Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2005

Hryðjuverkaárás í London – mikilvægi samstöðu

Tugir almennra borgara létu lífið í fjórum sprengingum í London í gærmorgun og fjölmargir særðust lífshættulega. Heimsbyggðin stendur sem felmtri slegin eftir þessi mannskæðu hryðjuverk í miðborg London, sem skaða saklausa borgara og er beint að þeim þáttum sem veldur mestum skaða, samgöngukerfi Lundúnaborgar. Mannlífið í borginni hefur farið úr skorðum sínum eftir hryðjuverkaárásina. Erfitt er að komast um, umferðarhnútur hefur myndast á milli staða og með því að lama neðanjarðarlestakerfið eru auðvitað lamaðar samgöngur á mikilvægum punktum í borginni. Margir höfðu lengi búist við að hryðjuverkamenn myndu láta til skarar í Bretlandi, en þegar það gerðist varð undrun fólks þess því meiri. Áfallið er mikið og breskt samfélag er sem lamað eftir árásirnar. Lengi hefur al-Qaeda talað um að ráðast á Bretland og nú hefur það gerst, illu heilli. Lögreglu hafði ekki borist viðvörun um að hryðjuverk væru yfirvofandi. Kemur þetta hryðjuverk sem þruma úr heiðskíru lofti eftir að London var í vikunni valin sem vettvangur Ólympíuleikanna árið 2012.

Áður óþekkt sella sem tengir sig við al-Qaeda hryðjuverkasamtökin hefur nú lýst þessu hryðjuverki á hendur sér. Bera hryðjuverkin að öllu leyti handbragð al-Qaeda. Mjög margt er líkt með hryðjuverkinu á Spáni þann 11. mars 2004. Sprengjur í bakpokum sprungu þá í lestum í miðborginni og í úthverfum. Tæplega 200 manns létu lífið í þessu hryðjuverki. Lengi vel fullyrtu spænsk yfirvöld að ETA stæði að baki þeim, en bakpokasprengjur og koparhvellhettur sem tendraðar eru með boðum úr farsíma báru þó ekki merki um handbragð ETA. Ljóst varð því fljótt að al-Qaeda stóð að baki. Hryðjuverkaárásin í London var líkt og hryðjuverkaárásin í Madrid bæði ófyrirleitin og grimmdarleg. Henni var einvörðungu beint gegn saklausum borgurum. Ætlunin var í senn bæði að myrða og særa óbreytta borgara. Árásunum var ekki beint að þjóðarleiðtogum eða hefðarfólki. Þeir sem féllu í valinn, særðust og urðu fyrir henni að einhverju leyti er saklaust fólk, venjulegt fólk í London, af ólíkum uppruna sem ekkert hefur sér til sakar unnið og var aðeins á röngum stað á röngum tíma.

Vinnubrögð af þessu tagi og árásin sem slík, í senn bæði nú og í fyrra á Spáni, ætti að mínu mati endanlega að sannfæra alla heimsbyggðina um hvernig al-Qaeda og tengd hryðjuverkasamtök vinna. Þau skeyta engu um mannslíf, svífast einskis til að ráðast að vestrænum gildum og mannlegri tilveru. Hér er auðvitað ekki einvörðungu um að ræða árás á breskt samfélag, breska þegna og tilveru þeirra. Þetta er auðvitað aðför að öllum sem tilheyra vestrænu samfélagi. Þessu ber að taka með þeim hætti og það ber auðvitað að bregðast við með ákveðnum hætti. Uppræta þarf hryðjuverkasamtök sem vinna með þessu tagi og ráðast að saklausum borgurum með svo grimmdarlegum og ógeðfelldum hætti. Jafnframt má búast við að vestrænt samfélag sameinist í viðbrögðum sínum. Í London er undarleg stemmning í kjölfar þessara hryðjuverka. Í raun má segja að íbúar borgarinnar séu sterkir og standi eftir þessa árás staðráðið í að standa vörð um gildi tilveru sinnar og láti þessa grimmdarlegu aðför að sér styrkja sig í baráttunni gegn hryðjuverkum. Ró er yfir borginni og íbúarnir þar eru að jafna sig á áfallinu.

Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, var staddur á leiðtogafundi átta helstu iðnríkja heims í Gleneagles í Skotlandi þegar hryðjuverkaárásin í London átti sér stað í gærmorgun. Hann ávarpaði bresku þjóðina og heimsbyggðina alla vegna þessa skelfilega voðaverks frá Skotlandi um morguninn. Hann sagði þar að hryðjuverkaárásirnar hefðu verið gerðar vegna þess að á sama tíma væru leiðtogar helstu iðnríkja heims að funda. Sagði hann það sérstaklega villimannslegt að árásirnar hefðu verið gerðar á sama tíma, og þjóðarleiðtogar sætu á fundi til að ræða um aðgerðir til að aðstoða Afríku og draga úr loftslagsbreytingum. Þá sagði forsætisráðherrann að þrátt fyrir þetta illverki hryðjuverkamanna myndu Bretar standa vörð um þau gildi og lifnaðarhætti sem þeir hefðu alla tíð haft í heiðri og staðfesta landsmanna, væri meiri en hryðjuverkamanna, sem vildu í senn valda saklausu fólki dauða og limlestingum og koma fram öfgastefnu víðsvegar um heim. Hefur þetta sannast af viðbrögðum landsmanna við hryðjuverkunum. Ennfremur er ljóst að árásin mun ekki vega að þeim verkefnum sem þar átti að ræða.

Blair sagði í yfirlýsingu sinni í gærmorgun að hann og ríkisstjórn hans myndu í samstarfi við landsmenn alla berjast gegn vágestinum. Ekki kæmi til greina að láta hann eyðileggja það sem byggt hafði verið upp í bresku samfélagi. Blair kom fram af festu og krafti með yfirlýsingu sinni og sannaði styrk sinn sem stjórnmálamanns að mínu mati með ræðu sinni í Skotlandi. Hann var augljóslega mjög skelkaður er hann flutti ræðuna og sýndi með tignarlegum hætti rétt viðbrögð og að mínu mati var þetta með betri ræðum stjórnmálaferils forsætisráðherrans. Hann sýndi og sannaði styrk sinn sem forystumanns í stjórnmálum og kom fram af festu og ákveðni við erfiðar aðstæður í sögu þjóðarinnar. Eftir hádegið hélt forsætisráðherrann svo til London til að fylgjast betur með stöðu mála. Sat hann þar fundi með ríkisstjórninni og borgaryfirvöldum. Ávarpaði hann svo bresku þjóðina að nýju seinnipartinn í embættisbústað sínum, Downingstræti 10. Fundurinn hélt áfram í Gleneagles og tók Jack Straw utanríkisráðherra Bretlands, við stjórn hans í fjarveru forsætisráðherrans sem kom svo aftur til Skotlands í gærkvöldi. Í dag mun svo ráðast hver niðurstaða fundarins er.

Er tilkynnt hafði verið um hryðjuverkin í London í gærmorgun komu leiðtogar iðnríkjanna átta á fundinum í Gleneagles fram opinberlega saman auk gesta sinna á fundinum, leiðtogum annarra ríkja. Þeir stóðu þar saman meðan Blair las yfirlýsingu í nafni þeirra allra. Þetta skelfilega hryðjuverk varð til þess að þeir urðu sammála um framkvæmdir og orðið samstaða verður vonandi lykilorð þessa leiðtogafundar, er honum lýkur formlega. Það þarf að vinna sameinað að þeim verkefnum sem skipta máli, samstaða og samheldni þarf að verða niðurstaða þessa fundar. Það má ekki láta hryðjuverkaöflin eyðileggja þennan fund og yfirskyggja hann með þessum skelfilega verknaði. En nú er þetta hryðjuverk og atlaga hryðjuverkaafla að breskum þegnum og bresku samfélagi er orðin staðreynd er mikilvægast auðvitað að leiðtogar þjóðanna standi saman og ennfremur að allir heimsbúar séu sameinaðir í baráttunni gegn hryðjuverkum.

Gleymum því ekki að það er ásetningur þessara niðurrifsafla að sundra samstöðu heimsins. Það mun ekki takast, svo lengi sem við stöndum saman gegn þeirri ógn sem blasir við. Baráttan gegn hryðjuverkum hefur tekið á sig nýja mynd við tíðindi gærdagsins í Lundúnum. Atburðir gærdagsins eru áminning til allrar heimsbyggðarinnar um grimmd og ennfremur þess efnis að hryðjuverk á vestrænt samfélag verða ekki liðin. Þeim er svarað af fullri hörku. En mikilvægast er eins og ég hef sagt að standa vörð um samstöðu þjóðanna í baráttunni. Nú er tækifærið til að sameinast í baráttunni gegn hryðjuverkum af enn meiri krafti en áður.

Stefán Friðrik Stefánsson
stebbifr(a)simnet.is


Skattabylting í Austur-Evrópu

Pólsk stjórnvöld tilkynntu nýverið að þau hyggðust koma á flötum 18% skatti á tekjur fyrirtækja og einstaklinga. Sama verður að segja um hlutfall virðisaukaskatts. Eins og staðan er í dag eru skattar á fyrirtæki 19% í Póllandi og tekjuskattur einstaklinga 40%. Með breytingunum er ætlunin að einfalda skattkerfið og gera það skilvirkara, eitthvað sem ekki þykir vanþörf á. Hreinsa burt flókið kerfi alls kyns skattahlutfalla og undanþága. Gera pólsk stjórnvöld ráð fyrir að aukinn hagvöxtur muni bæta hinu opinbera upp tekjumissinn auk þess sem búist er við að lægri skattar þýði að fólk verði líklegra til að standa í skilum. Er hugmyndin að næstu þrjú ár fari í að koma þessum breytingum á.

Pólski Íhaldsflokkurinn (Platforma Obywatelska), sem er í stjórnarandstöðu eins og er, hefur lagt til að gengið verði enn lengra í lækkun skattahlutfallsins og komið verði á 15% flötum skatti, en þingkosningar verða í Póllandi næsta haust. Póland er þó langt því frá eina dæmið í Evrópu um þessa þróun sem hófst fyrir margt löngu. Hafa mörg ríki í Austur-Evrópu þegar komið á flötum skatti. Má þar fyrst nefna Eistland, sem hóf þessa þróun árið 1991 með 26% flötum skatti sem síðar var lækkaður í 20%, en einnig t.a.m. Lettland, Slóvakíu, Serbíu, Rúmeníu, Georgíu, Úkraínu og Rússland. Í síðastnefnda landinu er skatthlutfallið aðeins 13%. Tilgangurinn er alls staðar fyrst og fremst að laða að erlendar fjárfestingar og gera löndin samkeppnishæfari.

Er hér um að ræða afar áhugaverða og spennandi þróun sem enn hefur þó ekki náð til Vestur-Evrópu. Þó eru ýmsar þreifingar til staðar. Þannig hefur brezka Adam Smith stofnunin kynnt niðurstöður rannsóknar þess efnis að brezk stjórnvöld gætu tekið upp 22% flatan tekjuskatt án þess að það myndi hafa í för með sér tekjumissi fyrir ríkissjóð. Ástæðan er einkum sögð vera sú að tilraunir til að komast hjá skattlagningu myndu dragast verulega saman. Madsen Pirie, forseti stofnunarinnar, sagði af því tilefni að flatur skattur væri það sem koma skyldi. Sú þróun færðist smám saman yfir Evrópu. Það sem væri að gerast í Austur-Evrópu væri tilraun sem ætti sér stað í raunheimi, ekki væri aðeins um að ræða einhverja tilgátu. Og reynslan hefði sýnt að þetta virkaði!

Þróunin í Austur-Evrópu hefur ekki hvað sízt ýtt við þýzkum stjórnvöldum. Gerhard Schröder, kanslari Þýzkalands, tilkynnti á dögunum að skattar á þýzk fyrirtæki yrðu lækkaðir úr 25% í 19%, þá einkum í því skyni að reyna að slá á gríðarlegt atvinnuleysi í landinu en einnig til að sporna við því að fyrirtækin flyttu starfsemi sína austur á bóginn. Þessar tölur segja þó ekki alla söguna þar sem þýzkar borgir leggja líka ýmsar álögur á þýzk fyrirtæki og segja hagfræðingar að lækkunin sé því nær því að hafa farið úr 38% í 32% að meðaltali. Auk þess hyggjast þýzk stjórnvöld hækka fjármagnstekjuskatta til mótvægis. Í skýrslu sem unnin var fyrir þýzka fjármálaráðuneytið nýverið var lagt til að komið yrði á 30% flötum skatti á einstaklinga og fyrirtæki í Þýzkalandi, en slíkt er þó ekki enn sem komið er á dagskrá þar í landi.

Mikil bylting hefur átt sér stað í skattamálum hér á landi á síðustu árum fyrir tilstuðlan ríkisstjórna sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengst af leitt. Á rúmum áratug hafa skattar á fyrirtæki verið lækkaðir úr 51% í 18% og einnig hafa verið samþykkt lög sem fela í sér að eignarskattar fyrirtækja og einstaklinga verði afnumdir. Einstaklingar hafa heldur ekki farið varhluta af þessum miklu umbótum í skattaumhverfinu hér á landi þegar kemur að almennum tekjuskatti. Hann hefur verið lækkaður verulega á undanförnum árum og nú síðast tilkynnti ríkisstjórnin fyrir síðustu jól að hann yrði lækkaður enn frekar fyrir lok þessa kjörtímabils eða um 4%.

Eins og kunnugt er hélt Verzlunarráð Íslands nýverið viðskiptaþing þar sem m.a. voru kynntar tillögur um að komið yrði á 15% flötum skatti hér á landi á tekjur fyrirtækja og einstaklinga sem og á neyzlu. Ber að sjálfsögðu að fagna þessum tillögum. Það verður ennfremur fróðlegt að fylgjast áfram með þróuninni í Austur-Evrópu og vonandi að hún nái fyrr en síðar hingað til lands.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is

(Birt áður á www.sus.is)


Mánudagspósturinn 4. júlí 2005

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, lýsti þeirri skoðun sinni nýverið í ræðu sem hann flutti í Bandaríkjunum að hann teldi Íslendinga eiga meiri samleið með Bandaríkjamönnum en Evrópusambandinu, þá sérstaklega þegar kæmi að efnahagsmálum. Sagði hann að einsleit reglugerðasmíð sambandsins fyrir aðildarríki þess væri ekki endilega jafnheppileg og það fyrirkomulag sem til staðar væri í bandarísku samfélagi. Að hans mati hefðu einstök ríki Bandaríkjanna mun meira svigrúm og frelsi á margvíslegum sviðum en gerðist í Evrópusambandinu.

Haft var eftir „einum leiðtoga stjórnarandstöðunnar“ í Blaðinu 28. júní sl. af þessu tilefni að forsetinn stjórnaði ekki utanríkisstefnu Íslands. Þessi ágæti stjórnarandstöðuleiðtogi vildi þó greinilega ekki láta nafns síns getið af einhverjum ástæðum. En hvað sem því líður þá hafa stjórnarandstæðingar hingað ekki séð ástæðu til að gera neinar athugasemdir við það þegar forsetinn hefur verið að tjá sig opinberlega um hápólitísk álitamál, hvort sem það hefur verið hér heima eða erlendis, og raunar allajafna fagnað þeim afskiptum hans og um leið skammað ýmsa aðra fyrir að gagnrýna hann í þeim efnum. Nú kveður hins vegar greinilega við talsvert annar tónn úr herbúðum stjórnarandstæðinga.

Rétt er að geta þess að þó ég sé vissulega mjög sammála Ólafi Ragnari í samanburði hans á Bandaríkjunum og Evrópusambandinu frá íslenzkum bæjardyrum séð þá er ég engu að síður þeirrar skoðunar að það sé ekki hlutverk þess sem gegnir forsetaembættinu hverju sinni að tjá sig með svo afgerandi hætti um hápólitísk málefni, hvort sem um er að ræða skipan mála á íslenzkum fjölmiðlamarkaði eða samband Íslands og Evrópusambandsins.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


Alfreð viðurkennir misferli sitt

Þegar ég var lítill gerði ég dáldið sem ég átti ekki að gera. Móðir mín var búin að banna mér að fara yfir ákveðan götu í bænum (sem er s.s. alveg eðlilegt að foreldrar geri) og ætlaðist til þess að ég hlýddi því. Einn daginn ákvað vinur minn að fara yfir götuna ,,ægilegu” og ég gat að sjálfsögðu ekki verið minni maður og elti hann.

En á einhvern óskiljanlegan hátt komast foreldar alltaf að öllu og þegar hetjan ég kom heim mættu mér reiðir foreldrar. Ég var spurður af hverju ég hefði farið þangað sem ég fór þegar búið var að banna mér það. Í staðinn fyrir að neita fyrir allt saman og láta eins og ég hefði verið í næsta nágrenni allan tímann sagði ég þeim að vinur minn (sem ég man ekki hvað heitir af því að hann talaði aldrei við mig aftur) hefði nú farið þarna fyrst.

Þetta þóttu mér sjálfsögð viðbrögð og get réttlætt þau með góðum rökum – ég var sjö ára.

Í byrjun júní færðu Ungir Sjálfstæðismenn Alfreð Þorsteinssyni, formanni stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur, Monopoly spilið að gjöf. Eins og fram kemur í tilkynningu SUS var þetta gert til að ,,mótmæla taumlausri eyðslu Alfreðs á kostnað borgarbúa.”

Fram kemur í tilkynningu SUS að vonandi láta Alfreð sér nægja að kaupa eignir fyrir þá spilapeninga sem eru í spilinu en hætti á sama tima að leika sér með skattfé borgarbúa. En eins og margoft hefur komið fram og allir sjá nema Alfreð sjálfur hefur hann hingað til farið frjálslega með það fé sem tilheyrir borgarbúum.

Alfreð hins vegar vill ekki eins og áður sagði kannast við neitt af þessu og sendi spilið til baka með þeirri kveðju að Davíð Oddsson hefði nú á sínum tíma byggt Perluna og hefði þar með ,,bruðlað” meira með fjármuni borgarinnar. Það er nú bara það.

Til hamingju Alfreð Þorsteinsson – Þú ert búinn að vinna argjúmentið um það hver bruðlar mest með peninga! Já, það vantar ekki að hann Alfreð sé málefnalegur. Svona álíka málefnalegur og ég var þegar ég var sjö ára.

En bíðum nú við. Við skulum hafa eitt í huga. Davíð Oddsson var borgarstjóri Reykvíkinga í 9 ár og á því tímabili var Perlan byggð. Hún var s.s. byggð í borgarstjóratíð Davíðs Oddssonar. Alfreð Þorsteinsson er EKKI borgarstjóri Reykjavíkur. Hann getur því ekki sett sig á háan hest með því að bera sig saman við fyrrverandi borgarstjóra. Hvaða skoðun sem menn hafa á Perlunni eða fleiru sem framkvæmt var í borgarstjóratíð Davíðs Oddssonar, þá réttlætir ekkert það brask og bruðl sem á sér stað í Orkuveitunni undir stjórn Alfreðs Þorsteinssonar. Það er ekki hlutverk OR að standa í fjarskipaviðskiptum, rækjueldi, sumarbústaðabyggð og fleiru. Þetta er verkefni sem einkaaðilar eiga að taka sér fyrir hendur og ef svo vill til að hið opinbera ákveður að

Nú má vel vera að Alfreð líti á sig sem borgarstóra. Hver veit nema Alfreð sé valdamesti leikmaðurinn í samstarfi R-listans. Ekki veit ég það og ekki vita borgarbúar hver stjórnar á bakvið tjöldin í valdasamstarfi R-listans. Enda er það ekkert skrítið þar sem þeir vita það stundum ekki sjálfir. Það hlýtur að vera erfitt að eiga samstarf við flokka sem hafa enga hugsjón nema þá að sjálfstæðismenn komist ekki til valda í borginni.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir bendir réttilega á það í grein að flokkarnir sem standa að R-listanum eru ,,málefnafátækir og stefnulausir.” Það er út af því sem að allir geta leikið sér í sínu horni og þeir einu sem þurfa að gjalda eru borgarbúar með skattpeningum sínum.

Virðing Alfreðs og félaga (ef félaga skyldi kalla) í R-listanum fyrir fjármagni borgarbúa er nákvæmlega engin. Borgarbúar eiga betra skilið og það eru komið að borgarbúum að sigra næstu kosningar.

Gísli Freyr Valdórsson

Birtist áður á sus.is


« Fyrri síða

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband