Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2005

Ásdís Halla kveður stjórnmálin – tímabundið vonandi

Í gær var tilkynnt að Ásdís Halla Bragadóttir bæjarstjóri í Garðabæ hefði verin ráðin sem forstjóri BYKO. Ásdís Halla hefur beðist lausnar frá starfi sínu sem bæjarstjóri og mun taka við nýju starfi í lok maí. Það er mjög leiðinlegt að heyra að Ásdís Halla sé að hverfa úr stjórnmálum. Ég vona að það verði aðeins tímabundið og að hún snúi sér aftur að stjórnmálum síðar. Ég skal útskýra af hverju.

Ásdís Halla er sú stjórnmálakona sem á mínu hæstu virðingu. Árangur hennar í Garðabæ er gott dæmi um leiðtogahæfileika hennar og framtakssemi. Hún gekk greinilega inn í það starf með miklar hugsjónir og hefur unnið hvern dag síðan þá til að koma hlutum í verk og gera Garðabæ að betri bæ. Það sem ber hæst að nefna er sú stefna sem hún hefur myndað í menntamálum í bænum. Frelsi til að velja hefur verið aukið svo um munar og verk hennar verða skráð sem góður árangur í sögubækurnar. Sú menntastefna sem lögð hefur verið fram í Garðabæ er fordæmisgefandi og mun gagnast okkur sjálfstæðismönnum vel þegar við komumst til áhrifa á ný í borginni á næsta ári.

Ásdísi Höllu hefur tekist að forðast dægurþras stjórnmálanna og hefur látið verkin tala þess í stað. Þannig hefur hún öðlast virðingu og náð árangri. Ásdís Halla virðist aðeins hafa starfað í stjórnmálum til að ná árangri og hafa áhrif á samfélagið upp að því marki sem stjórnmálamenn geta.

Í viðtali í Ísland í dag í gærkvöldi sagði Ásdís Halla þá lykilsetningu sem gerir hana að mínu mati að einstaklega merkilegum stjórnmálamanni: ,,Ég hef aldrei litið á stórnmál sem lifibrauð,” og
,,ég vil frekar líta á pólitík þannig að ef maður hefur einhverja ákveðna drauma sem maður vill láta rætast í einhverjum ákveðnum tilteknum málaflokkum, þá fer maður í þá og maður vinnu að því. Þetta snýst aldrei um umbættin eða stöðuna sem maður sjálfur er í á ákveðnum tímapunkti. Þannig að ég hef ekki haft neina drauma um einhver tiltekin embætti.”

Þetta er einmitt það sem ég tel að geri fólk að góðum stjórnmálamönnum. Þeir sem aðeins sækjast eftir stöðum, titlum og völdum eru ekki þess verðir að starfa í stjórnmálum þar sem flestir sem þannig hugsa þrá meira að koma nafni sínu hátt á loft heldur en að vinna hluti eftir hugsjónum og gera samfélagið betra. Með því er ég ekki að segja að fólk eigi ekki að sækjast eftir pólitískum embættum. Það þarf hins vegar að vera einhver hugsjón á bakvið sem nær lengra en maður sjálfur.

Um leið og það er mikil eftirsjá eftir Ásdísi Höllu úr stjórnmálum er rétt að minna á að hún er ung og á alla framtíðina fyrir sér. Hver veit nema stjórnmálin kalli á hana aftur?

Ég óska Ásdísi Höllu alls hins besta í framtíðinni
og vona og veit að henni muni vegna vel.

Gísli Freyr Valdórsson


Heimsvaldastefna vesturveldanna – helsta vopnið gegn þrælahaldi

Það var ekki fyrr en á 18.öld sem háar raddir fóru að heyrast þess efnis að þrælahald væri rangt, og að það bæri að stöðva. Menn um allan heim, af öllum mögulegum kynstöfnum, seldu og keyptu sér þræla á frjálsum mörkuðum. Það var hinsvegur á vesturlöndum á seinni hluta 18. aldar sem að menn tóku sig til og hófu baráttu gegn þessu svívirðilega óréttlæti meðan fólk annarsstaðar í veröldinni lét þetta vandamál sig ekki varða.

Bókin Bury the Chain eftir Adam Hochschild segir frá fyrstu samtökunum sem stofnuð voru til að berjast gegn þrælahaldi. Þau voru stofnuð árið 1787 í London, og stofnfélagar voru 12, þ.á.m. auðjöfrar og trúarleiðtogar. Bókin lýsir því hvernig þrælahaldi var tekið sem sjálfsögðum hlut um alla veröld á þessum tíma. Stjórnmálamenn, heimspekingar, trúarleiðtogar og hugsuðir um heim allan virtust allir sætta sig við þetta ástand, og fáir sem engir tjáðu sig um það.

Hið 12 manna félag gegn þrælahaldi hóf að kynna málstað sinn fyrir Bretum af alefli. Þeirra helsta markmið var að fá menn til að hugsa um þetta mál, og töldu að það hlyti að duga til að sannfæra almenning um ranglætið sem í þrælahaldi fælist. Með þessum hætti ætluðu þeir að snúa breska heimsveldinu gegn þrælahaldi. Þessi áform virstust langsótt, baráttan var löng, og andstaðan við félagið oft hatrömm, en á endanum hafði málstaður þeirra betur og almenningur og stjórnvöld sannfærðust um óréttlæti þrældómsins. Breska heimsveldið bannaði því þrælahald og tók að sér að útrýma því um víða veröld. Þeir silgdu víða um höf og fóru um borð í skip annarra þjóða til að leita að þrælum. Þegar þeir fundust voru þeir teknir með valdi af þrælasölunum og þeim gefið frelsi. Bretar voru í heila öld ,,alheimslögreglan”á þessu sviði. Það var vestræn heimsveldastefna sem stöðvaði þrælahald um heim allan, eftir langan barning og ásakanir um yfirgang af hálfu ýmissa þjóða frá öllum heimshornum sem töldu að ekkert væri rangt við þrælahald. Sem betur fer þá áttu Bretar fleiri byssur en aðrar þjóðir og því gátu þeir nánast útrýmt þrælahaldi bæði heimafyrir og annarsstaðar. Með tímanum breyddust hugmyndir vesturveldanna um ranglæti þrælahaldsins um víða veröld.

Það er í mikilli andstöðu við heimsmynd vinstrisinnaðra hugsaða og menntamanna að heimsveldisstefna vesturveldanna leiði nokkuð gott af sér. Hinir frjálslyndu kvimyndagerðamenn í Hoolywood eru ekki líklegir til að gera bíómynd um hetjulega baráttu Breta gegn þrælahaldi.

Áður en að breska heimsveldið sneri sér gegn þrælahaldi hafði þrælasala verið drjúg tekjulind fyrir breska hagkefrið. Bretinn John Stuart Mill sem lifði á þessum árum sagði: ,,Bretar hafa í hálfa öld eytt því sem samsvarar þjóðarframleiðslu margra ríkja í það eitt að loka strönd Afríku án þess að hafa af því nokkra einustu hagsmuni og fyrir málstað sem skaðar þá fjárhagslega.”

Já, þessu eigingjörnu vesturveldi!

Ef að þrælahald er ekki rangt, er ekkert rangt. 
- Abraham Lincoln

Sindri Guðjónsson


Mánudagspósturinn 25. apríl 2005

Íslensk blöð Nýtt dagblað mun víst hefja göngu sína innan skamms undir heitinu Blaðið. Frumlegt nafn. Framtakið er hins vegar ekki eins frumlegt þegar kemur að því hvernig blaðið á að vera, jú það á að vera „frjálst og óháð“. Þetta er nú sennilega einhver mesta klisja samtímans. Svo má gera ráð fyrir að blaðið eigi að vera hlutlaust líka þó það hafi ekki verið tekið sérstaklega fram. Í því sambandi vitna ég bara í auglýsingarnar fyrir Sunnudagsþáttinn á Skjá Einum á sínum tíma: „Enginn er hlutlaus!“

Nú má ekki skilja þessa byrjun mína sem svo að ég sé eitthvað á móti útgáfu Blaðsins. Ég fagna auðvitað auknum fjölbreytileika á íslenzkum fjölmiðlamarkaði. Það er bara almennt séð hið bezta mál. Fyrir utan það að ég hef afskaplega óljósa hugmynd, eins og sennilega flestir, um það hvernig þetta nýja blað á að vera eða hvernig það muni reynast. Það sem ég var að gagnrýna er það að fjölmiðlar hafa tilhneigingu til að gera að því skóna, beint eða óbeint, að þeir séu hlutlausir.

Það er auðvitað enginn algerlega hlutlaus, svo mikið er víst, sama hvað það er reynt. Menn eru í raun bara mishlutdrægir. Við erum öll þátttakendur í þessu lífi og höfum ákveðinna hagsmuna að gæta, höfum ákveðnar skoðanir á hlutunum og verðum fyrir alls konar áreiti sem hefur sín áhrif á það hvernig við nálgumst hlutina. Við erum ekki bara áhorfendur. Fyrir vikið finnst mér alltaf frekar skondið að heyra talað um t.d. „hlutlausan fréttaflutning“ og „óháða fjölmiðla“. Þetta er vitanlega ekki sízt bara ákveðin markaðssetning – enda hljómar þetta auðvitað voða vel.

En hvers vegna mega fjölmiðlar ekki bara vera yfirlýst pólitískir t.d. eins og í Bretlandi? Það er eiginlega eins og það sé eitthvað “tabú” hér á landi. Eitthvað sem megi ekki. Eitthvað sem tilheyrir fortíðinni. En hvað er að því þó einhverjir fjölmiðlar einfaldlega gæfu sig út fyrir það að vera pólitískir. Þeir hölluðust í ákveðna átt, styddu ákveðin sjónarmið og jafnvel flokka. Fólk vissi þá allavega hvar það hefði þá að því leyti. Mér finnst allt í lagi ef sumir fjölmiðlar væru þannig svona fljótt á litið. Ég myndi t.d. alveg vilja sjá pólitísk blöð gefin út hér á landi á ný í bland við þessi „frjálsu og óháðu“. Þyrftu auðvitað ekkert endilega að vera dagblöð, gætu t.d. verið blöð gefin út svipað oft og Viðskiptablaðið.

Ég veit annars ekkert hvort það væru rekstrarlegar forsendur fyrir slíkum blöðum eða hvort íslenskar aðstæður bjóða upp á slíkt. Og kannski eru pólitísku vefritin á netinu alveg nóg í þessu sambandi. En mér finndist allt í lagi að kanna með þennan möguleika. Hver veit nema slíkt gengi hér á landi? Um að gera að reyna að auka á fjölbreytnina!

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


Umræða um málefni Reykjavíkurflugvallar

Í vikunni var haldinn umræðufundur um málefni Reykjavíkurflugvallar í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands. Þar tókust Egill Helgason þáttastjórnandi á Stöð 2 og og Jón Karl Ólafsson forstjóri Icelandair, á um málið og svöruðu fyrirspurnum úr sal. Fundurinn var haldinn á vegum Heimdallar og sjálfstæðisfélaganna í Nes- og Melahverfi, Vestur- og Miðbæjarhverfi, Hlíða- og Holtahverfi, Austurbæ og Norðurmýri. Var ánægjulegt að heyra af því að þessi fundur skyldi hafa verið haldinn og ef marka má fréttir var þar lífleg og góð umræða um málefni flugvallarins. Ekki veitir af umræðu um þessi mál. Hef ég talið mikilvægt varðandi Reykjavíkurflugvöll að í samfélaginu öllu verði frjó og góð umræða, þar sem teknir yrðu fyrir kostir og gallar flugvallar í Vatnsmýrinni og farið yfir málið frá víðu sjónarhorni. Þessi fundur hefur verið góður umræðupunktur og án vafa gagnlegur þeim sem hann sátu, burtséð frá því hver sé skoðun viðkomandi á vellinum, hvort hann eigi að vera áfram á höfuðborgarsvæðinu eða færast annað.

Um er að ræða stórmál, sérstaklega fyrir okkur sem búum úti á landi og þurfum á að halda góðum samgönguleiðum til höfuðborgarsvæðisins. En mín skoðun á málefnum vallarins er alveg skýr - ég vil að hann verði áfram á höfuðborgarsvæðinu. Það er alveg á hreinu, frá mínu sjónarhorni séð. Reykjavík er höfuðborg landsins, sem slík er hún vettvangur t.d. stjórnsýslu og stórfyrirtækja. Öllum er okkur á landsbyggðinni nauðsynlegt að nota flug sem samgönguleið til að sækja þjónustu. Enginn vafi er á því að mínu mati að Reykjavíkurflugvöllur er flugvöllur allra Íslendinga, vettvangur okkar allra, ekki bara Reykvíkinga. Að mínu mati og okkar hér sem erum úti á landi er flugið óneitanlega samgönguleið, lífæð okkar svæðis til höfuðborgarsvæðisins og nauðsynlegur punktur í okkar lífi. Reykjavíkurflugvöllur er mikilvægur okkur sem þurfum að fara um hann mörgum sinnum á ári til að komast suður til Reykjavíkur til fundahalda eða þá til að halda í lengri ferðir.

Ég nota mun frekar flugið en bílinn ef ég þarf að fara suður, til lengri eða skemmri tíma, einkum yfir vetrartímann. Er það eflaust vegna þess að þessi kostur er hraðvirkari og betri kostur til samgangna við höfuðborgarsvæðið. Þó Reykjavíkurflugvöllur sé mikilvægur punktur líta sumir íbúar á höfuðborgarsvæðinu jafnan á völlinn sem sitt einkamál og öðrum komi það ekki við hvernig unnið verði í málum hans á komandi árum. Það hefur allavega verið sjónarmið valdabræðings vinstrimanna sem ráðið hefur í borginni seinasta áratuginn. Rúm fjögur ár eru liðin síðan R-listinn hélt misheppnaða kosningu meðal borgarbúa um völlinn. Hún var misheppnuð í þeim skilningi að hún var bæði byggð á undarlegum forsendum og borgarbúar tóku ekki afstöðu að stóru leyti. Umræðan snerist að öllu leyti að mínu mati um hagsmuni Reykvíkinga og einblínt á vægast sagt þrönga hagsmuni. Landsbyggðarfólki gafst ekki kostur á að tjá sín sjónarmið og fara yfir það sem því þætti mikilvægast í sama máli.
Það er staðreynd, vægast sagt dapurleg staðreynd.

Rætt hefur verið um þann möguleika að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur og leggja flugvöll á höfuðborgarsvæðinu niður. Ég er algjörlega andsnúinn þeim möguleika. Fyrir það fyrsta tel ég það dauðadóm innanlandsflugsins ef sú breyting yrði gerð. Ef flogið yrði til Keflavíkur og við tæki í kjölfar þess hálftímaakstur í borgina myndi tíminn frá brottför til komu í Reykjavík lengjast umtalsvert: að mínu mati það mikið að það verður betri kostur að keyra suður. Auk þess yrði maður þar á eigin bíl og þyrfti því ekki að vera bíllaus í borginni, sem gerist óhjákvæmilega fari maður með flugi. Það sem gerir það að verkum í okkar huga að flugið sé ákjósanlegri kostur er tímalengdin. Um er að ræða fljótvirkan samgöngukost til miðpunktar landsins. Höfuðborgarsvæðið er og verður alla tíð okkur mikilvægt og það er að mínu mati alveg lágmark að okkur séu tryggðar góðar samgöngur þangað og fljótvirkar. Flutningur innanlandsflugsins til Keflavíkur breytir meginsamgöngulínum með þeim hætti að borgin er komin úr grunnsamgöngulínum okkar að þessu leyti.

Fyrir það fyrsta í mínum huga snýst þetta mál um þá ábyrgð og þær skyldur sem höfuðborgin okkar þarf að bera gagnvart öllum landsmönnum öllum. Þar er allt í senn miðpunktur stjórnsýslunnar og þar á viðskipta- og menningarlíf landsins sínar höfuðstöðvar. Það er mjög einfalt í mínum huga að greiðar samgöngur allra landsmanna, til og frá Reykjavík, eru forsenda þess að höfuðborgin geti sinnt sínu hlutverki með eðlilegum hætti. Það er vissulega mál Reykvíkinga hvort þeir vilja hafa flugvöll innan borgarmarkanna eða ekki og önnur sveitarfélög hafa ekkert um það að segja. En meðan Reykjavík er höfuðborg Íslands, miðstöð stjórnsýslu landsins, máttarstoð og miðstöð menningar-, viðskiptalífs og samgangna í landinu þá er m.a. sátt um það að ríkissjóður, hinn sameiginlegi sjóður allra landsmanna, sé nýttur til þess að kosta uppbyggingu innanlandsflugsins í Reykjavík, þó á þenslutímum sé. Að þessu leyti lít ég svo á að höfuðborgin sé ennfremur mín. Um er að ræða málefni sem skiptir því ekki bara borgarbúa máli að því leyti.

Tvær hliðar eru vissulega á öllum málum. Það má ekki gleymast að það að leggja af miðstöð innanlandsflugs í Reykjavík mun þýða algjöra grundvallarbreytingu á samgönguháttum landsins og með því er að mínu mati kallað á uppstokkun á öðrum þáttum sem sameiginlega hafa verið byggðir upp af landsmönnum öllum. Það er því algjörlega ljóst að grunnniðurstaða mín er sú að verði þessi samgöngumiðstöð lögð af á höfuðborgarsvæðinu í þeirri mynd sem við þekkjum hana nú, þurfi og sé vart frá því komist að skilgreina að nýju bæði verkefni og ekki síður þjónustuhlutverk höfuðborgar Íslendinga. Eins og bent hefur verið á er það þó vissulega erfitt að orða það með þeim hætti í ljósi þess að stjórnsýsla ríkisins hefur um langt skeið fengið að þróast mjög óheft í Reykjavík á forsendum kunningjasamfélags innan borgarmúranna. Það er þó alveg grunnpunktur málsins að breytingar á stöðunni leiða til frekari breytinga en þeirra að loka vellinum og ætla að skutla honum eitthvað annað í burtu. Burtséð frá því er ljóst að með tilfærslu innanlandsflugsins frá þessum meginpunkti allrar stjórnsýslu verður breyting á þessu meginhlutverki Reykjavíkur sem höfuðborgar.

Í vikunni áttust formannskandidatarnir í Samfylkingunni við í sjónvarpsþætti. Var þar komið inn á málefni Reykjavíkurflugvallar. Mikla athygli vakti að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarfulltrúi, sem gegndi embætti borgarstjóra í Reykjavík í tæp 9 ár, virðist engar prívat skoðanir hafa á þessu stóra og mikla máli - nákvæmlega engar. Opinberaðist þar að hún hefur sem slík engar skoðanir á því en talar í sífellu um málið út frá löngu úreltum forsendum og getur ekki staðfært sig á málið á árinu 2005. Það er með algjörum ólíkindum að manneskja sem er að gefa kost á sér til forystu í stjórnmálaflokki hafi enga skoðun á málinu frá eigin forsendum, sérstaklega því um er að ræða manneskju sem hefur leitt borgarmálin og verið forystumaður þessa stærsta sveitarfélags landsins. Það er mjög hvimleitt fyrir okkur á landsbyggðinni að sjá svona wannabe stjórnmálamenn sem tala í frösum og nýyrðaflaumi en geta ekki talað hreint út um málefni sem skiptir okkur máli, grunnmálefni í samgöngumálum. Einkum er það slæmt í ljósi þess að um er að ræða stjórnmálamenn sem eru að reyna að gera sig gildandi sem forystumanneskju á landsvísu af hálfu stjórnmálaflokks.

En það er svosem ekkert hægt að gera í því. Eftir stendur mikilvægi þess að hver og einn tali hreint út um málin. Það hef ég nú gert. Það er í sjálfu sér mjög auðvelt að tala út um málið frá eigin forsendum, þegar um er að ræða mál sem snertir mann jafnmikið og þetta mál. Samgöngulegar tengingar skipta máli hvað mig snertir, einkum í ljósi þess að ég bý á landsbyggðinni. Ég vil geta verið í góðum tengingum við höfuðborgarsvæðið og talið það sjálfsagðan hlut að geta með lítilli fyrirhöfn farið í flugvél og komist í kjarna miðpunktar stjórnsýslunnar og fleiri mikilvægra þátta með skjótum hætti. Í þessum efnum er talað er um flugvöllinn leiðist mér þegar menn eru að tala um þetta sem grunn hvort hann sé í Vatnsmýrinni. Það er að sjálfu sér aukaatriði að mínu mati. Grunnpunktur af minni hálfu er að hann sé á höfuðborgarsvæðinu. Það er innri ákvörðun yfirvalda í sveitarfélaginu hvar hann sé ætli Reykjavík og svæðið þar í kring að standa undir nafni sem höfuðborg og vera áfram sá miðpunktur sem hann hefur verið til fjölda ára.

En allt er þetta grundvöllur umræðu um málið í heildinni, þess vegna var þessi fundur sjálfstæðismanna í borginni um málefni flugvallarins í vikunni mjög mikilvægur. Í ljósi hans skrifaði ég þessar línur. Mér er málið mjög skylt og ég hef mínar skoðanir á því og sjálfsagt mál að koma þeim skoðunum til skila. Fyrir mig sem íbúa á norðanverðu landinu er flugvöllur á höfuðborgarsvæðinu samgönguleg tenging. Á þeim forsendum á ég mjög erfitt með að sitja þegjandi hjá þegar heyrast þær raddir að taka þá samgöngutengingu og beina henni annað. Það er algjörlega einfalt mál af minni hálfu. En megi umræðan um þetta mál blómstra og jákvætt er að hver tjái sig og sínar skoðanir með ákveðnum hætti. Það væri góðráð fyrir þá stjórnmálamenn sem ætla sér stóra hluti á landsvísu að tjá skoðanir sínar en reyna ekki að þegja málið með frasablaðri eins og dæmið sannar í vikunni. Það er eðlilegt að menn tali hreint út og segi sínar skoðanir óhikað.

Stefán Friðrik Stefánsson


Eignarhald á fjölmiðlum og Símanum

Ekki hefur mikið farið fyrir umræðu um skýrslu nefndar menntamálaráðherra um íslenska fjölmiðla sem nýverið var gerð opinber. Það má telja nokkuð undarlegt í ljósi þess að í skýrslunni er lagt til verulegt inngrip löggjafans á íslenskan fjölmiðlamarkað. Ef til vill skýrist það að nokkru af því að ekki hefur enn verið lagt fram lagafrumvarp á grundvelli skýrslunnar, auk þess sem þverpólitísk samstaða ríkti í nefndinni um þær leiðir sem lagðar eru til.

Nefndin hefur einkum þrjú yfirlýst markmið að leiðarljósi í tillögum sínum – að fjölbreytni í fjölmiðlum sé tryggð, ,,gott val” neytenda og að öflug upplýsingagjöf og gagnsæi ríki. Tillögur nefndarinnar skiptast í sjö þætti

A - Ríkisútvarpið verði áfram öflugt almannaþjónustuútvarp.
Nú þegar liggur fyrir Alþingi frumvarp um Ríkisútvarpið sem ég ætla ekki að fjalla um hér.

B - Settar verði reglur sem tryggi gagnsæi í eignarhaldi á fjölmiðlum.
Ég tel það jákvætt skref að settar verði reglur sem tryggi gagnsæi í eignarhaldi á fjölmiðlum. Það er lágmarkskrafa að almenningurr geti vitað hverjir eiga þá fjölmiðla sem flytja þeim fréttir svo þeir geti metið efnið út frá hugsanlegum tengslum eigendanna við fréttaefnið.

C - Reglur um leyfisveitingar til rekstrar ljósvakamiðla verði endurskoðaðar með það að markmiði að aðgreina ólíka miðla.
Hér gengur nefndin nokkuð langt að mínu áliti þar sem hún leggur til að opinberir aðilar þurfi að samþykkja meiriháttar breytingar á dagskrárstefnu þeirra fjölmiðla sem hlotið hafa opinber leyfi. Þetta hlýtur að teljast allstrangt skilyrði verði það ofan á, og í raun takmörkun á tjáningarfrelsi þeirra sem reka ljósvakamiðla.

D - Að eignarhald á fjölmiðlum með tiltekna útbreiðslu eða hlutdeild á markaði verði takmarkað við ákveðinn hámarks eignarhluta.
Nefndin telur það nokkuð óumdeilt að úrræði samkeppnislaga nægi ekki ein og sér til að ,,sporna við neikvæðum áhrifum samþjöppunar og samráðs fyrirtækja á fjölmiðlamarkaði”. Lagt er til að eignarhald verði takmarkað við 25% eignaraðild í þeim fjölmiðlum sem annaðhvort þriðjungur af mannfjölda notfærir sér daglega eða ef markaðshlutdeild fjölmiðilsins fer yfir þriðjung af heildarupplagi, heildarhlustun eða heildaráhorfi á hverjum fjölmiðlamarkaði um sig.

Þessar tillögur eru frábrugðnar lögum nr. 48/2004 sem ollu miklum deilum í fyrra og voru að lokum felld úr gildi, að því leyti að takmörkunin á eignarhaldinu er ekki bundin við fyrirtæki sem eru markaðsráðandi á öðrum sviðum heldur gengur jafnt yfir alla eigendur og er miðað við útbreiðslu viðkomandi fjölmiðils.

E - Reglur verði settar sem tryggi aukið val neytenda þannig að efnisveitur fái aðgang að ólíkum dreifiveitum og dreifiveitur fái flutningsrétt á fjölbreyttu efni.
Í stuttu máli er þessum reglum ætlað að sporna gegn áhrifum svokallaðs lóðrétts eignarhalds. Fjarskiptafyrirtækjum verði gert skylt að dreifa efni frá mismunandi fjölmiðlum sækist viðkomandi fjölmiðlar eftir slíkri dreifingu og fjarskiptafyrirtækið bjóði á annað borð upp á hana. Eins verði settar reglur sem geri mismunandi dreifiveitum (fjarskiptafyrirtækjum) kleift að fá til sín það efni sem þær kjósa og er á annað borð ætlað til dreifingar um slíkar veitur.

F - Að mótaðar verði reglur um ritsjórnarlegt sjálfstæði á fjölmiðlum.
Nefndin telur að slíkar reglur væru til bóta, í því skyni að hindra afskipti eigenda fjölmiðla af fréttaflutningi þeirra og sjálfstæðri dagskrárgerð. Ekki er lögð til sérstök löggjöf í þessum efnum en áhersla lögð á að slíkar reglur verði mótaðar í samráði við fjölmiðlana sjálfa og hagsmunasamtök blaða- og fréttamanna. Lagt er til að slíkar reglur innifeli skilyrði fyrir áminningu og brottvikningu einstakra blaða- og fréttamanna. Ég verð að játa að ég hef nokkrar efasemdir um gildi slíkra reglna. Ég tel að blaða- og fréttamenn muni alltaf hafa vissa tilhneigingu líkt og aðrar starfsstéttir til að þóknast sínum vinnuveitendum og er það fullkomlega eðlilegt. Einnig tel ég að það séu veruleg takmörk fyrir því hversu langt rétt er að ganga í því að slíta tengsl milli eigenda og ritstjórnar fjölmiðla. Menn setja kannski á fót fjölmiðil í því skyni að þar sé rekin ákveðin ritstjórnarstefna, og þá er rétt að menn hafi svigrúm til að hafa þar fólk sem framfylgir þeirri stefnu, þó auðvitað sé sjálfsögð krafa þeirra sem nýta fjölmiðlana að fréttaflutningur þeirra sé heiðarlegur og hlutlægur. Hér skiptir mestu að gagnsæi ríki um eignarhaldið svo almenningur geti áttað sig á hugsanlegum hagsmunatengslum..

G - Einföldun stjórnsýslu á þessu sviði þannig að málefni fjölmiðlanna séu sem flest á verksviði eins og sama stjórnvaldsins.
Þessi tillaga miðar að því að einfalda stjórnsýslu um málefni fjölmiðla.

Vangaveltur um tillögurnar
Það sem mest mun kveða að í þessum tillögum, verði lög sett á grundvelli þeirra, eru reglur um eignarhaldið. Sem fyrr segir miðast tillögurnar við að sami aðili geti ekki átt meira en 25% í fjölmiðli sem hefur þriðjungs útbreiðslu eða markaðshlutdeild. Hin umdeildu fjölmiðlalög sem sett voru síðasta sumar og felld úr gildi nokkrum vikum síðar kváðu á um 5% hámarkseignarhlutdeild fyrirtækja sem væru markaðsráðandi á öðrum sviðum viðskipta í fjölmiðlafyrirtækjum til að geta fengið útvarpsleyfi. Þá var samkvæmt lögunum óheimilt að veita útvarpsleyfi til fyrirtækja sem annað fyrirtæki átti meira en 35% hlut í. Einnig var tekið fyrir það að fyrirtæki sem hefði að meginmarkmiði rekstur óskyldan fjölmiðlarekstri fengi útvarpsleyfi auk þess sem sami aðili mátti ekki hafa á hendi útgáfu dagblaðs og rekstur ljósvakamiðils. Tillögur nefndarinnar nú ganga lengra að því leyti að nú má ENGINN eiga meira en 25% í fjölmiðlafyrirtæki sem nær áðurnefndu þriðjungsmarki. Þetta hlýtur að teljast all íþyngjandi. Maður sem opnar sjónvarpsstöð sem verður vinsæl neyðist til að selja þrjá fjórðu hluta hennar í hendur annarra þegar útbeiðslan nær tilsettu lágmarki. Slíkar reglur hljóta að virka letjandi á menn að hasla sér völl í þessum geira, því ef vel gengur er aldrei langt í hinn opinbera refsivönd. Það athugast að slík regla myndi byrja að svíða menn löngu áður en neins konar fákeppnis eða einokunarstaða væri komin upp. Engar skorður eru þó settar í tillögunum við því að sömu fjórir aðilarnir geti átt alla einkarekna fjölmiðla í landinu. Svo virðist sem aðalmarkmiðið með þessum tillögum um eignarhaldið sé að tryggja dreifða eignaraðild einstakra fjölmiðlafyrirtækja meðan lögin í fyrra beindust einkum að því að rjúfa tengsl fjölmiðla við stórfyrirtæki sem voru markaðsráðandi á öðrum sviðum.

Miðað við alla umfjöllunina sem varð um fjölmiðlamálið í fjölmiðlum í fyrra hlýtur að sæta nokkurri furðu hve litla umfjöllun skýrslan fær nú. Þverpólitísk sátt í nefndinni auk þess að ekki er enn komið frumvarp um málið vega eflaust þungt. Einnig kann hluti skýringarinnar að vera sá að það vill svo til að einkareknir fjölmiðlar sem flytja fréttir eru í nokkuð dreifðri eignaraðild og því koma mögulegar reglur á grundvelli tillagnanna ekki svo ýkja hart niður á þeim þó þær gætu komið hart niður á fjölmiðlafyrirtækjum undir öðrum kringumstæðum.

Sala Símans
Nú hyllir loks undir það að Síminn verði seldur. Því hljóta allir frjálshuga menn að fagna. Þau skilyrði sem eru sett varðandi söluna hafa sætt nokkurri gagnrýni sem ég get að mörgu leyti tekið undir. Skilyrði er að enginn einn aðili eignist meira en 45% hlut og almenningi er ekki gefinn kostur á kaupum í fyrstu atrennu, en eiga þó möguleika á að eignast hlut með því að stofna með sér félag og bjóða í stóran hlut í fyrirtækinu líkt og nú er í farvatninu. Það má spyrja hvers vegna þessi skilyrði eru sett. Hvers vegna má ekki selja fyrirtækið hæstbjóðanda án þess að hafa þessi skilyrði um 45% hámark? (Auðvitað má líka spyrja á móti eins og gert hefur verið hvort það eigi yfir höfuð að vera markmið í einkavæðingarferli að sem hæst verð fáist). Og hvers vegna eru sett skilyrði sem gera almenningi erfitt fyrir að eignast fyrirtækið strax? Hvað sem útfærslunni líður er aðalatriðið að einkavæðing Símans er handan við hornið. Síðast tókst ekki að selja nema 1,3% af fyrirtækinu. Allar líkur eru á að betur takist til nú. Það er vel.

Þorsteinn Magnússon


Mánudagspósturinn 18. apríl 2005

Jæja, formannskjörið í Samfylkingunni er í algleymingi. Póstkosning framundan og landsfundur í lok næsta mánaðar. Formannsefnin tvö, Össur Skarphéðinsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hafa tekist á að undanförnum vikum sem og stuðningsmenn þeirra, einkum undir það síðasta. Hefur ýmislegt fróðlegt komið fram í þeim átökum sem e.t.v. hefði ekki heyrzt annars. T.a.m. gagnrýndi Össur Baugsveldið harðlega fyrir að hygla stjórnmálamönnum og –konum sem það hefði mætur á. Var væntanlega flestum ljóst að þar var einkum skírskotað til Ingibjargar Sólrúnar þó Össur hafi borið á móti því eftir á.

Einnig upplýsti Össur að stuðningsmenn Ingibjargar í Samfylkingunni hefðu sótt það stíft að henni væri úthlutað öruggu þingmannssæti fyrir Alþingiskosningarnar 2003 í Reykjavíkurkjördæmi norður. Eðlilega vildi enginn sitjandi þingmaður Samfylkingarinnar í kjördæminu gefa eftir þingsæti sitt til Ingibjargar. Því fór svo að hún fékk einungis sæti neðar á framboðslistanum en var engu að síður útnefnd sem forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar. Foringjadýrkunin sem fylgdi í kjölfarið muna síðan sennilega flestir með stórum andlitsmyndum af Ingibjörgu úti um allt svo manni varð óhjákvæmilega hugsað til áróðurmynda í gömlu kommúnistaríkjunum.

Eins og allir vita fór það síðan svo að Ingibjörg náði ekki kjöri og varð aðeins varaþingmaður að kosningunum loknum. Össur auðmýkti reyndar Ingibjörgu með því að bjóða Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherrastólinn ef Framsókn myndaði ríkisstjórn með Samfylkingunni. Þetta tilboð hefur án efa kitlað Halldór en tilhugsunin um þingmeirihluta upp á aðeins einn mann hefur sennilega ekki kitlað hann eins mikið. Össur hafði reyndar sótt það stíft í aðdraganda kosningabaráttunnar að hann og hann einn myndi verða forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar. Annað kæmi bara ekki til greina. Síðan kúventist sú afstaða í anda Ragnars Reykáss.

Eins og kunnugt er setti Samfylkingin setti sér nokkur markmið fyrir kosningarnar 2003. Þau voru að fella ríkisstjórnina, komast í ríkisstjórn, koma Ingibjörgu Sólrúnu á þing og gera hana að forsætisráðherra og að ná svokölluðum „35% múr“ í fylgi. Reyndar var þessi múr upphaflega 40% en var síðan færður niður í 35% þegar líða tók á kosningabaráttuna og datt svo niður í 30% einhverjum dögum fyrir kjördag þegar skoðanakannanir sýndu að 35-40% væri ekki raunhæft fylgi fyrir Samfylkinguna. Skemmst er auðvitað frá því að segja að ekkert af þessum markmiðum flokksins náðust.

Eftir kosningarnar 2003 var Ingibjörg í vægast sagt miklu pólitísku tómarúmi með enga formlega stöðu innan Samfylkingarinnar utan að vera varaþingmaður. Þetta þótti stuðningsmönnum hennar ekki ásættanlegt eftir að hún varð að segja af sér sem borgarstjóri Reykjavíkur eftir að hafa sett á svið ótrúlegt leikrit þar sem hún hélt virkilega að Vinstri-grænir og Framsókn myndu taka því þegjandi og hljóðalaust að hún færi í framboð fyrir Samfylkinguna í landsmálunum á sama tíma og hún væri fulltrúi óháðra í borgarstjórn og sameiginlegur borgarstjóri þeirra flokka sem mynda R-listann.

Pólitísku tómarúmi Ingibjargar eftir kosningarnar var síðan reddað með því að búa til sérstakt batterí í kringum hana sem fékk nafnið „Framtíðarhópur Samfylkingarinnar“ og fékk það verk að koma með tillögur að framtíðarstefnu flokksins. Mörgum þykir þó fátt gáfulegt hafa komið frá þeim hópi þann tíma sem hann hefur starfað og þ.á.m. Össuri Skarphéðinssyni. Mætti nefna t.d. hugmyndir Ingibjargar Sólrúnar um að semja við Evrópusambandið um að sjá um varnir Íslands í stað Bandaríkjanna. Þær hugmyndir urðu þó að engu eftir að fulltrúi frá varnarmálaskrifstofu sambandsins upplýsti að það væri engan veginn í stakk búið að sjá um varnir landsins.

Annars er nú búið að koma því þannig fyrir að Ingibjörg komizt loksins á þing. Bryndís Hlöðversdóttir hefur ákveðið að segja af sér þingmennsku í sumar og taka við starfi deildarforseta við lagadeild Viðskiptaháskólans á Bifröst. Reyndar skilst mér að það starf sé aðeins laust í ár. Þetta eru því vægast sagt undarleg skipti. Það vill annars svo merkilega til að Bryndís er einmitt þingmaður í sama kjördæmi þar sem Ingibjörg Sólrún er fyrsti varaþingmaður.

Í aðdraganda formannskjörsins í Samfylkingunni var Ingibjörgu einmitt legið á hálsi að hún væri ekki aðalmaður á þingi og að óheppilegt væri ef formaður flokksins væri það ekki. Þetta allt væri því sennilega æði mikil tilviljun ef sú væri í reynd raunin eins og Bryndís og Ingibjörg hafa haldið fram. En fólk sér nú alveg í gegnum þetta.

Svo kemur bara í ljós í lok maímánaðar hver verður formaður Samfylkingarinnar. Mér er eiginlega nokkuð sama.

Hjörtur J. Guðmundsson


Virðulegur forseti

Í dag er ástæða til að draga fána að húni. Frú Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands fæddist í Reykjavík þann 15. apríl 1930 og er því 75 ára. Vigdís varð forseti sama ár og ég fæddist (1980) og sat í því embætti til 1996. Það var á þeim tíma sem fólk bar virðingu fyrir forsetanum sínum. Sjálfur man ég eftir mér í Vatnaskógi sumarið 1992, þá tólf ára gamall, og Vigdís Finnbogadóttir kom í heimsókn til okkar drengjanna. Hún gróðursetti tré með okkur og sýndi starfinu í Vatnaskógi mikinn áhuga.

Kjör Vigdísar til forseta vakti heimsathygli enda var hún fyrsta konan í heiminum sem var kosinn þjóðhöfðingi í lýðræðislegum kosningum.

,,Hrífandi persónutöfrar Vigdísar hafa heillað þjóðarleiðtoga og almenning um allan heim og óhætt er að fullyrða að enginn íslenskur forystumaður hefur náð jafnmikilli hylli á alþjóðvettvangi.

...Þó að Vigdís hafi sigrað naumlega í forsetakjörinu árið 1980 ávann hún sér fljótlega traust og virðingu íslensku þjóðarinnar.

... Ásýnd Vigdísar, glæsileiki og fágun gefur til kynna að þar fari kona sem notið hefur alls hins besta í lífinu. Svo er alls ekki. Þvert á móti hefur hún gengið í gegnum meiri erfiðleika en margir aðrir. Ung missti Vigdís einkabróður sinn og nokkrum árum síðar gekk hún í gegnum erfiðan skilnað. Á meðan hún var í hjónabandi bar hún ekki gæfu til að eignast þau börn sem hún þráði og síðar barðist hún hetjulega við krabbamein þar sem hún hafði sigur. Sársaukinn virðist hafa mótað persónuleika hennar til frambúðar því að hvar sem hún kemur geislar af henni samkennd, hlýja og hluttekning.”
Ásdís Halla Bragadóttir um Vigdísi Finnbogadóttur í bókinni Í hlutverki leiðtogans.

Vigdís Finnbogadóttir sýndi leiðtogahæfileika sína hvað best eftir að snjóflóðin féllu á Súðavík og Flatreyri fyrir rúmlega tíu árum.
Hún var mætt til að hugga fólk og gefa því von. Fólk treysti henni og hún var og er sá leiðtogi sem hlýjar öllum um hjartarætur.

Að sama skapi var Vígdís ópólitískur forseti. Hún gerði sér grein fyrir því að það var ekki hlutverk íslenska forsetans að hafa áhrif á pólitík eða taka þátt í þeim. Í bók Ásdísar Höllu Bragadóttur, Í hlutverki leiðtogans segir Vigdís um þá forsætisráðherra sem hún starfaði með: ,,Þó að ég væri ekki endilega alltaf sammála þeim þá lét ég það ekki uppi, því forsetinn á ekki að vera talsmaður neinnar pólitískrar stefnu.” Og um EES samninginn segir hún: ,,Af minni hálfu var mjög varasamt að neita að skrifa undir samninginn. Með því væri ég að lýsa yfir stríði á hendur Alþingi og ríkisstjórn sem hafði samþykkt hann. Í þjóðaratkvæðagreiðslu hefði aldrei verið hægt að greina á milli um hvað hefði verið kosið, EES-samninginn eða ríkisstjórnina.”

Vigdís hóf ekki baráttu á vígvelli stjórnmálanna eins og við sem höfum það valið gerum á hverjum degi. Hún var yfir það hafin og á lof skilið.

Vigdís Finnbogadóttir er einnig góðgerðasendiherra UNESCO fyrir tungumál heims. Hún hefur látið til sín taka í baráttunni fyrir því að fólk geri sér grein fyrir mikilvægi fjölbreytileika tungumála og hve mikilvægt það er að standa vörð um tungumál í útrýmingarhættu.

John Maxwell talar um í bók sinni, The 21 Irrefutable laws of leadership, hvernig alvöru leiðtogar taka forystuhlutverk sitt langt umfram þann titil sem þeir bera hverju sinni. Þannig má t.d. sjá hvernig Díana heitin prinsessa átti hug og hjörtu heimsins löngu eftir að hún var svipt prinsessutitlinum. Hún hafði meiri áhrif með hverjum deginum sem leið. Það horfðu helmingi fleiri á jarðaför hennar heldur en brúðkaup hennar sextán árum áður.

Við Íslendingar eigum okkar Díönu prinsessu. Hún heitir Vigdís Finnbogadóttir. Þó svo að hún hafi látið af starfi forseta Íslands er hún alltaf Vigdís forseti. Sá forseti sem þjóðin elskaði, dáði og virti.

Ég óska Vigdísi innilega til hamingju með daginn.

Gísli Freyr Valdórsson


Um þéttingu byggðar

Í skipulagsfræðum er talað um að borg með íbúaþéttleika upp á 150 íbúa á hektara sé mjög hagkvæm, með öflugum miðbæ og hagkvæmum almenningssamgöngum. Borg með íbúaþéttleika upp á um 100 íbúa á hektara sé með þessa hluti í ásættanlegum horfum, en borg með kringum 50 í íbúaþéttleika sé óhagkvæm vegna lélegra samganga, lítt þrifalegum (efnahagslega) miðbæ og þá fleiri þjónustumiðstöðvum sem draga úr mikilvægi miðbæjarins. Í slíkri byggð er grundvöllur fyrir almenningssamgöngur allt of lítill til að það standi undir sér, og því út úr myndinni að einkaaðilar reki það, líkt og möguleiki er á í fyrrnefndum tilfellum með tilheyrandi ávinning fyrir íbúa.

Lesandinn veltir eflaust fyrir sér hvernig staðan sé hér í borg, þó hann geti sér líklega til að við séum í lægri mörkum þessa stuðuls. Ástandið er þó verra en það, því þrátt fyrir að reynt hafi verið að fegra niðurstöðuna með því (öfugt við hina stöðluðu aðferð) að sleppa grænum svæðum innan borgarmarkana eða ystu marka borgarbyggðarinnar er íbúaþéttleikinn í Reykjavík (og væntanlega höfuðborgarsvæðinu öllu) ekki nema 18 til 26 íbúar á hektara. Þetta er einungis helmingurinn af því sem talið er mjög slæmt ástand í skipulagsfræðum með tilheyrandi óhagræði og skorti á lífvænleika byggðar.

Ef það heldur áfram sem horfir mun samgöngukerfið aldrei geta annað eftirspurn, heldur vaxa borginni til höfuðs, þannig að flestallir kostir þess að búa í borg munu á endanum algerlega hverfa hér í Reykjavík, með tilheyrandi kostnaðarauka og á endanum jafnvel íbúaflótta og þá líklegast úr landi til borganna sem við erum að keppa um fólk við, í nágrannalöndunum. Ef allar hugmyndir (eða jafnvel bara hluti þeirra) um mislæg gattnamót á Kringlumýrar- og Miklubraut verða að veruleika erum við án efa kominn með hæsta hlutfall mislægra gattnamóta á hektara, og líklegast miðað við höfðatölu líka, í heimi.

Það þykir ekki góð latína í skipulagsfræðum að beina allri umferð í gegnum miðja byggðina, frekar ætti að beina umferðinni kringum byggðina, og þyrfti því að leggja meiri áherslu á Sundabraut (sem næði einnig suðureftir áleiðis til Keflavíkur) og ofanbyggðarveg. Slíkur vegur gæti þá einnig þjónað sem föst ytri mörk byggðarinnar svo útþennslu byggðarinnar (e. urban sprawling) lyki að mestu og borgin færi að byggjast meir inn á við í átt til meiri þéttleika og þannig lífvænlegra, hagkvæmara og mannvænlegra samfélags, sem héldi áfram að vera eftirsótt til búsetu út öldina. Ef ekki er gripið til ráðstafana er hætt við að Ísland missi sýna langmikilvægustu auðlind til útlanda í sífellt minnkandi heimi, mannauðinn. Nú þegar erum við kominn í fyrirsjáanlegan vanda varðandi hann með sífellt minnkandi fjölskyldustærðum og lægri fæðingartíðni.

Ef borgin mótaði sér slíka framtíðarsýn, byggða í raun á hinu gamla góða þétta byggðarfyrirkomulagi líkt og við sjáum í vesturbænum og Þingholtunum sem sífellt er horfið meir til nú til dags, kæmi auðvitað ekki til greina að byggja duftkirkjugarð í einu besta byggingarlandi borgarinnar í Öskjuhlíð og þrýstingur á algeran fluttning flugvallarins ykist stórum. Í raun er mikil eftirsjá af þeim skorti á íhaldssemi sem stjórnvöld og skipulagsyfirvöld á höfuðborgarsvæðinu sýndu af sér með tilkomu bílsins með því að halda sig ekki við það fyrirkomulag sem var þegar byggðin einskorðaðist við svæðið innan Hringbrautarinnar. Þá var miðað við að hægt væri að ganga eftir allri þjónustu, en þeir staðir sem nú þóttu alls ekki nógu góðir svo sem Haðarstígur, sem nefnd sem voru sem dæmi um gamaldagsskipulag er núna eitt eftirsóknarverðasta svæðið til búsetu og til mikillar eftirbreytni.

Einnig er randabyggðin í vesturbænum góð fyrirmynd, og er það engin tilviljun að göngustígarnir í gegnum þessi fallegu hús með grónum bakgörðum hafi verið valin við kvikmyndatöku á myndbandinu við nýja Eurovisionlagið. Þessar fyrirmyndir ættu menn að miða við að nota þegar byggt verður á flugvallarsvæðinu, og gera ætti þar heilstætt skipulag byggt á þéttri byggð í gamla stílnum. Allt hálfkák um hvort flugvöllurinn eigi að vera eða fara, vera að hluta og fara að hluta er óásættanlegt og einungis til þess fallið að eyðileggja tækifærið til þess að gera byggð þétta og lífvænlega til framtíðar.

Höskuldur Marselíusarson


Mánudagspósturinn 11. apríl 2005

Svo virðist sem meirihluti franskra kjósenda sé orðinn afhuga fyrirhugaðri stjórnarskrá Evrópusambandsins ef marka má síðustu skoðanakannanir um málið þar í landi. Meirihlutinn er þó enn tæpur þannig að allt getur gerzt þann eina og hálfa mánuð sem eftir er í að þjóðaratkvæði fari fram um málið í Frakklandi. Þessi staða mála þykir einkum athyglisverð í ljósi þess að fyrir aðeins nokkrum vikum síðan þótti forskot stuðningsmanna stjórnarskrárinnar nokkuð öruggt. En síðan hefur sá stuðningur smám saman verið að dragast saman.

Jacques Chirac, Frakklandsforseti, virðist því vera að upplifa það sama og forveri hans í embætti Françoise Mitterand árið 1992 þegar Frakkar greiddu atkvæði um Maastricht-sáttmála Evrópusambandsins í þjóðaratkvæði. Þegar Danir höfðu hafnað sáttmálanum ákvað Mitterand að sýna að Frakkar styddu hann heilshugar og setti málið í þjóðaratkvæði í Frakklandi. Taldi hann sig ekki vera að taka neina áhættu enda höfðu skoðanakannanir ítrekað sýnt að mikill meirihluti Frakka styddi sáttmálann. Niðurstaðan var hins vegar önnur og var sáttmálinn samþykktur með aðeins 51% atkvæða.

Þetta ferli hefur reyndar ósjaldan átt sér stað í þeim fáu tilfellum sem almenningi aðildarríkjum Evrópusambandsins hefur af verið gefinn kostur á að segja álit sitt á auknum samruna innan þess. Þ.e. að ákveðið hefur verið að halda þjóðaratkvæði um málið vegna þess að skoðanakannanir hafi ítrekað sýnt niðurstöðu þóknanlega forystumönnum Evrópusambandsins. Síðan hafi barátta stuðningsmanna og andstæðinga samrunans hafizt og niðurstaðan verið að samrunanum hefur verið hafnað.

Nefna mætti t.d. niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Svíþjóð um evruna haustið 2003 sem gott dæmi um þetta. Þegar Göran Persson, forsætisráðherra Svía, ákvað að leggja það í dóm sænskra kjósenda hvort taka ætti upp evruna í Svíþjóð eða ekki taldi hann sig ekki vera að taka neina áhættu með því þar sem skoðanakannanir höfðu ítrekað sýnt fram á að mikill meirihluti Svía styddi það. Síðan fór kosningabaráttan í gang og niðurstaðan þjóðaratkvæðagreiðslunnar nokkrum mánuðum síðar var að Svíar höfnuðu evrunni með afgerandi hætti.

Einmitt af þessum sökum leggur Persson ekki í að láta kjósa um fyrirhugaða stjórnarskrá Evrópusambandsins í Svíþjóð eins og evruna. Höfnun á henni líka yrði vitanlega hræðilegt pólitískt áfall fyrir hann. Helzta opinbera skýring Perssons á þessari ákvörðun sinni er að málið sé einfaldlega of flókið fyrir sænska kjósendur. Sænskir gárungar segja Svía klóra sér í höfðinu og spyrja sig hvort málið sé eitthvað flóknara fyrir þá en íbúa þeirra aðildarríkja Evrópusambandsins sem fá að kjósa um það.

Einmitt vegna þessarar reynslu hafa forystumenn Evrópusambandsins lagt áherzlu á að reynt væri að tryggja sem styzta kosningabaráttur í þeim aðildarríkjum sambandsins þar sem ákveðið hefur verið að leyfa almenningi að kjósa um málið. Tilgangurinn er að reyna að sjá til þess að andstæðingar fyrirhugaðrar stjórnarskrár Evrópusambandsins hafi sem allra minnst svigrúm til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Aðdragandi þjóðaratkvæðagreiðslunnar um málið á Spáni í febrúar sl. var lítill sem enginn og sama er t.a.m. að segja um Frakkland.

Annað er hins vegar uppi á teningnum í Bretlandi þar sem meirihluti þeirra sem afstöðu hafa tekið í skoðanakönnunum eru andvígir stjórnarskrá Evrópusambandsins. Þar hefur Tony Blair, forsætisráðherra landsins, ákveðið að taka sér nægan tíma til að reyna að snúa taflinu við og er ekki búist við þjóðaratkvæðagreiðslu um málið þar í landi fyrr en einhvern tímann á næsta ári haldi Verkamannaflokkurinn völdum í landinu í þingkosningunum í vor. Brezkir íhaldsmenn hafa hins vegar lofað því að halda þjóðaratkvæðið fyrr nái þeir völdum.

Í heildina munu eitthvað um tíu aðildarríki Evrópusambandsins halda þjóðaratkvæði um fyrirhugaða stjórnarskrá sambandsins á þessu ári eða því næsta og eitt hefur þegar gert það, Spánn. Þar var stjórnarskráin samþykkt með miklum meirihluta, en þátttakan þar var mjög dræm eða um 44%. Enginn bjóst við öðru en að Spánverjar myndu samþykkja stjórnarskrána enda fáar aðildarþjóðir Evrópusambandsins eins Evrópusambandssinnaðar og Spánverjar. Aðrar þjóðir sem hyggjast halda þjóðaratkvæði um stjórnarskrána eru auk Frakka Bretar, Hollendingar, Írar, Danir, Portúgalir, Pólverjar, Lúxemburgarbúar, Belgar og hugsanlega Tékkar. Önnur ríki munu taka afstöðu til stjórnarskrárinnar í gegnum þjóðþing sín og hafa þegar fjögur þeirra gert það, Ítalir, Litháar, Slóvenar og Ungverjar.

Í raun þarf aðeins eitt aðildarríki Evrópusambandsins að hafna stjórnarskránni til að hún sé úr sögunni samkvæmt reglum sambandsins. Forystumenn þess hafa þó ítrekað lýst því yfir að sjá verði til þess að þó eitt eða fleiri aðildarríki hafni stjórnarskránni muni það ekki stoppa allt ferlið. Þau ríki myndu þá einfaldlega fá einhvers konar aukaaðild að Evrópusambandinu. Þetta er líklegt að verði raunin ef Bretar hafna stjórnarskránni og/eða einhver minni aðildarríki sambandsins. Hins vegar eru allir sammála um að annað sé um að ræða ef Frakkar hafni henni enda ekki bara ein stærsta þjóð Evrópusambandsins heldur líka stofnríki.

Hjörtur J. Guðmundsson


Jóhannes Páll páfi II

Jóhannes Páll páfi II, verður jarðsunginn í Róm í dag. Um 200 þjóðarleiðtogar og stjórnarerindrekar verða við útförina og því um að ræða einn merkasta atburð seinni tíma sögu. Töldu margir að páfi yrði jarðsettur í heimalandi sínu, Póllandi, en kardinálarnir hafa ákveðið að hann muni hvíla með öðrum páfum í grafhvelfingu basilikunnar í St. Péturskirkju. Mun hann verða lagður til hinstu hvílu þar sem Jóhannes páfi XXIII var grafinn við andlát sitt árið 1963. Lík páfa lá á viðhafnarbörum í St. Péturskirkju í fjóra daga fyrir útförina. Tæplega 3 milljónir manna vottuðu páfa virðingu sína á þeim tíma. Biðu mörg hundruð þúsund manns enn í biðröð í miðborginni er tekin var sú ákvörðun að loka fyrir þær að kvöldi miðvikudags, enda þá ljóst að aðeins takmarkaður fjöldi myndi ná að kirkjunni. Segir það meira en mörg orð um hug fólks til páfans og verka hans. Fyrirfram var vitað að fjöldinn yrði mikill sem vildi votta honum virðingu, en hann hefur sprengt af sér alla spádóma um mögulegar tölur.

Pólverjinn Karol Józef Wojtyla var fyrsti páfinn í 455 ár sem ekki var Ítali. Hann fæddist 18. maí 1920 í smábænum Wadowice í Póllandi. Upplifði hann ógnir seinni heimsstyrjaldarinnar á unglingsárum sínum en Pólland var hernumið af Þjóðverjum árið 1939. Á æskuárum sínum áður en hann ákvað að nema guðfræði og helga sig kristinni trú var hann kraftmikill íþróttamaður og stundaði einkum knattspyrnu og sund og vann til fjölda verðlauna á unglingsárum í sundi. Hann tók vígslu sem prestur eftir nám sitt árið 1946. Hann kenndi siðfræði við Jagiellonian-háskólann í Kraków og síðar kaþólska háskólann í Lublin til fjölda ára. Árið 1958 var hann skipaður prestur í Kraków og fimm árum seinna, í desember 1963, var hann skipaður erkibiskup í Kraków. Árið 1967 var hann skipaður kardináli af Páli páfa VI og varð með því orðinn einn af forystumönnum Vatikansins og kaþólsku kirkjunnar. Var hann því orðinn kjörgengur við páfakjör.

Reyndi fyrst á það í ágúst 1978 er Páll páfi lést og eftirmaður hans var kjörinn. Hlaut Albino Luciani kjör og tók sér nafnið Jóhannes Páll páfi I. Hann lést eins og fyrr segir 33 dögum eftir vígslu sína. Fór páfakjör fram í október 1978 og þótti fyrirfram líklegast að baráttan um páfatignina myndi standa milli Giuseppe Siri og Giovanni Benelli. Gekk brösuglega fyrir þá að ná tilskyldum meirihluta. Í fyrstu umferð vantaði Benelli 9 atkvæði til að sigra í kjörinu. Varð þá úr að samstaða náðist milli vissra arma í trúarhreyfingunni um að Wojtyla gæfi kost á sér og náði hann kjöri sem málamiðlunarkostur. Var undrun víða um heim við kjör hans, enda var hann lítt þekktur og hafði verið lítt umdeildur í störfum sínum. Margir nefndu hann manninn frá fjarlæga landinu, sem til marks um það að hann gat verið sameiningartákn ólíkra hluta og gæti því tekið við forystunni með lítt umdeildum hætti.

Enginn vafi leikur á því að Jóhannes Páll páfi II hafi verið litríkasti og mest áberandi páfi í sögu kaþólsku kirkjunnar og hafi sett einna mest mark á sögu embættisins. Aðeins tveir sátu lengur á páfastóli en hann: St. Peter og Pius IX. Jóhannes Páfi II var litríkur páfi og markaði stór spor í sögu kirkjunnar. Hann fór í 104 opinberar heimsóknir og heimsótti 129 lönd. Samkvæmt upplýsingum frá Vatíkaninu eyddi hann 822 dögum embættisferils síns, eða 2 árum og 3 mánuðum, í ferðir utan Vatíkansins. Hann flutti 20.000 ræður og ávörp og veitti rúmlega 1.000 áheyrnir í Vatíkaninu sem 17 milljónir og 800.000 manns sóttu. Hann átti fundi með 1.600 stjórnmálaleiðtogum, þar af 776 þjóðarleiðtogum. Hann gaf út fleiri yfirlýsingar og tilskipanir innan kirkjunnar en áður hefur þekkst og tók alls 482 menn í dýrlingatölu sem er meira en allir forverar hans höfðu gert í 400 ár. Það deilir því enginn um áhrifamátt þessa trúarleiðtoga sem nú hefur kvatt. Hvað sem segja má um skoðanir hans voru áhrif hans mikil og enginn vafi leikur á að hann var einna merkastur af trúarleiðtogum í sögu kaþólsku kirkjunnar.

Frá því að tilkynnt var um lát páfa á laugardagskvöld hefur fólk um allan heim minnst hans og 27 ára ferils hans í embættinu. Er það samdóma álit flestra að páfinn hafi verið boðberi friðar, ötull talsmaður friðarboðskapar og hans framlag skipt sköpum er kom að endalokum kommúnismans og grimmilegs einræðis sem predikað var í nafni hans. Met ég mikils forystu hans í friðarmálum, hans rödd var öflug á því sviði og það leikur enginn vafi á því að hann hafði mikil áhrif. Heimsókn hans til heimalands síns, Póllands, árið 1979, markaði söguleg skref og það er ekkert vafamál á að hann var ötull talsmaður gegn kommúnisma í heimalandi sínu. Fyrir páfakjörið 1978 hafði hann verið ötull andstæðingur kommúnismans og kjör hans í embættið styrkti mjög baráttu stjórnarandstöðuaflanna í heimalandi hans. Forysta Jóhannesar Páls II á páfastóli hafði hiklaust áhrif við að berja kommúnismann niður í A-Evrópu allri að lokum. Enda reyndi KGB að ráða hann af dögum í maí 1981. Söguleg var ennfremur ferð hans til N-Írlands 1979. Þrátt fyrir átök hélt hann fjölmenna útimessu í Ulster, sem varð söguleg.

Enginn vafi er á að þrátt fyrir farsæla setu á páfastóli var páfinn umdeildur. Fylgismenn hans staðhæfa að hann hafi átt drjúgan þátt í endalokum kommúnismans með baráttu sinni fyrir frelsi og mannlegri reisn í Póllandi og öðrum A-Evrópuríkjum. Andstæðingar hans segja að páfi hafi hrakið milljónir manna úr kaþólsku kirkjunni með íhaldssemi. Hann hafi líkt og forverar hans verið andvígur því að konur gegni prestþjónustu, hann hafi lagst gegn getnaðarvörnum, ástarsamböndum samkynhneigðra og því að prestar kvænist. Hann hafi verið gamaldags fulltrúi og lagst gegn framþróun og verið andvígur mikilvægum mannréttindaatriðum. Stuðningsmenn hans segja að páfi hafi á löngum ferli verið kraftmikill málsvari mannréttinda og stutt "réttar" mannlegar áherslur, eins og þeir segja. Á löngum ferli var hann áberandi talsmaður grunnmannréttinda: málfrelsis og andvígur stríðum, einræði og blóðsúthellingum.

Tekur nú við tímabil sem ber nafnið Novemdialis, 9 daga formlegt sorgartímabil, sem markast af því að á hverjum degi er haldin hátíðarmessa í St. Péturskirkju. Eftir að Novemdialis er lokið er komið að stærsta verkefninu sem fylgir andláti páfa, því að velja formlega eftirmann hans. Kjörmannasamkunda kardinála mun koma saman þann 18. apríl nk. Allir kardínálar, nema þeir sem hafa náð áttræðu, geta tekið þátt í kjöri nýs páfa. Ef marka má fréttir erlendra vefmiðla eru um 120 kardinálar sem standast kjörskilyrðin að þessu sinni. Alla þeirra nema tvo hefur Jóhannes Páll II sjálfur skipað til setu þar. Eru því saman komnir þar fulltrúar skoðana hans og vart að búast við mikilli stefnubreytingu með eftirmanni hans. Er talið ólíklegt að val páfa að þessu sinni verði jafn sögulegt og hið seinasta. Bæði er almennt talið að eftirmaðurinn verði maður um eða yfir sjötugt og sitji því skemur í embætti og hafi minni söguleg áhrif.

Þrjár aðferðir eru til að velja nýjan páfa. Í fyrsta lagi er sú aðferð sem algengust er: að velja páfa með beinni kosningu. Frambjóðandi verður þá að hljóta 2/3 allra atkvæða til að vera kjörinn, í öðru lagi er hægt að kjósa páfa með upphrópun. Þá eru allir kardínálarnir sammála um hver skuli taka við sem páfi og kalla nafn hans upphátt. Að lokum er hægt að velja páfa með málamiðlun. Atkvæðagreiðslan fer fram í Sixtínsku kapellunni. Eftir að samstaða hefur náðst eru atkvæðaseðlarnir brenndir. Hvítan reyk leggur þá upp yfir Péturstorgið til marks um niðurstöðuna - páfi hafi verið kjörinn. Sú nýbreytni verður á vali páfa að þessu sinni að ekki mun aðeins hvítur reykur marka kjör nýs páfa, heldur mun bjöllum Vatíkansins verða hringt til merkis um að kardinálarnir hafi náð samstöðu. Er það til að koma í veg fyrir misskilning, enda getur reykurinn hvíti virst grár. Hver svo sem valinn verður er ljóst að söguleg tíðindi eru framundan innan kaþólsku kirkjunnar.

Jóhannes Páll II páfi var sannkallaður áhrifamaður á samtíð sína og alla framtíð, bæði kristinnar trúar og þess embættis sem hann gegndi af trúmennsku og mikilli samviskusemi í þrjá áratugi og sýndi ótrúlegan styrk sérstaklega seinustu árin, er hann barðist við veikindi og sífellt minni þrótt til starfa. Hann réði ekki yfir herstyrk eða vopnavaldi en vald hans og áhrif var öflugra en það allt til samans, hann vann á grundvelli trúar og var einlægur fulltrúi þess sem kristin trú byggir á. Áhrif hans við að tjá þann boðskap var sterkari en allt mannlegt. Hann var allt til hinstu stundar ötull og öflugur talsmaður Guðs. Hann markaði skref í sögu mannkyns sem gleymast ekki að mínu mati. Eftirmanns hans bíður ekki auðvelt verkefni að taka við embættinu, nú þegar hann hefur kvatt.

Stefán Friðrik Stefánsson


Næsta síða »

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband