Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2006

Betri borg

Dagurinn í gær var góður dagur í Reykjavík. Ný borgarstjórn tók við störfum eftir 12 ára valdasetu sósíalista og vinstri aflanna. Hér á þessari síðu og fleiri síðum sem aðhyllast hægri stefnu, frelsi einstaklingsins, lágum sköttum og minni afskiptum hins opinbera hefur fráfarandi stjórn Reykjavíkurborgarinnar verið mikið gagnrýnd enda hafa störf hennar einkennst af vinstri stefnu, miðstýringu, háum sköttum og mikilli skuldarsöfnun borgarinnar. Ekki stendur til að ílengja þá gagnrýni hér. Sem betur fer er þeim tíma lokið. Eða hvað...?

Ekki einn flokkur talaði um það fyrir nýafstaðnar kosningar að minnka útsvar í borginni. Eg held meira að segja að ég fari með rétt mál þegar ég segi að enginn flokkur hafi nokkurs staðar á landinu lofað að lækka útsvar í sínu sveitafélagi. (fullyrt með fyrirvara).

Allir þeir flokkar sem buðu fram í Reykjavík töluðu eins og nóg væri til af peningum sem lægju bara og biðu eftir að verða eytt. Eins og síðasta borgarstjórn hefði bara lagt hellings fjármagn til hliðar sem nú væri kominn tími á að eyða. Svo er nú aldeilis ekki. Það er ljóst að flokkarnir reyndu að kaupa sér atkvæði með því að lofa borgarbúum að þeir ætluðu að verða duglegir að taka af þeim peninga og eyða þeim. Eins fáránlegt og það nú hljómar. Það er þó auðvitað aldrei lagt fram með þessum hætti.

Sjálfstæðisflokkurinn má þó eiga það að hann var líklega hófsamastur hvað varðar útgjaldaloforðin. En það er ekki nóg. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar hinn nýji borgarstjóri sagði við blaðamenn í gær að ekki standi til að lækka útsvarið. Það má vel vera að eftir óráðsíu R-listans sé ekki tækifæri til skattalækkana eins og er. En það ætti samt að vera markmið stjórnvalda að minnka útgjöld hins opinbera og lækka skatta. Reyndar stendur til að lækka fasteignaskatta og er það vel.

Eitt af stærstu verkefnum hins nýja meirihluta ætti að vera að taka til í fjármálum hins opinbera. Þegar Davíð Oddsson myndaði sína fyrstu ríkisstjórn árið 1991 þurfti ný ríkisstjórn heldur betur að taka til í fjármálum hins opinbera. Það er vissulega ekki auðvelt verkefni en þarf að gera engu síður. En það er svona sem vinstri menn skilja eftir sig eftir að hafa verið við völd.

En fyrir hönd ritstjórnar Íhald.is er ástæða til að óska borgarbúum öllum til hamingju með nýja borgarstjórn. Ég vona að borgin verði vel rekin og tekið verði á þeim vandamálum sem vinstri menn hafa skapað í borginni. Eins og fram kom í ritstjórnarviðhorfi hér í gær er ýmislegt sem betur má fara. Engu að síður er borgin og rekstur borgarinnar í góðum höndum. Eða það skulum við allavega vona.

Íhald.is mun vissulega veita núverandi meirihluta aðhald.

Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr@simnet.is


Vannýttir borgarfulltrúar

Í dag var tilkynnt um nefndarformennsku hins nýja borgarmeirihluta. Jafnframt því var kosið í borgarráð og nýr borgarstjóri kosinn.

Það er tvennt við hina nýju skipan að athuga. Í fyrsta lagi er óskiljanlegt af hverju Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir er ekki gerð af formanni menntaráðs. Hún er menntuð í faginu og enginn frambjóðenda hefur látið einhver mál eins mikið til sín koma eins og Þorbjörg hefur gert um menntamál. Þetta finnst mér að nýr borgarstjóri þurfi að útskýra fyrir þeim (t.a.m. mér) sem völdu Þorbjörgu til starfa í prófkjöri s.l. haust. En burtséð frá því þá skal það endurtekið að Þorbjörg er menntuð í faginu og líklega enginn hæfari til starfsins en hún á meðal borgarfulltrúanna.

Í öðru lagi er óskiljanlegt að Guðlaugur Þór Þórðarson sem dregið hefur sig út úr borgarmálum skuli taka við formennsku í stjórn Orkuveitunnar. Er ekki nóg að vera alþingismaður? Var virkilega enginn borgarfulltrúi sem vildi taka þetta að sér? Var algjör nauðsyn að sækja mannskap út fyrir borgarstjórnarflokkinn? Og ef það var nauðsyn, af hverju var þá ekki einhver sóttur sem hefur reynslu af fyrirtækjarekstri?

Það boðar ekki gott ef þetta er það sem koma skal. Hæfni og reynsla á að vera fyrsta ástæða fyrir vali manna í nefndir, ekki vinskapur og vinagreiðar.

Gísli Freyr


Mánudagspósturinn 12. júní 2006

Veslings Samfylkingin. Hún skammast endalaust út í ríkisstjórnarflokkana á þeim forsendum að um sé að ræða valdabandalag sem þurfi að koma frá völdum þegar ljóst er að forystumenn flokksins vilja ekkert heitar en að komast í ríkisstjórn með öðrum þessara flokka. Að vísu er talið í þeim efnum út og suður. Fyrir síðustu alþingiskosningar beitti Samfylkingin sér fyrst og fremst gegn Sjálfstæðisflokknum og svo gott sem útilokaði fyrir vikið samstarf við hann eftir kosningar. Hins vegar gerði hún sér dælt við Framsóknarflokkinn. Síðan hefur komið annað hljóð í strokkinn. Ófáir forystumenn Samfylkingarinnar tala nú vel um hugsanlegt samstarf við Sjálfstæðisflokkinn í landsmálunum en virðast á móti vera orðnir afhuga samvinnu við Framsókn.

Þannig sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, eftir nýafstaðinn flokkstjórnarfund flokksins að síðustu sveitarstjórnarkosningar hafi sýnt að samstarf við Framsóknarflokkinn væri ekki vænlegt til árangurs. Alls staðar þar sem Samfylkingin hefði verið í samstarfi við framsóknarmenn hefði hún tapað fylgi. Þetta verður ekki skilið öðruvísi en að nú eigi að útiloka samstarf við Framsókn. Sá möguleiki verði allavega ekki fyrsti kostur. Sem dæmi um daður við Sjálfstæðisflokkinn er grein Björgvin G. Sigurðssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, í Blaðinu í dag þar sem hann segir m.a. að Geir H. Haarde, formaður Sjálftæðisflokksins, hafi gefizt upp á að koma flokki sínum í nýja ríkisstjórn með einhverjum öðrum flokki en Framsókn, t.d. Samfylkingunni sem Björgvin segir vaxandi stuðning við í báðum flokkum.

Grein Björgvins er annars furðuleg samsetning svo pent sé til orða tekið. Honum er tíðrætt um að samstarf Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins sé valdabandalag þó staðreyndin sé sú að hann, eins og annað Samfylkingarfólk, hefur lítil efni á slíku tali eftir aðild Samfylkingarinnar að R-listanum í Reykjavík sem án efa er alræmdasta dæmi Íslandssögunnar um pólitískt valdabandalag. Það væri annars efni í sérstaka grein að fjalla um allar þær furður sem finna má í grein Björgvins og sennilega mann í fullu starfi árið um kring að fara með þeim hætti yfir allt það sem frá honum fer. Læt ég nægja að nefna að í lok greinarinnar talar Björgvin hátíðlega um “[ö]flugt starf og stefnumótun innan Samfylkingarinnar síðustu sex árin á vettvangi sveitarstjórna og landsmála ...”

Þessi ummæli Björgvins eru all merkileg í ljósi þess að forysta flokksins hefur nú gengizt við því að niðurstöður síðustu sveitarstjórnarkosninga hafi verið mikil vonbrigði og að sögn formannsins er ástæðan fyrir slöku gengi sú að innra starf flokksins hafi ekki verið að skila sér sem skyldi. Forystan hefur einnig viðurkennt að fylgi flokksins, sérstaklega á undanförnum mánuðum, sé engan veginn ásættanlegt og skyldi engan undra. Þannig hefur fylgið verið innan við kjörfylgi í hverjum mánuði utan tvo samkvæmt skoðanakönnunum Gallup síðan Ingibjörg Sólrún tók við formennsku í flokknum fyrir ári síðan. Að meðaltali hefur það verið 29%. Á sama tíma hefur fylgi Sjálfstæðisflokksins verið að meðaltali 41% samkvæmt sömu könnunum.

Ég veit því eðli málsins samkvæmt ekki almennilega hvað Björgvin er að tala um. Eins og áður var komið inn á var skipt um formann í Samfylkingunni fyrir ári síðan, en það var gert sérstaklega vegna óánægju með árangurinn af flokksstarfinu. Vonir stóðu til þess að nýr formaður myndi auka verulega á fylgi flokksins en nú ári síðar sjást þess engin merki. Þvert á móti var fylgi Samfylkingarinnar mun oftar í eða yfir kjörfylgi í skoðanakönnunum á meðan Össur Skarphéðinsson var formaður flokksins. Ingibjörg talar nú um að Samfylkingin sé búin að festa sig í sessi sem 30% flokkur þó staðreyndin sé sú að núorðið nái flokkurinn einungis upp í 30% fylgi samkvæmt skoðanakönnunum á góðum degi. Fyrir síðustu þingkosningar setti Samfylkingin reyndar markið á 40% fylgi  og að flokkurinn yrði stærri en Sjálfstæðisflokkurinn og þar með stærsti flokkur landsins. Síðan eru liðin rúm þrjú ár og hefur fylgi flokksins fremur hrakað síðan en hitt eins og áður segir.

En svo fjallað sé áfram um innra starf Samfylkingarinnar þá eru ummæli Björgvins jafnvel enn furðulegri í ljósi þess að Ingibjörg Sólrún hefur ítrekað sagt að þar sé að leita skýringa á lélegu gengi flokksins til þessa. Ekkert virðist þó hafa gerzt í þeim efnum síðasta hálfa árið frá því Ingibjörg Sólrún sagði að til stæði að taka til hendinni þar í ljósi minnkandi fylgis í skoðanakönnunum. Nú hefur Ingibjörg aftur kennt innra starfi Samfylkingarinnar um slakt gengi í sveitarstjórnarkosningunum. Að vísu verður að hafa í huga að Ingibjörgu er tamt að kenna einhverjum öðrum um en sér sjálfri þegar eitthvað bjátar á. Þannig var það ekki henni að kenna að hún varð að hætta sem borgarstjóri Reykjavíkur eftir að hafa gengið svo hressilega á bak orða sinna að fá dæmi eru um annað eins. Nei, það var allt Vinstri-grænum og Framsókn að kenna.

Þegar Samfylkingin náði engu af upphaflegum markmiðum sínum í þingkosningunum 2003 var það allt Össuri Skarphéðinssyni að kenna þar sem hann var formaður flokksins. Engu skipti að kosningabarátta Samfylkingarinnar snerist öll um Ingibjörgu og að Össur hafi að sama skapi varla sést. Eftir að Ingibjörg varð síðan formaður er slæmt gengi í skoðanakönnunum og sveitarstjórnarkosningum ekki Ingibjörgu að kenna heldur innra starfi flokksins, þ.e. hinum almenna flokksmanni. Það er því furðulegt að hlusta á Ingibjörgu nú saka ríkisstjórnina um að kenna öðrum um og sjá ekkert hjá sjálfri sér. En vissulega ber að hafa í huga að hún er ekki beint ókunnug þeirri iðju að kasta steinum úr glerhúsi.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is


Gullkornið á sunnudegi

“When your values are clear to you, making decisions becomes easier.”

Roy Disney


Mínus einn blóðþyrstur morðingi

Að sögn Abu Musab Zarqawi hefur hann og ,,fylgjendur” hans drepið þúsundir íraskra borgara og hundruðir hermanna þeirra erlendu þjóða sem hafa eða hafa haft hermenn í Írak. Þeir hafa margoft lýst yfir ábyrgð á sprengingum sem drepið hafa meðal annars konur og börn og það er ekki að sjá að þeir skammist sín nokkuð fyrir slíkt – jafnvel þó meirihluti fórnarlamba þeirra aðhyllist einnig hina ,,friðsömu” trú, islamstrú.

Ólíkt því sem margir fjölmiðlar hafa haldið fram reis al-Zargawi ekki upp eftir innrás bandamanna í Írak í mars 2003. Það reyndar hentar fjölmiðlamönnum ágætlega að spila al-Zargawi sem einhverja frelsishetju Íraks. Ekki veit ég af hverju.

Al-Zargawi (sem var Jórdani) hét í raun Ahmed Fadel Nazal al-Khalayleh. Hann var fyrst álitinn hættulegur og ,,merktur” sem slíkur árið 2002. Bæði utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna og þýska alþjóðlega hryðjuverkadeildin (sem berst nú gegn hryðjuverkum þó nafnið sér ruglandi) færðu fram gögn sem sönnuðu og sýndu að al-Zargawi hefði reynt að smygla efna- og eiturvopnum til Rússlands, V-Evrópu og Bandaríkjanna. Hann hafði komið sér vel fyrir í Írak sem (þá) tengiliður við al Qaeda í gegnum samtök sem heita Ansar al-Islam.

Til að gæta allrar sanngirni þá eru til heimildir sem benda til þess að al-Zargawi og bin Laden hafi verið óvinir hér á árum áður. En eftir að al-Zargawi kom til Íraks árið 2002 til að komast undir læknishendur byrjaði hann eins og áður sagði að mynda góð tengsl við al-Qaeda.

En burtséð frá því hvort að þeir hafi verið vinir eða óvinir þá byggist líf þeirra og skoðanir á hatri. Þetta vita allir þó alltaf séu einhverjir vinstri menn og einstaka fjölmiðlar sem sjá meiri hættu af George W. Bush (sem verður farinn úr embætti innan þriggja ára) en mönnum eins og bin Laden og al-Zargawi.

En ég ætla nú ekki að fara að gefa þessum mönnum þann heiður að rifja upp ævisögu þeirra hér. Sem betur fer er nú einum blóðþyrsta morðingjanum færra í heiminum.

Það þykir nú ekki merkilegra en svo að einn aðal hryðjuverkamaðurinn í Írak hafi verið drepinn að það var þriðja frétt RÚV í gærkvöldi og áttunda frétt NFS. Hversu oft ætli Al-Zargawi og verk hans hafi verið fyrsta frétt fjölmiðlanna á meðan hann var á lífi og ,,gekk vel” í uppreisn sinni?

Al-Zargawi fer nú væntanlega til fundar við Yasser Arafat og fleiri samstarfsmenn í hryðjuverkabransanum. Það fjölgar vonandi fljótt á þeim fundi.

Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr@simnet.is

p.s. Þeir sem hafa áhuga geta lesið hér um lokaaðgerðirnar gegn al-Zargawi.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Bíll óskast - brú til sölu!

Séu fréttir af samningsdrögum Sjálfstæðismanna í Reykjavík og Björns Inga Hrafnssonar réttar er augljóst að besti staðurinn til að fá kjánalega góða samninga er í Valhöll. Fréttablaðið og Rúv segja frá því að skiptingin verði í grófum dráttum þessi:

Framsókn fær:
Formensku í Borgarráði, ÍTR, Velferðarráði og Menningar- og ferðamálaráði eða formennsku í 3 af 7 málefnanefndum borgarstjórnar auk borgarráðs.
Þar að auki fái Framsókn svo stjórnarformennsku í Faxaflóahöfnum.

Sjálfstæðisflokkurinn fær:
Borgarstjóra, forseta borgarstjórnar, formennsku i Framkvæmdaráði, Menntaráði, Skipulagsráði, Umhverfisráði og stjórn Orkuveitunnar.

Það þýðir að Björn Ingi verður formaður Borgarráðs og líklega tveggja málefnanefnda, Óskar Bergsson varaborgarfulltrúi fær svo formennsku í einni. Sjö borgarfulltrúar skipta verkefnum Sjálfstæðisflokks með sér, en forseti borgarstjórnar mun veljast í formennsku í einni málefnanefnd. Þar að auki hefur komið fram að leitað verði utan borgarstjórnarflokksins til að manna stjórn Orkuveitunnar. Hver eiga verkefni borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins þá að vera? Við eigum sterkan og góðan hóp fólks sem fór fyrir Sjálfstæðismönnum í Reykjavík, hversvegna á að leita út fyrir þann hóp að manna ábyrgðarstöður í borginni?

Einhverskonar helmingaskipti liggja á borðinu. Það getur verið að í ríkisstjórn myndist meira traust milli manna og flokka við slík skipti en styrkleikahlutföll milli flokkana tveggja eru 87,5% á móti 12,5%. Ef að við vörpum þessum hlutföllum yfir á þingið þá myndi það þýða að sjálfstæðismenn hefðu 29 þingmenn á móti 4 þingmönnum framsóknar, dettur einhverjum í hug að við þær aðstæður yrði boðið upp á helmingaskipti? Til að bíta höfuðið af skömminni hefur því verið fleygt að þessi hugmynd um helmingaskipti sé frá Sjálfstæðismönnum komin!

Hvernig stendur á þessari samningatækni? Þetta er sérstaklega furðulegt í ljósi þess að Framsókn mun ekki getað mannað þessar stöður almennilega og málaflokkarnir þeirra munu líða fyrir og þar með meirihlutinn. Þarna munu aðalmenn í borgarstjórn með verulegan atkvæðafjölda á bak við sig þurfa að una því að sitja með hendur í skauti og á meðan að varamaður framsóknar með örfá atkvæði að baki sér hefur gríðarleg áhrif. Allir frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins frá 13. sæti og uppúr tóku þátt í kostnaðarsömu prófkjöri, 10 þeirra fengu fleiri atkvæði þar en Framsóknarflokkurinn í kosningunum í Reykjavík.

Framsókn er ekki endilega greiði gerður með þessum ofurdíl, þeir mega síst við því að koma fyrir sjónir sem gráðugur flokkur sem fær alltof mikil áhrif miðað við fylgi. Ekki varð forsætisráðuneytið þeim til heilla og það er alls ekki víst að þessi samningur verði þeim að góðu. Kannski er eina von skynseminnar sú að Björn Ingi hafni samningnum og fari fram á minna, með þeim orðum að hann vilji einbeita sér að færri málum og gera meira. Þannig myndi hann strax sýna að þar er ekki dæmigerður framsóknarmaður á ferð og gera mikið til að endurreisa trúverðugleika flokksins.

Hvað vakir fyrir samningamönnum Sjálfstæðismanna er mér hulin ráðgáta. En ég veit að næst þegar ég þarf að kaupa mér bíl eða selja brú þá leita ég til borgarstjórnaflokks Sjálfstæðisflokksins.

Friðjón R. Friðjónsson
fyrrv. varaformaður S.u.s.


Mánudagspósturinn 5. júní 2006

Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að ég er ekki að flytja neinar fréttir þegar ég segi að erfitt sé að sjá að Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingarinnar, sé sjálfrátt og að hún fari í endalausa hringi í umfjöllunum sínum um menn og málefni. Þrátt fyrir það tekst henni einhvern veginn aftur og aftur að koma manni á óvart í þeim efnum. Í kvöldfréttum NFS 3. júní sl. var fjallað um hugsanlegar breytingar á ríkisstjórninni og hafði Ingibjörg þetta um málið að segja:

“Að fylgjast með þessari ríkisstjórn. Hún getur ekki stjórnað sjálfri sér, hvað þá að hún sé fær um að stjórna landinu og takast á við þau mörgu verkefni sem að hér bíða. Og ef að þær lausafregnir sem maður heyrir innan úr stjórnarheimilinu eru réttar að þá erum við núna væntanlega að fá þriðja forsætisráðherrann á jafnmörgum árum til þess að stjórna í ríkisstjórninni og ég hef ekki lengur tölu á því hve margir ráðherrar hafa skipt um stóla. Og það segir sig bara sjálft að menn sem að hafa svona skamma viðdvöl í embættum þeir ná ekki tökum. [...] Það sem ég skil nú eðlilega ekki er það að menn skuli ekki bara ganga hreint til verks og tilkynna þetta í stað þess að láta þetta liggja svona loftinu og valda, ja ég vil bara segja skemmdum á eigin starfi.”

Ingibjörg var þá spurð að því hvort hún teldi að til þess gæti komið að ríkisstjórnin liði undir lok áður en kjörtímabilinu lyki og var svarið þetta: “Ja, mér finnst að þessi ríkisstjórn eigi að segja af sér strax. Hún hefur engin tök á málunum og ef hún tæki hlutverk sitt alvarlega, og ríkisstjórnarflokkarnir væru eitthvað annað og meira heldur en bandalag um völd, þá myndi ríkisstjórnin segja af sér.”

Í stuttu máli: Þrír forsætisráðherrar á þemur árum og einhverjar fleiri breytingar á ráðherrum á 11 ára valdatíma jafngildir því að ríkisstjórnin hafi ekki stjórn á sjálfri sér, sé bandalag um völd, taki ekki hlutverk sitt alvarlega og ætti því að segja af sér strax.

Það er nefnilega það. En hvað með R-listann, eitthvert frægasta valdabandalag Íslandssögunnar? Þar horfðum við upp á þrjá borgarstjóra á tveimur árum, ófáar breytingar á formennsku í nefndum Reykjavíkurborgar og nánast endalausan vandræðagang t.a.m. í tengslum við mál Þórólfs Árnasonar, endalok R-listans og svo ekki sé minnzt á brotthvarf Ingibjargar sjálfrar úr stóli borgarstjóra eftir að hafa gengið svo hressilega á bak orða sinna að fá dæmi eru um annað eins.

Nei, það er allt annað mál. Það var R-listinn, það voru vinstrimenn. Það gilda auðvitað allt önnur lögmál um þá en hægrimenn! Þetta er sjónarmiðið hjá Ingibjörgu og ófáum á vinstrivængnum. Dæmin sanna það svo um munar. Og svo kallar þetta fólk sig margt hvert jafnaðarmenn sem væntanlega vilja að eitt gildi um alla. Og svo er siðgæðið jafn tvöfalt ef ekki þrefalt og raun ber vitni.

Og því miður er þetta langt því frá að vera eitthvert einsdæmi. Nægir sennilega að nefna endalaust tal Ingibjargar og fleiri vinstrimanna á undanförnum árum um að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar væri búin að sitja of lengi og því væri tímabært að skipta um stjórn. Sem kunnugt er hafa sjálfstæðismenn og framsóknarmenn starfað saman í ríkisstjórn síðan 1995, ári skemur en R-listinn hafði þá haldið um stjórnartaumana í Reykjavík.

Samkvæmt formúlu Ingibjargar hefði fyir löngu átt að vera búið að skipta um ráðamenn í Ráðhúsi Reykjavíkur, þ.e. ef það sama ætti að gilda um alla. En nei, þessi formúla gildir að sjálfsögðu bara um hægrimenn. Ingibjörg lét meira að segja hafa eftir sér á dögunum að slit R-listans hafi verið mistök. Hann átti bara að halda áfram að vera við völd í borginni um ókomna tíð ef hún hefði mátt ráða. Engin þörf á neinum breytingum þar.

Þess ber þó að geta að þó að mér blöskri þessi framkoma Ingibjargar þá fagna ég henni engu að síður því hún gerir ekkert annað en að grafa enn frekar undan trúverðugleika hennar sem út af fyrir sig var ekki mikill fyrir. Skemmst er að minnast þess þegar Ingibjörg hvarf úr sæti borgarstjóra og fór út í landsmálin, þvert á fyrri og margítrekaðar yfirlýsingar. Þá sagðist t.a.m. Dagur B. Eggertsson, núverandi oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, vera sannfærður um að hún myndi ekki gera það enda snerist málið um túverðugleika hennar. Þegar hún svo hafði farið í landsmálin skipti Dagur um skoðun, eins og ekta krata er von og vísa, og fagnaði þeirri ákvöðun hennar!

Trúverðugleiki er greinilega ekki sterkasta hlið þessa fólks sem þó mun vera það skásta sem Samfylkingin getur teflt fram til forystu. Það er því kannski ekki að furða að illa gangi hjá henni, hvort sem það er í sveitarstjórnarkosningum eða á öðrum vígstöðvum. Þegar fylgið hafði hrunið af flokknum samkvæmt skoðanakönnunum fleiri mánuði í röð í lok síðasta árs sagði Ingibjörg Sólrún að efla þyrfti innra starf hans og var t.a.m. nýr framkvæmdastjóri sérstaklega ráðinn af því tilefni. Eftir slæmt gengi í sveitarstjórnarkosningunum sagði Ingibjörg síðan þetta sama. Hefur s.s. ekkert gerzt í þessum málum undnfarið hálft ár? Það er ekki að sjá.

Því má síðan bæta við að það er ekki eins og það sé eitthvað óalgengt að reglulegar breytingar séu gerðar á ríkisstjórnum landa. Ef eitthvað þá er það algengt fremur en hitt. Stutt er t.a.m. síðan ríkisstjórn Verkamannaflokksins í Bretlandi var að stóru leyti stokkuð upp sem er langt því frá í fyrsta skiptið sem það gerist á þeim bænum. Ingibjörg er væntanlega þeirrar skoðunar að sú stjórn eigi að segja af sér líka. Eða hvað? Nei, hvernig læt ég. Það eru vinstrimenn!

---

Þjóðarhreyfingin svokallaða hefur kært meinta framgöngu Framsóknarflokksins í Reykjavík í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna. Haft var eftir Ólafi Hannibalssyni, eins af forystumönnum hreyfingarinnar, í fjölmiðlum að tillaga um að leggja fram kæruna í nafni Þjóðarhreyfingarinnar hafi verið lögð fram á fundi og “verið samþykkt einróma af öllum fundarmönnum.”

Síðast þegar ég vissi hélt þessi hreyfing ekkert félagatal. Í gegnum tíðina hefur hún haft á að skipa í kringum fjórum meðlimum, en þeim virðist þó frekar hafa farið fækkandi en hitt. Af fréttinni að dæma mætti hins vegar halda að einhverjir tugir hafi verið viðstaddir þennan fund. A.m.k. nógu margir til þess að það þótti frétt að tillagan skyldi hafa verið samþykkt einróma af öllum fundarmönnum.

---

Einhvern veginn kemur mér annars ekki á óvart að Halldór Ásgrímsson sé á leið út úr stjórnmálunum, enda gerði ég ráð fyrir því fyrir tveimur vikum síðan. Svo virðist annars sem framsóknarmenn séu búnir að gefast upp á forsætisráðuneytinu. Ekki réðu þeir við það lengi.

Hins vegar finnst mér æði sérstætt að rætt sé um endurkomu Finns Ingólfssonar, fyrrv. Varaformanns Framsóknarflokksins, í stjórnmálin og að hann taki við sem formaður flokksins. Maður sem gafst upp á stjórnmálunum fyrir nokkrum árum. Ætli það megi þá ekki allt eins búast við hliðstæðri endurkomu Árna Magnússonar í forystusveit Framsóknar innan einhverra ára, þ.e. auðvitað að því gefnu að flokkurinn haldi áfram að vera til.

Annars held ég að hagsmunum Framsóknarflokksins yrði bezt borgið ef Guðni Ágústsson tæki við forystu flokksins. Ólíkt Halldóri er Guðni a.m.k. mjög skemmtilegur :)

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is


Gullkornið á sunnudegi

„Svo má elska einn, að enginn sé hataður þar fyrir.  Foreldri rækir afkvæmi sitt og tekur ekkert frá öðrum með því. […] Sama gegnir um ættjarðarástina.“ 

Hr. Sigurbjörn Einarsson, biskup Íslands.


Hvar er vinstri sveiflan?

Frá kosningum hef ég ítrekað lesið og heyrt þá fréttaskýringu að í kosningunum síðastliðna helgi hafi falist nett vinstri sveifla. Því til stuðnings er það nefnt að Samfylking og hafi bætt við sig svo mörgum fulltrúum í stærstu sveitarfélögunum, þetta er ekki satt. Ég fylgdist með Sigmundi Erni á kosninganóttina óðamála ruglast á Hafnarfirði og Kópavogi, Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu og mér dettur helst í hug að örvæntingarfullar og kjánalegar tilraunir hans til að láta sem stórtíðindi fælust í hverri frétt, í bland við skvettu af óskhyggju hafi ýtt þessari hringavitleysu af stað. Ágúst Ólafur talnatröll ítrekaði vitleysuna í þættinum í Ísland í bítið í vikunni, en þar er ekki úr háum söðli að falla þegar kemur að skilningi á tölum, því lítið á því mark takandi.

Ef við skoðum 10 stærstu sveitarfélögin þá kemur í ljós að bæjarfulltrúarnir tvístrast frá framsókn í allar áttir.

Reykjavíkurborg

Framsókn

2002 - Átti tvo fulltrúa í R-listanum

2006 - Björn Ingi Hrafnsson

Niðurstaða: -1

Sjálfstæðisflokkur

2002 - Fékk 6 fulltrúa

2006 - Fékk 7 fulltrúa

Niðurstaða: +1

Frjálslyndir

2002 - Fékk 1 fulltrúa

2006 - Fékk 1 fulltrúa

Niðurstaða: Óbreytt

Samfylking

2002 - Átti fjóra fulltrúa í R-listanum

2006 - Fékk fjóra (Björk Vilhelmsdóttir er ekki í Samfylkingunni en hún var á framboðslista þeirra þannig að hún telst með fulltrúum Samfylkingarinnar.)

Niðurstaða: Óbreytt

Vinstri-grænir

2002 - Átti tvo fulltrúa í R-listanum

2006 - Fengu tvo fulltrúa

Niðurstaða: Óbreytt

Kópavogsbær

Framsókn

2002 - Fékk 3 fulltrúa

2006 - Fékk 1 fulltrúa

Niðurstaða: -2

Sjálfstæðisflokkur

2002 - Fékk 5 fulltrúa

2006 - Fékk 5 fulltrúa

Niðurstaða: Óbreytt

Frjálslyndir

Ekki með

Samfylking

2002 - Fékk 3 fulltrúa

2006 - Fékk 4 fulltrúa

Niðurstaða: -1

Vinstri-grænir

2002 - Fékk engan fulltrúa

2006 - Fékk 1 fulltrúa

Niðurstaða: +1

Hafnarfjarðarkaupstaður

Framsókn

2002 - Fékk engan fulltrúa

2006 - Fékk engan fulltrúa

Niðurstaða: Óbreytt

Sjálfstæðisflokkur

2002 - Fékk 4 fulltrúa

2006 - Fékk 2 fulltrúa

Niðurstaða: -2

Frjálslyndir

Ekki með

Samfylking

2002 - Fékk 6 fulltrúa

2006 - Fékk 7 fulltrúa

Niðurstaða: +1

Vinstri-grænir

2002 - Fékk engan fulltrúa

2006 - Fékk 1 fulltrúa

Niðurstaða: +1

Akureyrarkaupstaður

Framsókn

2002 - Fékk 3 fulltrúa

2006 - Fékk 1 fulltrúa

Niðurstaða: -2

Sjálfstæðisflokkur

2002 - Fékk 4 fulltrúa

2006 - Fékk 4 fulltrúa

Niðurstaða: Óbreytt

Frjálslyndir

Ekki með

Samfylking

2002 - Fékk 1 fulltrúa

2006 - Fékk 3 fulltrúa

Niðurstaða: +2

Vinstri-grænir

2002 - Fékk 1 fulltrúa

2006 - Fékk 2 fulltrúa

Niðurstaða: +1

Reykjanesbær

Framsókn

2002 - Fékk 1 fulltrúa

2006 - Fékk 1 fulltrúa af 4 A-listans

Niðurstaða: Óbreytt

Sjálfstæðisflokkur

2002 - Fékk 6 fulltrúa

2006 - Fékk 7 fulltrúa

Niðurstaða: +1

Frjálslyndir

2002 - Ekki með

2006 - Fékk engan fulltrúa

Niðurstaða: Óbreytt

Samfylking

2002 - Fékk 4 fulltrúa

2006 - Fékk 3 fulltrúa af 4 A-listans

Niðurstaða: -1

Vinstri-grænir

2002 - Ekki með

2006 - Fékk 1 fulltrúa

Niðurstaða: +1

Garðabær

Framsókn

2002 - Fékk 2 fulltrúa

2006 - Fékk 1 fulltrúa af 3 A-listans

Niðurstaða: -1

Sjálfstæðisflokkur

2002 - Fékk 4 fulltrúa

2006 - Fékk 4 fulltrúa

Niðurstaða: Óbreytt

Frjálslyndir

Ekki með

Samfylking

2002 - Fékk 1 fulltrúa

2006 - Fékk 1 fulltrúa af 3 A-listans

Niðurstaða: Óbreytt

Vinstri-grænir

Ekki með

Bæjarlistinn fékk 3 fulltrúa, ekki tókst að finna í gúglinu hvar mætti staðsetja þriðja fulltrúa listans, Hjördísi Evu Þórðardóttur nema kannski í Sjálfstæðisflokknum þar sem hún var opinber stuðningsmaður Bolla Thoroddsen í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík!

Mosfellsbær

Framsókn

2002 - Fékk 2 fulltrúa

2006 - Fékk 1 fulltrúa af 3 A-listans

Niðurstaða: -1

Sjálfstæðisflokkur

2002 - Fékk 4 fulltrúa

2006 - Fékk 3 fulltrúa

Niðurstaða: -1

Frjálslyndir

Ekki með

Samfylking

2002 - Fékk 1 fulltrúa af 1 G-listans

2006 - Fékk 2 fulltrúa

Niðurstaða: +1

Vinstri-grænir

2002 - Fékk engan fulltrúa af 1 G-listans

2006 - Fékk 1 fulltrúa

Niðurstaða: +1

Sveitarfélagið Árborg

Framsókn

2002 - Fékk 3 fulltrúa

2006 - Fékk 2 fulltrúa af 3 A-listans

Niðurstaða: -1

Sjálfstæðisflokkur

2002 - Fékk 2 fulltrúa

2006 - Fékk 4 fulltrúa

Niðurstaða: +2

Frjálslyndir

Ekki með

Samfylking

2002 - Fékk 4 fulltrúa af 1 G-listans

2006 - Fékk 2 fulltrúa

Niðurstaða: -2

Vinstri-grænir

2002 - Fékk engan fulltrúa

2006 - Fékk 1 fulltrúa

Niðurstaða: +1

Akraneskaupstaður

Framsókn

2002 - Fékk 2 fulltrúa

2006 - Fékk 1 fulltrúa

Niðurstaða: -1

Sjálfstæðisflokkur

2002 - Fékk 4 fulltrúa

2006 - Fékk 4 fulltrúa

Niðurstaða: Óbreytt

Frjálslyndir

2002 - Ekki með

2006 - Fékk 1 fulltrúa

Niðurstaða: +1

Samfylking

2002 - Fékk 3 fulltrúa af 1 G-listans

2006 - Fékk 2 fulltrúa

Niðurstaða: -1

Vinstri-grænir

2002 - Fékk engan fulltrúa

2006 - Fékk 1 fulltrúa

Niðurstaða: +1

Seltjarnarneskaupstaður

Framsókn

2002 - Fékk 1 fulltrúa af 3 N-listans

2006 - Fékk 1 fulltrúa af 2 N-listans

Niðurstaða: Óbreytt

Sjálfstæðisflokkur

2002 - Fékk 4 fulltrúa

2006 - Fékk 5 fulltrúa

Niðurstaða: +1

Frjálslyndir

Ekki með

Samfylking

2002 - Fékk 1 fulltrúa af 3 N-listans

2006 - Fékk 1 fulltrúa af 2 N-listans

Niðurstaða: Óbreytt

Vinstri-grænir

2002 - Fékk engan fulltrúa

2006 - Fékk engan fulltrúa

Niðurstaða: Óbreytt

Hinn óflokksbundni Árni Einarsson náði kjöri 2002 sem þriðji maður Nes-listans hann féll út nú.

Samtekt á breytingum á fulltrúafjölda í 10 stærstu sveitarfélögum landsins.

B

D

F

S

V

Aðrir
og óflokksb .

Reykjavíkurborg

-1

1

0

0

0

Kópavogsbær

-2

0

0

1

1

Hafnarfjarðarkaupstaður

0

-2

0

1

1

Akureyrarkaupstaður

-2

0

0

2

1

-1

Reykjanesbær

0

1

0

-1

0

Garðabær

-1

0

0

0

0

1

Mosfellsbær

-1

-1

0

1

1

Sveitarfélagið Árborg

-1

2

0

-2

1

Akraneskaupstaður

-1

0

1

-1

1

Seltjarnarneskaupstaður

0

1

0

0

0

-1

                                                           -9

                          2

                 1

                    1

                 6

           -1

Niðurstaðan úr þessari athugun er sú að Framsókn tapar stórt og hinir flokkarnir skipta með sér fulltrúum þeirra. Sjálfstæðisflokkur tapar umtalsverður fylgi í einu kjördæmi þar sem fara saman sterkur bæjarstjóri í hópi andstæðinga og heiftúðugt prófkjör sem ekki hefur enn gróið heilt um. Á móti bætir Sjálfstæðisflokkur við sig 15% í Árborg sem koma beint frá Samfylkingu. Þar er ekki hægt að skýra breytinguna með neinu nema því að Árborgarbúar hafi hreinlega hafnað Samfylkingunni.

Samfylking eykur mest fylgi sitt á Akureyri eða um 10% og uppsker tvo nýja bæjarfulltrúa fyrir.Til samans má bera að Sjálfstæðisflokkur bætir við sig tæpum 8% í Kópavogi en bætir ekki við sig bæjarfulltrúa, í sama bæ bætir Samfylkingin við sig 3% og uppsker nýjan bæjarfulltrúa.

Vinstri-grænir mættu varla til leiks fyrir fjórum árum en eru nú að festa sig í sessi sem alvöru stjórnmálaflokkur, það er ekki hægt að segja um Frjálslynda.

Lesendur geta dæmt sjálfi hvort vinstri sveifla í hefðbundnum skilning hafi átt sér stað. Miðjuflokkur tapaði fylgi og flokkur með skýr stefnumál bætti mest við sig. Þar sem Samfylking og Sjálfstæðisflokkurinn lögðu fram skýra valkosti gekk þeim betur. Þar má nefna Hafnarfjörð (vinsæll bæjarstjóri), Reykjanesbæ (vinsæll bæjarstjóri), Kópavog (Áframhaldandi uppbygging) og Seltjarnanes (Vinsæll bæjarstjóri með skýr stefnumál.)

Lærdómurinn sem menn eiga að draga er að ef ekki eru boðnir fram sterkir og vinsælir bæjarstjórar þá eigi þeir að setja fram skýr stefnumál sem kjósendur skilja, það er vænlegra til árangurs en loforð um útgjöld og miðjumoð.

Friðjón R. Friðjónsson


« Fyrri síða

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband