Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2005
Miðvikudagur, 9. nóvember 2005
Íslenski Loforðaflokkurinn
Loforðaflokkurinn vill lækka skatta, hækka skattleysismörk, byggja fleiri sjúkrahús, eyða öllum biðlistum, hlúa betur að öldruðum, lækka verð á matvælum, útbreiða almenna hamingju, byggja hálendisvegi, bora göng í gegnum fjöll, byggja nýjan flugvöll, stækka allar hafnir, útvega ókeypis barnagæslu, ókeypis skólagöngu frá fæðingu til grafar, auka framlag Íslands til þróunaraðstoðar, auka frelsi í viðskiptum, byggja góð tónlistar hús, standa við bakið á íþróttahreyfingunni, byggja graslagða innanhús knattspyrnuvelli, draga úr ríkisútgjöldum, styðja við íslenska listdansflokkinn, byggja upp fleiri háskóla á landsbyggðinni, gera mislæg gatnamót, bjarga landsbyggðinni, styðja við höfuðborgarsvæðið, hafa góðar flugsamgöngur, lengja fæðingarorlofið, hækka barnabætur, veita háskólanemum styrki, styrkja iðnám, efla íslenskan iðnað, tryggja öryggi landsins, breikka þjóðveginn, útrýma einbreiðum brúm, bæta aðbúnað og þjónustu grunnskólabarna, vinna gegn offitu, hækka örorku og atvinnuleysisbætur, tryggja öllum nægan tíma til tómstunda, hækka lágmarks laun, styðja skátahreyfinguna, útrýma unglinga drykkju, eyða fíkniefna vandanum, byggja stiga til himins, finna gull og olíu, styrkja sinfóníuhljómsveitina, efla Þjóðleikhúsið og Borgarleikhúsið, efla leiklistarnám og annað listnám, borga tónlistarnám og íþróttaæfingar ungmenna, eyða viðskiptahallanum, borga niður erlendar skuldir, lengja sumarið og stytta veturinn, stöðva mengun og umhverfis spjöll, tryggja konum sæti í stjórnum fyrirtækja, minnka bilið milli ríkra og fátækra, tryggja öllum næga atvinnu, tryggja menntuðu fólki atvinnu sem hæfir menntun þeirra, auka tungumálakunnáttu Íslendinga, styrkja íslenska rithöfunda og myndlist, byggja fleiri listasöfn, auka samkeppniseftirlit, og almennt eftirlit með markaði og fiskveiðum, auka neytendavernd, bæta samkeppnisaðstöðu íslenskra fyrirtækja, vernda fjölskylduna, hjálpa einhleypu fólki, þyngja refsingar, útvega mannúðleg úrræði fyrir afbortamenn, ókeypis og gott ríkisútvarp, efla íslenskan landbúnað, tryggja gott viðurværi fyrir íslensku sauðkindina, útvega öllum gott húsnæði, forgangsraða í þágu menntunar, forgangsraða í þágu menningar, forgangsraða í þágu heilbrigðiskerfisins, forgangsraða í þágu velferðar, forgangsraða í þágu samgöngumála... svona heldur þetta áfram... mörg þúsund önnur mis raunsæ loforð eru á stefnuskrá Loforðaflokksins... og svo kemur loforðið um ábyrgð í rekstri ríkis og bæja eins og rúsínan í pylsuendanum.
Íslenski Loforðaflokkurinn er ekki trúverðugur. Fimm stærstu félög Loforðaflokksins heita Vinstri-Grænir, Samflykingin, Frjálslyndiflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Sjáfstæðisflokkurinn.
Edmund Burke (1729-1797) er að mörgum talinn vera upphafsmaður stjórnmálastefnunnar sem kennd er við íhald. Burke þessi hafði afar einkennilegar skoðanir á mörgu, og ég efast um að nokkur nútímamaður myndi samþykkja öll hans skrif. Undirliggjandi í kenningum Burke var þó ákveðið raunsæi, og ég held að Loforðaflokkurinn mætti margt læra af þessu íhaldsama raunsæi Burke. Við erum í þessum heimi eins og hann er. Hvorki stjórnmálamenn né ríkisvaldið hafa það á valdi sínu að breyta þessum heimi í paradís á jörðu, en þeir halda samt áfram að lofa öllu fögru. Fólk telur nú orðið að það sé hlutverk stjórnmálamanna og ríkisvaldsins að tryggja velferð þess og framtíð. Einstaklingurinn er orðinn eins og ungabarn í pössun hjá alnálægu foreldri sínu, stjórnmálamanninum. Ríkið er minn gæfu smiður er slagorðið, og enginn vill bera ábyrgð á sjálfum sér. Óeirðir eru nú í Frakklandi, þar sem fólk æðir út á götur og kveikir í bílum. Þeir telja að ríkið hafi ekki verið nógu duglegt við að sinna þeim. Stjórnmálamennirnir hafa ekki séð nægilega vel fyrir þeim. Þeir hafa ekki útvegað þeim störf, ekki greitt nógu hágar bætur, ekki útvegað þeim nógu gott húsnæði og nógu góða menntun...
Þetta eru ósjálfbjarga dekurbörn vestræns velferðakerfis.
Mánudagur, 7. nóvember 2005
Mánudagspósturinn 7. nóvember 2005
Prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar næsta vor er nú lokið og niðurstöðunar liggja fyrir. Persónulega hefði ég viljað sjá Gísla Martein Baldursson ná fyrsta sætinu en niðurstaðan varð önnur og þar við situr. Niðurstaðan er engu að síður sú að um er ræða öflugan framboðslista sem verður teflt fram eftir áramót í kosningabaráttunni og með honum munum við klárlega sigra kosningarnar og ná völdum í borginni og innleiða þá nýju tíma sem Gísli Marteinn talaði fyrir í prófkjörsbaráttunni. Þær hugmyndir hafa augljóslega fallið í góðan jarðveg á meðal sjálfstæðismanna í Reykjavík og langt út fyrir þann hóp. Prófkjörsbaráttan sýnir það svo um munar.
Vinstrimenn hafa að sjálfsögðu brugðist við niðurstöðum prófkjörsins eins og við var að búast sama hver niðurstaðan hefði verið eða hvaða fólk hefði verið í framboði. Þ.e.a.s. þeir hafa gefið lítið fyrir niðurstöðuna, fundið henni allt til foráttu og talið hana verða sínum eigin flokkum til framdráttar í kosningunum í vor. Það er ánægjulegt að sjá þann mikla taugatitring og örvæntingu sem greinilega er til staðar í röðum andstæðinga Sjálfstæðisflokksins. Það er alveg klárt mál að Reykvíkingar vilja nýja tíma í borginni og eru búnir að fá nóg af óráðsíu vinstrimanna. Enda er ekki seinna vænna að koma lagi á hlutina áður en hún verður hreinlega sett á hausinn. Dæmalausri skuldasöfnun þann tíma sem vinstriflokkarnir hafa ráðið ferðinni í Reykjavík verður að ljúka og það verður ekki gert nema sjálfstæðismenn nái völdum í borginni.
Það var annars sérstaklega fyndið að sjá hvað Stefán Jón Hafstein brást vandræðalega við þeirri spurningu í fréttatíma Stöðvar 2 í gærkvöldi hvort það væri ekki að kasta steinum úr glerhúsi að segja að hvorki Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson né Gísli Marteinn væru frambærileg leiðtogaefni. Hann varð voðalega skrítinn, vafðist tunga um tönn og sagðist svo ekki skilja spurninguna. Það þarf auðvitað ekki að hafa mörg orð um þetta að öðru leyti, það vita allir hvað átt er við og ekki sízt Stefán Jón. Leiðtogavandræði R-listans hafa nú ekki verið lítil á kjörtímabilinu sem nú fer að ljúka og forystuekla Samfylkingarinnar er ekki síðri. Ingibjörg Sólrún átti víst að rífa fylgi Samfylkingarinnar upp en síðan hún tók við sem formaður flokksins hefur fylgi hans minnkað stöðugt og er nú innan við 28% skv. síðustu skoðanakönnun Gallups.
En hvað sem líður ánægjulegum vandræðagangi á vinstrivængnum þá er ljóst að Gísli Marteinn kemur mjög sterkur út úr þessu prófkjöri sjálfstæðismanna, eins og ýmsir hafa orðið til að banda á s.s. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, þrátt fyrir að hafa ekki ná því sæti sem hann stefndi á (sem reyndar enginn af frambjóðenunum gerði nema Hanna Birna Kristjánsdóttir og Vilhjálmur Þ.) Gísli lýsti því strax yfir í byrjun prófkjörbaráttunnar að hann hefði vel getað tekið þá ákvörðun að stefna á t.d. annað sætið eða það þriðja og þ.a.l. getað tekið mun léttari slag. En hann er auðvitað baráttumaður og það kom að sjálfsögðu ekkert annað til greina en að ráðast á garðinn þar sem hann var hæstur og reyna við leiðtogasætið.
Eftir stendur að Gísli, sem hefur ekki verið lengi þátttakandi í borgarmálunum, er nú orðinn einn af leiðtogum sjálfstæðismanna í borginni með mjög sterkt umboð til þess. Rúmlega 5 þúsund sjálfstæðismenn lögðu leið sína á kjörstað til að greiða honum atkvæði í eitt af þremur efstu sætum listans, þar af langflestir í efsta sætið. Það er því alveg ljóst að Gísli Marteinn er klárlega framtíðarleiðtogi innan Sjálfstæðisflokksins.
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
Föstudagur, 4. nóvember 2005
Klikkaðir Kommúnistar
Maður nokkur heitir Battisti. Hann er ítalskur og hefur búið í Frakklandi í 13 ár. Hann hefur viðurværi sitt af því að skrifa sakamálasögur og er afar vel liðinn af hinni vinstrisinnuðu frönsku lista-akademíu. Ítalir hafa krafist framsals Battisti vegna ýmissa blóðugra ofbeldisverka og morða, en án árangurs.
Battisti sat í fangelsi á Ítalíu árið 1981, en meðlimir PAC ( Prolétaires armés pour le communisme), ,,Vopnvæddir öreigar kommúnismanns, brutust inn í fangelsið og leystu hann úr haldi. Fyrst var hann sendur til Mexíkó, en hann fann á endanum öruggt skjól í vinaríkinu Frakklandi. Mitterand, formaður Sósíalistaflokksins og þáverandi forseti Frakklands brást ekki byltingarsinnum frekar en fyrri daginn. Frakkland hefur hugsað vel um félaga Battisti allar götur síðan, og neitað að framselja hann til ,,auðvaldsins.
Árið 2004 var hins vegar loksins ákveðið að fullnægja réttlætinu. Battisti á að sæta lífstíðar fangelsisvist fyrir afbort sín. Vinstrisinnaða franska listasnobbið er auðvitað ösku illt. Einnig hin franska stjórnarandstaða, sem er stútfull af veruleikafyrrtum vinstrimönnum. Gömlu byltingarsinnarnir frá 68 eru nú fréttastjórar, próffessorar, rektorar og pólitíkusar. Þeir vilja allir bjarga félaga Battisti, baráttumanninum góða. Tilgangurinn helgar meðalið, og kommar eru alltaf friðhelgir. Þung sakarábyrgð skal hins vegar ávalt hvíla á öllum ,,auðvaldsinnum.
Hannes Hólmsteinn ætti að þakka Guði fyrir að vera ekki franskur.
Sindri Guðjónsson
Hér má sjá mynd af snarklikkuðum frönskum rithöfundum í kröfugöngu fyrir hönd félaga Battisti:
Miðvikudagur, 2. nóvember 2005
Bílastæðaklukkur virka
Akureyringar hafa riðið á vaðið í endurbótum á fyrirkomulagi bílastæðamála. Nú er komin nokkurra mánaða reynsla á svokallaðar bifreiðastæðaklukkur í miðbæ Akureyrar en klukkurnar hafa á tilteknum svæðum miðbæjarins leyst af hólmi hina hefðbundnu stöðumæla. Fyrir skömmu lýsti talsmaður verslunarmanna í miðbæ Akureyrar ánægju sinni með þessa reynslu. Bifreiðaeigendur hljóta einnig að vera ánægðir með þessa breytingu enda hefur þjónustan bæði lækkað í verði og er orðin skilvirkari með því að menn þurfa ekki lengur að huga að skiptimynt þegar lagt er í bílastæðin í miðbænum.
Ég veit ekki hvort langur aðdragandi var að þessari skipulagsbreytingu hjá Akureyringum. Í Reykjavík, þar sem ég bý, hefur þessi sama hugmynd um bílastæðaklukkurnar borið á góma án þess þó að málið hafi komist á rekspöl. Það sem trúlega tefur að þetta framfaramál nái fram að ganga í Reykjavík eins og á Akureyri er sú staðreynd að hugmyndin að bílastæðaklukkunum var sett fram af minnihlutanum í borgarstjórn en ekki R-listanum. Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur lengi talað fyrir þessari hugmynd og kynnti hana fyrstur manna hér í Reykjavík, löngu áður en Akureyringar ljáðu máls á henni. Akureyringar hafa nú tekið þann pól í hæðina að láta reyna á nýtt kerfi.
Nú hljóta flestir að geta tekið undir það að bílastæðamál eru miklum mun víðtækari í Reykjavík en á Akureyri. Bæði er um stærra svæði að ræða og trúlega er meiri nýting á hverju bílastæði í miðborg Reykjavíkur en á Akureyri, einfaldlega vegna þess gríðarlega fjölda sem þangað sækir þjónustu. Bílastæði við Laugaveginn þjóna einkum þeim sem þangað sækja í skamma stund. Menn þurfa að sinna einu eða tveimur erindum sem gjarnan taka lítinn tíma. Hefðbundnir stöðumælar eru þar ekki lengur heldur þurfa menn að greiða fyrir bílastæðin í sjálfsölum sem oft eru staðsettir langt frá sjálfu bílastæðinu. Og eins og slæmt veður geri Laugavegsfólki oft ekki nógu erfitt fyrir þá auka þessi hlaup til og frá sjálfsölum, með tilheyrandi skiptimyntavandræðum, ekki á ánægju manna af miðbæjarferðum. Bílastæðaklukkur með hóflega löngu fríu bílastæði er það sem þarf til þess að koma til móts við bæði verslunareigendur og þá sem sækja þjónustu í miðbæinn. Að mínu mati ætti að dusta rykið af tillögu Kjartans borgarfulltrúa.
Það er ansi hart fyrir Reykvíkinga að þurfa að sæta því að R-listinn geti ekki unnt minnihlutanum að koma í gegn góðum hugmyndum.
Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr(a)simnet.is
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004