Leita í fréttum mbl.is

Þing kemur saman – forsetaskipti á Alþingi

Alþingi verður sett á morgun af forseta Íslands við hátíðlega athöfn í Alþingishúsinu eftir hefðbundna messu í Dómkirkjunni. Óhætt er að fullyrða að þáttaskil séu í þinginu nú þegar að það kemur saman að nýju á þessu hausti. Fjórir þingmenn hafa horfið á braut frá síðasta þingfundi, þau Davíð Oddsson formaður Sjálfstæðisflokksins, Bryndís Hlöðversdóttir, Guðmundur Árni Stefánsson og Gunnar I. Birgisson. Þrjú þau fyrstnefndu hafa tekið þá ákvörðun að skipta um starfsvettvang og hafa því sagt af sér þingmennsku en Gunnar hefur hinsvegar tekið sér ársleyfi frá störfum, enda orðinn bæjarstjóri í Kópavogi, fyrstur sjálfstæðismanna.

Í stað þeirra taka nú sæti á þingi þau Ásta Möller, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Valdimar Leó Friðriksson og Sigurrós Þorgrímsdóttir. Mest þáttaskil fylgja óneitanlega brotthvarfi Davíðs Oddssonar úr stjórnmálum. Gríðarmikið skarð er við brotthvarf Davíðs að mínu mati. Valdaferill hans var gríðarlega öflugt tímabil í sögu þjóðarinnar og hann leiddi það af miklum krafti - var öflugur forystumaður þjóðar og stærsta flokks landsins á löngu tímabili, farsælu tímabili í sögu íslensku þjóðarinnar. Stjórnmálasagan mun meta hann að mínu mati mjög glæsilega. Þegar hann fer er eftir mikið skarð en í brotthvarfi hans felast þó mikil tækifæri fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Tækifærin eru fólgin í því að standa vörð um arfleifð Davíðs Oddssonar í stjórnmálum og tryggja að flokkurinn okkar verði áfram jafnsterkur og kraftmikill.

Fleiri þáttaskil fylgja setningu þingsins á þessu hausti. Á fyrsta þingfundi verður Sólveig Pétursdóttir fyrrum dómsmálaráðherra, kjörin forseti Alþingis í stað Halldórs Blöndals leiðtoga Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Halldór hefur setið á þingi samfellt frá árinu 1979 og er sá í þingflokki Sjálfstæðisflokksins sem lengst hefur setið á þingi og er elstur þeirra sem sitja á þingi. Segja má að Halldór hafi í raun verið tengdur þingstörfunum með einum eða öðrum hætti allt frá árinu 1961. Hans reynsla er því mjög mikil. Halldór var lengi þingfréttamaður, svo starfsmaður þingflokksins og síðar varaþingmaður og þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Hefur Halldór Blöndal setið á þingi af hálfu flokksins í Norðurlandskjördæmi eystra 1979-2003 og frá þeim tíma fyrir hið nýja Norðausturkjördæmi. Halldór var landbúnaðarráðherra 1991-1995 og samgönguráðherra 1991-1999. Hann varð forseti Alþingis eftir alþingiskosningarnar 1999, sem sennilega mörkuðu sætasta pólitíska sigur stjórnmálaferils Halldórs. Í þeim kosningum tókst honum að leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs í Norðurlandskjördæmi eystra - flokkurinn hlaut flest atkvæði í kjördæminu og varð Halldór fyrsti þingmaður þess, fyrstur sjálfstæðismanna. Hefur Halldór stjórnað þinginu af krafti og unnið vel, bæði fyrir Sjálfstæðisflokkinn í heild sinni og umbjóðendur sína í þeim kjördæmum sem hann hefur starfað í.

Hef ég ekki farið leynt með þá skoðun mína að ég vildi að Halldór sæti áfram á forsetastóli Alþingis. Ég hefði talið mestan sóma að því fyrir þingið og flokkinn auðvitað að hann hefði setið til loka kjörtímabilsins. Allt frá því að ég fór að taka þátt í flokksstarfinu hér fyrir norðan fyrir rúmum áratug hef ég þekkt Halldór og metið mikils forystu hans í stjórnmálum. Halldór er mjög litríkur karakter og hefur leitt flokkinn hér af krafti í rúma tvo áratugi. Það hefur verið mikilvæg leiðsögn og farsæl sem hann hefur veitt okkur hér. Hann hefur unnið vel fyrir fólkið hér í kjördæminu, það er staðreynd sem ég vona að muni aldrei gleymast síðar meir, þó árin líði.

Hans framlag hér hefur skipt sköpum og við getum verið gríðarlega stolt af forystu hans í stjórnmálum. Ég hef alltaf dáðst mjög af þekkingu hans á öllum þáttum tengdum kjördæminu. Hann er ótrúlega minnugur, hafsjór af fróðleik. Halldór er mikill öðlingur, vissulega oft á tíðum nokkuð íhaldssamur að sumra mati og fastheldinn á hefðir og venjur. Tel ég það mjög af hinu góða, t.d. tel ég að hann hafi stýrt þinginu af krafti og staðið vörð um það í gegnum þykkt og þunnt. Sérstaklega taldi ég varnarræðu hans eftir aðför forseta landsins að því í fyrra mjög öfluga og góða. Þá gengu sumir þingmenn úr sal því þeir þoldu ekki varnarræðu forseta fyrir þingið.

Segja má margt um Halldór Blöndal og verk hans, þau tala sínu máli. Þeir sem eru í kjördæmi hans vita hversu vel hann vinnur fyrir umbjóðendur sína. Það hafa fáir menn á vettvangi þingsins verið vinnusamari og ötulli við að vinna að baráttumálum til eflingar virðingu þingsins sem stofnunar en hann. Andstæðingar hans réðust óhikað að honum og fundu honum óvirðuleg orð vegna þess að hann dirfðist að tjá skoðanir sínar með þeim hætti sem hann gerði við þingsetningu fyrir ári, eins og fyrr segir. Þeir sem þekkja Halldór vita að hann tjáir sig um málin þegar hann hefur brennandi skoðanir á því.

Það var til marks um ómerkilegheit stjórnarandstöðunnar að hún allt að því sakaði Halldór um að níða niður þingið með því að tjá skoðanir sínar í þingsetningarræðu sinni í fyrra. Að mínu mati er Alþingi hinn eini sanni vettvangur frjálsrar umræðu, þar sem allar skoðanir mega koma fram, af hálfu þeirra sem kjörnir eru þar til trúnaðarstarfa, hvort sem um er að ræða þá sem hljóta kjör til þeirra verka af hálfu þjóðarinnar sem þingmenn eða þeirra sem þingmenn kjósa til forystu á vettvangi þingsins sjálfs. Það er öllum frjálst að hafa skoðanir, tjá þær og verja ef einhverjir eru ósammála. Það er aldrei hægt að ætlast til að allir séu sammála um hitamál samtímans.

Það er rétt sem Lárus Jónsson fyrrum alþingismaður og forveri Halldórs á leiðtogastóli Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra , sagði í blaðaviðtali við Morgunblaðið fyrir nokkrum árum að stjórnmálin séu enginn hægindastóll. Það er alveg ljóst að sá stjórnmálamaður sem situr á stóli forseta Alþingis er ekki á pólitískum hægindastóli. Hann sækir sitt umboð til kjósenda, rétt eins og aðrir þingmenn, en hefur vissulega umboð sitt til forsetastarfa frá þingmönnum. Það hefur gustað oft um Halldór á ferli hans – hann hefur sett mark sitt á íslensk stjórnmál. Á þeim sex árum sem hann gegndi embætti forseta Alþingis voru þingmenn sumir hverjir misjafnlega vel sáttir við stjórn Halldórs sem forseta á þingfundum.

En það er til marks um virðinguna sem þingmenn bera fyrir persónu Halldórs Blöndals hversu vel þeir kvöddu hann er hann stýrði sínum síðasta þingfundi í maímánuði, fyrir þinglok. Þar töluðu fulltrúar bæði stjórnar og stjórnarandstöðu af virðingu um störf hans og forystu af hálfu þingsins seinustu árin. Hann átti það enda vel skilið - þrátt fyrir snerrur manna á millum bera menn í ólíkum flokkum virðingu fyrir Halldóri. Þar fer öflugur og umfram allt litríkur maður sem hefur sett svip á stjórnmálin hér heima seinustu árin og áratugina. Það er aðeins til einn Halldór Blöndal - hvert sem hann fer setur hann svip á stemmninguna. Við sem þekkjum hann og höfum unnið með honum berum virðingu fyrir honum og pólitískri forystu hans.

Það er óhætt að segja að ég hafi mjög lengi borið mikla virðingu fyrir þessum mæta manni, þau ár sem ég hef tekið þátt í stjórnmálum hér fyrir norðan. Eins og flestir vita er ég formaður í Verði, félagi ungra sjálfstæðismanna á Akureyri. Einn forvera minna á þeim stóli er Halldór Blöndal leiðtogi okkar sjálfstæðismanna í kjördæminu. Á 75 ára afmæli Varðar fyrir tæpum tveim árum var Halldór gerður að heiðursfélaga í Verði. Átti Halldór þá nafnbót svo sannarlega vel skilið. Hefði hann reyndar átt að hafa hlotið hana fyrir margt löngu. Svo margt hefur hann gert gott fyrir okkur í þessu félagi og unnið að því að efla Eyjafjörð með verkum sínum að slíkan heiður átti hann skilið.

Halldór hefur unnið af krafti í öllum sínum stjórnmálastörfum og frægur er fyrir löngu orðinn metnaður hans í samgöngumálum og tillaga hans um Stórasandsveg er þar frægust og vonandi verður hún að veruleika, fyrr en síðar. Hann var formaður Varðar 1964-1965 - varð það upphafið á litríkum stjórnmálaferli hans og forystu fyrir norðlenska sjálfstæðismenn. Forysta hans og leiðsögn hefur verið okkur sjálfstæðismönnum hér farsæl og dýrmæt. Ég vil nota tækifærið og óska Halldóri góðs á þeim þáttaskilum er hann lætur af forsetaembættinu og tekur við formennsku í einni af mikilvægustu nefndum þingsins, utanríkismálanefnd.

Það er alveg ljóst að það verður gaman að fylgjast með þingstörfunum í vetur. Þó veturinn verði væntanlega kaldur verður funheitt í íslenskum stjórnmálum – á kosningavetri.

Stefán Friðrik Stefánsson
stebbifr(a)simnet.is

Powered by Hexia

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband