Leita í fréttum mbl.is

Bannað að efast um þróunarkenninguna

Félagslegur rétttrúnaður lætur víða á sér kræla líkt og annar sósíalismi. Það eru ófáar skoðanir sem við megum ekki hafa og tjá í friði fyrir varðmönnum hans. Þrátt fyrir að hér eigi að heita lýðræðisþjóðfélag. Eitt af því sem má ekki er að efast um þróunarkenningu Darwins. Í marga áratugi hefur henni verið haldið að fólki á öllum aldri á Vesturlöndum – þá ekki sízt börnum í gegnum skólakerfi viðkomandi ríkja – eins og ekkert annað gæti komið til greina. Engu að síður er staðreyndin sú að þróunarkenningin er einmitt það – kenning. Hún hefur nefnilega alls ekki verið sönnuð með óyggjandi hætti. Raunar langt frá því.

En hvað sem því líður þá er ekki tilgangurinn með þessari grein að fjalla um það hvort þróunarkenning Darwins sé á rökum reist eða ekki heldur þann félagslega rétttrúnað sem hefur smám saman slegið um hana skjaldborg þannig að í dag má enginn á Vesturlöndum efast um gildi hennar án þess að vera sakaður hreinlega um heimsku og/eða trúaröfga vilji svo til að viðkomandi játi kristna trú.

Þessi félagslegi rétttrúnaður hefur einna bezt opinberað sig í tengslum við umræður á undanförnum árum um það sem kallað hefur verið upp á enska tungu “intelligent design theory” og þýtt hefur verið á íslenzku á ýmsa vegu, s.s. vitshönnunarkenning eða vitræn hönnun. Kenningin gengur í stuttu máli út á það að heimurinn sé í raun alltof flókinn til þess að hann hafi getað orðið til fyrir einhverja tilviljanakennda þróun eins og þróunarkenningin heldur fram. Það hljóti eitthvað fleira að hafa komið til.

En þessu má ekki halda fram. Það má ekki efast um þróunarkenninguna frekar en að það mátti efast á sínum tíma um að heimurinn væri flatur eins og pönnukaka. Þróunarkenningarsinnar eru m.ö.o. orðum komnir í hlutverk kaþólsku kirkjunnar á sínum tíma og verja nú með kjafti og klóm þá hugmyndafræði sem þeim var innprentuð í æsku sem hið eina rétta. Ófáir varðmenn þróunarkenningarinnar eru sömuleiðis fræðimenn sem hafa margir byggt margra ára rannsóknir, og jafnvel ævistarf sitt, á kenningu Darwins og mega ekki til þess hugsa að einokunarstöðu hennar sé ógnað.

En hvað finnst almenningi? Fyrr á þessu ári var birt skoðanakönnun í Bretlandi, heimalandi Darwins, sem sýndi að 22% aðspurðra trúa sköpunarsögunni, þ.e. að Guð hafi skapað heiminn eins og greint er frá í Biblíunni, 17% sögðust trúa “intelligent design” kenningunni og 48% sögðust höll undir þróunarkenninguna. Afgangurinn, 12%, sagðist ekki vera viss. Þetta þýðir m.ö.o. að meirihluti Breta trúir ekki þróunarkenningunni sem kemur auðvitað verulega á óvart í ljósi áðurnefndrar einokunarstöðu, þá ekki sízt í skólakerfum vestrænna ríkja.

Þegar spurt var í sömu könnun hverja af þessum kenningum ætti að kenna í raunvísindum í brezkum skólum, þegar fjallað væri um það hvernig heimurinn hafi orðið til, nefndu 69% aðspurðra þróunarkenninguna, 41% “intelligent design” kenninguna og 44% sköpunarsöguna.

Allt aðrar tölur er síðan um að ræða ef litið er til Bandaríkjanna. Skoðanakönnun, sem gerð var þar í landi í október á síðasta ári, sýndi að einungis 15% Bandaríkjamanna trúa á þróunarkenningu Darwins. Þ.e. að maðurinn hafi orðið til og þróast án þess að Guð kæmi þar nærri. Meirihluti aðspurðra, eða 51%, sagðist hins vegar trúa sköpunarsögunni, þ.e. að Guð hafi skapað manninn í núverandi mynd. Þrír af hverjum tíu sögðust síðan trúa því að maðurinn hefði þróast en undir stjórn Guðs. Þessar niðurstöður eru í samræmi við fyrri kannanir.

Hvað sem fólki annars kann að finnast um þessi mál þá er lykilatriðið það að fólk á að hafa frelsi til að hafa sína skoðun á þeim hvað sem varðmönnum félagslegs rétttrúnaðar kann að finnast um það. Og sama á við um önnur mál þar sem aðeins má hafa ákveðnar skoðanir og aðrar ekki að mati þessara aðila. Mál eins og innflytjendamál og málefni samkynhneigðra svo dæmi séu tekin.

Í lýðræðisríkjum ber að ræða málin opinberlega á málefnalegan og fordómalausan hátt en ekki þannig að ákveðnum aðilum umræðunnar sé hreinlega bannað að hafa þær skoðanir sem þeir sjálfir kjósa af einhverjum sjálfskipuðum skoðanalöggum sem enga samleið eiga með neinu sem kallast getur lýðræði.

---

Hún er annars nokkuð merkileg auglýsing Ungra jafnaðarmanna um Fjölskyldu- og húsdýragarðinn sem sýnd er í sjónvarpi þessa dagana, en þar er gert að því skóna að R-listinn hafi byggt upp garðinn. Skoðum þetta aðeins nánar.

Eins og segir á heimasíðu garðsins var ákvörðun um byggingu hans tekin af borgarráði Reykjavíkur þann 22. apríl 1986 og hann var síðan opnaður 19. maí 1990 af Davíð Oddssyni, þáverandi borgarstjóra. Fyrsta skóflustungan að Fjölskyldu- og húsdýragarðinum var síðan tekin af Markúsi Erni Antonssyni, sem tók við af Davíð á borgarstjóratóli, 24. ágúst 1991 og loks var hann opnaður 24. júní 1993.

R-listinn komst hins vegar ekki til valda í Reykjavík fyrr en 1994. Það er því ekki hægt að skilja þetta öðruvísi en svo að það sé slík leitun að einhverju sem vinstrimenn hafa gert af viti í valdatíð R-listans í Reykjavík að þeir þurfa að eigna sér verk annarra.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband