Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2004

Borg án (Borgar) stjórnar

Reykjavíkurlistinn er samansettur úr ólíkum stjórnmálahreyfingum sem sameinast um aðeins eitt atriði –
að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum.
Eins og allir vita hefur Þórólfur Árnason borgarstjóri sagt starfi sínu lausu frá og með næstu mánaðamótum. Ekki er tilgangur minn hér að ráðast á Þórólf sem persónu. Hann er að mínu mati maður að meiri fyrir að hafa viðurkennt þátt sinn í samráði olíufélaganna. Það sem er hins vegar athugavert er klúður R-listans í heildina.

Þetta mál sýnir enn eina ferðina forystuleysi R-listans og enn og aftur vakna upp spurningar um tilvist þessa samansetta stjórnmálabandalags. Nú hefur R-listinn verið við stjórnvölinn, allavega að nafninu til, í tíu ár. Tilgangurinn var eins og menn muna að koma Sjálfstæðisflokknum frá völdum og tryggja vinstrimönnum völd í borginni. Þeir mega eiga það að þetta tókst. Það fer þó ekki hönd í hönd að vera í forystu og skila árangri af starfi sínu.

R-listinn er hræðslubandalag. Það skiptir forsvarsmenn listans meira máli að halda völdum en að stjórna borginni vel. Á sama tíma saka menn úr þeirra röðum Davið Oddsson um að vera haldinn valdhroka. Athyglisvert!

Þáttur Ingibjargar Sólrúnar
Helsta vandamál Reykvíkinga byrjaði fyrir tíu árum. Helsta vandamál R-listans byrjaði þó aðallega fyrir tveimur árum. Leiðtogi hræðslubandalagsins, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hafði farið í mjög harkalega kosningarbaráttu um borgina sama ár og lofaði Reyk-víkingum því að hún skyldi sitja sem borgarstjóri næstu fjögur árin nema einfaldlega hún „hrykki upp af.” Rúmlega hálfu ári eftir kosningar sveik hún það hins vegar og tilkynnti framboð sitt til forsætisráðherraembættisins á vegum Samfylkingarinnar (þó svo að ekki væri verið að fara að kjósa forsætisráðherra í beinum kosningum). Ingibjörgu Sólrúnu fannst ekkert að því að nota sér VG og „ömurlega” flokkinn, Framsókn til að sitja sem fastast á borgarstjórastóli og berja um leið á samflokks-mönnum þeirra á landsvísu. Hvernig ætlaði hún að gera þetta?
Eru Vinstri-Grænir eða Framsóknarmenn öðruvísi í Reykjavík en á landsvísu?
Hún reyndi að stíga frægðarspor sem reyndar gerði hana bæði óvinsæla meðal „samstarfsmanna” sinna og að lokum atvinnulausa.

Mikil hringavitleysa fór í gang meðal R-listans. Halda þurfti hvern neyðarfundinn
á fætur öðrum (ekki ósvipað og í síðustu viku) og ekki voru fjölmiðlum gefnar miklar upplýsingar. Ingibjörg skildi ekkert í því að samstarfsmenn hennar í R-listanum skyldu „hrekja” hana úr stóli borgarstjóra. Samfylkingin og Ingibjörg sökuðu hina flokkana í R-listanum um samsæri gegn henni. Þetta er sama fólkið og krafðist þess að Björn Bjarnason segði af sér sem menntamálaráðherra þegar hann fór í borgarstórnarslaginn fyrr um árið! Það er víst ekki sama hvar umræðustjórnmálin eru stunduð.

Leiðtogakreppa
Eftir alla neyðarfundina og eftir að þeir sem standa að R-listanum komu sér saman um að halda borginni áfram var ákveðið að ráða skyldi Þórólf Árnason sem borgarstjóra. Þetta var reyndar ekki vitlaus hugmynd hjá þeim. Þórólfur kom beint úr viðskiptalífinu og loksins var einhver með fjármálavit komin í áhrifastöðu í Reykjavíkurborg. Þórólfur hlýtur að hafa áttað sig á því að þarna væri illa rekið „fyrirtæki” og eitthvað þyrfti að gera. Ekki verður þó farið nánar út í störf Þórólfs sem borgarstjóra hér. Hann var með átta ósamstillta yfirmenn yfir sér.

Þegar Þórólfur hins vegar var ráðinn borgarstjóri lét hann Ingibjörgu Sólrúnu vita að nafn hans myndi koma fram í rannsókn Samkeppnisstofnunar á meintu samráði olíufélaganna. Hún lét það hins vegar ógert að láta „hina” vita.
Ekki hefur hentað að stunda samræðustjórnmál þar. Kannski var hún sár yfir því að vera hrakin úr starfi og ekki tilbúin að koma í veg fyrir þau vandræði sem framundan voru. Hún hafði orð á því um sumarið 2003 að Þórólfur hefði ekki gert sér grein fyrir því að pólitíkin væri hörð og átakamikil. Ekki hefur hún, né aðrir forsvarsmenn R-listans, haft mikið fyrir því að styðja hann opinberlega eftir það.
Við skulum ekki gleyma því að Ingibjörg Sólrún krafðist afsagnar Björns Bjarnasonar dómsmálaráð., eftir að kærunefnd jafnréttismála „taldi” hann hafa brotið jafnréttislög.

Athugum eitt. Frumskýrsla Samkeppnisstofnunar kom út í fyrra sumar. Í gang fóru umræður um stöðu Þórólfs í sæti borgarstjóra og eftir það lét Ingibjörg Sólrún áðurnefnd orð falla. R-listinn boðaði til nokkurra neyðarfunda og að lokum var ákveðið að bíða skyldi eftir lokaskýrslunni. Það tók eitt ár. Gaman væri að vita hvort að borgarfulltrúar R-listans hafi gert einhverjar ráðstafanir á þessu ári. Þeir höfðu heilt ár til að koma í veg fyrir leiðtogakreppu líkri þeirri sem þeir höfðu lent í nokkrum mánuðum áður. Kannski líta þeir svo á að störf þeirra séu aðalstörf borgarinnar en starf borgarstjóra sé aukaatriði.

Vandræðagangur R-listans
En þetta er ekki búið. Lokaskýrsla samkeppninsstofnunar er komin út. Í henni er engin „dómsúrskurður” heldur aðeins þau „ákæruatriði” sem stofnunin leggur fram. Engin hefur verið dæmdur sekur nema af fjölmiðlum og dómstól götunnar. Ég er þar með ekki að viðurkenna lögbrotið heldur að benda á þá staðreynd að R-listinn hafði ár til að komast að því hjá Þórólfi hvað hefði í raun og veru gerst. Hann hefur ekki verið dæmdur sekur. Hvernig stendur á því að R-listinn boðaði nú loksins til eins af sínum neyðar-fundum og að VG lýsir allt í einu yfir vantrausti á borgarstjórann?
Er hann vanhæfur í dag en ekki í gær?
Kom þetta allt saman forsvarsmönnum R-listans á óvart?

Önnur spurning. Nú voru Vinstri Grænir í borginni líklega búnir að lesa 1000 bls. skýrslu samkeppnistofnunar (við skulum allavega vona að þeir hafi lesið hana áður en þeir lýstu yfir vantrausti á manninn). Hvorki Samfylkingin né framsóknarmenn í borginni voru tilbúnir að gefa út stuðningyfirlýsingu á hann. Hvað átti Þórólfur að gera í viku. Síðasta fimmtudag fékk hann viku til að „útskýra” sín mál fyrir borgarbúum. Hvað svo? Hvernig átti hann að gera þetta? Hann átti að þeirra sögn að útskýra sitt mál fyrir borgarbúum. Hvað svo?
Hver átti þá að taka ákvörðunina eftir það? Borgarbúar tóku ákvörðun í síðustu kosningum um að R-listinn færi með völdin. Var það ekki nóg? Átti að taka ákvörðun eftir skoðanakönnunum? Ingibjörg Sólrún sagði í Íslandi í dag í gærkvöldi að þau færu ekki eftir skoðanakönnunum. Hvað átti hann að gera? Sátu þessir sömu menn fyrir framam sjónvarpið, þegar Þórólfur kom fram í viðtalsþáttum á fimmtudaginn, með blað og penna til að gefa honum einkunn? Gat hann breytt viðhorfi þeirra eftir að þau höfðu lesið skýrsluna? Áttu þau kannski eftir að lesa hana? Voru þau að bíða eftir öðrum skoðanakönnunum? Hvað gat gerst á viku sem yrði til þess að VG fyndist hann EKKI vanhæfur?

R-listinn þorði ekki og gat ekki tekið lokaákvörðun um málið. Engin þorði að tjá sig við fjölmiðla. Þetta var allt leyndarmál. Einn borgarfulltrúa listans kallaði fjölmiðla hrægamma og sagði að í þeim fælist engin lausn. Daginn eftir ákváðu R-listamenn að henda honum fram fyrir „hrægammana” til að það fyndist einhver lausn!!

Framtíð R-listans
Björn Bjarnason bendir réttilega á í pistli á heimasíðu sinni að þau vandamál sem nú einkenna forystuleysi R-listans koma ekki á góðum tíma þar sem verið er að leggja lokahönd á fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir næsta ár. Ekki er úr vegi að spyrja að því hvort að meirihluti borgarstjórnar sé með hugann við það um þessar mundir.
Ekki þykir mér það líklegt.

Á sama tíma veltir maður því fyrir sér hvort að meirihluti borgarstjórnar sé með hugann við velferð borgarinnar yfir höfuð. Það sem virðist skipta þá mestu máli er að halda R-lista samstarfinu gangandi. Maður heyrir þá ítreka það aftur og aftur að R-lista samstarfið sé gott og haldi. Það er skrýtið að menn þurfi hvað eftir annað á tveggja ára tímabili að taka það fram og sannfæra borgarbúa um að samstarfið sé gott og traust. Þeir þurfa hvað eftir annað að láta vita að þeir séu við stjórn.
Hvernig væri að láta verkin tala fyrir sig?

R-listinn er að mínu mati búinn að vera.

Gísli Freyr Valdórsson

11. nóvember 2004 - Gísli Freyr Valdórsson
Athygli skal vakin á því að greinin hér að neðan er skrifuð nokkrum klukkutímum áður en tilkynnt var
að R-listinn hefði valið Steinunni Valdísi Óskarsdóttur sem borgarstjóra.
Það bætir hins vegar ekki forystuleysi R-listans og að mínu mati er borgin stjórnlaus.
Ég stend því við þessa grein sem áður.      - Gísli Freyr


Kerry og Ísrael

Nú eru nýafstaðnar forsetakosningar í Bandaríkjunum. Fulltrúi Íslendinga var að sjálfsögðu mikilmennið John Kerry. Kerry sem er að sögn miklu skynsamari og betri maður en Bush, tapaði reyndar kosningunum, sem sannar vel og vandlega hversu illa upplýstir og þröngsýnir Bandaríkjamenn eru. Við fengum nú að heyra það í Kastljósinu á kosningadag að helmingur Bandaríkjamanna lifi í einskonar „trúarofstækis” heimi og þekkir ekki raunveruleikann, svo ég vitni nú í íslenskan mannfræðing sem búsettur er í Kalíforníu og var fenginn til þess að segja okkur aðeins frá Bandaríkjamönnum. Samkvæmt henni, þá var það einmitt þessi veruleikafyrti hópur sem væri líklegur til þess að kjósa Bush!

Sem betur fer eru Íslendingar umburðarlyndir og víðsýnir, og við virðum annað fólk
og skoðanir þeirra, án þess að vera með einhverja sleggjudóma.

Mig langaði í þessum pistli að benda fólki á það hversu einharður stuðningsmaður Ísraela John Kerry er. Nú býst ég við að stuðningur hans sé byggður á góðum og gildum rökum, þar sem Kerry, ólíkt um 70 milljón Bandaríkjamönnum sem kusu Bush, þekkir heiminn í kringum sig, auk þess sem íslenski mannfræðingurinn hélt því fram að Kerry væri vitur maður og mikið í hann varið.

Svo ég ljúki þessari kaldhæðni og fari að tala í alvöru, þá ber að geta þess að ég er sammála Kerry á mjög mörgum sviðum, og þar sem ég hef nokkra samúð með málstað Ísraelsmanna, fannst mér gaman að lesa þessar og fleiri yfirlýsingar um málefni mið-austurlanda á kosningavef hans:

,,Ísraelsmenn ættu einnig að vita, að sem forseti,
mun ég staðfastlega einbeita mér að því að vernda og varðveita ríki gyðinga.”

,,John Kerry og John Edwards munu heilshugar
tryggja öryggi bandamanna okkar, Ísraelsemanna.”

,,John Kerry og John Edwards telja að sagan, hagsmunir okkar og sameiginleg gildi okkar, sem eru frelsi og lýðræði, krefjist þess að Bandaríkin viðhaldi ávallt okkar sérstaka og stöðuga vinarsambandi og stuðningi við Ísrael.”

Má þá gera ráð fyrir að þeir sem studdu Kerry sem mest hér á Íslandi séu sammála honum í þessu máli?

Það má lengi halda áfram að vitna í Kerry, en ég bendi á heimasíðu hans fyrir þá sem betur vilja skoða:

http://www.johnkerry.com
http://www.johnkerry.com/communities/jewish_americans/strength_security.htm
http://www.johnkerry.com/communities/jewish_americans/
http://www.johnkerry.com/communities/jewish_americans/independence.html

Sindri Guðjónsson


„Hann vissi þetta allt saman sjálfur ...“

Hún hefur sennilega ekki farið framhjá neinum sú pólitíska kreppa og vandræðagangur sem einkennt hefur samstarf R-listans undanfarna daga eftir að lokaskýrsla Samkeppnisstofnunar um verðsamráð olíufélaganna var birt. Ljóst þykir af skýrslunni að þáttur Þórólfs Árnasonar, borgarstjóra Reykjavíkur, í verðsamráðinu hafi vægast sagt verið drjúgur.
Þannig mun Þórólfs t.a.m. vera getið hvorki meira né minna en 127 sinnum í skýrslunni, en eins og kunnugt er byggist aðkoma hans að málinu á því að hann er fyrrverandi framkvæmdastjóri markaðssviðs Olíufélagsins (ESSO).
Ljóst þykir af þeim gögnum sem skýrsla Samkeppnisstofnunar byggir á að Þórólfur hafi tekið virkan þátt í samráðinu og gegnt þar ákveðnu lykilhlutverki.

Sumir hafa viljað meina að farið hafi verið með offorsi gegn Þórólfi vegna þessa máls og að aðrir séu sekari en hann. Vissulega er það satt að forystumenn olíufélaganna eru án efa mun sekari en Þórólfur en það sem gerir stöðu hans hins vegar sérstaka er að hann gegnir nú opinberu embætti sem einn af forystumönnum Reykjavíkurborgar sem er einmitt einn af þeim aðilum sem verðsamráði olíufélaganna var beint gegn. Auk þess hefur Þórólfur margoft lýst því yfir að hans þáttur í málinu hafi verið lítill og hann hafi ekki áttað sig á því að verið væri að stunda ólögmæta starfsemi fyrr en hann fór yfir málið með Samkeppnisstofnun.
Skýrsla stofnunarinnar leiðir hins vegar allt annað í ljós eins og fyrr segir.

Þegar bráðabirgðaskýrsla Samkeppnisstofnunar lá fyrir fyrr á árinu voru viðbrögð Þórólfs þau að segjast ekki vilja tjá sig um málið meðan það væri enn í rannsókn hjá stofnuninni. Hann sagðist hins vegar ætla að upplýsa um sinn þátt í málinu þegar Samkeppnisstofnun hefði lokið rannsókn sinni. Nú liggur lokaskýrsla Samkeppnisstofnunar fyrir en ekkert bólar á því að Þórólfur geri hreint fyrir sínum dyrum. Viðbrögð hans við lokskýrslu stofnunarinnar hafa verið alveg ótrúleg og hefur ekki verið heil brú í því sem hann hefur látið frá sér fara um málið.
Í raun má segja að málflutningur Þórólfs um málið sé sá sami og þegar bráðabirgðaskýrslan kom út og ef eitthvað er loðnari.

Málflutningur Þórólfs byggir helzt á því að hann hafi bara verið viljalaust verkfæri í höndum forystumanna olíufélaganna og ekki gert sér grein fyrir því að um ólögmæta starfsemi hafi verið að ræða fyrr en á þessu ári eins og áður segir. Það þarf sennilega ekki að fjölyrða um það hversu fáránleg þessi svör eru. Maðurinn tók virkan þátt í samráði olíufélaganna samkvæmt skýrslu Samkeppnisstofnunar og hafi hann ekki haft næga skynsemi til að átta sig á að eitthvað gruggugt væri í gangi er hann vart hæfur til að gegna embætti borgarstjóra Reykjavíkur.

Gott dæmi um tilsvör Þórólfs vegna þáttar hans í samráði olíufélaganna er eftirfarandi
úr fréttum Stöðvar 2 þann 2. nóvember sl.
Fréttamaður spyr: „Já en, Þórólfur, tókst þú sjálfur þátt í ólöglegu athæfi vitandi það að það væri ólöglegt?“ Þarna hefði honum auðvitað verið leikur einn að svara neitandi væri hann í raun saklaus.
En svar hans var þó með öðrum hætti: „Já, nú er náttúrulega... ég ætla heldur ekki, og ég vona að þú sért ekki að gera það, að fara að taka ákveðna einstaklinga og fara að ákæra þá. Það er annarra að gera það. Og ég ætla heldur ekki að ákæra forstjóra olíufélaganna þó þeir vissulega beri alla ábyrgð.“
Sem sagt forstjórarnir bera alla ábyrgð, Þórólfur enga.

Því má síðan ekki gleyma að Þórólfur gat hvenær sem er sagt starfi sínu lausu ef honum hugnaðist ekki þátttaka í verðsamráði olíufélaganna en það gerði hann þó ekki. Þess í stað starfaði hann sem framkvæmdastjóri markaðssviðs Olíufélagsins frá 1993 til 1998 og allan þann tíma var ólöglegt samráð olíufélaganna í fullum gangi. Það að firra sig ábyrgð á þeim forsendum að einhverjir yfirmenn hafi borið meiri ábyrgð á hlutunum er síðan ekkert nýtt á nálinni.

En auðvitað vita allir að þetta er tómt bull. Auðvitað vissi Þórólfur um það sem þarna fór fram og gerði sér fyllilega grein fyrir því að um ólögmætt athæfi var að ræða.
Annað er bara ekki fræðilegur möguleiki enda væntanlega um sæmilega greindan mann að ræða auk þess sem hann hefði að öðrum kosti varla verið starfi sínu vaxinn sem framkvæmdastjóri markaðssviðs Olíufélagsins.
En eins og Davíð Oddson, utanríkisráðherra, sagði í viðtali við fjölmiðla nú nýverið þá þurfti Þórólfur vitanlega ekkert að bíða eftir lokaskýrslu Samkeppnisstofnunar til að gera hreint fyrir sínum dyrum í málinu, hann vissi þetta allt saman sjálfur.

Hjörtur J. Guðmundsson


Af flokksaga og sannfæringu þingmanna

Margir láta gjarnan að því liggja að hjá ríkisstjórnarflokkunum ríki mikill flokksagi,
sem gangi svo langt að mönnum sé ekki lengur frjálst að taka afstöðu til mála út frá sinni eigin sannfæringu. Eitt helsta dæmið sem menn nefna því til staðfestingar er ákvörðun þingflokks Framsóknarflokksins um að sniðganga Kristin H. Gunnarsson við kjör á fulltrúum í nefndir Alþingis. Sumir gengu svo langt að tala um að gengið væri á stjórnarskrárvarinn rétt Kristins sem Alþingismanns og aðgerðin jafngildi brottvikningu hans úr þingflokknum – og jafnvel úr flokknum. Menn hafa bent á það í þessu samhengi að Alþingismenn séu eingöngu bundnir við sannfæringu sína.

Það er vissulega rétt sem menn hafa bent á að ,,Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum” eins og segir í 48. grein Stjórnarskrárinnar. En er Framsóknarflokkurinn með ákvörðun sinni að ganga á þennan stjórnarskrárbundna rétt Kristins, eða jafnvel að hindra hann í að efna þá skyldu sem í ákvæðinu felst?

Við skulum hafa hugfast að seta á Alþingi er eitt en seta í þingnefndum er allt annað. Alþingismenn eru kosnir leynilegri hlutbundinni kosningu til fjögurra ára í senn.
Þar hafa allir kosningabærir menn í landinu atkvæðisrétt sbr. nánari skilyrði í 33. gr. stjórnarskrárinnar. Kjör þingnefnda fer fram með allt öðrum hætti. Um það gilda lög 55/1991 um þingsköp Alþingis. Samkvæmt þeim kemur það í hlut Alþingismanna að kjósa fulltrúa sína til setu í fastanefndum þingsins, á fyrsta fundi hvers þings.
Sú venja hefur myndast að þingflokkar komi sér saman um fulltrúa í nefndirnar.
Eðli málsins samkvæmt velur hver þingflokkur þá fulltrúa sína í þingnefndir sem þeir treysta best fyrir starfinu. Það er því fráleitt að tala um að með því að kjósa ekki tiltekinn þingmann í nefndir fyrir sína hönd sé þingflokkur að ganga á stjórnarskrárvarin rétt viðkomandi þingmanns.

Vitað er að Kristinn hefur haft aðrar skoðanir en samstarfsmenn hans í þingflokknum á mikilvægum málum. Hvort sú staðreynd átti sinn þátt í ákvörðun þingflokksins er ekki hægt að segja til um með vissu. Eins og áður sagði velja þingflokkar þá fulltrúa sem þeir treysta best fyrir starfinu og það er kjarni málsins. Fram hefur komið hjá formanni þingflokks Framsóknarflokksins að trúnaðarbrestur hafi orðið milli þingflokksins og umrædds þingmanns. Það skiptir ekki máli fyrir okkur sem fyrir utan stöndum,
í hverju sá trúnaðarbrestur er fólginn.

Menn skipa sér saman í stjórnmálaflokka til að berjast fyrir ákveðnum stefnumálum, skoðunum og hugsjónum. Menn kjósa að vinna að þeim í sameiningu fremur en einir síns liðs, til að ná betri árangri. Flokkarnir velja svo sína framboðslista og menn hljóta þingsæti eins og gengur. Þá taka hinir kjörnu fulltrúar til við að vinna stefnumálunum brautargengi. Mikilvægur þáttur í því að slíkt starf sé skilvirkt er að þeim sé frjálst að velja til trúnaðarstarfa innan þingsins þá einstaklinga sem þeir treysta. Sé málum þannig háttað að þingmenn flokksins treysta Kristni ekki lengur til að sitja fyrir sína hönd í þingnefndum ber þeim að kjósa í nefndirnar samkvæmt þeirri sannfæringu sinni.
Það er alfarið mál þingflokksins hverja þeir velja fyrir sína hönd til trúnaðarstarfa.

Eftir stendur að þingmenn eru í störfum sínum eingöngu bundnir við sína sannfæringu. Maður skyldi ætla að sú sannfæring færi alla jafna, í veigamiklum atriðum saman við stefnu þess flokks sem þeir velja að starfa fyrir. Svo virðist þó ekki alltaf vera.

Þorsteinn Magnússon


Á móti Bush...

Það er nokkuð athyglisvert að fylgjast með vinstri mönnum „vona” innilega að John F. Kerry verði kosinn næsti forseti Bandaríkjanna. Margir hafa sagt að það geti verið betra fyrir heimsbyggðina og heimsfriðinn ef Kerry verður forseti.
Þetta segja menn án þess þó að færa sérstök rök fyrir máli sínu. Þeim finnst þetta bara.

En þetta er þó misjafnt. Ungur vinstrimaður skrifar t.d. athyglisverða
grein í september s.l. þar sem hann leggur áherslu á að Kerry sé ekki jafnaðarmaður og ætti sko ekki heima í Samfylkingunni. Ungi maðurinn (sem af skrifum hans að dæma er líklega á framhaldsskólaaldri) telur upp nokkur atriði sem hann er ekki sammála Kerry um, t.d. stefnu BNA í Ísrael, málefni samkynhneigðra  - og jú auðvitað stríðið í Írak.

Þessi ungi maður tekur fram að „frekar frysi í helvíti” en að hann styddi Bush.
Hann tekur þó fram í greininni að hann styðji ekki Kerry.
Við skulum skoða niðurlag greinarinnar:
„Það sem ég er að segja er að við, jafnaðarmenn og félagshyggjufólk, ættum að fara varlega í það að hrósa Kerry og lýsa yfir aðdáun okkar honum. Í fyrsta lagi er opinber stefna hans lengra til hægri en jafnvel stefna Sjálfstæðisflokksins og í öðru lagi á eftir að koma í ljós hve mikið af fögru orðunum hann á eftir að standa við. Auðvitað eigum við öll að vona að hann sigri kosningarnar og komi Bush þeim hættulega glæpamanni frá. Munum bara að kúkur er alveg eins og skítur.”
Ungi maðurinn er greinilega farinn að læra af forystusveit Samfylkingarinnar og er með og á móti og styður þennan en samt ekki og alls ekki hinn en…
ja, maður veit í rauninni aldrei hvar þeir enda.

Menn tala á móti Bush á ómálefnalegan hátt og koma upp með fullyrðingar án þess þó að rökstyðja þær, slæmt er það nú þegar þingmenn eru farnir að stunda slíkt. Björgvin Sigurðsson þingmaður Samfylkingarinnar kallar stjórn Bush „hægri ofsatrúarstjórn” í pistli á heimasíðu sinni.
Menn hafa oftar reynt að bendla Bush við orð eins og „ofastrú” og „bókstarfstrú.” Þannig er reynt að merkja manninn sem trúarofstækismann og gera lítið úr stjórnmálastefnu og karakter hans. Þessi aðferð hefur verið notuð af mörgum vinstrimönnum sem eru á móti honum en vita ekki hvernig þeir eiga að koma því frá sér.
Hér skal ekki dæmt um hvort að trúarlíf Bush Bandaríkjaforseta sé „rétt eða rangt”, en það er a.m.k. ekkert rangt við það að stjórnmálamenn séu trúaðir og vinstri menn á Íslandi – sem og aðrir – ættu að varast alla hleypidóma um það, hvað eru ,,trúaröfgar” eða ,,ofsatrú.”

Annað mál er að menn hafa aftur og aftur gefið í skyn að George W. Bush sé heimskur maður. Þarna hafa menn heldur ekkert fyrir sér annað en að hann stamar einstaka sinnum og þegar hann var yngri þjáðist hann af lesblindu.
Gaman væri að vita hvort að þessir sömu aðilar séu tilbúnir að segja þeim skólabörnum sem stama eða þjást af lesblindu að þau séu heimsk og geti ekki orðið neitt í lífinu!!

Það er reyndar líka gaman að fylgjast með vinstrimönnum hafa vit fyrir forsetanum í málefnum Íraks og Mið-Austurlanda. Allir virðast vita betur en hann hvernig leysa skuli deiluna milli Ísraels og Palestínu, Íraksstríðið og jú auðvitað stríðið gegn hryðjuverkum. Fólk talar eins og að ef Bush sigri í kosningunum þá sé heimsendir í nánd. Svipaðar raddir heyrðust fyrir kosningarnar 1984 þegar Ronald Reagan var í svipaðri aðstöðu og Bush er nú. Reagan hélt þó áfram að gera það sem hann taldi rétt og skildi að mæta þyrfti Sovétríkjunum með hörku. Að lokum var það Ronald Reagan sem átti einn
stærsta þáttinn í því að binda endi á Kalda stríðið.

Við skulum ekki gleyma því að það var ekki George W. Bush sem byrjaði stríðið gegn hryðjuverkum. Það var ekki George W. Bush sem reyndi að komast yfir gereyðingarvopn með illt eitt í huga. Það var ekki George W. Bush eða hans hægri „öfgastefna” sem borgaði ungu fólki fyrir að sprengja sig í loft upp í ísraelskum strætisvögnum. Það féll einfaldlega í hans skaut að taka á þeim erfiðleikum sem komu upp m.a. eftir 11. september 2001. Bandaríkjamenn (og reyndar hin vestræna menning) stendur frammi fyrir því að lifa eins og Osama bin Laden vill að þeir lifi eða vera drepin af heilaþvegnum lærisveinum hans nema þessum öfgahópum sé haldið í skefjum. Hvorki Saddam Hussein né bin Laden eiga í persónulegu stríði við George W. Bush. Það eru ekki minni líkur á að 9/11 hefði átt sér stað þó svo að Gore hefði á sínum tíma orðið forseti.
Kannski að Gore hefði orðið þunglyndur og þyngst um 30 kíló eftir árásirnar eins og hann gerði eftir kosningarnar síðustu. Greinilega sterkur karakter það?
Hafa skal í huga að flestir vinstrimenn „vonuðu” að Gore myndi vinna árið 2000.

Það er ljóst að Bandaríkjamanna bíður erfitt verkefni. Þeir eiga eftir að klára það sem þeir byrjuðu á í Írak, þeir eiga eftir að ná Osama bin Laden og koma þarf efnahag landsins aftur í gott far. Það reyndar gerist að mestu að sjálfu sér án hjálpar stjórnvalda. Það eina sem gæti gerst er að Kerry (ef hann vinnur) myndi hækka skatta og þrengja þannig að efnahagskerfinu og gera það verra en það er. En bandaríkjamenn hafa áður farið í gegnum efnahagslegar þrengingar og kunna að stíga upp úr þeim. Það er ljóst að stríðið gegn hryðjuverkum og stríðið í Írak (sem reyndar er hluti af fyrrnefndu stríði) vegur þungt.

Nú getur ungur íhaldsmaður á Íslandi aðeins lýst yfir takmörkuðum stuðningi við Bush þar sem hann hefur ekki kosningarétt í BNA og fáir bandaríkjamenn lesa síðuna (ennþá). En samt hefur verið fyndið að fylgjast með vinstrimönnum og fjölmörgum fjölmiðlum lýsa yfir af miklum þunga að John F. Kerry verði vonandi næsti forseti bandaríkjanna. Stjórnmálamenn eins og Össur Skarphéðinsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Ögmundur Jónasson, Steingrímur J. Sigfússon og svo mætti halda áfram að telja, hafa ítrekað lýst yfir andúð sinni á núverandi bandaríkjaforseta. Þetta er sama fólk og bað fólk um að kjósa sig til að leiða þjóðina fyrir hálfu öðru ári síðan.
Athugum eitt. Eftir kosningarnar hér á landi 2003 átti Bush allavega eftir að vera forseti í næstum tvö ár. Athyglisvert hefði verið að sjá þetta fólk haga samskiptum sínum við þennan mann, sem þau þó fyrirlíta, hefðu þau komist til valda.

Oft er talað um að meira segja demókratar séu svo langt til hægri á evrópskan mælikvarða að meira að segja Sjálfstæðisflokkurinn sé langt til vinstri við þá. Reyndar mega vinstrimenn eiga það að þeir eru hugmyndafræðilega nokkuð samstíga demókrötum. Háir skattar, góðgerðarstarfsemi til þeirra sem ekki vilja vinna fyrir hlutunum á eigin spýtur, fátæktargildrur og óeining innanborðs eru atriði sem eru vel kunnug vinstrimönnum á Íslandi.

Megi betri maðurinn vinna í kvöld.

Gísli Freyr Valdórsson


« Fyrri síða

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband