Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2005
Miðvikudagur, 31. ágúst 2005
Er maðurinn fífl?
Umhverfisráðherra Ástralíu Ian Campbell hefur orðið sér og landi sínu til skammar með hörðum viðbrögðum sínum við svarbréfi Árna M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra við upphaflegu bréfi Cambells. Í upphaflegu bréfi Cambells sýnir hann af sér allt of algengt þekkingarleysi á hvalveiðum, vísindum og vísindaveiðum. Gerir hann þar lítið úr vísindalegum tilgangi íslensku hvalveiðanna og skammar þjóðina fyrir athæfi sem hann telur vera gegn vilja meirihluta aðildarlanda Alþjóða hvalveiðiráðsins. Er það mjög undarleg framsetning málanna, enda bendir Árni honum kurteislega á í bréfi sínu að vísindaveiðar hafa ávallt verið leyfðar hjá ráðinu. Virðist Campbell vera haldinn pólítískri rétthugsun á alvarlegu stigi, blönduð öfganátttúruverndarhyggju í hverri hvalir hafa allt að því guðumlíka stöðu.
Þegar svo er komið eru allar hvalveiðar af hinu slæma og er fólki sem haldið er slíkri firru algerlega fyrirmunað að setja hvalveiðar í sama samhengi og almennar veiðar, frekar í samhengi við manndráp eða þvíumlíkt. Kallar hann eina líknsömustu veiðiaðferð sem fundin hefur verið fyrir hvalveiðar villimannslega, svo sú spurning vaknar óneitanlega hve langt er hægt að ganga til að þóknast slíkum dillum.
Sjávarútvegsráðherra, með vísun í ályktun ráðsins um aðferðir við hvalveiðar hvar þjóðir eru hvattar til þess að leggja fram upplýsingar um veiðiaðferðir á öðrum stórum spendýrum, hvetur til þess að Ástralir leggi fram upplýsingar um slíkt í lok bréfsins. Vísar hann þar til að slíkar veiðar fari fram úr þyrlum í vægast sagt stórum stíl, á villtum kameldýrum og kengúrum í milljónatali. Við þessu bregst Campbell af bræði þess sem engan veginn getur sett sig í spor annarra né skilið annað viðhorf en sitt eigið og allt að því kallar íslenska sjávarútvegsráðherrann fífl.
Virðist málið hafa fengið þó nokkra athygli í áströlskum fjölmiðlum sem virðast allir taka afstöðu með dónanum, en merkilegt nokk heyrist varla bofs í íslenskum starfsbræðrum þeirra, hvað þá að Íslendingar almennt bregðist ókvæða við líkt og maður sæi vafalaust gerast meðal blóðheitari þjóða. Þegar þjóðkjörnum ráðamanni, og þar með fulltrúa þjóðarinnar er sýndur slíkur dónaskapur ættu Íslendingar að leggja dægurþras og stjórnmálalegar deilur til hliðar og sameinast í réttlátri reiði og fordæmingu á dónanum.
Sérstaklega í tilviki eins og þessu hvar það er deginum ljósara að við höfum rétt fyrir okkur en viðkomandi aðilar eru of uppfullir af sjálfsréttlætingu til þess þeir geti séð það. En því miður, þá virðist á stundum ekki í okkur renna blóðið eins og sést kannski best á áhorfendapöllunum á landsleikjum.
Höskuldur Marselíusarson
Mánudagur, 29. ágúst 2005
Mánudagspósturinn 29. ágúst 2005
Þegar viðræðurnar á milli R-listaflokkanna stóðu yfir um áframhaldandi samstarf þá sá ég Andrés Jónsson, formann Ungra jafnaðarmanna, birtast annað slagið á skjánum í umfjöllunum sjónvarpsstöðvanna af málinu, en sem kunnugt er var hann einn af fulltrúum Samfylkingarinnar í viðræðunefndinni. Mér fannst alltaf frekar skrítið að sjá hann í þeirri stöðu þar sem ég veit ekki betur en að hann hafi fyrr þessu ári lýst þeirri skoðun sinni opinberlega að hann vildi að Samfylkingin byði fram undir eigin merkjum í næstu borgarstjórnarkosningum. M.ö.o. að hann vildi ekki áframhaldandi samstarf við Framsóknarflokkinn og Vinstrihreyfinguna grænt framboð um R-listann.
Nú er Andrés ágætis drengur, allavega segja mín kynni af honum mér það. En maður hlýtur að spyrja sig að því hvers vegna Samfylkingin var að setja yfirlýstan andstæðing R-listasamstarfsins í viðræðunefnd fyrir sína hönd sem ætlað var að reyna til þrautar að ná samkomulagi um framhald á þessu sama samstarfi sem allir í nefndinni gætu samþykkt? Getur talizt líklegt að Andrés hafi lagt sig fram við að ná samkomulagi um samstarf sem hann var á móti? Ég sé það bara ekki fyrir mér þó stundum sé sagt að kratar geti skipt um skoðun þrisvar sinnum á dag ef þannig beri undir svona í gamni sagt. En með því hefði Andrés væntanlega verið að vinna gegn eigin sannfæringu.
En burtséð frá þessu þá held ég að Samfylkingin hafi viljað R-listann feigan en ekki talið sig geta slitið samstarfinu sjálf því það gæti leitt til óvinsælda meðal stuðningsmanna þess. Því hafi verið ákveðið að láta vinstri-græna sjá um það, eða framsóknarmenn eftir því hvorir yrðu fyrri til. Þessu markmiði skyldi náð með því að setja ákveðin skilyrði fyrir áframhaldandi samstarfi sem Samfylkingin vissi að hinir flokkarnir gætu aldrei sætt sig við. Nefnilega að hornsteini R-listasamstarfsins yrði kastað fyrir róða, jafnræðisreglunni, og farið fram á að Samfylkingin fengi mun meira pláss á framboðslistanum fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor en hinir flokkarnir.
Minnug þess hvernig vinstri-grænir stóðu fastir á sínu varðandi málið með Þórólf Árnason, sem notabene leiddi næstum til þess að það slitnaði upp úr R-listasamstarfinu, hefur Samfylkingin ekki ósennilega gert ráð fyrir því að það sama yrði uppi á teningnum núna. Og það gekk eftir. Vinstri-grænir vildu að forsendur samstarfsins yrðu óbreyttar og gátu ekki sætt sig við að breyta ætti út af jafnræðisreglunni og fara að miða við meint fylgi flokkanna. Hafa ber í huga í þessu sambandi að tveir af þeim flokkum sem myndað hafa R-listann, Samfylkingin og Vinstrihreyfingin grænt framboð, hafa aldrei boðið fram einir í Reykjavík og Framsóknarflokkurinn hefur ekki gert það síðan fyrir rúmum 15 árum síðan. Þannig að auðvitað veit enginn hvaða fylgi þessir flokkar kunna að fá í kosningunum í vor. Við höfum í raun enga viðmiðun í því sambandi.
Gallinn fyrir Samfylkinguna er annars bara sá að það er deginum ljósara að það voru ekki vinstri-grænir sem drápu R-listann heldur Samfylkingin sem vildi breyta grunnforsendum samstarfsins. Vinstri-grænir vildu þvert á móti að það yrði áfram byggt á þeim grunni sem hefði verið raunin hingað til. A.m.k. að nafninu til. Auðvitað hefur Samfylkingin haft fjóra af átta borgarfulltrúum R-listans á sl. kjörtímabili enda eru óháðu fulltrúarnir tveir ekki óháðir frekar en ég, sérstaklega ekki þegar annar þeirra er orðinn formaður Samfylkingarinnar. En niðurstaða málsins er einfaldlega sú að það var Samfylkingin sem drap R-listann. Vinstri-grænir tóku öndurnarvélina aðeins úr sambandi eftir að það var orðið ljóst að forsendur samstarfsins voru brostnar fyrir tilstuðlan Samfylkingarinnar.
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
Föstudagur, 26. ágúst 2005
Vinstrimenn og peningar: Fer ekki vel saman
Mikið brá mér að heyra Björk Vilhelmsdóttur fráfarandi borgarfulltrúa Vinstri-Grænna tala um Baugsmálið í kastljósinu fyrir viku síðan. Þar talaði hún um að þetta mál allt saman gerði þeim sem fátækari eru erfiðara fyrir.
Eins og alþjóð nú veit notaði Jón Ásgeir kreditkort Baugs til að kaupa sér nauðsynjavörur, allt frá pulsu og kók upp í Gucci jakkaföt. Gott og vel, það er ekki almennings að dæma það heldur dómstóla ef ólöglegt er. En þegar Björk var innt álits á þessu í Kastljósinu s.l. föstudag hafði hún það eitt að segja að það að sjá hvernig ,,þessir menn eyddu peningunum og sjá hvernig þeir lifðu ,,gerði fátæktina svo erfiða. Ekki hafði Björk s.s. nánari útskýringu á því nema þá að það væri erfitt fyrir fátækt fólk að sjá hvernig ,,þessir menn eyddu peningunum sínum.
Þá er er ekki laust við að maður spyrji, meiga þeir sem eiga peningana ekki ráða því hvernig þeir eyða þeim? Þó svo að Jón Ásgeir (eða einhver annar sem á peninga) kaupi sér Gucci jakkaföt (já, eða pulsu og kók) og ég hafi ekki efni á því að kaupa mér slíkt hið sama þá gerir það líf mitt ekkert erfiðara. Þó svo að ég hafi ekki efni á einkaþotu eins og Björgólfur Thor þá líður mér ekkert verr fyirr vikið. Þvert á móti samgleðst ég Björgólfi fyrir að hafa náð þeim árangri sem hann hefur náð í viðskipalífinu. Nú er bara vonandi að hann fái íslenska flugmenn til að fljúga þotunni og að hún verði þjónustuð á Íslandi
Björk var einmitt spurð í þessum sama þætti hvort að þeir mættu ekki eyða eigin peningum eins og þeim lysti. ,,Nei, það finnst mér ekki, var svarið. Hvernig vill Björk þá að hlutunum sé háttað? Ég held ég geti svarað því. Með gegnumheilli sósíalstefnu er líklega svarið við því. Björk eins og fleir kollegar hennar á vinstri kantinum líta á þetta fjármagn sem eign allra landsmanna (eða hins opinbera) en ekki eign þeirra sem hafa það á milli handanna. Vinstrimenn líta á fjármagn sem ,,sameiginlegan sjóð allra landsmanna og í raun má enginn eiga meira en annar, eða öllu heldur, það má enginn stela frá öðrum með því að eiga meira.
Og annað dæmi. Jóhanna Sigurðardóttir skrifa pistil á heimasíðu sína þann 18. ágúst s.l. Þar gagnrýnir hún réttilega að yfirdráttarlán bankanni til landsmanna hafa aukist um 25% á einu ári. Ef þetta er rétt er það alls ekki gott því að yfirdráttarlán eru með dýrustu lánum sem bankarni bjóða. Rétt er að taka fram að Jóhanna er ein af þessum stjórnmálamönnum sem maður er sjaldan sámmála en þó veit maður hvar og fyrir hvað hún stendur ólíkt mörgum öðrum kollegum sínum úr sama. Jóhanna setur í pistli sínum réttilega út á að vextir af yfirdráttum nái allt upp í 19%.
Jóhanna segir í pistli sínum: ,, Fyrst í stað eftir að fólk fór í verulegu mæli í skuldbreytingar og endurfjármögnun lána eftir að bankarnir breyttu lánskjörum sínum í ágúst 2004 drógust yfirdráttarlán heimilanna saman, en í apríl 2005 höfðu þau aftur náð fyrri hæðum frá því sem þau voru í ágúst 2004. Þau hafa síðan aukist jafnt og þétt og voru tæpir 68 milljarðar í lok júní. Að meðaltali voru því yfirdráttarlán í júní sl umreiknað á hvern Íslending á aldrinum 18-80 ára um 330 þúsund krónur. Ef reiknað er með 19% yfirdráttarvöxtum á þessi lán þá þyrfti að greiða af 330 þúsund króna yfirdráttarláni um 62 þúsund krónur á ári.
Ef rétt er (sem ég hef enga ástæðu til að efa) þá er þetta vissulega vandamál. Ef fólk var búið að greiða upp yfirdrætti og aðrar skuldir með endurfjármögnun en er síðan aftur komið í sama farið þá er illt í efni. Jóhanna telur sig hafa lausnina eða allavega telur hún sig vita hvernig stíga eigi fyrst skrefið í áttina: ,,Bankarnir ákveða sjálfir yfirdráttarvextina, en hæstu yfirdráttarvextir eru nú um 19.2% eða rúmu einu prósentustigi lægra en almennir dráttarvextir. Full ástæða er til að skoða þau lagaákvæði sem gilda um dráttarvexti, en Seðlabankinn ákveður dráttarvexti auk þess sem nauðsynlegt er að huga að því að bönkum verði settar ákveðnar skorður í töku yfirdráttarvaxta.
Vissulega vill Jóhanna vel með þessu en það sem hún áttar sig ekki á er að bankarnir þvinga ekki yfirdráttarlán á viðskipavini sína. Það að fólk hafi greitt upp skuld með endurfjármögnum og sé svo komið aftur í meiri skuld t.d. með yfirdrætti er ekki bankanum að kenna heldur einstaklingunum sjálfum. Þó svo að það sé rétt sem Jóhanna segir í grein sinni að ,, yfirdráttarlánum virðist vera otað að fólki enda blóðmjólka bankarnir fólk með okurvöxtum á þessum lánum þá er það fólksins að kynna sér málin áður en slegið er á yfirdrátt eða annars konar lán. Þetta er ekki verkefni fyrir ríkið að leysa heldur almenning sjálfan.
Ég legg til að Jóhanna og fleiri beini athygli sinni að fólkinu sjálfu í stað þess að argast út í ríkið og bankana yfir þessari stöðu. Af hverju hvetur hún fólk ekki til að spara áður en það eyðir peningum sínum? Vinstri menn eru einum of duglegir við að lofa tekjulitlu fólki betri tímum þegar þeir komast til valda. Og hvernig lofa þeir því. Jú með því að lofa hækkun á bótum og fleiri styrkjum frá ríkinu og hinu opinbera. Það er auðvitað bara ávísun á hærri skatta og fátæktargildru. Af hverju hvetja vinstrimenn fólk aldrei til að fara vel með fjármagn sitt? Það að Jón Ásgeir kaupi sér dýr jakkaföt gerir fátækt manna ekkert erfiðari. Vinstri menn gera hana hins vegar erfiðari með því að vera ekki hreinskilnir þegar kemur að peningum. Helsta baráttuvopn Jóhönnu hefur t.a.m. verið að argast út í ríkið og fólk sem á peninga í stað þess að beina sjónum sínum að því að hvetja þá fólk sem á litla peninga á milli handanna að fara vel með þá og lifa ekki um efni fram ef það hefur ekki efni á því. Að vera ríkur hefur stundum ekkert með innkomu að gera. Það er fullt af fólki sem hefur há laun en á enga peninga. Það skuldar jafnvel bara meira ef eitthvað er.
Þegar öllu er á botninn hvolft er það einstaklinganna sjálfra að ákveða hvernig þeir fara með fé sitt en ekki hins opinbera. Það er kominn tími til að vinstrimenn hætti að líta peninga hornauga og saka þá sem þá eiga um græðgi. Vinstri menn telja sig alltaf vera að berjast gegn fátækt en í margar aldir hafa þeir barist röngum vígvelli.
Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr(a)simnet.is
Miðvikudagur, 24. ágúst 2005
Að slá ryki á Gaza
Þar sem að mikið hefur verið fjallað um Gaza-svæðið og brottflutning Ísreala þaðan að undanförnu í fréttum og fjölmiðlum, finnst mér alveg upplagt að ég tjái mig aðeins um þetta mál.
Í byrjun ágúst heyrði ég Svein Rúnar Hauksson (formann samtakanna Ísland-Palestína) halda því fram í útvarpinu að Ísraelar væru að yfirgefa Gaza til að slá ryki í augu okkar. Mér ofbauð þessi fullyrðing og slökkti á tækinu. Ísraelar yfirgefa 32 bæi, en nútíma Gyðingabyggðir hafa verið á Gaza svæðinu síðan 1946. Ísraelskir bændur fluttu út afurðir frá Gaza fyrir um 100 milljón dollara á ári, Ísraelar útveguðu 15000 Palestínumönnum á svæðinu vinnu, eyðileggja þurfti 38 synagogur og 7500 börn á skólaaldri þurftu að flytjast búferlum og fara í nýja skóla. Síðast en ekki síst kostar brottflutningurinn frá Gaza 600.000.000 dollara. Dýr sýndarmenska það! Er þetta nú ekki einum of mikið á sig lagt til þess eins að reyna að villa um fyrir Sveini Rúnari og umheiminum? Í ljósi þess hve miklu er fórnað ætti ekki nokkrum manni að detta það í hug að hér sé um tilraun til að sýnast og blekkja. Slík sýndarmenska er einfaldlega alltof dýr. Verið er að taka raunveruleg og erfið skref til þess að reyna að ná sáttum.
Á forsíðu Morgunblaðsins þann 19.ágúst var sagt frá aðgerðum Ísraelshers til að flytja brott óviljuga ísraelska landnema frá Gaza. Í fréttinni var tekið fram að Ísraelar hefðu tekið Gaza svæðið af Palestínumönnum í sex daga stríðinu árið 1967, og að nú væru Ísraelar loksins aðyfirgefa svæðið 38 árum síðar. Það sem ég hef við þetta að athuga er það að Gaza ströndin var tekin af Egyptum en ekki af Palestínumönnum í sex daga stríðinu árið 1967. Gaza svæðið tilheyrði Ottómann Tyrkjum frá 1517 og fram að fyrri heimstyrjöld. Bretar réðu yfir Gaza frá fyrri heimstyrjöld og til ársins 1948, og frá1948 til 1967 tilheyrðið svæðið Egyptalandi.
Þess má einnig geta að þó að Ísraelar yfirgefi Gaza fyrst nú, þá buðust þeir til þess fyrir nokkrum árum þegar að Ehud Barak þáverandi forsætisráðherra Ísraels, bauð Yasser Arafat hér um bil allt Gaza svæðið og Vesturbakkann, og að auki hálfa Jerúsalem.* Það sem Ísraelar vildu á móti var friður. Friðarverðlaunahafinn Arafat sagði einfaldlega nei, enda byggði hann tilveru sína á stríði fyrir frelsun Vesturbakkans, Gaza og Jerúsalem. Hann gat ekki lagt niður vopnin, ekki einu sinni til að ná fram markmiðum sínum. Arafat sauð saman einhvern rökstuðning til að hafna friðarboðinu. Réttilega er hægt að segja að sá bræðingur hafi verið framreiddur til að slá ryki í augu umheimsins.
Ísraelar eru nú farnir frá Gaza, og eru að yfirgefa fjórar af byggðum sínum á Vesturbakkanum. Síðan ég byrjaði að fylgjast með þróun mála fyrir botni miðjarðarhafs hefur mér aldrei þótt horfurnar friðvænlegar. Mér lýst ágætlega á þessar aðgerðir Sharon-stjórnarinnar, og ég vonast til að þær hjálpi til að hið ómögulega gerist, að menn nái sáttum í Landinu helga.
Sindri Guðjónsson
* Til gamans og glöggvunar: íbúaþróun í Jerúsalem:
Ár Gyðingar Múslimar
1844 7.120 5.000
1896 28.112 8.560
1931 51.222 19.894
1948 100.000 40.000
2000 530.400 204.100
Mánudagur, 22. ágúst 2005
Mánudagspósturinn 22. ágúst 2005
Í leiðara Blaðsins 28. júlí sl. var fjallað um hið svonefnda fjölmenningarsamfélag sem mjög hefur verið í umræðunni hér á landi á undanförnum árum. Í opinberri umræðu sem einatt er næsta lituð af pólitískri rétthugsun er gengið út frá því sem vísu að fjölmenningarsamfélagið sé fagurt og gott, að það sé beinlínis eftirsóknarvert í sjálfu sér og að styðja beri það og fóstra á alla lund, segir leiðarahöfundur Blaðsins og minnir síðan lesandann á að mannkynssagan sýni að full ástæða sé til að taka ávallt með fyrirvara hugmyndafræði eða trúarsetningum sem boði nýtt og betra þjóðfélag. Góð markmið tryggi einfaldlega ekki afleiðingarnar.
Leiðarahöfundurinn leggur síðan áherzlu á nauðsyn umræðu um þessi mál, innflytjendum hafi fjölgað hratt hér á landi á undanförnum árum og sjálfgefið sé að sú þróun leiði til ákveðinnar spennu og núnings sem alls ekki megi loka augunum fyrir. Að sama skapi sé út í hött að gefa sér það að slíkan vanda megi allan rekja til innfæddra og meintra fordóma þeirra.
Leiðarahöfundurinn gagnrýnir síðan þær hugmyndir að æskilegt sé að börn innflytjenda séu tvítyngd, enda sýni reynsla annarra þjóða að slíkar ráðstafanir séu helzt til þess fallnar að viðhalda einangrun innflytjenda á nýjum slóðum. Afleiðingin sé sú að börnin nái fullum tökum á hvorugu tungumálinu sem aftur leiði til þess að þau verði ólíklegri síðarmeir til að ná þeim árangri í námi eða starfi sem þau annars ættu alla möguleika á. Að lokum leggur leiðarahöfundurinn áherzlu á nauðsyn þess að Ísland sé opið fyrir framandi menningarstraumum og duglegu fólki sem vilji setjast hér að en einnig það að menn ættu að forðast að líta á fjölmenninguna sem eftirsóknarverða í sjálfu sér.
Lykilatriði í öllum umræðum um fjölmenningarsamfélagið er auðvitað það hvað hugtakið felur í sér. Að margra mati hefur það ekki verið nægilega ljóst og að sumu leyti hafa verið um það skiptar skoðanir. Því er kannski nærtækast í því sambandi að skoða hvaða skilning stjórnvöld víðast hvar í nágrannaríkjum okkar, sem flest hafa margfalt meiri reynslu af þessum málum en nokkurn tímann við, hafa lagt í hugtakið. Samkvæmt því felur það í sér það fyrirkomulag að innflytjendur haldi í tungumál sín og menningu og engin eiginleg aðlögun eigi sér stað. Fyrir vikið er mikil hætta á að til verði svokölluð gettó innan viðkomandi þjóðfélaga eða í raun einangruð þjóðfélög innan þeirra.
Það er ekki langt síðan það var nánast lagt að jöfnu við kynþáttahatur að tala um aðlögun innflytjenda bæði hér á landi sem og víða í Vestur-Evrópu. Sjálfur hef ég reynslu af því. Í því sambandi má geta þess að einn helzti gagnrýnandi hugmyndarinnar um fjölmenningu var bandaríski heimspekingurinn Ayn Rand. Og þó hugmyndin um fjölmenningarsamfélagið, eins og við þekkjum hana í dag, hafi ekki verið til upp úr miðri 19. öldinni þá má einnig nefna að brezki heimspekingurinn John Stuart Mill gagnrýndi einnig slíkar hugmyndir sem hann taldi hamlandi fyrir frelsi einstaklingsins. Margir gagnrýnendur fjölmenningarinnar telja hana fela í raun í sér aðskilnaðarstefnu sem komi í veg fyrir að innflytjendur geti orðið hluti af þeim þjóðfélögum sem þeir setjast að í og tekið eðlilegan þátt í þeim til jafns við aðra.
En tíðarandinn hefur gerbreyzt. Í dag tala flestir um aðlögun eins og þeir hafi aldrei gert annað, jafnt fólk innan Samfylkingarinnar sem aðilar á vegum Alþjóðahússins. Í nágrannalöndum okkar eru ráðamenn hver á fætur öðrum að verða afhuga hugmyndinni um fjölmenningarsamfélagið að fenginni reynslu af því og gagnrýni á það vex. Stjórnmálamenn kalla eftir því að hafizt verði þegar handa við að þjappa íbúum landa sinna saman í stað þess að stía þeim í sundur eins og gert hafi verið með fjölmenningarstefnunni.
Þetta á einkum við í Bretlandi. Skemmst er t.a.m. að minnast þess í sumar þegar David Davis, ráðherra innanríkismála í skuggaráðuneyti brezka Íhaldsflokksins, kallaði eftir því að fjölmenningarstefnan yrði endanlega gefin upp á bátinn þar í landi og lögð áherzla á sameiginleg brezk gildi og sama er að segja um þingmann flokksins Boris Johnsson í nýlegri grein í brezka dagblaðinu Telegraph. Rétt er að nefna einn mann enn til sögunnar í þessu sambandi en sá er Trevor Phillips, formaður sérstakrar nefndar á vegum brezkra stjórnvalda um kynþáttamál. Phillips er sjálfur af afrísku bergi brotinn og hefur um tveggja ára skeið kallað eftir því að sagt yrði skilið við fjölmenningarstefnuna sem sé að hans mati úreld og eigi ekki við í dag. Í stað hennar þurfi að leggja áherzlu á að flykkja íbúum Bretlands í kringum brezk gildi.
Reynsla t.a.m. Hollendinga er sú sama, en þeir eru sú þjóð sem sennilega hefur gengið einna lengst fram í því að framfylgja fjölmenningarstefnunni. Hollenzka þingið gaf út sameiginlega skýrslu upp á 2.500 blaðsíður í upphafi síðasta árs (2004) sem allir flokkar þingsins stóðu að. Þar var farið er yfir reynslu Hollendinga af innflytjendamálum undanfarna þrjá áratugi og komizt að þeirri niðurstöðu að tilraunin til að skapa umburðarlynt fjölmenningarsamfélag í Hollandi hefði algerlega mistekizt. Í skýrslunni eru fyrri ríkisstjórnir Hollands gagnrýndar harðlega fyrir að hafa stuðlað að aðskilnaði þjóðarbrota í krafti fjölmenningarstefnunnar. Verstu mistökin eru sögð vera þau að börn innflytjenda skyldu vera hvött til að læra móðurmál sitt í staðinn fyrir hollenzku. Innflytjendur í Hollandi yrðu einfaldlega að verða Hollendingar ef landið ætti að hanga saman sem ein heild.
Lengi væri hægt að halda áfram um þessi mál en skal hér látið staðar numið. Það er annars einmitt í krafti þess pólitíska rétttrúnaðar, sem getið er í leiðara Blaðsins sem fjallað var um í upphafi greinarinnar, sem ákveðnum háværum aðilum hér á landi tókst lengi vel að koma í veg fyrir alla eðlilega umræðu um málefni innflytjenda sem og alla gagnrýni á þá samfélagsgerð sem hugmyndin um fjölmenningarsamfélagið felur í sér. Sem betur fer hefur smám saman verið að losna um heljartök þessa pólitíska rétttrúnaðar á íslenzku þjóðfélagi og umræðan um þennan mikilvæga málaflokk smám saman verið að opnast samhliða því. Þeirri þróun hljóta allir sannir lýðræðissinnar og áhugamenn um tjáningarfrelsi og opna og málefnalega umræðu um brýn þjóðfélagsmál að fagna.
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
Föstudagur, 19. ágúst 2005
Endalok veikburða hræðslubandalags
Þáttaskil hafa átt sér stað í borgarmálapólitíkinni. R-listinn, sem hefur verið í gjörgæslu seinustu árin og að undanförnu í dauðadái, hefur geispað golunni. Eins og kunnugt er var það Vinstrihreyfingin grænt framboð sem tók öndunarvélina úr sambandi. Eftir stóðu misjafnlega sorgmæddir aðstandendur. Flestir þeirra önduðu léttar við fráfallið en eftir stóðu þó sorgmædd borgarstjórinn og forseti borgarstjórnar sem harma mjög endalokin og vildu helst halda öndunarvél hins hruma sjúklings í gangi sem lengst, þó batahorfurnar væru ekki beysnar. En hvernig hljómar minningargrein hræðslu- og valdabandalags félagshyggjumanna í Reykjavík? Um það hefur verið deilt seinustu daga þegar saga R-listans hefur verið rifjuð upp. Væntanlega mun arfleifð R-listans verða mikið í umræðunni í næstu borgarstjórnarkosningum.
Forysta R-listans í þrjú kjörtímabil skilur eftir sig næg verkefni og fjölda úrlausnarefna, sem brýnt er að takast á við. Þeir sem kynna sér lykilmálefni borgarinnar sjá ókláruð verkefni - áskoranir um að gera betur og taka af skarið. Gott dæmi um það eru skipulagsmálin. Nú þegar að R-listinn er dauður (og aðstandendur hans farnir að byggja upp tilveruna í kjölfar þess sem lengi hefur blasað við en gerðist svo loks með því að VG aftengdi sjúklinginn) má vissulega segja að saga hans sé skrautleg. R-listinn var stofnaður árið 1994 sem sameiginlegt framboð Framsóknarflokks, Samtaka um Kvennalista, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags. Þá náði R-listinn, undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur alþingismanns Kvennalista, táknrænum sigri og felldi meirihluta Sjálfstæðisflokksins sem setið hafði í tólf ár samfellt.
Fyrir síðustu kosningar var flokkalitrófið allt breytt frá R-listanum gamalgróna árið 1994 og umrót hafði orðið á vinstrivængnum og sameinuðust flokkarnir þrír sem eftir stóðu um að halda samstarfinu áfram sem kosningabandalagi. Samið var fyrir allar þrjár kosningarnar um skiptingu allra embætta, ef kosningabandalagið myndi sigra kosningarnar. Í öll þrjú skiptin var Ingibjörg Sólrún í áttunda sæti listans, baráttusætinu, og því auðvitað sett á mörkin, sem þýddi það auðvitað að ef ekki yrði meirihluti stæði Ingibjörg Sólrún utangarðs og þyrfti ekki að starfa þar í minnihluta nema að takmörkuðu leyti. Eins og allir vita þurfti Ingibjörg Sólrún aldrei að fara í prófkjör til að verja stöðu sína eða keppa við aðra um áttunda sætið. Hún fékk það sérpantað og var í öll þrjú skiptin sameiningartákn allra flokkanna og utan kvóta þeirra.
Síðast var Ingibjörg Sólrún stimpluð sem fulltrúi óháðra ásamt Degi B. Eggertssyni lækni. Reyndar hefur verið kostulegt að fylgjast með hinum svokallaða fulltrúa óháðra tala um stöðu sína sem þessi óháði aðili, og jafnvel talað um hann sem sérvalinn fulltrúa óháðra kjósenda. Eins og allir vita sem kynna sér sögu hins látna R-lista var Dagur B. sérvalinn af Ingibjörgu Sólrúnu í sjöunda sæti listans sem óháður. Það var ekkert spurt almenna kjósendur um það val. Dagur var ekki kjörinn í prófkjöri. Þetta tal um óháða er því hjáróma þvæla hin mesta. Enn hefur ekkert heyrst hvernig hinn óháði borgarfulltrúi varð óháður. Nema þá að hann hafi orðið óháður við val Ingibjargar Sólrúnar. Það er stór spurning svosem. Það má þó segja hinum látna (R-listanum) til hróss að nú undir lokin voru allir flokkarnir sammála um að ef samstarfið yrði áfram skyldu ekki verða í boði óháðir aðilar er hefðu verið sérvaldir af forystufólkinu. O sei, sei, það er mikið að fólk vaknar til lífsins um veruleikann.
Eins og fyrr segir var R-listinn orðinn undir lokin eins og gatasigti. Flestir þekkja enda stöðuna sem þar hefur verið frá því að leiðtoganum mikla var steypt af stóli fyrir að vilja vera þingframbjóðandi eins flokksins og lumbra á hinum flokkunum sem höfðu stutt hana til borgarstjórasetu, meira að segja aðeins örfáum mánuðum áður í harðri kosningabaráttu. Eins og flestir vita fannst leiðtoganum mikla ekkert athugavert við það að vinna í kosningabandalagi með tveim flokkum á einum vettvangi en berja á þeim á öðrum. Enda hlustuðu flokkarnir tveir ekkert á tal hennar og losuðu sig við hana. Flestir þekkja stöðuna sem hefur verið í borgarstjórnarmeirihlutanum á kjörtímabilinu: á þrem árum hafa setið þrír borgarstjórar í nafni R-listans. Átökin urðu sífellt meiri bakvið tjöldin - muna annars ekki allir eftir næturfundunum í Ráðhúsinu um það hvernig redda ætti þessu fyrir horn vegna borgarstjóraskiptanna?
Nú undir lokin höfðu aðstandendur R-listans sífellt meiri áhyggjur af þessum veikburða sjúklingi sem samstarfið var orðið. Skipuð var nefnd flokkanna til að ná saman um áherslur fyrir kosningarnar og láta reyna á samstarf. Merkilegt var allan tímann að fylgjast með þessum viðræðum. Allan tímann snerust þær um völd og áhrif - því að skipta niður mögulegum áhrifum og völdum eftir kosningar - deila niður efstu sætum á framboðslista. Þetta var bæði í senn svo hlægilega absúrd og ankanalegt. Þessar samningaviðræður verða eflaust dæmdar sem hinar misheppnuðustu í manna minnum. Auðvitað gekk mönnum illa að skipta átta sætum milli þriggja aðila svo jafnræðið væri algjört. Það hefði allavega þurft mjög snjallan stærðfræðing í lið með R-listanum til að fá þau til að ná að skipta átta fulltrúum milli þriggja. Það þarf sennilega bjartsýnasta fólk í heimi til að halda að þetta sé möguleiki.
Svo var talað um hvort sumir gætu fengið dúsur. Fyndnust var umræðan um það að komið skyldi á tveim varaborgarstjórum, svo að flokkarnir sem ekki hefðu borgarstjórastólinn gætu unað sáttir við sitt. Sennilega hafa þessir tveir átt að halda í höndina á borgarstjóranum, svo hann færi nú ekki að gera meiri vitleysu af sér en gert hefur verið. Svo var rætt um hvernig ætti að velja fulltrúana - deilt um fólk og persónuplotterí fram og til baka. Fyndnast var að heyra þær raddir úr Samfylkingunni að velja ætti listann í opnu prófkjöri og borgarstjóraefnið þyrfti nú bráðnauðsynlega að vera valið af borgarbúum í prófkjöri. Þetta gat nú varla verið fyndnara fyrir þá sem hafa pólitískt minni. Það muna væntanlega flestir að Ingibjörg Sólrún var handvalin alltaf í áttunda sætið og það var auðvitað ekkert prófkjör í því fyrir drottninguna nei, að einhverjum skyldi nú detta slíkt í hug. En nú þótti það möguleiki. Kannski segir það okkur allt um veikburða forystu lægsta samnefnarans (les: borgarstjórans).
R-listinn hefur verið lík að því er segja má allt frá því að Ingibjörgu Sólrúnu var hent fyrir borð sem leiðtoga samstarfsins. Síðan hefur allt þarna innanborðs verið gert með hverri reddingunni á reddingu ofan. Spyrja má sig að því hvað gerist í framhaldinu innan meirihlutaflokkanna þriggja. Nú er R-listinn gufar upp og eftir standa þrenn flokkaframboð á þessum væng getur ýmis uppstokkun orðið. Greinilegt er á öllum fréttum að tveir stjórnmálamenn syrgja mest endalok R-listans. Það eru Steinunn Valdís og Alfreð Þorsteinsson. Er það mjög skiljanlegt, enda er valdasess þeirra mjög í vafa í flokksframboðum. Steinunn Valdís treysti á R-listasamstarf áfram svo hún yrði sameiningartákn hans. Hennar staða er allt önnur ef hún þarf að sækjast eftir leiðtogastól Samfylkingarinnar í borginni sem Stefán Jón vermir. Væntanlega verður harður slagur þar um sessinn. Svo spyrja margir hvort eðalbloggarinn Össur skelli sér í slaginn.
Allir þekkja svo stöðu Alfreðs sem á í vök að verjast á eigin slóðum, enda ekki glæsileg afrek sem hann hefur á að státa úr Orkuveitu Reykjavíkur. Fullyrða má að forsætisráðherra sárni ekki mjög endalok R-listans og noti tækifærið nú til að losna við Alfreð úr forystusæti flokksins í borgarstjórn. Fyrst eftir dauða R-listans heyrðust þær raddir innan Framsóknar og Samfylkingar að möguleiki væri á áframhaldandi samstarfi. Það voru helst borgarstjóri og forseti borgarstjórnar sem fyrir því töluðu. Það var þó allan tímann veikburða tal, þó að fyrir sjálfstæðismenn hefði það verið besta niðurstaðan. Það hefði varla verið amalegt fyrir Samfylkinguna að verja þann mikla forystumann sem Alfreð hefur verið í þeirra augum til fjölda ára. Þau hafa með stolti horft upp á hann stjórna Orkuveitunni og varið öll hans verk. En það gerist ekki: Samfylkingin hefur rétt eins og VG boðað sérframboð og eftir stendur Alfreð einn grátandi í erfidrykkjunni.
Innan VG barðist Björk Vilhelmsdóttir fyrir áframhaldandi lífi R-listans en varð undir innan eigin raða. Árni Þór Sigurðsson og hans stuðningsmannasveit hafði betur. Reyndar var svo að skilja á Björku að halda ætti í R-listann hvað svo sem það kostaði. Talaði hún um það að koma þyrfti nú í veg fyrir að íhaldið kæmist til valda og hún myndi gera hvað sem væri til að tryggja að R-listinn færi fram til að berja nú á íhaldinu. Með ólíkindum var að hlusta á þennan borgarfulltrúa. Talaði hún eins og það væri eina baráttumál R-listans að berjast gegn Sjálfstæðisflokknum. Engin önnur rök voru týnd til. Lengi höfum við sjálfstæðismenn reyndar haldið því fram að R-listinn væri aðeins til í þeim tilgangi að vera valdablokk gegn Sjálfstæðisflokknum og áhrifum hans og styrkleika meðal borgarbúa. Þessu neituðu jafnan aðstandendur R-listans.
Það er ágætt að Björk Vilhelmsdóttir hefur með hræðslutali sínu og einhliða áróðri fyrir tilvist R-listans (sem byggist aðeins upp á því að íhaldið komist nú ekki til valda) staðfest þessi orð sem lengi hafa verið í umræðunni. Merkilegt er reyndar að þessi borgarfulltrúi sýni skoðunum fjölda borgarbúa slíka lítilsvirðingu að allt eigi að reyna að gera til að rödd þeirra fyrir breytingum nái ekki fram að ganga. En tal Bjarkar staðfestir tilgang R-listans til þessa. Það er ágætt að Björk segi svosem hug sinn. En á bakvið Sjálfstæðisflokkinn eru kjósendur því gleymir Björk Vilhelmsdóttir. Það er fólk sem treystir flokknum fyrir verkunum. Ég veit ekki hvort að Björk trúir því eða ekki en það er svo að innan Sjálfstæðisflokksins er ekki illt fólk þar er fólk sem er annt um sveitarfélagið sitt og vill vinna fyrir það af heilindum. Það er leitt að hlusta á Björku og finna að hún er á móti flokknum og vill R-lista bara til að lumbra á íhaldinu en hún afhjúpar sinn hugsanagang með því vissulega.
Búast má við deilum milli Samfylkingarinnar og VG í kjölfar þessara slita samstarfsins sem kosningabandalags. Reyndar hefur seinustu daga mátt sjá forsmekk þess hvernig Samfylkingin mun hamast þar á VG. Þar er talað af krafti og báðir kenna flokkarnir hinum um það að hafa slökkt á öndunarvél hins langveika sjúklings sem R-listinn var. Allir sem pólitískt nef hafa sjá að á þessum bæjum eru mun fleiri ánægðir með endalokin en þeir sem syrgja þau. Mitt í ólgu hins látna R-lista berast þær fréttir frá Ólafi F. Magnússyni fyrrum sjálfstæðismanni og óháðum borgarfulltrúa, sem nú er orðinn frjálslyndur að flokkur hans sé til í slaginn. Þar talar leiðtoginn um að auðvitað muni hann og Margrét Sverris leiða listann. Það verður seint sagt að þau hafi verið valin til framboðs með lýðræðislegum hætti hafa sennilega hist saman tvö yfir kaffibolla og plottað sig saman um að ákveða uppröðun efstu sæta. Hvenær fór valið fram?
Nú þegar að endalok R-listans eru orðinn veruleiki vaknar óneitanlega sú spurning hvaða áhrif þessi niðurstaða hafi á sitjandi meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Enn eru níu mánuðir til kosninga. Það verður óneitanlega merkilegt að fylgjast með því hvernig flokkunum þremur gengur að vinna saman sem ein heild eftir þessi sögulegu þáttaskil. Það er þó víst að kosningabaráttan í Reykjavík er hafin með ákvörðun vinstri grænna þess efnis að aftengja sjúklinginn. Framundan eru væntanlega flokkaframboð flokkanna sem hafa myndað R-listann og má búast við átökum þeirra á milli, jafnt um atkvæðin og svo það hverjum það hafi verið að kenna að R-listinn, sem stjórnað hefur borginni í rúman áratug, leið undir lok þrátt fyrir að vera meirihlutaaflið í borgarmálunum. Það gæti orðið mjög hart í ári meðal rústanna innan R-listans ef fram heldur sem horfir.
Þegar að harðvítug kosningabarátta er hafin meðal flokkanna þriggja og keppni um atkvæðin hefst getur allt gerst. Það má því alveg búast við lamaðri pólitískri forystu næstu mánuðina. Hún hefur reyndar ekki verið beysin eftir öll borgarstjóraskiptin, en það stefnir skiljanlega í mun meiri átök. Framundan er mjög hörð kosningabarátta í höfuðborginni. Þetta sást best í gær með fundi borgarráðs þar sem fulltrúar R-listans heitins ályktuðu út og suður og ekki laust við að Alfreð kallinn sé farinn að stríða samstarfsmönnum sínum og minni á sig í leiðinni hvað varðar leikskólamálin. Er þetta það sem koma skal: veikburða eymdarmeirihluti sem karpar út og suður í kosningabaráttunni og kapphlaup um að koma sér í fréttirnar. Þetta verður mjög áhugavert á að horfa fyrir okkur stjórnmálaáhugamenn en að sama skapi skaðar stöðu borgarinnar að sjá pólitísk hrossakaup og fjölmiðlahosserí hins látna kosningabandalags.
Á meðan R-listinn hefur gufað upp og horfið út í myrkrið hefur Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík horft á endinn á þessum eymdarferli R-listans, endalok klaufalegustu samningaviðræðna seinni tíma, sem voru dæmdar til að mistakast. Eins og sést hefur á nýlegum könnunum á Sjálfstæðisflokkurinn góða möguleika á því að ná hreinum meirihluta í borgarstjórn og velta vinstriflokkunum úr sessi (veita þeim náðarhöggið eftir kjötkatlasuðuna í OR og fleiri stöðum). Með öflugum lista og góðri kosningastefnu mun Sjálfstæðisflokkurinn sigra næstu kosningar. Í grunninn séð verður kosið um það hvort borgarbúar vilja marka nýja sýn til framtíðar og kjósa öfluga forystu í borgarmálunum eftir veiklulega forystu hins fallna R-lista. Grunnpunktur sjálfstæðismanna verður að benda á ferska sýn til framtíðar og öflugt fólk sem sé tilbúið til að leiða af krafti þau mál sem setið hafa á hakanum hjá R-listanum.
Það blasir allavega við að mörg sóknarfæri eru framundan hvað varðar Sjálfstæðisflokkinn í borgarmálunum, nú þegar að hinn veiklulegi R-listi er kvaddur án alls söknuðar jafnt stuðningsmanna hans sem og andstæðinga.
Stefán Friðrik Stefánsson
stebbifr(a)simnet.is
Miðvikudagur, 17. ágúst 2005
„Ég sé bara svart þegar ég sé Íhaldið“
Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi Vinstri-grænna er fulltúi afturhaldsaflanna sem ráðið hafa ríkjum í Reykjavíkurborg í liðlega 11 ár. Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi var hún spurð að því hvort til greina kæmi samstarf Vinstri-grænna og Sjálfstæðisflokksins. Svör hennar voru þessi:
Ég get ekki séð það. Ég meina, mér finnst sko...ég sé bara svart þegar ég sé Íhaldið. Og ég held að mestu vonbrigðin í þessu máli einmitt liggi hjá borgarbúum sem að sjá fyrir sér að hugsanlega muni Sjálfstæðisflokkurinn koma hér til valda, því að það er það hræðilegasta held ég fyrir borgarbúa.
Ummæli Bjarkar þykja mér lýsa vanvirðingu við þann stóra hóp borgarbúa sem styður Sjálfstæðisflokkinn. Hvers vegna ættu það að vera vonbrigði fyrir þann hóp borgarbúa að Sjálfstæðisflokkurinn komist hugsanlega til valda? Eru þeir kannski ekki eiginlegir borgarbúar í skilningi Bjarkar. Orð hennar lýsa fordómum og dæma sig sjálf.
Ekki var síður athyglisvert að heyra ummæli Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur borgarstjóra þegar hún tjáði sig um fyrirsjáanlega endalok R-listasamstarfsins:
Það hefur ekki verið málefnaágreiningur og virðist ekki vera málefnaágreiningur núna. Það er hins vegar virðist vera ágreiningur uppi sérstaklega af hálfu Vinstri Grænna svona um ákveðna aðferðafræði.
Ummælin staðfesta það sem svo oft hefur skinið í gegn hjá R-listanum. Listinn er fyrst og fremst hræðslubandalag sem hefur það meginmarkmið að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum og um leið að viðhalda eigin völdum. Þegar þeir hagsmunir eru í húfi eru málefnin aukaatriði. Ítrekuð ummæli borgarfulltrúa R-listans staðfesta þetta nú sem fyrr. Áður benti ég á þetta í grein sem ég skrifaði við síðustu borgarstjóraskipti.
Þar sem meginmarkmið R-listans hefur jafnan verið það að viðhalda eigin völdum hafa hagsmunir borgarbúa gjarnan setið á hakanum. Oft hafa flokkarnir þurft að seilast langt til að þóknast hver öðrum svo samstarfið haldi. Það hefur jafnvel þurft að gjalda dýru verði af fjármunum skattgreiðenda, sem útdeilt hefur verið í gæluverkefni einstakra flokka sem að listanum standi.
Mál er að linni. Það eru ekki vonbrigði að hugsanlega komist Sjálfstæðisflokkurinn til valda í borginni. Þvert á móti vekur það von um betri tíð fyrir borgarbúa þar sem hagsmunir þeirra verða settir í öndvegi.
thorstm(a)hi.is
Mánudagur, 15. ágúst 2005
Mánudagspósturinn 15. ágúst 2005
Páll Magnússon, nýskipaður útvarpsstjóri, lýsti þeirri skoðun sinni á dögunum að hann teldi að æskilegt væri að Ríkisútvarpið færi af auglýsingamarkaði og auk þess að búið yrði þannig um hnútana að stofnunin yrði almennt ekki í samkeppni við einkaaðila um efni. Ummæli Páls féllu í misjafnan jarðveg eins og eðlilega er þegar um er að ræða eins umdeilt efni og það hvernig eigi að hátta rekstrarformi Ríkisútvarpsins. Í nýlegri ályktun fagnaði Samband ungra sjálfstæðismanna ummælunum og hvatti ennfremur til þess að gengið yrði skrefi lengra og stofnunin einkavædd. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa hins vegar gefið lítið fyrir ummælin.
Samtök auglýsenda eru heldur ekki par hrifin af hugmyndum Páls um að Ríkisútvarpið eigi að fara af auglýsingamarkaði og hafa lýst sig alfarið andvíg þeim. Yfirlýsing þess efnis birtist í Blaðinu sl. fimmtudag og í Morgunblaðinu í gær sunnudag. Má með sanni segja að þar séu ótrúlegustu hlutir tíndir til í því skyni að mála skrattann á vegginn yrðu hugmyndir Páls að veruleika. Efni yfirlýsingarinnar gengur síðan að stóru leyti út á að reyna að sýna fram á að sú breyting myndi koma sér illa fyrir almenning. Mætti helzt halda að einhver mannréttindasamtökin hefðu samið hana en ekki hagsmunasamtök íslenzkra auglýsenda sem eðli málsins samkvæmt hafa þann tilgang einan að standa vörð um hagsmuni sinna félagsmanna.
Samtökin segja þannig t.a.m. að ef Ríkisútvarpsins nyti ekki við á auglýsingamarkaði myndi aðgengi auglýsenda að almenningi minnka þar sem miðlar stofnunarinnar nái augum og eyrum flestra landsmanna auk fólks sem ekki sé hægt að ná til nema í gegnum þá. Ennfremur að erfiðara yrði fyrir almenning að afla sér upplýsinga um vörur og þjónustu yrði þetta raunin. Gera má þó fastlega ráð fyrir að flestir landsmenn yrðu eftir sem áður færir um að nálgast auglýsingar í gegnum aðra miðla þó Ríkisútvarpið hyrfi af auglýsingamarkaði þrátt fyrir augljósa vantrú Samtaka auglýsenda á getur þeirra í þeim efnum.
Samtökin telja ennfremur að brotthvarf Ríkisútvarpsins af auglýsingamarkaði myndi leiða til þess að dýrara yrði fyrir auglýsendur að koma skilaboðum sínum á framfæri við neytendur. Framboð auglýsingatíma myndi minnka með tilheyrandi verðhækkunum til auglýsenda sem aftur myndi leiða til hækkunar á verði á vöru og þjónustu þar sem auglýsendur þyrftu að leita dýrari leiða til að koma upplýsingum um vöru sína og þjónustu á framfæri. Ekki er þó greint frá því í hverju þessi aukni kostnaður myndi felast, hvort verðið hjá Ríkisútvarpinu sé svona miklu hagstæðara eða hvað. Verður að telja ólíklegt að svo sé eða að það liggi til grundvallar þessum orðum.
Engin ástæða er þó til þess að ætla að ekki yrði nógir til að fylla þau skörð á íslenzkum auglýsingamarkaði sem sköpuðust við brotthvarf Ríkisútvarpsins af honum og tryggja þannig eðlilega samkeppni eftir sem áður sem og nægt framboð á auglýsingatíma. Það er því út í hött að ætla að kostnaður auglýsenda myndi hækka við þá breytingu. Hún myndi einmitt auka svigrúm einkaaðila á auglýsingamarkaði, eins og fram kemur í ályktun SUS, og leiða til þess að einkaframtakið fengi að njóta sig enn frekar á markaði sem Ríkisútvarpið hefur allt of lengi sett mark sitt á. Samtök auglýsenda hafa hins vegar ákveðið að gefa sér þá forsendu fyrirfram í yfirlýsingu sinni að einkaaðilar myndu ekki geta fyllt skarð Ríkisútvarpsins hyrfi það af auglýsingamarkaði og að notkun almennings á öðrum miðlum, í því skyni að nálgast auglýsingar, myndi ekki aukast við það.
Samtökin segja svo að það myndi leiða til hærri afnotagjalda ef Ríkisútvarpið yrði tekið af auglýsingamarkaði miðað við óbreyttar rekstrarforsendur. Tilgangurinn með þessu virðist vera sá einn að fá fólk upp á móti hugmyndinni, enda ekkert gefið að þessi breyting myndi þýða hækkun á afnotagjöldum. Þannig væru aukin framlög frá ríkinu líka möguleg leið þó það hvarfli auðvitað ekki að mér að mæla með því. SUS benti einmitt á í ályktun sinni um málið að samhliða því að Ríkisútvarpið færi af auglýsingamarkaði ætti að draga úr umsvifum stofnunarinnar og þar með útgjöldum. Það kæmi auk þess ekki til greina að henni yrðu bættar upp þær tekjur sem hún yrði af með þeirri breytingu með auknum álögum á landsmenn. Það er því alger óþarfi að vera að hræða fólk með hærri afnotagjöldum yrði Ríkisútvarpið tekið af auglýsingamarkaði.
Nálgun Samtaka auglýsenda á málinu felur reyndar í sér ákveðna þverstæðu þar sem yfirlýsing þeirra gengur að miklu leyti út á einhvern meintan rétt almennings á að hafa aðgang að auglýsingum. Á sama tíma telja samtökin að almenningur myndi ekki auka notkun sína á öðrum fjölmiðlum sem byðu upp á auglýsingar væri Ríkisútvarpið tekið af auglýsingamarkaði. Það er því ekki hægt að skilja þetta öðruvísi en svo að það sé mat Samtaka auglýsenda að almenningur á Íslandi sækist ekkert sérstaklega eftir því að sjá eða heyra auglýsingar, annars myndi hann væntanlega reyna að bæta sér það upp að Ríkisútvarpið hætti að sýna auglýsingar með því að leita í auknum mæli annað. Þetta gengur auðvitað ekki upp. Þarna er aðeins verið að beita almenningi fyrir sig eigin hagsmunum til framdráttar.
Að lokum er rétt að nefna síðustu ástæðuna sem Samtök auglýsenda nefndu í yfirlýsingu sinni því til réttlætingar að Ríkisútvarpið yrði áfram á auglýsingamarkaði. Og að síðustu má ekki gleyma því að auglýsingar hafa, auk upplýsingahlutverksins, ákveðið afþreyingar- og skemmtanagildi, og geta jafnvel lengt líf fólks ef rétt er að hláturinn lengi lífið eins og rannsóknir benda til! Þessi síðasta setning segir sennilega meira en margt annað um hriplekan málflutning Samtaka auglýsenda í þessum efnum og örvæntingarfulla viðleitni þeirra til að tína ótrúlegustu hluti til í því skyni að réttlæta þá afstöðu sína að ríkið eigi áfram að vera í samkeppni við einkaaðila á íslenzkum auglýsingamarkaði.
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
Föstudagur, 12. ágúst 2005
Hræðslubandalagið R-listinn
Það virðist ætla að dragast eitthvað að gefa út dánarvottorð á R-listann. Enginn vill jú vera sakaður um að hafa bundið endi á þetta ,,farsæla samstarf. Nú er fundað dag eftir dag og engin niðurstaða fæst í málið. Maður hefði nú haldið að R-listamenn væru komnir með góða reynslu á neyðarfundi og krísuástand eftir tvenn borgarstjóraskipti og alla þá neyðarfundi sem haldnir voru í tilefni þeirra. En eins og áður sagði hefur ekki komið nein niðurstaða um samstarf flokkanna sem mynda R-listann.
Það er s.s. engin furða að R-listamönnum gangi illa setja saman. Það hræðslubandalag sem myndað hefur verið um R-listann er hugsjónalaust og á sér engar stoðir með framtíð borgarinnar að leiðarsljósi. Egill Helgason skrifar ágæta grein á síðu sína í gær þar sem hann fer í grófum dráttum yfir stöðuna í R-listanum. Þar segir Egill m.a.
,,Stefán Hafstein skrifaði um daginn að R-listinn hefði náð markmiðum sínum. Hvaða markmið voru það? Aðalmálið í hverri borg er skipulagið; það hefur áhrif á allt annað í borginni. Hefur það batnað í tíð R-listans?
Nei, það hefur versnað. Í tólf ár hefur R-listinn ekki haft neinar hugmyndir í skipulagsmálum. Lægsti samnefnarinn ræður alltaf; það er aldrei hægt að ganga lengra en sá tregasti leyfir. Þess vegna halda hlutirnir bara áfram að dankast.
Það er alveg rétt hjá Agli að það er alltaf lægsti samnefnarinn sem ráðið hefur ferðinni í stefnumálum og framkvæmdum R-listans. Liðsmönnum bandalagsins er svo í mun að halda því gangandi að þeir eru tilbúnir til að fórna öllum sínum hugmyndum, hugsjónum og stjórnmálaskoðunum til þess eins að halda lífi í dýrinu sem þó hreyfist ekki neitt. Þegar menn gátu ekki valið sér borgastjóra á eftir Þórólfi Árnasyni völdu menn lægsta samnefnarann sem menn úr öllum flokkum gætu stjórnað. (Það verður athyglisvert að fylgjast með framtíð Steinnunnar Valdísar þegar R-lista samstarfið slitnar því hún sagði þegar hún varð borgarstjóri að hún liti fremur á sig sem ,,R-lista menneskju heldur en Samfylkingamanneskju) Menn hafa valið lægsta samnefnarann þegar kemur að skipulagsmálum, menn hafa verið tilbúnir að eyða hverju sem í hvað sem er til að hafa alla ánægða. Það væri gaman að vita hvernig samstarfinu hefði vegnað ef einhver hefði sagt stopp við Alfreð fyrir nokkrum árum!!
Það sem er einnig athyglisvert þessa dagana er að samstöðuleysi R-listans snýst ekki um pólitísk málefni s.s. skatta, leikskóla, skipulagsmál og svo frv. Heldur snýst deila þeirra og allir ,,málefnafundirnir um það eitt hvernig standa skuli að uppröðun listans fyrir komandi kosningar, hver fær hvaða embætti og hvernig völdum skuli skipt. Borgarbúar og þau málefni sem viðkoma þeim virðist vera aukaatriði. Þetta eru einmitt flokkarnir (þó aðallega Samfylking og Vinstri Grænir) sem sakað hafa Sjálfstæðisflokkinn um að vera valdagráðugur flokkur og haft hafa upp ásakanir upp á einstaka stjórnmálamenn um að setja í stól sínum af valdagræðginni einni saman.
Ég gæti alveg skilið að R-lista samstarfið myndi halda ef menn kæmu sér saman um málefni sem snúa að borgarbúum. Og þá að sama skapi ef menn myndu ákveða að slíta því ef ekki næðist samstaða um stærstu málefnin. En eins og áður sagði virðist það skipta minnstu máli í herbúðum R-listans. R-listinn er hræðslubandalag sem snýst um það eitt að halda völdum og halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum í borginni. Málefnin eru engin en stöðurnar margar. R-lista samstöðuleysið s.l. 11 ár hefur ekki bitnað á Sjálfstæðisflokknum heldur á borgarbúum öllu. Reykvíkingar eiga betra skilið.
Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr(a)simnet.is
Miðvikudagur, 10. ágúst 2005
Einkarekstur á fjarskiptamarkaði á ný
Nýlega var fagnað 100 ára ártíð fjarskipta hér á landi, þegar Og Vodafone gaf minnisvarða um fyrsta loftskeytið sem barst hingað til lands á vegum Marconi félagsins. Var það sannarlega við hæfi að samkeppnisaðili ríkisfyrirtækisins Símans (sem var) skyldi koma að því er þessara merku tímamóta var minnst, enda var Marconi félagið einkafyrirtæki, hvers umboðsmaður hér á landi var hinn framsýni Einar Benediktsson. Félag þetta starfaði í um eitt ár hér á landi, þegar ríkisstjórn Íslands svo gerði samning við ,,Mikla Norræna um sæstreng til landsins í gegnum Færeyjar og Hjaltland, sem fékk jafnframt einkaleyfi á fjarskiptarekstri til og frá landinu. Á sama tíma var Landsími Íslands stofnaður og má þá segja að samkeppni í íslenskum fjarskiptamarkaði hafi verið stöðvuð. Einkaleyfið rann svo út 1. september 1926 og tók þá Landsíminn við rekstri sæsímastöðvarinnar á Seyðisfirði. En þetta tækifæri var ekki notað til að koma á frelsi á fjarskiptamarkaði og þurftu Íslendingar að bíða til 1. janúar 1998 eftir því.
Síðan hafa vaxið upp öflugir samkeppnisaðilar við Símann, og er Og Vodafone, sem minnst var á hér að framan, afkomandi flestra þeirra fyrirtækja sem spruttu upp í kjölfar þessa frelsis. Því er það engin furða að það fyrirtæki hafi ákveðið að minnast sérstaklega á fjarskiptin á vegum Marconi félagsins, enda er það í bullandi samkeppni við afkomenda þess fyrirtækis sem hrakti Marcon félagið af markaðnum með ríkisvernd. En nú loksins er ríkið loksins algerlega komið út úr þessum markaði með þeim tímamótum sem áttu sér stað á fimmtudaginn fyrir viku er skrifað var undir sölu Símans til einkaaðila. Íhaldsmanni eins og mér finnst auðvitað sem ríkið hafi aldrei átt að skipta sér af þessum markaði í upphafi, en það væri líklegast að símamarkaðurinn væri mun þróaðri og í miklum mun meira jafnvægi en raunin varð.
Afskipti ríkisins af fjarskiptamarkaðnum er þó því miður alls ekki að fullu lokið. Samkeppnislög og stofnanir ríkisvaldsins sem eiga að framfylgja þeim hafa tekið við, og má vænta þess að þetta muni halda áfram að setja frjálsum markaði og fyrirtækjum á honum skorður sem dragi úr hagnaði, hagkvæmni og líklegast þegar upp er staðið, samkeppni. Þó er það mun skárra fyrirkomulag en var og verður að líta á það í því ljósi. Gleðjast yfir því sem gleðilegt er, að ríkið hefur stórminnkað afskipti sín af þessum markaði, þó ekki sé gengið jafn langt og margir frjálshyggjumenn myndu vilja sjá. Smá skref í rétta átt eru oft mun farsælli en stór stökk og umbyltingar, og má jafnframt vel færa rök fyrir að samkeppniseftirlit sé nauðsynlegt vegna þeirrar skekkju sem nú þegar er komin inn í kerfið vegna áratuga einokunarstöðu Landsímans.
Á hinn bóginn er hérna verið að byggja upp alveg nýtt kerfi ríkisumsvifa í kringum þessa eftirlits- og samkeppnismálaflokka, sem alveg hefði verið hugsanlegt að komast hjá. Hvort samkeppniseftirlit er nauðsynlegt eða til ama er og verður eitt helsta deilumál a.m.k. á hægri væng stjórnmálanna um ókomna tíð. Við getum þó allir verið sammála um að sala Símans hafi verið heillaskref sem styrkja muni efnahag landsins, en síðan kemur upp önnur deila, hvað á að gera við peningana sem úr sölunni komu? 67 milljarðar króna (þ.e. 67 þúsund milljónir) sem menn hafa velt fyrir sér að setja í stórvirki sem einungis væri þörf á að fara út í einu sinni, svo sem hugmyndir um hátæknisjúkrahús (hef fjallað um slíkar hugmyndir í pistli hér á vefnum áður), stórfelldar vegaframkvæmdir eða annað slíkt.
Ýmsum á vinstri kanti íslenskra stjórnmála þykir þessi upphæð mögur, alla vega miðað við þær upphæðir sem þeir telja þetta ,,þjónustufyrirtæki í almannaþágu sem er orðskrípið sem margir þeim megin vilja nota, geta gefið af sér næstu árin miðað við hagnað síðustu ára. Þessir aðilar virðast ekki átta sig á að fyrirtækið hefur verið látið borga út óvenjumikinn hagnað undanfarin ár, þar eð eigandinn, ríkið, er í raun að fá út úr fyrirtækinu uppsafnaðan hagnað þess. Einnig má benda á að þetta eru lægri upphæðir en ríkið er að borga árlega í vexti af skuldum, svo miðað við það væri langfarsælast að nota peningana til að borga upp skuldir og þannig losna við gífurlegan vaxtakostnað til lengri tíma litið. Margt annað hefur verið týnt til í þeirri viðleitni vinstrimanna að halda aftur af framþróun (eða afturhvarfi til hins gamla og góða), svo sem að kaupendur fyrirtækisins myndu taka allt að láni og fá þá peninga til baka með hærri álögum á viðskiptavini. Slík rök falla sjálfkrafa um sjálft sig, enda er samkeppnin svo hörð á þessum markaði að ekki er mikið svigrúm til hækkana.
Einnig er ljóst að þar sem lífeyrissjóðirnir eru stór hluti kaupenda sem og eigendur eins ríkasta fyrirtækis Íslendinga að hér eru engir aukvisar á ferð og þeir hafa svo sannarlega efni á þessu. Sérstaklega þar sem þeir virðast hafa nokkuð skýra sýn um hvert stefna eigi með fyrirtækið í framtíðinni. Vissulega væri gaman að sjá Íslendinga fara í útrás í þessum efnum eins og svo mörgum öðrum. Ég óska nýjum eigendum til hamingju með kaupin, sem og Íslendingum til hamingju með hið góða söluverð. Vonum að þeim peningunum verði vel varið.
Höskuldur Marselíusarson
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004