Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 3. október 2005

Sú var tíðin að áróður íslenzkra aðdáenda Evrópusambandsins gekk allur meira eða minna út á það að við Íslendingar værum að missa af einhverri hamingjulest til paradísar með því að standa fyrir utan sambandið. Talað var um hástemmd hugtök í því sambandi eins og "Evrópuhraðlestina" og sitthvað í þá veruna. Þessi málflutningur var sérstaklega áberandi á síðasta áratug nýliðinnar aldar. En svo breyttist þetta allt fyrir aðeins fáeinum árum og síðan hefur áróðurinn allur verið með allt öðru móti. Ekki er lengur skírskotað til Evrópusambandsins sem einhvers konar paradísar þar sem lífið sé svo miklu, miklu betra en utan þess. Rauði þráðurinn er heldur ekki lengur sá að það sé eftirsóknarvert fyrir Íslendinga að ganga í sambandið. Nú eru skilaboðin þau að Ísland muni fyrr eða síðar neyðast til að ganga í Evrópusambandið hvort sem fólkinu í landinu líkar það betur eða verr og því sé eins gott að gera það bara sem fyrst. Hin meinta paradís er sem sagt orðin að meintri nauðung í munni íslenzkra Evrópusambandssinna.

Annars er þessi merkilega þróun út af fyrir sig ekki skrítin ef málið er skoðað nánar. Það hefur einfaldlega reynst sífellt erfiðara og erfiðara fyrir íslenzka áhangendur Evrópusambandsins að telja fólki trú um að það sé gott að ganga í sambandið, sérstaklega með tilliti til efnahagsmála. Og undir það síðasta hafa þeir augljóslega með öllu gefið slíkar tilraunir upp á bátinn og þess í stað tekið þann pól í hæðina að reyna að sannfæra fólk um að það muni ekki hafa neitt val um það hvort Ísland gangi í Evrópusambandið eða ekki. Það sé bara afgreitt mál og fólk muni ekki hafa neitt um það að segja. Eins lýðræðisleg og þau skilaboð nú eru! En Evrópusambandið verður nú seint skilgreint sem lýðræðislegasta fyrirbæri sem fyrirfinnst og kannski smitast eðli þess út til þeirra sem trúa á það í blindni.

Spurningin í nýjustu könnuninni á Pólitík.is, vefriti ungra jafnaðarmanna, er einmitt lýsandi dæmi um þennan hugsunarhátt skósveina Evrópusambandsins hér á landi. Hún er svo hljóðandi: „Eigum við taka upp evruna þegar við göngum í ESB?“ Fyrir það fyrsta efast ég stórlega um að þeir sem ábyrgð bera á þessari spurningu séu frekar en aðrir þess umkomnir að fastnegla að jafn ólíklegur atburður eigi sér stað á einhverjum tímapunkti í framtíðinni og að Ísland gangi í Evrópusambandið. Í annan stað lýsir spurningin auðvitað alveg ótrúlegri vanþekkingu á Evrópumálunum en eins og flestir vita sem eitthvað vita um þann málaflokk er upptaka evrunnar skilyrði fyrir aðild nýrra ríkja að sambandinu. Þannig að það yrði ekkert val um það hvort evran yrði tekin upp hér á landi eða ekki tækju Íslendingar á annað borð upp á þeirri endemis vitleysu að ganga í Evrópusambandið.

Ég sendi annars ritstjóra Pólitík.is (sem reyndar er víst hættur núna) tölvupóst fyrir helgi og benti honum á þetta til gamans en bað hann samt lengstra orða að hrófla ekki við könnuninni þar sem ég hefði ekkert á móti því að pólitískir andstæðingar mínir skytu sig í fótinn með því að opinbera vanþekkingu sína. Ég fékk að vísu ekkert svar frá ritstjóranum en hann hefur a.m.k. greinilega orðið við ósk minni því könnunin er enn á sínum stað óbreytt. Það er einkar ánægjulegt :)

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband