Bloggfærslur mánaðarins, október 2005
Föstudagur, 7. október 2005
Af andrúmslofti og meintri græðgi
Grétar Þorsteinsson, forseti Alþýðusambands Íslands, fór mikinn í ávarpi á ársfundi Starfsgreinasambands Íslands í vikunni. Grétar lagði mikla áherslu á að ,,andrúmsloftið í samfélaginu einkennist í ríkum mæli af græðgi, sem menn hafi ekki áður upplifað jafn sterkt og um þessar mundir.
Grétar útskýrði þessi orð sín ekkert frekar. Hann hélt reyndar áfram og sagði Það hefur fjarað undan samfélagslegum gildum, samkennd og samhjálp og ég hef ekki séð að stjórnvöld hafi haft uppi neina tilburði til að koma í veg fyrir þessa þróun."
Ég býð ennþá þess tíma þegar verkalýðsforingjar átta sig á því hvernig raunveruleikinn virkar. Grétar hefur nú lagst niður á sama lága plan og ýmsir þingmenn stjórnarandstöðunnar með því að útskýra allt það sem þeim mislíkar í samfélaginu sem andrúmsloft sem einhver ber ábyrgð á, í þessu tilviki á það líklega að vera ríkisstjórnin. Allavega segir Grétar í ræðu sinni að ríkisstjórnin hafi ekkert gert til að vinna gegn fyrrnefndu andrúmslofti.
Þá er ekki úr vegi að spyrja, er það hlutverk ríkisstjórnarinnar að berjast gegn andrúmslofti? Ef að andrúmsloftið er græðgi, eins og margir vilja halda fram, á þá ríksstjórnin að berjast gegn því. Segjum nú að ,,andrúmsloftið væri níska. Gætu þá t.a.m. sölumenn og fl. komið fram í fjölmiðlum og sakað ríkisstjórnina um að berjast ekki gegn þessu.
Ég held þó því miður við getum tæplega haldið því fram að þetta sé velferðarfrumvarp með félagslegum áherslum. Þetta stórkostlega tækifæri til að snúa við blaðinu og hreinlega þurrka út stærstu vankantana á velferðarkerfinu er notað til að færa þeim meira sem mest hafa, með því að útfæra illa tímasettar skattalækkanir þannig að hátekjufólkið fær mest.
Síðan hefur andrúmsloftið, þenslan og græðgin gert það að verkum að sumir atvinnurekendur hafa notfært sér ástandið og fengið til starfa erlent vinnuafl sem síðan er misnotað til að knýja niður kjör á almennum vinnumarkaði," sagði Grétar m.a. í ræðu sinni.
Verkalýðsleiðtogar og margir stjórnmálamenn eru alltof duglegir við að velja sér tískuorð til að vekja athygli á málstað sínum. Oft á tíðum blaðra menn einhverja vitleysu sem ekki nokkur maður skilur en hún hljómar bara vel í eyrum þeirra sem ekki vita betur.
Nú hefur margoft verið sýnt fram á að skattalækkanir núverandi ríksstjórnar eru að koma fólki með lágar- og miðlungs tekjur nokkuð vel. (Hafa skal í huga að ef hér væri vinstri stjórn væru skatta ekkert að lækka). Andrúmsloft, þensla og græðgi hafa ekkert með það að gera að menn skuli flytja inn erlent vinnuafl. Það er einfaldlega hagræðing sem er í takt við allt það sem er að gerast í þjóðfélaginu. Hagræðing er hins vegar orð sem vinstrimenn og verkalýðsleiðtogar vilja ekki kannast við.
Svo orkar það líka tvímælis að verkalýðsleiðtogar með hátt í milljón á mánuði skuli í sífellu þykjast vera að berjast fyrir málstað láglaunafólks. Þeir eru út takti við raunveruleika þess fólk sem þeir þykjast vera að berjast fyrir.
Það sem einnig er áhugavert að athuga er að Grétar hefur ekkert fyrir sér í því að það hafi fjarað undir samfélagslegum gildum, samkennd og samhjálp. Það er enginn mælikvarði á slíku og þetta aðeins hluti af áróðursstríði ASÍ. Samkennd og samhjálp samkvæmt þeirra skilningi er oftast fólgin í því að seilast í vasa skattgreiðenda og neyða þá til að greiða fyrir hitt og þetta. Grétar gleymir því að hér eru starfræktur fjöldinn allur að líknafélögum sem meira og minna eru rekin á sjálfboðastarfi og frjálsum framlögum. Það er allt í lagi að menn í stöðu eins og Grétar sýni fram á hvað þeir meini með slíkum upphrópunum.
Ég hef áður skrifað um verkalýðsleiðtoga hér á síðuna en ég til oft að þeir geri verkafólk í þjóðfélaginu meiri skaða en gagn. Hvet ég fólk til að lesa þá grein.
Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr(a)simnet.is
Fimmtudagur, 6. október 2005
Ritstjórnarviðhorf - 16 ára stúlka hengd í Íran
Þann 15.águst var 16 ára gömul stúlka hengd á fjölfarinni götu í miðbæ Neka í norður Íran fyrir það að hafa haft samfarir sex sinnum ógift. Stúlkan var dæmd til dauðu í undirrétti, og var dóminum ekki haggað í hæstarétti Írana.
Hún fékk enga lögfræði aðstoð, þrátt fyrir að hafa borið sig eftir henni eftir fremsta megni.
Hvergi í heiminum eru framkvæmdar eins margar dauðarefsingar og í Íran, og mjög oft eru það unglingar sem eru teknir af lífi.
Íhald.is vill vekja athygli á þessu og vekja fólk til vitundar.
Íhald.is fordæmir slíkar refsingar og vonar að fleiri taki undir.
Ritstjórn Íhald.is
Sjá meira um málið:
http://www.iranfocus.com/modules/news/article.php?storyid=80 http://www.iranfocus.com/modules/news/article.php?storyid=137
Miðvikudagur, 5. október 2005
Tillögur til Borgars Þórs
Borgar Þór Einarsson var kjörinn formaður Sambands Ungra Sjálfstæðismanna á ný afstöðnu þingi sambandsins. Ég er hér með fjórar tillögur til Borgars Þórs, sem settar eru fram í fúlustu alvöru, þrátt fyrir að ýmsilegt gæti virst spaugilegt í þeim. SUS þarf að verða virkara félag. Vinstrimenska er í tísku hjá ungu fólki í dag, og þykir voðalega töff og flott. Það er auðvelt að vera á móti, að vilja bæta hag þeirra sem minnst mega sín o.s.frv. Ungir Sjálfstæðismenn þurfa að vera duglegir við að benda á siðferðislega og efnahagslega yfirburði Sjálfstæðisstefnunnar, gera hana töff og cool. Þegar ég hóf nám við Háskólann á Akureyri sá ég að skólinn var fullur af plagötum frá Samfylkingunni, félagi Herstöðvaandstæðinga og annarra vinstri afla. Ekkert bólaði þó á málflutningi Sjálfstæðismanna. Ég sé fólk útum allt með VG nælur, í Che Guevara bolum og slíku en engan sé ég með Sjálfstæðisflokks barmmerki. Það er orðið tímabært að mála landið blátt láta í sér heyra. Ef að ungir Sjálfstæðismenn þegja meðan að hugmyndafræði vinstrimanna er predikuð, verður okkar hugmyndafræði undir. Hér koma tillögurnar:
- Útvarpsstöð
SUS ætti að koma á laggirnar útvarpsstöð sem flytti pólítískan áróður og fréttir. Nóg er af fréttum í vinstri-sinnuðu ljósi. Efist einhver um það ætti hann að lesa bók Ólafs Teits Guðnasonar, Fjölmiðlar 2004. Ýmsir framhaldsskólar, AA-samtökin og fleiri, hafa stofnað útvarpsstöðvar, og ætti SUS alveg að ráða við það verkefni. Ég legg til að Bjarni Már Magnússon verði með fasta þætti um landgrunnsmál, botnvörpu veiðar og réttarstöðu geimvera og að Arnar Þór Stefánsson fjalli um landbúnaðarmál (segja kýr mu eða mö?) hlustendum til ómældrar skemtunar. Einnig þyrftu að vera alvarlegri þættir um stjórnmál. Ég óska hér með eftir stöðu útvarpsstjóra. Ég bendi einnig á það að ýmis fyrirtæki í þessu landi eru velviljuð í garð Sjálfstæðisflokksins og sníkjuferðir til styrktar stöðinni ættu að vera nokkuð þægilegar.
- Ókeypis dagblað
SUS ætti að dreifa blaði sem er í svipuðu formi og Grapevine í sjoppur og skóla, og dásama kosti frjáls markaðshagkerfis, og flytja fréttir af vondri stöðu mála í Venesúela, Kúpu og fleiri haftalöndum. Það eru alltaf einhverjir með áróður gegn kapítalismanum (ég man eftir grein í Grapevine um gjaldþrot Kapítalismanns til að nefna dæmi). Staðreyndin er sú að Kapítalisminn er einn helsti grundvöllur framfara og velmegunnar í heiminum. Benda þarf aðdáendum Sósíalisma á það að Kúpverjar flýja á gúmmíslöngum frá Kúpu og yfir til Bandaríkjanna. Benda þarf á að landsframleiðsla og verðmætasköpun dregst saman á ógnarhraða í Venesúela, þrátt fyrir að þeir flytji út óhemju mikið af olíu. Það mætti einnig benda á ýmislegt óréttlæti í veröldinni. 4000 manns hafa verið teknir af lífi síðan árið 1979 í Íran fyrir það að vera samkynhneigðir. Dauðadómurinn býður einnig þeirra sem stunda kynlíf fyrir hjónaband í Íran, komist verknaður þeirra upp, og hafa margir týnt lífi fyrir þær sakir, m.a. 16 ára stelpa í águst í ár. Einnig mætti vekja athygli á því að um 100.000 manns eru þrælar í Súdan. Skemmtilegt væri að segja sögu af nema nokkrum í Harvard sem fór nýlega til Súdan og keypti sér þræl á opnum þrælamarkaði, bara til að prófa. Tala mætti um ótvíræða kosti HNATTRÆNS FRELSIS, sem menn kalla oft alþjóðavæðingu, sem er gildishlaðið neikvætt orð í hugum vinstri manna. Það er margt hægt að skrifa í svona blað. Ég býð sjálfan mig fram til blaðamensku á blaði þessu, og til vara sem ritstjóra, fái ég ekki embætti útvarpsstjóa SUS. Ég minni aftur á þægilegar snýkjuferðir til velviljaðra fyrirtækja.
- Sögurýnishópur
SUS ætti að setja á laggirnar sögurýnishóp. Í þessum hópi mætti grafa það upp að ýmsir frambjóðendur nútímalegra jafnaðarmanna vildu banna frjálsa fjölmiðlun í landinu. Þeir vildu m.ö.o. að RÚV eitt fengi að starfa bæði á útvarps og sjónvarpsmarkaði. Vinstri menn voru andvígir því að verslanir fengju að vera opnar allan sólarhringinn, og hafa alltaf viljað banna og banna og banna og banna og banna og svo banna aðeins meira. Þetta ætti að kynna vel og rækilega fyrir ungu fólki í landinu. Síðan mættu SUS liðar vera duglegir við að spyrja þessa stjórnmálamenn spjörunum úr: ,,Hvers vegna máttu Bylgjan og Stöð 2 ekki hefja starfsemi sína?. ,,En væri það ekki bara hreint og klárt ofbeldi að banna Matarkaupum hf, að hafa búð sína opna seint á kvöldin?... Þetta yrði skemmtilegt. Minni aftur á þægilegar snýkjuferðir!
- Samstarf við fyrri stjórn SUS og Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson
Það var einkennilegt að enginn úr fráfarandi stjórn SUS náði kjöri í stjórn á landsþinginu um helgina, nema sá einn sem lýst hafði yfir stuðningi við Borgar Þór. Það var Stefán Friðrik Stefánsson, formaður Varðar á Akureyri, og skrifar hann m.a. pistla hérna hjá okkur á íhaldinu. Það eru margir með mikla reynslu og kunnáttu sem virðast ekki fá að nýta krafta sýna í þágu SUS. Margir þeirra eru með hugmyndafræðina alveg á hreinu, og flinkir talsmenn frelsis í viðskiptum. Hér er ég að tala um marga fráfarandi stjórnarmenn í SUS og Vilhjálmur Þ Vilhjálmsson sem hlaut 458 atkvæði í formannskosningu Heimdallar um daginn svo að dæmi séu tekin. Slíkum á að veita mikilvæg verkefni, svo sem eins og framkvæmdastjórastöðuna. Það gæti leitt til sátta innan SUS, sem leiddi til þess að fleiri hendur kæmu að starfseminni. Margar hendur vinna létt verk. Óþarfi er að fara í snýkjuferðir til að fjármagna þennan lið.
Kveðja
Sindri Guðjónsson,
ritari Varðar, félags ungra Sjálfstæðismanna á Akureyri, og í ritstjórn íhald.is
P.S. Ég vil þakka Kára Allanssyni fyrir innblástur sem hann veitti mér á leiðinni til og frá Stykkishólmi.
Mánudagur, 3. október 2005
Mánudagspósturinn 3. október 2005
Sú var tíðin að áróður íslenzkra aðdáenda Evrópusambandsins gekk allur meira eða minna út á það að við Íslendingar værum að missa af einhverri hamingjulest til paradísar með því að standa fyrir utan sambandið. Talað var um hástemmd hugtök í því sambandi eins og "Evrópuhraðlestina" og sitthvað í þá veruna. Þessi málflutningur var sérstaklega áberandi á síðasta áratug nýliðinnar aldar. En svo breyttist þetta allt fyrir aðeins fáeinum árum og síðan hefur áróðurinn allur verið með allt öðru móti. Ekki er lengur skírskotað til Evrópusambandsins sem einhvers konar paradísar þar sem lífið sé svo miklu, miklu betra en utan þess. Rauði þráðurinn er heldur ekki lengur sá að það sé eftirsóknarvert fyrir Íslendinga að ganga í sambandið. Nú eru skilaboðin þau að Ísland muni fyrr eða síðar neyðast til að ganga í Evrópusambandið hvort sem fólkinu í landinu líkar það betur eða verr og því sé eins gott að gera það bara sem fyrst. Hin meinta paradís er sem sagt orðin að meintri nauðung í munni íslenzkra Evrópusambandssinna.
Annars er þessi merkilega þróun út af fyrir sig ekki skrítin ef málið er skoðað nánar. Það hefur einfaldlega reynst sífellt erfiðara og erfiðara fyrir íslenzka áhangendur Evrópusambandsins að telja fólki trú um að það sé gott að ganga í sambandið, sérstaklega með tilliti til efnahagsmála. Og undir það síðasta hafa þeir augljóslega með öllu gefið slíkar tilraunir upp á bátinn og þess í stað tekið þann pól í hæðina að reyna að sannfæra fólk um að það muni ekki hafa neitt val um það hvort Ísland gangi í Evrópusambandið eða ekki. Það sé bara afgreitt mál og fólk muni ekki hafa neitt um það að segja. Eins lýðræðisleg og þau skilaboð nú eru! En Evrópusambandið verður nú seint skilgreint sem lýðræðislegasta fyrirbæri sem fyrirfinnst og kannski smitast eðli þess út til þeirra sem trúa á það í blindni.
Spurningin í nýjustu könnuninni á Pólitík.is, vefriti ungra jafnaðarmanna, er einmitt lýsandi dæmi um þennan hugsunarhátt skósveina Evrópusambandsins hér á landi. Hún er svo hljóðandi: Eigum við taka upp evruna þegar við göngum í ESB? Fyrir það fyrsta efast ég stórlega um að þeir sem ábyrgð bera á þessari spurningu séu frekar en aðrir þess umkomnir að fastnegla að jafn ólíklegur atburður eigi sér stað á einhverjum tímapunkti í framtíðinni og að Ísland gangi í Evrópusambandið. Í annan stað lýsir spurningin auðvitað alveg ótrúlegri vanþekkingu á Evrópumálunum en eins og flestir vita sem eitthvað vita um þann málaflokk er upptaka evrunnar skilyrði fyrir aðild nýrra ríkja að sambandinu. Þannig að það yrði ekkert val um það hvort evran yrði tekin upp hér á landi eða ekki tækju Íslendingar á annað borð upp á þeirri endemis vitleysu að ganga í Evrópusambandið.
Ég sendi annars ritstjóra Pólitík.is (sem reyndar er víst hættur núna) tölvupóst fyrir helgi og benti honum á þetta til gamans en bað hann samt lengstra orða að hrófla ekki við könnuninni þar sem ég hefði ekkert á móti því að pólitískir andstæðingar mínir skytu sig í fótinn með því að opinbera vanþekkingu sína. Ég fékk að vísu ekkert svar frá ritstjóranum en hann hefur a.m.k. greinilega orðið við ósk minni því könnunin er enn á sínum stað óbreytt. Það er einkar ánægjulegt :)
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004