Leita í fréttum mbl.is

Borg án (Borgar) stjórnar

Reykjavíkurlistinn er samansettur úr ólíkum stjórnmálahreyfingum sem sameinast um aðeins eitt atriði –
að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum.
Eins og allir vita hefur Þórólfur Árnason borgarstjóri sagt starfi sínu lausu frá og með næstu mánaðamótum. Ekki er tilgangur minn hér að ráðast á Þórólf sem persónu. Hann er að mínu mati maður að meiri fyrir að hafa viðurkennt þátt sinn í samráði olíufélaganna. Það sem er hins vegar athugavert er klúður R-listans í heildina.

Þetta mál sýnir enn eina ferðina forystuleysi R-listans og enn og aftur vakna upp spurningar um tilvist þessa samansetta stjórnmálabandalags. Nú hefur R-listinn verið við stjórnvölinn, allavega að nafninu til, í tíu ár. Tilgangurinn var eins og menn muna að koma Sjálfstæðisflokknum frá völdum og tryggja vinstrimönnum völd í borginni. Þeir mega eiga það að þetta tókst. Það fer þó ekki hönd í hönd að vera í forystu og skila árangri af starfi sínu.

R-listinn er hræðslubandalag. Það skiptir forsvarsmenn listans meira máli að halda völdum en að stjórna borginni vel. Á sama tíma saka menn úr þeirra röðum Davið Oddsson um að vera haldinn valdhroka. Athyglisvert!

Þáttur Ingibjargar Sólrúnar
Helsta vandamál Reykvíkinga byrjaði fyrir tíu árum. Helsta vandamál R-listans byrjaði þó aðallega fyrir tveimur árum. Leiðtogi hræðslubandalagsins, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hafði farið í mjög harkalega kosningarbaráttu um borgina sama ár og lofaði Reyk-víkingum því að hún skyldi sitja sem borgarstjóri næstu fjögur árin nema einfaldlega hún „hrykki upp af.” Rúmlega hálfu ári eftir kosningar sveik hún það hins vegar og tilkynnti framboð sitt til forsætisráðherraembættisins á vegum Samfylkingarinnar (þó svo að ekki væri verið að fara að kjósa forsætisráðherra í beinum kosningum). Ingibjörgu Sólrúnu fannst ekkert að því að nota sér VG og „ömurlega” flokkinn, Framsókn til að sitja sem fastast á borgarstjórastóli og berja um leið á samflokks-mönnum þeirra á landsvísu. Hvernig ætlaði hún að gera þetta?
Eru Vinstri-Grænir eða Framsóknarmenn öðruvísi í Reykjavík en á landsvísu?
Hún reyndi að stíga frægðarspor sem reyndar gerði hana bæði óvinsæla meðal „samstarfsmanna” sinna og að lokum atvinnulausa.

Mikil hringavitleysa fór í gang meðal R-listans. Halda þurfti hvern neyðarfundinn
á fætur öðrum (ekki ósvipað og í síðustu viku) og ekki voru fjölmiðlum gefnar miklar upplýsingar. Ingibjörg skildi ekkert í því að samstarfsmenn hennar í R-listanum skyldu „hrekja” hana úr stóli borgarstjóra. Samfylkingin og Ingibjörg sökuðu hina flokkana í R-listanum um samsæri gegn henni. Þetta er sama fólkið og krafðist þess að Björn Bjarnason segði af sér sem menntamálaráðherra þegar hann fór í borgarstórnarslaginn fyrr um árið! Það er víst ekki sama hvar umræðustjórnmálin eru stunduð.

Leiðtogakreppa
Eftir alla neyðarfundina og eftir að þeir sem standa að R-listanum komu sér saman um að halda borginni áfram var ákveðið að ráða skyldi Þórólf Árnason sem borgarstjóra. Þetta var reyndar ekki vitlaus hugmynd hjá þeim. Þórólfur kom beint úr viðskiptalífinu og loksins var einhver með fjármálavit komin í áhrifastöðu í Reykjavíkurborg. Þórólfur hlýtur að hafa áttað sig á því að þarna væri illa rekið „fyrirtæki” og eitthvað þyrfti að gera. Ekki verður þó farið nánar út í störf Þórólfs sem borgarstjóra hér. Hann var með átta ósamstillta yfirmenn yfir sér.

Þegar Þórólfur hins vegar var ráðinn borgarstjóri lét hann Ingibjörgu Sólrúnu vita að nafn hans myndi koma fram í rannsókn Samkeppnisstofnunar á meintu samráði olíufélaganna. Hún lét það hins vegar ógert að láta „hina” vita.
Ekki hefur hentað að stunda samræðustjórnmál þar. Kannski var hún sár yfir því að vera hrakin úr starfi og ekki tilbúin að koma í veg fyrir þau vandræði sem framundan voru. Hún hafði orð á því um sumarið 2003 að Þórólfur hefði ekki gert sér grein fyrir því að pólitíkin væri hörð og átakamikil. Ekki hefur hún, né aðrir forsvarsmenn R-listans, haft mikið fyrir því að styðja hann opinberlega eftir það.
Við skulum ekki gleyma því að Ingibjörg Sólrún krafðist afsagnar Björns Bjarnasonar dómsmálaráð., eftir að kærunefnd jafnréttismála „taldi” hann hafa brotið jafnréttislög.

Athugum eitt. Frumskýrsla Samkeppnisstofnunar kom út í fyrra sumar. Í gang fóru umræður um stöðu Þórólfs í sæti borgarstjóra og eftir það lét Ingibjörg Sólrún áðurnefnd orð falla. R-listinn boðaði til nokkurra neyðarfunda og að lokum var ákveðið að bíða skyldi eftir lokaskýrslunni. Það tók eitt ár. Gaman væri að vita hvort að borgarfulltrúar R-listans hafi gert einhverjar ráðstafanir á þessu ári. Þeir höfðu heilt ár til að koma í veg fyrir leiðtogakreppu líkri þeirri sem þeir höfðu lent í nokkrum mánuðum áður. Kannski líta þeir svo á að störf þeirra séu aðalstörf borgarinnar en starf borgarstjóra sé aukaatriði.

Vandræðagangur R-listans
En þetta er ekki búið. Lokaskýrsla samkeppninsstofnunar er komin út. Í henni er engin „dómsúrskurður” heldur aðeins þau „ákæruatriði” sem stofnunin leggur fram. Engin hefur verið dæmdur sekur nema af fjölmiðlum og dómstól götunnar. Ég er þar með ekki að viðurkenna lögbrotið heldur að benda á þá staðreynd að R-listinn hafði ár til að komast að því hjá Þórólfi hvað hefði í raun og veru gerst. Hann hefur ekki verið dæmdur sekur. Hvernig stendur á því að R-listinn boðaði nú loksins til eins af sínum neyðar-fundum og að VG lýsir allt í einu yfir vantrausti á borgarstjórann?
Er hann vanhæfur í dag en ekki í gær?
Kom þetta allt saman forsvarsmönnum R-listans á óvart?

Önnur spurning. Nú voru Vinstri Grænir í borginni líklega búnir að lesa 1000 bls. skýrslu samkeppnistofnunar (við skulum allavega vona að þeir hafi lesið hana áður en þeir lýstu yfir vantrausti á manninn). Hvorki Samfylkingin né framsóknarmenn í borginni voru tilbúnir að gefa út stuðningyfirlýsingu á hann. Hvað átti Þórólfur að gera í viku. Síðasta fimmtudag fékk hann viku til að „útskýra” sín mál fyrir borgarbúum. Hvað svo? Hvernig átti hann að gera þetta? Hann átti að þeirra sögn að útskýra sitt mál fyrir borgarbúum. Hvað svo?
Hver átti þá að taka ákvörðunina eftir það? Borgarbúar tóku ákvörðun í síðustu kosningum um að R-listinn færi með völdin. Var það ekki nóg? Átti að taka ákvörðun eftir skoðanakönnunum? Ingibjörg Sólrún sagði í Íslandi í dag í gærkvöldi að þau færu ekki eftir skoðanakönnunum. Hvað átti hann að gera? Sátu þessir sömu menn fyrir framam sjónvarpið, þegar Þórólfur kom fram í viðtalsþáttum á fimmtudaginn, með blað og penna til að gefa honum einkunn? Gat hann breytt viðhorfi þeirra eftir að þau höfðu lesið skýrsluna? Áttu þau kannski eftir að lesa hana? Voru þau að bíða eftir öðrum skoðanakönnunum? Hvað gat gerst á viku sem yrði til þess að VG fyndist hann EKKI vanhæfur?

R-listinn þorði ekki og gat ekki tekið lokaákvörðun um málið. Engin þorði að tjá sig við fjölmiðla. Þetta var allt leyndarmál. Einn borgarfulltrúa listans kallaði fjölmiðla hrægamma og sagði að í þeim fælist engin lausn. Daginn eftir ákváðu R-listamenn að henda honum fram fyrir „hrægammana” til að það fyndist einhver lausn!!

Framtíð R-listans
Björn Bjarnason bendir réttilega á í pistli á heimasíðu sinni að þau vandamál sem nú einkenna forystuleysi R-listans koma ekki á góðum tíma þar sem verið er að leggja lokahönd á fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir næsta ár. Ekki er úr vegi að spyrja að því hvort að meirihluti borgarstjórnar sé með hugann við það um þessar mundir.
Ekki þykir mér það líklegt.

Á sama tíma veltir maður því fyrir sér hvort að meirihluti borgarstjórnar sé með hugann við velferð borgarinnar yfir höfuð. Það sem virðist skipta þá mestu máli er að halda R-lista samstarfinu gangandi. Maður heyrir þá ítreka það aftur og aftur að R-lista samstarfið sé gott og haldi. Það er skrýtið að menn þurfi hvað eftir annað á tveggja ára tímabili að taka það fram og sannfæra borgarbúa um að samstarfið sé gott og traust. Þeir þurfa hvað eftir annað að láta vita að þeir séu við stjórn.
Hvernig væri að láta verkin tala fyrir sig?

R-listinn er að mínu mati búinn að vera.

Gísli Freyr Valdórsson

11. nóvember 2004 - Gísli Freyr Valdórsson
Athygli skal vakin á því að greinin hér að neðan er skrifuð nokkrum klukkutímum áður en tilkynnt var
að R-listinn hefði valið Steinunni Valdísi Óskarsdóttur sem borgarstjóra.
Það bætir hins vegar ekki forystuleysi R-listans og að mínu mati er borgin stjórnlaus.
Ég stend því við þessa grein sem áður.      - Gísli Freyr


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband