Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 15. ágúst 2005

Páll Magnússon, nýskipaður útvarpsstjóri, lýsti þeirri skoðun sinni á dögunum að hann teldi að æskilegt væri að Ríkisútvarpið færi af auglýsingamarkaði og auk þess að búið yrði þannig um hnútana að stofnunin yrði almennt ekki í samkeppni við einkaaðila um efni. Ummæli Páls féllu í misjafnan jarðveg eins og eðlilega er þegar um er að ræða eins umdeilt efni og það hvernig eigi að hátta rekstrarformi Ríkisútvarpsins. Í nýlegri ályktun fagnaði Samband ungra sjálfstæðismanna ummælunum og hvatti ennfremur til þess að gengið yrði skrefi lengra og stofnunin einkavædd. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa hins vegar gefið lítið fyrir ummælin.

Samtök auglýsenda eru heldur ekki par hrifin af hugmyndum Páls um að Ríkisútvarpið eigi að fara af auglýsingamarkaði og hafa lýst sig alfarið andvíg þeim. Yfirlýsing þess efnis birtist í Blaðinu sl. fimmtudag og í Morgunblaðinu í gær sunnudag. Má með sanni segja að þar séu ótrúlegustu hlutir tíndir til í því skyni að mála skrattann á vegginn yrðu hugmyndir Páls að veruleika. Efni yfirlýsingarinnar gengur síðan að stóru leyti út á að reyna að sýna fram á að sú breyting myndi koma sér illa fyrir almenning. Mætti helzt halda að einhver mannréttindasamtökin hefðu samið hana en ekki hagsmunasamtök íslenzkra auglýsenda sem eðli málsins samkvæmt hafa þann tilgang einan að standa vörð um hagsmuni sinna félagsmanna.

Samtökin segja þannig t.a.m. að ef Ríkisútvarpsins nyti ekki við á auglýsingamarkaði myndi aðgengi auglýsenda að almenningi minnka þar sem miðlar stofnunarinnar nái augum og eyrum flestra landsmanna auk fólks sem ekki sé hægt að ná til nema í gegnum þá. Ennfremur að erfiðara yrði fyrir almenning að afla sér upplýsinga um vörur og þjónustu yrði þetta raunin. Gera má þó fastlega ráð fyrir að flestir landsmenn yrðu eftir sem áður færir um að nálgast auglýsingar í gegnum aðra miðla þó Ríkisútvarpið hyrfi af auglýsingamarkaði þrátt fyrir augljósa vantrú Samtaka auglýsenda á getur þeirra í þeim efnum.

Samtökin telja ennfremur að brotthvarf Ríkisútvarpsins af auglýsingamarkaði myndi leiða til þess að dýrara yrði fyrir auglýsendur að koma skilaboðum sínum á framfæri við neytendur. Framboð auglýsingatíma myndi minnka með tilheyrandi verðhækkunum til auglýsenda sem aftur myndi leiða til hækkunar á verði á vöru og þjónustu þar sem auglýsendur þyrftu að leita dýrari leiða til að koma upplýsingum um vöru sína og þjónustu á framfæri. Ekki er þó greint frá því í hverju þessi aukni kostnaður myndi felast, hvort verðið hjá Ríkisútvarpinu sé svona miklu hagstæðara eða hvað. Verður að telja ólíklegt að svo sé eða að það liggi til grundvallar þessum orðum.

Engin ástæða er þó til þess að ætla að ekki yrði nógir til að fylla þau skörð á íslenzkum auglýsingamarkaði sem sköpuðust við brotthvarf Ríkisútvarpsins af honum og tryggja þannig eðlilega samkeppni eftir sem áður sem og nægt framboð á auglýsingatíma. Það er því út í hött að ætla að kostnaður auglýsenda myndi hækka við þá breytingu. Hún myndi einmitt auka svigrúm einkaaðila á auglýsingamarkaði, eins og fram kemur í ályktun SUS, og leiða til þess að einkaframtakið fengi að njóta sig enn frekar á markaði sem Ríkisútvarpið hefur allt of lengi sett mark sitt á. Samtök auglýsenda hafa hins vegar ákveðið að gefa sér þá forsendu fyrirfram í yfirlýsingu sinni að einkaaðilar myndu ekki geta fyllt skarð Ríkisútvarpsins hyrfi það af auglýsingamarkaði og að notkun almennings á öðrum miðlum, í því skyni að nálgast auglýsingar, myndi ekki aukast við það.

Samtökin segja svo að það myndi leiða til hærri afnotagjalda ef Ríkisútvarpið yrði tekið af auglýsingamarkaði miðað við óbreyttar rekstrarforsendur. Tilgangurinn með þessu virðist vera sá einn að fá fólk upp á móti hugmyndinni, enda ekkert gefið að þessi breyting myndi þýða hækkun á afnotagjöldum. Þannig væru aukin framlög frá ríkinu líka möguleg leið þó það hvarfli auðvitað ekki að mér að mæla með því. SUS benti einmitt á í ályktun sinni um málið að samhliða því að Ríkisútvarpið færi af auglýsingamarkaði ætti að draga úr umsvifum stofnunarinnar og þar með útgjöldum. Það kæmi auk þess ekki til greina að henni yrðu “bættar upp” þær tekjur sem hún yrði af með þeirri breytingu með auknum álögum á landsmenn. Það er því alger óþarfi að vera að hræða fólk með hærri afnotagjöldum yrði Ríkisútvarpið tekið af auglýsingamarkaði.

Nálgun Samtaka auglýsenda á málinu felur reyndar í sér ákveðna þverstæðu þar sem yfirlýsing þeirra gengur að miklu leyti út á einhvern meintan rétt almennings á að hafa aðgang að auglýsingum. Á sama tíma telja samtökin að almenningur myndi ekki auka notkun sína á öðrum fjölmiðlum sem byðu upp á auglýsingar væri Ríkisútvarpið tekið af auglýsingamarkaði. Það er því ekki hægt að skilja þetta öðruvísi en svo að það sé mat Samtaka auglýsenda að almenningur á Íslandi sækist ekkert sérstaklega eftir því að sjá eða heyra auglýsingar, annars myndi hann væntanlega reyna að bæta sér það upp að Ríkisútvarpið hætti að sýna auglýsingar með því að leita í auknum mæli annað. Þetta gengur auðvitað ekki upp. Þarna er aðeins verið að beita almenningi fyrir sig eigin hagsmunum til framdráttar.

Að lokum er rétt að nefna síðustu ástæðuna sem Samtök auglýsenda nefndu í yfirlýsingu sinni því til réttlætingar að Ríkisútvarpið yrði áfram á auglýsingamarkaði. „Og að síðustu má ekki gleyma því að auglýsingar hafa, auk upplýsingahlutverksins, ákveðið afþreyingar- og skemmtanagildi, og geta jafnvel lengt líf fólks ef rétt er að hláturinn lengi lífið eins og rannsóknir benda til!“ Þessi síðasta setning segir sennilega meira en margt annað um hriplekan málflutning Samtaka auglýsenda í þessum efnum og örvæntingarfulla viðleitni þeirra til að tína ótrúlegustu hluti til í því skyni að réttlæta þá afstöðu sína að ríkið eigi áfram að vera í samkeppni við einkaaðila á íslenzkum auglýsingamarkaði.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband