Leita í fréttum mbl.is

Rökþrot atvinnumótmælandanna

15. mars 2003 verður ávallt mikill merkisdagur í sögu Austurlands. Þann dag var skrifað formlega undir samninga um álver Alcoa á Austurlandi. Var um að ræða fjárfestingarsamning við ríkið, raforkusamning við Landsvirkjun og hafnar- og lóðarsamninga við Fjarðabyggð. Skrifað var undir samningana í íþróttahúsinu á Reyðarfirði að viðstöddum rúmlega 1.000 manns, þarmeðtöldum ráðherrum, þingmönnum og íbúum Reyðarfjarðar sem beðið höfðu til fjölda ára eftir stóriðju á svæðið. Draumur þeirra hafði ræst – takmarkinu var náð. Fögnuður Austfirðinga var skiljanlegur, með þessum þáttaskilum var í höfn mál sem lengi hafði verið barist fyrir. Annar merkisdagur er án vafa 8. júlí 2004. Þá var fyrsta skóflustungan tekin að álverinu. Það var táknrænasti áfangi þess að framkvæmdir væru að hefjast við álverið sjálft. Ári áður höfðu framkvæmdir hafist við Kárahnjúkavirkjun. Það er því ljóst að verkið er komið nokkuð vel á veg og ljóst að álver Alcoa mun opna að öllu óbreyttu á fyrrihluta ársins 2007.

Miðað við hversu verkið er komið vel á veg vakti óneitanlega furðu margra þegar að mótmælendur virkjunarinnar og álversins fyrir austan reistu upp tjaldbúðir við Kárahnjúka í sumarbyrjun. Höfðu þeir fengið leyfi prestsetrarsjóðs til þess að tjalda þar. Þeirra var að veita leyfið, enda er þetta svæði í landi Valþjófsstaða, eða undir forræði prestsins þar. Það er svosem varla stórtíðindi, að mínu mati, að fólk tjaldi svona um hásumarið á fögrum reit fyrir austan og kynni sér stöðu mála við Kárahnjúka. Ég var langt í frá á móti því í upphafi að leyfið yrði veitt, enda taldi ég að fólkið sem þar myndi koma hefði það til að bera að kunna þá list að mótmæla með friðsamlegum og málefnalegum hætti. Framan af var rólegt yfir tjaldbúunum við Kárahnjúka. Þeir komu málstað sínum til skila með rólegum hætti en þó einbeittum. Framan af voru þessi mótmæli þekkt fyrir það hversu fáir nenntu að hírast í þessu hjárómaglamri og voru mótmælin orðin að vissu athlægi fólks, jafnt fyrir austan sem annarsstaðar um landið.

Þá þurfti nú hjörðin auðvitað að grípa til sinna ráða og vekja á sér athygli með einhverjum drastískum aðgerðum. Ekki er hægt að segja að hafi komið neinum á óvart hvernig atvinnumótmælendurnir komu fram. Það voru auðvitað sömu vinnubrögðin - sömu öfgarnar - sem komust í fréttirnar. Þau náðu að fá athygli með því að eyðileggja alla kynningarbæklinga í upplýsingamiðstöð Landsvirkjunar, að Végarði í Fljótsdal. Ekki mátti vera neitt minna en að eyðileggja bæklinga í eigu Landsvirkjunar til að komast í fréttirnar. Sex aðilar sem tjölduðu þá við Kárahnjúka, dauðþreytt sennilega á grínaktugri frásögn af vist þeirra þarna, klipptu bæklingana semsagt í sundur, söfnuðu í poka, til að koma í Endurvinnsluna, nema hvað að sjálfsögðu. Það er auðvitað ekki hægt að vera þekktur fyrir að vera umhverfisverndarsinni og eyðileggja eigur annarra nema að reyna að gera það með umhverfisverndarhætti, tryggja að allt fari auðvitað í Endurvinnsluna! Þegar því var lokið að eyðileggja bæklingana stilltu svo tjaldfararnir sér upp við eigin upplýsingaborð fyrir utan Végarð og dreifðu eigin bæklingum, sem auðvitað voru með eindreginn boðskap gegn virkjun og álveri fyrir austan.

Var svo að skilja þá á þessu liði að það væri í lagi að eyðileggja bæklinga Landsvirkjunar því að Landsvirkjun væri að þeirra mati að eyðileggja ómetanlegt land. Var þetta í takt við talsmátann í Elísabetu Jökulsdóttur sem sagði í kostulegu Kastljósviðtali í júnímánuði (eftir að nokkrir mótmælendurnir slettu skyri á ráðstefnugesti á alþjóðlegri álráðstefnu á hóteli í Reykjavík) að það væri réttlætanlegt að skemma eigur annarra, allt í nafni þess auðvitað að verið væri að leggja landið í rúst, að þeirra mati. Þessi vinnubrögð þessa hóps voru í senn barnaleg og með ankanalegu yfirbragði, svo vægt sé til orða tekið. Þessi vinnubrögð og tjáningarmáti atvinnumótmælendanna dæmdu sig auðvitað best sjálf – en þau voru fyrirboði þess sem koma skal. Þegar að sýnt þótti að mótmælendurnir næðu ekki athygli fjölmiðla og sviðsljósi pressunnar var gripið til þess ráðs að beina mótmælunum að þeim sem vinna við Kárahnjúka. Svo fór að mótmælendurnir beittu afli gegn framkvæmdunum: hlekkjuðu sig við vinnuvélar, máluðu ókvæðisorð á vélar, skilti og á ýmsa hluti á svæðinu og voru einnig með óásættanlega framkomu við starfsfólk á svæðinu.

Atvinnumótmælendur höfðu þá komið til sögunnar. Útlendingar á heimshornaflakki á höttunum eftir mótmælum – mótmælanna vegna greinilega. Það var enda mjög ankanalegt að sjá þetta fólk komið hingað til sögunnar í atburðarásina heilum tveim árum eftir að framkvæmdir voru hafnar við Kárahnjúka. Það var eins og fólkið væri ekki með á staðreyndir málsins, ekki með á grunn þess sem þarna hefði verið að gerast. Það hefði verið nær að mótmælendurnir hefðu komið fyrir tveim árum, þegar vinna var að hefjast við Kárahnjúka frekar en núna. En það má segja að mælirinn hafi orðið endanlega fullur meðal Austfirðinga, sem langflestir styðja þá jákvæðu uppbyggingu sem á sér stað fyrir austan og ekki síður meðal þeirra landsmanna sem stutt hafa þessar framkvæmdir fyrir austan. Lögreglan greip til sinna ráða og tjaldbúunum var úthýst þaðan eftir að Prestssetrarsjóður felldi úr gildi leyfi fyrir tjaldbúðunum. Með því fór fólkið - en ekki langt, það hélt í staðinn í Skriðdal með tjaldbúðirnar. Það hefur greinilega ekki farið þeim að fara úr sviðsljósinu og þau hafa þurft að minna á sig enn á ný.

Það fór svo í gær að þrettán einstaklingar (meðal þeirra einn íslendingur), sem dvalist hafa í tjaldbúðunum í Skriðdal, skriðu undir girðingu sem er í kringum vinnusvæði álvers Alcoa í Reyðarfirði og komust óséðir að þremur 40 metra háum byggingakrönum. Þrír klifruðu upp í kranana og á einn þeirra var festur borði með áletruninni: "Alcoa græðir - Íslandi blæðir". Eins og við er að búast greip lögregla til sinna ráða og handtók mótmælendurna. Tók reyndar nokkurn tíma að ná þeim mótmælendum sem voru í krananum en þeir síðustu komu niður um fimmleytið, eftir að lögregla hafði sótt þá upp með valdi. Það er mjög hvimleitt að fylgjast með þessum mótmælum þessara bresku atvinnumótmælenda. Það er mjög mikilvægt að lögreglan taki til sinna ráða. Það er algjörlega ótækt að horfa lengur á stöðu mála með þessum hætti og þau vinnubrögð sem atvinnumótmælendurnir beita fyrir austan. Nú verður lögreglan bara að taka á þessu með þeim eina hætti sem fær er. Það getur engan veginn gengið að atvinnumótmælendur sem flakka um heiminn og pikka sér upp fæting hvar sem þeir stinga niður fæti reyni að eyðileggja þá jákvæðu uppbyggingu sem á sér stað fyrir austan.

Það á ekki að vera líðandi að eignir fyrirtækja eða mannvirki á Austfjörðum verði fyrir skemmdum, ráðist sé að þeim sem þarna vinna og ráðist að lífsafkomu verktaka sem aðeins eru að vinna sína vinnu. Um er að ræða löglegar framkvæmdir fyrirtækjanna sem eru að vinna að þessu verkefni fyrir austan og taka verður á því með hörku ef mótmælendurnir fara yfir strikið. Fyrir rúmum hálfum mánuði fór ég austur og dvaldist yfir helgi í Fjarðabyggð. Þar kynntist ég vel samfélaginu á Reyðarfirði og stöðu mála. Get ég ekki annað en tjáð ánægju mína með stöðu mála í Fjarðabyggð. Þar er nú kraftmikil uppbygging - á öllum sviðum. Þar ríkir nú bjartsýni í stað svartsýni og gleði í stað kvíða. Það er leitt að sjá hvernig erlendir atvinnumótmælendur (öfgasinnaðir umhverfisverndarsinnar með enga þekkingu á stöðu mála á Austfjörðum) hafa með ómerkilegum hætti vegið að Austurlandi og byggðunum þar. Er ég stoltur af því að hafa í gegnum átakamál vegna þessara framkvæmda fyrir austan talað máli fólksins þar og byggðanna og beitt málefnalegum rökum í því máli og varið málið á þeim forsendum.

Það er hinsvegar alveg ljóst í mínum huga að þegar að atvinnumótmælendur eða öfgasinnar í umhverfismálum eru farnir út í skemmdarverk og ofbeldisaðgerðir eru engin rök eftir í málinu af þeirra hálfu. Það hefur sannast svo ekki verður um villst með vinnubrögðum þeirra seinustu vikurnar. Rökþrot þeirra er algjört. Eða hvað segja annars vinnubrögð þessa fólks okkur? Ég bara spyr lesandi góður.

Stefán Friðrik Stefánsson
stebbifr@simnet.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband