Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 31. október 2005

Síðan hvenær hætti Ísland að vera landfræðilegur hluti Evrópu? Ég hef stundum velt þessari spurningu fyrir mér þegar ég hef heyrt ýmsa talsmenn Evrópusambandsins hér á landi predika nauðsyn þess að Ísland gerist aðili að Evrópu. Þessar vangaveltur hafa þó eðlilega verið meira í gamni en alvöru. Menn þurfa sennilega að vera ansi illa upplýstir til að geta ekki gert greinarmun á Evrópu og Evrópusambandinu, auk þess að vita að Evrópusambandið hefur ekkert með það að gera hvort Ísland teljist hluti af Evrópu eða ekki.

Neikvæð skírskotun
En þrátt fyrir þessar augljósu staðreyndir er þetta eitt af grundvallaratriðunum í áróðursvélum Evrópusambandssinna, hvort heldur sem er hér á landi eða víðast hvar í Evrópu. Þannig heita ófá samtök Evrópusambandssinna nöfnum eins og “Bretland í Evrópu”, “Svíþjóð í Evrópu”, “Eistland í Evrópu” o.s.frv. svo ekki sé minnzt á “Evrópusamtökin”. Í ljósi þessa kemur sú spurning eðlilega upp í hugann hvers vegna slík samtök eru ekki látin heita t.d. “Bretland í ESB”, “Svíþjóð í ESB”, “ESB-samtökin” o.s.frv.?

Ástæðan fyrir þessu er í sjálfu sér ekki flókin og flestum sennilega ljós. Stuðningsmenn aðildar að Evrópusambandinu, erlendir sem innlendir, vita einfaldlega eins vel og aðrir að Evrópusambandið hefur ekkert sérstaklega jákvæða skírskotun í hugum almennings. Það hefur ítrekað komið í ljós á undanförnum árum, bæði í þjóðaratkvæðagreiðslum og skoðanakönnunum. Af þeim sökum sjá Evrópusambandssinnar sig knúna til að reyna að nota einhverja aðra beitu á almenning sem þeir telja vænlegri - og þar kemur Evrópa til sögunnar.

ESB er ekki Evrópa
Í framhaldi af þessu er þeirri firru beinlínis haldið að fólki að með því að standa fyrir utan Evrópusambandið séu viðkomandi lönd að standa fyrir utan Evrópu sem slíka. Ef ríki hins vegar gangi í Evrópusambandið séu þau að gerast aðilar að Evrópu eins hjákátlegt og það nú hljómar. Í samræmi við þetta er síðan hamrað á því að þeir sem voga sér að gagnrýni Evrópusambandið séu á móti Evrópu sem slíkri.

Staðreyndin er hins vegar sú að menn geta hæglega verið miklir Evrópusinnar þó þeir séu ekki hrifinir af Evrópusambandinu sem slíku og því að Ísland verði hreppur í hinu fyrirhugaða evrópska stórríki. Evrópusambandið og Evrópa eru einfaldlega ekki sami hluturinn í raunveruleikanum þó svo kunni kannski að vera í höfðinu á einhverjum blindum stuðningsmönnum skriffinskubáknsins í Brussel.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is

(Birt áður í Fréttablaðinu 6. nóvember 2003)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband