Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 5. júní 2006

Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að ég er ekki að flytja neinar fréttir þegar ég segi að erfitt sé að sjá að Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingarinnar, sé sjálfrátt og að hún fari í endalausa hringi í umfjöllunum sínum um menn og málefni. Þrátt fyrir það tekst henni einhvern veginn aftur og aftur að koma manni á óvart í þeim efnum. Í kvöldfréttum NFS 3. júní sl. var fjallað um hugsanlegar breytingar á ríkisstjórninni og hafði Ingibjörg þetta um málið að segja:

“Að fylgjast með þessari ríkisstjórn. Hún getur ekki stjórnað sjálfri sér, hvað þá að hún sé fær um að stjórna landinu og takast á við þau mörgu verkefni sem að hér bíða. Og ef að þær lausafregnir sem maður heyrir innan úr stjórnarheimilinu eru réttar að þá erum við núna væntanlega að fá þriðja forsætisráðherrann á jafnmörgum árum til þess að stjórna í ríkisstjórninni og ég hef ekki lengur tölu á því hve margir ráðherrar hafa skipt um stóla. Og það segir sig bara sjálft að menn sem að hafa svona skamma viðdvöl í embættum þeir ná ekki tökum. [...] Það sem ég skil nú eðlilega ekki er það að menn skuli ekki bara ganga hreint til verks og tilkynna þetta í stað þess að láta þetta liggja svona loftinu og valda, ja ég vil bara segja skemmdum á eigin starfi.”

Ingibjörg var þá spurð að því hvort hún teldi að til þess gæti komið að ríkisstjórnin liði undir lok áður en kjörtímabilinu lyki og var svarið þetta: “Ja, mér finnst að þessi ríkisstjórn eigi að segja af sér strax. Hún hefur engin tök á málunum og ef hún tæki hlutverk sitt alvarlega, og ríkisstjórnarflokkarnir væru eitthvað annað og meira heldur en bandalag um völd, þá myndi ríkisstjórnin segja af sér.”

Í stuttu máli: Þrír forsætisráðherrar á þemur árum og einhverjar fleiri breytingar á ráðherrum á 11 ára valdatíma jafngildir því að ríkisstjórnin hafi ekki stjórn á sjálfri sér, sé bandalag um völd, taki ekki hlutverk sitt alvarlega og ætti því að segja af sér strax.

Það er nefnilega það. En hvað með R-listann, eitthvert frægasta valdabandalag Íslandssögunnar? Þar horfðum við upp á þrjá borgarstjóra á tveimur árum, ófáar breytingar á formennsku í nefndum Reykjavíkurborgar og nánast endalausan vandræðagang t.a.m. í tengslum við mál Þórólfs Árnasonar, endalok R-listans og svo ekki sé minnzt á brotthvarf Ingibjargar sjálfrar úr stóli borgarstjóra eftir að hafa gengið svo hressilega á bak orða sinna að fá dæmi eru um annað eins.

Nei, það er allt annað mál. Það var R-listinn, það voru vinstrimenn. Það gilda auðvitað allt önnur lögmál um þá en hægrimenn! Þetta er sjónarmiðið hjá Ingibjörgu og ófáum á vinstrivængnum. Dæmin sanna það svo um munar. Og svo kallar þetta fólk sig margt hvert jafnaðarmenn sem væntanlega vilja að eitt gildi um alla. Og svo er siðgæðið jafn tvöfalt ef ekki þrefalt og raun ber vitni.

Og því miður er þetta langt því frá að vera eitthvert einsdæmi. Nægir sennilega að nefna endalaust tal Ingibjargar og fleiri vinstrimanna á undanförnum árum um að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar væri búin að sitja of lengi og því væri tímabært að skipta um stjórn. Sem kunnugt er hafa sjálfstæðismenn og framsóknarmenn starfað saman í ríkisstjórn síðan 1995, ári skemur en R-listinn hafði þá haldið um stjórnartaumana í Reykjavík.

Samkvæmt formúlu Ingibjargar hefði fyir löngu átt að vera búið að skipta um ráðamenn í Ráðhúsi Reykjavíkur, þ.e. ef það sama ætti að gilda um alla. En nei, þessi formúla gildir að sjálfsögðu bara um hægrimenn. Ingibjörg lét meira að segja hafa eftir sér á dögunum að slit R-listans hafi verið mistök. Hann átti bara að halda áfram að vera við völd í borginni um ókomna tíð ef hún hefði mátt ráða. Engin þörf á neinum breytingum þar.

Þess ber þó að geta að þó að mér blöskri þessi framkoma Ingibjargar þá fagna ég henni engu að síður því hún gerir ekkert annað en að grafa enn frekar undan trúverðugleika hennar sem út af fyrir sig var ekki mikill fyrir. Skemmst er að minnast þess þegar Ingibjörg hvarf úr sæti borgarstjóra og fór út í landsmálin, þvert á fyrri og margítrekaðar yfirlýsingar. Þá sagðist t.a.m. Dagur B. Eggertsson, núverandi oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, vera sannfærður um að hún myndi ekki gera það enda snerist málið um túverðugleika hennar. Þegar hún svo hafði farið í landsmálin skipti Dagur um skoðun, eins og ekta krata er von og vísa, og fagnaði þeirri ákvöðun hennar!

Trúverðugleiki er greinilega ekki sterkasta hlið þessa fólks sem þó mun vera það skásta sem Samfylkingin getur teflt fram til forystu. Það er því kannski ekki að furða að illa gangi hjá henni, hvort sem það er í sveitarstjórnarkosningum eða á öðrum vígstöðvum. Þegar fylgið hafði hrunið af flokknum samkvæmt skoðanakönnunum fleiri mánuði í röð í lok síðasta árs sagði Ingibjörg Sólrún að efla þyrfti innra starf hans og var t.a.m. nýr framkvæmdastjóri sérstaklega ráðinn af því tilefni. Eftir slæmt gengi í sveitarstjórnarkosningunum sagði Ingibjörg síðan þetta sama. Hefur s.s. ekkert gerzt í þessum málum undnfarið hálft ár? Það er ekki að sjá.

Því má síðan bæta við að það er ekki eins og það sé eitthvað óalgengt að reglulegar breytingar séu gerðar á ríkisstjórnum landa. Ef eitthvað þá er það algengt fremur en hitt. Stutt er t.a.m. síðan ríkisstjórn Verkamannaflokksins í Bretlandi var að stóru leyti stokkuð upp sem er langt því frá í fyrsta skiptið sem það gerist á þeim bænum. Ingibjörg er væntanlega þeirrar skoðunar að sú stjórn eigi að segja af sér líka. Eða hvað? Nei, hvernig læt ég. Það eru vinstrimenn!

---

Þjóðarhreyfingin svokallaða hefur kært meinta framgöngu Framsóknarflokksins í Reykjavík í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna. Haft var eftir Ólafi Hannibalssyni, eins af forystumönnum hreyfingarinnar, í fjölmiðlum að tillaga um að leggja fram kæruna í nafni Þjóðarhreyfingarinnar hafi verið lögð fram á fundi og “verið samþykkt einróma af öllum fundarmönnum.”

Síðast þegar ég vissi hélt þessi hreyfing ekkert félagatal. Í gegnum tíðina hefur hún haft á að skipa í kringum fjórum meðlimum, en þeim virðist þó frekar hafa farið fækkandi en hitt. Af fréttinni að dæma mætti hins vegar halda að einhverjir tugir hafi verið viðstaddir þennan fund. A.m.k. nógu margir til þess að það þótti frétt að tillagan skyldi hafa verið samþykkt einróma af öllum fundarmönnum.

---

Einhvern veginn kemur mér annars ekki á óvart að Halldór Ásgrímsson sé á leið út úr stjórnmálunum, enda gerði ég ráð fyrir því fyrir tveimur vikum síðan. Svo virðist annars sem framsóknarmenn séu búnir að gefast upp á forsætisráðuneytinu. Ekki réðu þeir við það lengi.

Hins vegar finnst mér æði sérstætt að rætt sé um endurkomu Finns Ingólfssonar, fyrrv. Varaformanns Framsóknarflokksins, í stjórnmálin og að hann taki við sem formaður flokksins. Maður sem gafst upp á stjórnmálunum fyrir nokkrum árum. Ætli það megi þá ekki allt eins búast við hliðstæðri endurkomu Árna Magnússonar í forystusveit Framsóknar innan einhverra ára, þ.e. auðvitað að því gefnu að flokkurinn haldi áfram að vera til.

Annars held ég að hagsmunum Framsóknarflokksins yrði bezt borgið ef Guðni Ágústsson tæki við forystu flokksins. Ólíkt Halldóri er Guðni a.m.k. mjög skemmtilegur :)

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband