Leita í fréttum mbl.is

Eignarhald á fjölmiðlum og Símanum

Ekki hefur mikið farið fyrir umræðu um skýrslu nefndar menntamálaráðherra um íslenska fjölmiðla sem nýverið var gerð opinber. Það má telja nokkuð undarlegt í ljósi þess að í skýrslunni er lagt til verulegt inngrip löggjafans á íslenskan fjölmiðlamarkað. Ef til vill skýrist það að nokkru af því að ekki hefur enn verið lagt fram lagafrumvarp á grundvelli skýrslunnar, auk þess sem þverpólitísk samstaða ríkti í nefndinni um þær leiðir sem lagðar eru til.

Nefndin hefur einkum þrjú yfirlýst markmið að leiðarljósi í tillögum sínum – að fjölbreytni í fjölmiðlum sé tryggð, ,,gott val” neytenda og að öflug upplýsingagjöf og gagnsæi ríki. Tillögur nefndarinnar skiptast í sjö þætti

A - Ríkisútvarpið verði áfram öflugt almannaþjónustuútvarp.
Nú þegar liggur fyrir Alþingi frumvarp um Ríkisútvarpið sem ég ætla ekki að fjalla um hér.

B - Settar verði reglur sem tryggi gagnsæi í eignarhaldi á fjölmiðlum.
Ég tel það jákvætt skref að settar verði reglur sem tryggi gagnsæi í eignarhaldi á fjölmiðlum. Það er lágmarkskrafa að almenningurr geti vitað hverjir eiga þá fjölmiðla sem flytja þeim fréttir svo þeir geti metið efnið út frá hugsanlegum tengslum eigendanna við fréttaefnið.

C - Reglur um leyfisveitingar til rekstrar ljósvakamiðla verði endurskoðaðar með það að markmiði að aðgreina ólíka miðla.
Hér gengur nefndin nokkuð langt að mínu áliti þar sem hún leggur til að opinberir aðilar þurfi að samþykkja meiriháttar breytingar á dagskrárstefnu þeirra fjölmiðla sem hlotið hafa opinber leyfi. Þetta hlýtur að teljast allstrangt skilyrði verði það ofan á, og í raun takmörkun á tjáningarfrelsi þeirra sem reka ljósvakamiðla.

D - Að eignarhald á fjölmiðlum með tiltekna útbreiðslu eða hlutdeild á markaði verði takmarkað við ákveðinn hámarks eignarhluta.
Nefndin telur það nokkuð óumdeilt að úrræði samkeppnislaga nægi ekki ein og sér til að ,,sporna við neikvæðum áhrifum samþjöppunar og samráðs fyrirtækja á fjölmiðlamarkaði”. Lagt er til að eignarhald verði takmarkað við 25% eignaraðild í þeim fjölmiðlum sem annaðhvort þriðjungur af mannfjölda notfærir sér daglega eða ef markaðshlutdeild fjölmiðilsins fer yfir þriðjung af heildarupplagi, heildarhlustun eða heildaráhorfi á hverjum fjölmiðlamarkaði um sig.

Þessar tillögur eru frábrugðnar lögum nr. 48/2004 sem ollu miklum deilum í fyrra og voru að lokum felld úr gildi, að því leyti að takmörkunin á eignarhaldinu er ekki bundin við fyrirtæki sem eru markaðsráðandi á öðrum sviðum heldur gengur jafnt yfir alla eigendur og er miðað við útbreiðslu viðkomandi fjölmiðils.

E - Reglur verði settar sem tryggi aukið val neytenda þannig að efnisveitur fái aðgang að ólíkum dreifiveitum og dreifiveitur fái flutningsrétt á fjölbreyttu efni.
Í stuttu máli er þessum reglum ætlað að sporna gegn áhrifum svokallaðs lóðrétts eignarhalds. Fjarskiptafyrirtækjum verði gert skylt að dreifa efni frá mismunandi fjölmiðlum sækist viðkomandi fjölmiðlar eftir slíkri dreifingu og fjarskiptafyrirtækið bjóði á annað borð upp á hana. Eins verði settar reglur sem geri mismunandi dreifiveitum (fjarskiptafyrirtækjum) kleift að fá til sín það efni sem þær kjósa og er á annað borð ætlað til dreifingar um slíkar veitur.

F - Að mótaðar verði reglur um ritsjórnarlegt sjálfstæði á fjölmiðlum.
Nefndin telur að slíkar reglur væru til bóta, í því skyni að hindra afskipti eigenda fjölmiðla af fréttaflutningi þeirra og sjálfstæðri dagskrárgerð. Ekki er lögð til sérstök löggjöf í þessum efnum en áhersla lögð á að slíkar reglur verði mótaðar í samráði við fjölmiðlana sjálfa og hagsmunasamtök blaða- og fréttamanna. Lagt er til að slíkar reglur innifeli skilyrði fyrir áminningu og brottvikningu einstakra blaða- og fréttamanna. Ég verð að játa að ég hef nokkrar efasemdir um gildi slíkra reglna. Ég tel að blaða- og fréttamenn muni alltaf hafa vissa tilhneigingu líkt og aðrar starfsstéttir til að þóknast sínum vinnuveitendum og er það fullkomlega eðlilegt. Einnig tel ég að það séu veruleg takmörk fyrir því hversu langt rétt er að ganga í því að slíta tengsl milli eigenda og ritstjórnar fjölmiðla. Menn setja kannski á fót fjölmiðil í því skyni að þar sé rekin ákveðin ritstjórnarstefna, og þá er rétt að menn hafi svigrúm til að hafa þar fólk sem framfylgir þeirri stefnu, þó auðvitað sé sjálfsögð krafa þeirra sem nýta fjölmiðlana að fréttaflutningur þeirra sé heiðarlegur og hlutlægur. Hér skiptir mestu að gagnsæi ríki um eignarhaldið svo almenningur geti áttað sig á hugsanlegum hagsmunatengslum..

G - Einföldun stjórnsýslu á þessu sviði þannig að málefni fjölmiðlanna séu sem flest á verksviði eins og sama stjórnvaldsins.
Þessi tillaga miðar að því að einfalda stjórnsýslu um málefni fjölmiðla.

Vangaveltur um tillögurnar
Það sem mest mun kveða að í þessum tillögum, verði lög sett á grundvelli þeirra, eru reglur um eignarhaldið. Sem fyrr segir miðast tillögurnar við að sami aðili geti ekki átt meira en 25% í fjölmiðli sem hefur þriðjungs útbreiðslu eða markaðshlutdeild. Hin umdeildu fjölmiðlalög sem sett voru síðasta sumar og felld úr gildi nokkrum vikum síðar kváðu á um 5% hámarkseignarhlutdeild fyrirtækja sem væru markaðsráðandi á öðrum sviðum viðskipta í fjölmiðlafyrirtækjum til að geta fengið útvarpsleyfi. Þá var samkvæmt lögunum óheimilt að veita útvarpsleyfi til fyrirtækja sem annað fyrirtæki átti meira en 35% hlut í. Einnig var tekið fyrir það að fyrirtæki sem hefði að meginmarkmiði rekstur óskyldan fjölmiðlarekstri fengi útvarpsleyfi auk þess sem sami aðili mátti ekki hafa á hendi útgáfu dagblaðs og rekstur ljósvakamiðils. Tillögur nefndarinnar nú ganga lengra að því leyti að nú má ENGINN eiga meira en 25% í fjölmiðlafyrirtæki sem nær áðurnefndu þriðjungsmarki. Þetta hlýtur að teljast all íþyngjandi. Maður sem opnar sjónvarpsstöð sem verður vinsæl neyðist til að selja þrjá fjórðu hluta hennar í hendur annarra þegar útbeiðslan nær tilsettu lágmarki. Slíkar reglur hljóta að virka letjandi á menn að hasla sér völl í þessum geira, því ef vel gengur er aldrei langt í hinn opinbera refsivönd. Það athugast að slík regla myndi byrja að svíða menn löngu áður en neins konar fákeppnis eða einokunarstaða væri komin upp. Engar skorður eru þó settar í tillögunum við því að sömu fjórir aðilarnir geti átt alla einkarekna fjölmiðla í landinu. Svo virðist sem aðalmarkmiðið með þessum tillögum um eignarhaldið sé að tryggja dreifða eignaraðild einstakra fjölmiðlafyrirtækja meðan lögin í fyrra beindust einkum að því að rjúfa tengsl fjölmiðla við stórfyrirtæki sem voru markaðsráðandi á öðrum sviðum.

Miðað við alla umfjöllunina sem varð um fjölmiðlamálið í fjölmiðlum í fyrra hlýtur að sæta nokkurri furðu hve litla umfjöllun skýrslan fær nú. Þverpólitísk sátt í nefndinni auk þess að ekki er enn komið frumvarp um málið vega eflaust þungt. Einnig kann hluti skýringarinnar að vera sá að það vill svo til að einkareknir fjölmiðlar sem flytja fréttir eru í nokkuð dreifðri eignaraðild og því koma mögulegar reglur á grundvelli tillagnanna ekki svo ýkja hart niður á þeim þó þær gætu komið hart niður á fjölmiðlafyrirtækjum undir öðrum kringumstæðum.

Sala Símans
Nú hyllir loks undir það að Síminn verði seldur. Því hljóta allir frjálshuga menn að fagna. Þau skilyrði sem eru sett varðandi söluna hafa sætt nokkurri gagnrýni sem ég get að mörgu leyti tekið undir. Skilyrði er að enginn einn aðili eignist meira en 45% hlut og almenningi er ekki gefinn kostur á kaupum í fyrstu atrennu, en eiga þó möguleika á að eignast hlut með því að stofna með sér félag og bjóða í stóran hlut í fyrirtækinu líkt og nú er í farvatninu. Það má spyrja hvers vegna þessi skilyrði eru sett. Hvers vegna má ekki selja fyrirtækið hæstbjóðanda án þess að hafa þessi skilyrði um 45% hámark? (Auðvitað má líka spyrja á móti eins og gert hefur verið hvort það eigi yfir höfuð að vera markmið í einkavæðingarferli að sem hæst verð fáist). Og hvers vegna eru sett skilyrði sem gera almenningi erfitt fyrir að eignast fyrirtækið strax? Hvað sem útfærslunni líður er aðalatriðið að einkavæðing Símans er handan við hornið. Síðast tókst ekki að selja nema 1,3% af fyrirtækinu. Allar líkur eru á að betur takist til nú. Það er vel.

Þorsteinn Magnússon


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband