Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2006

Verum góð við múslima annars...

Vesturlöndin eiga að lifa í ótta við múslima í dag. Það eru allavega skilaboðin sem okkur berast frá miðausturlöndum daglega nú orðið. Eins og flestir hafa tekið eftir rennur nú heitt blóð á svæðinu vegna skopteikninga um Múhameð spámann. Það er ekki nóg með að danskar vörur hafi verið fjarlægðar úr verslunum í múslimaríkjunum heldur hópast almenningur nú út á götur, brennir danska fánann (og þann norska ef hann er við höndina) og kallar á hefndir fyrir niðurlægingu ,,spámannsins” sem var víst svona móðgaður.

Nú á auðvitað ekki að gera lítið úr trú manna, en það þýðir ekki að það sé bannað að gera grín að (og jafnvel gera lítið úr) trúarbrögðum yfir höfuð. Við sem erum kristin hoppum ekki hæð okkar þó einhver geri lítið úr frelsara okkar. Hann er ekkert minni frelsari fyrir vikið og trúin er alveg sú sama. Nú má vel vera að Múhameð spámaður þurfi á vörninni að halda. Hann er kannski minni maður við það að einhver teikni mynd af honum, og hvað þá grínmynd. Hann er kannski bara með minnimáttarkennd yfir því að það var víst Jesús einn sem reis upp frá dauðum á þriðja degi. Eg man allavega ekki eftir því að Muhammed hafi tekist það.

Í sumum löndum miðausturlanda er verið að þjálfa unga menn til að fremja hryðjuverk einn daginn. Allt í nafni Allah. Þeim er kennt að vesturlandabúar og aðrir ,,heiðingjar” séu vondir og þar með réttdræpir. [1] Eilíf himnavist og fjöldinn allur af hreinum meyjum fylgir víst með í kaupunum ef þér tekst að deyja svokölluðum píslavottardauða. Öll vestræn gildi eru einskis metin. Konur hafa nánast engin réttindi. Hommar eru annaðhvort niðurlægðir eða líflátnir. Að sama skapi er umburðarlyndið gagnvart kristnum ekkert.

Á vesturlöndum (og þar er Ísland engin undantekning) er sífellt tönglast á því að við verðum að virða aðra menningarheima og alls ekki, alls ekki gera lítið úr islamstrú. Við lærum að þrátt fyrir menn eins og Osama bin Laden sé islamstrú í heild sinni friðsamleg trú og að lítið mál sé fyrir krisna og múslima að búa saman í sátt og samlyndi. Nú vil ég alls ekki halda því fram að islam sé ekki friðsamleg trú en umburðalynd er hún ekki. Það eitt er víst.

Í miðausturlöndum er í lagi að kalla fram á útrýminga heilla þjóða, s.s. Ísraels, kalla á dauða ákveðinna stjórnmálamanna og brenna fána vestrænna þjóða. En að vestrænir menn teikni myndir af spámanninum eða fjalli á einhvern hátt gagnrýnið um íslam? Nei, það er bannað. Þá er sendiráðunum lokað, vörur fjarlægðar og sendar sprengjuhótanir.

Við skulum samt ekki gleyma því að þetta var byrjað áður en ráðist var inn í Írak árið 2003 og þetta var byrjað áður en Bush var kosinn forseti. Osama bin Laden og hans líkir hata ekki aðeins Clinton eða Bush, þeir hata vestræn gildi og allt sem við stöndum fyrir.

Og allir verða hræddir ef einhver ögrar múslimum. Og það er ekki af virðingu við trúarbrögðin, það vill bara enginn verða sprengdur í loft upp.

Gísli Freyr Valdórsson


[1] Þetta á auðvitað ekki við um alla múslima en þessi skoðun er hins vegar útbreidd meðal margra múslima og á henni vinna hryðjuverkamenn.


Mánudagspósturinn 30. janúar 2006

Forysta Samfylkingarinnar segist vilja lækka virðisaukaskatt á matvælum hér á landi og er auðvitað alltaf góða gjalda vert þegar rætt er um skattalækkanir hver svo sem það gerir. Helzti gallinn við hugmynd Samfylkingarinnar er hins vegar sá að það er svo gott sem útilokað að flokkurinn muni nokkurn tímann beita sér fyrir því að hún verði framkvæmd jafnvel þó flokkurinn kæmist í ríkisstjórn. Samfylkingin er nefnilega ekki í eðli sínu flokkur skattalækkana þó forystumenn hans slái um sig með yfirlýsingum í þá veru annað slagið í von um að ná einhverju fylgi frá Sjálfstæðisflokknum. Framganga Samfylkingarinnar í R-listasamstarfinu í Reykjavík á undanförnum árum hefur sýnt svo um munar að flokkurinn er þvert á móti – rétt eins og allir aðrir vinstriflokkar – flokkur skattahækkana.

Hugmyndir Samfylkingarinnar ganga annars út á að lækka virðisaukaskattinn á matvælum (það sem flokkurinn kallar jafnan matarskattinn til að ná betur til fólks) úr 14% og niður í 7%. Þetta er nokkuð sérstakt í ljósi þess að á sama tíma vill flokkurinn að Ísland gangi í Evrópusambandið. Ef það gerðist að Ísland gerðist aðili að sambandinu myndu íslenzk stjórnvöld þar með skuldbinda sig, líkt og stjórnvöld í öðrum aðildarríkjum sambandsins, til að hafa virðisaukaskatt á allri þjónustu og vörum á bilinu 15-25%. Að vísu er mögulegt að fá undanþágur frá þeirri reglu en það yrðu öll aðildarríkin að samþykkja einróma samkvæmt reglum Evrópusambandsins. Þess utan er það auðvitað vel þekkt staðreynd að hvers kyns undanþágur frá meginreglum sambandsins eru ekki í boði heldur í mesta lagi einhvers konar tímabundinn aðlögunartími.

Út af fyrir sig eru það auðvitað engar fréttir að Samfylkingin tali í hringi og að lítið samhengi sé í stefnumálum flokksins og yfirlýsingum forystumanna hans. Sem aftur er sjálfsagt skýringin á því hversu fylgið hefur hrunið af flokknum á undanförnum mánuðum eða allt frá því Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var kjörin formaður hans í maí á síðasta ári. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun á fylgi stjórnmálaflokkanna, sem gerð var af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands fyrir Morgunblaðið, mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 44,7% fylgi en Samfylkingin ekki nema 23,6%. Þetta eru nýjar lægðir fyrir Samfylkinguna og verður að fara einhver ár aftur í tímann til að finna jafn lélega útkomu hjá flokknum í skoðanakönnun. Munurinn á flokkunum tveimur er rúmt 21%.

Það er því varla að furða að margir klóri sér í kollinum og furði sig á því hvers vegna flokksmenn í Samfylkingunni voru að skipta um formann á síðasta ári. Ingibjörg Sólrún átti víst að rífa fylgi flokksins upp og gera hann að stærsta stjórnmálaflokki landsins. Eitthvað sem virðist vera eina raunverulega stefnumál hans. Eins og staðan er í dag virðist það ekki beint vera að fara að gerast. Það verður annars fróðlegt að sjá hver niðurstaðan verður í skoðanakönnun Gallup á fylgi flokkanna í janúar sem væntanlega verður birt upp úr næstu mánaðarmótum.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


Kaldar kveðjur til ungra frambjóðenda

Hvað verður til þess að Jóhanna Sigurðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar tekur sér tíma til að amast yfir frambjóðanda í prófkjöri framsóknarmanna til borgarstjórnarkosninga á komandi vori? Nú get ég svo sem ekki svarað því fyrir hennar hönd og ekki hef ég neitt á móti henni Jóhönnu, langt því frá. Ég hef meira að segja áður sagt hér á síðuni að mér finnist hún skemmtilegur þingmaður og oftar málefnalegri en kollegar hennar á vinstri vængnum. En núna tók Jóhanna að ég held vitlausan pól í hæðina. Í grein á síðu sinni sér hún ástæðu til að skammast út í hina og þessa sem vogað hafa sér að fara í prófkjör í borginni.

Jóhanna segir í grein sinni ,,... Björn Ingi er sagður frambjóðandi helstu forystu og áhrifamanna í flokknum. ... sem er nánasti samstarfsmaður formanns flokksins og forsætisráðherra og nýtur stuðnings krónprinsins Árna Magnússonar vekur upp spurningar. Hver borgar fyrir þetta yfirþyrmandi auglýsingaflóð fyrir frambjóðandann, sem virðist vera að slá út Gísla Martein hjá íhaldinu og þótti ýmsum þó nóg fyrir? ”

Bíddu nú við, á Björn Ingi að gjalda fyrir það að vera aðstoðarmaður forsætiráðherra? Er eitthvað athugavert við það þó að menn taki stefnu í pólitík? Hefur enginn sem er nálægur Ingibjörgu Sólrúnu nokkru sinni farið í pröfkjör eða annars konar pólitískt framboð? Og bíddu nú við, er á annað borð slæmt að vera náinn áhrifa- og fyrstumönnum í stjórnmálaflokk? Eru áhrifa- og forystumenn vondir menn? (eða konur ef því er að skipta?)

Og annað, getur Jóhanna upplýst hverjir þessi ,,ýmsir” eru sem þótti nóg um baráttu Gísla Marteins fyrir nokkrum mánuðum? Hvað á þetta eiginlega að þýða? Hvað veit Jóhanna um það hvað Gísli Marteinn eða aðrir frambjóðendur eyddu í prófkjör sitt í haust? Það er ekkert sem bendir til þess að Gísli Marteinn hafi eytt meira fjármagni í sína baráttu heldur en mótherji hans í prófkjörinu. Það eru heldur köld skilaboðin sem ungir frambjóðendur fá frá þeim sem fyrir sitja.

En jæja, áfram heldur Jóhanna, ,,Grannt mun verða fylgst með því hvort og þá hvernig frambjóðandinn mun gera grein fyrir útgjöldum og tekjum af þessari prófkjörsbaráttu? Flokkur þessa frambjóðenda hefur ásamt íhaldinu ítrekað staðið í vegi þess að lögleitt verði lög um upplýsingar um fjármál stjórnmálaflokka? ... Og hver borgar brúsann í kosningabaráttu flokksins? Eru einhver hagsmunatengsl þar að baki? Eru það sömu aðilar og styðja flokkinn fjárhagslega í kosningum og eru nú að styðja nánasta samstarfsmanns formanns flokksins og forsætisráðherra með fjárframlögum- frambjóðandans”

Eg býst þá líka við að Jóhanna muni fylgjast grannt með því hverjir styrkja framboð Stefáns J. Hafsteins, Dag B. Eggertssonar og auðvitað núverandi borgarstjóra, Steinunnar Valdísar. Það er auðvitað engin hætta á hagsmunartengslum þegar borgarstjóri fer í prófkjör??

Ætlar Jóhanna líka að fara fram á að Össur og Ingibjörg upplýsi hverjir styrktu framboð þeirra til formanns s.l. vor? Síðan geri ég líka ráð fyrir að þeir sem styrkja Össur, Ingibjörgu, Stefáns J, Dag B, og Steinunni Valdísi komi ekki til með að styðja flokkinn í komandi kosningum. Ekki viljum við nein hagsmunatengsl, er það nokkuð?

Og flokkur Björns Inga og ,,íhaldið” hefur víst komið í veg fyrir að lög um fjármál stjórnmálaflokka gangi í gegn. Þetta er auðvitað til skammar sérstaklega þar sem fjármál Samfylkingarinnar liggja öllum opin og hefur flokkurinn sýnt frábært fordæmi með þessu stóra baráttumáli sínu.

Í raun er mér alveg sama hverjir styðja einstaka frambjóðendur eða flokka. Það er þeirra einkamál. En Jóhanna getur ekki ráðist með þessum hætti á Björn Inga, Gísla Martein eða aðra unga menn sem eru að fóta sig í pólitík. Skoðanir hennar eru aðeins í orði en ekki á borði. Eg vona að Jóhanna fari ekki frekar inn á þessa braut.

Gísli Freyr Valdórsson


Vitleysisumræða um skattamál

Það er meiri vitleyisumræðan sem er í gangi í þjóðfélaginu um skattamál. Stjórnarandstæðingar, með Stefán Ólafsson félagsfræðaprófessor í broddi fylkingar, hafa beinlínis haldið því fram að ríkisstjórnin hafi sagt ósatt um að skattar hafi lækkað á Íslandi vegna þess að skattbyrðin í landinu hafi aukizt. Staðreyndin er hins vegar sú að þetta er auðvitað tvennt ólíkt. Ríkisstjórnin hefur aldrei haldið því fram að skattbyrðin hafi minnkað heldur skattarnir sem slíkir í prósentum talið. Hins vegar hafa þær skattalækkanir, og aðrar kærkomnar efnahagsumbætur sem ríkisstjórnin hefur staðið að á undanförnum árum, leitt til aukinna umsvifa og velmegunar í landinu og þar með meiri verðmætasköpunar og hærri tekna landsmanna. Þetta hefur aftur þýtt að í krónum talið er fólk að greiða meira til ríkisins í dag en t.d. fyrir áratug þó prósentuhlutfallið hafi lækkað verulega. En fólk hefur líka á móti haft úr miklu meiru að moða en nokkurn tímann áður. En það minnast stjórnarandstæðingar ekkert á enda ekki heppilegt fyrir þeirra áróður.

Vefþjóðviljinn hefur m.a. fjallað um þetta mál í nokkrum pistlum að undanförnu og útskýrt hvernig í þessum málum liggur. Í einum slíkum vitnar hann í einn af fjölmiðlapistilum Ólafs Teits Guðnasonar í Viðskiptablaðinu og segir síðan: „Fyrir utan þau dæmi sem Ólafur Teitur tekur hér, þá má ímynda sér að maður nokkur hafi í laun nákvæmlega 100 þúsund krónur umfram svokölluð skattleysismörk. Ef hann myndi skyndilega lækka í launum um þennan hundraðþúsundkall þá gæti hann auðvitað glaðst yfir því að „skattbyrði“ hans hefði lækkað með mjög afgerandi hætti. En það er ekki víst að honum þættu skiptin góð. Aukin „skattbyrði“ getur verið til marks um að það hafi einfaldlega hlaupið á snærið hjá launamanninum.“

Málflutningur stjórnarandstæðinga hefur þess utan allur snúist um einhver meint ósannindi ríkisstjórnarinnar sem enginn fótur er fyrir eins og kemur fram hér á undan. Málið í heild er þannig alfarið eignað ríkisstjórninni þó staða mála í landinu í heild hafi verið til umræðu. Þ.m.t. staðan hjá sveitarfélögunum í landinu s.s. Reykjavíkurborg sem er langfjölmennasta sveitarfélags landsins eins og kunnugt er. Þar hafa vinstrimenn ráðið ríkjum sl. 12 ár og beinlínis stundað það allan þann tíma í síauknum mæli að hækka skatta og álögur á borgarbúa auk þess að finna upp ófáa nýja skatta og margfalda skuldir borgarinnar. Skattbyrðin í Reykjavíkurborg, sem hefur gríðarleg vægi í þessu dæmi í krafti fólksfjölda, hefur því ekki bara aukizt stórlega á undanförnum árum heldur skattarnir sem slíkir sömuleiðis í prósentum talið.

Og svo þykjast stjórnarandstæðingar vera þess umkomnir að skammast út í ríkisstjórnina í þessu sambandi og það á algerlega uppskálduðum forsendum. Skattbyrðin á Íslandi hefur vissulega aukizt en það er ekki vegna þess að skattar sem slíkir hafi hækkað heldur fyrst og fremst vegna þess að velmegun landsmanna hefur aukizt gríðarlega á síðastliðnum árum vegna efnahagsumbóta ríkisstjórnarinnar eins og Indriði H. Þorláksson, ríkisskattstjóri, hefur m.a. staðfest. Það er hins vega ljóst að ef vinstrimenn komast einhvern tímann í ríkisstjórn þá munu skattar sem slíkir ekki aðeins hækka verulega heldur einnig skattbyrðin sem afleiðing af því. Hvernig staðið hefur verið að málum í Reykjavík í valdatíð R-listans er til marks um það.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


Mánudagspósturinn 23. janúar 2006

Fyrir jól var greint frá því í fjölmiðlum að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja (BSRB), með Ögmund Jónasson þingflokksformann og þingmann Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í broddi fylkingar, hefði ákveðið að styrkja frjálsu félagasamtökin Mannréttindaskrifstofu Íslands um eina milljón króna fyrir þetta rekstrarár. Sú upphæð kemur vitanlega úr vasa launþega sem skyldaðir eru til að greiða til samtakanna hluta af launum sínum í hverjum mánuði. Af sama tilefni krafðist BSRB þess að ríkið tryggði rekstur félagsskaparins í framtíðinni - þ.e. með fjármunum okkar skattgreiðenda. Þann 22. desember sl. sendi ég vegna þessa svohjóðandi fyrirspurn til BSRB í gegnum heimasíðu samtakanna:

“Mig langar mjög að forvitnast um það í hvaða aðstöðu BSRB telji sig vera til að krefjast þess að skattborgarar þessa lands fjármagni rekstur frjálsra félagasamtaka á borð við Mannréttindaskrifstofu Íslands? Og í annan stað hvort það sé virkilega skoðun BSRB að frjáls félagasamtök sem starfi að mannréttindamálum á Íslandi eigi ekki að sitja við sama borð þegar kemur að styrkveitingum af opinberu fé? Hvers vegna einn slíkur aðili eigi að njóta sérstakra fyrirgreiðslna í þeim efnum að mati samtakanna?”

Skemmst er frá því að segja að ekkert svar hefur enn borizt við fyrirspurninni frá BSRB og verður að teljast afar ólíklegt að af því verði úr þessu. Og hvers vegna skyldi það vera? Það ætti varla að vera erfitt að svara jafn einfaldri fyrirspurn ef málstaður samtakanna er eins góður og þau vilja væntanlega meina. Nema svo sé einfaldlega ekki. Vinstrimenn hafa einu sinni aldrei átt í neinum vandræðum með að ráðstafa almannafé og löngum verið þeirrar skoðunar að því meira sem almenningur sé neyddur til að greiða í "sameiginlega sjóði" því betra.

Andstæðingar ríkisstjórnarinnar hafa annars ítrekað reynt að nota þetta mál til að koma höggi á hana og rangflutt það á alla kanta í þeim tilgangi. Þeim, sem annars ekki þekkja málið, vil ég t.a.m. benda á þessa grein eftir mig þar sem það er reifað í aðalatriðum.

---

Ánægjulegar skoðanakannanir berast annars þessa dagana um stöðina í Reykjavík. Sjálfstæðisflokkurinn hefur algera yfirburðastöðu í borginni bæði skv. Skoðanakönnum vefsins Heimur.is og Fréttablaðsins. Þetta er annars ekki síður athyglisvert í ljósi þess að flokkurinn var að fá fylgi á þessu bili á meðan á prófkjöri hans stóð sl. haust. Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins héldu því þá fram að þetta mikla fylgi skýrðist af prófkjörinu og öllu umstanginu í kringum það.

Nú eru hins vegar liðnir nær þrír mánuðir frá prófkjöri Sjálfstæðisflokksins og enn er flokkurinn að mælast með fylgi á sama róli. Nú eru Samfylkingin og Framsókn í sviðsljósinu vegna sinna prófkjara en það hefur greinilega engin áhrif á stöðu Sjálfstæðisflokksins. Staða hans er einfaldlega gríðarlega sterk.

---

Hins vegar er meiri ljóta vitleysan í gangi í Garðabæ. Hvað er verið að halda prófkjör á annað borð ef það á ekki að virða niðurstöðuna, þ.e. vilja kjósenda? Er þá ekki allt eins gott að hafa bara uppstillingu?? Þetta er alveg fyrir neðan allar hellur. Vilja þessir sömu aðilar ekki líka að eftir að nýtt Alþingi hefur verið kosið í þingkosningum sé farið að krukka í niðurstöðunum til að fullnægja einhverri pólitískri rétthugsun? Einhverjum kvótum?? Fólk er fyrst og síðast einstaklingar og það á að kjósa í prófkjörum og kosningum á þeim forsendum en ekki hvers kyns það er.

---

Annars mun á morgun vera ár síðan ég skrifaði fyrsta Mánudagspóstinn en það var 24. janúar í fyrra. Þeir eru nú orðnir 52 talsins síðan þá.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


Einkavæðum bókasöfn - II. hluti

Í framhaldi af því sem hér hefur áður verið skrifað um einkavæðingu bókasafna fara hér nokkrar tillögur þeirra sem aðhyllast frjálsan markað og lágmarks fyrirækjarekstur hins opinbera:

Einkavæðing bókasafna myndi létta byrði af hinum almenna skattgreiðenda. Eins og áður sagði þá eru ekki allir sem nota bókasöfn og ættu því ekki að þurfa að greiða fyrir þau.

Einkavæðing bókasafnanna myndi leysa úr læðingi kraft og sköpunargáfu þeirra sem hvað mest vilja sjá bókasöfn opin í samfélaginu. Mannvinir og viðskiptamenn myndu styrkja bókasöfn. Hægt væri að halda söfnun á vegum Félags áhugamanna um bókasöfn og lestur eða eitthvað slíkt. Sjálfboðaliðar gætu leyst af starfsfólk. Nemendur gætu fengið þjalfun með því að vinna á bókasöfnun í samstarfi við skólana. Bókasöfnin gætu rukkað bækurnar á mismunandi hátt, eftir því hversu lengi bókin er leigð, hvort hún sé ný eða gömul og svo frv. Sum bókasöfn myndu kannski loka og selja öðrum eigur sínar. En það er hvort eð er enginn tilgangur að reka þau ef þau bera sig ekki sjálf.

Til að byrja með gætu sveitafélögin átt bókasöfnin en leigt alveg út reksturinn. Það gæti verið fyrsta skrefið í einkavæðingu.

Vinstri menn sem yfirleitt eru á móti einkavæðinu myndu spyrja á eftirfarandi hátt:

Myndu bókasöfnin þá ekki bara loka?
Jú það má vel vera að einhver þeirra loki. En til hvers ættu skattgreiðendur að borga undir eitthvað sem er ekki að bera sig? Tökum Reykjavík sem dæmi. Ef eftirspurn er eftir sjö bókasöfnum og bókabíl þá hefði skynsamur rekstaraðili enga ástæðu til að loka neinu safnanna.

Er þá ekki orðið of dýrt fyrir hinn almenna mann að nota bókasöfn?
Nei, ekki endilega. Bókasafnskort kostar nú 1.200kr á ári. Það er greinilegt að það er langt undir markaðsverði og það eru skattgreiðendur sem borga fyrir þá sem nota söfnin. Fólk þyrfti einfaldlega að sníða sér stakk eftir vexti og gera áætlun um útgjöld sín. Hver fjölskylda þyrfti ekki að kaupa nema eitt kort. Þó að það kostaði kannski fimm til tíu þúsund á ári. Þá veitir það aðgang að gífurlega miklu magni af upplýsingum sem gætu komið sér vel fyrir alla fjölskylduna. Hvað kostar Stöð 2 á ári? Þetta er einfaldlega spurningin um að velja og hafna.

Ef að einkaaðilar ættu bókasöfnin þá hefðu þeir enga ástæðu til að okra á viðskipavinum sínum. Það væri þeirra hagur að fá sem flesta viðskiptavini. Að sama skapi gætu grunnskólar gert samstarfssamning við bókasöfnin um að nemendur þeirra fái einhvers konar aðgang að bókasöfnunum og þannig læri þau að nota þau. Þar með eru bókasöfnin að kynnast hugsanlegum framtíðarviðskiptavinum.

Svo er auðvitað spurning um samkeppni á þessum markaði. Það gæti hver sem er opnað bókasafn telji hann sig hafa til þess bolmagn.

Einkarekstur bókasafna hefur reynst mjög vel t.a.m. í Kaliforníu. Þar eru bóksöfnin í eigu hins opinbera en eru rekin af einkaaðilum. Þeir rekstaraðilar hafa sérhæft sig í rekstri bókasafna og sinna þeim á fleiri stöðum. Þeir hafa gert samning við lögfræðifyrirtæki um innheimtingu sekta og þjónustusamninga við verktaka um viðhald á húsnæði bókasafnanna og þess háttar.

Það er ekkert sem kallar á afskipti hins opinbera af bókasöfnum. Þau ættu að vera einkarekin og síðan seld einkaaðilum.

Gísli Freyr Valdórsson


Martin Luther King Jr og jákvæð mismunun

Nýverið var Martin Luther King Jr minnst í Bandaríkjunum, eins og gert er árlega þann 15.janúar, á afmælisdegi kappans.
Ég mun framvegis bara kalla hann Martein á íslenska vísu.

,,Ég vona að börnin mín muni einn daginn búa í landi þar sem þau verða ekki metin eftir litarhætti, heldur eftir innræti þeirra” sagði Marteinn í sinni frægustu ræðu - ,,Ég á mér draum”.
En því miður hefur draumur hans um ,,litblint” þjóðfélag ekki orðið að veruleika, þó að sitthvað hafi áunnist. Sökum þess sem menn kalla ,,jákvæða mismunun”, er í mörgum tilfellum ekki hægt að líta einungis til verðleika og eiginleika fólks sem sækir um skólavist eða starf hjá vissum stofnunum eða fyrirtækjum í Bandaríkjunum. Líta þarf fyrst á hörundslitinn.

Það er í alla staði fáránlegt og óréttlátt að taka störf frá einum þjóðfélagshóp, til að bæta fyrir það misrétti sem annar þjóðfélagshópur varð fyrir af hendi þriðja hópsins, sem fór illa með fjórða hópinn einhvertímann í fortíðinni. Ég er viss um að Marteinn hafði ekki aðgerðir á borð við ,,jákvæða mismunun” í huga með baráttu sinni. Það er einmitt sökum ,,jákvæðrar mismununar” sem börn Marteins eru við vissar lögbundnar aðstæður ekki metin að verðleikum heldur eftir hörundslit í þágu pólitískrar rétthugsunar.

Menn hafa farið svipaðar leiðir í þágu kvenréttinda víða um heim og er það alveg jafn vitlaust nálgun.

Marteinn var róttækur Baptisti. Hann vitnaði oftsinnis í Fjallræðuna, þar sem segir ,, Rísið ekki gegn þeim, sem gerir yður mein. Nei, slái einhver þig á hægri kinn, þá bjóð honum einnig hina. Og vilji einhver þreyta lög við þig og hafa af þér kyrtil þinn, gef honum eftir yfirhöfnina líka. Og neyði einhver þig með sér eina mílu, þá far með honum tvær... Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður svo að þér reynist börn föður yðar á himnum.”

Marteinn var í alla staði maður sátta, en ekki beiskju, öfundar eða haturs.

Marteinn predikaði aldrei að börn sín ættu að hefna sín börnum þeirra sem beittu Martein og kynslóðirnar á undan honum órétti. Hann þráði aldrei árangur fyrir blökkumenn á kostnað hvítra. Hann trúði á fólk óháð uppruna þess. En demókratar og aðrir velviljaðir vinstrimenn í Bandaríkjunum hafa sagt blökkumönnum að þeir þurfi að reiða sig á ,,jákvæða mismunum” og aðrar ölmusur hvíta mannsins, og margur hefur bitið á agnið. Ómeðvitað eru hvítir menn sem vilja ,,hjálpa” blökkumönnum með þessum hætti að segja þeim að þeir geti ekki hjálpað sér sjálfir. Þeir hafa með þessu gefið óbeint í skyn að hvítir karlar séu betri en annað fólk og hafa í leiðinni haft slæm áhrif á sjálfsmynd þeirra sem þeir þykjast vilja hjálpa.

Eini svarti hæstaréttadómi Bandaríkjanna heitir Thomas Clarence. Hann var að sjálfsögðu skipaður af Repúblíkönum og er mikill hægri íhaldsmaður. Hann er sá dómari sem hefur sýnt jákvæðri mismunum hvað mesta andúð og telur að öll lög og aðgerðir sem fela í sér mismunun að einhverju tagi séu markleysa sem stangist á við stjórnarskránna. Hann hefur lýst því yfir að jákvæð mismunum geri lítið úr afrekum þeirra sem eiga að njóta hennar. Þetta ættu menn að hafa í huga. Líka femínistar.

Sindri Guðjónsson


Mánudagspósturinn 16. janúar 2006

Baugsmiðlarnir eru ekki fjölmiðlar sem starfræktir eru í fjárhagslegum tilgangi heldur pólitískum. Þetta er auðvitað ekkert sem ekki hefur verið vitað lengi. Það má vel vera að forystumenn Baugs skipti sér ekki af rekstri þessara fjölmiðla á hverjum einasta degi, en hvenær sem þeir telja sig þurfa að hafa áhrif á almenningsálitið á Íslandi og móta það eftir eigin vilja og hagsmunum þá eru fjölmiðlar þeirra miskunnarlaust misnotaðir í þeim tilgangi. Í því sambandi þykir gott að hafa mismunandi fjölmiðla í takinu til að koma mismunandi upplýsingum á framfæri, þegar þess gerist þörf, og til mismunandi hópa í þjóðfélaginu – þ.á.m. eitt sorprit. Enda hafa þessir fjölmiðlar löngum forðast það eins og heitan eldinn að flytja fréttir af forystumönnum Baugs sem talizt gætu neikvæðar (ítarlega er fjallað um misbeitingu Baugs á fjölmiðlum sínum í grein Páls Vilhjálmssonar í nýjasta tölublaði tímaritsins Þjóðmál).

Þetta er síðan klárlega ástæðan fyrir því að Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, þvertók fyrir það í tvígang (síðast fyrir rúmri viku) að selja Björgólfsfeðgum DV svo þeir gætu lagt það niður. Hann vildi ekki einu sinni ræða hugsanlegar verðhugmyndir í því sambandi. Einhver kaupsýslumaðurinn hefði nú séð sér leik á borði og kannað hvort hann gæti ekki selt blaðið háu verði fyrst sózt væri stíft eftir því – ekki sízt þegar fyrir liggur að það er rekið með tapi eins og Gunnar Smári Egilsson, forstjóri Dagsbrúnar móðurfélags DV, viðurkenndi loks í Kastljósinu sl. föstudag. Áður hafði því verið ítrekað harðneitað. Gunnar sagði að reksturinn væri engu að síður „viðunandi“. En hvernig getur taprekstur á fyrirtæki talizt viðunandi? Jú, ef fyrirtækið er rekið í öðrum tilgangi en fjárhagslegum – t.d. pólitískum.

Í fréttum NFS á föstudaginn kom þetta m.a. fram í umfjöllunum um DV-málið: „Nokkrir eigendur hafa látið í ljós megna andúð á blaðinu. Björgólfur Guðmundsson reyndi í tvígang að kaupa DV og leggja það niður vegna umjöllunar um hann og fjölskyldu sína. Gunnar Smári kannast ekki við þetta tilboð og segir með ólíkindum ef auðugir menn reyndu að kaupa fjölmiðil til þess eins að leggja hann niður ef þeir væru ósáttir við umfjöllun um sig.“ Gunnar Smári sagði ennfremur við sama tækifæri að það væri ótrúlegt ef mönnum dytti slíkt í hug á Vesturlöndum. Í fréttum Ríkisútvarpsins á laugardaginn sagði síðan eftirfarandi: „Fjölmiðlar geta gengið kaupum og sölum en það væri hneyksli ef auðmenn þögguðu niður í miðlum ef þeim líkaði ekki umræðan, segir formaður Blaðamannafélags Íslands.“ Í fréttinni var ennfremur talað um "aðför" að frelsi fjölmiðla í þessu sambandi.

En hvað sem því líður þá veit ég nú betur en að Baugur, stærsti eigandi Dagsbrúnar, sé einmitt þessa dagana að velta alvarlega fyrir sér að kaupa útgáfufélag danska dagblaðsins Berlingske Tidende, að margra mati ekki sízt vegna þess að blaðið hefur verið hvað gagnrýnast af dönskum fjölmiðlum á fjárfestingar fyrirtækisins í Danmörku. Væntanlega er þó ekki hugmyndin að leggja það niður ef af þessum kaupum verður, enda um að ræða fjölmiðil á talsvert hærra plani en DV, en fjárfestingin er klárlega ekki hvað sízt hugsuð til að skrúfa niður í gagnrýnni umfjöllun um Baug í dönskum fjölmiðlum. En það þarf þó auðvitað ekki að líta út fyrir landssteinana í þessu sambandi, enda er þetta klárlega helzta ástæðan fyrir því að Baugsmenn fóru út í það að fjárfesta í íslenzkum fjölmiðlafyrirtækjum.

En kannski er það bara hneyksli og aðför að fjölmiðlafrelsinu ef hugmyndin er að kaupa fjölmiðla og leggja þá niður vegna neikvæðrar umfjöllunar (hvernig sem það er nú fengið út), en aftur á móti ekki þegar fjölmiðlar eru keyptir í því skyni að tryggja sér jákvæða umfjöllun í þeim og fjölmiðlamarkaðir fylltir til að koma í veg fyrir að aðrir geti haslað sér þar völl.

---

Jóhannes Jónsson í Bónus er annars sagður hafa verið hlynntur því að selja Björgólfsfeðgum DV ólíkt syni hans. Hins vegar var haft eftir honum í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins á fimmtudaginn að blaðið yrði ekki fjarlægt úr verzlunum Bónus þótt hann hefði oft á tíðum ímugust á því að eigin sögn. Sagði hann ástæðuna vera þá að viðskiptavinurinn réði því hvað væri til í Bónus: „Kúnninn drepur vöruna.“ Staðreyndin er þó sú að tóbak hefur t.a.m. aldrei verið selt í verzlunum Bónus og sú ákvörðun var því ljóslega ekki tekin vegna þess að viðskiptavinir Jóhannesar hafi haft eitthvað um málið að segja.

Yfirlýsing Jóhannesar er því auðvitað algerlega marklaus og þannig séð ekkert því til fyrirstöðu að hætt væri að selja DV í Bónus ef vilji væri fyrir því. Það er þó auðvitað fyrst og síðast ákvörðun eigenda og stjórnenda fyrirtækisins. Yfirlýsingin er hins vegar lýsandi fyrir nálgun þeirra sem ráðið hafa ferðinni hjá DV á DV-málinu öllu saman sem öll hefur meira eða minna gengið út á að fría sig alfarið ábyrgð á því með einum eða öðrum hætti hvernig haldið hefur verið á málum hjá blaðinu.

---

 

Annars las ég í Fréttablaðinu í gær að sr. Toshiki Toma, presti innflytjenda, hefði borizt nafnlaust hótunarbréf sem hann hyggst kæra. Vil ég hvetja hann eindregið til að gera það, enda er það framferði að senda fólki slíkt eitthvað sem ávallt ber að fordæma, sama hver stendur fyrir því eða af hvaða ástæðum. Var ennfremur greint frá því í fréttinni að Alþjóðahúsið við Hverfisgötu hefði boðist til að aðstoða sr. Toshiki við að kæra málið. Segir sr. Toshiki við Fréttablaðið að hann hafi þá grunnstefnu að þegja ekki.

Sama á við um mig. Ég hef sjálfur lent í því að berast slíkt hótunarbréf þar sem mér var m.a. hótað dauða ef ég hætti ekki að tjá skoðanir mínar á innflytjendamálum. Það gerðist í byrjun árs 2004 og tilkynnti ég það strax til lögreglu. Fljótlega var komizt á snoðir um það hver hefði sent bréfið og kannski er það ákveðin kaldhæðni að það skuli einmitt hafa verið þáverandi starfsmaður Alþjóðahússins sem var að verki.

Sá ég mér ekki annað fært en að kæra umræddan einstakling eftir að hafa frétt að hann hefði sent öðrum manni sambærilegt hótunarbréf. Var sendandinn að lokum dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í fésekt í janúar í fyrra og vona ég að hann hafi látið sér það að kenningu verða.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is

 


Einkavæðum bókasöfn

Almenningsbókasöfn eru líklega fastur liður í hverju sveitafélagi. Sveitafélögin hafa auðvitað gengið mislangt í að efla og/eða stækka sín bókasöfn en óhætt er að segja að í flestum sveitafélögum á Íslandi sé allavega eitt bókasafn. Í Reykjavík eru þau sjö auk þess sem bókabíllinn keyrir á milli og lánar út bækur. Alls starfa um eitt hundrað manns við bókasöfnin í Reykjavík. Þetta er allt saman í eigu borgarinnar og eiga stjórnmálaflokkarnir að sjálfsögðu sína fulltrúa í stjórn bókasafnanna. Enda engin betur til þess fallinn að sitja í stjórn bókasafna en stórnmálamenn.

Nú má alls ekki skilja það svo að ég sé á móti bókasöfnum. Þvert á móti. Sjálfur hef ég mjög gaman að fara á bókasafn og finna mér góða bók til lestur, afla mér upplýsinga, skoða tímarít og jafnvel leigja videomyndir. Bókasöfnin eru skemmtileg og góð viðbót í tilveru okkar. En það þýðir ekki að hið opinbera þurfi að eiga og reka þau.

Það eru nokkur vandamál tengd almenningsbókasöfnum.

Í fyrsta lagi þá er krafa sett á skattgreiðendur að borga fyrir þjónustu sem sumir þeirra nota alls ekki. Það er fullt að fólki sem ekki notar bókasöfn og á því ekki að þurfa að greiða fyrir þau. Það fólk sem notar söfnin ætti að greiða kosnaðinn af þeim.

Í öðru lagi þá eru bókasöfn ekki bráðnauðsynleg. Þó svo að ekki væru til almenningbókasöfn þá þýðir það ekki endilega að fólk verði uppiskroppa með lesefni. Til eru bókabúðir, tímarit og svo auðvitað internetið. Auðvitað væri úrvalið minna en það væri ekki heimsendir þó að ekki væru til almenningsbókasöfn.

Í þriðja lagi þá bitnar opinber rekstur sem þessi alltaf á einkaaðilum. Bókasöfn eru jafnvel að stíga inn á svið þar sem einkaaðilar geta vel sinnt, s.s. videoleigu, kaffisölu og aðgang að internetinu svo eitthvað sé nefnt. Ef einkaaðili vildi opna bókasafn þyrfti hann að keppa við hið opinbera. Það er erfið samkeppni.

Í fjórða lagi þá hafa almenningbóksöfn lítilla hagsmuna að gæta. Arðsemiskrafan er engin. Innkaupin eru í höndum örfárra opinberra starfsmanna (sem ákveða í raun hvað hentar almenningsbókasafni). Og þarna er auðvitað farið með opinbert fé. Hver ákveður t.d. hvaða málverk skal keypt til að skreyta veggina á bókasöfn allra bæjarbúa? Er einhver verðstýring á því? Líklega ekki mikil.

Í fimmta lagi þá hefur það sýnt sig á s.l. árum að einkarekstur er betri en opinber rekstur. Það er athyglisvert að af hundrað starfsmönnum borgarbókasafnanna eru 88,2% ánægðir í starfi. Hins vegar eru aðeins 15% ánægðir með launin sín.

Bókasöfn eru eins og hvert annað fyrirtæki. Bankar, símafyrirtæki, útgerðir, verktakar og mörg önnur fyrirtæki sem áður voru í eigu hins opinbera eru öll betur komin í höndum einkaaðila. Bókasöfn ættu ekki að vera undantekningin frá því. Það er lögmál markaðarins að leysa út því hvort og hvernig þau skuli vera rekin.

Á föstudaginn kemur framhald af þessari grein. Þá verður farið yfir hugsanlegar hugmyndir um einkavæðingu bókasafna og týpískum rökum vinstri manna (sem yfirleitt eru á móti einkavæðingu) svarað.

Gísli Freyr Valdórsson


Ég tek ofan fyrir hr. Karli Sigurbjörnssyni

Ég vil taka ofan fyrir hr. Karli Sigurbjörnssyni, biskupi Íslands, fyrir að hafa ekki látið Samtökin ’78 komast upp með að vaða yfir sig með furðulegri rangtúlkun á orðum hans í viðtali við NFS á dögunum. Í viðtalinu sagði Karl að hjónabandið ætti það inni hjá þjóðinni að því væri ekki kastað á sorphaugana. Samtökin 78 ákváðu að túlka ummæli Karls sem svo að hann teldi að sambönd samkynhneigðra ættu heima á haugunum sem er ekkert annað en grófur útúrsnúningur. Eins og Karl útskýrði skilmerkilega í fréttum NFS sl. laugardag (af einhverjum ástæðum var fréttin ekki birt á Vísir.is þó finna megi hana þar á stafrænu formi), og augljóst ætti að vera hverjum sem er, þá átti hann með orðum sínum við það að ef hjónabandið yrði ekki lengur aðeins skilgreint sem samband karls og konu heldur samband tveggja einstaklinga óháð kyni eins og sumir vilja þá væri búið að breyta algerlega inntaki hugtaksins eins og það hefur verið í aldir og því þar með verið kastað fyrir róða.

Það þarf að ræða málefni samkynhneigðra á málefnalegan og opinn hátt eins og önnur. Það hljóta flestir að geta tekið undir, sama hvaða skoðun þeir annars kunna að hafa á málinu. En það verður svo sannarlega ekki gert með því að snúa gróflega út úr ummælum manna í því skyni, eins og Karl benti réttilega á í fréttum NFS á laugardaginn, að koma í veg fyrir að andstæð sjónarmið heyrist. Sú skoðanakúgun og sá fasismi sem felst í pólitískum rétttrúnaði mun ekki stuðla að neinni lausn í þessum efnum frekar en öðrum. Telji Samtökin 78, sem og aðrir þeir sem styðja þeirra sjónarmið, sig hafa góðan málstað að verja ættu þau varla að hafa áhyggjur af því þó einhverjir viðri önnur sjónarmið í málinu en þau sem samrýmast þeirra eigin. Ef samtökin hins vegar finna hjá sér þörf til að snúa út úr orðum þeirra sem aðrar skoðanir hafa, kalla þá illum nöfnum eða annað þvíumlíkt – þá segir það sennilega meira en margt annað um málefnalega stöðu þeirra sem og annarra sem kjósa að brúka slík meðöl.

Það virðist því miður vera svo að það sé alveg sama hvað þeir, sem hafa önnur sjónarhorn á þessi mál en Samtökin ’78, segja, allt skal það úthrópað sem fordómar og fáfræði, algerlega óháð því hvort viðkomandi geti fært rök fyrir máli sínu eða ekki. Það er því ekki annað að sjá en að það sé skoðun samtakanna að fordómar og fáfræði séu ekki einmitt það sem hugtökin fela í sér heldur það að hafa ákveðnar skoðanir á málefnum samkynhneigðra og aðrar ekki. Slík misnotkun á grafalvarlegum hugtökum í pólitískum tilgangi er einungis til þess fallin að grafa undan alvarleika þeirra í hugum fólks og ber að fordæma, sama hver gerist sekur um slíkt.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is

 


Næsta síða »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband