Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2006

Gullkornið á sunnudegi

„I always remember an epitaph which is in the cemetery at Tombstone, Arizona. It says: „Here lies Jack Williams. He done his damnedest.“ I think that is the greatest epitaph a man can have – When he gives everything that is in him to do the job he has before him. That is all you can ask of him and that is what I have tried to do.“

Harry S. Truman


Friður í Evrópu – II.hluti

Fyrir tveimur dögum skrifaði ég fyrri hluta langrar greinar sem fjallar um ástæðu friðar í Evrópu. Vegna lengdar greinarinnar finnst mér heppilegast að hafa hana í tveimur hlutum. Eins og fram kemur í fyrra hlutanum hafna ég þeirri tillögu að friður í Evrópu sé evrópusamrunanum að þakka. Margir vilja meina að sú samrunaþróun sem átt hefur sér stað í Evrópu hafi stuðlað að friði í Evrópu en ég vil meina að það liggi aðrar ástæður að baki því að friður hefur ríkt að mestu í álfunni.

Í fyrri hlutanum nefndi ég tvö atriði. Í fyrsta lagi það að Evrópa átti sér einn sameiginlegan óvin, Sovétríkin og hugsanlega árás Sovétríkjanna inn í Evrópu. Í öðru lagi mikla veru Bandaríkjamanna í Evrópu. Á meðan bæði Bandaríkjamenn og Evrópuþjóðirnar mynduðu bandalag gegn Sovétríkjunum hefðu Bandaríkjamenn aldrei sætt sig við átök innan Evrópuríkjanna.

Í dag birti ég ,,hinar” tvær ástæðurnar sem ég tel að hafi haldið friðinn í Evrópu s.l. sextíu ár.

3. Hlutverk Atlantshafsbandalagsins

Í framhaldi þess að hafa fjallað um sameiginlegan óvin í austri og veru öflugs herliðs Bandaríkjamanna í Evrópu er nauðsynlegt að líta á hlutverk Atlantshafsbandalagsins (NATO) í því að tryggja að friður haldist í Evrópu. Atlantshafsbandalagið var fyrst og fremst varnabandalag vesturveldanna gegn ógninni í austri. Hins vegar undirrituðu öll aðildarríki bandalagsins sáttmálann með það að leiðarsljósi að sameinast um varnir ríkjanna ef til þess kæmi. Skýrt kemur fram í 5. grein sáttmálans að litið er á árás á eitt ríki sambandsins sem árás á þau öll. [1] Aftur komum við að því að það þjónaði ekki hagsmunum nokkurs ríkis á meginlandi Evrópu að ráðast á annað ríki í Evrópu. Varnarbandalag sem þetta hafði ekki verið myndað áður með eins sterkum hætti enda tíðarandinn orðinn annar. Einnig er ekki hægt að líta framhjá hlutverki Breta í því að tryggja frið í Evrópu. Bretar voru ein af stofnríkjum Atlantshafsbandalagsins en komu nokkru síðar inn í evrópusamrunann.

Ekki telst frekari þörf á að benda á hlutverk Atlantshafsbandalagsins að friðarferlinu í Evrópu en ljóst er að hagsmunir ríkjanna, markmið að friði og vera bandarísks herliðs í Evrópu sameinast undir Atlantshafsbandalaginu.

4. Lýðræði

Óhætt er að fullyrða að aukin lýðræðisþróun í Evrópu að lokinni síðari heimsstyrjöldinni spilar veigamesta hlutverkið í friðarferlinu í álfunni. Eins og minnst var á í upphafi var Evrópa djúpsærð eftir tvær styrjaldir á stuttum tíma. Öllum var ljóst að byggja yrði Evrópu upp á nýtt eftir það niðurrif sem styrjaldirnar hefðu valdið. Til að þetta gæti gerst var tvennt sem varð að tryggja, í fyrsta lagi lýðræði og í öðru lagi almenna velmegun.

Ekki eru dæmi um það í sögunni að lýðræðisríki hafi hafið stríð gegn öðru lýðræðisríki. Hitler var einræðisherra sem hafði lagt Þýskaland undir sig og notað það vopna- og mannafl sem í boði var til að heyja styrjöld. Hitler hafði tekist að nýta sér það slæma efnagahagsástand sem myndaðist í Þýskalandi eftir fyrri heimsstyrjöld. Versalasamingurinn gekk meira og minna út á að refsa Þjóðverjum og gerði það að verkum að efnahagur landsins varð mjög lélegur og kjör almennings slæm.

Evrópuríkin gerðu sér grein fyrir því að til að tryggja stöðugan frið í Evrópu yrði að bæta kjör almennings. Þess vegna var farið út í að mynda bandalög um viðskipti. Bætt kjör almennings myndu leiða til minnkandi óánægju og koma í veg fyrir að menn eins og Hitler næðu völdum á ný í einhverju af evrópuríkjunum.

Að sama skapi eins og áður hefur komið fram var markmiðið að byggja upp Evrópu. Lýðræði komst á í flestum ríkjum Evrópu [2] og á því var Evrópa byggð upp á nýtt. Markmiðið var það sama og allir gerðu sér grein fyrir því að þau ágreiningsefni sem ef til vill kæmu upp yrðu leyst á vettvangi stjórnmála en ekki með vopnavaldi. Þarna líkt og áður gengdu Bandaríkin veigamiklu hlutverki. Litið var (réttilega) á kommúnismann sem ógn við lýðræðið og þar með ógn við stöðugleikann og friðinn. Ef við gefum okkur umræðunnar vegna að einhver stjórnmálaleiðtogi hefði viljað fara í stríð þá er næstum hægt að útiloka að honum hefði tekist ætlunarverk sitt þar sem enginn einn aðili hafði slíkt vald á hendi sér. Í hálfa öld hafa völd stjórnmálamanna minnkað og því að miklu leyti ógerlegt að heyja stríð milli lýðræðisþjóða.

En sem sagt, lýðræði og velferð var og er lykillinn að friði og stöðugleika. [3] Evrópusamruni spilaði stórt hlutverk í að tryggja velferðina en lýðræðið kom með breyttum tímum, nýjum tíðaranda og því frelsi sem þjóðirnar vildu mynda sér.

Og að lokum...

Evrópusamvinna með það að markmiði að stuðla að friði í Evrópu er í sjálfu sér göfugt markmið sem ekki er hægt að gera lítið úr. Evrópusamruni var á fyrstu árum eftir seinna stríð mjög auðveld ,,söluvara”. Evrópubúar þráðu frið meira en nokkuð annað og með loforðinu um frið í Evrópu og með hagsæld almennings að leiðarljósi sáu menn ekki ástæðu til að setja sig upp á móti slíku. Hafa ber þó í huga að hugmyndir að samruna voru komnar fram áður en seinna stríðið byrjaði. Ég tel þó að þær hugmyndir hafi verið viðskiptalegs eðlis, það er að menn vildu búa til markað líkan því sem EFTA síðan stóð fyrir.

Hugmyndin að friði hefur ekki alltaf verið leiðarsljós evrópusamrunans. Ríki Evrópu vildu sjá fríverslunarsamninga og vissu að slíkir samningar myndu opna markaði frekar og leiða til velmegunar íbúa ríkjanna. Eins og komið hefur hér fram fór hugmyndin um friðarferli í Evrópu fyrir lítið þegar líða tók á árin eftir seinna stríð. Það sýnir sig best með stofnun EFTA en slíkur samningur hefur ekkert að gera með hugmyndir um vopnuð átök heldur snýst eingöngu um viðskipti milli ríkjanna og niðurfellingu hindrana á viðskiptum. Þó svo að flest EFTA ríki séu nú gengin í ESB hefur samningurinn það táknræna gildi að mínu mati að hann sannar að ríkin voru að leita eftir meiri viðskiptum en ekki friði. Friðurinn var fundinn og kominn í höfn.

Það er einnig mikilvægt að hafa í huga að evrópusamruninn og ESB eitt og saman getur ekki komið í veg fyrir borgarastyrjöld. Fyrir hálfri öld framleiddu ríkin að mestu vopn sín sjálf. Því var greinilegt að evrópuríkin sem tekið höfðu þátt í styrjöldunum höfðu ekki bolmagn til að fara út í annað stríð, fyrir utan það er ekki er víst að nokkur hefði viljað slíkt. Í dag eru vopn hins vegar meira og minna aðkeypt þannig að lítið mál er að hefja stríð. En ennþá eru það sameiginleg markmið og lýðræði sem heldur friðinn í Evrópu. Aftur skal minnt á það að lýðræðisríki fara samkvæmt venjunni ekki í stríð við hvor aðra.

Þá er ekki ósanngjörn spurning hvort að tilgangur evrópusamrunans sé gengin úr gildi. Þeir sem að honum stóðu á sínum tíma voru menn sem upplifað höfðu tvær hræðilegar styrjaldir og þráðu eins og áður var sagt frið og velmegun. Í dag hafa orðið kynslóðaskipti. Það er engin kommúnista eða nasistaógn sem steðjar að ríkjum Evrópu. Reyndar er hryðjuverkaógnin ríkjandi en allar þjóðir heims takast á við hana og þá er spurning hvort að sú barátta sé háð á vettvangi SÞ og með sterkri samvinnu ríkja án þess þó að um samruna sé að ræða.

Alveg sama hvaða álit menn hafa á Evrópusambandinu eða samruna evrópuríkja þá voru og eru hugmyndir að frjálsu markaðssvæði og friði í álfunni þess verðar að mark sé takandi á þeim. Hins vegar er ekki hægt að fullyrða að markmiðið með samrunaum hafi eingöngu verið sá að stuðla að friði.

Hvort að Evrópusambandið sé síðan að starfa í þeim anda í dag er svo efni í aðra grein.

Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr@simnet.is


[1] http://www.nato.int/docu/other/ic/treaty-ic.htm Tekið af opinberri vefsíðu Atlantshafsbandalagsins.

[2] Þau sex ríki sem mynduðu Kol og Stálabandalagið voru öll lýðræðisríki

[3] Stephen M. Walt, One world, many theories.


Friður í Evrópu – I.hluti

Er það Evrópusambandinu að þakka að friður hefur ríkt í Evrópu í rúmlega 60 ár eða liggja aðrar ástæður að baki. Það má vel vera að upprunalegar hugmyndir að evrópusamruna voru meðal annars að koma á stöðugum friði í Evrópu. En að sama skapi gerðu ríkin sér grein fyrir því að gera yrði allt sem mögulegt væri til að rétta við efnahag evrópuríkja en hann var að sjálfsögðu illa farinn eftir tvær heimsstyrjaldir.

Markmiðin eru í sjálfu sér góð og gild. Ekki þykir ástæða hér til að rekja frekar upphaf evrópusamrunans, en þó er mikilvægt að stikla á stóru á þeim skrefum sem stigin voru í upphafi samrunans og benda á þau rök sem notuð voru fyrir honum.

En þó svo að hugmyndin að evrópusamruna hafi verið að miklu leyti að koma í veg fyrir frekari átök í Evrópu er ekki þar með sagt að sameiningarferli það sem átt hefur sér stað í rúma hálfa öld hafi haldið friðinn. Rétt er að taka inn í myndina nokkur atriði sem klárlega áttu mikinn þátt í því að ekki hafa brotist út vopnuð átök milli þeirra ríkja sem nú tilheyra Evrópusambandinu.

Það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir að hér er aðeins átt við þau ríki sem mynda Evrópusambandið því að átök hafa brotist út í Evrópu á síðari hluta 20. aldar og ber þar hæst að nefna átökin á Balkanskaga.

En ég tel meginástæðurnar fyrir stöðugum frið í Evrópu síðastliðin sextíu ár vera fjórþættan. Ég segi frá tveimur þeirra hér en mun gera grein fyrir hinum tveimur síðar.

1. Sameiginlegur óvinur og sameiginlegir hagsmunir

Um leið og byssurnar höfðu kólnað í Evrópu var komið nýtt stríð. Þetta stríð var þó að mestu leyti laust við vopnuð átök en kalt stríð hafði myndast á milli vesturveldanna og Sovétríkjanna. ,,Járntjald” myndaðist um Evrópu miðja og enginn hafði tækifæri á að vera hlutlaus í þessu kalda stríði. Margir hafa viljað halda því fram að sú spenna sem myndaðist á milli vesturveldanna og Sovétríkjanna og óttinn um notkun kjarnorkuvopna (sem leitt hefði til gereyðingar) hafi haldið friðinn allt fram til 1989. [1]

Reyndar er rétt að vekja athygli á því að evrópusamruninn átti upp að vissu marki að koma í veg fyrir ófrið innan Evrópu. Áherslan á kalda stríðs árunum var sú að stórveldin, Bandaríkin og Sovétríkin, stóðu í harkalegu vopnakapphlaupi og má því segja að mögulegt stríð innan Evrópu hafi ekki verið inn í myndinni. Til að mynda stríð milli Þjóðverja og Frakka sem ekki voru óalgeng á öldum áður. Óvinur vesturveldanna var mun austar en á meginlandinu alveg eins og óvinur vesturvelda er nú í suðri og í mið-austurlöndum.

Evrópusamruni var jafnvel aukaatriði í friðarferlinu enda gat Evrópusambandið ekki komið í veg fyrir innrás Sovétríkjanna án aðstoðar Bandaríkjanna en gat upp að vissu marki komið í veg fyrir vopnuð átök innan þeirra ríkja sem að honum stóðu. Á þessu eru þó skiptar skoðanir. Hér er ekki átt við íslömsk ríki í held heldur aðeins þá hugmyndafræði og hryðjuverkastarfssemi sem öfgafulli islamistar stunda.

Ekki er hægt að líta fram hjá því að á eftir stríðsárunum höfðu ríkin í Vestur-Evrópu sameiginlegra hagsmuna að gæta: Að byggja sig upp að nýju. Friður var sameiginlegur hagsmunur allra ríkja og reynslan hafði að miklu leyti kennt mönnum að vopnuð átök voru ekki lausnin á vandamálum og deilum heldur yrði slíkt leyst á vettvangi stjórnmála og viðskipta. Það hefði svo sem ekki þjónað hagsmunum ríkjanna að hefja vopnuð átök á ný. Allir lögðust á eitt við að sinna sama markmiðinu.

2. Vera Bandaríkjamanna í Evrópu

Í seinni heimsstyrjöldinni komu Bandaríkjamenn sér upp allmörgum herstöðvum í Evrópu. Margar þessara herstöðva eru enn starfræktar í dag. Bandaríkjamenn sáu ekki ástæðu til að yfirgefa þær og fara með lið sitt heim. Á meðan Bandaríkin styrktu efnahag Evrópu með Marshall aðstoðinni, sá heldur engin þjóð ástæðu til að biðja þá um að fara. Ógnin í austri var að sama skapi stór ástæða þess að Bandaríkin drógu herlið sitt ekki alfarið til baka frá Evrópu. Utanríkisstefna Bandaríkjanna hefur að miklu leyti snúist um að vernda Vestur-Evrópu síðast liðna hálfa öld.

Eins og áður hefur komið fram sameinuðust vesturveldin á móti Sovétríkjunum og hernaðarmynstur Evrópu fóls fyrst og fremst í því að geta varið sig frekar en að geta gert innrás inn í ríki sem krafist hefði bæði mikillar vopnaframleiðslu og fjármagns. Öflug hernaðarvera Bandaríkjamanna hafði mikið um friðarferlið að segja. Rétt er að minnast aftur á þá staðreynd að markmiðið var að byggja upp Evrópu og tóku Bandaríkjamenn þátt í því. Þeir hefðu að öllum líkindum ekki sætt sig við áframhaldandi eða ný átök. Nánar verður komið að uppbyggingu Evrópu í kaflanum um lýðræði.

Rétt er þó að taka fram að Bandaríkin hafa meira og minna hvatt til ákveðins samruna í Evrópu. Bandarísk yfirvöld hafa verið þolinmóð gagnvart evrópuríkjum hvað samruna varðar og gert sér grein fyrir því að vinasamband við Evrópu er samband sem vert er að halda í. Frá síðari heimsstyrjöld hafa Bandaríkin stutt við bakið á Evrópu og séð hagsmuni sína í því að Evrópuríki ættu velgengni að fagna. Ef að evrópusamruni er það sem virkar til þess að evrópuríki verði sterk og stöðug sjá bandarísk stjórnvöld enga ástæðu til að setja sig upp á móti því. Því betur sem evrópuríkjum gengur að fóta sig sjálf því minna fjármagn, tíma og vinnu þurfa Bandaríkjamenn að fjárfesta í Evrópu. Þetta eru hagsmunatengsl sem ganga í báðar áttir. Evrópa þurfti á Bandaríkjunum að halda til að græða sár sín eftir styrjaldirnar og Bandaríkin þurftu á evrópuríkjum að halda til að mæta ógninni í austri. Að sama skapi þurfa þessi sömu ríki að sameina krafta sína í stríðinu gegn hryðjuverkum í dag. [3]

Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr@simnet.is


[1] Stephen M. Walt, One world, many theories

[3] A. Daniel Weygandt, America´s stake in project Europe


Mánudagspósturinn 24. apríl 2006

Við Hildur Edda Einarsdóttir, stjórnarmaður í Ungum jafnaðarmönnum, höfum aðeins verið að ræða um hugmyndafræðilegan grunn sósíalismans að undanförnu í kjölfar greinar sem ég reit á vefritið Hugsjónir.is á dögunum undir fyrirsögninni „Sósíalískur fótboltaleikur ”. Hildur hefur nú tjáð sig í tveimur greinum um málið, nú síðast fyrir helgi á Pólitík.is. Ekkert í þessum greinum hefur þó hrakið það sem ég hef sagt í mínum greinum um það á hverju sósíalisminn og vinstrisinnaðar stefnur byggist á í grunninn. Þvert á móti hefur hún einmitt staðfest það sem mín skrif grundvölluðust á. Þ.e. að grunnhugsun sósíalismans sé ávallt sú að það sé ekki nóg að fólk hafi jöfn réttindi heldur eigi hið opinbera að beita sér fyrir því að jafna stöðu þess með því að taka eignir sumra einstaklinga, eða annað sem þeim hefur áskotnast með eigin fyrirhöfn t.a.m. sæti á lista í prófkjöri, af þeim án þeirra samþykkis og afhenda þær öðrum án þess að hinir síðarnefndu eigi nokkurn rétt til þeirra.

Ég geri mér auðvitað fullkomlega grein fyrir því að vinstrimenn líta ekki á málið með þessum augum. Fyrir þeim er þarna aðeins um að ræða spurningu um sanngirni og réttlæti eins og kom t.a.m. mjög skýrt fram í máli Hildar. Í því sambandi tala vinstrimenn gjarnan um svokallað „félagslegt réttlæti”. En hvaða réttlæti felst í því að neyða fólk til þess að láta af höndum eigur sínar, sem það hefur aflað sér með fullkomlega lögmætum hætti, og afhenda þær síðan einhverjum öðrum fyrir milligöngu ríkisins að viðlagðri refsingu? Staðreyndin er sú að skattheimta ríkis, sem og annarra opinberra aðila, gagnvart þegnum þess er ekkert annað en ofbeldi, þ.e. þjófnaður. En eins og ég þarf auðvitað ekki að segja Hildi er gjarnan litið svo á að hið opinbera, þá aðallega ríkið, hafi einkarétt á að beita fólk ofbeldi innan yfirráðasvæðis síns. Þar með talin er skattheimta. Hér eru vitaskuld á ferðinni afar einkennilegar hugmyndir um sanngirni og réttæti sem eiga rætur sínar í þeirri marxísku hugmyndafræði að eignir séu þjófnaður. Skattheimta er þess utan í rauninni ekkert annað en ákveðin birtingarmynd þjóðnýtingar á eignum fólks.

Hins vegar hefur í flestum ríkjum verið til staðar talsverð sátt í gegnum tíðina um að í lagi sé að hið opinbera innheimti upp að ákveðnu marki skatta af þegnum sínum til að standa straum af kostnaði vegna sameiginlegra stofnana viðkomandi ríkis. Hins vegar greinir menn vægast sagt mjög á um hversu mikil sú skattheimta (þ.e. ofbeldi) eigi að vera og í hvað sé rétt að verja þeim fjármunum. Þannig hafa vinstrimenn löngum verið hlynntir háum sköttum á almenning, sem renna eigi í „sameiginlega sjóði” eins og það er gjarnan kallað, á meðan hægrimenn hafa lagt áherzlu á að halda slíku ofbeldi í lágmarki.

Í sjálfu sér hefði maður haldið að flestir gætu verið sammála um að ofbeldi væri af hinu slæma og að æskilegt væri að draga úr slíku eins og hægt væri með góðu móti. En það er þó allajafna öðru nær þegar vinstrimenn eru annars vegar eins og dæmin sanna. Skemmst er að minnast þess hvernig haldið hefur verið á málum við stjórn Reykjavíkurborgar í valdatíð R-listans þar sem heildarálögur á borgarbúa hafa stórlega aukizt, þá annað hvort vegna skattahækkana (ekki sízt með því að hækka útsvarið upp í löglegt hámark í fyrsta skipti í sögu borgarinnar) eða með því að innleiða nýja skatta.

Vinstrimenn eru nefnilega upp til hópa haldnir þeirri meinloku að hið opinbera geti ekki aflað sér tekna nema með skattheimtu (þ.e. ofbeldi) ef marka má stefnur, áherzlur og yfirlýsingar þeirra í gegnum tíðina. Þeim virðist þannig fyrirmunað að skilja að með því að lækka skatta geta tekjur hins opinbera af sköttum einmitt aukizt verulega þar sem skattalækkanir virka allajafna sem vítamínsprautur út í samfélagið og stuðla að auknum umsvifum. Ríkið fær þannig minni sneið af stærri köku í stað stærri sneiðar af minni köku áður. Gott dæmi um þetta er lækkun fyrirtækjaskatta hér á landi úr 33% árið 1995 í 18% í dag. Sú lækkun hefur skilað ríkinu mun meiri tekjum en áður var.

Í orðabók vinstrimanna er jafnvel til orðasambandið „vannýttir tekjustofnar“, þ.e. opinbert fé sem stjórnmálamönnum eða embættismönnum hefur ekki tekizt að eyða þrátt fyrir oftar en ekki mikla hæfileika á því sviði. Við slíkar aðstæður dettur vinstrimönnum allajafna ekki í hug að tilefni sé til að verja þessum fjármunum til þess að lækka álögur á almenning heldur þarf þess í stað að finna eitthvað til að eyða þeim í og oftar en ekki reynist það litlum erfiðleikum bundið.

Önnur meinloka ófárra vinstrimanna er að telja hægrimenn á móti velferðarkerfinu. Það er mikil fjarstæða að halda því fram. Flestir hægrimenn eru hlynntir því að til staðar sé ákveðið sameiginlegt öryggisnet í sem byggist á því grunnsjónarmiði að hjálpa fólki til að hjálpa sér sjálft og bera sem mesta ábyrgð á eigin lífi. Hins vegar eru hægrimenn ekki haldnir þeirri þröngsýni vinstrimanna að telja að velferð fólks sé eitthvað sem aðeins geti þrifist í faðmi opinberra aðila. Hægrimenn telja einfaldlega að ef einkaaðilar geti sinnt velferð fólks jafn vel eða betur en hið opinbera þá sé sjálfsagt og eðlilegt að sú leið sé farin. Rétt eins og með flesta aðra hluti. Þetta mega vinstrimenn hins vegar allajafna ekki heyra minnzt á.

Eins og ég sagði í grein minni á Hugsjónir.is, og kom lítillega inn á hér á undan, eru alls kyns vinstrisinnaðar sértækar aðgerðir sem ætlað er að stuðla að jafnri stöðu fólks gott dæmi um grunnhugsun sósíalismans, hlutir eins og „kynjakvótar“, „fléttulistar“ og „jákvæð mismunun“. Hildur Edda segist í síðari grein sinni á Pólitík.is vera hlynnt fléttulistum en á móti kynjakvótum. Hins vegar nefnir hún enga afstöðu til sögunnar gagnvart jákvæðri mismunun. Þetta þrennt er þó í raun einn og sami hluturinn. Reglur um fléttulista fyrir prófkjör fela þannig t.a.m. í sér kynjakvóta, þ.e. að einhver þjóðfélagshópur eigi að eiga ákveðið hlutfall sæta á viðkomandi framboðslista vegna kynferðis, aldurs eða annars. Þetta er síðan nákvæmlega það sem jákvæð mismunun gengur út á.

Að lokum vegna óánægju Hildar með það að ég skyldi vekja athygli á ummælum hennar um íhaldsstefnuna og íhald.is sem hún lét falla á vefsíðunni Arndís.is þar sem hún kallaði þetta tvennt m.a. sora. Hildur telur víst að þetta hafi verið ómaklegt af mér að mér skilst vegna þess að ummælin hafi verið athugasemd (“comment”) á viðkomandi heimasíðu og að fyrir vikið hafi þau af einhverjum ástæðum ekkert heimildagildi. Hún viðurkennir þó í síðari grein sinni á Pólitík.is að umrædd afstaða hennar til íhaldsstefnunnar (og þá væntanlega íhald.is líka) sé skýr og opinber. Einkum í því ljósi sætir vitanlega furðu hvers vegna hún skuli bregðast jafn illa við því að ég skyldi vekja máls á þessari opinberu og skýru afstöðu og velta fyrir mér hver rökin fyrir henni kynnu að vera fyrst þeirra var ekki getið.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is


Gullkornið á sunnudegi

„Any woman who understands the problems of running a home will be nearer to understanding the problems of running a country.“

Margaret Thatcher


Össur, stuttbuxnadeildin og lýðræði stjórnarandstöðunnar

Fyrsti þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður fór mikinn á heimasíðu sinni í gær, fimmtudaginn 20.april. Þeir sem á annað borð nenna að fylgjast með þinginu þessa dagana hafa ef til vill tekið eftir því að stjórnarandstaðan ætlar sér að kúga þingið með málþófi af því að þeim líkar ekki frumvarp stjórnarmeirihlutans um breytingu á rekstrarskipulagi Ríkisútvarpsins.

Allt er þetta auðvitað gert í nafni lýðræðisins, enda vita allir skólagengnir menn að lýðræði fjallar um að það að minnihluti á þingi á að tala eins lengi og hægt er um ekki neitt í hvert skipti sem þeim líkar ekki frumvörp meirihlutans. Það sorglega er að þetta hefur tekist hjá þeim. Ríkisstjórnin sýndi algjöran aumingjaskap með iðnaðarráðherrann í fararbroddi þegar hún ,,samdi” við hina lýðræðislegu stjórnarandstöðu um afgreiðslu laganna bara til að binda enda á málþófið. Almenningur hefur nefnilega ekkert annað að gera á nóttunni en að horfa á beina útsendingu frá Alþingi þar sem þingmenn tala svo klukkutímum skiptir bara til þess eins og tefja mál. Já, lengi lifi lýðræðið.

En þá að Össuri. Eins og sagt var hér í upphafi fór hann mikinn vegna frumvarpsins um RÚV. Nú má Össur að sjálfsögðu vera ósammála Sigurði Kára Kristjánssyni og öðrum frjálslyndum stjórnmálamönnum sem ekki aðhyllast sósíalisma og mikil ríkisafskipti.

En mér þykja kaldar kveðjurnar sem Össur sendir ungu fólki í pistli sínum. Orðrétt segir Össur, ,,Árið 2003 urðu tveir forystumenn úr röðum stuttbuxnadeildarinnar, þeir Birgir Ármannsson og Sigurður Kári Kristjánsson, alþingismenn fyrir Sjálfstæðisflokkinn - og hófu sölumannatrúboðið.”
Og síðar segir hann, ,,Á Alþingi er bent á að í frumvarpinu sé opnað á nauðungarsölu á RÁS 2 í krafti fjársveltis ríkisstjórnarinnar, og bent á að innan tíðar fjölgi þingmönnum úr röðum Sjálfstæðisflokksins sem eru aldir upp í anda stuttbuxnadeildarinnar [...] þar sem sala á RÚV eru trúarbrögð.”

Lýsir þetta kannski viðhorfi Össurar til stjórnmálaafskipta ungs fólks?

Nú er Sigurður Kári 32ja ára og Birgir 37 ára. Hvernig Össuri dettur í hug að flokka menn sem komnir eru á fertugsaldurinn í ,,stuttbuxnadeild” veit ég ekki. Ekki veit ég heldur til þess að stjórnmálaskoðanir ungs fólks í Sjálfstæðisflokknum séu trúarbrögð.

Er það slæmt að ungt fólk hafi skoðanir og leggi sig fram við að framfylgja þeim á vettvangi stjórnmálanna, þá sérstaklega á þinginu? Maður hefði haldið að það væri gott mál ef ungt fólk héldi í hugsjónir sínar og stjórnmálaskoðanir þegar á vettvanginn (þingið) er komið.

Hefur Sigurður Kári (sem er nú kjörinn fulltrúi rétt eins og Össur) minna trúverðugleika í þinginu vegna aldurs? Rétt er að benda á að bæði Sigurður Kári og Birgir eru eldri en varaformaður Samfylkingarinnar.

Nú á Samfylkingin ungt og efnilegt fólk á þingi. Eru Katrín Júlíusdóttir, Björgvin G., og Ágúst Ólafur hluti af stuttbuxnaliði Samfylkingarinnar? Gefur þessi ummæli Össurar mér rétt til þess að vitna í stuttbuxnadeild Samfylkingarinnar þegar fjallað er um Unga Jafnaðarmenn?

Í sannleika sagt er það þó þannig að Össur er ekki vanur að tala svona þannig að ég geri ráð fyrir því að hann hafi hlaupið á sig. Hingað til hafa aðrir innan Samfylkingarinnar stundað ómálefnaleg ummæli um andstæðinga sína í stjórnmálum. Uppnefni, útúrsnúningur og skítkast hefði maður haldið að væri aðeins í smiðju núverandi formanns og svilkonu Össurar. Eg vona að Össur fari ekki að taka formanninn sinn til fyrirmyndar.

Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr@simnet.is


Það er ljótt að ljúga

Á bls. 16 í Fréttablaðinu þann 10.apríl síðastliðinn, er afar villandi umfjöllun um deilu Ísraela og Palestínumanna.

Ég ætla ekki að fara yfir þennan Fréttablaðspistil lið fyrir lið, enda myndi slíkt vera efni í heilann bókaflokk. Ég ætla þó að skoða eina setningu úr umræddri grein. Hún hljóðar svo: ,,Ísraelar skilgreina Hamas-samtökin sem hryðjuverkasamtök, en þau hafa löngum unnið að því að endurheimta landsvæði sem Ísraelar hafa hernumið.”

Ég ætla að byrja á því að upplýsa Fréttablaðið aðeins um samtökin Hamas.

Hamas er stundum lýst sem pólitískum samtökum, með herskáum armi, sem láta sér umhugað um félagslega velferð Palestínumanna, og rétt þeirra til heimalands síns. Sé það rétt, er orðið tímabært fyrir samtökin að breyta sattmála sínum. Þar er aðeins einu sinni minnst á eitthvað sem viðkemur félagslegri velferð, en 36 sinnum í 35 greinum sáttmálans er talað um heilagt stríð (jíhad). Það er greinilegt hvert er höfuð markmið Hamas.

Í 28 greinum er fjallað um það að drepa skuli gyðinga, og frelsa skuli ,,alla” Palestínu – Palestína verður því ekki ,,frjáls” fyrr en Ísrael er ekki lengur til.

Síðan september 2000 hefur Hamas lýst yfir ábyrgð á 425 hryðjuverkaárásum á óbreytta borgara og hafa 2453 látist, þar á meðal mörg börn sem vita ekki einu sinni hvað orðið ,,hernám” þýðir.

Samkvæmt 13.grein Hamas sáttmálans kæmi ekki til greina að semja frið við Ísraela, þrátt fyrir að þeir myndu yfirgefa hernumdu svæðin að fullu, gefa Palestínumönnum Jerúsalem, og leyfa öllum Palestínumönnum sem eru afkomendur þeirra sem misstu heimili sín árið 1948 á því landsvæði sem nú tilheyrir Ísrael að ,,snúa aftur” – flytja til Ísrael.

Að lokum gefur t.d. 7.grein sáttmála Hamas ágæta innsýn í hugsunarhátt samtakanna:

Hamas hlakkar til að sjá fyrirheit Allah verða að veruleika... það mun ekki verða fyrr en múslímar berjast gegn gyðingunum; þar til gyðingarnir fela sig fyrir aftan steina og tré sem munum hrópa: Ó múslimi! Það er gyðingur að fela sig bak við mig, komdu og dreptu hann.

Nú spyr ég hið ágæta Fréttablað:

Hvers vegna stendur ekki í greininni ykkar ,,Hamas samtökin eru hryðjuverkasamtök”, í stað þess að skrifa ,,Ísraelar skilgreina Hamas samtökin sem hryðjuverkasamtök.”? Hamas samtökin eru klárlega og án alls vafa hryðjuverkasamtök. Með framsetningu ykkar leyfið þið þeim að njóta vafans. Lesandinn gæti fengið það á tilfinninguna að skilgreining Ísraela sé röng, og sett fram í pólitískum tilgangi.

Hvers vegna segið þið Hamas samtökin berjast fyrir endurheimtingu hernumdu svæðanna, án þess að segja lesendum ykkar að Hamas samtökin telji að allt landsvæðið sem Ísraelar búa á sé hernumið, og allt Ísraelsríki tilheyri Palestínu, og að enginn friður komi til greina af þeirra hálfu fyrr en Ísraels ríki sé ekki lengur til, og allir gyðingar á svæðinu fluttir eða dauðir?

Í grein ykkar er það gefið í skyn, þegar sagt er að Hamas vilji ,,endurheimta landsvæði sem Ísraelar hafa hernumið”, að Hamas samtökin vilji einungis öðlast aftur landamæri Palestínu eins og þau voru dregin árið 1948.

Það er ljótt að ljúga.

Sindri Guðjónsson
sindri79@gmail.com


Mánudagspósturinn 17. apríl 2006

Fyrir nokkru birtist grein á vefritinu Hugsjónir.is eftir mig undir fyrirsögninni „Sósíalískur fótboltaleikur“ þar sem ég dró upp einfalda mynd af því út á hvað sósíalisminn sem hugmyndafræði, sem og ýmis afbrigði hans eins og sósíaldemókratisminn, gengi í raun og veru út á í grunninn. Benti ég á það, sem við hægrimenn höfum í gegnum tíðina margoft vakið athygli á, að þegar vinstrimenn tala um jafnrétti þá eiga þeir ekki við eiginlegt jafnrétti, þ.e. að allir hafi sama rétt og sömu reglur gildi um alla, heldur eitthvað sem miklur heldur mætti kalla jafnstöðu þar sem allir væru svo gott sem í sömu meðalmennskunni. Tók ég tvö dæmi í þessum efnum, annað af fótboltaleik og hitt af skólaprófi. Orðrétt lauk greininni á þessum orðum:

„Í grundvallaratriðum er hugmyndin ævinlega sú að það sé ekki nóg að fólk hafi jöfn réttindi heldur eigi hið opinbera að grípa inn í, þegar sumir einstaklingar hafa fyrir lífinu og ná árangri en aðrir gera það ekki, og jafna stöðu þeirra. Þá gjarnan með einhverjum sértækum aðgerðum eins og það er kallað (t.d. með svokallaðri „jákvæðri mismunun“, „kynjakvótum“ og „fléttulistum“ svo dæmi séu tekin), enda gengur ekki að mati vinstrimanna að fólk sem hefur fyrir lífinu, hvort sem það er með því að leggja á sig langskólanám eða öðru, hafi það betra en þeir sem ákveða af einhverjum ástæðum að gera það ekki.“

Eins og ég átti von á og tók fram í greininni kom hún greinilega við kauninn á ýmsum vinstrimönnum. Þannig ritaði Hildur Edda Einarsdóttir t.a.m. grein á vefrit Ungra jafnaðarmanna, Pólitík.is, 15. apríl sl. þar sem hún finnur grein minni flest til foráttu. Í stuttu máli segir hún það ekki sanngjarnt að taka dæmi af fótboltaleik eða skólaprófi til að lýsa mismunandi árangri einstaklinga eftir því hversu mikið þeir leggja á sig í lífinu til að ná honum. Hún segir að ekki standi allir jafnfætis í byrjun eins og í þessum dæmum þar sem sumir séu ríkir, og hafi af þeim sökum mikil völd, á meðan aðrir séu fátækir og hafi engin völd eins og hún orðar það. Hún tekur síðan sjálf m.a. það dæmi að þetta sé eins og að láta blint fótboltalið keppa við lið þar sem allir leikmennirnir eru sjáandi.

Að leggja að jöfnu blindu og fátækt er vitaskuld fáránlegt. Blinda er eitthvað sem allajafna verður ekki sigrast á en það sama verður ekki sagt um fátækt, sérstaklega ekki á Íslandi alsnægtanna í dag þar sem fátækt er varla til. Það getur hver sem er unnið sig upp úr fátækt ef hann bara leggur sig eftir því. Ég leyfi mér raunar að fullyrða að flestir þeir sem náð hafa miklum árangri í lífinu hér á landi í dag, og tekist að öðru leyti að koma sér vel fyrir í lífinu, hafa ekki gert það vegna þess að þeir eiga eða hafa átt ríka foreldra heldur fyrst og fremst vegna eigin framtakssemi og dugnaðar. Oftar en ekki er í þeim efnum um að ræða fólk sem kemur einfaldlega frá afar venjulegum heimilum, venjulegt fólk.

Ég veit ekki í hvaða þjóðfélagi Hildur heldur að hún búi, svo virðist sem hún sé föst í einhverju 19. aldar samfélagi og telji að venjulegt fólk eigi enga möguleika á að ná árangri í lífinu þó það leggi hart að sér nema með ríkulegri aðstoð hins opinbera. Þannig er það þó almennt séð ekki á Íslandi í dag eins og flestir vita. Það er þess utan sennilega ekkert eins agandi fyrir mannskepnuna og að þurfa að hafa fyrir hlutunum. Ekkert sem getur gert manninum eins gott og að ná árangri í lífinu fyrir eigin dugnað og fyrirhöfn. En það verður alltaf til fólk sem öfundast út í aðra vegna árangurs þeirra og telur að það sjálft eigi að fá hlutdeild í honum sí svona og af því bara.

Annars er staðreyndin sú að hæglega má ganga of langt í átt til velferðar, hvort sem það er fyrir tilstuðlan hins opinbera eða t.a.m. ríkra foreldra. Þetta er í raun alveg sami hluturinn að því leyti að það hefur í raun sömu áhrif á það fólk sem í hlut á. Enginn hefur einfaldlega gott af því að fá of mikið upp í hendurnar án þess að þurfa að hafa fyrir því sjálfur. Slíkt hefur í flestum tilfellum aðeins mannskemmandi áhrif á fólk. Þá gildir einu hvort um er að ræða dekur af hálfu hins opinbera eða af hálfu ríkra foreldra. Þegar velferð fer að hafa þau áhrif á fólk að það nennir ekki að hafa fyrir hlutnunum sjálft þá er einfaldlega eitthvað að.

---

Þess utan þá þótti mér athyglisvert að Hildur skyldi ekki minnst einu orði á þau þrjú dæmi sem ég tók um svokallaðar sértækar aðgerðir sem vinstrimenn margir hverjir eru mjög hrifnir af í því skyni að koma á meintu jafnrétti, þá gjarnan á milli kvenna og karla. Þá á ég við svokallaða „jákvæða mismunun“, „kynjakvóta“ og „fléttulista“ . Þetta þrennt er einmitt alveg lýsandi fyrir sósíalismann. Einstaklingarnir eiga ekki að ná árangri í lífinu á eigin verðleikum heldur á eitthvert utanaðkomandi vald að “rétta” stöðu þeirra sem taldir eru standa höllum fæti.

Ég er mikill jafnréttissinni og tel sem slíkur að kyn eða annað slíkt eigi ekki að skipta máli t.d. í ráðningum í stöður, aðeins einstaklingurinn og verðleikar hans. Það var sjónarmið kvenfrelsishreyfingarinnar í upphafi, en í seinni tíð hefur þetta breytzt og nú skiptir kyn öllu máli að mati að mati margra þeirra sem þykjast vera jafnréttissinnar.

---

Að lokum þetta. Í upphafi greinar sinnar segir Hildur að greinin mín hafi verið fræðandi og hafi þannig m.a. varpað ljósi á hugsunarhátt hægrimanna að hennar mati. Það er auðvitað hið bezta mál, en svo virðist sem hún hafi alls ekki þurft á þeirri fræðslu að halda að eigin mati og hafi þegar myndað sér mjög afgerandi skoðanir í þeim efnum – allavega þegar kemur að íhaldsstefnunni. Þannig skrifaði hún eftirfarandi á vefsíðuna Arndís.is 21. febrúar sl.: „Íhald.is er sori, en það er nú ekkert skrítið miðað við hvað íhaldsstefnan sem slík er mikill sori.“ Hildur sá einmitt sérstaka ástæðu til að skírskota til mín sem íhaldsmannsins Hjartar Guðmundssonar, sem í sjálfu sér er auðvitað hið bezta mál og einungis hrós fyrir mína parta. Ég efast þó einhvern veginn um að það hafi verið tilgangur Hildar ;)

Ummæli hennar eru auðvitað afskaplega “málefnaleg” og í samræmi við það fylgdi nákvæmlega enginn rökstuðningur. Ekki einu sinni heiðarleg tilraun til þess. Hvað ætli Hildi findist um það ef t.a.m. ég skrifaði eða segði einhvers staðar opinberlega: „Pólitík.is er sori, en það er nú ekkert skrítið miðað við hvað jafnaðarstefnan sem slík er mikill sori.“? Ég er ekki viss um að henni myndi líka það og af mjög skiljanlegum ástæðum verð ég að segja. Persónulega myndi ég t.d. aldrei láta slíkt út úr mér. En kannski skiptir öllu máli fyrir jafnaðarmanninn Hildi hvort um er að ræða Jón eða sr. Jón?

Eigandi síðunnar, Arndís Anna Gunnarsdóttir ritstjóri Pólitík.is, svaraði síðan Hildi að bragði: „Mest kemur mér á óvart að menn skuli viðurkenna opinberlega að vera íhaldsmenn. Í mínum huga er það allavega hálfgert fúkyrði... Svona eins og að eigna sér urlið siðblindur.is, eða afturhald.is eða álíka.“ Hildur bætti síðan um betur og var ekkert að skafa utan af því: „Ætli þessi url séu frátekin, siðblindur.is og afturhald.is? Annars væru þau kjörin til þess að vísa beint í ihald.is. Sori.is skilst mér að sé líka laust og ekki er það verra uppnefni.“ Þarna kemur skýrt fram að það sem að baki lá hjá henni var að uppnefna, eitthvað sem mun sennilega seint geta talizt málefnalegt. Maður veltir því eðlilega fyrir sér hvort þær stöllur hafi gert sér grein fyrir því að þær væru að ræða málin fyrir opnum tjöldum? Það verður ekki beint sagt að þessar samræður séu til marks um mikinn pólitískan þroska eða bara þroska almennt.

Mér, og sjálfsagt fleirum, þykja þessi skrif annars mjög fróðlegt þar sem þau veita óneitanlega ákveðna innsýn í hugsunarhátt þeirra Hildar og Arndísar. Ég vona þó innilega að hér hafi aðeins verið um að ræða afmörkuð hliðarspor af þeirra hálfu og ennfremur dettur mér ekki í hug að gefa mér það að um sé að ræða dæmigerðan hugsunarhátt íslenzkra vinstrimanna. En hvað sem því líður er bara að sjá hvort ummæli hinna mjögsvo “málefnalegu” jafnaðarmanna verði nú fjarlægð af Arndís.is. Gaman að þessu ;)

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is


Gullkornið á sunnudegi

„How do you tell a communist? Well, it's someone who reads Marx and Lenin. And how do you tell an anti-Communist? It's someone who understands Marx and Lenin.“

Ronald Reagan


Davíð Stefánsson - Á föstudaginn langa

Ég kveiki á kertum mínum
við krossins helga tré.
Í öllum sálmum sínum
hinn seki beygir kné.
Ég villtist oft af vegi.
Ég vakti oft og bað.
Nú hallar helgum degi
á Hausaskeljastað.

Í gegnum móðu' og mistur
ég mikil undur sé.
Ég sé þig koma, Kristur,
með krossins þunga tré.
Af enni daggir drjúpa,
og dýrð úr augum skín.
Á klettinn vil ég krjúpa
og kyssa sporin þín.

Þín braut er þyrnum þakin,
hver þyrnir falskur koss.
Ég sé þig negldan nakinn
sem níðing upp á kross.
Ég sé þig hæddan hanga
á Hausaskeljastað.-
Þann lausnardaginn langa
var líf þitt fullkomnað.

Ég bíð, uns birtir yfir
og bjarminn roðar tind.
Hvert barn, hvert ljóð, sem lifir,
skal lúta krossins mynd.
Hann var og verður kysstur.
Hann vermir kalda sál.
Þitt líf og kvalir, Kristur,
er krossins þögla mál.

Þú ert hinn góði gestur
og Guð á meðal vor, -
og sá er bróðir bestur,
sem blessar öll þín spor
og hvorki silfri safnar
né sverð í höndum ber,
en öllu illu hafnar
og aðeins fylgir þér.

Þú einn vilt alla styðja
og öllum sýna tryggð.
Þú einn vilt alla biðja
og öllum kenna dyggð.
Þú einn vilt alla hvíla
og öllum veita lið.
Þú einn vilt öllum skýla
og öllum gefa grið.

Að kofa og konungshöllum
þú kemur einn á ferð.
Þú grætur yfir öllum
og allra syndir berð.
Þú veist er veikir kalla
á vin að leiða sig.
Þú sérð og elskar alla,
þó allir svíki þig.

Ég fell að fótum þínum
og faðma lífsins tré.
Með innri augum mínum
ég undur mikil sé.
Þú stýrir vorsins veldi
og verndar hverja rós.
Frá þínum ástareldi
fá allir heimar ljós.

Ljóðið ,,Á föstudaginn langa" er að finna í bókinni Kveðjur sem var þriðja ljóðabók Davíðs Stefánssonar og kom út árið 1924.

Ritstjórn Íhald.is óskar lesendum sínum gleðilegra páska


Næsta síða »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband