þeir eru hliðhollir viðleitni þess til að standa vörð um siðferði og hið hefðbundna fjölskylduform. Íhaldsmenn eru yfirleitt hlynntir öflugum her, eru andvígir skiffinsku og háum sköttum, styðja frjálst markaðshagkerfi og leggja áherzlu á öfluga löggæzlu.

“Ríkisvaldssinnar” (Statists) vilja að hið opinbera hafi mikið vald yfir efnahagsmálum og hegðun einstaklinganna. Þeir draga gjarnan í efa að efnahagslegt og persónulegt frelsi sé hagkvæm leið. Ríkisvaldssinnar hafa tilhneigingu til að vantreysta frjálsu markaðshagkerfi, eru andvígir mismunandi lífsstílum og setja spurningamerki við mikilvægi borgaralegra réttinda.

Miðjumenn (Centrists) vilja fara milliveginn þegar kemur að valdi hins opinbera yfir efnahagsmálum og persónulegum málum. Í sumum tilfellum styðja þeir afskipti stjórnvalda og í öðrum tilfellum styðja þeir frelsi einstaklinganna til að velja. Miðjumenn stæra sig gjarnan af því að vera opnir fyrir ýmsum leiðum, hafa tilhneigingu til að vera andvígir pólitískum öfgum og leggja áherzlu á það sem þeir kalla „hagkvæmar lausnir“ á vandamálum.

Frjálslyndir (Left Liberals) leggja allajafna áherzlu á frelsi einstaklingsins til að velja í persónulegum málum en styðja hins vegar mikil afskipti hins opinbera af efnahagslífinu. Þeir styðja gjarnan ríkisrekið velferðarkerfi til að hjálpa þeim sem minna mega sín og vilja strangar lagasetningar um fyrirtæki. Frjálslyndir hafa tilhneigingu til að styðja lagasetningar sem miða að verndum umhverfisins, standa vörð um borgaraleg réttindi, leggja áherzlu á jafnrétti og umbera mismunandi lífsstíla.

Mér finnst þetta kerfi í það minnsta hafa það fram yfir hinn hefðbundna vinstri-hægri kvarða að það gengur mun betur upp og útskýrir ennfremur margt. Þannig flokkast fasistar, nasistar og þess háttar lið sem hægri ríkisvaldssinnar (eða valdboðssinnar) á meðan sósíalistar, kommúnistar o.s.frv. falla að mestu vinstramegin í þann dálk. Sé að marka þetta kerfi útskýrir það ágætlega hvers vegna ekki hefur verið ýkja mikill munur í gegnum tíðina á ríkisstjórnum sem kennt hafa sig við þessar stefnur.

Að sama skapi eru skv. kerfinu til bæði hægri- og vinstri-frjálshyggjumenn (hafið í huga að þetta próf er á frjálshyggjuvefsíðu), a.m.k. í ljósi bandarískra aðstæðna en stundum er sagt að miðjan sé lengra til hægri þar á bæ en gengur og gerizt í evrópskum stjórnmálum. Vinstri-frjálshyggjumenn eru væntanlega þeir sömu og kalla sig gjarnan hægrikrata og eru þannig hægramegin við vinstrikratana sem flokkast þá væntanlega sem „left liberal“ samkvæmt þessu kerfi og mynda þann dálk sem er mest til vinstri. Íhaldsmenn eru hins vegar aftur þeir sem eru mest til hægri samkvæmt kerfinu.

Að lokum hvet ég bara alla til að taka prófið og kanna hvað kemur út úr því. Þetta eru sem fyrr segir ekki nema tíu spurningar og er því fljótgert að taka það. Fólk getur auðvitað deilt um það hvort eitthvað sé að marka þetta próf eða þær forsendur sem það byggir á, en þarna er a.m.k. á ferðinni heiðarleg tilraun til þess að reyna að varpa betra ljósi á stjórnmálin. Ég tók annars prófið á sínum tíma og kom niðurstaðan ekki á óvart – íhaldsmaður (en þó í námunda við frjálshyggjuna).

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


Rökþrot atvinnumótmælandanna

15. mars 2003 verður ávallt mikill merkisdagur í sögu Austurlands. Þann dag var skrifað formlega undir samninga um álver Alcoa á Austurlandi. Var um að ræða fjárfestingarsamning við ríkið, raforkusamning við Landsvirkjun og hafnar- og lóðarsamninga við Fjarðabyggð. Skrifað var undir samningana í íþróttahúsinu á Reyðarfirði að viðstöddum rúmlega 1.000 manns, þarmeðtöldum ráðherrum, þingmönnum og íbúum Reyðarfjarðar sem beðið höfðu til fjölda ára eftir stóriðju á svæðið. Draumur þeirra hafði ræst – takmarkinu var náð. Fögnuður Austfirðinga var skiljanlegur, með þessum þáttaskilum var í höfn mál sem lengi hafði verið barist fyrir. Annar merkisdagur er án vafa 8. júlí 2004. Þá var fyrsta skóflustungan tekin að álverinu. Það var táknrænasti áfangi þess að framkvæmdir væru að hefjast við álverið sjálft. Ári áður höfðu framkvæmdir hafist við Kárahnjúkavirkjun. Það er því ljóst að verkið er komið nokkuð vel á veg og ljóst að álver Alcoa mun opna að öllu óbreyttu á fyrrihluta ársins 2007.

Miðað við hversu verkið er komið vel á veg vakti óneitanlega furðu margra þegar að mótmælendur virkjunarinnar og álversins fyrir austan reistu upp tjaldbúðir við Kárahnjúka í sumarbyrjun. Höfðu þeir fengið leyfi prestsetrarsjóðs til þess að tjalda þar. Þeirra var að veita leyfið, enda er þetta svæði í landi Valþjófsstaða, eða undir forræði prestsins þar. Það er svosem varla stórtíðindi, að mínu mati, að fólk tjaldi svona um hásumarið á fögrum reit fyrir austan og kynni sér stöðu mála við Kárahnjúka. Ég var langt í frá á móti því í upphafi að leyfið yrði veitt, enda taldi ég að fólkið sem þar myndi koma hefði það til að bera að kunna þá list að mótmæla með friðsamlegum og málefnalegum hætti. Framan af var rólegt yfir tjaldbúunum við Kárahnjúka. Þeir komu málstað sínum til skila með rólegum hætti en þó einbeittum. Framan af voru þessi mótmæli þekkt fyrir það hversu fáir nenntu að hírast í þessu hjárómaglamri og voru mótmælin orðin að vissu athlægi fólks, jafnt fyrir austan sem annarsstaðar um landið.

Þá þurfti nú hjörðin auðvitað að grípa til sinna ráða og vekja á sér athygli með einhverjum drastískum aðgerðum. Ekki er hægt að segja að hafi komið neinum á óvart hvernig atvinnumótmælendurnir komu fram. Það voru auðvitað sömu vinnubrögðin - sömu öfgarnar - sem komust í fréttirnar. Þau náðu að fá athygli með því að eyðileggja alla kynningarbæklinga í upplýsingamiðstöð Landsvirkjunar, að Végarði í Fljótsdal. Ekki mátti vera neitt minna en að eyðileggja bæklinga í eigu Landsvirkjunar til að komast í fréttirnar. Sex aðilar sem tjölduðu þá við Kárahnjúka, dauðþreytt sennilega á grínaktugri frásögn af vist þeirra þarna, klipptu bæklingana semsagt í sundur, söfnuðu í poka, til að koma í Endurvinnsluna, nema hvað að sjálfsögðu. Það er auðvitað ekki hægt að vera þekktur fyrir að vera umhverfisverndarsinni og eyðileggja eigur annarra nema að reyna að gera það með umhverfisverndarhætti, tryggja að allt fari auðvitað í Endurvinnsluna! Þegar því var lokið að eyðileggja bæklingana stilltu svo tjaldfararnir sér upp við eigin upplýsingaborð fyrir utan Végarð og dreifðu eigin bæklingum, sem auðvitað voru með eindreginn boðskap gegn virkjun og álveri fyrir austan.

Var svo að skilja þá á þessu liði að það væri í lagi að eyðileggja bæklinga Landsvirkjunar því að Landsvirkjun væri að þeirra mati að eyðileggja ómetanlegt land. Var þetta í takt við talsmátann í Elísabetu Jökulsdóttur sem sagði í kostulegu Kastljósviðtali í júnímánuði (eftir að nokkrir mótmælendurnir slettu skyri á ráðstefnugesti á alþjóðlegri álráðstefnu á hóteli í Reykjavík) að það væri réttlætanlegt að skemma eigur annarra, allt í nafni þess auðvitað að verið væri að leggja landið í rúst, að þeirra mati. Þessi vinnubrögð þessa hóps voru í senn barnaleg og með ankanalegu yfirbragði, svo vægt sé til orða tekið. Þessi vinnubrögð og tjáningarmáti atvinnumótmælendanna dæmdu sig auðvitað best sjálf – en þau voru fyrirboði þess sem koma skal. Þegar að sýnt þótti að mótmælendurnir næðu ekki athygli fjölmiðla og sviðsljósi pressunnar var gripið til þess ráðs að beina mótmælunum að þeim sem vinna við Kárahnjúka. Svo fór að mótmælendurnir beittu afli gegn framkvæmdunum: hlekkjuðu sig við vinnuvélar, máluðu ókvæðisorð á vélar, skilti og á ýmsa hluti á svæðinu og voru einnig með óásættanlega framkomu við starfsfólk á svæðinu.

Atvinnumótmælendur höfðu þá komið til sögunnar. Útlendingar á heimshornaflakki á höttunum eftir mótmælum – mótmælanna vegna greinilega. Það var enda mjög ankanalegt að sjá þetta fólk komið hingað til sögunnar í atburðarásina heilum tveim árum eftir að framkvæmdir voru hafnar við Kárahnjúka. Það var eins og fólkið væri ekki með á staðreyndir málsins, ekki með á grunn þess sem þarna hefði verið að gerast. Það hefði verið nær að mótmælendurnir hefðu komið fyrir tveim árum, þegar vinna var að hefjast við Kárahnjúka frekar en núna. En það má segja að mælirinn hafi orðið endanlega fullur meðal Austfirðinga, sem langflestir styðja þá jákvæðu uppbyggingu sem á sér stað fyrir austan og ekki síður meðal þeirra landsmanna sem stutt hafa þessar framkvæmdir fyrir austan. Lögreglan greip til sinna ráða og tjaldbúunum var úthýst þaðan eftir að Prestssetrarsjóður felldi úr gildi leyfi fyrir tjaldbúðunum. Með því fór fólkið - en ekki langt, það hélt í staðinn í Skriðdal með tjaldbúðirnar. Það hefur greinilega ekki farið þeim að fara úr sviðsljósinu og þau hafa þurft að minna á sig enn á ný.

Það fór svo í gær að þrettán einstaklingar (meðal þeirra einn íslendingur), sem dvalist hafa í tjaldbúðunum í Skriðdal, skriðu undir girðingu sem er í kringum vinnusvæði álvers Alcoa í Reyðarfirði og komust óséðir að þremur 40 metra háum byggingakrönum. Þrír klifruðu upp í kranana og á einn þeirra var festur borði með áletruninni: "Alcoa græðir - Íslandi blæðir". Eins og við er að búast greip lögregla til sinna ráða og handtók mótmælendurna. Tók reyndar nokkurn tíma að ná þeim mótmælendum sem voru í krananum en þeir síðustu komu niður um fimmleytið, eftir að lögregla hafði sótt þá upp með valdi. Það er mjög hvimleitt að fylgjast með þessum mótmælum þessara bresku atvinnumótmælenda. Það er mjög mikilvægt að lögreglan taki til sinna ráða. Það er algjörlega ótækt að horfa lengur á stöðu mála með þessum hætti og þau vinnubrögð sem atvinnumótmælendurnir beita fyrir austan. Nú verður lögreglan bara að taka á þessu með þeim eina hætti sem fær er. Það getur engan veginn gengið að atvinnumótmælendur sem flakka um heiminn og pikka sér upp fæting hvar sem þeir stinga niður fæti reyni að eyðileggja þá jákvæðu uppbyggingu sem á sér stað fyrir austan.

Það á ekki að vera líðandi að eignir fyrirtækja eða mannvirki á Austfjörðum verði fyrir skemmdum, ráðist sé að þeim sem þarna vinna og ráðist að lífsafkomu verktaka sem aðeins eru að vinna sína vinnu. Um er að ræða löglegar framkvæmdir fyrirtækjanna sem eru að vinna að þessu verkefni fyrir austan og taka verður á því með hörku ef mótmælendurnir fara yfir strikið. Fyrir rúmum hálfum mánuði fór ég austur og dvaldist yfir helgi í Fjarðabyggð. Þar kynntist ég vel samfélaginu á Reyðarfirði og stöðu mála. Get ég ekki annað en tjáð ánægju mína með stöðu mála í Fjarðabyggð. Þar er nú kraftmikil uppbygging - á öllum sviðum. Þar ríkir nú bjartsýni í stað svartsýni og gleði í stað kvíða. Það er leitt að sjá hvernig erlendir atvinnumótmælendur (öfgasinnaðir umhverfisverndarsinnar með enga þekkingu á stöðu mála á Austfjörðum) hafa með ómerkilegum hætti vegið að Austurlandi og byggðunum þar. Er ég stoltur af því að hafa í gegnum átakamál vegna þessara framkvæmda fyrir austan talað máli fólksins þar og byggðanna og beitt málefnalegum rökum í því máli og varið málið á þeim forsendum.

Það er hinsvegar alveg ljóst í mínum huga að þegar að atvinnumótmælendur eða öfgasinnar í umhverfismálum eru farnir út í skemmdarverk og ofbeldisaðgerðir eru engin rök eftir í málinu af þeirra hálfu. Það hefur sannast svo ekki verður um villst með vinnubrögðum þeirra seinustu vikurnar. Rökþrot þeirra er algjört. Eða hvað segja annars vinnubrögð þessa fólks okkur? Ég bara spyr lesandi góður.

Stefán Friðrik Stefánsson
stebbifr@simnet.is


Gömul en góð könnun

Pan Arab Research Center í Dubai gerði mjög athyglisverða skoðannakönnun í Írak í samvinnu við Gallup, CNN og USA-today þann 22. mars til 2. apríls árið 2004. Mér var kunnugt um könnun þessa býsna fljótlega eftir að hún var framkvæmd og ég veit ekki hvers vegna ég hef ekki gert henni skil hér á Íhald.is fyrr. Hún hefur ekki vakið mikla athygli, en ég man að Ólafur Teitur Guðnason vitnaði a.m.k. einu sinni í hana í Sunnudagsþættinu á Skjá Einum í fyrra. Ég varð þó ekki vitni að því sjálfur, heldur var mér sagt frá því.

Úrtakið var 3.444 manns, og var passað uppá að mismunandi hópar, svo sem eins og Sítar, Súnnítar og Kúrdar væru í réttum hlutföllum. Könnunin fór þannig fram að menn frá rannsóknastofnuninni í Dubai bönkuðu uppá hjá þeim sem lent höfðu í úrtakinu og spurðu þá spjörunum úr. Svarhlutfallið var 98%.

Áhugaverðar niðurstöður

1. 61% aðspurðra sögðu það þess virði að losna við Saddam.

Ólafur Teitur benti á það þegar hann rökræddi við talsmann Þjóðarhreyfingarinnar að samkvæmt þessari könnun hafi 61% aðspurðra talið að það hefði verið þess virði að koma Saddam Hussein frá völdum, ,,þrátt fyrir allt það sem þeir hefði þurft að þola vegna innrásarinnar", 30% töldu að það hefði ekki verið þess virði, og 9% voru óákveðnir.

2. Meirihluti (en naumur þó) taldi innrás Breta og Bandaríkjamanna í Írak ekki réttlætanlega.

16% sögðust telja aðgerðirnar réttlætanlegar stundum, og stundum ekki, 19% sögðu frekar hlyntir þeim, og 12 % sögðust mjög hlyntir þeim. Það sem ætti að koma Íslendingum helst á óvart er það að innrásin í Írak virðist hafa notið heldur meiri stuðnings meðal ,,fórnarlamba" innrásarinnar, Íraka, heldur en meðal ,,samsekra" Íslendinga.

3. Bush vinsælastur

Spurt var hvernig mönnum líkaði við þrjá heimsþekkta þjóðarleiðtoga, (og einn fyrrverandi leiðtoga - Saddam Hussein). Ekki voru þeir mjög líklegir til vinsælda þessir fjórir, en 25% Íraka sögðu að þeim líkaði vel við George W. Bush, Bandaríkjaforseta. Ekki var spurt hvern fólk kynni best við, heldur var spurt um hvern og einn sérstaklega.

25% aðspurðra sögðust líka vel við Bush, 17% líkaði vel við Tony Blair, forsætisráðherra Breta, 16% líkaði vel við Jacques Chirac, Frakklandsforseta, og 10% sögðust kunna vel við Saddam Hussein. Merkilegt er hvernig andstaða Jacques Chirac við innrásina í Írak hefur skilað honum litlum vinsældum.

4. 71% aðspurðra sögðust fremur líta á Bandamenn sem hernámslið en frelsara.

5. Að lokum

Spurt var um margt annað. Það kom meðal annars fram að fleiri töldu að tekjur sínar hefðu aukist en minkað, að framtíð Íraks væri nú bjartari, og að þeir teldu sig nú öruggari en þegar að Saddam var við völd. Þetta hefur hugsanlega breyst í ljósi þess ofbeldis sem geysað hefur á þessum slóðum að undanförnu. Sárafáir Írakar standa fyrir þessu ofbeldi, og eru gerendurnir yfirleitt erlendir ,,pílagrímar".

Könnunina sjálfa má nálgast hér.

Sindri Guðjónsson


Mánudagspósturinn 1. ágúst 2005

Mótmæli flutningabílstjóra á föstudaginn (þó vitanlega ekki allra flutningabílstjóra) voru alveg svakalega sniðug. Þeir mótmæltu hækkun á olíugjaldi með því að eyða olíu, en mótmælin gengu út á það eins og kunnugt er að aka löturhægt um miklar umferðagötur í Reykjavík og þá einkum þær leiðir sem íbúar borgarinnar notuðu til að aka út úr bænum á leið á útihátíðir eða eitthvert annað sem þeir kusu að halda um verzlunarmannahelgina. Mótmælin voru því ekki bara þannig úr garði gerð að þau bitnuðu á almennum borgurum sem ekkert höfðu til sakar unnið heldur má gera ráð fyrir að þau hafi hafizt með því að mótmælendurnir fylltu á olíutanka flutningabifreiða sinna.

Ýmsar yfirlýsingar talsmanns mótmælendanna í fjölmiðlum voru síðan oftar en ekki vægast sagt stórundarlegar. Allt frá því að gera að því skóna að fjármálaráðherra hefði skipað fulltrúum mótmælendanna að koma til fundar við sig (síðar kom í ljós að mótmælendur höfðu sjálfir óskað eftir fundi með ráðherra en síðan afþakkað hann) yfir í að segja að það yrði bara að hafa það ef mótmælin leiddu til þess að slys yrðu á fólki eða einhvers þaðan af verra. Sagði talsmaðurinn í sjónvarpsfréttum að slys yrðu í umferðinni og ef fólk vildi forðast þau ætti það að halda sig í rúminu. Svona lagað nær auðvitað engri átt.

Það gildir einfaldlega það sama um þessi mótmæli eins og þau við Kárahnjúkavirkjun og önnur slík að það er í góðu lagi að fólk mótmæli svo lengi sem það er gert á friðsaman og lýðræðislegan hátt og án þess að saklaust fólk verði fyrir barðinu á þeim. Hvort sem um er að ræða fólk á leiðinni í sumarfrí eða fólk sem er að sinna vinnunni sinni. Annað er auðvitað ekkert annað en ofbeldi sem er ekki bara algerlega óásættanlegt heldur líka afskaplega ólíklegt til að vekja samúð almennings með umræddum aðgerðum.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is

(Birt í Fréttablaðinu 5. ágúst 2005)


« Fyrri síða

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband