Mánudagur, 2. janúar 2006
Mánudagspósturinn 2. janúar 2006
Egill Helgason fjallar um tímaritið Þjóðmál í nýlegum pistli á Vísir.is. Þar segir hann m.a. að í tímaritinu sé að finna mikið af efni sem gott sé að lesa og ennfremur segir hann mikinn feng í að því virðist ætlað að endurspegla ólík hægrisinnuð sjónarmið. Því mati Egils er ég að sjálfsögðu sammála og má geta þess að mér þykir sjálfum oft áhugavert að lesa skrifin hans á Vísir.is og horfa á þáttinn hans. En annað slagið þykir mér Agli þó verða æði hált á svellinu eins og kemur vissulega fyrir flesta menn á einhverjum tímapunkti. Þannig segir hann áfram um efni Þjóðmála í áðurnefndum pistli: Þarna eru greinar sem má flokka undir frjálshyggju [...], aðrar sem eru skrifaðar af virðulegri íhaldsmennsku og svo er þarna grein eftir Ragnhildi Kolka sem er dæmigerð fyrir þá hægrimenn sem eru fullir tortryggni gagnvart fjölmenningarsamfélaginu.
Ég get ekki skilið þetta síðasta öðruvísi en svo að Egill sé þarna að skírskota til tortryggni í garð fjölmenningasamfélagsins með neikvæðum hætti. Ég veit hins vegar ekki betur en að hann hafi sjálfur skrifað á mjög hliðstæðum nótum og Ragnhildur um þessi mál í pistlum á Vísir.is fyrir fáeinum vikum, þá einkum í tengslum við óeirðirnar í Frakklandi. Þar skírskotaði hann m.a. í greinar sem birtar voru í hinu virta brezka tímariti The Spectator í nóvember sl. þar sem fjallað var með mun meira afgerandi hætti um þessi mál en nokkurn tímann í grein Ragnhildar (eða hefur verið gert af minni hálfu ef út í það er farið). Því til viðbótar sagði Egill í einum af pistlum sínum að vart yrði á móti því mælt að fjölmenningarhyggjan væri á síðasta snúningi í Evrópu, m.ö.o. að hún væri við það að sigla í strand. Og hvað er þá að því þó fólk sé tortryggið í garð hennar?!
Hins vegar er staðreyndin sú að fjölmenningarhyggjan (sem gengur í meginatriðum út á að mörg ólík þjóðfélög verði til innan eins þjóðfélags og er þannig andstaða þess sem nefnt hefur verið aðlögun) hefur þegar fyrir löngu siglt í strand. Fjöldi fólks er einfaldlega fyrst núna að þora að viðurkenna það og tala um það opinberlega, eitthvað sem það lagði ekki í áður vegna þeirrar fasísku pólitísku rétthugsunar sem gegnsýrt hefur alla "umræðu" um þessi mál hingað til, sagt fólki hvaða skoðanir það megi hafa á þeim og hverjar ekki og haldið því þannig í hugarfarslegri gíslingu. Þeir sem staðið hafa fyrir þessum fasisma og viðhaldið honum eru síðan oftar en ekki þeir sömu og slá sér hvað mest á brjóst og kalla sig einlæga lýðræðissinna. Staðreyndin er þó sú að pólitísk rétthugsun er sennilega eitthvert það ólýðræðislegasta fyrirbæri sem fyrirfinnst undir sólinni. Þeir sem tala fyrir og beita sér fyrir slíkri skoðanakúgun geta aldrei talizt sannir lýðræðissinnar!
Það er allt annað mál að samfélög séu opin fyrir jákvæðum og uppbyggilegum erlendum áhrifum og straumum sem eiga samleið með þeim og aðlaga má með góðu móti að þeim samfélagsgerðum sem fyrir eru. Slíkt hlýtur auðvitað að teljast sjálfsagt og eðlilegt og sömuleiðis það að samfélög bjóði velkomna aðflutta einstaklinga sem eru tilbúnir að verða hluti af þeim og leggja það á sig sem þarf til að svo megi verða með aðstoð þeirra sem fyrir eru. Sennilega þarf heldur ekki að fara mörgum orðum um þá staðreynd að gott fólk er alls staðar að finna algerlega óháð því hvaðan það er úr heiminum, uppruna, kynþætti eða nokkru slíku. Fyrst og síðast eru allir vitanlega einstaklingar og það er það sem máli skiptir. Þetta þarf þó vitanlega allt að eiga sér stað með ábyrgum og skynsömum hætti. Velheppnuð aðlögun aðfluttra einstaklinga að viðkomandi samfélögum er þar algert lykilatriði.
Sú vinstrisinnaða hugmyndafræði fjölmenningarhyggjan hefur aftur á móti einfaldlega verið vegin, metin og léttvæg fundin. Ófáar þjóðir hafa nú þurft að horfast í augu við þá staðreynd að fenginni biturri reynslu. Niðurstaðan er sú að þessi stefna gengur ekki upp frekar en kommúnisminn þó einhverjum kunni að þykja hún hljóma óskaplega vel á prenti. Það er þó ekki þar með sagt að slíkt virki vel í raunveruleikanum eins og sagan sýnir sennilega bezt. Fjölmenningarstefnan hefur ekki leyst nein vandamál heldur þvert á móti skapað fjöldann allan af þeim sem spurning er hvort nokkurn tímann verður hægt að finna lausnir á.
En fyrst ég minntist á Egil Helgason í byrjun greinarinnar þá hefur hann nú víst viðurkennt það, m.a. í viðtali við Blaðið fyrir ekki svo löngu síðan, að hann eigi það til að skipta annað slagið um skoðanir. Þetta mætti orða svo í bundnu máli með glettnu ívafi:
Egill fer í ótal hringi,
ekki í neinu á silfrið spar.
Hann ætti að vera inni á þingi,
íþróttin er stunduð þar.
(R.K.)
Með pólitískt rangthugsandi kveðju til Andra Óttarssonar Deiglupenna sem haldinn er þeirri óskhyggju (eða þráhyggju réttara sagt) að ég og við á Íhald.is höfum einhverjar annarlegar skoðanir þegar kemur að innflytjendamálum þó hann geti ekki fært fyrir því nein haldbær rök hvað þá meira. Aðeins dylgjur og innantómar fullyrðingar eru þar á boðstólum.
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
Meginflokkur: Mánudagspósturinn | Aukaflokkur: Hjörtur J. | Breytt 27.4.2007 kl. 23:38 | Facebook
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004