Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2006

Nasistinn Hugo Chavez

Konan mín er þeirrar ,,gæfu” aðnjótandi að fá sent til sín blað BSRB. Ég man eftir að hafa lesið þar grein aftarlega í blaðinu um vinstri múgsefjunarsamkomu í landinu rauða – Venúsúela – þar sem einræðisherrann Chavez var varinn hægri vinstri, eða aðallega vinstri. Það kemur nú kannski ekkert á óvart ef ritstjórn blaðs BSRB er í takt við formann sinn sem lengi hefur verið hrifinn af roðanum í austri (og nú kannski í suðri líka).

Chavez og góðvinur hans Castro, sem bannar þegnum sínum hér um bil allt milli himins og jarðar, eru miklir dýrlingar meðal róttækra vinstrimanna hérlendis. Þeir á Múrnum eru ekki hrifnir af hinum kristilega hægri væng repúblikanaflokksins. Einnig fyrirlýta þeir alla kynþáttafordóma. Róttækir vinstrimenn eru ekki trúaröfgamenn og ekki rasistar, annað en íhaldssamir “far-right” fanatíkusar.

En hlustum aðeins á Hugo Chavez:

,,Afkomendur þeirra sem krossfestu Krist (gyðingar) hafa hrifsað til sín auð jarðarinnar, minnihluti hefur tekið sér eignarrétt yfir gulli heimsins, og silvrinu, og jarðefnunum, vatninu, góðu jörðunum, olíunni, auðæfunum, og þeir hafa látið auðinn í hendur fárra útvaldra.”

Já, þetta er allt þessum gyðingunum að kenna! Það er megin inntak ræðu sem Huga Chavez flutti á aðfangadag jóla.

Svona málflutningur er í anda Hitlers, KKK og fleiri. Ræða Chavez hefði sómað sér vel í málgangi nasista, í dagblöðum þriðjaríkisins, og annarsstaðar þar sem gyðingafordómar hafa blómstrað.

Chavez er greinilega gagntekinn af gyðingahatri, og beitir fyrir sig trúarlegum tilfinningarökum. Hvað ætli hentistefnu málgagnið Múrinn segi um þetta? Líklega ekki neitt.

Sindri Guðjónsson


Mánudagspósturinn 27. febrúar 2006

Nýverið voru birtar niðurstöður skoðanakönnunar í Bretlandi sem komu mörgum í opna skjöldu. Könnunin var gerð fyrir brezka dagblaðið Sunday Telegraph, en samkvæmt henni vilja fjórir af hverjum tíu brezkum múslimum að Sharia-lögin verði tekin í gildi á svæðum í Bretlandi þar sem múslimar eru í miklum meirihluta á meðan 41% þeirra sögðust því andvígir. Í september á síðasta ári ákvað forsætisráðherra Ontario-fylkis í Kanada, Dalton McGuinty, að verða ekki við óskum um að múslimum yrði heimilað að nota Sharia-lögin til að leysa úr fjölskyldudeilum eins og skilnuðum og forsjá barna á þeim forsendum að það ættu ein lög að gilda um alla íbúa fylkisins.

Sharia-lögin eru í gildi víða í miðausturlöndum, í löndum eins og Íran og Sádi Arabíu, og í Afríku. Lögunum er allajafna framfylgt af trúarlögreglu og sérstakir dómstólar sjá um að dæma samkvæmt þeim og eru refsingarnar gjarnan grimmilegar. Refsingar fyrir kynferðisglæpi eru m.a. grýting, fyrir þjófnað aflimun og það að segja skilið við íslam getur leitt til dauðarefsingar. Lögin innihalda einnig nákvæmar reglur fyrir svo að segja allt sem fólk gerir í lífi sínu og eru þau samin upp úr Kóraninum og Hadith auk dóma múslimskra dómara á fyrstu öldum íslam.

En Sharia-lögin innihalda fleira, t.a.m. ákvæði sem heimilar karlmönnum að eiga margar konur og sem segja að konur séu óæðri karlmönnum. Karlmenn geta t.d. skilið við konur einfaldlega með því að segja þrisvar sinnum „Ég skil við þig“ og framburður kvenna er metinn minna en framburður karlmanna. Konur geta auk þess ekki gifst karlmanni sem er ekki múslimi á meðan múslimskum karlmönnum er heimilt að kvænast konum sem eru ekki múslimar.

Lögin kveða einnig á um ákveðnar reglur um klæðnað bæði karlmanna og kvenna þó reglurnar sem karlmönnum er ætlað að fara eftir séu mun frjálslyndari. Konur eiga að hylja allan líkama sinn og þar með talið hár sitt og líkamsbyggingu sína. Aðeins andlit og hendur mega sjást. Stundum er reyndar óheimilt að meira sjáist af andliti en augun. Slík ákvæði brjóta augljóslega gróflega í bága við vestrænar hugmyndir og lög um einstaklingsfrelsi og jafnrétti. En það eru einmitt ákvæði sem þessi sem íslamskir trúarleiðtogar, bæði í löndum múslima sem og á Vesturlöndum, leggja hvað mesta áherzlu á að slá skjaldborg um og verja gegn hvers kyns vestrænum áhrifum.

Á dögunum kallaði fjármálaráherra Ástralíu, Peter Costello sem er talinn munu verða arftaki John Howards forsætisráðherra landsins á valdastóli, eftir því að ríkisborgararéttur öfgasinnaðra múslima, sem fyrirlitu áströlsk gildi og hefðu tvöfalt ríkisfang, yrði afturkallaður. Sagði hann að slíkir aðilar væru betur komnir í löndum þar sem þeir kynnu betur við sig. Að sama tilefni sagði Costello að fjölmenningarstefnan væri „væmin og afvegaleidd“ og krafðist þess að nýjir ástralskir ríkisborgarar færu að áströlskum lögum í stað þes að reyna að fara framhjá þeim og lifa þess í stað samkvæmt lögum eins og Sharia-lögunum. Hann sagði það til marks um virðingu á sama hátt og þegar farið væri úr skónum áður en gengið væri inn í mosku væri það gert af tillitsemi við íslam. „Ef þú ert mjög mótfallinn því að ganga á sokkaleistunum þá ferðu ekki inn í mosku,“ sagði Costello í ræðu í Sydney. „Ef þú ert mjög mótfallinn áströlskum gildum, slepptu því þá að koma til Ástralíu.“

Leiðtogar ástralskra múslima hafa gagnrýnt Costello harðlega og samhliða því kvartað undan meintum fjandskap áströlsku hægristjórnarinnar við múslima. Howard forsætisráðherra hefur hins vegar lýst yfir stuðningi við ummæli Costello og sagt að þau væru „í grundvallaratriðum rétt“ og samhliða því gagnrýnt leiðtoga múslima fyrir að vera of viðkvæma fyrir gagnrýni. „Hann er ekki að reyna að stofna til neins fjandskapar við múslima,“ sagði Howard í útvarpsviðtali og sagði óþarfa að gera úlfalda úr mýflugu þó verið væri að ræða þessi mál.

Norska mannréttindahugveitan Human Rights Service (HRS) varaði nýverið við því að gerðar væru málamiðlanir við íslamista og var tilefnið teikningamálið svokallað. „Það er hyldýpi á milli lýðræðislegs samfélags og íslamismans sem alræðissinnaðrar hugmyndafræði sem á sem slík samleið með fasisma, kommúnisma og nasisma. Sem dæmi um það hvernig þessar hugmyndafræðir tengjast má nefna niðrandi afstöðu íslamista gagnvart gyðingum, það að þeir líti á sig sem æðra fólk og að þeir vilji kollvarpa lýðræðinu,“ sagði Hege Storhaug frá HRS í viðtali við norska dagblaðið Klassekampen.

Að mati Storhaug hefur aukin umræða um íslam leitt til þess að línurnar hafa skýrst og sýnt betur hvaða múslimar séu íslamistar og hverjir séu tilbúnir að ver’a hluti af lýðræðislegu samfélagi. Hún sagðist finnast hræðilegt að sjá múslimskar konur í Noregi klæðast burqa í samræmi við ákvæði Sharia-laganna um klæðnað kvenna sem væri eitthvað sem ætti enga samleið með lýðræðinu. Hún sagðist einnig hafa miklar áhyggjur af afstöðu íslamista til samkynhneiðgra, en að þeirra mati væri samkynhneigð dauðasök. „Ég myndi gjarnan vilja sjá þann múslimska trúarleiðtoga sem myndi segja að Sharia-lögin yrðu ekki ráðandi í Noregi ef múslimar kæmust hér í meirihluta,“ sagði hún að lokum.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is


Að hafa áhrif

Síðla sumars 1997 var allri heimsbyggðinni brugðið með tveimur atburðum sem gerðust á um viku: Dauða Díönu prinsessu og Móður Theresu. Á yfirborðinu þá hefðu þessar tvær konur varla getað verið ólíkari. Önnur var hávaxin, ung og falleg prinsessa frá Englandi sem gekk um meðal þeirra fínustu. Hin, sem hafði hlotið friðarverðlaun Nóbels, var lítil, gömul kaþólsk nunna fædd í Albaníu og þjónaði hinum allra fátækustu í Calcutta, Indlandi.

Það sem er síðan merkilegt er að áhrif þeirra beggja eru mjög svipuð. Í úttekt sem London Daily Mail stóð fyrir árið 1996 voru Díana Prinsessa og Móðir Teresa í fyrsta og öðru sæti yfir þá sem létu sem mest varða um aðra. Þær voru kærleiksríkustu einstaklingar heims að mati blaðsins. Það er nokkuð sem gerist ekki nema þú hafir mikil áhrif.

Díana náði athygli heimsins.

Árið 1981 varð Díana Spencer mest umtalaðasta persóna heims þegar hún giftist Karli, krónprinsi Bretlands. Nærrum einn milljarður manna horfði á brúðkaup þeirra í beinni útsendingu frá St. Paul´s Dómkirkjunni. Frá þeim degi var eins og fólk fengi aldrei nóg af fréttum af henni. Fólk var áhugasamt um Díönu, ungri konu sem áður hafði verið barnaskólakennari. Til að byrja með var hún mjög feimin og athyglin sem hún og maður hennar fengu var líklega mjög svo yfirþyrmandi fyrir unga konu frá smábæ í Wales. Sumir segja að Díana hafi orðið óánægð snemma í hjónabandinu og var ekki að líka þær kröfur og skyldur sem á hana voru settar um verkahring þess að vera prinsessa. En hún aðlagaðist þessum kröfum með tímanum. Þegar hún fór að ferðast og koma fram í nafni konunglegu fjölskyldunnar þá gerði hún það fljótt að markmiði sínu að þjóna öðrum t.d. með því að safna fjármagni fyrir hinum ýmsu góðgerðarmálefnum. Á öllum þessum árum kynntist hún og tengdist mörgum mikilvægum samböndum, t.d. við stjórnmála-, viðskipta-, fjölmiðla- og hina ýmsu athafnamenn svo að ekki séu undanskyldir leiðtogar hinna ýmsu þjóða og fólki úr skemmtanabransanum. Til að byrja með var hún talsmanneskja og umsjónarmaður hinna ýmsu góðgerðarmála, en þegar líða fór á tímann varð hún mun áhrifameiri. Það varð til þess að möguleikar hennar til að láta hlutina gerast urðu mun meiri.

Díana einbeitti sér á því að koma fram málstöðum s.s. rannsóknum og forvörnum gegn alnæmi, umhyggju fyrir holdsveika og bann og hreinsun á jarðsprengjusvæðum. Aðeins nokkrum mánuðum fyrir andlát sitt heimsótti hún Clinton forseta í Hvíta húsið og ríkistjórn hans í Washington. Þar fór hún fram á við þá að herja á Oslóar samninginn og að banna jarðsprengjuhernað. Nokkrum vikum seinna beitti Bandaríkjastjórn sér fyrir þessu málefni. Patrick Fuller, yfirmaður Rauða Krossins í Bretlandi sagði, „Áhuginn sem hún hafði á þessu málefni hafði mikil áhrif á Clinton. Hún kom þessu máli á skrifborð heimsins. Um það er engin spurning.”

Uppkoma leiðtogans.

Í byrjun var það titill Díönu sem gaf henni rétt til að tjá sig og hafa áhrif. Fljótlega fór hún þó að hafa áhrif í eigin nafni. Árið 1996 skildi hún við Karl Bretaprins og missti í kjölfarið prinsessutitil sinn. Þrátt fyrir það missti hún ekki þau áhrif sem hún hafði á heiminn. Áhrif hennar jukust ef eitthvað er á meðan fyrrverandi eiginmaður hennar og tengdafólk minnkaði sífellt í áliti. Af hverju? Af því að Díana skilti ósjálfrátt að það þyrfti ekki endilega titla til að hafa góð áhrif

Það er kannski kaldhæðni að segja, en Díana hafði einnig alveg gífurleg áhrif með dauða sínum. Jarðarförin var sýnd beint í ljósvakamiðlum. NBC sjónvarpsstöðin áætlaði að um 2,5 milljarður manna hafi fylgst með jarðarförinni – meira en tvöfalt þeirra sem horfðu á brúðkaup hennar.

Díana prinsessa hefur verið lýst á margan máta. Hins vegar hef ég heyrt fáa lýsa henni sem leiðtoga. Samt er það nákvæmlega það sem hún var, leiðtogi. Þegar öllu er á botninn hvolft lét hún hlutina gerast af því að hún hafði áhrif.

Leiðtogi er ekki…

Fólk hefur margar ranghugmyndir um leiðtogahæfileikann. Þegar það heyrir að einhver hefur flottan titil eða hefur verið skipaður í stjórnunarstöðu, þá gerir það strax ráð fyrir að viðkomandi einstaklingur sé leiðtogi. Stundum er það rétt. En titlar þýða ekki neitt þegar kemur að leiða eða stjórna. Sannan leiðtoga er ekki hægt að setja í embætti eða búa til með titlum, svona gróft til orða tekið. Það gerist aðeins þegar viðkomandi hefur sönn áhrif, það er eitthvað sem þarf að koma frá persónunni sjálfri en ekki þeim titli sem viðkomandi ber. Maður vinnur sér inn virðingu. Það eina sem titillinn færir þér er tími – tími til að auka áhrif þín til góðs!
Titlinum fylgja ekki leiðtogahæfileikar. Steinunn Valdís varð ekki leiðtogi við það að verða borgarstjóri.
Dagur B. verður heldur ekki leiðtogi við það að vinna opið prófkjör.

Góða helgi..

Gísli Freyr Valdórsson


Um menningarheima

Samúel P. Huntington ræðir átök milli menningarheima í bók sinni The Clash of Civilization and the Remaking of World Order, sem kom fyrst út árið 1996. Ensk-kínverksi rithöfundurinn Timothy Mo sagði um bókina að hún væri ein af þessum sjaldgæfu bókum sem mótar heiminn ásamt því að lýsa honum. Þegar átök verða á milli menningarheima er nánast alltaf vísað til bókarinnar. Hún er orðin að undirstöðuriti fyrir þá sem vilja vera gjaldgengir í samræðum um málefni líðandi stundar.

Oft er leitað álits Huntingtons þegar þegar átök virðast eiga sér stað milli menningarheima, en það kemur mörgum á óvart hvað Huntington er varfærinn í yfirlýsingum. Hann taldi til dæmis að árásin á Bandaríkin 11. september 2001 væri ekki til marks um átök milli menningarheima heldur væri hún árás kaldrifjaðra villimanna á hið siðmenntað samfélag í öllum heiminum. Það er alls ekki ætlun Huntingtons að auka æsing og tortryggni milli menningarheima, heldur að lýsa ástandinu svo að menn geti tekið skynsamlegar ákvarðanir. Hann tók til dæmis mið af kenningum sínum um menningarheima þegar hann gagnrýndi Íraksstríðið. Hann sagði að það myndi falla í grýttan jarðveg hjá ríkissjórnum og íbúum íslamska menningarheimsins og tvístra þeirri samstöðu sem hafði náðst gegn hryðjuverkum.

Huntington telur að á jörðinni séu um þessar mundir átta stórir menningarheimar (major civilizations):

1. Kínverski menningarheimurinn (Sinic civilization)
Kínverski menningarheimurinn nær yfir Kína, kínversk samfélög eins og og Tævan og Singapore, og skyld menningarsamfélög á borð við Kóreu og Víetnam. Kjarnaland hins kínverska menningarheims er að sjálfsögðu Kína og og höfuðborgin Beijing valdamiðstöðin. Hugtakið lingua franca er notað yfir tungumál sem fólk, sem talar ólík tungumál, notar til samskipta. Lingua franca í kínverska menningarheiminum er mandarínska, sem er jafnframt mest talaða tungumál heimsins.

2. Japanski menningarheimurinn (Japanese civilzation)
Kjarnaland japanska menningarheimsins er eina þjóðríki hans, það er að segja Japan. Höfuðborgin, Tokyo, er að sjálfsögðu valdamiðstöðin og japanska lingua franca.

3. Menningarheimur Hindú (Hindu Civilization)
Indland er langstærsta ríkið í menningarheimi Hindúa. Valdamiðstöðin er höfuðborginni Delhi, en álitamál er með lingua franca. Það hefur verið enska og er að ég held enn. Þegar Norður-Indverji, sem talar Hindí, og Austur-Indverji eða Bangladesh-hindúi , sem talar Bengalí, skilst mér að þeir ræði saman á ensku. Hins vegar sækir Hindi mjög á. Það er eitt mest talaða tungumál heimsins og er tungumál Bollywood myndanna, sem eru fleiri en hinar ensku Hollywood myndir. Margir Indverjar vilja að hindí taki við af ensku sem lingua franca í menningarheimi Hindúa og það gæti orðið raunin áður en langt um líður.

4. Íslamski menningarheimurinn (Islamic civilization)
Íslamski menningarheimurinn nær yfir Norður-Afríku, Austurlönd nær og stór svæði í suð-austur Asíu. Hann hefur ekkert kjarnaland, sem skapar ákveðin vandamál. Ef koma upp átök milli íslamska menningarheimsins og annars menningarheims er til dæmis enginn einn aðili sem hægt er að ræða við og semja við. Nokkur lönd gera tilkall til þess að vera kjarnaríki hins íslamska menningarheims, einkum Egyptaland, Saudi Arabía, Íran, Pakistan og Indónesía. Huntington leggur reyndar til að Tyrkir hætti við niðurlægjandi menningarheimaskipti og gerist leiðtogar hins íslamska menningarheims. Tyrkir eru torn country, sem merkir að landið tilheyrir ákveðnum menningarheimi, en leiðtogar þess vilja að landið tilheyri öðrum menningarheimi. Kemal Ataturk gerði Tyrkland að torn country og það er í raun enn á milli hins vestræna og íslamska menningarheims. Lingua franca í síðarnefnda menningarheimnum er arabíska, sem gerir stöðu Egyptalands og Saudi Arabíu vænlega í baráttunni um að gerast leiðtogar menningarheimsins.

5. Rétttrúnaðar menningarheimurinn (Orhodox civilization)
Rétttrúnaðar menningarheimurinn er fyrverandi Sovétríkin og nokkur ríki austur Evrópu. Rússland er kjarnaland, höfuðborgin Moskva er valdamiðstöðin og lingua franca er rússneska. Þau lönd Austur-Evrópu sem hafa gengið í Evrópusambandið hafa í raun skipt um menningarheima. Úkraína er torn country.

6. Vestræni mennningarheimurinn (Western civilization)
Að mati Huntingtons teljast flest ríki Evrópu, Kanada, Bandaríkin og Eyjaálfa til hins vestræna menningarheims. Hann segir Vesturlönd hafa tvo kjarna. Annars vegar Bandaríkin, með valdamiðstöð í Washington, og hins vegar Frakkland / Þýskaland (sem ég kýs að kalla Karlamagnúsarríkin, með valdamiðstöð í Brussel. Bretland gegnir síðan mikilvægu hlutverki sem brú á milli þessara kjarnasvæða. Lingua franca á Vesturlöndum er að mínu mati enska, þó að Karlamagnúsarríkin muni seint kvitta undir það. Frakklandi og Þýskalandi dreymir reyndar um að mynda sinn eigin menningarheim og er Evrópusambandið tæki til þess. Það voru mikil mistök hjá þeim að halda að það væri hægt með til dæmis Bretland og Spán í sambandinu. Karlamagnúsarríkin hefðu átt að takmarka aðild að Evrópusambandinu við Niðurlönd, Ítalíu, Austurríki og ef til vill Slóveníu, Króatíu, Ungverjaland, Rúmeníu, Tékkland, Slóvakíu og Pólland. Þá hefði Evrópusambandið getað orðið grunnur að nýjum menningarheimi. Bretland hefði þá sennilega orðið hluti af menningarheimi enskumælandi manna (e. Anglosphere), en Spánn orðið kjarnaríki í Íberó-Ameríku, það er að segja menningarheimi rómönsku Ameríku ásamt Íberíuskaganum (Spáni og Portúgal). Norðurlöndin hefðu þá haft nokkra sérstöðu; í raun verið á milli Anglosphere og Karlamagnúsar-Evrópu.

7. Menningarheimur rómönsku Ameríku (Latin American Civilization)
Margir vilja meina að rómanska Ameríka tilheyri Vesturlöndum, en Huntington er á öðru máli. Menningarheimur rómönsku Ameríku er sama marki brenndur og íslamski menningarheimurinn að því leyti að hann hefur ekkert kjarnaríki. Brasilíumenn eru langfjölmennastir, en það háir þeim að þeir tala portúgölsku, en ekki spænsku eins og öll önnur ríki menningarheimsins. Mexíkóar eru torn country eins og Tyrkland og ekki líklegir um þessar mundir til að leiða menningarheiminn. Argentínumenn voru líklegir á tímabili, en efnhagsástandið í Argentínu á undanförnum árum hefur veikt stöðu þeirra. Landamæradeila Bandaríkjanna og Mexíkó eru til marks um spennu milli Vesturlanda og Rómönsku Ameríku.

8. Afríski menningarheimurinn (African civilization)
Afríka sunnan Sahara myndar ef til vill sér menningarheim. Það er að segja sá hluti Afríku sem tilheyrir ekki íslamska menningarheimnum. Menningarheimurinn á ekkert kjarnaland, en Suður-Afríka er líklegur kandídat. Lingua franca um þessar mundir er einkum enska og franska, en oft hefur verið stungið upp á því að afríska tungumálið Swahili verði lingua franca fyrir menningarheiminn. Átökin í Darfur héraði í Súdan eru til marks um átök afríska og íslamska menningarheimsins. Íslamski menningarheimurinn á reyndar í átökum við alla þá menningarheima sem liggja að honum landfræðilega, að undanskildum hinum kínverska.

Ég hugsa að margir gretti sig eða brosi út í annað þegar rætt er um menningarheima á þann hátt sem hér er gert og það er ekki laust við að ég geri það sjálfur. Ástæðan er sú hugsun sem hlýtur að læðist að fólki að um sé að ræða einhvern heilaspuna sem gefur ekki upp rétta mynd af raunveruleikanum. Sú gagnrýni á að mínu mati rétt á sér og vissulega er um einföldun að ræða. Huntington svarar þessu þó vel í formála The Clash of Civilization. Í fyrsta kafla bókarinnar leggur hann áherslu á nauðsyn þess að einfalda hinn flókna veruleika mannlegs samfélags:

Þessi mynd [mín] af stjórnmálum heimsins eftir lok kaldastríðsins, sem eru mótuð af menningarþáttum og felur í sér samskipti milli ríkja og hópa frá mismunandi menningarheimum, er mikil einföldun. Hún sleppir miklu, afskræmir sumt og hylur annað. Eigi að síður, ef við eigum að hugsa alvarlega um heiminn og bregðast á áhrifaríkan hátt við aðstæðum í honum, er nauðsynlegt að hafa til hliðsjónar einhvers konar einfaldaða mynd af raunveruleikanum, einhverja kenningu, heildarhugmynd, líkan eða viðmið. Án slíkrar vitsmunalegrar smíðar er, eins og William James sagði, aðeins „bölvuð, ærandi óreiða“. Thomas Kuhn sýndi fram á, í hinu sígilda verki The Structure of Scientific Revolution, að vitsmunaleg og vísindaleg framrás verður þegar viðmið, sem í auknum mæli reynist ófært um að skýra nýlega uppgötvaðar staðreyndir, er leyst af hólmi af nýju viðmiði, sem getur skýrt þessar staðreyndir betur. Kuhn skrifaði: „Kenning verður að virðast betri en aðrar kenningar, en hún þarf ekki að vera, og er í raun aldrei, þannig úr garði gerð að hún útskýri allar þær staðreyndir sem lagðar eru fyrir hana.“ Til þess að rata á framandi landsvæði „þarf venjulega einhvers konar kort“, eins og John Lewis Gaddis benti svo viturlega: „Kortagerð er, eins og sjálft hugarstarfið, nauðsynleg einföldun sem gerir okkur fært að sjá hvar við erum og hvert við stefnum.“

Þessi efnisgrein í bók Huntington svarar fjölmörgum gagnrýnisröddum, sem álíta kenningar hans vera mikla einföldun. Á þeim árum sem liðin eru frá útkomu bókarinnar hafa æ fleiri áttað sig á að skynsamlegt hefði verið að styðjast við heimsmynd Huntingtons við töku ákvarðana. Án einfaldaðrar myndar af heiminum getur verið erfitt að bregðast við aðstæðum á skynsaman hátt. Það má orða það þannig að sífellt fullkomnari og flóknari einfaldanir séu þær vörður sem maðurinn verður að fylgja í ferð sinni að skilningstrénu, sem hann sér í hillingum en mun þó trúlega aldrei finna. En þó að leiðarendanum verði aldrei náð er ferðin svo sannarlega ómaksins verð.

Sagan er ekki aðeins lykillinn að samtímanum heldur einnig lykillinn að góðri framtíð. Hún er reynslubanki, sem gefur okkur til kynna hvað hefur reynst vel og hvað ekki. Til þess að skilja söguna er gagnlegt að notast við aðrar fræðigreinar og smíða kenningar, sem auka skilning okkar, en mikilvægt er þó að hafa ávallt í huga að þessar kenningar eru einfaldanir á flóknari veruleika.

Ég held að það sé gagnlegt að notast við heimsmynd Samúels P. Huntingtons, en verð þó að viðurkenna að ég fæ dálítið óbragð í munninn vegna hættunar á að það gleymist að fólk er alltaf fólk, þó að umhverfi og aðstæður móti það að einhverju leyti á misjafnan hátt. Upp í hugann koma vísuorð Tómasar um að hjörtu mannanna svipi saman í Súdan og í Grímsnesinu.

Ásgeir Jóhannesson


Mánudagspósturinn 20. febrúar 2006

Abu Laban

„Það er kaldhæðni örlaganna að ég skuli í dag búa í evrópsku lýðræðisríki og vera að berjast gegn sömu trúaröfgamönnunum sem ég flýði frá í Íran fyrir mörgum árum,“ sagði Kamran Tahmasebi í viðtali við danska dagblaðið Jótlandspóstinn á dögunum, en hann kom til Danmerkur árið 1989 sem flóttamaður. Í dag starfar hann sem félagsráðgjafi og er mjög þakklátur fyrir það líf sem danskt samfélag hefur gert honum kleift að lifa. Hann hefur hins vegar fengið sig fullsaddan af öfgasinnuðum íslamistum og þeirri hræðslu sem þeir breiða út á meðal múslima í Danmörku. Og hann hefur líka fengið nóg af því að þegja til þess að vekja ekki athygli íslamistanna á sér. Teikningamálið svokallað (sem flestir ættu að kannast við í dag) gaf honum tilefni til að stíga fram og vara við öfgasinnuðum múslimskum trúarleiðtogum í Danmörku sem hann segir að skaði aðlögun múslima með blekkjandi gagnrýni sinni á danskt samfélag.

Tahmasebi er einn þeirra sem hefur gengið til liðs við nýstofnaða hreyfingu hófsamra múslima í Danmörku sem Naser Khader, þingmaður á danska þjóðþinginu, veitir forystu. Hann sagði við Jótlandspóstinn að hann væri vel meðvitaður um þá hættu sem hann væri að bjóða heim með því að taka sér stöðu við hlið Khaders sem hefur um langt skeið þurft að búa við lögregluvernd vegna gagnrýni sinnar á múslimska trúarleiðtoga í Danmörku. En Tahmasebi sagðist engu að síður telja það skyldu sína að taka þátt í þessari baráttu. „Naser Khader hefur alltof lengi þurft að bera þessa ábyrgð einn. Ég er sammála honum og nú vil ég standa upp og segja það. Þess utan tel ég mig bera ábyrgð sem foreldri til að berjast svo að börnin mín þurfi ekki að búa við kreddur íslamista. Þau skulu fá að lifa frjáls í þessu landi,“ sagði hann í viðtalinu og bætti því við að hann teldi múslimska trúarleiðtoga í Danmörku vera stærsta vandamálið sem Danir stæðu frammi fyrir í dag.

Naser Khader sagði þetta nýverið í viðtali við Jótlandspóstinn: „Ef þessum trúarleiðtogum finnst svona hræðilegt að búa í Danmörku, hvers vegna eru þeir þá hér? Það er einu sinni enginn að neyða þá til að búa hér. Þeir geta alltaf flutt til einhvers af löndunum í miðausturlöndum þar sem samfélögin eru byggð á þeim múslimsku gildum sem þeir vilja endilega lífa eftir. Það virðist sem hollusta þeirra sé aðallega við lönd eins og Sádi Arabíu, þannig að ég held að þeir ættu að flytja þangað. Ég er orðinn svo þreyttur á að heyra þá kvarta yfir ástandinu í þessu landi [Danmörku] sem hefur veitt þeim skjól, tjáningarfrelsi, trúfrelsi og fjölda tækifæra fyrir börnin þeirra. Ef þeir geta ekki sýnt gildum þessa lands hollustu þá ættu þeir að fara og gera þar með meirihluta danskra múslima mikinn greiða. Trúarleiðtogarnir ættu að hætta að gagnrýna teikningarnar og í stað þess gagnrýna hryðjuverkamennina sem skera saklausa gísla á háls í nafni Allah og misnota þannig íslam. En í slíkum tilfellum heyrum við ekki stakt orð frá þeim. Fyrir vikið eru þeir hræsnarar.“

Fólk hefur bókstaflega streymt til liðs við hreyfingu hófsamra danskra múslima sem fengið hefur nafnið Lýðræðissinnaðir múslimar (Demokratiske Muslimer). Fleiri hundruð manns hafa þegar skráð sig sem meðlimi og að auki hafa hátt í þrjú þúsund Danir lýst yfir stuðningi við framtakið sem hefur þegar valdið miklum titringi á meðal múslimskra trúarleiðtoga í Danmörku. Leiðtogi þeirra, Abu Laban, kallaði hófsömu múslimana nýverið rottur. Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Dana, hitti forystumenn Lýðræðissinnaðra múslima á dögunum þar sem rætt var um teikningamálið. Áður höfðu dönsk stjórnvöld tilkynnt að þau væru hætt öllu samstarfi við múslimska trúarleiðtoga í Danmörku um aðlögun múslima að dönsku samfélagi vegna framferðis þeirra í tengslum við teikningamálið þar sem þeir m.a. sendu sendinefndir til miðausturlanda í því skyni að æsa upp hatur gegn Danmörku og Dönum.

Því til viðbótar hafa umræddir múslimsku trúarleiðtogar gerzt sekir umtala tveimur tungum í tengslum við teikningamálið og þannig sagt eitt við vestræna fjölmiðla en síðan nákvæmtlega það gagnstæða við fjölmiðla í múslimaríkjum. Í vestrænum fjölmiðlum hafa þeir kallað eftir því að reynt yrði að draga úr spennunni í málinu en á sama tíma haldið áfram að æsa upp hatur gegn Danmörku og öðrum vestrænum ríkjum í viðtölum við arabíska fjölmiðla. Þannig sagði áðurnefndur Abu Laban við dönsku sjónvarpsstöðina TV2 að hann hvetti múslima um allan heim að hætta að sniðganga danskar vörur, en sagði síðan við arabísku sjónvarpsstöðina Al-Jazeera að sniðganga múslima á dönskum vörum væri ánægjuleg. Trúarleiðtoginn Abu Bashar sagði við Jótlandspóstinn að teinkningamálið væri eingöngu mál á milli múslima og dagblaðsins en ekki á milli múslima og danskra stjórnvalda. Í samtali við dagblaðið Al Watan í Sádi Arabíu gagnrýndi hann hins vegar dönsku ríkisstjórnina harðlega fyrir að hafa ekki beðist afsökunar á teikningunum. Trúarleiðtoginn Mahmoud Fouad Al-Barazi sagði á fundi með Anders Fogh Rasmussen að hann vildi stuðla að betri aðlögun múslima í Danmörku, en gagrýndi síðan m.a. danska leikskóla í viðtali við egypska dagblaðið Al Ahram fyrir að kenna múslimskum börnum um danska menningu.

„Við viljum að dagblaðið [Jótlandspósturinn sem fyrst birti hinar umdeildu teikningar af Múhameð spámanni múslima í september sl.] heiti því að þetta muni aldrei gerast aftur, eða þetta mun aldrei enda.“ Þessu hótaði Ahmad Akkari, talsmaður múslimsku trúarleiðtoganna, í samtali við BBC. Að mati ráðherra innflytjendamála í dönsku ríkisstjórninni, Rikke Hvilshøj, hringja ummæli sem þessi viðvörunarbjöllum: „Það er alveg ljóst að við getum ekki treyst trúarleiðtogunum lengur ef við viljum að aðlögunin í Danmörku skili árangri,“ sagði hún nýverið.

Öfgasinnaðir múslimskir trúarleiðtogar eru annars víðar vandamál en í Danmörku. Á dögunum fagnaði Hamid Ali, sem er klerkur við moskuna í West Yorkshire í Englandi, hryðjuverkaárásunum á London sl. sumar (þar sem 56 manns létu lífið). Sagði hann þær hafa verið „af hinu góða“ í samtali við blaðamann brezka dagblaðsins Sunday Times sem villti á sér heimildir og tók samtalið upp. Þessi yfirlýsing gengur þvert á opinberar yfirlýsingar leiðtoga múslima í Bretlandi – þ.á.m. Hamid Alis – eftir hryðjuverkin þar sem þeir fordæmdu þau. Að vísu þótti sú yfirlýsing að margra mati koma nokkuð seint og aðeins eftir að margir höfðu ítrekað gagnrýnt múslimaleiðtogana fyrir að hafa ekki fordæmt hryðjuverkin.

Það er því greinilega víðar sem múslimskir trúarleiðtogar tala tveimur tungum en eingöngu í Danmörku.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is

Hér fyrir neðan sést mynd af pakistönskum konum mótmæla teikningunum af Múhameð í Islamabad í síðustu viku. Það virðast engin takmörk fyrir því hversu djúpt sumir eru greinilega tilbúnir að sökkva í mótmælum sínum.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Boð og bönn sem skerða frelsið

Samkvæmt frelsiskenningu Mills hefur ríkisvaldið ekki rétt á því að banna mönnum hluti sem viðkoma þeim sjálfum. Oft vilja þeir sem með valdið fara (oftast þingmenn) hafa vit fyrir fólkinu og setja lög sem þeir telja að séu því fyrir bestu. Við skulum taka örfá dæmi um slíkt á Íslandi.

Til voru lög á Íslandi sem bönnuðu neyslu áfengis. Góðtemplarar náðu því fram árið 1912 [1] að bann var sett við áfengissölu í landinu. Eftir að áfengisbannið komst á varð misnotkun á tilvísun lækna á áfengi til lækninga tilfinnanlega mikil. Nokkrir dómar féllu á lækna sem höfðu misnotað vald sitt, á árum eftir að vínbanninu var komið á. Á sama tíma og læknabrennivínið var í umferð, drukku menn svokallað iðnaðarbrennivín, Einnig voru dýralæknar grunaðir um að misnota aðstöðu sína. [2] Margir voru þeirra skoðunar, þ.á.m. Steingrímur Mattíasson læknir, að afnám bannlaganna væri nauðsynleg, og í raun mannúðlegri stefna í baráttunni gegn áfengisbölinu, sökum þess að menn hefðu verið að drekka t.d. tréspíruts og af því jafnvel misst sjónina og þaðan af verra t.d. liðið margvíslegt líkamleg tjón eða jafnvel dáið. [3]

Til að gera langa sögu stutta, menn sem vildu drekka urðu sér úti um áfengi á einn eða annan hátt. Að sjálfsögðu hætti ekki áfengisdrykkja heldur neyttu menn áfengis sem annað hvort hafði verið smyglað inn í landið eða þá bruggað í heimahúsum. Um leið og hluturinn var bannaður varð hann í raun hættulegri. Þá er nú skárra að ríkið leyfi, í þessu tilviki, drykkjuna og haldi uppi gæðaeftirliti sem fylgist með því að menn séu ekki að drekka eitur.

Þegar áfengisbannið var afnumið árið 1933 (næstum 20 árum eftir að það hafði verið sett á) voru nokkrir aðilar sem lögðu það til að sala og dreifing bjórs yrði bönnuð. Það fengu þeir í gegn og það var ekki fyrr en 1. mars árið 1989 sem sala bjórs var aftur heimiluð á Íslandi. Menn máttu sem sagt drekka áfengi með 40% vínanda en ekki öl með um 6% vínanda. Nokkuð þóf átti sér stað þegar tillögur voru upp á Alþingi um að afnema bannið við dreifingu og sölu bjórsins. Það voru sem sagt margir þingmenn sem voru á móti því að leyft yrði að selja bjór á Íslandi. [4] Hljómar það eitthvað kunnulega að þingmenn reyni að ákveða hegðun fólks í dag?

Um leið og íslenska ríkið rekur Áfengis- og tóbaksverslun Ríkisins, bannar það auglýsingar á slíkum vörum. Reyndar er það nú þannig í dag að allflestir Íslendingar hafa aðgang að erlendum fjölmiðlum , bæði prent- sjónvarpsmiðlum, og sjá þar bæði áfengis- og tóbaksauglýsingar. Reyndar endurvarpa íslenskar sjónvarpsstöðvar oft atburðum þar sem sjá má bæði áfengis- og tóbaksauglýsingar. Það þarf ekki annað en að kveikja á Formúlu 1 kappakstrinum (sem Ríkisútvarpið sýnir beint frá) eða horfa á enska boltann. Þrátt fyrir þetta eru ekki uppi áform á Alþingi um að breyta þessu. Aftur hefur ríkið með forsjárhyggju tekið sér ákvörðunarvald fyrir einstaklinginn.

Það eru tæplega tveir áratugir síðan útvarprekstur var gefinn frjáls á Íslandi.
Almenningi var bannað að starfrækja útvarps- og sjónvarpsstöðvar og nokkrum árum áður en að lögin voru afnumin höfðu menn verið dregnir fyrir dómstóla fyrir það að útvarpa „frjálsu” útvarpi.

En þetta er kannski ekki alveg svona einfalt. Ríkið setti sjónvarp og útvarp auðvitað í gang og því kannski eðlilegt að það væri með gamalt „einkaleyfi” undir höndum. En það voru hins vegar þingmenn sem börðust hatrammlega gegn því að útvarpsrekstur yrði gefinn frjáls.
Já, það voru í alvöru menn sem töldu að almenningi væri ekki treystandi til að starfrækja útvarp og sjónvarp. [5]

Þangað til fyrir örfáum árum mátti ekki stunda hnefaleika á Íslandi. Menn máttu stökkva úr flugvél með fallhlíf á bakinu, klífa jökla og fjöll, jú og auðvitað sparka hver í annan í fótbolta. En ekki stunda hnefaleika, sem þó eru viðurkennd íþrótt , þ.e.a.s. ól. hnefaleikar
Af hverju? Jú, einn daginn var ákveðið á Alþingi að banna hnefaleika á Íslandi. Um fimmtíu árum seinna var lagt fram frumvarp um að afnema þetta bann. Það gekk þó ekki átakalaust fyrir sig heldur fóru fram miklar umræður um þetta. [6]

Þessum dæmum hér á undan er velt upp til að sýna fram á að enn er langt í land að fullkomið frelsi einstaklinganna verði á Íslandi. Forsjárhyggjan er oft ríkjandi þegar kemur að málefnum borgaranna og oftar en ekki eru menn eða samtök sem vit ætla að hafa fyrir ,,alla hina.”

Þau bönn sem áður var minnst á eru ekki sett í sjálfsvörn. Í fæstum tilvikum þegar um slík bönn er að ræða hafa þau verið sett af meirihluta landsmanna til að vernda sjálfan sig frá hinu og þessu. Oftar en ekki eru það þingmenn sem annað hvort finna upp mál til að taka fyrir eða eru undir áhrifum ,,lobbíista” eða þrýstihópa um að banna hitt og þetta. Þannig er nú hugarfar margra ráðamanna, því miður.

Gísli Freyr Valdórsson

 

 

 

 

[1] Bannið tók reyndar ekki gildi fyrr en 1.janúar 1915 en tíminn sem leið þarna á milli var notaður til að ,,klára” birgðirnar sem til voru.

[2] Þar má t.d. nefna að Alþingismaður einn komst svo að orði árið 1921 að merkur kúafaraldur virtist vera í gangi. Kýrnar væru ákaflega drykkfelldar og þyrftu 5 lítra af spíritus til að hressa sig á.

[3] Guðjón Friðriksson, 1989, Kráarmenning í Reykjavík fyrir vínbann, (tímarit)

[4] Margir þeirra þingmanna sem sögðu nei við afnámi sölubannsins sitja enn á þingi í dag.

[5] Þetta brýtur þannig gegn frelsisreglu Mills að það skerðir tjáningarfrelsi einstaklinga.

[6] Það vildi reyndar svo til að leiðinda atvik kom upp nokkrum árum eftir að bannið var afnumið. Ungur strákur sem farið hafði í hringinn af fúsum og frjálsum vilja slasaðist í Vestmanneyjum. Ekki þurfti að bíða lengi eftir að Kolbrún Halldórsdóttir kæmi með tillögu sem yrði til þess að drengurinn slasaðist ekki aftur - setja lög í landinu sem bönnuðu honum að stunda íþróttina.


Hættum að hugsa sjálf; ríkið sér um okkur

Oftar en ekki sjáum við dæmi um hvernig hið opinbera ætlar að sjá um að hugsa fyrir okkur. Forsjárhyggjan ætlar oft að hlaupa með bæði stjórnmálamenn og embættismenn út í öfgar. Skýrt dæmi um þetta er frumvarp þingmanna Samfylkingarinnar á þessu kjörtímabili þar sem lagt var til að banna auglýsingar sem auglýstu ,,óhollar” vörur á milli kl. 18:00 – 21:00 þar sem þær gætu haft áhrif á börn. Af því að það eru einmitt börnin sem kaupa í matinn á heimilum.

Og lengra fer það. Hið opinbera ætlar ekki bara að segja okkur hvað má og hvað má ekki heldur ætlar það að hjálpa þeim ekki nenna að vera skynsamir. Í síðustu viku birtist þessi frétt um það á mbl.is að rætt hafi verið um að láta ókeypis smokka liggja frammi á heilsugæslustöðvum og í skólum landsins. Nema hvað að þetta er auðvitað ekki ókeypis frekar en svo margt annað sem hið opinbera ætlar að ,,bjóða” upp á.

Fréttin var unnin upp úr svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Guðrúnar Ögmundsdóttur, alþingismanns, um alnæmissmit. Auk þess kemur fram í fréttinni að einnig hafa verið ræddar hugmyndir um að auðvelda aðgengi að sprautum og nálum fyrir fíkniefnaneytendur sem sprauta sig. Reyndar er tekið fram að ráðuneytið sé með þessar hugmyndir til skoðunar en endanleg ákvörðun hefur ekki verið tekin.

Skilaboðin eru s.s. þessi: Hagið ykkur eins og þið viljið, látið skynsemina til hliðar, hið opinbera ætlar að hugsa um ykkur hvort eð er. Þeir skattgreiðendur sem ekki sprauta sig af eitulyfjum þurfa nú að gjöra svo vel og kaupa sprautur handa þeim sem farið hafa villu vegar í þessum málum. Nú má ekki skilja það svo að ég hefi enga vorkunn fyrir þeim sem hafa misstigið sig í lífinu. Fjarri fer því. En það er hins vegar óþarfi að skattgreiðendum sé sendur reikningur fyrir áframhaldandi neyslu eiturlyfjanotenda.

Annars er ég með ágætis hugmynd um lýðheilsumál. Eg held að það geti myndast þverpólitísk samstaða um þetta. Hið opinbera ætti að ríkisvæða Latabæ. Síðan væri hægt að fjöla starfsmönnum Lýðheilsustofnunar, svona fyrst að hún er til, og þeir starfsmenn gætu tekið saman ,,dagbækur” landsmanna um hvað þeir létu nú ofan í sig. Síðan fengi fólk punkta í formi örlítillar greiðslu frá ríkissjoð fyrir að borða epli og appelsínur en sektir eftir heimsókn á McDonalds eða KFC. Þeir sem voga sér að kveikja í sígerettu þurfa að sitja hjá í tvær vikur og fá ekki að vera með í leiknum, enda ekki mjög ,,þjóðfélagsvænir”.... það er hægt að leika sér með þessa hugmynd endalaust.

Svo væri líka hægt að skylda kaupmenn til að merkja vörur sínar eftir hollustu stöðlum Ríkisins. Rautt fyrir mjög óhollt, grænt fyrir mjög holt og allt þar á milli. Eg er alveg viss um að einhverjir embættismenn myndu hafa gaman að því. Í framhaldi af því væri hægt að setja nammigangana í búðum á bakvið lokaðar dyr sem aðeins mætti opna milli kl. 13 – 18 á laugardögum. Það er auðvitað ekki hægt að freista barnanna í hvert skipti sem farið er í búð. Nú eða þá bara að leggja enn hærri skatt á ,,óhollar” vörur. Svona til að stýra neyslunni aðeins.

Jæja, látum þessa vitleysu nægja í bili. Nú gæti einhver sagt að þetta væri komið út í vitleysu hjá mér. Orðið öfgakennt og ýkt. Sannleikurinn er hins vegar sá að flestar þessara hugmynda hafa komið frá stjórnmálamönnum, bæði erlendis og hér heima. Tja, nema kannski það að ríkisvæða Latabæ.
En það er kannski ekkert vitlausara en hver önnur forsjárhyggja.

Gísli Freyr Valdórsson


Mánudagspósturinn 13. febrúar 2005

Það telst varla til frétta lengur að Halldór Ásgrímsson tjái sig með jákvæðum hætti um þá hugmynd að Ísland gangi í Evrópusambandið. Ummæli hans í ræðu á ráðstefnu Viðskiptaráðs Íslands á dögunum, þar sem hann spáði því að Ísland yrði komið inn í sambandið árið 2015, hafa því varla komið neinum á óvart. Klárlega má gera ráð fyrir að Halldór myndi tjá sig enn jákvæðar um þessi mál ef ekki væri fyrir þær staðreyndir að bæði hans eigin flokkur og samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn eru andvígir aðild að sambandinu. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, fagnaði ummælum Halldórs eins og við var að búast og sagði samhljóm með eigin flokki og Framsóknarflokknum í þessu máli. Hið rétta er hins vegar að samhljómur er á milli Halldórs og Samfylkingarinnar í málinu – sem aftur er auðvitað ekkert nýtt.

Fjölmiðlar létu þó sumir eins og þarna væri á ferðinni rosaleg frétt. Fréttablaðið gekk sennilega hvað lengst og birti frétt á forsíðu sinni 9. febrúar sl. undir fyrirsögninni „Stjórnarflokkarnir eru ósamstíga um aðild að ESB“. Hvað er nýtt? Þetta er þó reyndar ekki rétt samanber það sem fram kemur hér að ofan. Framsóknarflokkurinn er einfaldlega ekki hlynntur því að ganga í Evrópusambandið, og ekki einu sinni að sækja um aðild, eins og berlega má lesa í ályktun flokksþings flokksins frá því fyrir ári. Það er svo allt annað mál hvaða persónulegu skoðanir Halldór Ásgrímsson kann að hafa á málinu. Halldór er vitanlega ekki flokkurinn þó einhverjir kunni að halda það og kannski hann sjálfur.

Það kemur heldur ekki á óvart að Halldór kvarti yfir skorti á umræðu um Evrópumálin á Íslandi. Eins og raunin er með aðra Evrópusambandssinna telst það væntanlega ekki umræða að mati Halldórs nema hún snúist um það að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið. Umræða sem leiðir til þeirrar niðurstöðu að Ísland eigi ekki erindi í sambandið er þannig ekki umræða og þ.a.l. er engin umræða í gangi um málið. Halldór kvartaði t.a.m. undan slíku umræðuleysi á vettvangi atvinnulífsins en eins og kunnugt er hafa Samtök atvinnulífsins komizt að þeirri niðurstöðu að aðild að Evrópusambandinu sé ekki fýsilegur kostur fyrir Íslands eins og sakir standa. Og það er ekkert einkennilegt þó ófáir hafi komizt að þeirri niðurstöðu.

Ísland stendur mikið sterkar að vígi utan Evrópusambandsins en í raun öll aðildarríki þess eins og t.a.m. alþjóðlegar úttektir á árangri ríkja hafa ár eftir ár sýnt. Ef eitthvað er er forskot Íslands í þeim efnum að aukast fremur en hitt. Efnahagslíf Evrópusamandsins er í mjög slæmum málum og ef eitthvað er í því sambandi þá fer því aðeins versnandi. Stöðnun ríkir, viðvarandi fjöldaatvinnuleysi er til staðar, hagvöxtur er víðast hvar lítill sem enginn o.s.frv. að miklu leyti vegna evrunnar og þeirra miðstýringar sem hún hefur í för mér sér. Og til að kóróna þetta allt eru miklar blikur á lofti varðandi framtíð evrusvæðisins að mati sérfræðinga og ganga sumir svo langt að spá endalokum þess innan fárra ára.

Það er einfaldlega ekkert sem bendir til þess að Ísland muni verða aðili að Evrópusambandinu innan tíu ára. Það er þvert á móti margfalt meiri líkur á að svo verði ekki. Spádómur Halldórs er því vægast sagt einkennilegur. Enda gat hann ekki fært nein rök fyrir því hvers vegna Ísland ætti að hafa gengið í sambandið fyrir þann tíma. Fyrir utan það að enginn veit hvernig sambandið muni líta út árið 2015 eins og Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, kom inn á á dögunum. Ekkert bendir til þess að Svíar, Danir og Bretar muni taka upp evruna sem gjaldmiðil á næstu árum eða bara yfir höfuð, eitthvað sem Halldór sagði hafa lykiláhrif í þessum efnum. Litlar sem engar líkur verða heldur að teljast á því að Evrópusambandið eigi eftir að láta af þeirri gríðarlegu miðstýringaráráttu sem alla tíð hefur einkennt það og færist sífellt meira í aukana. Og það er ekkert sem bendir til þess að Evrópusambandið eigi eftir að breyta sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sinni þannig að það muni henta Íslendingum eða bjóða upp á einhverjar sérlausnir í því sambandi.

Og fyrst komið er inn á sjávarútvegsmálin þá mætti bæta því við að á dögunum var Steingrímur S. Ólafsson, fjölmiðlafulltrúi ríkisstjórnarinnar, í viðtali við fréttavefinn Euobserver.com vegna ummæla Halldórs. Þar sagði hann m.a. (í minni þýðingu): „Það er alltaf einhver sem segir að við getum ekki gert þetta [gengið í Evrópusamandið] vegna sjávarútvegsmálanna og þar með er umræðunni lokið.“ Það vill nú svo til að Halldór Ásgrímsson er einmitt sjálfur einn þeirra sem hefur ítrekað útilokað aðild að Evrópusambandið þurfi Ísland að búa við sameiginlega sjávarútvegsstefnu sambandsins. Steingrímur gæti því allt eins verið að gagnrýna hann með þessum orðum sínum.

Þannig sagði Halldór t.a.m. í ræðu á Akureyri 10. september 2004: „Er eitthvert vit í því að krefjast þess að þjóð sem byggir afkomu sína á fiskveiðum afhendi yfirráðin yfir auðlindum sínum til aðila sem hefur sýnt að er óhæfur til að stjórna eigin auðlindum? Okkur hefur hvað eftir annað verið sagt að þetta sé það sem við þurfum að láta af hendi gegn inngöngu." Í viðtali við finnska dagblaðið Hufvudstadsbladet í júlí sama ár að tilgangslaust væri að velta því fyrir sér hvort Íslendingar sæki um aðild að Evrópusambandinu á meðan stefna sambandsins væri sú að fiskimið séu sameign aðildarríkjanna. Það að aðild að sambandinu sé ekki á dagskrá og henti ekki hagsmunum Íslendinga, m.a. og ekki sízt vegna sjávarútvegsmálanna, er einnig stefna ríkisstjórnarinnar sem Steingrímur kom fram sem fulltrúi fyrir í umræddu viðtali við Euobserver.com! Hvað gengur manninum eiginlega til?

Staðreyndin er einfaldlega sú að þegar allt kemur til alls er enginn áhugi fyrir því að ganga í Evrópusambandið á Íslandi, hvorki pólitískur né annar. Bakland Halldórs í þessu sambandi er svo gott sem ekkert. Íslenzkir Evrópusambandssinnar geta kvartað yfir því eins og þeir vilja að umræðan um Evrópumálin sé ekki á þeirra forsendum, talað um að Evrópusambandið sé bannorð á Íslandi eins og formaður Samfylkingarinnar gerði um áramótin, eða hvað annað. Það breytir því þó ekki að það er þeirra hlutverk að reyna að sannfæra fólk um meint ágæti þess að Íslandi gangi í Evrópusambandið en ekki annarra. Vissulega eru þeir ekki öfundsverðir af því hlutskipti en það er engu að síður það hlutskipti sem þeir hafa kosið sér. Þyki íslenzkum Evrópusambandssinnum ekki nógu mikið rætt um málaflokkinn frá þeirra hlið geta þeir ekki kennt öðrum um en sér sjálfum.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


Íslensk leyniþjónusta eða vanþekking vinstrimanna í öryggismálum?

Það er alveg einkennilegt að þingmenn og aðrir meðlimir Samfylkingarinnar skuli aldrei getað talað um öryggis og varnarmál öðruvísi en að hleypa upp umræðu sem á sér engar stoðir og henda fram gífuryrðum sem þeir sjálfir geta engan vegin útskýrt sjálfir.

Fyrir viku síðan lagði Björn Bjarnason dómsmálaráðherra fram minnisblað um frumvarp til breytinga á lögreglulögunum. Eins og fram kemur á heimasíðu ráðherrans er meginefni frumvarpsins stækkun lögregluumdæma og nýskipan þeirra. Eg vitna hér beint í heimasíðu Björns, ,,Í frumvarpinu er einnig (feitl höfundar) ákvæði um, að við embætti ríkislögreglustjóra [...] starfi greiningardeildir til að meta áhættu og sinna greiningu á því, sem tengist alþjóðlegri eða skipulagðri glæpastarfsemi og hryðjuverkastarfsemi. Með þessu er að því stefnt, að íslenska lögreglan ráði yfir svipuðum tækjum og lögheimildum og lögregla í nágrannaríkjunum, auk þess sem þetta lýtur að sérstökum rannsóknaraðferðum lögreglu, [...].

Það er ekkert óeðlilegt við það að dómsmálaráðherra landsins sé sífellt að vinna í því að efla öryggi borgaranna jafnframt því að vera stöðugt vakandi fyrir nýjum aðferðum við að efla löggæslu og uppræta almenna glæpastarfssemi. Telji hann að þörf sé að því að efla ákveðnar deildir innan lögreglunnar, tollgæslunnar, landhelgisgæslunnar og svo frv. er það hlutverk hans að sjá til þess að svo verði.

En það virðast ekki allir vera sammála um það. Í hvert skipti sem minnst er á eitthvað tengt uppbyggingu lögreglunnar eða á annað tengt öryggis og varnarmálum rísa hárin á vinstrimönnum og fyrr en varir er farið að tala um stríðsleiki og leyniþjónustur. Sérstaklega virðast þingmenn Samfylkingarinnar hafa horn í síðu Björns Bjarnasonar þegar farið er að ræða þessi mál. Björgvin G. Sigurðsson fer einmitt mikinn á heimasíðu sinni og í fréttatímum og segir dómsmálaráðherra vera að stofna íslenska leyniþjónustu.

Björgvin átelur ráðherrann fyrir að ætla að stofna til slíkrar ,,deildar” og getur sér til um inni hald frumvarpsins. Já, hann getur sér til um það því einhverra hluta vegna treysti hann sér til að tjá sig um málið í fréttum NFS síðustu helgi án þess þó að hafa séð frumvarpið sjálft. Hann gerir ósjálfrátt ráð fyrir að Björn Bjarnason ætli að stofna hér leyniþjónustu sem muni skv. orðum Björgvins fara ,,gegn friðhelgi einkalífs og athafnafrelsi með heimildum til hlerana og hverskonar gægjustarfsemi sem skoðanabræður Bjarnar, í líki Bush, hafa trommað upp með í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum.”

Hvaða rugl er þetta eiginlega? Af hverju getur maðurinn ekki bara fjallað um þetta með málefnalegum hætti eins og fullorðinn maður. Þetta er jafn barnalegt og þegar aðrir þingmenn Samfylkingarinnar sökuðu Björn um hervæðingu vegna fjölgunar stöðugilda í sérsveit lögreglunnar. Þingmennirnir tala og haga sér eins og þeir séu í framhaldsskóla pólitík. Er það óeðlilegt að í 300 þúsund manna samfélagi að hér starfi um 50 manna sérsveit? Er óeðlilegt að sjálfstæð þjóð hafi sterka og góða löggæslu á öllum sviðum? Þeir telja greinilega svo vera. Eða haga þeir sér svona eins og krakkar af því að frumvarpið kemur frá Birni Bjarnasyni?

Björgvin reyndar opinberar vanþekkingu sína og persónulega andúð á dómsmálaráðherra landsins þegar hann segir á síðu sinni, ,,en engan skyldi undra þó að öll viðvörunarljós blikki nú af fullum krafti þegar jafn mikil loðmulla og þetta kemur frá Birni Bjarnasyni.”

Einmitt. Þegar dómsmálaráðherra sinnir starfi sínu þá kvikna viðvörunarljós hjá þingmönnum Samfylkingarinnar. Ekkert er hins vegar að frétta af stefnu flokksins í þessum málum. Einhvern tímann skammaðist núverandi formaður yfir því að Íslendingar ættu ekki þyrlur sem gætu tekið eldsneyti á lofti. Það væri svo sem athyglisverð gagnrýni en ef að hún hefði eitthvað kynnt sér málin þá myndi hún vita að Bandaríkjamenn eru þeir einu sem hafa slíkan búnað til umráða. Ég er farinn að halda að ekki einn einasti maður hafi nokkuð vit á þessum málum í flokknum. Formaðurinn sjálfur virðist alla vega ekki hafa það og því kannski ekki hægt að gera kröfu um að aðrir í flokknum geri það.

Gísli Freyr Valdórsson


Hvers er að vænta í Ísrael og Palestínu?

Páll Skúlason fyrrverandi háskólarektor, sagði að gagnrýnin hugsun væri lykillinn að þekkingu í fílutímum um árið. Ég hef reynt að tileinka mér hana og reynt að beita sem tæki þar sem við á. Það er kannski ekki þörf á því við lestur Baggalúts en við fréttaáhorf er gott að reyna að skoða málin frá fleiri en einni hlið.

Undanfarin tíu ár hefur fréttaflutningur frá botni miðjarðarhafs verið einhliða. Það virðast engin takmörk á hörmungum Palestínumanna og hörku Ísraelsmanna, nánast allt var á einn veg í fréttatímanum, Palestínumenn góðir, Ísraelar vondir. Það er við þessi skilyrði þar sem maður á að spyrja spurninga, getur það verið, að allt sé eins og sagt er?


Vinasamtök Palestínu eru framarlega í fjölmiðlum en vinir Ísraels láta lítið fyrir sér fara.  Þetta allt hvetur mig til að skoða fleira en það sem berst frá Reuters, AP og palestínsku heimastjórninni. Ég hef að auki eina ómálefnalega ástæðu fyrir því að hafa varann á þegar vinasamtök Palestínu hér á landi hefja upp raust sína. Þar stendur fremst fólk sem sífellt hefur haft rangt fyrir sér í alþjóðamálum og þegar maður lítur yfir veg þeirra þá blasir við óbeit á því þjóðskipulagi sem við og nágrannar okkar búa við.  Ég trúi ekki orði af því sem fólk sem boðar einhliða afvopnun sem lausn gegn kommúnisma segir. Þetta eru kannski ekki málefnaleg rök en þau byggja á reynslu.


Línurnar eru ekki skýrar fyrir botni Miðjarðarhafs, þær liggja þvers og kruss.  Það eru þó nokkur atriði sem þarf að halda til haga þegar fjallað er um Ísrael og deilur arabaþjóða við Ísraelsmenn.


1. Ísrael er lýðræðisríki og þegnar landsins, gyðingar, kristnir og arabar geta kosið sér stjórnvöld.


2. Raunverulegt lýðræði er nánast óþekkt hugtak í þeim löndum sem umlykja Ísrael.


3. Þátttaka í stjórnmálum í Ísrael er ekki einskorðuð við gyðinga, þar taka þátt kristnir og múslímar. Gyðingum og oftast kristnum einnig, er meinuð stjórnmálaþátttaka í flestum ríkjum araba.


4. Stjórnarandstaða starfar í Ísrael.


5. Minnihlutahópar eiga lögvarin réttindi í Ísrael.


6. Ísrael er eina landið í þessum heimshluta þar sem samkynhneigðir njóta réttinda.


7. Það var Jórdaníukonungur sem skipaði hertöku Vesturbakkans og staðfastlega neitaði í tæp 20 ár að veita Palestínumönnum nokkra sjálfstjórn þar og reyndar ofsótti Palestínumenn af þrótti.


8. Einræðisherrar og ofbeldismenn fjármagna sjálfsmorðssprengjuárásir þannig að afkoma fjölskyldu morðingjans er trygg um alla tíð.


Að þessum örfáu atriðum sögðum þá mega menn ekki ruglast á þeirri aðstöðu sem Ísrael er í, rétti þeirra til að tryggja öryggi sitt og á skipulögðu ofbeldi. Ég er þeirrar skoðunar að þeir fari gjarnan offari, (stundum er það augljóst), en það má ekki gleymast að landið er í herkví og hefur verið frá stofnun þess.


Leiðtogar Ísraels eru ekki alltaf viðkunnanlegt fólk, en þeir hafa umboð sitt frá þegnum sínum. Hvaðan þiggja Sýrlandsforseti og Jórdaníukonungur umboð sitt? Þjóðarleiðtogar kalla eftir útrýmingu ísraelsku þjóðarinnar, börn eru send hlaðin sprengiefnum til að myrða saklausa, konum er gefið „tækifæri” til að rétta heiður fjölskyldunnar og drepa sig og aðra strætisvagnaferðalanga. Sápuóperur eru látnar snúast um gyðingatrúflokka sem leggja sér mannakjöt til munns. Þetta er fjármagnað af gjöfum og styrkjum vesturlandabúa.  Ef milljarðarnir sem Arafat stakk undan hefðu farið í að byggja skóla og heilsugæslu þá væri ástandið annað í Palestínu.


Mér dettur ekki í hug að halda því fram að Ísrael sé gósenland, því fer fjarri, þetta er land í herkví, með gallað pólitískt kerfi sem gefur ósveigjanlegum smáflokkum alltof mikil völd. En það er þó land þar sem þegnunum er treyst til að fara með sín mál sjálfir og velja sér stjórn. Ríki þar sem slíkt er ekki leyft eiga ekki upp á mitt pallborð.  Það er mjög áhugavert að fylgjast með hvernig mál eru að þróast núna, Írönum og Sýrlendingum er mikið í mun að reyna að koma í veg fyrir að til friðar horfi.  Sýrlendingar eru að reyna að beina athyglinni frá vandræðum sínum í Líbanon og forseta Íran virðist vera mest í mun að verða óskoraður „óvinur Bandaríkjanna númer eitt. “


Ef Ísraelar og Palestínumenn fá að vinna úr sínum málum með stuðningi aðþjóðasamfélagins en litlum afskiptum, þá er einhvers að vænta.  Ef blóðþyrstum einræðisherrum er haldið í skefjum eða þeim kennd lexía þá er einhvers að vænta. Ef alþjóðasamfélagið styður Íraka til sjálfstjórnar og lýðræðis, þá er einhvers að vænta.  Ef Írak er látið afskiptalaust þá er öruggt að allt fer á verri veg en var og Palestínumenn munu fyrstir bera skarðan hlut frá því borði.


Friðjón R. Friðjónsson
fyrrum varaformaður SUS og áhugamaður um frið.

Greinin birtist áður í Íslenska leiðin - blaði stjórnmálafræðinema við HÍ


Næsta síða »

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband