Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2006

Gyðingar ráða öllu!

Ég hef verið að vinna við álversframkvæmdir á Reyðarfirði. Þar hef ég m.a. kynnst Marokkó-manni nokkrum. Ég gaf mig fyrst á tal við hann til að æfa mig aðeins í frönskunni (franska er annað opinbert tungumál Marokkó). Þetta er ljúflingur, og ágætis náungi.

Eitt sinn upp úr þurru segir þessi ágæti maður mér að gyðingar ráði öllu í Marokkó. Allir ráðgjafar konungsins séu gyðingar, og þeir fari með öll völd í landinu. ,,Nú er það virkilega" sagði ég, og hugsaði hvurslags endemis bull þetta væri.
 
Ég hef reyndar komist að því að í hugarheimi margra araba fara gyðingar ekki aðeins með öll völd í Marokkó, heldur víðast hvar í heiminum.
 
Sem dæmi vil ég nefna viðtal við Ahmed Rami, útvarpsstjóra ,,Útvarp Íslam" í Svíþjóð, sem ég las í enskri þýðingu. Viðtalið var sýnt á sjónvarpsstöðinni ,,Hizbullah TV". Þar segir Rami frá því að samtök gyðinga stjórni hinum vestræna heimi. Fulltrúar þeirra stjórni hverjum einasta stjórnmálaflokki. Viðmælandi hans spurði af því tilefni hvort að þetta ætti líka við um Svíþjóð. Því svaraði Rami játandi. Sagði hann að í Jafnaðarmannaflokknum sænska væru allir þeir sem mótuðu hugmyndafræði flokksins gyðingar. Það ætti einnig við um alla þá sem stjórnuðu flokknum, og alla ríkisstjórnarmeðlimina. Lögreglustjórinn í Svíþjóð væri gyðingur, flokksformenn flokkanna gyðingar, flokkarnir gyðingaflokkar, hver einasti, frá vinstri til hægri.    
 
Ég hef einnig séð þetta á bloggi manns að nafni Ahmad, sem er hægri sinnaður Íraki, búsettur í Bretlandi. Hann er afar hliðhollur Bandaríkjamönnum, og ber nokkurn hlýhug til Ísraela. Hann segir margar skrautlegar sögur af arabískum vinum sínum. Sumir þeirra halda að Ísraelar hafi staðið að nýlegum hryðjuverkaárásum á ferðamannastaði í Egyptalandi, þrátt fyrir að samtök herskáa múslima hafi lýst þeim á hendur sér. Af hverju? Jú, því að tekjur Egypta eru miklar af ferðamanna iðnaði, og Ísraelar vilji hluta af kökunni. Með þessu fæla þeir ferðamenn frá Egyptalandi, og til Ísrael. Einnig telja sumir að það séu Ísraela sem séu að veita ,,hernámi" bandamanna í Írak mótspyrnu, en ekki múslimar. Gyðingarnir stjórna þessu bak við tjöldin, til að tryggja að ringulreið sé í Írak. Eins og Ahmad bendir réttilega á, þá eru engin rök þessu til stuðnings. (Annars vil ég benda á það í framhjáhlaupi að þessi Ahmad er alveg frábær, og hann linkar á marga Íraka og Múslima, sem eru miklir bandamenn Vesturlanda, og vilja vestrænt lýðræði í Mið-austurlöndum. Þeir eru bálvondir út í Evrópubúa fyrir það að vera á móti innrásinni í Írak. Saddam Hussein varð að koma frá að þeirra mati.)
 
Róttækir vinstri menn hafa sumir svipaða ofur trú á mætti gyðinga. Hér má nefna Hugo Chavez, forseta Venesúela. Hann segir að miskipting auðs í heiminum sé gyðingum að kenna. Þeir ráði öllu, og hafa skipt sér og sínum í hag.

Hvernig vitum við annars að gyðingar séu vondu karlarnir? Jú, kapítalismi er vondur. Gyðingar og Bandaríkjamenn eru kapítalistar. Þeir eru því vondir. Arabar eru fátækir, þeir eru því fórnarlömb. Þetta segir sig sjálft!?
 
Hin meintu völd gyðinga eru annars með ólíkindum í ljósi þess að þeir eru ekki nema 0,2% jarðabúa, eða 14.5 milljónir.

Sindri Guðjónsson
sindri79@gmail.com


Mánudagspósturinn 29. maí 2006

Úrslit borgarstjórnarkosninganna í Reykjavík eru næst bezta niðurstaða sem við sjálfstæðismenn gátum vonazt eftir. Fyrst ekki náðist hreinn meirihluti, eins og að var stefnt, var æskilegt að annað fylgi dreifðist sem mest á hina flokkana – eins og raunin varð. Það þýddi, eins og margir bentu á, að sjálfstæðismenn voru í lykilhlutverki hvað varðaði myndun nýs meirihluta í borgarstjórn og gátu samið við öll hin framboðin með tilliti til fylgis. Hinn möguleikinn, að hin framboðin fjögur tækju sig saman um myndun meirihluta, þótti fáum ákjósanlegur kostur sem skiljanlegt er.

Sjálfstæðismenn hafa annars náð samkomulagi við framsóknarmenn um myndun nýs meirihluta. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson mun verða borgarstjóri og Björn Ingi Hrafnsson, oddviti framsóknarmanna, formaður borgarráðs. Þetta ætti að verða til þess að styrkja stöðu Björns Inga verulega innan Framsóknarflokksins og auka mjög möguleika hans sem framtíðarleiðtoga þar á bæ - þ.e. að því gefnu auðvitað að flokkurinn eigi einhverja framtíð fyrir sér.

Sjálfstæðismenn ræddu sem kunnugt er fyrst við Frjálslynda flokkinn sem var að mörgu leyti eðlilegasti fyrsti kostur þar sem flokkarnir tveir voru í minnihluta á síðasta kjörtímabili. Þær viðræður runnu þó út í sandinn og þá einkum vegna flugvallarmálsins, en frjálslyndir munu ekki hafa viljað hvika frá þeirri stefnu sinni að flugvöllurinn yrði áfram í Vatnsmýrinni. Eitthvað sem að vissu leyti má virða.

Hins vegar hefur flugvallarmálið þannig orkað nokkuð tvímælis fyrir frjálslynda. Án nokkurs vafa má rekja stóran hluta af fylgisaukningu þeirra í kosningunum til stefnu þeirra í málinu. Eins og kunnugt er tókst þeim þó ekki að tryggja sér tvo borgarfulltrúa eins og að var stefnt. Á hinn bóginn mun afstaða þeirra hafa dæmt þá til áframhaldandi veru í minnihluta.

Helzti ókosturinn við samstarf við framsóknarmenn eru tengsl þeirra við R-listann heitinn. Það má þó hugga sig við það að Alfreð Þorsteinsson skuli ekki lengur vera oddviti þeirra í Reykjavík. Sama hefði átt við um Samfylkinguna og alls ekki síður. Eini kosturinn við samstarf við hana hefði verið sterkur meirihluti hvað varðar fjölda borgarfulltrúa. Annað ekki. Helzti kosturinn við samstarfið við framsóknarmenn er líkar áherzlur sem hefur sýnt sig í skjótum viðræðum í dag.

En hvað með Vinstri-græna? Fyrir utan R-lista tengslin er sósíalismi, jú, alltaf sósíalismi. Helzti kosturinn við samstarf við Vinstri-græna hefði verið sá að það hefði styrkt stöðu þeirra og þannig rennt enn frekari stoðum undir varanlega skiptingu vinstrivængsins í íslenzkum stjórnmálum í a.m.k. tvo flokka.

Að sama skapi hefði samstarf við frjálslynda vafalítið styrkt þá í sessi sem væri á hinn bóginn ókostur fyrir hagsmuni Sjálfstæðisflokksins, enda má fastlega gera ráð fyrir að stór hluti, og jafnvel stærstur hluti, fylgis frjálslyndra hefði annars fylgt sjálfstæðismönnum að málum.

 

---

Það er annars furðulegt að hlusta á Ólaf F. Magnússon, oddvita frjálslyndra í Reykjavík, kvarta sáran yfir því að Vilhjálmur Þ. skuli hafa hætt viðræðum við hann í dag og tilkynnt honum það ekki fyrr en klukkutíma eftir að þeir höfðu mælt sér mót. Eins og kunnugt er hætti Ólafur sjálfur viðræðum við R-listaflokkana í gær og hafði þá ekki einu sinni fyrir því að afboða sig á fund sem hann hafði boðað komu sína á. Lét bara ekki sjá sig og lét hvorki kóng né prest vita. Þess í stað hóf hann viðræður við sjálfstæðismenn sem hann hafði frumkvæði að.

En þetta er út af fyrir sig ekkert nýtt, þ.e. að tveir mælikvarðar séu í gangi hjá frjálslyndum. Þeir mótmæltu því t.a.m. harðlega þegar Gunnar Örn Örlygsson, alþingismaður, sagði skilið við þá og gekk í raðir sjálfstæðismanna á síðasta ári. Kröfðust þeir þess að hann segði af sér þingmennsku á þeim forsendum að Frjálslyndi flokkurinn ætti þingsætið en ekki hann. Sama fólk sá hins vegar ekkert að því í lok árs 2001 að Ólafur F. skyldi ganga úr röðum sjálfstæðismanna og til liðs við frjálslynda en halda engu að síður áfram að gegna embætti borgarfulltrúa fram að borgarstjórnarkosningunum 2002.

---

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, og fleira samfylkingarfólk talaði um að þó niðurstaðan í Reykjavík væru vonbrigði þá héldi flokkurinn samt sínum fjórum fulltrúum. Hvaða fjórum fulltrúum? Jú, þessum tveimur sem Samfylkingin hafði formlega og svo hina tvo sem opinberlega voru sagðir óháðir en allir vissu að styddu flokkinn.

Óháði stimpillinn var einungis hugsaður til að reyna að gera R-listann á sínum tíma seljanlegri, m.ö.o. til að blekkja kjósendur, sem ekki vildu taka afstöðu með neinum einum flokki umfram aðra, til að telja sig eiga samleið með R-listanum sem óháðir kjósendur sem kysu óháða frambjóðendur. Sama á við um aðra sem hafa farið þessa leið í kosningum, hvort sem það á við um Vinstri-græna eða frjálslynda. Þess utan er auðvitað ekkert til sem heitir óháðir frambjóðendur, a.m.k. ekki sem hengja sig utan í aðra flokka.

---

Það er að verða orðið ansi þreytt vælið í framsóknarmönnum að allir séu vondir við þá. Þetta jókst stórlega eftir að þeir tóku við forsætisráðuneytinu og Halldór Ásgrímsson tók við sem forsætisráðherra og þar með helzti talsmaður ríkisstjórnarinnar út á við. Því starfi hefur hefur sem fyrr fylgt að svara alls kyns gagnrýni á störf hennar, bæði sem átt hefur rétt á sér en klárlega oftar sem enginn fótur hefur verið fyrir.

Þetta hlutverk fórum við sjálfstæðismenn með í rúm 13 ár án slíks væls og þrátt fyrir að hafa t.a.m. misst talsvert fylgi í þingkosningunum 2003 á meðan framsóknarmenn héldu sínu. Framsóknarmenn hafa nú haft forsætisráðuneytið í minna en tvö ár og hafa svo að segja allan þann tíma vælt yfir því að þeir einir verði að taka á sig gagnrýni á ríkisstjórnina.

---

Og að síðustu. Eina svarið sem samfylkingarfólk virðist hafa, þegar minnzt er á að tilraunin til að sameina allra vinstrimenn á Íslandi í einn flokk (þessi sem kallaðist Samfylkingin) hafi mistekizt, er að Samfylkingin sé hlutfallslega stærsti jafnaðarmannaflokkur á Norðurlöndunum. Það má vel vera en hvað kemur það málinu við? Hvers vegna getur fólk ekki bara gengizt við þeirri staðreynd að þessi tilraun mistókst algerlega?

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is

 


Gullkornið á sunnudegi

„In the beginning of a change, the patriot is a scarce man; brave, hated, and scorned. When his cause succeeds, however, the timid join him, for then it costs nothing to be a patriot.“

Mark Twain


Skítkast Hallgríms (Samfylkingarinnar)

Hallgrímur Helgason skrifaði grein á Visi.is í fyrradag. Það væri svo sem ekki frásögu færandi nema af því að Hallgrímur gerir lítið annað þessa dagana nema endurvarpa biturð sinni gagnvart Sjálfstæðisflokknum. Nú er Davíð Oddsson hættur í stjórnmálum og hina svörtu biturð tekur Hallgrímur út á Birni Bjarnasyni. Við skulum nú vona að Björn fari ekki að hætta líka til að Hallgrímur missi ekki sjónar á tilgangi lífsins.

Einu sinni sagði maður við mig að biturð væri eins og krabbamein. Ef ekkert væri gert dreyfði hún sér og drægi mann að lokum til dauða. Þessi ágæti maður átti að sjálfsögðu við sálarlega en ekki líkamlega.

En grein Hallgríms er ekki þess virði að vitna í eða endurtaka. Hún dæmir sig sjálf. Helst er að vorkenna svona manni og þeim sem umgangast hann. Honum hlýtur að líða illa og þurfa einhvers konar hjálp.

En það sem vekur furðu mína er að Samfylkingin í Reykjavík setti greinina inn á vef sinn. Á forsíðu undir ,,helstu mál.” Já, já beint inn forsíðu vefsins, með grein eftir formanninn og aðra þingmenn.

Þýðir þetta að biturð og nöldur Hallgríms sé hluti af skoðun og stefnu flokksins. Er ,,martröð” eða ,,ímyndun” Hallgríms Helgasonar eitthvað sem kemur til með að móta stefnu Samfylkingarinnar?

Þetta er það sem einkennir Samfylkinguna undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur.
Ég hef áður skrifað um hlutverk Ingibjargar í íslenskum stjórnmálum. Maður sannfærist með hverjum deginum hversu ómögulegur stjórnmálamaður hún er að öllu leyti. Eftir að hafa lagt fjárhag Reykjavíkurborgar í rúst fannst Ingibjörgu Sólrúnu tilvalið að snúa sér að ríkinu enda allt meira og minna í lagi þar fjárhagslega og því nóg fyrir hana að gera. Allt í nafni umræðu og lýðræðis auðvitað.

Ingibjörg Sólrún hefur EKKERT lagt af mörkum í stjórnmálaumræðu eða stefnu á Íslandi síðan hún var kosinn formaður Samfylkingarinnar. Hún er hins vegar fyrsta manneskja til að segja ,,hvað hefði átt að gera” þegar einhver telur eitthvað vera að í þjóðfélaginu. Hvað er annars að frétta af framtíðarhópnum sem Ingibjörg átti að leiða fyrir þremur árum? Hvar er utanríkisstefna Samfylkingarinnar? Nær hún út fyrir aðild Íslands að ESB? Eða á Brussel að sjá um ÖLL okkar utanríkismál? Hver er stefna Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum? Fyrir kosningarnar 2003 talaði Ingibjörg í hringi í þeim málum? Það eina sem hún skipti ekki um skoðun á var að taka kvótann af þeim sem eiga hann í dag.

Hvar er skattastefna Samfylkingarinnar? Þar talaði Ingibjörg líka í hringi. Það eina sem hún stóð föst á var að hækka skatta á efnameira fólk þar með skattþrepum.

Nú er það ekki svo að mig langi sjá Ingibjörgu eða Samfylkinguna ganga vel í stjórnmálum. Á meðan þjóðinni gengur vel gengur Samfylkingunni illa og það er ágætt. Ástæðan fyrir þessum skrifum mínum er að þegar Ingibjörg og Samfylkingin eru stefnulaus eins og nú er þá tekur skítkastið við. Þá fer flokkurinn að birta drullusvaðsgreinar eftir Hallgrím Helgason gegn Sjálfstæðisflokknum eða einstaka fyrrverandi og núverandi flokksmeðlimum.

Rétt er að taka fram að skoðun mín á Ingibjörgu Sólrúnu er pólitísk en ekki persónuleg. Ólíkt skoðunum hennar og Hallgríms á Davíð Oddssyni eða Birni Bjarnasyni. Enda virðist fylgi flokksins vera í takt við það.

Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr@simnet.is


Mánudagspósturinn 22. maí 2006

Fyrir helgi fóru fram einkennilegar umræður í Brussel um það hver næstu skref kynnu að verða varðandi frekari stækkun Evrópusambandsins. Allt í einu var Ísland komið inn í þær vangaveltur þó ekkert hafi vitaskuld gerzt hér á landi sem gefur tilefni til þess. Þetta hófst með því að Olli Rehn, sem fer með stækkunarmál í framkvæmdastjórn sambandsins, var spurður að því á fundi rannsóknarstofnunarinnar European Policy Centre hvort Ísland kynni að koma til greina sem aðildarríki í náinni framtíð og svaraði Rehn því til að svo kynni að verða og þá hugsanlega á eftir Rúmeníu og Búlgaríu sem nú standa í samningaviðræðum við Evrópusambandið. Hann lagði þó áherzlu á að engin ósk hefði komið frá Íslendingum um aðild.

Rehn tók ennfremur fram að aðild Ísland kæmi ekki til skoðunar fyrr en eftir að komið hefði verið á fyrirhuguðum breytingum á stofnanakerfi Evrópusambandsins og endurskoðun á fjárlögum þess. Þ.e. eftir að fyrirhuguð stjórnarskrá sambandsins hefur tekið gildi sem allar líkur eru á að hún muni gera á einn eða annan hátt. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að gildistaka stjórnarskrárinnar mun sízt gera Evrópusambandið meira aðlaðandi en það þegar er fyrir Íslendinga. Forseti framkvæmdastjórnarinnar, José Manuel Barroso, brást hins vegar við ummælum Rehn með því að lýsa efasemdum sínum um að fleiri ríki ættu eftir að fá aðild að Evrópusambandinu en þau ríki sem þegar væri verið að ræða við.

Þó umræðurnar hafi verið einkennilegar var fréttaflutningurinn af þeim hér heima enn furðulegri. Gildir þá einu hvort um er að ræða Morgunblaðið, NFS eða Ríkisútvarpið. Helzt mátti skilja það sem svo að hér á landi væru menn óðir og uppvægir að ganga í Evrópusambandið og það eina sem stæði í vegi fyrir því að af því yrði væri að grænt ljóst fengist frá Brussel. Þetta byggðist m.ö.o. orðum allt á því hvað Olli Rehn og félagar tækju ákvörðun um að gera. Sú er þó vitaskuld langt því frá raunin.

---

Hugmyndir eru nú uppi innan Framsóknarflokksins að flýta flokksþingi hans og halda það í nóvember nk. í stað fyrri hluta næsta árs. Opinbera skýringin á þessu er 90 ára afmæli flokksins, en tillagan um þetta er komin frá formanninum, Halldóri Ásgrímssyni. Því er kannski ekki að furða að maður velti því fyrir sér hvort hann sé ekki á leið úr formannsstólnum og hafi í hyggju gefa nýjum leiðtoga svigrúm til þess að undirbúa flokkinn undir þingkosningarnar á næsta ári?

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is

 


Gullkornið á sunnudegi

How many legs does a dog have if you call the tail a leg? Four. Calling a tail a leg doesn't make it a leg.“

Abraham Lincoln


Ungir Jafnaðarmenn vs. kapítalismi

Ungir jafnaðarmenn opnuðu endurbætta vefsíðu sína í síðustu viku. Við hér á Íhald.is myndum nú alla jafna ekki sérstaklega fjalla um það en óskum þeim hins vegar til hamingju með nýja síðu og óskum þeim alls hins besta þó stjórnmálaskoðanir þær er birtast á pólitík.is séu ekki mörgum til heilla.

Þann fimmtánda þessa mánaðar birtist grein á síðunni. Titill greinarinnar var ,,Kapítalisminn og velferðarríkið” og vonaði ég að með nýju útliti síðunnar hefðu ungir jafnaðarmenn tekið upp nýja hugmyndafræði og kominn væri fram nýtt málsgagn kapítalismans. Svo var þó aldeilis ekki. Það er svo sem í lagi að ungir sósíalistar fjalli um skoðanir sínar og jafnvel hamri á okkur hægrimönnum þyki þeim þeir þurfa þess. Til þess er jú tjáningarfrelsið. Hins vegar eru nokkur atriði röng í greininni. Öðru er ég bara ósammála og ætla að mótmæla.

Kryfjum málið:

Höfundur greinarinnar byrjað hana svona:
Stærsta breytingin við fall kommúnismans var að í kjölfarið var aðeins eitt stjórnkerfi við lýði, hið kapítalíska lýðræði. Eins og sagan sýnir fylgir því yfirleitt mikil hætta þegar eitt kerfi ríkir. Sama hvert það er.

Hvaða saga er það? Hefur einhvern tímann í sögunni verið bara eitt ,,kerfi” í öllum heiminum?

Næst heldur höfundur því fram að það sé í raun komin upp það sem við ,,ný-frjálshyggjumenn” köllum einokunarstöðu hugmyndafræðilega séð. Það sé engin samkeppni milli kommúnismans og kapítalismans. Hann syrgir að það sé engin mótstaða við kapítalismann.

Þetta er heldur ekki rétt. Mótstaðan birtist á hverjum degi t.a.m. á þeirri vefsíðu sem greinin var skrifuð á, pólitík.is. Samkeppnin eða öllu heldur andstaðan birtist einnig í stefnu flokka eins og Samfylkingarinnar, ýmsum fjölmiðlum, skrifum sósíalista og fleira. Það er mjög margir sem hatast út í frelsið og kapítalismann og vilja að hið opinbera hafi afskipti af sem mestu í lífi fólks.

Og baráttan á sér ekki bara stað á hugmyndafræðilegum vettvangi. Það er margt sem betur má fara. Sósíalisminn teygir anga sína allt of langt inn í hið opinbera og skerðir frelsi hins almenna borgara. Hann einnig skerðir það viðskiptafrelsi sem kapítalisminn gerir ráð fyrir til að virkileg velferð geti átt sér stað. Baráttan á sér stað í þingsölum og á sveitastjórnarfundum. Allt of oft hefur hið opinbera sett reglur sem skerða frelsi einstaklinga eins og bent er á hér og hefur jafnan verið gert á þessu vefriti. Þetta tengist allt umræðunni um kapítalisma.

En næst snýr höfundur sér að mikilvægi jafnaðarmannaflokka. Einhvern veginn tengir hann það við hatur sitt á fyrirtækjum og almennum dugnaði. Hann vill að jafnaðarmannaflokkar séu ,,mótvægi”

Orðrétt segir höfundur:
,,...þeir verða að skilgreina þær hættur sem af honum stafa og mynda skjaldborg um þá hagsmuni sem kapítalisminn ógnar.”

Og hann endurspeglar viðhorf sósíalista:
,,Við erum að horfa upp á hið kapítalíska kerfi Vesturlanda þróast með þeim hætti að sá siðspilltasti kemst lengst. Sá sem rekur flesta, kastar umhverfissjónarmiðum fyrir róða, sá sem byggir sprengjur og framleiðir svo steinsteypu til þess að byggja húsin sem sprengjurnar eyðilögðu er sá sem mest græðir. Og á hlutabréfamarkaðnum er það eini mælikvarðinn sem ríkir.”

Bíddu við. Þarf maður að vera siðspilltur til að komast af. Eru allir sem hafa náð árangri í lífinu siðspilltir? Og hvað hlutabréfamarkaðinn varðar. Það eru þúsundir manna bara á Íslandi sem versla á hlutabréfamarkaði daglega. Eru þeir allir glæpamenn í augum sósíalistanna hjá Ungum jafnaðarmönnum? Ef skynsamur fertugur maður kaupir hlutabréf og græðir á því, er hann þá siðspilltur?

Það eru kaldar kveðjurnar sem menn fá frá íslenskum jafnaðarmönnum. Þeim sem vel hefur gengið (þá sérstaklega í viðskiptum) eru allir siðspilltir glæpamenn sem enga ábyrgð taka á neinu nema eigin veski. Rétt er þó að minna höfund á að fyrirtæki gera annað en að reka fólk og spilla umhverfinu. Hversu margir starfsmenn ætli vinni hjá Gaumi, Icelandair, Olís, Skeljungi, Össuri, Alcan og fleiri siðspilltum fyrirtækjum. Fæst fyrirtæki eru búinn að reka alla sína starfsmenn. Hafa Ungir Jafnaðarmenn einhverjar hugmyndir um hvað þeir vilja gera við allt þetta fólk? Ætla þeir að segja fólkinu að það sé að vinna fyrir siðspillta glæpamenn? Þeir gleyma því líka að þetta fólk stundar einnig siðspillta villumenningu á hlutabréfamarkaðnum.

En þetta er ekki búið!

Höfundur greinarinnar vill sjá velferðarríki þar sem öllum eru tryggð ,,grundvallarréttindi” Hann vill að ,,öllum séu tryggð grundvallarréttindi og á þeim grundvelli hefjist allir kapphlaupið.” Og áfram heldur hann og hatast út í hinn frjálsa markað, ,,þessi hugmynd, [...]gengur út á það að samfélag sé í raun ekki til og þess í stað séu bara einstaklingar sem berjast innbyrðis. Að eins og dýrin í dýraríki þá lifi sumir og aðrir deyi, og það sé náttúrulegt að þeir sem sterkastir séu vinni - hinir deyi.”

Getur höfundur bent mér á einhver ,,grundvallarréttindi” sem íslenskir ríkisborgarar eiga ekki rétt á eða aðgang að?

Það er ekki rétt að samfélag sé ekki til. Og það er heldur ekki rétt að einstaklingar þurfi að berjast innbyrðis eins og dýr í dýraríki. Ekki veit ég hvernig þetta er á samkomum Ungra Jafnaðarmanna en fólk getur alveg lifað sómasamlegu lífi án þess að haga sér eins og dýr. Lífið er ekki kapphlaup sem einhver þarf að vinna. Það þarf í raun engin barátta að eiga sér stað. Hins vegar eru dugnaður, skynsemi og frelsi orð sem Ungir Jafnaðarmenn ættu að kynna sér. Þó að einhver nái árangri í lífinu er sá hinn sami ekki endilega að brjóta á einhverjum öðrum, hvað þá að berjast við hann eða stela frá honum. Markaðurinn er ekki lokaður hringir sem deilist jafn niður á alla. Hann getur endalaust stækkað.

Og þá kemur það besta.

Höfundur skrifar:
,,Það er ekki einfalt að standa af sér endalausan áróður stórfyrirtækja, fjölmiðla [...], hagfræðinganna sem eru búnir að skilgreina fyrir okkur heim sem aðeins gengur út á krónur og aura. En að standast þennan áróður er akkúrat það sem nútíma jafnaðarmannaflokkur verður að gera til þess að geta staðið undir nafni.”

Hvaða áróður? Væri ekki í lagi að nefna það.

Og áfram... ,,Stór skref í þessa átt var stigið í Samfylkingunni með Framtíðarhópunum. Þar fór fram umræða um stefnur framtíðarinnar fyrir jafnaðarmannaflokk framtíðarinnar. Og þrátt fyrir tilraunir fjölmiðla, pólitískra andstæðinga, sumra innanflokksmanna og annarra sem hagsmuna hafa að gæta að þessar umræður verði aldrei að stefnu Samfylkingarinnar, þá er þetta einhver merkilegasta gjörð íslensks stjórnmálaflokks fyrr og síðar.”

Í fyrsta lagi og aftur, skref gegn hvaða áróðri? Það er reyndar týpiskt fyrir Samfylkinguna að ,,hefja umræðu gegn einhverju” sem enginn veit hvað er. Og í öðru lagi, er það ,,merkilegasta gjörð íslensk stjórnmálaflokks fyrr og síðar” að stofna umræðu eða stefnuhóp (sem litlu sem engu hefur skilað). Gott og vel. The beauty is in the eye of the beholder.

Og hér kemur það allra besta...
,,En þetta var hugmyndin sem Samfylkingin kom fram með undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Ein valdamesta manneskja á landinu kom fram með hugmynd sem í raun snérist um að minnka völd hennar!”

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var varaþingmaður þegar ,,Framtíðarhópurinn” var settur á laggirnar þannig að hún var ekki ,,ein valdamesta manneskja á landinu.”
En í sama samhengi má minnast á það að enginn stjórnmálamaður hefur unnið að því að ,,minnka völdin sín” eins og Davíð Oddsson. Og í hvert skipti sem völdin hafa átt að minnka hafa vinstri menn beitt sér gegn því.

En af hverju er ég að velta mér upp úr skrifum þessa ágæta unga manns. Jú, ég lít svo á að það sem fram kemur á www.politik.is endurspegli sjónarmið Ungra Jafnaðarmanna og að skrif þessi séu lýsandi fyrir sjónarmið þeirra. Hatur á markaðnum, fyrirtækjum, velgengni, dugnaði og frelsi einstaklingsins.

En allavega, góða helgi...

Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr@simnet.is


Bannað að efast um þróunarkenninguna

Félagslegur rétttrúnaður lætur víða á sér kræla líkt og annar sósíalismi. Það eru ófáar skoðanir sem við megum ekki hafa og tjá í friði fyrir varðmönnum hans. Þrátt fyrir að hér eigi að heita lýðræðisþjóðfélag. Eitt af því sem má ekki er að efast um þróunarkenningu Darwins. Í marga áratugi hefur henni verið haldið að fólki á öllum aldri á Vesturlöndum – þá ekki sízt börnum í gegnum skólakerfi viðkomandi ríkja – eins og ekkert annað gæti komið til greina. Engu að síður er staðreyndin sú að þróunarkenningin er einmitt það – kenning. Hún hefur nefnilega alls ekki verið sönnuð með óyggjandi hætti. Raunar langt frá því.

En hvað sem því líður þá er ekki tilgangurinn með þessari grein að fjalla um það hvort þróunarkenning Darwins sé á rökum reist eða ekki heldur þann félagslega rétttrúnað sem hefur smám saman slegið um hana skjaldborg þannig að í dag má enginn á Vesturlöndum efast um gildi hennar án þess að vera sakaður hreinlega um heimsku og/eða trúaröfga vilji svo til að viðkomandi játi kristna trú.

Þessi félagslegi rétttrúnaður hefur einna bezt opinberað sig í tengslum við umræður á undanförnum árum um það sem kallað hefur verið upp á enska tungu “intelligent design theory” og þýtt hefur verið á íslenzku á ýmsa vegu, s.s. vitshönnunarkenning eða vitræn hönnun. Kenningin gengur í stuttu máli út á það að heimurinn sé í raun alltof flókinn til þess að hann hafi getað orðið til fyrir einhverja tilviljanakennda þróun eins og þróunarkenningin heldur fram. Það hljóti eitthvað fleira að hafa komið til.

En þessu má ekki halda fram. Það má ekki efast um þróunarkenninguna frekar en að það mátti efast á sínum tíma um að heimurinn væri flatur eins og pönnukaka. Þróunarkenningarsinnar eru m.ö.o. orðum komnir í hlutverk kaþólsku kirkjunnar á sínum tíma og verja nú með kjafti og klóm þá hugmyndafræði sem þeim var innprentuð í æsku sem hið eina rétta. Ófáir varðmenn þróunarkenningarinnar eru sömuleiðis fræðimenn sem hafa margir byggt margra ára rannsóknir, og jafnvel ævistarf sitt, á kenningu Darwins og mega ekki til þess hugsa að einokunarstöðu hennar sé ógnað.

En hvað finnst almenningi? Fyrr á þessu ári var birt skoðanakönnun í Bretlandi, heimalandi Darwins, sem sýndi að 22% aðspurðra trúa sköpunarsögunni, þ.e. að Guð hafi skapað heiminn eins og greint er frá í Biblíunni, 17% sögðust trúa “intelligent design” kenningunni og 48% sögðust höll undir þróunarkenninguna. Afgangurinn, 12%, sagðist ekki vera viss. Þetta þýðir m.ö.o. að meirihluti Breta trúir ekki þróunarkenningunni sem kemur auðvitað verulega á óvart í ljósi áðurnefndrar einokunarstöðu, þá ekki sízt í skólakerfum vestrænna ríkja.

Þegar spurt var í sömu könnun hverja af þessum kenningum ætti að kenna í raunvísindum í brezkum skólum, þegar fjallað væri um það hvernig heimurinn hafi orðið til, nefndu 69% aðspurðra þróunarkenninguna, 41% “intelligent design” kenninguna og 44% sköpunarsöguna.

Allt aðrar tölur er síðan um að ræða ef litið er til Bandaríkjanna. Skoðanakönnun, sem gerð var þar í landi í október á síðasta ári, sýndi að einungis 15% Bandaríkjamanna trúa á þróunarkenningu Darwins. Þ.e. að maðurinn hafi orðið til og þróast án þess að Guð kæmi þar nærri. Meirihluti aðspurðra, eða 51%, sagðist hins vegar trúa sköpunarsögunni, þ.e. að Guð hafi skapað manninn í núverandi mynd. Þrír af hverjum tíu sögðust síðan trúa því að maðurinn hefði þróast en undir stjórn Guðs. Þessar niðurstöður eru í samræmi við fyrri kannanir.

Hvað sem fólki annars kann að finnast um þessi mál þá er lykilatriðið það að fólk á að hafa frelsi til að hafa sína skoðun á þeim hvað sem varðmönnum félagslegs rétttrúnaðar kann að finnast um það. Og sama á við um önnur mál þar sem aðeins má hafa ákveðnar skoðanir og aðrar ekki að mati þessara aðila. Mál eins og innflytjendamál og málefni samkynhneigðra svo dæmi séu tekin.

Í lýðræðisríkjum ber að ræða málin opinberlega á málefnalegan og fordómalausan hátt en ekki þannig að ákveðnum aðilum umræðunnar sé hreinlega bannað að hafa þær skoðanir sem þeir sjálfir kjósa af einhverjum sjálfskipuðum skoðanalöggum sem enga samleið eiga með neinu sem kallast getur lýðræði.

---

Hún er annars nokkuð merkileg auglýsing Ungra jafnaðarmanna um Fjölskyldu- og húsdýragarðinn sem sýnd er í sjónvarpi þessa dagana, en þar er gert að því skóna að R-listinn hafi byggt upp garðinn. Skoðum þetta aðeins nánar.

Eins og segir á heimasíðu garðsins var ákvörðun um byggingu hans tekin af borgarráði Reykjavíkur þann 22. apríl 1986 og hann var síðan opnaður 19. maí 1990 af Davíð Oddssyni, þáverandi borgarstjóra. Fyrsta skóflustungan að Fjölskyldu- og húsdýragarðinum var síðan tekin af Markúsi Erni Antonssyni, sem tók við af Davíð á borgarstjóratóli, 24. ágúst 1991 og loks var hann opnaður 24. júní 1993.

R-listinn komst hins vegar ekki til valda í Reykjavík fyrr en 1994. Það er því ekki hægt að skilja þetta öðruvísi en svo að það sé slík leitun að einhverju sem vinstrimenn hafa gert af viti í valdatíð R-listans í Reykjavík að þeir þurfa að eigna sér verk annarra.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is


Mánudagspósturinn 15. maí 2006

Ófáir talsmenn þess að Ísland gangi í Evrópusambandið hafa verið iðnir við það að kalla eftir virkri umræðu um Evrópumálin eins og það hefur verið nefnt. Þetta á ekki sízt við um forystu Samtaka iðnaðarins og þá einkum og sér í lagi í kjölfar vitrunar Halldórs Ásgrímssonar, forsætisráðherra, fyrr á þessu ári um að Ísland yrði orðið að hreppi í Evrópusambandinu fyrir árið 2015. Vitanlega er hið bezta mál að kallað sé eftir virkri umræðu um Evrópumálin þar sem þau væru væntanlega rædd á breiðum grundvelli og skoðuð út frá sem allra flestum hliðum svo komast megi að skynsamlegri niðurstöðu. Það hefur þó sýnt sig í gegnum tíðina að þegar stuðningsmenn aðildar að Evrópusambandinu hér á landi hafa kallað eftir umræðum um málaflokkinn hafa þeir átt við umræður sem snúist um það að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið - ekki hvort.

Þegar Samtök iðnaðarins kölluðu eftir auknum umræðum um Evrópumálin í byrjun þessa árs vonaðist ég til þess að nú yrði breyting á og í þetta skiptið væri átt við raunverulegar umræður þar sem fjallað yrði um málið á breiðum grunni. Samtökin sögðust ekki ætla að láta sitja við orðin tóm í þeim efnum og hafa þau haldið tvær samkundur á árinu þar sem Evrópumálin hafa verið rædd; Iðnþing 2006 og síðan svonefndan ráðgjafaráðsfund 11. maí sl. Á báðum þessum samkundum voru nær allir þeir, sem annað hvort fluttu erindi eða tóku þátt í pallborðsumræðum, talsmenn þess að Ísland gangi í Evrópusambandið og taki upp evruna.

Ber s.s. að skilja það sem svo að þetta sé hugmynd Samtaka iðnaðarins um virka umræðu? Nær væri jú að kalla þetta einræðu í samræmi við það sem komið var inn á hér á undan. Að sjálfsögðu ráða samtökin því alfarið hvernig þau skipuleggja sína fundi, en það er auðvitað spurning hversu mikil umræða á sér stað þegar raðað er saman fólki sem hefur svo að segja nákvæmlega sömu afstöðu til viðfangsefnisins. Einkum er þetta athyglisvert í ljósi þess að Samtök iðnaðarins segjast ekki hafa pólitíska afstöðu til Evrópumálanna heldur séu þau aðeins að hugsa um hagsmuni meðlima sinna. Er það ekki einmitt meðlimum samtakanna mest í hag að þau nálgist þessi mál með sem breiðastri skírskotun? Sérstaklega þegar skoðanakannanir samtakanna hafa ítrekað sýnt að stór hluti meðlima þeirra er andvígur aðild að Evrópusambandinu?

Til samanburðar við fundahöld Samtaka iðnaðarins má nefna að þann 8. apríl sl. hélt Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, opinn fund um evruna og krónuna þar sem þess var sérstaklega gætt að ólíkum sjónarmiðum væri gert nokkurn veginn jafn hátt undir höfði sem tókst mjög vel. Og það sem meira er þá var einmitt fulltrúi Samtaka iðnaðarins annar af tveimur framsögumönnum fundarins. Enginn fulltrúi þeirra sjónarmiða, að hagsmunum Íslands sé bezt borgið með því að standa utan Evrópusambandsins, flutti hins vegar erindi eða tók þátt í pallborðsumræðum á samkundum Samtaka iðnaðarins sem þó segjast styðja virka umræðu um Evrópumálin.

Það er því orðið meira en ljóst hvað íslenzkir Evrópusambandssinnar eiga við þegar þeir tala um umræður um Evrópumál.

---

Og áfram um Evrópumálin. Einhvern veginn held ég að Halldór Ásgrímsson ætti að líta aðeins í eigin barm áður en hann skammar aðra fyrir að taka undir órökstudda gagnrýni ýmissra erlendra aðila á íslenska fjármálakerfið. Ítrekaðar yfirlýsingar hans þess efnis, og þá ekki sízt við erlenda aðila, að hugsanlega kunni að koma til álita að taka upp evru hér á landi (sem er þess utan í bezta falli langsótt) vegna stöðunnar í efnahagsmálum þjóðarinnar í augnablikinu, eru ekki beint til þess fallnar að auka tiltrú fólks á það erlendis.

---

Það er alltaf jafn sérkennilegt að heyra talsmenn aðildar að Evrópusambandinu tala um að við verðum að ganga í sambandið til að geta tekið þátt í alþjóðavæðingunni og að sama skapi að ef göngum ekki þar inn jafngildi það einangrun. Við erum auðvitað alveg ægilega einangruð eins og staðan er í dag! Þetta er enn fyndnara í ljósi þeirrar staðreyndar að Evrópusambandið er tollabandalag og sem slíkt einn stærsti þröskuldurinn í vegi fyrir viðskiptafrelsi í heiminum. Það er merkilegt til þess að hugsa að til séu hægrimenn sem vilja ganga í sambandið vegna þess að þeir halda að það sé svo hægrisinnað fyrirbæri. Það útskýra þeir með því að innan sambandsins sé fríverzlun til staðar á milli aðildarríkjanna.

Jújú, það er alveg rétt. En ástæðan fyrir því hefur í raun ekkert með hægrimennsku að gera. Eins og kunnugt er er stefnt að því leynt og ljóst að breyta Evrópusambandinu í eitt ríki þar sem aðildarríkin verða að eins konar fylkjum eða héröðum. Sennilega er fátt eðlilegra en að frelsi sé í viðskiptum á milli einstakra hluta ríkja og þannig hefur fríverzlunin innan sambandsins, eins og áður segir, ekkert með einhverja hægrimennsku að gera. Ég veit t.d. ekki til þess að íslenzkir vinstrimenn séu að tala fyrir því að teknir verði upp tollar á viðskipti á milli einstakra sveitarfélaga hér á landi.

---

Og að lokum, talandi um alþjóðavæðinguna. Nú síðast var greint frá því á Mbl.is að Ísland sé í fyrsta sæti í samanburði á 29 aðildarríkjum Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD) þegar litið er til þess hversu reiðubúin löndin eru fyrir alþjóðavæðingu og vaxandi alþjóðlega samkeppni. Um daginn var sömuleiðis greint frá því að Ísland væri samkeppnishæfasta hagkerfið í Evrópu og það fjórða samkeppnishæfasta í heiminum að mati IMD viðskiptaháskólans í Sviss.

Mér sýnist við því bara vera í nokkuð góðum málum utan Evrópusambandsins í þessum efnum, en auk þess að halda því fram að Ísland þurfi að ganga í Evrópusambandið, til að geta tekið þátt í alþjóðavæðingunni, hafa Evrópusambandssinnar hér á landi viljað meina að ef Ísland gengi í sambandið og tæki upp evruna myndi það auka samkeppnishæfni landsins. Já, kannski eins og þeirra ríkja sem eru þegar innan sambandsins og með evruna en engu að síður neðar en Ísland á lista IMD og í ófáum tilfellum langt fyrir neðan?

Í þessu sambandi mætti rifja upp ummæli Brian Prime, forseta Evrópusamtaka smáfyrirtækja, frá því í heimsókn hans til Íslands í febrúar sl. Aðspurður að því hvort Íslendingar ættu að ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna sagði hann það algeran óþarfa. Það væri svipað og að senda íslenskan skíðagöngumann á vetrarólympíuleika með sandpoka á bakinu.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is


Gullkornið á sunnudegi

„I don’t know the key to success, but the key to failure is trying to please everybody.“

Bill Cosby


Næsta síða »

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband