Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2006

Samfylkingin = Háir skattar

Grein dagsins í dag er stutt. Oft þarf ekki að segja mikið til þess að fólk fari að hugsa sig um.

Í fyrrakvöld sátu nokkrir frambjóðendur flokkana í Reykjavík fyrir svörum í Íslandi í dag á NFS. Loksins spurðu fréttamenn um eitthvað annað en hraðbrautir og flugvöll.

Við skulum taka eina spurningu og svarið við henni með okkur inn í helgina.

Helgi Seljan, fréttamaður NFS, spyr um fjármál borgarinnar, ,,Við erum með Reykjavík sem er langstærsti þéttbýlisstaður landsins, það ætti að vera hægt að reka þessa einingu samkvæmt öllu. Samt er útvarið í botni hér og fasteignagjöldin frekar há líka.”

Oddný Sturludóttir, frambjóðandi sósíalistaflokksins sem kallar sig Samfylkingin, svaraði fljótt:

,,Útsvarið er í botni en við skömmumst okkar ekkert fyrir það því þjónustan er svo frábær.”

Þetta segir allt sem segja þarf um sósíalismann. Þetta er stefna Samfylkingarinnar í heild sinni.
Skattahækkanir og aftur skattahækkanir.

Góða helgi.

Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr@simnet.is


Velferð fólks meiri í Bandaríkjunum en í Evrópusambandinu

Hver kannast ekki við fullyrðingar ófárra á vinstrivæng stjórnmálanna, bæði hér heima og erlendis, að í kapitalísku markaðshagkerfi Bandaríkjanna þrífist meiri eymd en annars staðar í hinum vestræna heimi? Á sama tíma er hið sósíalíska barnfóstrusamfélag, sem víðast hvar er til staðar í einni eða annarri mynd í Vestur-Evrópu, lofsungið sem það fyrirkomulag sem leiði til mestra allsnægta og hámarks velferðar fyrir almenning. En er þetta raunverulega svo? Lítum aðeins nánar á málið.

Sumarið 2004 sendi sænska rannsóknarstofnunin Timbro frá sér ítarlega skýrslu sem unnin hafði verið fyrir hana af tveimur virtum sænskum hagfræðingum, dr. Fredrik Bergström og Robert Gidehag. Í skýrslunni, sem ber heitið „The EU vs. USA“, er efnahagur Evrópusambandsins borinn saman við stöðu efnahagsmála í Bandaríkjunum og kemur m.a. fram í niðurstöðum hennar að flest aðildarríki Evrópusambandsins séu fyrir neðan það sem telst til meðal lífsgæða í ríkjum Bandaríkjanna. Flestir Bandaríkjamenn njóti fyrir vikið lífsgæða sem meirihluti íbúa Evrópusambandsins muni aldrei komast í tæri við og ef sambandið væri hluti af Bandaríkjunum myndi það tilheyra fátækasta hluta þeirra.

Þannig má nefna að hlutfall Bandaríkjamanna, sem teljast undir fátæktarmörkum, var 12% árið 2004 miðað við 22% árið 1959. Árið 1999 töldust 25% bandarískra heimila hafa „lágar tekjur“ sem þýðir að þau höfðu minni heildartekjur en 25 þúsund Bandaríkjadali á ári. Ef Svíþjóð – sem gjarnan hefur verið talið hið dæmigerða evrópska velferðarríki – væri metið samkvæmt sama mælikvarða yrði niðurstaðan sú að 40% sænskra heimila teldust hafa lágar tekjur. M.ö.o. er hugtakið “fátækt” einfaldlega afstætt.

Í Bandaríkjunum eiga rúmlega 45% “fátækra” eigið heimili, um 73% þeirra eiga einkabíl og 77% búa við loftræstingu á heimilum sínum sem telst til munaðar víðast hvar í Vestur-Evrópu. Meðal íbúðastærð “fátækra” Bandaríkjamanna eru rúmlega 110 m2 á meðan meðal íbúastærð íbúa Evrópusambandsins almennt er um 93 m2. Skýrslan er þannig fyrir margt mjög áhugaverð og sýnir hvað ófáir Evrópumenn hafa miklar ranghugmyndir um bandarískt samfélag - að þessu leyti a.m.k. - hver sem ástæðan fyrir því annars er. Því má auk þess bæta við að samkvæmt UNICEF voru 3 milljónir manna heimilislausar í Evrópusambandinu árið 1998 á sama tíma og það átti við um aðeins 750 þúsund Bandaríkjamenn. Þrátt fyrir það bjuggu þá mun fleiri í Bandaríkjunum en í aðildarríkjum Evrópusambandsins.

Efnahagslíf Evrópusambandsins er einfaldlega langt á eftir efnahagslífi Bandaríkjanna eins og fleiri hafa reyndar gert sér grein fyrir, s.s. Eurochambres, hagsmunasamtök smáfyrirtækja í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Samkvæmt rannsókn sem unnin var fyrir samtökin, og greint var frá á síðasta ári, er sambandið heilum 20 árum á eftir Bandaríkjunum í efnahagsmálum. Rétt er að geta þess að bæði í þessari rannsókn og í þeirri sænsku hér á undan er aðeins miðað við þau 15 aðildarríki Evrópusambandsins sem voru aðilar að sambandinu fyrir stækkun þess til austurs árið 2004 og þ.a.l. eru hin nýju aðildarríki í Austur-Evrópu, sem mörg hver eru tiltölulega fátæk á vestrænan mælikvarða, ekki tekin inn í myndina.

En hvað veldur þessum mun að mati skýrsluhöfundanna? Jú, eina skýringin að þeirra sögn eru þær miklu hömlur sem hin evrópsku velferðarríki setja flest hver á efnahagslíf sín, bæði fyrirtæki og einstaklinga og þá einkum og sér í lagi í formi hárra skatta og mikils reglugerðafargans, sem draga úr hagvexti, auka atvinnuleysi og minnka almennt séð lífgæði fólks. Það er því kannski ekki að furða að gert sé ráð fyrir því að hlutur Evrópusambandsins í heimsviðskiptunum muni dragast stórlega saman á næstu áratugum á meðan Bandaríkin muni halda sínu.

Glæpatíðni í Bandaríkjunum
Þessu tengt mætti síðan koma inn á aðra goðsögn sem margir Evrópumenn hafa um Bandaríkin, þ.e. að hvergi sé hærri glæpatíðni en einmitt þar. Niðurstöður brezkrar rannsóknar frá árinu 2003 sýndu að flestar tegundir glæpa eru algengari í Evrópu en í Bandaríkjunum. Þannig kom t.d. í ljós að innbrot væru þrisvar sinnum algengari í Danmörku en í Bandaríkjunum miðað við höfðatölu, rán 66% algengari í Frakklandi og líkurnar á að verða fyrir árás meiri í Bretlandi en í Bandaríkjunum.

Í skýrslunni kom ennfremur fram að á meðan skráðum afbrotum fækkaði um 10% í Bandaríkjunum á árunum 1997 til 2001 fjölgaði þeim í aðildarríkjum Evrópusambandsins um 4%. Fram kom í fjölmiðlum að bandarískir sérfræðingar teldu engann vafa á því að þyngri fangelsisdómar og bætt löggæzla árin á undan hefðu leitt til þess að glæpum fækkaði í Bandaríkjunum.

Að lokum vil ég vekja athygli á að Sindri Guðjónsson hefur áður fjallað um þessi mál í grein hér á Íhald.is og má nálgast hana hér.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is


Mánudagspósturinn 8. maí 2006

„Hinn sameiginlegi gjaldmiðill felur í sér mesta afsal á fullveldi frá því að Efnahagsbandalagið var sett á laggirnar. Um er að ræða ákvörðun sem er fyrst og fremst pólitísks eðlis. Við þörfnumst þessarar sameiginlegu Evrópu. Við megum aldrei gleyma því að evran er verkfæri í þágu þess verkefnis.“ Þessi ummæli lét Felipe Gonzales, fyrrv. forsætisráðherra Spánar, falla í maímánuði árið 1998 og mælti þar með á sömu nótum og ófáir forystumenn innan Evrópusambandsins hafa gert á undanförnum árum.

Tilkoma evrunnar var fyrst og fremst hugsuð sem stórt samrunaskref innan Evrópusambandsins. Tilgangurinn var öðru fremur pólitískur en ekki efnahagslegur, þ.e. að knýja enn frekar á pólitískan samruna innan Evrópusambandsins. Fyrir vikið kemur sennilega fáum á óvart að virtir hagfræðingar hafi á undanförnum árum í síauknum mæli lýst miklum efasemdum um að evrusvæðið eigi framtíð fyrir sér, svæði sem samanstendur af hagkerfum sem eru mörg hver afar ólík í grundvallaratriðum.

Fyrir fáeinum dögum lýsti Paul de Grauwe, hagfræðiprófessor við Kaþólska háskólann í Leuven í Belgíu, þeirri skoðun sinni við AP-fréttastofuna að evrusvæðið muni líða undir lok innan 10 til 20 ára ef ekki komi til aukinn samruni innan Evrópusambandsins. Þetta mat byggir hann á ítarlegri rannsókn sinni. De Grauwe, sem sjálfur er mikill evrusinni, benti á að ekkert myntbandalag í sögunni hefur lifað af án pólitísks samruna (þ.e. einnar ríkisheildar).

Í grein í franska dagblaðinu Les Echos í marz sl. varaði Bradford Delong, prófessor í hagfræði við Berkeley-háskóla í Kaliforníu, við því að evran væri sífellt að stuðla að meiri vandamálum í efnahagslífi evruríkjanna og ef ekki kæmi til nauðsynlegra umbóta gæti evrusvæðið hreinlega hrunið.

Þann 26. janúar sl. lýsti Frits Bolkestein, fyrrverandi yfirmaður innri markaðsmála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, efasemdum sínum um að evran ætti framtíð fyrir sér til lengri tíma litið. Þetta kom fram í ræðu sem hann hélt á fundi í London með hollenskum fyrirtækjastjórnendum. Sagðist hann telja að evran myndi standa frammi fyrir mikilli prófraun eftir um áratug þegar líklegt væri að ýmis aðildarríki Evrópusambandsins stæðu frammi fyrir því að þurfa að standa undir langtum meiri lífeyrisskuldbindingum en til þessa vegna hækkandi meðalaldurs íbúa þeirra.

HSBC bankinn í London, sá annar stærsti í heiminum, gaf út í ítarlega skýrslu í júlí á síðasta ári þar sem kemur fram að reynslan af evrusvæðinu sé svo slæm að það gæti verið sumum af aðildarríkjum þess í hag að yfirgefa það og taka upp sína fyrri sjálfstæðu gjaldmiðla á ný. Það sem einkum veldur þessu að mati bankans er miðstýring Seðlabanka Evrópusambandsins á stýrivöxtum innan evrusvæðisins sem henti engan veginn öllum aðildarríkjum þess. Þetta hafi leitt af sér ýmsar neikvæðar afleiðingar fyrir ríkin og gert þeim erfitt fyrir að hafa eðlilega stjórn á hagkerfum sínum.

Í apríl á síðasta ári kom út skýrsla frá bandaríska fjárfestingabankanum Morgan Stanley þar sem sagði m.a. að evran stæði frammi fyrir „banvænni“ þróun sem gæti haft í för með sér endalok evrusvæðisins. Fjármálamarkaðir væru í auknum mæli farnir að hafa áhyggjur af t.a.m. vaxandi verndarhyggju í Þýzkalandi, brestum í fjármálastjórn Evrópusambandsins (þá einkum vegna þess hve erfiðlega hefur gengið að fá Frakka og Þjóðverja til að standa við stöðugleikasáttmála evrusvæðisins) og áhrifa stækkunar evrusvæðisins til austurs sem þýði að enn ólíkari hagkerfi muni verða þar innanborðs.

Að síðustu mætti nefna að í viðtali við fréttavefinn Euobserver í maí 2004 lýsti bandaríski hagfræðingurinn og Nóbelsverðlaunahafinn Milton Friedman þeirri skoðun sinni að sterkar líkur séu á því að evrusvæðið kunni að hrynja innan fárra ára. Sagðist hann fyrst og fremst hafa áhyggjur af þeim erfiðleikum sem það hefði í för með sér að viðhalda myntbandalagi á milli ríkja með jafn ólík efnahagskerfi, menningu og tungumál og á við um evrusvæðið. Sagðist hann ennfremur telja að vandamál af þessum toga muni aukast við það að ný aðildarríki Evrópusambandsins taki upp evruna. Lagði Friedman til að fyrri gjaldmiðlar evruríkjanna yrðu teknir upp aftur.

Það er því kannski ekki að furða að margir hafi efasemdir um evruna. Fyrir utan allt annað er einkennilegt í ljósi slíkra framtíðarspáa að sumir skuli leggja það til að tekin verði upp evra hér á landi í stað íslenzku krónunnar. Ef Ísland gengur í Evrópusambandið og tekur upp evruna verður ekki aftur snúið. Eins og staðan er í dag er einfaldlega ekki gert ráð fyrir því að ríki segi skilið við sambandið. Þvert á móti er gert ráð fyrir því að þau ríki, sem einu sinni gangi í það, verði þar um aldur og ævi.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is

 


Gullkornið á sunnudegi

„There are many qualities that make a great leader. But having strong beliefs, being able to stick with them through popular and unpopular times, is the most important characteristic of a great leader.“

Rudolph Giuliani

 


Fjölmiðlalög

Þarf sérstök lög um fjölmiðla framar en önnur fyrirtæki? Til hvers? Hér er til umræðu hvort eigendur fjölmiðla eigi að ráða ritstjórnarstefnu miðla sinna. Hægt er að finna bæði rök með og á móti því að eigendur fjölmiðlanna ritstýri þeim sjálfir.

Það er auðveldara að byrja á því að vera á móti. Það virðist vera pólitísk rétthugsun að halda það að fjölmiðlar geti ritstýrt sér sjálfir burtséð frá því hverjir eigendurnir eru. Meira að segja eru til stjórnmálamenn sem hafa lagt það til í umræðunni að hér beri að setja lög sem tryggja eigi sjálfstæði ritstjórnar miðlanna. [1] Til að byrja með verðum við þó að líta frá því hvernig við teljum að íslenskir fjölmiðlar hagi sér í nútímanum.

Fyrir nokkrum mánuðum lét Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar eftirfarandi orð falla um Morgunblaðið,

,,Enginn annar fjölmiðill á Íslandi hefur jafn afgerandi stefnu og Morgunblaðið og beitir sér með jafn grímulausum hætti gegn einum tilteknum stjórnmálaflokki. ... Enginn fjölmiðill er því jafn hræsnisfullur og Morgunblaðið er í skrifum sínum um samtvinnun fjölmiðlavalds og samfélagsvalds.” [2]

Ef fjölmiðlar eiga að vera skilgreindir sem fjórða valdið er varla ætlast il þess að þeir séu hlutdrægir. Fjölmiðlar eru að marga mati fulltrúar almennings gagnvart stjórnvöldum og halda uppi aðhaldi og gagnrýni á stjórnvöld. Það er hin pólitíska rétthugsun sem áður var minnst á.

Þegar fjölmiðlar taka afstöðu í málum eru þeir oftar en ekki sakaðir um að brjóta hlutleysi sitt. Nú er það reyndar misjafnt hversu hlutlausir fjölmiðlarnir segjast vera. Morgunblaðið til að mynda hefur aldrei sagt að það sé óháð (sem virðist vera tískuorð án merkingar) á meðan Blaðið segir á forsíðu sinni hvern einasta dag að það sé óháð. Slagorð DV var til ársins 2003, Frjálst og óháð dagblað.

En þá er það spurningin, óháð hverju eða hverjum? Óháð stjórnmálaflokkum? Óháð sérhagsmunahópum? Óháð eigendum? Því er erfitt að svara og jafnvel hægt að segja að enginn fjölmiðill sé óháður neinum. Fjölmiðill er alltaf háður einhverjum, þó ekki sé nema eigin starfsfólki. Flestir starfsmenn íslenskra fjölmiðla segjast vera hlutlausir. [3]

Önnur rök sem mæla á móti því að eigendur ritstýri fjölmiðlum sínum eru ef fjölmiðlar eiga að vera fulltrúi almennings (fjórða valdið) þá gengur það ekki upp að eigendurnir einir hafi mikil eða öll áhrif á ritstjórnarstefnu miðilsins. Af hverju? Jú, ef fjölmiðlar ætla að gæta hagsmuna almennings þá er ekki eðlilegt að eigendurnir (ritstjórnar-stefnan) séu hlutdrægir með eða á móti stjórnvöldum. Hvernig getur fámenn ritstjórn vitað hvað almenningi er fyrir bestu? Það er ekki hægt að ætlast til þess að þingheimur viti alltaf hvað almenningi er fyrir bestu og hvað þá að ennþá fámennari hópur sem kallar sig ritstjórn fjölmiðils geri það.

Þannig að ef að fólk vill líta þannig á að fjölmiðlar séu fjórða valdið og beri að gæta hagsmuna almennings þá er ekki rétt að ritstjórnarstefnan sé mótuð af eigendunum. Stjórnmálamenn þurfa að mynda heildarstefnu í þessum málum (eða láta það eiga sig að gagnrýna fjölmiðla) en ekki láta einstaka mál eða fjölmiðil fara í taugarnar á sér og saka þá um hlutdrægni.

Umræða á meðal stjórnmálamanna um hlutdrægni eða hlutleysi fjölmiðla mun aðeins ganga í hringi því að ef hægt er að benda á einn fjölmiðill sem er með stjórnvöldum er hægt að benda annan sem er á móti. Slík umræða mun aðeins leiða af sér skoðanaskipti líðandi stundar en ekki almenna hugmyndafræði um hlutverk fjölmiðla. Það er lítill tilgangur í því að hægri menn skammist út í Fréttablaðið og vinstri menn út í Morgunblaðið. Slík umræða hefur engan endi og enga niðurstöðu.

Með ásökun Ingibjargar Sólrúnar á Morgunblaðið hefur hún opnað fyrir umræðuna um alla aðra fjölmiðla. Er hún með ásökun sinni að segja að allir aðrir fjölmiðlar en Morgunblaðið séu að sinna starfi sínu af hlutleysi og sanngirni (sem ekki þarf að vera það sama) og Morgunblaðið sé eitt um að vera hlutdrægt með eða á móti stjórnvöldum? [4]

Ef að ræða á hlutverk eigenda gagnvart ritsjórnastefnu fjölmiðla þarf að fara út fyrir hinu daglega þrasi um hver styður hvern og hver sé á móti hverjum. Taka þarf upp umræðu um hvort að það sé rétt eða rangt að eigendur ritstýri fjölmiðlum sínum út frá hugmyndafræði en ekki því sem stóð á forsíðu blaðanna eða var fyrsta frétt ljósvakamiðlanna í dag og í gær. [5]

Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr@simnet.is


[1] Bæði núverandi og fyrrverandi formenn Samfylkingarinnar hafa talað um mikilvægi þess að tryggja beri sjálfstæði ritstjórna. Slíkt frumvarp hefur ekki verið lagt fyrir á Alþingi mér að vitandi en þau hafa bæði lýst þessu yfir í fjölmiðlum. Aldrei hefur þó fylgt á því útskýring hvernig þessu skuli vera háttað.

[2] Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar 12. nóv. 2005 http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1168415

[3] Morgunblaðið hefur heldur ekki sagt að það sé háð neinum. Það hefur einfaldlega aldei gefið út opinbera yfirlýsingu á hlutleysi eða hlutdrægni sinni enda er engin krafa um slíka yfirlýsingu.

[4] Rétt er að taka fram að ég er ósammála þessari túlkun Ingibjargar Sólrúnar. Morgunblaðið hefur margoft gagnrýnt Sjálfstæðisflokkinn. Sjálfur skrifaði ég grein sem birtist í MBL þann 16.júlí s.l. ,,Hugsjónir eða lýðskrum” þar sem ég gagnrýndi leiðara Morgunblaðsins eftir að ristjóri þess hafði skrifað gegn Sjálfstæðisflokknum. Greinin birtist einnig á sus.is: http://www.sus.is/greinar/nr/856

[5] Það sem ég á við með þessari fullyrðingu er að stjórnmálamenn geta ekki látið einstaka fjölmiðla fara í taugarnar á sér og í framhaldi af því tekið upp slíka umræðu. Þeir þurfa og eiga að sýna fótfestu og stillingu þegar slík mál eru rædd.


Fjölmiðlar 2005

Ég hvet alla til að kaupa bókin Fjölmiðlar 2005 eftir Ólaf Teit Guðnason. Bókina má nálgast í bóksölu Andríkis og umfjöllun um hana má finna hér.

Gísli Freyr


'O' Allah, make America stronger!

Það er orðið hálf leiðinlegt að horfa upp á áróðursstríð fjölmiðla gegn aðgerðum bandamanna í Írak. Það virðist nóg að hurfla sig í átökum á svæðinu til að það rati í heimsfréttirnar. Daglega segja fjölmiðlar okkur eitthvað nýtt og neikvætt.

Það er greinilegt að það skortir verulega upp á viljann til að flytja jákvæðar fréttir í bland við þær neikvæðu. Af nógu er að taka. Ég get nefnt dæmi.

Það er t.d. ánægjulegt, og til marks um aukna hagsæld og frelsi, að þrefalt fleiri Írakar eiga nú bíla en fyrir innrásina árið 2003.

Tekjur smáfyrirtækja í eigu Íraka hafa aukist um 300% frá því sem var fyrir innrás.

100 nýjar frjálsar sjónvarps- og útvarpsstöðvar hafa tekið til starfa. Þetta hefur orsakað verulega aukið framboð af fréttaefni og afþreyingu. Áður réð Uday Hussein öllu um fjölmiðla í landinu.

Lengi vel var því statt og stöðugt haldið fram á öldum ljósvakans að ríflega 100.000 óbreyttir borgara hefðu fallið frá byrjun innrásarinnar í Írak. Það er hins vegar búið að sýna fram á það að heildarmannfall í vopnuðum átökum er ekki nema 40.000. Það hljóta nú að teljast góðar fréttir? Það þýðir að færri deyja nú í Írak vegna ofbeldis en gerðu í stjórnartíð Saddams (1979-2003), þegar 1,3 milljónir Íraka létu lífið (stór hluti í stríðinu við Írani reyndar).

Það hefði nú verið gaman, ef birtar hefðu verið niðurstöður Gallup könnunar sem sýndi að yfir 90% Kúrda eru ánægðir með og hugsa hlýtt til George W. Bush.

Ég las eina merkilega frétt frá Kuveit um daginn. Blaðið Al-Siyasah sagði frá því þann 6. júní 2005 að klerkur nokkur Nabil al-Awadi að nafni, hafi flutt ræðu gegn Bandaríkjamönnum á föstudags bænasamveru í mosku í suðurhluta Al-Surrah. Söfnuðurinn var hins vegar ekki í skapi fyrir þess háttar boðskap, og stöðvaði fólkið ræðuna, og hóf svo að biðja Allah um að styrkja og hjálpa Bandaríkjamönnum. Einnig sagði blaðið frá öðrum klerk sem talar máli Bandaríkjamanna í föstudagsbænahaldinu og að söfnuður hans svari með því að hrópa, “’O’ Allah, make Islam and America stronger!”.

Ég vil fá fréttir af svona hlutum í íslenska fjölmiðla. Það myndi brjóta upp þann einsleita og leiðinlega fréttaflutning sem einkennir allt sem viðkemur Mið-Austurlöndum. Tökum Al-Siyasah til fyrirmyndar.

Sindri Guðjónsson
sindri79@gmail.com


Mánudagspósturinn 1. maí 2006

Í dag er 1. maí, frídagur verkalýðsins, haldinn hátíðlegur víðast hvar í heiminum. Stéttarfélög munu af því tilefni boða til kröfuganga eins og áður þar sem krafist verður bættra kjara fyrir launþega og vitaskuld ekkert nema gott um það að segja. Í lýðfrjálsu landi er hið bezta mál að einstaklingar hafi kost á því að mynda með sér félög um ákveðna lögmæta hagsmuni og berjast fyrir þeim í samræmi við leikreglur lýðræðisins, t.a.m. með því að fara í kröfugöngur til að vekja athygli á kröfum sínum. Félagafrelsið er vissulega einn af hornsteinum lýðræðisins, þ.e. frelsi fólks til að stofna til frjálsra félagasamtaka og ennfremur ráða því hvaða félögum það tilheyrir.

Í 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir um félagafrelsið á Íslandi: „Engan má skylda til aðildar að félagi. Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.“ Í samræmi við fyrirvarana í lok ákvæðisins neyðist almenningur á Íslandi til þess, hvort sem honum líkar betur eða verr, að tilheyra stéttarfélögum og borga til þeirra skatt af launum sínum í hvert skipti sem hann fær útborgað. Í þeim efnum er m.ö.o. ekkert félagafrelsi til staðar sem síðan er s.s. réttlætt með því að um „almannahagsmuni“ sé að ræða eða „réttindi annarra“ eins og það er kallað á mjög svo víðan og loðinn hátt.

Það er þó að mínu mati miklu fremur um almannahagsmuni að ræða að fólki sé veitt frelsi til að ákveða sjálft hvort það vill vera innvinklað í slík félög eða ekki. Með sömu rökum og beitt er til að réttlæta skylduaðild að stéttarfélögum væri alveg eins hægt að skylda t.a.m. alla neytendur til að vera í Neytendasamtökunum eða alla bifreiðaeigendur til að ganga í Félag íslenzkra bifreiðaeigenda. O.s.frv. Eru hagsmunir neytenda og bifreðaeigenda ekki almannahagsmunir líka að sama skapi? Hvar endar þetta?

Hvers vegna getum við ekki bara treyst fólki til að hafa félagsfrelsi og til að ákveða sjálft hvort það þjóni hagsmunum þess eða ekki að vera aðilar að einhverjum frjálsum félagasamtökum eða ekki? Nei það má ekki, þökk sé íslenzkum vinstrimönnum sem halda því engu að síður fram margir hverjir að þeir séu hlynntir frelsi. Þess utan væri lágmarkið að fólk hefði fullt frelsi til að ákveða í hvaða stéttarfélagi það væri. En nei, það má ekki einu sinni.

Ég geri það því hér með að tillögu minni að íslenzkur almenningur verði frelsaður frá þessu félagslega vistabandi og því veitt fullt frelsi til að ákveða í hvaða félagasamtökum það kýs að vera án allrar nauðungar og forræðishyggju vinstrimanna á Íslandi.

---

Annars þykja mér hugmyndir José Maria Aznar, fyrrv. forsætisráðherra Spánar, þess efnis að Ísrael verði veitt aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO) mjög áhugaverðar. Slíkt myndi væntanlega þýða að bandalaginu yrði skylt að verja Ísraelsmenn fyrir árásum, þá ekki sízt árásum palestínskra hryðjuverkamanna. Þá aðallega vegna þess hver viðbrögðin kunni að verða við þeessum ummælum Aznars.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is

 


« Fyrri síða

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband