Leita í fréttum mbl.is

„Hann vissi þetta allt saman sjálfur ...“

Hún hefur sennilega ekki farið framhjá neinum sú pólitíska kreppa og vandræðagangur sem einkennt hefur samstarf R-listans undanfarna daga eftir að lokaskýrsla Samkeppnisstofnunar um verðsamráð olíufélaganna var birt. Ljóst þykir af skýrslunni að þáttur Þórólfs Árnasonar, borgarstjóra Reykjavíkur, í verðsamráðinu hafi vægast sagt verið drjúgur.
Þannig mun Þórólfs t.a.m. vera getið hvorki meira né minna en 127 sinnum í skýrslunni, en eins og kunnugt er byggist aðkoma hans að málinu á því að hann er fyrrverandi framkvæmdastjóri markaðssviðs Olíufélagsins (ESSO).
Ljóst þykir af þeim gögnum sem skýrsla Samkeppnisstofnunar byggir á að Þórólfur hafi tekið virkan þátt í samráðinu og gegnt þar ákveðnu lykilhlutverki.

Sumir hafa viljað meina að farið hafi verið með offorsi gegn Þórólfi vegna þessa máls og að aðrir séu sekari en hann. Vissulega er það satt að forystumenn olíufélaganna eru án efa mun sekari en Þórólfur en það sem gerir stöðu hans hins vegar sérstaka er að hann gegnir nú opinberu embætti sem einn af forystumönnum Reykjavíkurborgar sem er einmitt einn af þeim aðilum sem verðsamráði olíufélaganna var beint gegn. Auk þess hefur Þórólfur margoft lýst því yfir að hans þáttur í málinu hafi verið lítill og hann hafi ekki áttað sig á því að verið væri að stunda ólögmæta starfsemi fyrr en hann fór yfir málið með Samkeppnisstofnun.
Skýrsla stofnunarinnar leiðir hins vegar allt annað í ljós eins og fyrr segir.

Þegar bráðabirgðaskýrsla Samkeppnisstofnunar lá fyrir fyrr á árinu voru viðbrögð Þórólfs þau að segjast ekki vilja tjá sig um málið meðan það væri enn í rannsókn hjá stofnuninni. Hann sagðist hins vegar ætla að upplýsa um sinn þátt í málinu þegar Samkeppnisstofnun hefði lokið rannsókn sinni. Nú liggur lokaskýrsla Samkeppnisstofnunar fyrir en ekkert bólar á því að Þórólfur geri hreint fyrir sínum dyrum. Viðbrögð hans við lokskýrslu stofnunarinnar hafa verið alveg ótrúleg og hefur ekki verið heil brú í því sem hann hefur látið frá sér fara um málið.
Í raun má segja að málflutningur Þórólfs um málið sé sá sami og þegar bráðabirgðaskýrslan kom út og ef eitthvað er loðnari.

Málflutningur Þórólfs byggir helzt á því að hann hafi bara verið viljalaust verkfæri í höndum forystumanna olíufélaganna og ekki gert sér grein fyrir því að um ólögmæta starfsemi hafi verið að ræða fyrr en á þessu ári eins og áður segir. Það þarf sennilega ekki að fjölyrða um það hversu fáránleg þessi svör eru. Maðurinn tók virkan þátt í samráði olíufélaganna samkvæmt skýrslu Samkeppnisstofnunar og hafi hann ekki haft næga skynsemi til að átta sig á að eitthvað gruggugt væri í gangi er hann vart hæfur til að gegna embætti borgarstjóra Reykjavíkur.

Gott dæmi um tilsvör Þórólfs vegna þáttar hans í samráði olíufélaganna er eftirfarandi
úr fréttum Stöðvar 2 þann 2. nóvember sl.
Fréttamaður spyr: „Já en, Þórólfur, tókst þú sjálfur þátt í ólöglegu athæfi vitandi það að það væri ólöglegt?“ Þarna hefði honum auðvitað verið leikur einn að svara neitandi væri hann í raun saklaus.
En svar hans var þó með öðrum hætti: „Já, nú er náttúrulega... ég ætla heldur ekki, og ég vona að þú sért ekki að gera það, að fara að taka ákveðna einstaklinga og fara að ákæra þá. Það er annarra að gera það. Og ég ætla heldur ekki að ákæra forstjóra olíufélaganna þó þeir vissulega beri alla ábyrgð.“
Sem sagt forstjórarnir bera alla ábyrgð, Þórólfur enga.

Því má síðan ekki gleyma að Þórólfur gat hvenær sem er sagt starfi sínu lausu ef honum hugnaðist ekki þátttaka í verðsamráði olíufélaganna en það gerði hann þó ekki. Þess í stað starfaði hann sem framkvæmdastjóri markaðssviðs Olíufélagsins frá 1993 til 1998 og allan þann tíma var ólöglegt samráð olíufélaganna í fullum gangi. Það að firra sig ábyrgð á þeim forsendum að einhverjir yfirmenn hafi borið meiri ábyrgð á hlutunum er síðan ekkert nýtt á nálinni.

En auðvitað vita allir að þetta er tómt bull. Auðvitað vissi Þórólfur um það sem þarna fór fram og gerði sér fyllilega grein fyrir því að um ólögmætt athæfi var að ræða.
Annað er bara ekki fræðilegur möguleiki enda væntanlega um sæmilega greindan mann að ræða auk þess sem hann hefði að öðrum kosti varla verið starfi sínu vaxinn sem framkvæmdastjóri markaðssviðs Olíufélagsins.
En eins og Davíð Oddson, utanríkisráðherra, sagði í viðtali við fjölmiðla nú nýverið þá þurfti Þórólfur vitanlega ekkert að bíða eftir lokaskýrslu Samkeppnisstofnunar til að gera hreint fyrir sínum dyrum í málinu, hann vissi þetta allt saman sjálfur.

Hjörtur J. Guðmundsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband