Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2006
Mánudagur, 6. febrúar 2006
Mánudagspósturinn 6. febrúar 2005
Teikningamálið svokallað hefur sennilega ekki farið framhjá neinum undanfarna daga eins áberandi og það hefur verið í fjölmiðlum síðan það komst í hámæli um síðustu helgi. Málið er þó mun eldra en það og hefur verið í gangi allt frá því danska dagblaðið Jótlandspósturinn birti tólf skopmyndir af Múhameð spámanni múslima í lok september á síðasta ári. Tilgangur blaðsins var að kanna stöðu tjáningafrelsis í landinu eftir að hafa orðið þess áskynja að danskir teiknarar þyrðu ekki að teikna Múhameð af ótta við ofbeldi af hálfu róttækra múslima, en samkvæmt íslam er bannað að myndgera hann. Ekki er ætlunin að fara að fara yfir alla forsögu málsins að öðru leyti enda hefur málið nú heldur betur fengið athygli heimspressunar eftir að hún svo gott sem hunzaði það mánuðina á undan. Flestir ættu því að vera meðvitaðir um þá öldu ofbeldisaðgerða og mannfyrirlitningar sem róttækir múslimar hafa gripið til gegn Evrópumönnum á undanförnum dögum en þó einkum frændum okkar Dönum.
Söguleg ástæða bannsins við því að myndgera Múhameð mun vera ótti við skurgoðadýrkun á meðal múslima. Reyndar er sömuleiðis bannað samkvæmt íslam að myndgera Jesú Krist, Móse og Abraham sem múslimar líta sömuleiðis á sem spámenn. Þeir hafa þó hingað til ekki krafizt þess að látið yrði af því á Vesturlöndum að myndgera þá og virðast hafa getað unað því án þess að bregðast við eins og raunin hefur verið vegna teikninganna í Jótlandspóstinum. Reyndar munu vera mjög skiptar skoðanir innan íslamska heimsins hvort í lagi sé að myndgera Múhameð og aðra þá sem múslimar líta á sem spámenn. Fyrir vikið hafa allir þessir aðilar ósjaldan verið myndgerðir í gegnum aðildarnar án þess að það hafi haft sérstakar afleiðingar og þ.á.m. af múslimum. Það þarf ekki einu sinni að fara langt aftur í tímann til að finna fjölmörg dæmi um að geðar hafi verið myndir af Múhameð í einu eða öðru sambandi án þess að það hafi kallað á einhver viðbrögð úr röðum múslima eins og ýmsir hafa orðið til að benda á að undanförnu.
Einhver kann að segja að annað sé um að ræða í tilfelli dönsku skopmyndanna þar sem um er jú að ræða skopmyndir. Staðreyndin er hins vegar sú að þessar myndir eru sárasaklausar samanborið t.d. við myndir sem birtast daglega í arabískum dagblöðum þar sem trúarleg tákn kristinna manna og gyðinga eru móðguð gróflega. Gyðingar eru sýndir á staðlaðan hátt með stór bogin nef og ósjaldan étandi börn eða drekkandi blóðið úr þeim svo dæmi sé tekið. Þetta þykir ófáum múslimum greinilega í góðu lagi en verða síðan brjálaðir (þegar það hentar þeim greinilega) ef birtar eru myndir af Múhameð. Tvöfeldnin er alger. Margir líta annars svo á að söguleg ástæða banns íslam við myndbirtingu Múhameðs sýni með skýrum hætti að því sé í rauninni aðeins beint að múslimum sjálfum, enda ólíklegt að aðrir en þeir sem aðhyllast íslam fari að tilbiðja líkneski eða myndir af honum.
Deilan um skopmyndirnar í Jótlandspóstinum byggist annars fyrst og síðast á árekstri ólíkra menningarheima, ólíkra hugmynda um lífið og tilveruna og hvernig hlutirnir eigi að ganga fyrir sig í samfélaginu. Á sama tíma og okkur vesturlandabúum tókst á löngum tíma og ósjaldan með miklum erfiðismunum að koma á ákveðinni aðgreiningu á milli verandlegs og andlegs valds er þetta allt í einum graut eins og einhver orðaði það víðast hvar í hinum íslamska heimi; stjórnmál, trúmál og fjölmiðlar. Frelsi fjölmiðla í þessum heimi er á vestrænan mælikvarða fyrir vikið yfirleitt ekki upp á marga fiska. Það er því sennilega nokkuð ljóst að skopmyndir Jótlandspóstsins eru aðeins brot af miklu stærra máli, uppsafnaðri spennu á milli ólíkra heima sem öfgamenn í röðum múslima hafa séð sér hag í að losa um með því að blása málið upp í hinum íslamska heimi með lygum, blekkingum og röngum upplýsingum um málið.
Fyrir ófáum múslimum er það því ekkert óeðlilegt að ríkisvaldið ritskoði fjölmiðla ef þannig ber undir. Kröfur róttækra múslima um að dönsk stjórnvöld beiti sér gegn Jótlandspóstinum og ritskoði hann koma því ekki beint á óvart. Slíkt þykir okkur á vesturlöndum út í hött og ekki koma til greina. Múslimar taka að auki flestir trú sína mjög alvarlega enda allajafna innprentað það allt frá bernsku. Þess utan skilst mér að t.a.m. í Saudi-Arabíu sé það hreinlega dauðasök að hverfa frá íslam. Trúin skiptir múslima þannig séð almennt miklu meira máli en tjáningarfrelsið eða prentfrelsið. Múslimum er einfaldlega kennd skilyrðislaus virðing fyrir trú sinni sem í sjálfu sér er vitanlega ekkert óeðlilegt. Hins vegar gera þeir ófáir þá kröfu einnig til allra annarra að þeir virði íslam með sama hætti og þeir sjálfir.
Frá lýðræðislegum sjónarhóli er sú krafa hins vegar algerlega óásættanleg. Ekki aðeins vegna þessað okkar skilningur á tjáningarfrelsinu felur í sér frjálst val um það hvaða skoðanir við höfum á hlutunum, þ.m.t. trúarbrögðum, heldur einnig og ekki síður vegna þess að maður getur ekki borið virðingu fyrir trúarbrögðum (frekar en skoðunum) sem maður telur röng. Frá lýðræðislegum sjónarhóli er hins vegar hægt að bera virðingu fyrir rétti manna til að aðhyllast þau trúarbrögð sem þeir kjósa alveg eins og maður getur virt rétt manna til að hafa þær skoðanir sem þeir kjósa jafnvel þó maður fyrirlíti skoðanirnar sem slíkar. Ástæðan fyrir þessu er auðvitað sú einfalda staðreynd að þó skoðanir fólks eða trúarbrögð geti verið mismunandi þá er réttur þess til að aðhyllast þau trúarbrögð sem það kýs eða hafa þær skoðanir sem það kýs hinn sami í lýðræðislegu samfélagi.
Það má deila um það hvort rétt eða skynsamlegt hafi verið af Jótlandspóstinum að birta skopmyndirnar umdeildu en það breytir því ekki að frá lýðræðislegum sjónarhóli var blaðið í fullum rétti til þess. Ákvörðunin var ritstjórnar blaðsins og annarra ekki. Þannig virkar prentfrelsið. En frelsi fylgis alltaf ábyrgð og hún felst í því að Jótlandspósturinn í þessu tilfelli, eins og aðrir, þarf að bera ábyrgð á gjörðum sínum og ákvörðunum fyrir dómi ef þannig ber undir. Dagblað eins og Jótlandspósturinn gæti ennfremur staðið frammi fyrir því að lesendur þess hættu að kaupa það í hópum vegna þess að þeim líkaði ekki vinnubrögð þess. Eða, eins og gerðist hér á landi fyrir skömmu, að safnað væri undirskriftum þar sem skorað væri á blaðið að breyta ritstjórnarstefnu sinni eða biðjast jafnvel afsökunar á einhverju. Það er einu sinni mikill munur á því að skora á ritstjórn dagblaðs við slíkar aðstæður og krefjast einhvers af því eins og gert var í Danmörku. Ákvörðunin er síðan algerlega þeirra sem standa að viðkomandi blaði.
Þetta eru dæmi um þær lýðræðislegu og friðsömu leiðir sem hægt er að fara til að lýsa skoðun sinni á því efni sem fjölmiðlar kjósa að birta. Það þarf hins vegar ekki að fara mörgum orðum um hversu forkastanleg þau viðbrögð eru sem við höfum orðið vitni að á undanförnum dögum við skopmyndum Jótlandspóstsins. Málið í kringum skopmyndirnar snýst þannig í grundvallaratriðum um að standa vörð um vestrænt tjáningafrelsi hvað sem mönnum annars kann að finnst um birtingu myndanna sem slíkra. Það má því með sanni segja að við séum öll Danir núna!
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
(Myndirnar hér að ofan eru frá mómælagöngu róttækra múslima í London á dögunum)
Mánudagspósturinn | Breytt 27.4.2007 kl. 23:29 | Slóð | Facebook
Föstudagur, 3. febrúar 2006
Fáir hægri menn í Sjálfstæðisflokknum á Akureyri
Fríður og breiður hópur miðju manna berst nú um sætin í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Akureyri. Það væri óskandi að einu kratarnir í framboði væru þau Oktavíu Jóhannesdóttir og Sigurbjörn Gunnarsson sem bæði eru ný gengin í flokkinn og eru yfirlýstir kratar. En svo er ekki. Sjálfstæðisflokkurinn er víða orðinn einhverskonar krata flokkur.
Í Íslendingi (blaði Sjálfstæðisfélaganna á Akureyri) kynna frambjóðendur sig í stuttu máli, og óhætt er að segja að ekki fari mikið fyrir hægri sjónarmiðum.
Stefnumálin eru misjöfn, og hér koma nokkur dæmi: Hið opinbera á að skaffa stóriðju, stofnanir og stjórnsýslu til Akureyrar. (Stofnanir mega vera á Akureyri fyrir mér, en best væri auðvitað að leggja sem flestar af þeim niður.) Leikskólar eiga að vera ,,gjaldfrjálsir (sem þýðir á manna máli að það lendir á þeim sem ekki nýta leikskólanna að borga fyrir þjónustuna), sumir tala um umhverfismál, skipulagsmál og góða skóla, og þeir betri jafnvel um valfrelsi í skólamálum. Heitasta málið er að sjálfsögðu loforð um félagslegar úrbætur fyrir aldraða. Það má gera vel við aldraða, en hvar eru hægri áherslunnar? Einu sinni var Sjálfstæðisflokkurinn nú sagður vera til hægri.
Hjarta hægri stefnunnar er að tryggja að menn fái notið ávaxta verka sinna. Það fá menn ekki gert meðan að krumlur sveitafélagsins seilast með áfergju í vasa fólks í formi hárra fasteignagjalda, hámarks útsvars og ýmiskonar gjalda. Hægri flokkur á að leggja höfuð áherslu á aðhald í rekstri sveitafélagsins, svo hægt sé að lækka álögur og gjöld. Einstaklingarnir eiga að fá að halda eftir sem mestu af eigin fé, og stjórnmálamennirnir að fá sem minnst.
Af 20 frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins er aðeins einn einasti maður sem nefnir aðhald og lægri gjöld. Það er Guðmundur Egill Erlendsson. Í stefnuyfirlýsingu Guðmundar segir: ,,Meira aðhald - Með endurskoðun útgjalda bæjarins er hægt að lækka fasteignaskatta og gjöld. Þessi setning er eins og vin í félagshyggju eyðimörk Íslendings. Þetta er þó engan veginn róttæk eða nýstárleg hugsun bara eðlileg klassísk Sjálfstæðishugsun.
Þess má reyndar geta að skrímsli nokkurt sem heitir Jöfnunarsjóður sveitarfélaga gerir sveitarfélögum erfitt fyrir með að lækka útsvarið. Þau sveitarfélög sem ekki eru með hámarks útsvar fá minni framlög úr sjóðnum. Af þessum sökum veigra menn sér við að lækka útsvarið. Þannig hefur hinu opinbera tekist að búa til stofnun sem tryggir hámarks skattpíningu sem víðast. Skattpíningasjóður sveitarfélaganna.
Það er augljóst að hægri menn ættu að fylkja sér um Guðmund Egil. Hann er eini maðurinn sem hefur dug til að boða meira aðhald og lægri gjöld.
Stjórnmál - almennt | Breytt 27.4.2007 kl. 23:30 | Slóð | Facebook
Miðvikudagur, 1. febrúar 2006
Verum góð við múslima annars...
Vesturlöndin eiga að lifa í ótta við múslima í dag. Það eru allavega skilaboðin sem okkur berast frá miðausturlöndum daglega nú orðið. Eins og flestir hafa tekið eftir rennur nú heitt blóð á svæðinu vegna skopteikninga um Múhameð spámann. Það er ekki nóg með að danskar vörur hafi verið fjarlægðar úr verslunum í múslimaríkjunum heldur hópast almenningur nú út á götur, brennir danska fánann (og þann norska ef hann er við höndina) og kallar á hefndir fyrir niðurlægingu ,,spámannsins sem var víst svona móðgaður.
Nú á auðvitað ekki að gera lítið úr trú manna, en það þýðir ekki að það sé bannað að gera grín að (og jafnvel gera lítið úr) trúarbrögðum yfir höfuð. Við sem erum kristin hoppum ekki hæð okkar þó einhver geri lítið úr frelsara okkar. Hann er ekkert minni frelsari fyrir vikið og trúin er alveg sú sama. Nú má vel vera að Múhameð spámaður þurfi á vörninni að halda. Hann er kannski minni maður við það að einhver teikni mynd af honum, og hvað þá grínmynd. Hann er kannski bara með minnimáttarkennd yfir því að það var víst Jesús einn sem reis upp frá dauðum á þriðja degi. Eg man allavega ekki eftir því að Muhammed hafi tekist það.
Í sumum löndum miðausturlanda er verið að þjálfa unga menn til að fremja hryðjuverk einn daginn. Allt í nafni Allah. Þeim er kennt að vesturlandabúar og aðrir ,,heiðingjar séu vondir og þar með réttdræpir. [1] Eilíf himnavist og fjöldinn allur af hreinum meyjum fylgir víst með í kaupunum ef þér tekst að deyja svokölluðum píslavottardauða. Öll vestræn gildi eru einskis metin. Konur hafa nánast engin réttindi. Hommar eru annaðhvort niðurlægðir eða líflátnir. Að sama skapi er umburðarlyndið gagnvart kristnum ekkert.
Á vesturlöndum (og þar er Ísland engin undantekning) er sífellt tönglast á því að við verðum að virða aðra menningarheima og alls ekki, alls ekki gera lítið úr islamstrú. Við lærum að þrátt fyrir menn eins og Osama bin Laden sé islamstrú í heild sinni friðsamleg trú og að lítið mál sé fyrir krisna og múslima að búa saman í sátt og samlyndi. Nú vil ég alls ekki halda því fram að islam sé ekki friðsamleg trú en umburðalynd er hún ekki. Það eitt er víst.
Í miðausturlöndum er í lagi að kalla fram á útrýminga heilla þjóða, s.s. Ísraels, kalla á dauða ákveðinna stjórnmálamanna og brenna fána vestrænna þjóða. En að vestrænir menn teikni myndir af spámanninum eða fjalli á einhvern hátt gagnrýnið um íslam? Nei, það er bannað. Þá er sendiráðunum lokað, vörur fjarlægðar og sendar sprengjuhótanir.
Við skulum samt ekki gleyma því að þetta var byrjað áður en ráðist var inn í Írak árið 2003 og þetta var byrjað áður en Bush var kosinn forseti. Osama bin Laden og hans líkir hata ekki aðeins Clinton eða Bush, þeir hata vestræn gildi og allt sem við stöndum fyrir.
Og allir verða hræddir ef einhver ögrar múslimum. Og það er ekki af virðingu við trúarbrögðin, það vill bara enginn verða sprengdur í loft upp.
[1] Þetta á auðvitað ekki við um alla múslima en þessi skoðun er hins vegar útbreidd meðal margra múslima og á henni vinna hryðjuverkamenn.
Mið-austurlönd | Breytt 27.4.2007 kl. 23:31 | Slóð | Facebook
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004