Leita í fréttum mbl.is

Hvers er að vænta í Ísrael og Palestínu?

Páll Skúlason fyrrverandi háskólarektor, sagði að gagnrýnin hugsun væri lykillinn að þekkingu í fílutímum um árið. Ég hef reynt að tileinka mér hana og reynt að beita sem tæki þar sem við á. Það er kannski ekki þörf á því við lestur Baggalúts en við fréttaáhorf er gott að reyna að skoða málin frá fleiri en einni hlið.

Undanfarin tíu ár hefur fréttaflutningur frá botni miðjarðarhafs verið einhliða. Það virðast engin takmörk á hörmungum Palestínumanna og hörku Ísraelsmanna, nánast allt var á einn veg í fréttatímanum, Palestínumenn góðir, Ísraelar vondir. Það er við þessi skilyrði þar sem maður á að spyrja spurninga, getur það verið, að allt sé eins og sagt er?


Vinasamtök Palestínu eru framarlega í fjölmiðlum en vinir Ísraels láta lítið fyrir sér fara.  Þetta allt hvetur mig til að skoða fleira en það sem berst frá Reuters, AP og palestínsku heimastjórninni. Ég hef að auki eina ómálefnalega ástæðu fyrir því að hafa varann á þegar vinasamtök Palestínu hér á landi hefja upp raust sína. Þar stendur fremst fólk sem sífellt hefur haft rangt fyrir sér í alþjóðamálum og þegar maður lítur yfir veg þeirra þá blasir við óbeit á því þjóðskipulagi sem við og nágrannar okkar búa við.  Ég trúi ekki orði af því sem fólk sem boðar einhliða afvopnun sem lausn gegn kommúnisma segir. Þetta eru kannski ekki málefnaleg rök en þau byggja á reynslu.


Línurnar eru ekki skýrar fyrir botni Miðjarðarhafs, þær liggja þvers og kruss.  Það eru þó nokkur atriði sem þarf að halda til haga þegar fjallað er um Ísrael og deilur arabaþjóða við Ísraelsmenn.


1. Ísrael er lýðræðisríki og þegnar landsins, gyðingar, kristnir og arabar geta kosið sér stjórnvöld.


2. Raunverulegt lýðræði er nánast óþekkt hugtak í þeim löndum sem umlykja Ísrael.


3. Þátttaka í stjórnmálum í Ísrael er ekki einskorðuð við gyðinga, þar taka þátt kristnir og múslímar. Gyðingum og oftast kristnum einnig, er meinuð stjórnmálaþátttaka í flestum ríkjum araba.


4. Stjórnarandstaða starfar í Ísrael.


5. Minnihlutahópar eiga lögvarin réttindi í Ísrael.


6. Ísrael er eina landið í þessum heimshluta þar sem samkynhneigðir njóta réttinda.


7. Það var Jórdaníukonungur sem skipaði hertöku Vesturbakkans og staðfastlega neitaði í tæp 20 ár að veita Palestínumönnum nokkra sjálfstjórn þar og reyndar ofsótti Palestínumenn af þrótti.


8. Einræðisherrar og ofbeldismenn fjármagna sjálfsmorðssprengjuárásir þannig að afkoma fjölskyldu morðingjans er trygg um alla tíð.


Að þessum örfáu atriðum sögðum þá mega menn ekki ruglast á þeirri aðstöðu sem Ísrael er í, rétti þeirra til að tryggja öryggi sitt og á skipulögðu ofbeldi. Ég er þeirrar skoðunar að þeir fari gjarnan offari, (stundum er það augljóst), en það má ekki gleymast að landið er í herkví og hefur verið frá stofnun þess.


Leiðtogar Ísraels eru ekki alltaf viðkunnanlegt fólk, en þeir hafa umboð sitt frá þegnum sínum. Hvaðan þiggja Sýrlandsforseti og Jórdaníukonungur umboð sitt? Þjóðarleiðtogar kalla eftir útrýmingu ísraelsku þjóðarinnar, börn eru send hlaðin sprengiefnum til að myrða saklausa, konum er gefið „tækifæri” til að rétta heiður fjölskyldunnar og drepa sig og aðra strætisvagnaferðalanga. Sápuóperur eru látnar snúast um gyðingatrúflokka sem leggja sér mannakjöt til munns. Þetta er fjármagnað af gjöfum og styrkjum vesturlandabúa.  Ef milljarðarnir sem Arafat stakk undan hefðu farið í að byggja skóla og heilsugæslu þá væri ástandið annað í Palestínu.


Mér dettur ekki í hug að halda því fram að Ísrael sé gósenland, því fer fjarri, þetta er land í herkví, með gallað pólitískt kerfi sem gefur ósveigjanlegum smáflokkum alltof mikil völd. En það er þó land þar sem þegnunum er treyst til að fara með sín mál sjálfir og velja sér stjórn. Ríki þar sem slíkt er ekki leyft eiga ekki upp á mitt pallborð.  Það er mjög áhugavert að fylgjast með hvernig mál eru að þróast núna, Írönum og Sýrlendingum er mikið í mun að reyna að koma í veg fyrir að til friðar horfi.  Sýrlendingar eru að reyna að beina athyglinni frá vandræðum sínum í Líbanon og forseta Íran virðist vera mest í mun að verða óskoraður „óvinur Bandaríkjanna númer eitt. “


Ef Ísraelar og Palestínumenn fá að vinna úr sínum málum með stuðningi aðþjóðasamfélagins en litlum afskiptum, þá er einhvers að vænta.  Ef blóðþyrstum einræðisherrum er haldið í skefjum eða þeim kennd lexía þá er einhvers að vænta. Ef alþjóðasamfélagið styður Íraka til sjálfstjórnar og lýðræðis, þá er einhvers að vænta.  Ef Írak er látið afskiptalaust þá er öruggt að allt fer á verri veg en var og Palestínumenn munu fyrstir bera skarðan hlut frá því borði.


Friðjón R. Friðjónsson
fyrrum varaformaður SUS og áhugamaður um frið.

Greinin birtist áður í Íslenska leiðin - blaði stjórnmálafræðinema við HÍ


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband