Leita í fréttum mbl.is

Fóstureyðingar

Um 20% þungana á Íslandi enda í fóstureyðingu. Hér um bil allar fóstureyðingar fara fram frá 6.viku eða síðar, en lang flestar fóstureyðingar eru framkvæmdar fyrir lok 12.viku. Í sumum tilfellum getur verið liðið talsvert mikið lengra á meðgönguna. Strax 6 vikum eftir síðustu blæðingar móður, fjórum vikum eftir getnað, er fóstrið komið með hjarta sem slær og blóð rennur í æðum. Aðal ástæða þess að fóstureyðingar fara yfirleitt ekki fram fyrr en í fyrsta lagi á 6.viku er sú að móðir, sem ekki ætlar sér að verða ólétt, uppgötvar ekki að hún sé þunguð mikið fyrir þann tíma.

Ég mun færa rök fyrir því hér að það sé alla jafna siðferðilega rangt að eyða fóstrum og að þau beri að vernda allt frá getnaði. Ég mun þó ekki leggja fram neinar nákvæmar tillögur til nýrrar löggjafar um fóstureyðingar að svo stöddu, það býður betri tíma.

12 vikna gamalt fóstur

Allir hafa réttinn til lífs, en hvenær öðlast þeir þann rétt?
Það eru allir sammála því að vernda beri rétt manna til lífs. Það er hinsvegar eilíft þrætuepli hvenær fóstur, eða eftir atvikum ófætt barn, sé orðið nógu gamalt til að öðlast þennan rétt til lífs.

Býsna margir í ,,íslenskri net-umræðu” hafa sett fram hugmyndir um tímasetningu sem hægt er að miða við í þessum efnum, þó að umræðan hér fari ekki nærri eins hátt og til dæmis í Bandaríkjunum. Í Bretlandi hefur umræðan komist á yfirborðið að meira marki en áður, m.a. vegna mynda sem Stuart Campbell, prófessor, tók til að setja í bók til að fræða verðandi foreldra um þroska barna sinna. Hefur komið í ljós í tengslum við þessar rannsóknir Campbells að jafnvel 11.vikna fóstur séu byrjuð að framkvæma býsna flókna hluti, 12.vikna fóstur hreyfi fætur sína líkt og nýfædd börn gera, 14.vikna fóstur sjúga á sér þumalinn, og ýmislegt fleira mætti tína til. Hefur nú breski Íhaldsflokkurinn gert fóstureyðingar að kosningamáli, og vill þrengja tímaramman sem menn hafa til að láta framkvæma fóstureyðingar.

Það er mjög vandasamt að meta það hvenær fóstur eða ófætt barn er orðið að persónu með réttindi eða orðið það mikil mannvera að ekki megi deyða það með tilliti til þess sem flestir leggja til grundvallar.
Er barn í móðurkviði frekar sjálfstæður einstaklingur á 25.viku en á 19.viku? Er það frekar sjálfstæður einstaklingur á 19.viku en á 13.viku? Felur það sem sumir vilja kalla ,,skilyrðislausan rétt kvenna til að ráða yfir eigin líkama” í sér rétt hennar til að deyða ófætt barn, sem á sér jafnaldra meðal yngstu fyririburanna á vökudeild Landspítalans? Menn hafa misjafnar skoðanir á þessu. Sumir vilja miða við þetta og aðrir hitt. Einn segir: ,,Barn öðlast rétt til lífs þegar taugakerfi þess er nokkurn veginn fullmótað, því að þá getur það hugsanlega fundið fyrir sársauka”, annar segir: ,,Það öðlast rétt til lífs þegar því er hugað líf utan líkama móður sinnar, því að þá er það í raun sjálfstæður einstaklingur”, sá þriðji vill meina að mannlegt líf hefjist við skynjun og meðvitund, og hefur sín heimspekilegu og huglægu rök, og vill að þeim sökum miða við einhvern vissan mánuð, sá fjórði hefur enn aðra skoðun, og rökstyður hana með sínum rökum. Er ekki tímabært að hætta að notast við huglæga kvarða heimspekinnar í þessum efnum sem menn geta deilt um og togað fram og til baka? Hvenær mannslíf verður til er vísindaleg spurning. Það ætti ekki að vera viðfangsefni lögfræðinga, stjórnmálamanna eða heimspekinga að svara því álitamáli, heldur fósturfræðinga. Strax við getnað, þegar eggfruma og sáðfruma mætast og okfruman verður til, hættir eggfruman að vera aðeins hluti af líkama móðurinnar. Strax við getnað hættir sáðfruman að vera til sem slík. Nýtt mannslíf hefur hafist, ný erfðafræðilega einstök mannvera er til.(1) Þetta er svar fósturfræðinnar. (Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér þetta atriði nánar geta lesið grein sem heitir “When do Human Beings Begin?” á heimsiðu félags frjálshyggjumann gegn fóstureyðingum (e.Libertarians for life)) Er ekki betra að losa sig við umdeilanlegar huglægar og tegjanlegar heimspeki vangaveltur og reiða sig á raunvísindin í þessum efnum? Það er um að gera að styðjast við þá einföldu líffræðilegu, óbreytanlegu og hlutlægu staðreynd að mannslífið hefst við getnað. Eftir allt saman eru afleiðingar fóstureyðingar fyrir fóstrið alltaf þær sömu. Hvort sem mér hefði verið ,,eytt” strax 6.vikum eftir getnað, drepinn á 6. mánuði meðgöngu, eða 6 mánuðum eftir fæðingu, þá hefði sá aðili sem ,,eyddi” mér, tekið mannslíf. Hann hefði komið í veg fyrir að ég gæti skrifað hér grein um fóstureyðingar, haft áhuga á skák, orðið ástfanginn af konunni minni o.s.frv. Þeir sem vilja verja fóstureyðingar benda oft á að hefði mér verið ,,eytt” í móðurkviði, þá hefði ég aldrei orðið þess var að ég hefði farið nokkurs á mis, ég myndi einskis sakna. Þetta er ágætis punktur, en hann breytir ekki þeirri staðreynd að ég hefði í raun farið á mis við gersamlega allt. Sá sem svipt hefði mig lífinu með þeim hætti að ,,fóstureyða” mér, hefði gersamlega svipt mig öllu sem hægt er að taka.

Margir hafa fært rök gegn því að hægt sé að miða við getnað. Sigurður Hólm Gunnarsson sagði í grein á sinni góðu síðu, skodun.is, að: ,,Ef barn verður til við getnað þá er alveg eins hægt að rökstyðja að í öllum sáðfrumum og öllum eggjum séu ,,verðandi einstaklingar" og því sé það siðlaust að ,,drepa" sáðfrumur og egg.”

Þetta tel ég alveg fráleitt. Margir þeir sem segja að mannslíf hefjist við getnað, benda sérstaklega á að sáðfruma sé ekki mannvera, og ekki heldur verðandi mannvera. Það sama á við um eggfrumu. Það er ekki fyrr en sáðfruma og eggfruma hafa komið saman og myndað okfrumu að ný mannvera hefur orðið til. Sáðfruma ein og sér er ekki sjálfstæður og erfðafræðilega einstakur einstaklingur, hvorki verðandi né núverandi. Það er því ekki siðferðislega rangt að drepa sáðfrumu eða egg. Sigurður Hólm væri enginn Sigurður Hólm, hefði hann einungis erfðaefni frá föður sínum, eða einugis frá móður sinni. Við eigum það báðir sameiginlegt að við urðum raunverulega til, þegar að sáðfruman og eggfruman runnu saman í eitt. Fyrir þann tíma vorum við ekki til, og því var ekki hægt að drepa okkur.

Er bann við fóstureyðingum eitt af tækjum karla til að kúga konur?
Ég vil nota smá rúm hér til að tjá mig um þau klassísku rök að konan eigi að fá að ráða yfir eigin líkama, og að bann við fóstureyðingum sé eitt af kúgunartækjum karla. Ég hef áður útskýrt hvers vegna ég telji að ekki sé hægt að líta þannig á að fóstrið sé einungis hluti líkama móðurinnar. Konur eiga að ráða yfir eigin líkama, svo framarlega að þær skaði ekki aðra, þar með talið sín eigin afkvæmi. Varðandi það hvort að bann við fóstureyðingum sé tæki í þágu karla til að kúga konur þá vil ég benda á að karlar eru frekar andvígir banni á fóstureyðingum en konur ef marka má skoðanakönnun sem Gallup gerði árið 2001.
Í grein á heimasíðu Vinstri-grænna las ég efirfarandi: Þrenging eða jafnvel algert bann á réttinum til fóstureyðingar er eitt mikilvægasta vopn karlveldisins til þess að hafa fulla stjórn á konum og kynlífi þeirra.

Það kann að vera að það gerist að karlmenn kúgi konur til að fara ekki í fóstureyðingu og neyði þær til að eiga börn – og er það miður.
En hversu oft ætli að hið gagnstæða gerist, að kona sem vill eiga barn, sé neydd í fóstureyðingu af karlmanni, og hún svipt þeim rétti að fá að fæða barn sitt. Er það ekki líka kúgun? Það gerist eflaust oft að verðandi móður er beitt þrýstingi af barnsföður sínum til að fara í fóstureyðingu. Hann telur barneign ekki tímabæra, vill ekki þurfa að sjá fyrir barni, er giftur annari konu og vill ekki að það fréttist að hann hafi tvær í takinu, eða hefur einhverja aðra ástæða til að vilja ekki eignast barn.
Viðkomandi konu langaði að eignast barnið, en var töluð til, og fór í fóstureyðingu. Væri bann við fóstureyðingum ekki til þess fallið að verja slíkar konur? Þarf bann við fóstureyðingum endilega að vera konum almennt til ills? Hefur einhver gert rannsókn á því hvort er algengara, að karlmaður beiti konu þrýstingi til að fara í fóstureyðingu, eða fara ekki í fóstureyðingu? Hvað sem því líður, þá mætti til dæmis, samfara því að rétturinn til fóstureyðinga væri þrengdur, gera sérstakt átak til að gera feður undir erfiðum kringumstæðum ábyrga, því að oft hvílir allt ,,vandamálið” á móðurinni, meðan að orsök ,,vandamálsins” liggja auðvitað hjá föðurnum, að minsta kosti til jafns við móðurina.

Erfiðu málin
Ég skil vel hvers vegna konur kjósa að fara í fóstureyðingu þegar að getnaður á sér stað vegna nauðgunar. Einnig skil ég vel slíkt val ef að móðirin er í lífshættu. Ég vil þó benda á þetta veggspjald hér frá “Feminists for life” (félag feminista gegn fóstureyðingum) til umhugsunar varðandi fóstureyðingar vegna nauðgana.

Varðandi fóstureyðingar vegna erfðagalla í fóstri, að þá finnst mér menn fara full geyst. Ég heyrði sagt frá íslenskri konu um daginn sem að á sínum tíma var sterklega ráðlagt að eyða fóstri sínu vegna litningagalla. Hún hugsaði málið og ákvað að gera það ekki. Eftir að barnið fæddist kom í ljós að gallinn reyndist aðeins vera sá að augu barnsins voru ekki eins á litin, að öðru leyti var í lagi með barnið. Menn eru býsna duglegir við það að leita að erfðagöllum. Dæmi eru um það að börn fæðist með áverka eftir legvatnsstungur og þær geta líka framkallað fósturlát. Þessi viðleitni til að tryggja að allir séu allheilir og fullkomnir með því að tortíma þeim sem eru líklegir til að verða ,,byrði”, er farin að minna mig á viðleitni Hitlers til að byggja upp hinn fullkoma kynstofn. Hér er skemmtilegt veggspjald frá “Feminists for Life” til að skoða varðandi það hvort að eyða eigi fóstrum vegna litningagalla.

Þess má geta að í Bandaríkjunum er aðeins um 1% allra fóstureyðinga framkvæmdar vegna nauðgana eða sifjaspella, 1% vegna þess að fóstrið sé ,,gallað” og 3% vegna þess að líf móðurinnar hafi verið í hættu. Ég veit ekki hvernig þessu er háttað hér. Hinsvegar hlýtur það að liggja ljóst fyrir að ef um 20% þunganna enda með fóstureyðingu, að þá hafa menn ekki alltaf viðunandi afsökunarástæður.

Nánari lesningu er hægt að nálgast til dæmis á síðu Libertarians for Life (Frjálshyggjumenn gegn fóstureyðingum)

Sindri Guðjónsson


(1) Moore, K. and T.V.N. Persaud. 1998. The Developing Human: Clinically Oriented Embryology (6th ed.), W.B. Saunders Company, Philadelphia, blaðsíða 2-18. Larsen, W.J. 1998. Essentials of Human Embryology, Churchill Livingstone, New York, blaðsíða. 1-17. O'Rahilly, R. and F. Muller. 1996. Human Embryology & Teratology, Wiley-Liss, New York, blaðsíða. 5-55.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband