Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2006

Hvernig á umræðan að vera, Halldór?

Í tengslum við all sérstæðan spádóm sinn á dögunum, um að Ísland verði komið í Evrópusambandið fyrir árið 2015, hefur Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, ítrekað talað um að umræðan hér á landi um Evrópumálin þurfi að þorskast. Þeim ummælum hefur þó ekki fylgt nein útlegging á því hvað átt er við og hvernig umræðan þurfi að vera til þess að Halldór telji hana þroskaða. Reyndar hefur hann sagt að það sé forsenda þess að Ísland geti gengið í Evrópusambandið að umræðan þroskist sem aftur bendir óneitanlega til þess að það sem Halldór eigi við sé að umræðan þurfi að miða að Evrópusambandsaðild til að hún geti talizt þroskuð. Þannig sé um að ræða sama sjónarmið og hjá ófáum öðrum Evrópusambandssinnum að umræða um Evrópumálin sé alls ekki umræða um Evrópumálin nema hún gangi út á það að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið.

Þetta er að vísu ekki í fyrsta skiptið sem Halldór talar út og suður um Evrópumálin og er með yfirlýsingar sem síðan fylgir enginn haldbær rökstuðningur. Skemmst er að minnast ítrekaðra yfirlýsinga hans um að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) sé að verða úreltur, hafi ekki fylgt þróuninni innan Evrópusambandsins og hvað þetta hét nú allt saman. Þessu fylgdu hins vegar aldrei neitt sem sýndi fram á að þessi gagnrýni ætti við einhver rök að styðjast. Enda hefur Halldór undir það síðasta varla minnst á þetta og sama er að segja um ýmsa aðra sem tóku þátt í þessum grátkór með honum. Það hefur nefnilega einmitt ítrekað verið bent á af aðilum EES-samningsins að hann virki stórvel og jafnvel betur en menn gerðu ráð fyrir í upphafi. Hins vegar sjá Evrópusambandssinnar samninginn í dag fyrir sér sem hindrun fyrir því að koma Íslandi inn í Evrópusambandið og vilja hann því fyrir alla muni feigan sem aftur varpar ljósi á málflutning Halldórs og félaga.

Ég vil bara leggja til við Halldór að hann fari að breyta aðeins til og bæði tala skýrar um Evrópumálin og færa kannski einhver rök fyrir yfirlýsingum sínum ef hann hefur áhuga á því að vera tekinn alvarlega. Hann hefur t.d. ítrekað verið spurður að því af fjölmiðlamönnum í gegnum tíðina hvort hann vilji ganga í Evrópusambandið eða ekki - nú síðast bara fyrir skemmstu - en verður alltaf jafn vandræðalegur og svarar svo einhverju sem hvorki er fugl né fiskur. Sama er að segja um spádóm hans um að Ísland verði komið í sambandið fyrir árið 2015. Honum fylgdi enginn rökstuðningur um það hvað benti til þess að svo yrði.

Þannig að það er kannski ekki að furða að maður spyrji: Hvernig á umræðan að vera, Halldór?

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is

 


Hnattvæðing og hagsæld

Miðstýringu stjórnmálamanna á daglegu lífi borgarans hefur verið aflétt að miklum hluta. Mörg stór ríkisfyrirtæki hafa verið seld, má þar helst nefna ríkisbankana tvo og nú nýlega Landssímann. Svipuð þróun hefur átt sér stað erlendis. Þegar einkaaðilar eignast fyrirtækin (eða stofna sín eigin) þá hafa þeir fullkomið frelsi til að hefja útrás og athafna sig á alþjóðavísu. Íslensku bankarnir, Baugur, Össur, Marel og fleiri fyrirtæki hafa frelsi til að athafna sig erlendis.

Ástæðan fyrir hnattvæðingunni er að ríkin sjá sér hag í því að stunduð séu frjáls alþjóðaviðskipti. Jafnvel þó að einstaka ríki neiti af pólitískum ástæðum að gefa eftir höft sín á ákveðnar vörur (til dæmis Íslendingar með sjávarútveg og Frakkar með landbúnað) þá er í heildina litið viðurkennt að frjáls viðskipti efla hag þjóðanna. Það eru ekki ríkin sjálf sem standa í alþjóðviðskiptunum heldur leyfa þau fyrirtækjunum að sjá um slíkt.

En af hverju? Nálgumst við viðskipti við þriðja heiminn af kærleikanum einum saman? Líklega ekki. Við leitumst ekki því að skipta við ríki af því að okkur þyki svo vænt um fólkið þar. Hér skal nú ekki gert lítið úr bróðurkærleikanum en hafa ber í huga að manninum er einungis hæft að þykja vænt um sína nánustu, maka, börn, ættingja og svo framvegis, jafnvel þjóð ef þjóðin er lítil eins og Ísland. Nei, þjóðirnar sjá sér það í hag að stunda viðskipti sín á milli. Jafnvel þó að hlýtt sé hugsað til fátæku landanna í suðri og austri, er ljóst að það er beggja hagur að viðskipti eigi sér stað milli þeirra og ,,okkar.”

Það mál vel vera að vinstri menn hafi eitthvað til síns máls þegar þeir segja að einstaka fyrirtæki hafi ráðandi markaðsstöðu á alheimsmarkaði vegna hnattvæðingarinnar. Þá skal hins vegar minnast á að markaðurinn er opinn og í raun og veru endalaus. Það er alltaf hægt að stofna ný fyrirtæki og hefja rekstur. Það gildir sama lögmála í alþjóðaviðskiptum um samkeppni eins og annars staðar. Það er alveg rétt að fyrirtæki sjá ekki um að reka velferðar- og menntakerfið. En gleymum ekki því að frjáls milliríkjaviðskipti auka hagsæld þeirra þjóða sem taka þátt í þeim og skila fjármagni í ríkiskassann þó svo að það fjármagn sé ekki innheimt með beinni skattheimtu. Það er ljóst að sósíalisminn hefur blindað andstæðinga hnattvæðingar að öllu leyti. Hagsæld milliríkjaviðskipta hefur ekkert með hægri-vinstri stjórnmál að gera. Hagsæld af milliríkjaviðskiptum er staðreynd.

Og þá er það stóra spurningin, stafar lýðræðinu ógn sökum hnattvæðingar? Svar mitt er að svo sé ekki. Eins og áður sagði hafa stjórnmálamenn minnkað ítök sín og þá sérstaklega í viðskiptum. Stjórnmálamenn geta í einhverjum tilvikum leyst ágreining um viðskiptasamninga milli ríkja og mótað stefnu alþjóðaviðskipta. Það eru hins vegar þeir einkaaðilar sem viðskiptin stunda sem sjá um restina.

Lýðræðinu stafar frekar ógn af alþjóðastofnunum eða fyrirbærum eins og Evrópusambandinu. Þegar lítill hópur manna tekur afdrífaríkar ákvarðanir fyrir fjöldann án þess að vera kosinn (líkt og framkvæmdarráð ESB gerir) er alltaf hætta á að lýðræðið sé á undanhaldi. Hér skal ekki fullyrt að slíkt eigi sér stað hvorki hjá Sameinuðu þjóðunum eða Evrópusambandinu en hættar er vissulega fyrir hendi. Alþjóðakerfið er að mestu stjórnleysa og því lítil hætta á að lýðræðinu sé ógnað.

Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr@simnet.is


Mánudagspósturinn 27. marz 2006

Maður að nafni Abdul Rahman, sem beðið hafði dóms í Afganistan fyrir að hafa sagt skilið við íslam og tekið kristni fyrir 16 árum, hefur verið látinn laus vegna „skorts á upplýsingum“ og „fjölda lögformlegra galla“ á málinu. Áður hafði hæstiréttur landsins, þar sem íslamistar ráða lögum og lofum, ætlað að dæma manninn til dauða fyrir að hafa hafnað íslam. Í stjórnarskrá landsins er kveðið á um trúfrelsi, en í henni er líka kveðið á um að engin lög í landinu megi brjóta í bága við íslam og þar með Sharia-lögin sem m.a. kveða á um að þjófum skuli refsað með aflimun, konur eigi að hylja líkama sinn frá hvirfli til ilja og skuli grýttar fyrir framhjáhald. Refsingin fyrir að hverfa frá íslam er hins vegar dauði og það er sú refsing sem stóð til að beita Rahman.

Vestræn ríki höfðu ítrekað hvatt stjórnvöld í Afganistan til að sjá til þess að Rahman yrði ekki tekinn af lífi, sem aftur mun hafa leitt til þess að hann var látinn laus. Rahman er þó enn ekki laus allra mála því málið hefur verið sent aftur til saksóknara til frekari rannsókna. Hæstaréttardómarinn í málinu, Ansarullah Mawlafizada, hefur ítrekað mótmælt afskiptum stjórnvalda af málinu og sagt að þau hefðu ekkert vald til þess þar sem dómstólar landsins væru sjálfstæðir gagnvart framkvæmdavaldinu. Varaði hann Hamid Karzai, forseta Afganistan, við því að afskipti hans myndu leiða til uppreisnar í landinu - heilagt stríð. Sagði dómarinn að eina leiðin fyrir Rahman, til að komast hjá dauðarefsingu, væri að hann tæki upp íslam á ný, en það hafði Rahman þvertekið fyrir og sagst tilbúinn að deyja yrði hann dæmdur til þess.

En hvað sem líður niðurfellingu á máli Rahmans vegna alþjóðlegs þrýstings þá var vilji dómaranna skýr. „Höfnun á íslam er móðgun við guð. Höggvið af honum höfuðið!“ hafði brezka dagblaðið Telegraph eftir múslimaklerkinum Abdul Raoulf við Herati moskuna í Kabul. „Spámaðurinn Múhameð hefur margoft sagt að þeir sem hverfa frá íslam skuli drepnir ef þeir neita að snúa til baka. Íslam eru trúarbrögð friðar, umburðarlyndis, góðvildar og heiðarleika. Þess vegna höfum við sagt honum [Rahman] að ef hann iðrast þess sem hann hefur gert þá munum við fyrirgefa honum,“ hafði BBC eftir Mawlafizada hæstaréttardómara. M.ö.o. eru skilaboðin þessi: „Gerðu eins og við segjum þér eða við drepum við þig.“ Umburðarlyndi? Friður? Einmitt!

Það sem hefur annars gert stöðuna enn erfiðari fyrir Karzai forseta að sögn BBC er að svo virðist sem mikill meirihluti Afgana sé þeirrar skoðunar að Rahman hafi brotið af sér og eigi fyrir vikið skilið að verða líflátinn. Óhjákvæmilega kemur upp í hugann nýleg skoðanakönnun í Bretlandi þar sem 40% brezkra múslima vildu að Sharia-lögin yrðu tekin upp á þeim svæðum í landinu þar sem múslimar eru í meirihluta. Einhverjir hafa haldið því fram að þetta sýni að múslimum finnist þeir ekki hluti af brezku samfélagi, en aðrir hafa hins vegar bent á að mikil áherzla hafi verið lögð á það á undanförnum árum að gera múslimum og öðrum innflytjendum kleift að verða hluti af samfélaginu, en þrátt fyrir það sé niðurstaðan þessi. Niðurstöður könnunarinnar bendi heldur ekki beint til mikils vilja til að aðlagast brezku samfélagi.

Á sama tíma berast fréttir af vaxandi gyðingahatri víða í Evrópu, ekki sízt í Frakklandi þar sem finna má stærsta gyðingasamfélag í álfunni. Um þetta var m.a. fjallað í Staksteinum Morgunblaðsins á laugardaginn. Þar sagði m.a. að í úthverfum Parísar, þar sem innflytjendur frá Norður-Afríku byggju, væri orðið gyðingur skammaryrði. Vitnað er í dagblaðið International Herald Tribune frá því á föstudaginn þar sem kom fram að andúð á gyðingum væri alvarlegt vandamál hjá annarri kynslóð innflytjenda í Frakklandi. Einn viðmælandi blaðsins, ungur blökkumaður, hafði þetta um málið að segja í samtali við það: „Annars vegar eru blökkumenn og arabar, hins vegar gyðingar.“

Fram kom að gyðingar væru af þessum sökum farnir að flýja í stórum stíl frá Frakklandi til Ísraels og að gyðingabörn gætu ekki gengið í skóla hvar sem er. En það sem er kannski mest athyglisvert eru ummæli eins viðmælenda International Herald Tribune, Barbara Levébvre, kennara, sem segir að ávallt hafi verið hart brugðist við þegar gyðingahatur hafi komið frá öfgahópum, þá væntanlega meðal innfæddra Frakka, en þegar slíks varð vart á meðal fólks af erlendum uppruna hafi allir látið eins og þeir tækju ekki eftir því. Þetta er því miður ekkert einsdæmi og er þekkt annars staðar í Evrópu þar sem múslimar eru fjölmennir eins og t.a.m. í Svíþjóð og Danmörku.

Í Fréttablaðinu 23. október 2003 var greint frá niðurstöðum sænskrar rannsóknar sem benti til þess að gyðingahatur væri mjög útbreitt á meðal nemenda af múslímskum uppruna í sænskum skólum og mun meira vandamál en áður hafði verið talið. Ennfremur að gyðingahatur á meðal þessa hóps væri ekki litið jafnalvarlegum augum og gyðingahatur sem ætti rætur sínar í t.a.m. nýnasisma. Þeir sem stóðu að rannsókninni voru tveir fræðimenn við háskólann í Lundi í Svíþjóð; Sverker Oredsson, prófessor, og Mikael Tossavainen frá Sögustofnun háskólans.

Í viðtölum við kennara komust fræðimennirnir að því að kennslu um síðari heimstyrjöldina, eða um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs, væri oft tekið með ofsafengnum mótmælum og slagorðum sem bæru vott um brennandi hatur á gyðingum. Kennari frá Gautaborg hélt því fram að arabískir og aðrir múslímskir nemendur sínir litu á það sem sjálfsagðan hlut að halda því fram „að það hefði verið gott hjá Hitler að myrða gyðingana og verst að honum skyldi ekki takast að drepa fleiri“.

Haft var eftir Lise Egholm, yfirkennara við Raadmandsgade Skole á Norðurbrú í Kaupmannahöfn, að margt benti til þess að sama ástand væri í skólum í Danmörku. „Ef trúuð gyðingafjölskylda væri að hugsa um að koma með börn sín til okkar hingað í skólann mundi ég ráða fjölskyldunni frá því,“ sagði hún og bætti við að í skólanum væru 80% nemenda af múslímskum uppruna. „Margir nemenda okkar hafa palestínskan bakgrunn, og ég veit að það myndu hljótast af því vandræði ef gyðingabarn kæmi í þennan skóla. Þannig er veruleikinn. Svo getum við öll þóst vera pólitískt meðvituð og haldið því fram að öll dýrin í skóginum eigi að vera vinir – en veruleikinn er samt eins og hann er. Því miður held ég að ástandið í dönskum skólum sé ósköp svipað því ástandi sem rannsóknin lýsir í Svíþjóð.“

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is


Hvernig getur maður tekið svona fólk alvarlega?

Það virðast engin takmörk fyrir því í hversu marga hringi forystumenn Samfylkingarinnar geta snúist. Nú kalla þeir eftir sjálfstæðri utanríkisstefnu vegna þeirrar stöðu sem upp er komin í varnarmálum þjóðarinnar og vilja þá væntanlega meina að Íslendingar hafi ekki fylgt slíkri stefnu til þessa. Á sama tíma vilja Ingibjörg Sólrún og félagar hins vegar að Ísland gangi í Evrópusambandið þar sem stefnt er að því að koma á einni sameiginlegri utanríkisstefnu fyrir öll aðildarríkin og samhliða því sérstöku embætti utanríkisráðherra sambandsins. Sjálfstæðar utanríkisstefnur ríkjanna munu m.ö.o. þar með heyra sögunni til!

Meðal annars er kveðið á um þetta í fyrirhugaðri stjórnarskrá Evrópusambandsins sem engan veginn er tímabært að afskrifa þó henni hafi verið hafnað af frönskum og hollenzkum kjósendum sl. sumar. Nú er þegar orðið ljóst – sem margir vissu fyrir – að sambandið ætli sér að hunza þær lýðræðislegu niðurstöður og fara í kringum þær með einum eða öðrum hætti. En hvað sem stjórnarskránni sjálfri líður er þegar fyrir margt löngu hafin vinna í Brussel við að setja á stofn sérstaka utanríkisþjónustu fyrir Evrópusambandið sem ætlað er með tíð og tíma að koma í staðinn fyrir sjálfstæðar utanríkisþjónustur aðildarríkjanna.

Það er því ljóst að ef forystu Samfylkingarinnar fengi sínu framgengt, að Ísland gerðist hreppur í hinu fyrirhugaða evrópska stórríki sem leynt og ljóst er verið að þróa Evrópusambandið í að verða, þá mun engin sjálfstæð íslenzk utanríkisstefna verða rekin. Við munum einfaldlega ekki hafa neina heimild til þess lengur. Sú utanríkisstefna sem verður rekin af hálfu sambandsins mun svo sannarlega ekki verða mótuð út frá sjálfstæðum sjónarmiðum Íslands heldur fyrst og fremst sjónarmiðum stóru þjóðanna innan sambandsins eins og flest annað innan þess.

Tvöfeldni forystumanna Samfylkingarinnar í þessum efnum er m.ö.o. alger - sem aftur eru sennilega vinnubrögð sem löngu eru hætt að koma fólki á óvart þegar þessir aðilar eru annars vegar. Persónulega finnst mér þetta þó fyrst og fremst bara hlægilegt. Hvernig getur maður tekið svona fólk alvarlega?

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is

(Birtist áður í Morgunblaðinu 23. marz 2006)


Er þetta eðlilegt?

Nú hafa Hollendingar tekið aðlögun innflytjenda föstum tökum. Það á heldur betur að samlaga fólk sem flytja á til landsins að evrópskri menningu. Hvernig fara þeir að því? Jú, þeir láta umsækjendur kaupa og horfa á erótíska dvd-mynd með berbjósta konum og fáklæddum leðurhommum. Fyrir þetta þarf umsækjandinn að greiða 350 evrur, sem hann fær ekki endurgreiddar, falli hann á prófinu, auk þess sem hann þarf að kaupa myndirnar á geisladiski ásamt myndabók með „ósæmilegu“ myndefni. Þetta er víst nauðsynlegt til að undirbúa fólkið undir lífið í Hollandi.

Fólk sem kemur frá evrópska efnahagssvæðinu þarf að sjálfsögðu ekki að gangast undir prófið, enda þarf ekki að aðlaga það að „holenskri menningu“, þar sem uppruna lönd þessa fólks eru meira og minna öll kominn jafn langt og Holland í evrópskri smekkleysu.

Tökum Ísland sem dæmi:
Á hverjum degi geng ég framhjá plaggati nokkru í andyrinu á Háskólanum á Akureyri. Hálf nakin kona liggur þar á bakinu og horfir biðjandi augum á vegfarendur. Fyrir neðan stendur „fuck me“. Pabbi, mamma og börnin horfa saman á ungar konur keppa í því hver sé sætust í bikiní. Keppnin heitir Ungfrú Ísland. Hægt er að horfa á ókeypis myndbönd í ólæstri dagskrá af stúlkum í lágmarksklæðnaði dilla rassinum og barminum með seiðandi hætti í Ríkissjónvarpinu, Skjá einum og Sirkus, meðan beðið er eftir því að almennileg dagsrká hefjist á þessum stöðvum. Sýningarnar eru á einkar hentugum tíma fyrir börnin. Barnastjarnan Silvía Nótt sló í gegn í Júróvisíón í einhverskonar vændiskonu búning – og krakkarnir í skólum landsins syngja: „ég er Silvía Nótt, og þið haldið með mér“. Samtímis þessu kemur upp á yfirborðið holskefla af kynferðisafbrotamálum og afbrigðilegheitum hjá þjóðinni, svo sem eins og furðu há tíðni endaþarmsmaka og munnmaka meðal krakka á grunnskóla aldri.

Aðlaga þarf innflytjendur að evrópskri menningu, og hollensk yfirvöld telja sig vita hver kjarni hennar er.

Sindri Guðjónsson


Mánudagspósturinn 20. marz 2006

Það er orðið nokkuð síðan maður heyrði íslenzka Evrópusambandssinna halda því fram að einhverju marki að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) væri að líða undir lok hvað úr hverju, hefði ekki fylgt þróuninni innan Evrópusambandsins og hvað þetta hét nú allt saman. Ástæðan er líklegast sú að þeir séu smám saman að átta sig á því sjálfir að aðeins sé um þeirra eigin óskhyggju að ræða en ekki staðreyndir, enda hafa þeir aldrei getað fært nein haldbær rök fyrir því að EES-samningurinn eigi við einhvern lasleika að stríða þegar óskað hefur verið eftir þeim – sem hefur ítrekað verið gert.

Það hefur einmitt þvert á móti verið ítrekað staðfest á undanförnum árum af aðilum EES-samningsins að hann sé við hestaheilsu. Gildir þá einu hvort um er að ræða íslenzk stjórnvöld, norsk stjórnvöld, ráðherraráð EES eða Evrópusambandið. Nú síðast kom þetta skýrt fram bæði í opinberri heimsókn Geirs Haarde, utanríkisráðherra, til Noregs og í máli Richards Wright, umsjónarmanns samskipta Evrópusambandsins við EFTA ríkin, í heimsókn hans til Íslands í síðustu viku. Hvað Noreg annars áhrærir er athyglisvert að núverandi vinstristjórn telur að rekstur EES-samningsins gangi vel rétt eins og hægristjórnin sem var við völd á undan henni.

Svo haldið sé áfram um Norðmenn þá má einnig geta þess að enginn er kominn til að segja að dagar EES-samningsins yrðu taldir jafnvel þó Norðmenn tækju upp á þeirri vitleysu að ganga í Evrópusambandið eins og sumir eiga það til að fullyrða. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, hefur m.a. bent á að þegar verið var að semja um EES-samninginn fyrir rúmum áratug síðan bjuggust allir við því að Norðmenn myndu samþykkja aðild að Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslunni 1994, þá ekki sízt ráðamenn í Brussel. Þrátt fyrir það var engan bilbug að finna á þeim sem stóðu að samningaviðræðunum að halda þeim áfram. M.ö.o. er aðild Norðmanna að EES-samningnum engin forsenda fyrir áframhaldandi tilvist hans. Þess utan er auðvitað ekkert sem bendir til þess að Norðmenn eigi eftir að ganga í Evrópusambandið.

Ég er raunar þeirrar skoðunar persónulega að við Íslendingar gætum hæglega staðið fyrir utan Evrópusambandið án EES-samningsins og er þar sammála t.a.m. Ragnari Árnasyni, hagfræðiprófessor, og fleirum. Hins vegar sef ég ágætlega þrátt fyrir aðild Íslands að EES-samningnum, enda felur hann auðvitað í sér margfalt skárra hlutskipti fyrir Ísland en nokkurn tímann Evrópusambandsaðild, enda himinn og haf þar á milli eins og margoft hefur verið bent á. Nóg ætti að vera að nefna að EES-samningurinn tekur aðeins til innri markaðar Evrópusambandsins og hefur fyrir vikið aðeins með lítið brot af lagasetningu þess að gera.

Raunin er einfaldlega sú að íslenzkir Evrópusambandssinnar, sem á sínum tíma sáu EES-samninginn fyrir sér sem leið til að koma Íslandi inn í Evrópusambandið um bakdyrnar, hafa nú á undanförnum árum farið að upplifa samninginn sem hindrun í vegi þess að koma okkur inn í sambandið. Því vilja þeir hann feigan og hafa reynt að grafa undan honum á alla lund með ótímabærum sjúkrasögum og andlátsspám. Eins og áður segir er hér þó aðeins um að ræða óskhyggju þessara aðila sem sést einna bezt á því að aldrei hefur verið hægt að sýna fram á að hún ætti við einhver rök að styðjast.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is

(Birtist einnig í Blaðinu 21. marz 2006)


Herinn fer; ný tækifæri

Íslandi er nú ekki öllu lokið þó að Bandaríkjaher dragi saman seglin á Keflavíkurflugvelli. Jafnvel þó að vinstrimenn hafi ekkert til málanna að leggja annað en að gera grín af ríkisstjórninni er ljóst að fjölmörg tækifæri liggja fyrir Íslendinga. Það skal ekki gleyma því að á Keflavíkurflugvelli hafa búið rúmlega 5000 manns og í raun má segja að þar sé allt til alls. Hér langar mig til að viðra mína framtíðarsýn á þessi mál. Einhverjum kann að finnast þetta langsótt en það sem hér er skrifað er skrifað með langtímamarkmið í huga. Hér er þó aðeins farið yfir skipulagsmál og möguleikana á nýtingu svæðisins. Hlutverki Gæslunnar og öðrum öryggis- og varnarmálum mun ég gera skil síðar.

Nú liggur ljóst fyrir eins og áður sagði að Bandaríkjaher mun draga saman seglin á Keflavíkurflugvelli. Helsta starfssemi hersins hefur verið í kringum þær þotur sem nú eru þar staddar (þyrlurnar eru ,,fylgihlutur” þotanna). Jafnframt því hefur þar verið ratsjárstöð og annars konar starfsemi Bandaríkjahers, en þó ekki mikil.

Íslendingar eru sjálfbjarga þjóð. Ég hef ekki áhyggjur af því að minn gamli heimabær, Keflavík, og næsta nágrenni muni þjást vegna breyttra aðstæðna. Það má vel vera að þessar breytingar hitta suma illa fyrir og til þess skal að sjálfsögðu tekið fullt tillit, enda ekki þeim að kenna. Það hefur hins vegar legið í loftinu lengi að þessara breytinga væri von og það er gaman að sjá viðbrögð bæjarstjóra Reykjanessbæjar sem eru full af jákvæðni og framtíðarhugmyndum.

Á meðan Ingibjörg Sólrún hlakkar yfir ,,vandræðum” ríkisstjórnarinnar hafa þeir sem af einhverri alvöru vilja fjalla um málið þegar hafið vinnu að úrlausnum bæði varna landsins og atvinnu- og lífskjörum á Suðurnesjum. Á meðan Ingibjörg hefur ekkert til þeirra mála að leggja (enda hefur hún ekkert vit á varnarmálum eins og hún hefur svo oft orðið uppvís af) ætti hún að hafa sig hæga leyfa öðrum að leysa málið.

Eins og áður sagði hafa yfir fimm þúsund manns búið á Keflavíkurflugvelli. Þar er allt til alls, hús og íbúðir, verslanir, skólar, kirkjur, sjúkrahús, íþróttahús, veitingastaðir, kvikmyndahús og svo frv. Í stað þess að reisa ,,nýtt” bæjarfélag með öllu tilheyrandi er allt meira og minna tilbúið fyrir íbúa Keflavíkurflugvallar.

Í stuttu máli vil ég að eftirfarandi verði gert.

  1. Flugvöllurinn í Vatnsmýrinni verði rifinn og landið nýtt undir annað. Líklega er bæði hægt að nýta það undir íbúðarhverfi og útivstarsvæði, en það er nú efni í aðra umræðu.
  2. Innanlandaflug verði flutt til Keflavíkur og í stað tveggja flugvalla (eins og nú er) verði rekinn einn flugvöllur. Varla þarf að taka fram að það er auðvitað miklu hagkvæmara. Flugstarfssemi Landhelgisgæslunnar verði líka flutt til Keflavíkur þó svo að stjórnstöð hennar geti verið áfram í Skógarhlíð.
  3. Hugsanlega má bæta Reykjanesbrautina enn frekar. Nú fer brátt að ljúka tvöföldun brautarinnar en það mætti bæta við fleiri akreinum eða koma á lest þar á milli. Tal um að setja á stofn hraðlest á milli Keflavíkur og Höfuðborgarsvæðisins hefur hingað til ekki fallið í góðann jarðveg enda hefur ekki þótt þörf fyrir hana. En með meira flugi í Keflavík og engu í Reykjavík er hugsanlega kominn grundvöllur fyrir einhverju slíku.
  4. Keflavíkurflugvöll væri hægt að nýta undir margt. Eins og áður sagði er þar allt til staðar. Hægt væri að nýta gömlu flugstöðina, flugskýlin og fleiri byggingar sem tengst hafa flugi undir ýmisslegt. Ísland á t.a.m. mjög góða flugvirkja, hægt væri að stofna fyrirtæki sem þjónustar flugvélar.

Uppbyggingu fyrirtækja er viðskiptamanna að ráða úr. Nú á dögum eru íslenskir viðskiptamenn fullir af hugmyndum og ég hef ekki áhyggjur af því að þarna leggist allt í eyði. Einhverjir hafa nefnt hugmyndir um háskólaþorp, það er hægt að hugsa margt vitlausara. En mig langar að líta á þetta frá stjórnmála viðhorfi. Eg tel að markaðurinn og frjáls viðskipti muni leysa úr öðru. Eg er þess fullviss að Íslendingar muni nýta vel það sem fyrir er á Keflavíkurflugvelli.

Höfuðborgarsvæðið er ekki að minnka. Það þarf að styrkja tengslin á milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins þannig að þetta sé sama atvinnu og íbúðarsvæðið. Hafnarfjörður og Keflavík geta enn vaxið í áttina hvort að öðru.

Vonandi fara íslenskir stjórnmálamenn að sinna skipulagsmálum með framtíðarsýn í huga. Það er ekki langt í að það þurfi að bæta veginn á milli Reykjavíkur og Selfoss, jafnvel þó að nýbúið sé að bæta veginn vesta við Hellisheiði. Það er nýjasta dæmið um að skammtímasýn þar sem aðeins er verið að ,,redda” hlutunum þangað til næsta vandamál kemur upp.

Það sem ég er hér að reyna að sýna fram á að ef stjórnvöld halda áfram að hafa viðskiptaumhverfi á Íslandi aðlagandi eru ótal tækifæri í nýju bæjarfélagi. Ef stjórnmálamenn átta sig á því að þarna liggja möguleikar og setja ekki stein í götu þeirra þá munu viðskipta- og athafnamenn láta til skarar skríða og nýta svæðið vel.

Á meðan aðrir leysa vandamál getur Ingibjörg Sólrún haldið áfram að reyna að slá pólitískar keilur með því að gera lítið úr ríkisstjórninni. Það hins vegar hjálpar engum, sérstaklega ekki íbúum Keflavíkur og nágrennis.

Góða helgi...

Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr@simnet.is


Pólitísk rétthugsun

Við lifum í nútímasamfélagi. Við erum stöðugt minnt á að ýmsar skoðanir sem viðgengust á árum áður dugi ekki lengur. Í „nútímaþjóðfélagi“ er meira umburðarlyndi og meira svigrúm til frjálslyndari skoðana en áður hefur viðgengist. Það er að sjálfsögðu allajafna hið besta mál. Fólk áttar sig t.a.m. á því að það er ekki lengur hlutverk hins opinbera að móta skoðanir okkar eða lífsstíl heldur myndum við okkur skoðanir og tökum ákvarðanir út frá þeim og stöndum síðan og föllum með þeim ákvörðunum. Tjáninga- og skoðanafrelsi er líklega einn mikilvægasti hlekkurinn í frjálslyndu þjóðfélagi.

En andstæðinga tjáningar- og skoðunarfrelsisins er víða að finna. Fólk sem er uppfullt af pólitískum rétttrúnaði og getur engan veginn unað því að til séu aðrir sem hafa aðrar skoðanir en það sjálft á lífinu og tilverunni. Því þarf að kæfa þær skoðanir í fæðingu, koma í veg fyrir að þær heyrist með því að viðhalda ótta meðal fólks um einhvers konar félagslega útskúfun, að það verði sett á svarta lista og eigi sér ekki aftur viðreisnar von. Það er einkennilegt þegar „frjálslynda“ fólkið, sem við erum jú vonandi sem flest, ætlar að banna öðrum að hafa skoðanir af því að þær einfaldlega „passa“ ekki við nútímann.

Samtökin ’78 eru einn slíkra aðila eins og hr. Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, fékk að reyna í byrjun ársins. Og nú hafa samtökin kært Gunnar Þorsteinsson, forstöðumann Krossins, fyrir grein sem hann ritaði í Morgunblaðið 26. febrúar sl. þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni að það þjónaði ekki hagsmunum barna að alast upp hjá samkynhneigðum pörum. Burtséð frá því hvað fólki kann að finnast um skoðanir Gunnars er vert að spyrja hvort það telji rétt að banna forstöðumanni fríkirkjusafnaðar að hafa þessa skoðun og lýsa henni yfir? Á pastorinn í Kópavogi yfir sér dóm vegna ummæla sinna? (Rétt er að taka fram að ég tel ekki að Samtökin ’78 tali fyrir munn allra samkynhneigða á Íslandi.)

Gunnar er kærður á grundvelli 233a gr. almennra hegningalaga þar sem segir að „hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á mann eða hóp manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar sæti sektum eða fangelsi allt að 2 árum.“

Nú skarast á tillitsemi og umburðarlyndi. Samtökin ’78 ætlast til þess að þeim sé sýnd tillitsemi annars eigi sá sem það ekki gerir það á hættu að verða ákærður. Formaður samtakanna hefur borið það eitt fyrir sig að skrif Gunnars hafi „sært“ marga meðlimi samtaka hennar. Það særði líklega ekkert sannkristna þegar ung stúlka, „krossfest“, var keyrð fáklædd í vagni niður Laugaveginn í Gay Pride göngu samtakanna fyrir örfáum árum? Jú, ætli það hafi ekki gert það, en hins vegar réð umburðarlyndi þeirra ferðinni þrátt fyrir skortinn á ,,tillitsemi” umsjónarmanna göngunnar.

En það furðulegasta við kærumál Samtakanna ’78 er að ef forsvarsmenn þeirra eru ósáttir við ummæli Gunnars liggur beinast við að svara honum. Ef hann hefur jafn rangt fyrir sér og samtökin vilja meina ætti það að vera hægðarleikur. Það að samtökin skuli hins vegar kjósa að kæra Gunnar bendir ekki til þess að málefnastaða þeirra sé ýkja sterk. Það kemur hins vegar ekki á óvart í tilfelli þessara samtaka sem hafa í gegnum tíðina byggt baráttu sína að stóru leyti á pólitískri rétthugsun og þeirri skoðanakúgun sem hún felur í sér og treyst á að þau gætu þannig kæft niður alla gagnrýni á sig og sinn málstað.

Staðreyndin er sú að enginn er yfir gagnrýni hafinn, hvorki Samtökin ’78 né aðrir. Samtökin hafa í gegnum tíðina óspart gagnrýnt Gunnar Þorsteinsson og aðra fyrir trú þeirra og skoðanir þeirra á samkynhneigð og m.a. ráðist heiftúðlega gegn Þjóðkirkjunni, biskupi Íslands og ófáum fríkirkjusöfnuðum.

Og sumir þingmenn hafa jafnmikið umburðarlyndi og Samtökin ’78. Það eru aðeins örfáar vikur síðan þingmaður Samfylkingarinnar hvatti þá presta landsins sem ekki hafa viljað lýsa því yfir að þeir séu tilbúnir að gefa saman samkynhneigð pör, að láta af afturhaldssemi sinni og fordómum. Með þessu var þingmaðurinn (fyrirgefið, þingkonan) að lýsa því yfir að hennar pólitísku skoðanir væru hafnar yfir trúarsannfæringu séranna. Þeir sem telja að hjónaband sé aðeins á milli karls og konu eru útmálaðir sem fordómafullir afturhaldssinnar. Skemmst er þó frá því að segja að íslenska orðabókin skilgreinir hjónaband sem samband milli karls og konu. Kannski að ritstjórar hennar séu að sama skapi bara fordómafullir afturhaldssinnar?

Gisli Freyr Valdórsson
gislifreyr@simnet.is

Greinin birtist áður í morgunblaðinu þann 11.mars 2006


Mánudagspósturinn 13. marz 2006

Í Silfri Egils í gær (12. marz) var m.a. rætt um vangaveltur Valgerðar Sverrisdóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem hún viðraði í grein á heimasíðu sinni í síðustu viku þess efnis að hugsanlega væri hægt að taka upp evruna hér á landi og gerast aðilar að Efnahags- og myntbandalagi Evrópusambandsins án þess að ganga í sambandið sjálft. Meðal gesta voru Jónína Bjartmarz, þingmaður Framsóknarflokksins, og Einar Oddur Kristjánsson, þingmaður okkar sjálfstæðismanna. Einar sagði þessar vangaveltur Valgerðar fráleitar og uppskar í kjölfarið ákúru frá Jónínu á þeim forsendum að hann væri þar með að tala gegn mati okkar helztu sérfræðinga í þessum efnum og nefndi því til staðfestingar til sögunnar Stefán Má Stefánsson, lagaprófessor, og Guðmund Magnússon, hagfræðiprófessor, auk þess sem hún sagði málið til skoðunar hjá Evrópufræðasetrinu á Bifröst.

Ekki veit ég hvað Jónína hefur haft fyrir stafni undanfarna daga en hún hefur allavega nokkuð ljóslega ekki eytt of miklum tíma í að fylgjast með fjölmiðlum, allavega ekki í tengslum við þetta tiltekna mál. Vissulega sagði Stefán Már að hann teldi það mögulegt að taka upp evruna án aðildar að Evrópusambandinu sjálfu, þ.e. lagalega séð, en sagði málið vitanlega ekki sízt vera pólitísks eðlis. Það má líka vel vera að þetta sé til skoðunar á Bifröst, en forstöðumaður Evrópufræðasetursins og klárlega einhver mesti Evrópusambandssinni landsins, Eiríkur Bergmann Einarsson, gaf engu að síður lítið fyrir vangaveltur Valgerðar í viðtali við NFS sl. fimmtudag, það væri einfaldlega ekki hægt að taka upp evruna án aðildar að Evrópusambandinu.

Og sama gerðu ófáir aðrir af þessu tilefni s.s. Tryggvi Þór Herbertsson, forstöðumaður Hagfræðastofnunar Háskóla Íslands, Peter Dyrberg, forstöðumaður Evrópuréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík, utanríkisráðherra, fulltrúar bæði Evrópusambandssinna og sjálfstæðissinna sem og Evrópusambandið sjálft þegar sendiherra sambandsins gagnvart Íslandi og Noregi leitaði eftir viðbrögðum frá Brussel við grein Valgerðar. Sumir þessara aðila hafa margoft bent á að Evrópusambandsaðild væri forsenda þess að hægt væri að taka upp evruna hér á landi til viðbótar við marga aðra. Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi seðlabankastjóri, hefur þannig t.a.m. margoft bent á þetta, síðast í setningarræðu sinni á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sl. haust. Og um svipað leyti sagði Eiríkur Guðnason, seðlabankastjóri, í ræðu á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda að það væri tómt mál að tala um að taka upp evru án aðildar að Evrópusambandinu.

Þannig að ég veit ekki hvað Jónína var eiginlega að tala um þegar hún sagði Einar Odd tala gegn helztu sérfræðingum okkar í þessum málum. Hún sem þó situr í Evrópustefnunefnd forsætisráðuneytisins og ætti því að fylgjast sæmilega með þessum málum hefði maður haldið. Tja, nema þetta sé til marks um að íslenzkir Evrópusambandssinna séu orðnir svo slæmir á taugum að þeir telji ekki bara að sjónarmið þeirra, sem andsnúnir eru aðild að Evrópusambandinu, ekki gjaldgeng í umræðunni um Evrópumál hér á landi heldur að sama gildi einnig um álit sérfræðinga sem eru þeim ekki hagstæð?

Í sjálfu sér kæmi það manni ekki á óvart. Íslenzkir Evrópusambandssinnar, þ.e. forystumenn þeirra, virðast verða örvæntingarfullari með hverjum deginum. Birtingarmynd þess er þó mismunandi eftir einstaklingum eins og gengur og gerist. Sumir eru að því er virðist alveg hættir að tjá sig um Evrópumálin, allavega að fyrrabragði, á meðan aðrir koma með arfavitlaus og örvæntingarfull útspil eins og Valgerður í síðustu viku og Halldór Ásgrímsson í byrjun febrúar. Já eða bara Jónína Bjartmarz í Silfri Egils í gær. Samhliða því er síðan gjarnan kvartað sáran yfir tilfinnanlegum skorti á umræðum um málaflokkinn hér á landi - þ.e.a.s. frá þeirra eigin hlið.

Annars sagði Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar sem einnig var á meðal gesta Egils, orðrétt í umræðunum um vangaveltur Valgerðar: „Evran er stærsti kosturinn við aðild að ESB, það liggur alveg ljóst fyrir." Ég segi nú bara að ef evran er stærsti kostur Evrópusambandsaðildar þá býð ég ekki mikið í hina “kostina”.

---

Annars rakst ég á stórmerkilega frétt á vef Ríkisúrvarpsins á laugardaginn þess efnis að Pólverjar á Íslandi væru orðnir svo fjölmennir að það hamlaði aðlögun þeirra að íslenzku samfélagi. Ég satt að segja hélt ekki að ástandið væri orðið svo alvarlegt strax. Sú sem þetta segir er pólsk kona að nafni Barbara Gunnlaugsson sem búið hefur hér á landi í tólf ár. Í samtali við Ríkisútvarpið sagði hún þetta einkum stafa af því að lítið ýtti á Pólverjana að læra íslenzku og aðlagast samfélaginu, þeir þyrftu í raun ekki mikið að leita út fyrir eigin hóp. Þarna er auðvitað um alvarlegt mál að ræða ef satt reynist sem er allrar athygli vert. Það er ljótt ef við Íslendingar ætlum að feta sömu leið og nágrannaþjóðir okkar hafa gert á liðnum árum og áratugum og lent í miklum ógöngum vegna.

---

Að lokum vil ég lýsa yfir fullum stuðningi við skrif Hlyns Jónssonar, formanns Ungra frjálshyggjumanna, og fleiri á undanförnum dögum sem gagnrýnt hafa fóstureyðingar - sem réttast væri að nefna fósturdeyðingar, enda felur sá gjörningur sannarlega í sér að verið sé að deyða manneskju en ekki einhvern hliðstæðan verknað og meindýraeyðingu eða annað slíkt. Hugtakið, sem til þessa hefur lengst af verið notað, er þannig í engu samræmi við alvarleika þess verknaðar sem fósturdeyðing sannarlega er.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is

 


Samtökin '78 - Andstæðingar tjáningarfrelsisins

Andstæðinga tjáningarfrelsisins er víða að finna. Fólk sem er uppfullt af félagslegum rétttrúnaði og getur engan veginn unað því að til séu aðrir sem hafa aðrar skoðanir en það sjálft á lífinu og tilverunni. Því þarf að kæfa þær skoðanir í fæðingu, koma í veg fyrir að þær heyrist með því að viðhalda ótta meðal fólks um einhvers konar félagslega útskúfun, að það verði sett á svarta lista og eigi sér ekki aftur viðreisnar von. Manni verður óhugnanlega hugsað til alræðisríkja síðustu aldar. Samtökin ’78 eru einn slíkra aðila eins og hr. Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, hefur m.a. fengið að reyna. Og nú hafa samtökin kært Gunnar Þorsteinsson, forstöðumann Krossins, fyrir grein sem hann ritaði í Morgunblaðið 26. febrúar sl. þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni að það þjónaði ekki hagsmunum barna að alast upp hjá samkynhneigðum pörum.

Gunnar er kærður á grundvelli 233a gr. almennra hegningalaga þar sem segir að „hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á mann eða hóp manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar sæti sektum eða fangelsi allt að 2 árum.“ Ekki er ætlunin að eyða mörgum orðum í það hversu mikil aðför þessi lagagrein er að frelsi fólks til að tjá skoðanir sínar, en þess í stað skal bent á góða grein eftir Teit Björn Einarsson á Deiglan.com þar sem um það er fjallað. Þess utan má vel gera sér í hugarlund að Gunnar gæti að sama skapi kært Samtökin ’78 fyrir að ráðast á sig vegna trúar sinnar, enda grundvallast skoðanir hans á þessum málum á henni. Það er aftur ágætt dæmi um það hversu fáránlega opin fyrir túlkun þessi lagagrein er.

Ekki er annars langt síðan sænski hvítasunnupresturinn Åke Green var kærður fyrir að segja m.a. í predikun að samkynhneigð væri „afbrigðileg, hræðilegt krabbameinsæxli í líkama samfélagsins.“ Hann var sakfelldur í undirrétti en síðan sýknaður bæði í áfrýjunarrétti og hæstarétti Svíþjóðar. Rökstuðningurinn fyrir sýknuninni var sá að þrátt fyrir að ummæli Green brytu í bága við sænsk lög þá væru allar líkur á því að hann myndi verða sýknaður fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu yrði hann sakfellur í Svíþjóð í ljósi fyrri úrskurða réttarins sem byggðir væru á 9. grein Mannréttindasáttmála Evrópu. Að mati réttarins gengu ummæli Green ekki lengra en það sem fram kemur í Biblíunni í þessu sambandi, en lögmaður hans bar því við að sakfelling bryti í bága við trúfrelsi hans. Ljóst er að ummæli Gunnars eru langtum vægari en nokkurn tímann ummæli Åke Green.

En hvað sem öllum dómsmálum líður þá gildir einfaldlega það sama í þessu tilfelli eins og öðrum að ef Samtökin ’78 eru ósátt við ummæli Gunnars liggur beinast við að svara honum. Ef hann hefur jafn rangt fyrir sér og samtökin vilja meina ætti það að vera hægðarleikur án þess að þurfa að blanda dómstólum í málið. Það að samtökin skuli hins vegar kjósa að kæra Gunnar bendir ekki til þess að málefnastaða þeirra sé ýkja sterk. Það kemur hins vegar ekki á óvart í tilfelli þessara samtaka sem hafa í gegnum tíðina byggt baráttu sína að stóru leyti á félagslegri rétthugsun og þeirri skoðanakúgun sem hún felur í sér og treyst á að þau gætu þannig kæft niður alla gagnrýni á sig og sinn málstað.

Staðreyndin er sú að enginn er yfir gagnrýni hafinn, hvorki Samtökin ’78 né aðrir. Samtökin hafa í gegnum tíðina óspart gagnrýnt Gunnar Þorsteinsson og aðra fyrir trú þeirra og skoðanir þeirra á samkynhneigð og í því sambandi m.a. ráðist heiftúðlega gegn Þjóðkirkjunni og biskupi Íslands. En enginn má gagnrýna málstað eða málflutning samtakanna, þá er sá hinn sami úthrópaður vondur maður, fordómafullur hommarhatari eða eitthvað þaðan af verra í krafti félagslegrar rétthugsunar og fær síðan kæru í hausinn í stað þess að nálgast sé málin með málefnalegum hætti. Þar á bæ er augljóslega enginn vilji fyrir slíku frekar en fyrri daginn.

„Það er enginn skaði þó meiningarmunur sé, heldur getur orðið skaði að hversu meiningunum er fylgt. Fullkomin samhljóðan meininga hjá mörgum mönnum getur aðeins verið, þar sem er fullkomin harðstjórn, og enginn þorir að láta uppi það, sem hann meinar ...“ -Jón Sigurðsson, forseti (1841).

Hjörtur J. Guðmundsson
Gísli Freyr Valdórsson
Sindri Guðjónsson

ihald@ihald.is


Næsta síða »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband