Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 8. ágúst 2005

Vinstri-hægri kvarðinn, sem stuðst hefur verið við í áratugi og jafnvel aldir, hefur löngum reynzt ófullkominn og ávísun á talsverð vandamál þegar staðsetja hefur þurft menn og málefni pólitískt. Ég persónulega hef um árabil verið mun hrifnari af því sem ég vil kalla “tígulkerfið” sem jafnan er notazt við í pólitískum prófum sem hægt er að taka á netinu í því skyni að staðsetja sig pólitískt (sjá mynd hér fyrir neðan). Frjálshyggjuvefsíðan “Advocates for Self-Government” hefur t.a.m. að geyma slíkt próf sem ég held að gefi merkilega góða vísbendingu um pólitíska staðsetningu fólks, þá sér í lagi miðað við það hversu fáum spurningum fólki er gert að svara en þær eru aðeins tíu talsins.

Samkvæmt kerfinu má skipta pólitískum skoðum í stórum dráttum í fimm flokka en þeir eru eftirfarandi (athugið að þetta er miðað við bandarískt stjórnmálalandslag, eitthvað sem flestir átta sig sennilega fljótt á):

Frjálshyggjumenn (Libertarians) styðja hámarks frelsi í bæði persónulegum og efnahagslegum málum. Þeir leggja áherzlu á minna ríkisvald sem hafi það eina hlutverk að vernda einstaklingana frá kúgun og ofbeldi. Frjálshyggjumenn leggja ennfremur áherzlu á ábyrgð einstaklingsins, eru andsnúnir opinberri skriffinsku og sköttum, styðja góðgerðastarfsemi, umbera mismunandi lífsstíla, styðja markaðsfrelsi og standa vörð um borgaraleg réttindi.

Íhaldsmenn (Right Conservatives) leggja áherzlu á frjálsræði í efnahagsmálum en styðja gjarnan lög til verndar „hefðbundnum gildum“. Þeir eru andvígir of miklum afskiptum hins opinbera af efnahagslífinu á sama tíma og þeir eru hliðhollir viðleitni þess til að standa vörð um siðferði og hið hefðbundna fjölskylduform. Íhaldsmenn eru yfirleitt hlynntir öflugum her, eru andvígir skiffinsku og háum sköttum, styðja frjálst markaðshagkerfi og leggja áherzlu á öfluga löggæzlu.

“Ríkisvaldssinnar” (Statists) vilja að hið opinbera hafi mikið vald yfir efnahagsmálum og hegðun einstaklinganna. Þeir draga gjarnan í efa að efnahagslegt og persónulegt frelsi sé hagkvæm leið. Ríkisvaldssinnar hafa tilhneigingu til að vantreysta frjálsu markaðshagkerfi, eru andvígir mismunandi lífsstílum og setja spurningamerki við mikilvægi borgaralegra réttinda.

Miðjumenn (Centrists) vilja fara milliveginn þegar kemur að valdi hins opinbera yfir efnahagsmálum og persónulegum málum. Í sumum tilfellum styðja þeir afskipti stjórnvalda og í öðrum tilfellum styðja þeir frelsi einstaklinganna til að velja. Miðjumenn stæra sig gjarnan af því að vera opnir fyrir ýmsum leiðum, hafa tilhneigingu til að vera andvígir pólitískum öfgum og leggja áherzlu á það sem þeir kalla „hagkvæmar lausnir“ á vandamálum.

Frjálslyndir (Left Liberals) leggja allajafna áherzlu á frelsi einstaklingsins til að velja í persónulegum málum en styðja hins vegar mikil afskipti hins opinbera af efnahagslífinu. Þeir styðja gjarnan ríkisrekið velferðarkerfi til að hjálpa þeim sem minna mega sín og vilja strangar lagasetningar um fyrirtæki. Frjálslyndir hafa tilhneigingu til að styðja lagasetningar sem miða að verndum umhverfisins, standa vörð um borgaraleg réttindi, leggja áherzlu á jafnrétti og umbera mismunandi lífsstíla.

Mér finnst þetta kerfi í það minnsta hafa það fram yfir hinn hefðbundna vinstri-hægri kvarða að það gengur mun betur upp og útskýrir ennfremur margt. Þannig flokkast fasistar, nasistar og þess háttar lið sem hægri ríkisvaldssinnar (eða valdboðssinnar) á meðan sósíalistar, kommúnistar o.s.frv. falla að mestu vinstramegin í þann dálk. Sé að marka þetta kerfi útskýrir það ágætlega hvers vegna ekki hefur verið ýkja mikill munur í gegnum tíðina á ríkisstjórnum sem kennt hafa sig við þessar stefnur.

Að sama skapi eru skv. kerfinu til bæði hægri- og vinstri-frjálshyggjumenn (hafið í huga að þetta próf er á frjálshyggjuvefsíðu), a.m.k. í ljósi bandarískra aðstæðna en stundum er sagt að miðjan sé lengra til hægri þar á bæ en gengur og gerizt í evrópskum stjórnmálum. Vinstri-frjálshyggjumenn eru væntanlega þeir sömu og kalla sig gjarnan hægrikrata og eru þannig hægramegin við vinstrikratana sem flokkast þá væntanlega sem „left liberal“ samkvæmt þessu kerfi og mynda þann dálk sem er mest til vinstri. Íhaldsmenn eru hins vegar aftur þeir sem eru mest til hægri samkvæmt kerfinu.

Að lokum hvet ég bara alla til að taka prófið og kanna hvað kemur út úr því. Þetta eru sem fyrr segir ekki nema tíu spurningar og er því fljótgert að taka það. Fólk getur auðvitað deilt um það hvort eitthvað sé að marka þetta próf eða þær forsendur sem það byggir á, en þarna er a.m.k. á ferðinni heiðarleg tilraun til þess að reyna að varpa betra ljósi á stjórnmálin. Ég tók annars prófið á sínum tíma og kom niðurstaðan ekki á óvart – íhaldsmaður (en þó í námunda við frjálshyggjuna).

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband