Leita í fréttum mbl.is

Aprílgabb Ísland – Palestínu

„Ekki gleyma því að svína á Hellisheiðina, fara gegnum Þrengslin, lenda svo Spittfærnum á Kaldraðanesmelum, fljúga svo norður í Eyjafjörð yfir Kjöl, sprengja Stebbafr og Halldór Blöndal til helvítis, snúa svo til baka yfir heiðina og bomba Björn Bjarna og borgarstjórnaminnihlutan hálfa leið til andskotans og lenda svo við gamla flugturninn á Reykjavíkurflugvelli og hrynja í það á kránum í Miðbænum.”

Þannig skrifaði Magnús Þór Hafsteinsson, þingmaður Frjálslynda flokksins á spjallvefinn Málefnin.com í janúar 2004. Síðar á sama ári óskaði hann þeim Írökum sem berjast gegn hersetuliði BNA í Írak góðs gengis og hvatti þá til dáða í vopnaðri baráttu. Já, svona tala stundum þingmenn okkar góða lands.

Í síðustu viku var þessi sami þingmaður ásamt fleiri þingmönnum á ferð í Palestínu auk þriggja forystumanna úr launahreyfingunni. Ekki alls fyrir löngu var Ögmundur Jónasson alþingismaður á ferð á sömu slóðum. Magnús líkt og Ögmundur skrifar síðan ferðasögu á heimasíðu sína og vandar Ísraelsmönnum ekki kveðjurnar. Ég reyndar skrifaði pistil eftir að Ögmundur hafði skrifað um heimsókn sína. Aftur þykir mér ástæða til að skrifa og velta upp nokkrum þeim orðum sem þessir þingmenn hafa haft eftir ferð sína.

Ferðin í síðustu viku var (líkt og för Ögmundar) skipulögð af Félaginu Ísland – Palestína. Reyndar lætur Magnús Þór það vera í skrifum sínum að minnast á það hver skipulagði ferðina. Nú er að sjálfsögðu auðvelt að fara til Palestínu og sjá hvað ástandið þar er ömurlegt. Sjálfur hef ég ekki komið þangað en get rétt ímyndað mér að þar sé ástandið ekki gott. Ekki er það tilgangur minn með þessari grein að taka upp málstað annars aðilans gegn hinum. Hins vegar er einkennilegt hvernig þingmennirnir sem í þessa ferð fóru tala um hana þegar heim er komið. Það er engu líkara en að þau hafi aðeins farið á þá staði sem Félagið Ísland – Palestína hefur leitt þau á og bera síðan fréttir heim eftir það. Að sama skapi skulum við hafa í huga að Magnús Þór þingmaður lítur ekki á þá sem sprengja sig í loft upp sem hryðjuverkamenn heldur talar hann um þá sem ,,þjóðernishreyfingu.” Hann meira að segja viðurkennir í Kastljósviðtali að Nablus sé sterkt vígi fyrir palestínska ,,þjóðernishreyfingu.”

En ástæðan fyrir því að ég dreg upp gömul orð Magnúsar Þórs hér í byrjun er til að sýna að Magnús Þór er tvísaga. Einn daginn talar hann á slíkan hátt og hinn daginn birtist hann í Kastljósviðtali og reynir að gera sig virðulegan með því að tala um að í Mið-Austurlöndum þurfi að komast á friður og talar um ,,greyið” fólkið sem hefur það svo slæmt á svæðinu. Nú er ég svo sem ekki að segja að Palestínu menn hafði það gott. Langt því frá. Margoft hefur verið brotið á því og líf þeirra gert óbærilegt. Ekki bara af Ísraelsmönnum heldur einnig að þeirra eigin stjórnvöldum. Nýleg frétt sýndi að eftir að tekið var á spillingu innan palestínska stjórnkerfisins hafa tekjur ríkissjóð aukist um 30 milljón dollara á mánuði allt árið 2004. Þeir peningar gætu mögulega nýst fólkinu í Palestínu er rétt er með fé farið. Nú þegar Arafat kemst ekki lengur í opinbera sjóði er hægt að nýta peningana í annað. Það sem ég hins vegar er að benda á er að Magnús Þór getur ekki talað um að sprengja og skjóta fólk annars vegar og talað um að koma á friði hins vegar.

En skoðum fleiri atriði sem komu fram eftir heimsókn hópsins. Jónína Bjartmarz sagði í viðtali ,,að ástandið minni á meðferð nasista á Gyðingum í seinni heimsstyrjöld.” Það sem hún hefur fyrir sér með þessum orðum er ekki að Ísraelsmenn séu að stunda þjóðarhreinsanir. Ekki heldur að Ísraelsmenn séu að handtaka fólk bara fyrir það eitt að vera af ákveðnum kynstofn og setja það í fanga- og útrýmingabúðir. Nei, hún hefur það bara fyrir sér að Ísraelsmenn eru að byggja um 8 - 12 metra háan múr sér til varnar. Jónína minnist ekki á það að sjálfsmorðsárásir í Ísrael hafa snarminnkað eftir að bygging múrsins hófst. Hún talar ekki um að daglega finnast sprengjur og vopn við varðstöðvarnar sem nota á gegn ísraelskum borgurum. Það hentar kannski ekki að tala um slíkt. Kannski þjónar það ekki hagsmunum Félagsins Ísland – Palestína að talað sé um slíkt. Við skulum jú ekki gleyma að ferðin var farin eftir skipulagi félagsins.

En talandi um nasisma. Jónina og Magnús Þór hafa kannski ekki verið stödd við háskólann í Hebron þann 21. mars s.l. þegar Fatah hreyfingin hélt þar fjöldafund fyrir stúdentaleiðtoga sína. Á fundinum gengu núverandi leiðtogar ungliðahreyfingar Fatah og verðandi meðlimir um með ,,heil Hitler” kveðjuna eins og myndin hér til hægri sýnir.

Magnús og Jónína hafa kannski ekki heldur verið viðstödd þegar palestínskir lögreglumenn gerðu nákvæmlega það sama þann 10. febrúar s.l. Kannski hentar það heldur ekki að tala um slíkt. Hins vegar geta íslenskir þingmenn farið skv. skipulagi félags sem rekur hér ákveðið áróðurstríð, komið heim og líkt Ísraelsmönnum við nasista. Og enginn setur út á neitt.

Jónína segir einnig í áðurnefndu Kastljósviðtali ,,ég fann engan baráttuanda fyrir hernaði.”   Þetta eru einkennileg orð því að um leið og hún segir þetta má sjá myndir af vopnuðum palestínumönnum sem heiðraðir eru sem hetjur. Einnig má sjá veggspjald með nöfnum nokkurra aðila sem fallið hafa og á því stendur: ,,Never forget, Never forgive!” Þetta er auðvtiað rétti andinn til að semja um frið. Kannski sá hún ekki bara myndirnar sem Magnús tók á myndavél sína?

Og Magnús heldur áfram á vefsíðu sinni: ,, Ísrael er land gegnsýrt af grunsemdum og ótta. Fólk er alltaf að bíða eftir næstu árás. Þetta er sérstaklega áberandi í Jerúsalem. Það er meira að segja leitað að vopnum og sprengjum við verslunarkringlurnar. Við fórum í eina og reyndum þetta. Innandyra var allt fullt af fólki. Það moraði líka af hermönnum vopnuðum hríðskotabyssum og með handsprengjur í beltunum. Ísraelsmenn versla ógjarnan á opinni götu, heldur leita þeir í kringlurnar. Þar eru þeir öruggari með sig eftir að búið er að leita í bílunum þegar þeir fara inn á stæðin, á öllum sem fara inn og vopnaðir hermenn eru á hverju strái.“

Eftir að hafa sætt árásum af hendi hryðjuverkamanna í nokkur ár er ekkert skrítið að fólkið sé ,,gegnsýrt af grunsemdum og ótta, og alltaf að bíða eftir næstu árás”  Kemur það Magnúsi á óvart að slíkt ástand sé í landinu. Auðvitað er slæmt að hluti Palestínu manna skuli lifa við ömurlegar aðstæður. En það er líka slæmt að þurfa að búa í stanslausum ótta. Að geta ekki farið á kaffihús, skemmtistað og í þessu tilfelli í ,,mollið” án þess að eiga það í hættu að vera sprengdur í loft upp. Það er hins vegar fyrir tilstilli mikillar öryggisgæslu að Ísraelsmenn eru nú að verða öruggari og öruggari.

Og áfram heldur Magnús Þór: ,,Vinsælasti tölvuleikurinn meðal barna og unglinga Ísrael virtist mér vera skotleikurinn "Counter Strike". Hann gengur út á að vera í byssubardaga við "terrórista". Fara um og skjóta allt sem hreyfist. Allt niður í sex ára guttar spiluðu þetta af mikilli list á netkaffihúsunum. Ég fylgdist með þeim í laumi á meðan ég skrifaði pistla á þessa síðu. Þeir voru ótrúlega góðir. Hermenn framtíðarinnar, sem alast upp í ótta og tortryggni. Ég var líka búinn að hitta væntanlega andstæðinga þeirra í gettóum Palestínu. Þeir alast upp í vonleysi og hatri. Ég býð ekki í það þegar þessar kynslóðir náskyldra nágrannaþjóða taka við vopnunum úr höndum feðra sinna. Það gera þær eflaust ef ekki tekst að leysa Palestínuvandann fyrir botni Miðjarðarhafs. “

Það má vel vera að þetta séu ,,hermenn framtíðarinnar.” Við skulum nú samt vona að þeir þurfi ekki að berjast jafn blóðugum bardögum og hingað til hefur verið barist. Hins vegar stefnir í að þeir þurfi þess. Af hverju? Jú, af því að á landi Palestínu er verið að þjálfa jafnaldra þeirra til að berjast til síðasta blóðdropa. Þar er börnum kennt að bera vopn, þar er þeim kennt að með því að drepa Gyðing komist þeir inn í eilífðina þar sem allt er fullkomið. Haft er eftir Jónínu í Kastljósviðtalinu að þeir sem ,,láti hafa sig út í sjálfsmorðsárásir” séu ,,andlegir eftirbátar alls þessa” og vísar þar í meinta meðferð Ísraelsmanna á Palestínumönnum og eftirmálum þess.

Kannski sá Jónína ekki það sem myndirnar hér við hlið þessa texta sýna. Kannski sá hún ekki þegar Fatah, Hamas og Hizbollah hreyfingin afhenti fjölskyldum þeirra sem framið hafa sjálfsmorðsárásir smápeninga. Það kannski skiptir heldur ekki máli. Myndirnar sem hér sjást til hliðar sýna aðeins brot af þessu.

Hér er síða sem fjallar um hvernig Palestínumenn nota börnin sín í vopnaðri baráttu og hér er brot af síðu sem sýnir vídeómyndir af palestínskum börnum og unglingum talandi um hvað það sé frábært að fórna sér fyrir málstaðinn. Að sjálfsögðu er þetta mjög sorglegt en hins vegar er þetta staðreynd málsins.

En er ástandið að batna. Já, það held ég. Nú þegar ,,faðir hryðjuverkanna” Arafat, féll frá gafst loksins tækifæri til að byrja friðarviðræður af alvöru. Allt stefnir í að hlutirnir séu að stefna í rétta átt þó svo að langt sé í að þarna verði langvarandi friður. Til að það verði friður þurfa báðir aðilar að leggja niður vopn og gera málamiðlun. Þeir þurfa að virða tilverurétt hvors annars og borgararnir þurfa að sýna gagnkvæma virðingu. Það að íslenskir alþingismenn leggi land undir fót skv. skipulagi Ísland - Palestínu til þess eins að sjá hvað annar aðilinn er slæmur og hinn góður færir okkur ekkert nær friði. Sjaldan veldur einn þá er tveir deila.

Gísli Freyr Valdórsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband