Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2004

Höldum í jólin!

Jólin eru gengin í garð. Undanfarnar vikur höfum við búið okkur undir hátíðina og nú fáum við enn einu sinni að njóta hennar, helst með hefðbundum hætti.

Jólahald okkar staðfestir nefnilega og sannar hve vanaföst við erum í eðli okkar og viljum endilega hafa allt í föstum skorðum. Það kemur skýrt fram í siðum og venjum einstaklinga og fjölskyldna þar sem jólamaturinn á helst að vera sá sami ár eftir ár, vandamönnum er boðið á sama tíma og í fyrra og jólaskreytingarnar heima fyrir eru með sama hætti og þær hafa alltaf verið. Þannig líður okkur best.Þess vegna er ástvinamissir, einmanaleiki, heilsubrestur og fátækt aldrei sárara en einmitt á jólum – því þá getur hátíðin ekki orðið eins og áður.

Slík íhaldssemi er sannarlega dyggð en einnig skýr vísbending um ríka þörf okkar fyrir öryggi og vissu í heimi umróts og óvissu.Það á vel við því kjarni kristinna jóla er einmitt öryggi og vissa. Allt frá því englarnir sögðu hirðunum á Betlehemsvöllum að óttast ekki, hefur gleðiboðskapurinn um velþóknun Guðs, kærleika og umhyggju í garð mannkyns breiðst út um mestallan heiminn, kynslóð eftir kynslóð.

Hér á landi hefur fæðingu frelsarans verið fagnað frá því landnám hófst. Kynslóðirnar hafa lifað og dáið, glaðst og syrgt, notið og þjáðst, en allar átt þessa kjölfestu, styrk og æðruleysi þeirra sem vita sig undir velþóknun Guðs í meðbyr og mótlæti.

Í einum fallegasta jólasálminum okkar yrkir sr. Valdimar Briem:

„Sá Guð, er ræður himni háum,
hann hvílir nú í dýrastalli lágum,
sá Guð, er öll á himins hnoss,
varð hold á jörð og býr með oss.“

Þessar andstæður eru dýpt þess boðskapar sem jólin snúast um og byggja á. Litla barnið í jötunni í Betlehem er Guð himnanna. Almáttugur Guð er orðinn ósjálfbjarga barn. Hann, sem á allt, er rúinn öllu og algjörlega háður umhyggju annarra.Þannig kemur Kristur til okkar á jólum og afstaða okkar skiptir máli, vilji okkar skiptir máli, viðbrögð okkar skipta máli. Ekki nægir að samsinna; þörf er svars í verki.Þjóðfélag okkar byggir á kristnum grundvelli eins og samfélögin í nágrannalöndunum. Á þeim grundvelli hefur mótast ábyrgðarkennd, umhyggja og samhjálp sem við viljum áreiðanlega öll varðveita og viðhalda.Engin bygging stenst ef grundvöllur hennar er fjarlægður. Það á einnig við um samfélagsbygginguna. Jólin minna okkur á að kærleiksboðskapur kristinnar trúar er veigamikill hluti af grundvelli hennar sem við vildum ekki vera án.

Höldum í hefðirnar og njótum þess að hafa allt í föstum skorðum – en gleymum ekki kjarnanum, tilefninu, fæðingu frelsarans.Látum ljós hans lýsa okkur á jólum og um alla framtíð. Verum í liði ljóssins og stuðlum að því að gleðiboðskapur kristninnar berist áfram til komandi kynslóða hér á landi – og um víða veröld.

Guð gefi okkur sannan jólafögnuð, frið í hjarta og vissu um velþóknun Guðs sem hvorki breytist né bregst, hvað sem yfir dynur.

Sr. Ólafur Jóhannsson


Ritstjórnarviðhorf - Óþarfa afskipti Samkeppnisstofnunar

Í dag birtist frétt í Fréttablaðinu þess efnis að Samkeppnisstofnun hefði farið þess á leit við forsvarsmenn Smáralindar að þeir hættu að birta auglýsingu þar sem barn syngur jólalag umvafið jólaseríu sem kveikt var á, ,,svo ekki þyrfti að koma til frekari afskipta stofnunarinnar" eins og segir í fréttinni. Samkeppnisstofnun ákvað að blanda sér í málið eftir að hafa fengið ábendingu frá Herdísi Storgaard, verkefnisstjórna barnaslysavarna Lýðheilsustöðvar (já, það opinbera embætti er til).

Sigurjón Heiðarsson hjá Samkeppnisstofnun sagði að auglýsingin væri talin stangast á við ákvæði í samkeppnislögum sem varðaði meðal annars hugsanleg áhrif auglýsinga á börn. Þannig er nú það. Auglýsingin er talin stangast á við hugsanleg áhrif á börn.
Ekki er öll vitleysan eins. Við vitum auðvitað öll að foreldrar eru ekki í stakk búnir að passa börnin sín og flest börn á Íslandi er einmitt það vitlaus að þau vefja sig inn í jólaseríu og kveikja á henni við minnsta tilefni.

Hafa ber í huga að Samkeppnisstofnun er sú stofnun sem mest hefur kvartað undan peningaleysi til að sinni ,,mikilvægum" verkefnum sínum. Stjórnarandstaðan hefur tekið undir í grátkórnum og sagt að efla beri stofnunina til muna og hana megi ekkert skorta.

Ég legg til að Samkeppnisstofnun (fyrst hún er á annað borð til) taki sér fyrir hendur eitthvað annað en að eyða tíma í að hóta verslunareigendum ef þeir birta ,,rangar" auglýsingar og ef þeir gleyma að verðmerkja vöru rétt og svo frv.

Gísli Freyr


Gleðileg jól Úkraína

Á sunnudaginn kemur, annan dag jóla, ganga Úkraínumenn að kjörborðinu þriðja sinni á innan við tveimur mánuðum. Í fyrri umferð kosninganna sem fram fór 31. október hlaut enginn frambjóðandi hreinan meirihluta og þurfti því að kjósa aftur milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hlutu. Seinni umferðin fór fram 21. nóvember síðastliðinn og var hin opinbera niðurstaða sú að Yanukovych forsætisráðherra hefði sigrað með tæplega þriggja prósentustiga mun. Flestir þekkja í grófum dráttum atburðarásina sem fylgdi í kjölfarið. Strax vöknuðu miklar grunsemdir um að brögð hefðu verið í tafli við framkvæmd kosninganna og svo fór að hæstiréttur landsins ógilti úrslit þeirra.

Með nokkurri einföldum – en jafnframt sanni – má segja að Yanukovych þessi sé fulltrúi afturhaldsaflanna í landinu en mótframbjóðandi hans, Viktor Yushchenko leiðtogi stjórnarandstöðunnar vill stíga skref í átt til frelsis. Hann vill aukna samvinnu við vesturlönd á meðan Yanukovych vill líta meira til valdhafanna í Kreml.

Úkraína hefur aðeins búið við sjálfstæði í 13 ár, þ.e. frá því að Sovétríkin leystust upp.
Í landinu búa um 48 milljónir manna. Tæpur þriðjungur þeirra lifir undir fátæktarmörkum samkvæmt nýlegri skýrslu CIA. Samt eru í landinu miklar auðlindir, einkum í formi jarðefna, s.s. olíu og jarðgass – svo dæmi séu tekin. Nánari upplýsingar um land og þjóð er að finna í fyrrnefndri skýrslu.

Fullvíst má telja að aukið frelsi í atvinnulífi og viðskiptum í landinu sé lykillinn að aukinni hagsæld líkt og annars staðar. Landið er enn að verulegu leyti í fjötrum ríkisforsjár – sem eru leifar frá alræðistímanum. Þrátt fyrir breytt stjórnarform hefur gengið fremur hægt að breyta löggjöfinni til samræmis við lýðræðislegt skipulag.

Þó Viktor Yushchenko teljist sennilega ekki sérlegur hægrimaður á vestrænan mælikvarða verður að telja hann mun líklegri en andstæðing hans til að hrinda nauðsynlegum umbótum í framkvæmd. Það er því óskandi að Úkraínumenn beri gæfu til þess að kjósa rétt á sunnudaginn kemur og að engin brögð verði í tafli að þessu sinni.

Þorsteinn Magnússon


Morð í Fallujah?

Stríð eru alltaf slæm og ljót. Þar gerist margt sem miður fer og í nútímanum sjáum við allt, bæði það góða og slæma. Við sjáum sigrana en einnig mistökin. Það vill reyndar þannig til að fjölmiðlum finnst mikilvægara að sýna mistökin.

Um daginn sáum við myndir í sjónvarpinu af ungum bandarískum hermanni þegar honum varð það á að skjóta ,,óvopnaðan” mann fyrir framan myndatökumann NBC sjónvarpsstöðvarinnar.

Þetta var að sjálfsögðu vatn á myllu þeirra sem telja stríðið í Írak ólöglegt og telja bandaríkjaher vera fremja stríðsglæpi í stórum stíl.

Það er ekki tilgangur minn hér að taka upp hanskann fyrir þann hermann sem skýtur óvopnaðan mann með köldu blóði. Ekkert réttlætir slíkt morð .Hins vegar hefur komið í ljós að ,,saklausi” Írakinn sem þarna á að hafa legið særður í rólegheitum í moskvu í Fallujah var vopnaður byssu, handsprengju og við fulla heilsu.

Flokkurinn sem réðist inn í þessa moskvu höfðu lent í svipuðum aðstæðum daginn áður. Byrjað var að sprengja fyrir utan og þegar það var talið óhullt var ráðist inn í moskvuna.
Í einu horninu lá ,,slasaður" íraskur andspyrnumaður (sem Magnús Þór Hafsteinsson alþm. styður af fullum hug) og þóttist vera sofandi/dauður. Þegar amerísku hermennirnir komu nær til að athuga líðan hans sneri hann sér að sér og skaut annan þeirra í mjöðmina. Félagi hermannsins var fljótur að bregðast við áður en hryðjuverkamaðurinn gat skotið aftur.

Það eru alltaf tvær hliðar á öllum málum.

Ég ætla s.s. ekkert að hafa fleiri orð um þetta ákveðna mál. En ég bendi áhugasömum að skoða hér pistil eftir Michael Reagan (son Ronalds Reagan fyrrv. Bandaríkjaforseta).
Hann tekur upp aðra hlið á málinu sem ekki fer mikið fyrir í fjölmiðlum.
Það hentar víst ekki þeim fjölmiðlum sem eru sjálfir á móti þessu stríði.

Gísli Freyr Valdórsson


Ritstjórnarviðhorf - Listaverkakaup ríkisins

Mikið hefur verið skeggrætt síðustu daga kaup ríkisstjórnarinnar á teikningum listamannsins Sigmund frá Vestmanneyjum. Halldór Ásgrímsson reiddi út heilar
18 milljónir fyrir um 10.000 teikningar og til stendur að setja upp safn í Eyjum með þessum verkum. ( sem einkaaðilar hefðu ekki geta gert ??)

Sitt sýnist hverjum um þetta mál. Flestir eru sammála um að Sigmund sé hæfileikaríkur og teikningar hans vissulega efni í góða bók og eiga vel heima á góðu og skemmtilegu safni.

Mikið hefur þó heyrst að peningunum hefði betur verið varið í hitt og betur varið í þetta.

En hvernig hefði verið að eyða þessum peningum ekki...?


Evrópusambandið og kvótakerfið

Sumir þeir, sem lítt spenntir eru fyrir kvótakerfinu, eiga það til að segja að það sé eins gott að við göngum bara í Evrópusambandið þar sem við ráðum hvort sem er ekkert yfir Íslandsmiðum eins og staðan er í dag. Yfirráðin yfir þeim séu í höndunum á fámennri klíku manna hér á landi. Jafnvel heyrir maður því fleygt að rétt væri að ganga í sambandið allt að því einvörðungu í því skyni að koma meintu höggi á umrædda aðila. Þetta segja menn allajafna án þess að hafa góða yfirsýn yfir málið og án þess að hafa kynnt sér staðreyndir þess til hlítar. Það er vitanlega til marks um mikla skammsýni að láta andúð á einhverjum aðilum ráða afstöðu sinni til pólitískra álitamála og sérstaklega jafn víðfems málaflokks og Evrópumálanna.

En hvaða skoðun sem menn kunna að hafa á ágæti kvótakerfisins þá eru flestir sammála um að ef við Íslendingar gengjum í Evrópusambandið myndi kvótakerfið sem slíkt halda sér þar sem sambandið hefur ekki bein afskipti af því með hvaða hætti aðildarríkin skipta þeim kvóta sem það úthlutar þeim. Þannig hefur verið bent á að hliðstætt kvótakerfi sé við líði í Hollandi eins og hér á landi. Aftur á móti myndi aðild Íslands að Evrópusambandinu þýða að stjórn fiskveiða á Íslandsmiðum myndi að nær öllu leyti færast til sambandsins og þar með talið t.a.m. ákvörðun heildarkvóta. Íslendingar myndu auk þess ekki lengur sitja einir að veiðum við Ísland eins og ítrekað hefur komið fram í máli forystumanna innan sambandsins á undanförnum árum.

Lengi getur vont versnað
Annars ætti öllum að vera ljóst, sem eitthvað hafa kynnt sér þessi mál, að hversu slæmt sem ýmsum kann að þykja íslenzka kvótakerfið þá er fiskveiðistjórnun Evrópusambandsins augljóslega verri. Nægir þar sennilega að nefna tíðar fréttir á undanförnum árum af hruni fiskistofna í lögsögu sambandsins og nú síðast fyrir nokkrum dögum síðan. Er nú svo komið að Evrópusambandið hefur loksins ákveðið að grípa til aðgerða og boðað niðurskurð aflaheimilda upp á tugi prósenta sem mun þýða að leggja þarf fiskiskipum í þúsundatali innan sambandsins með tilheyrandi efnahagskerppu í sjávarúrvegshéruðum og fólksflótta frá þeim sem nægur mun vera fyrir.

Þó hafa fiskifræðingar ráðlagt ráðamönnum Evrópusambandsins mun meiri niðurskurð og jafnvel fiskveiðibönn á ákveðnum svæðum og hafa lengi varað þá við því hvernig mál væru að þróast. Þannig kallaði t.d. Brezka vísindaakademían, æðsta vísindastofnun Bretlands, sameiginlega sjávarútvegsstefnu sambandsins „hneyksli“ fyrir rúmu ári síðan og sakaði það um að ákvarða meiri heildarkvóta en fiskistofnar þyldu og stuðla þannig að hruni þeirra. Evrópusambandið er hins vegar löngu orðið frægt fyrir að hunza ráðleggingar vísindamanna í þessum efnum.

Sótt á önnur mið
Vegna sífellt verra ásigkomulags eigin fiskimiða Evrópusambandsins hefur það sótt í stöðugt meira mæli í mið ýmissa annarra ríkja, þá ekki sízt í Vestur-Afríku. Fiskistofnum í lögsögu þessara ríkja hefur hrakað mjög á undanförnum árum og segja heimamenn að gömul og góð mið séu nú ekki svipur hjá sjón. Segja ríkin þessa þróun fyrst og fremst til komna vegna Evrópusambandsins sem þau hafa sakað um ofveiði og fyrir að virða ekki fiskveiðisamninga.

Einnig hefur Evrópusambandið sózt eftir að komast í mið ýmissa annarra þjóða og má þar t.a.m. nefna Grænlendinga og Norðmenn svo ekki sé minnzt á okkur Íslendinga. Þannig gerði sambandið t.a.m. þá kröfu, þegar samningaviðræður voru í gangi um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) fyrir rúmum áratug síðan, að kveðið væri á í honum um að sambandinu væri úthlutað ákveðnum kvóta í íslenzkri lögsögu.
Það er því afar einkennilegt að sumir skuli halda að ef við Íslendingar sæktum um aðild að Evrópusambandinu myndi það sætta sig við það að við sætum ein að miðunum við Ísland. Eitthvað sem forystumenn sambandsins hafa aldrei ljáð máls á heldur þvert á móti sagt að við gætum ekki litið á miðin við Ísland sem eitthvað einkamál okkar ef við gerðumst þar aðilar.

Nóg til að afskrifa aðild
Það er því ljóst að þegar menn tala um Evrópusambandsaðild sem einhvers konar lausn frá kvótakerfinu þá vaða menn í villu. Ljóst er að Evrópusambandsaðild myndi ekkert bæta í þeim efnum. Annars má auðvitað aldrei gleyma því að þó sjávarútvegsmálin spili stórt hlutverk í umræðum um Evrópumálin hér á landi þá er margt annað sem gerir það að verkum að hagsmunum þjóðarinnar yrði ekki borgið með aðild að Evrópusambandinu. Ókostirnir í tengslum við sjávarútvegsmálin eru hins vegar svo miklir að þeir einir eru í raun nóg til að afskrifa aðild.

Því má heldur ekki gleyma að utan Evrópusambandsins höfum við Íslendingar margfalt meira um það að segja hvernig staðið er að stjórn fiskveiða við Ísland en raunin væri nokkurn tímann innan sambandsins. Við kjósum það fólk sem tekur ákvarðanirnar í þessum málum eins og staðan er í dag. Innan Evrópusambandsins væru þau völd hins vegar fyrst og fremst í höndum embættismanna í Brussel sem hafa ekkert lýðræðislegt umboð frá almenningi.

Hjörtur J. Guðmundsson

Þess má geta að greinin er rituð út frá stöðu mála eins og hún er í dag. Eins og getið er í henni myndu yfirráðin yfir sjávarútvegsmálum hér við land færast að mestu leyti til Evrópusambandsins ef við Íslendingar gerðumst þar aðilar. Því er í raun engin trygging fyrir því að sambandið muni ekki skipta sér í framtíðinni af því hvernig aðildarríkin skipta þeim aflaheimildum sem sambandið úthlutar þeim. Ef til þess kæmi vita menn heldur ekkert með hvaða hætti þau afskipti yrðu, en hingað til hefur slíkt þó yfirleitt gengið út á það að sífellt meira vald hefur fluzt frá aðildarríkjunum og til sambandsins.

Birtist einnig í Morgunblaðinu þann 17. desember 2004


Uppáhalds stjórnmálamaðurinn minn: Alain Madelin

Ég á mér uppáhalds stjórnmálamann. Hann heitir Alain Madelin og er franskur.
Ég dáist fyrst og fremst að hugdirfsku hans – að standa fyrir frelsis hugsjónir sínar með djörfum og áberandi hætti, í landi þar sem ríkis-vinstri kúgun er með allra vinsælasta móti. Í landinu eru þrír byltingasinnaðir kommúnistaflokkar, sem fá til samans um 5% fylgi. Síðan eru það lýðræðissinnarðir kommúnistar, sem eru miklu stærri en byltingaflokkarninr til samans.
Hægra megin við lýðræðiskomma-flokkinn, eru frönsku ,,vinstri-grænir” og hafa þeir drjúgt fylgi og Sósíalistaflokkurinn (flokkur Mitterand) sem er stærsti flokkur landsins til skiptis við flokk Chirac.
Svo kemur miðjuflokkurinn UDF, sem er nú í stjórnarstarfi með flokki Chirac. Þeir eru einskonar Framsókn/Samfylking að mér sýnist. Svo er það ,,hægri” flokkur Chirac UMP, sem hefur eitthvað um 25% flygi að ég held, og er í stjórn, og málamyndar duglega við samstafsflokk sinn og hina ofur vinstrisinnuðu stjórnarandstöðu.
Svo er að sjálfsögðu til þjóðernisflokkurinn FN, sem hefur að mínu mati ekkert með vinstri og hægri að gera. Þetta er einsmálsflokkur, sem nýtur aðalega óánægjuflygis, og vill herða innflytjendalöggjöfina. Hvers vegna FN er svo flokkaður sem hægri flokkur er mér ofviða að skilja.

Í þessu landi sósíalismanns, þar sem fyrirtæki fá greidda vissa upphæð frá ríkinu fyrir hvern mann sem þeir hafa í vinnu, og atvinnuleysið og samneyslan hafa ráðið ríkjum, skín ein vonarglæta, Alain Madelin.

Í Frakklandi eru kjör aðstæður til landbúnaðar, og hvergi betra að rækta vín o.fl.
Málmar finnast í fjöllum, og allt er til alls. Samt er efnahagsástandið betra á hinu kalda Íslandi. Ástandið hefur að sjálfsögðu skánað undir Chirac.

Hér á eftir koma tilvitnanir í Alain Madelin, sem ég hef þýtt úr frönsku.

Atvinnumál:

,,Það er ekki erfitt að skapa störf fyrir ungt fólk með opinberu fé, en sá sem sáir slíkum störfum, uppsker tálvon og skatta.”  1997

,,Atvinnuleysi orsakast af skorti á sköpunargleði, og hömlum á frjálsum viðskiptum.”
1995

,,Til þess að fjölga störfum, þarf að fjölga vinnuveitendum, og eyða þeim hindrunum sem eru í vegi þeirra...”
1995

,,Karlar og konur sem eiga fyrirtæki mynda hið skapandi og ábyrga Frakkland, en verða dag eftir dag fyrir barðinu á ásökunum, reglugerða fargani og óskiljanlegum skrifræðis eyðublöðum. Þau vita hvað orðin ,,gjalddagi”, ,,ógreiddur” og ,,uppgjör” þýða. Þau hafa of lengi verið látin afskiptalaus, og jafnvel fyrirlitin af stjórnvöldum og fjölmiðlum.”
1995 (Mitterand hafði verið við völd – Kommaflokkarnir í löggjafarþinginu, og hinir vinstrisinnuðu fjölmiðlar Frakklands búnir að gera atvinnulífinu lífið leitt. – Chirac vann kosingarnar þetta ár, og tók við...)

Um laga og reglugerða fargan:

,,…8000 lög, 40.000 reglugerðir, og 17000 blaðsíðna lögbirtingarblað á hverju ári, að ógleymdum 20.000 reglugerðum frá Evrópusambandinu. Þessar stöðugu árásir, þetta endalausa áreiti yfirvalda, það kæfir allt frumkvæði manna og lífið sjálft.”
Þetta sagði Alain 1993 um ástand mála í Frakklandi.

(Evrópusambandið er orðið miklu aðgangsharðara í dag heldur en árið 1993. Ástandið þá var barnaleikur, miðað við það sem við horfum uppá í dag. Í þessu sambandi vil ég benda á frétt sem birtist þann 12.12.2004 á heimssyn.is þar sem kemur framað kostnaður efnahagslífsins vegna reglugerðafargans Evrópusambandsins í dag sé 83
billjónir króna (83.000.000.000.000 króna) á ári hverju í tapaðri framleiðni.)

Skattamál:

,,Þeim mun meiri skattlagning á vinnu, þeim mun minni hvatning til vinnu.”
Ræða flutt þann 12. des. 1994 í París.

Þar höfum við það.

Alain Madelin þrufti að segja af sér ráðherrastól, en hann var ráðherra í ríkisstjórn Chirac. Frakkar gátu ekki þolað að hafa mann sem vildi frelsi einstaklingsins og ríkisbáknið burt. Hver er sinnar gæfu smiður.

Sindri Guðjónsson


Ritstjórnarviðhorf - Saddam Hussein handsamaður

Þann 13.desember s.l. var liðið ár síðan Saddam Hussein var handsamaður.

Þegar Saddam náðist, fögnuðu íbúar Bagdad ógurlega. Útvarpsstöðvarnar spiluðu gleði og fagnaðar tónlist og menn keyrðu um göturnar syngjandi og hrópandi af gleði.
Al-Zaman, sem er frjálst dagblað sem gefið er út í Bagdad sagði frá handtöku Saddams sem hinum bestu tíðindum:

,,Handtaka Saddams er enn eitt vonartáknið um hreint og réttlátt Írak, langt frá myrkri fortíð, fullri af dýflisum og leyniþjónustu, sem lét mörg þúsund Íraka hverfa, vegna orðs, hvísls, eða vegna skoðanna.”   Al-Zamann, 16.desember 2003.

Gallup gerði skoðannakönnun síðastliðinn mars í Írak, þar sem m.a. var spurt:
"Í ljósi alls þess sem þú kannt að hafa þurft að þola vegna innrásarinnar, finnst þér að það hafi verið þess virði að hrinda Saddam Hussein frá völdum?"
Niðurstöður könnunarinnar eru athyglisverðar,
61% sögðu já, innan við 30% nei, restin var óákveðin.

Ritsjórn Íhald.is


„Ekkí í mínu nafni“

Það er athyglisvert þessa dagana að fylgjast með félagsskap nokkrum hér í bæ sem kosið hefur að kalla sig Þjóðarhreyfinguna. Þarna starfar vinnuhópur fjögurra einstaklinga sem telur sig hafa vit fyrir þjóðinni og ætlar nú að taka sér það fyrir hendur að tala fyrir hönd þjóðarinnar erlendis. Nýjasta uppátæki „Þjóðarhreyfingarinnar“ (sem er samsett af fjórum einstaklingum) er að standa fyrir söfnun á fé meðal landsmanna og er ætlunin að kaupa auglýsingu í The New York Times. Með auglýsingunni ætlar þessi félagsskapur að biðjast afsökunar fyrir hönd allra Íslendinga á stuðningi Íslands við innrásina í Írak?

Það er vert að skoða nokkur atriði varðandi þetta.
Skv. yfirlýsingu „hreyfingarinnar“ á að standa í auglýsingunni, „Við, Íslendingar, mótmælum eindregið yfirlýsingu íslenskra stjórnvalda um stuðning við innrás Bandaríkjanna og „viljugra“ bandamanna þeirra í Írak í mars 2003. Með þeirri yfirlýsingu voru brotin íslensk lög, alþjóðalög – og íslensk lýðræðishefð.“

Síðar í yfirlýsingunni segir að ákvörðunin hafi aðeins verið tekin af tveimur mönnum. Þetta er einmitt það sem þessir fjórir einstaklingar, ásamt nokkrum listamönnum, eru að skammast yfir. Að lítill hópur manna hafi tekið ákvörðun fyrir hönd allrar þjóðarinnar. Þá er ekki úr vegi að spyrja: Hvaðan kemur forsvarsmönnum hinnar sjálfskipuðu "Þjóðarhreyfingar" vald til að tala fyrir hönd Íslendinga á alþjóðavettvangi, já eða bara yfir höfuð? Hvort sem það er á síðum The New York Times eða annars staðar? Hvaða lýðræðislega umboð hafa þessir einstaklingar til þess að tala fyrir hönd þjóðarinnar sem slíkrar? Ekki nokkurt einasta.

Þessi hreyfing telur sig þó geta lagt nöfn allra Íslendinga við þessa auglýsingu. Reyndar liggur ekkert fyrir á þessari stundu hversu margir Íslendingar studdu umtalaða innrás. Það sem liggur hins vegar fyrir er að enn situr sama ríkisstjórn sem í lýðræðislegum kosningum var veitt endurnýjað umboð til stjórnarmyndunar stuttu eftir að stuðningur við innrásina var ákveðinn. Þjóðarhreyfingin var að vísu ekki til þá.

Annað sem vert er að velta fyrir sér. Það er ljóst að það er ekki stríðshrjáð Írak sem á hug allan og hjarta hreyfingarinnar. Í áðurnefndri yfirlýsingu segir: „Verði afgangur af söfnunarfénu, rennur hann óskiptur til Rauða kross Íslands til hjálpar stríðshrjáðum borgurum í Írak.“ Hvers vegna ekki að nota allan peninginn sem safnast í mannúðarmál í stað þess að stríðshrjáðir borgarar Írak séu bara látnir mæta afgangi þegar The New York Times hefur fengið sitt?

Ef að Þjóðarhreyfingin ætlar að biðja írösku þjóðina afsökunar, af hverju kaupa þeir þá ekki auglýsingu í íröskum fjölmiðli? Það er til nóg af þeim, þeir lifa góðu lífi, og ná vel til Íraka. Í dag starfa fjölmiðlar í Írak án afskipta Bandaríkjamanna og hafa fullt málfrelsi. Það er alveg ljóst. Ætli margir Írakar lesi The New York Times? Hver skyldi vera tilgangurinn með þessu uppátæki? Að biðja Íraka afsökunar? Að lina þjáningar stríðshrjáðra borgara í Írak? Eða kannski bara að upphefja þá sem standa að uppátækinu? Svo þeir fái kannski viðtal við sig í The New York Times í kjölfarið auk annarrar fjölmiðlaumfjöllunar? Spurning.
Getur verið að hreyfingin sé að vinna sér inn stig meðal vinstrimanna hér á landi og geta sér orðstír erlendis á sama tíma?

Á sama tíma eru þingmenn stjórnarandstöðunnar aða fara fram á að Íslendingar láti taka sig af lista hina viljugu þjóða. Þannig hefur stjórnarandstaðan, þjóðarhreyfingin og örfáir listamenn sameinast um að þeir telji innrás þessa ólöglega og það sem verra er, óréttmæta. Helst bera þeir fyrir sig orð Kofi Annan, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, þar sem hann lýsti því yfir í viðtali fyrr í haust að hann „teldi“ að innrásin væri ólögleg af því að Öryggisráð S.Þ. hefði ekki samþykkt hana. Hins vegar hefur innrásin aldrei verið úrskurðuð ólögleg og enginn ákæra verið gefin út. Það að leika sér að orðum annars vegar og fella dóm hins vegar er ekki það sama og skýr skil ættu að vera þar á milli.

Aldrei heyrði maður þingmenn stjórnarandstöðunnar og hvað þá heila „þjóðarhreyfingu” hefja upp raust sína þegar Saddam Hussein, synir hans og annað hyski, gengu um Írak, nauðgandi, drepandi og rænandi þegna sína því að lifa í frelsi og velmegun. Ekki er ekki við öðru að búast en þessir sömu aðilar vilji að Saddam Hussein sé enn við völd. Það liggur ljóst fyrir að nauðsynlegt var að koma manninum frá og einnig liggur ljóst fyrir að sá hinn sami reyndi að framleiða gereyðingarvopn og það sem ennþá verra er, ekki er ljóst hvað hann ætlaði sér að gera með þau. Það að vopnin finnist ekki í dag gerir innrásina ekki ólögmæta né óþarfa. Vitað er að Saddam Hussein átti vopn og af einhverjum ástæðum sá hann ástæðu til að vísa vopnaeftirlitsmönnum SÞ úr landi. Hins vegar virðist enginn vita hvar þessi vopn eru en hafa skal í huga að hingað til hafa heldur engin merki fundist um að þau hafi verið eyðilögð.

Þeir íslensku ráðamenn sem tóku þá ákvörðun að styðja innrás bandamanna inn í Írak til að koma Saddam Hussein frá völdum eiga hrós skilið fyrir djarfa ákvörðun. Írakar munu í framtíðinni standa í þakkaskuld við hinar „viljugu” þjóðir.

Gísli Freyr Valdórsson

Birtist einnig í Morgunblaðinu þann 10. des 2004


Að löggjafinn hagi sér syndsamlega...

Ég las nýlega bók eftir Davíð Þór Björgvinsson sem heitir Lögskýringar. Á síðu 21 í bókinni er kafli sem heitir Grunnforsendur við lögskýringar.,,Með því er átt við þær forsendur sem menn gefa sér, jafnvel án þess að hugsa sérstaklega út í þær” svo ég vitni beint í Davíð.

Ein þessara forsendna er sú að ,,löggjafinnhagi sér skynsamlega, eða hafi a.m.k. ætlað sér það.”

Nú vill svo til að undanfarin ár hefur hópur Íslendinga í raun gefið sér það að þeir sem farið hafa með löggjafavaldið í landinu hagi sér að jafnaði SYNDsamlega, eða hafi a.m.k. ætlað sér það.

Þetta er eins konar sjálfkrafa afstaða sem sumir hafa haft t.d. gagnvart Davíð Oddssyni. Allar hans gerðir virðast vera skoðaðar í ljósi þess að honum hafi staðið illt eitt til. Þó er mönnum ómögulegt að skyggnast inn í huga hans, og menn geta því ekki vitað hvaða hvatir liggja að baki í raun.

Hversu oft hefur maður ekki heyrt það sagt – að Davíð Oddson sé spilltur, hann hafi verið við völd lengi og vald spilli...

Fjölmiðlafrumvarpið var lagt fram til þess eins að Davíð gæti náð sér niður á einkaóvini sínum, Jóni Ásgeiri...

Tekjutenging við maka örorkubótaþega orsakast af mannfyrirlitningu og virðingarleysi Davíðs gagnvart öryrkjum...

Davíð og Halldór studdu innrásina í Írak, til þeiss eins að múta Bandaríkjamönnum til þess að halda herstöðinni í fullum rekstri í Keflavík...

Ríkisstjórnin er við völd til þess eins að tryggja að gráðug stórfyrirtæki geti hagnast á almenningi...

Sala ríkisfyrirtækja er til þess eins að hygla einkavinum Davíðs...

Og svo framvegis...

Málið er að fólk sem gefur sér þessar neikvæðu forsendur fyrirfram,
getur aldrei litið málin hlutlausum augum.

Sjálfstæðismaður nokkur átti tal við vinstrisinnaðan kunningja sinn.
Eftir að sjálfstæðismaðurinn hafði reynt að útskýra einhverja ákvörðun ríkisstjórnarinnar fyrir vinstrimanninum, var honum svarað á þessa leið: ,,Þú gefur þér bara að menn hafi ætlað að reyna að gera eitthvað gott! (Hneyksli) Veistu ekki að ríkisstjórnin er spillt? Davíð er búinn að sitja svo lengi, og valdið spillir!”

Svona hugsunarháttur er óþolandi!

Margur telur mig sig.

Sindri Guðjónsson


Næsta síða »

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband