Leita í fréttum mbl.is

Óeirðirnar í Frakklandi

Óeirðirnar í Frakklandi hafa nú staðið í tæpan mánuð en þær hófust sem kunnugt er 27. október sl. Þó dregið hafi úr áhuga fjölmiðla á málinu þá standa óeirðirnar engu að síður enn yfir og er m.a. kveikt í tugum bifreiða á hverju kvöldi í landinu, eitthvað sem frönsk stjórnvöld kjósa að kalla „venjulegt ástand“. Samtals hefur verið kveikt í yfir 9.000 bifreiðum í Frakklandi á þessum tíma, sömuleiðis miklum fjölda bygginga (þ.m.t. leikskóla og heilsugæzlustöðva) auk þess sem fjöldi slökkviliðs- og lögreglumenn hafa slasast alvarlega í átökum við óeirðarseggina. Meira en 3.000 óeirðarseggir hafa verið handteknir og óeirðirnar hafa náð til um 300 franskra borga og bæja. A.m.k. einn maður hefur látið lífið. Óeirðirnar breiddust ennfremur út til bæði t.a.m. Belgíu og Þýzkalands þó í mun minna mæli væri og stutt er síðan miklar óeirðir voru einnig í Árósum í Danmörku.

Þessi skálmöld leiddi til þess að frönsk stjórnvöld tóku þá ákvörðun að setja neyðarlög í landinu og útgöngubönn eftir að hafa staðið algerlega ráðalaus gagnvart ástandinu, en til slíkrar ráðstöfunar hefur ekki verið gripið í landinu í hálfa öld. Franska þingið hefur nú samþykkt að framlengja neyðarlögin fram í febrúar á næsta ári. Er það gott dæmi um það að ástandið er engan veginn orðið eðlilegt og frönsk stjórnvöld sjái fram á að það muni taka langan tíma að koma ástandinu í það horf ef það þá á annað borð tekst. Um 10.000 franskir lögreglumenn munu vera við störf með það eina verkefni að hafa hemil á óeirðunum.

Vitað er að franskir ráðamenn hafa á undanförnum dögum lagt sig fram við að draga sem mest úr málinu. T.d. er reynt að gera sem minnst úr þeim fjölda bifreiða sem skemmdar eru eða eyðilagðar af óeirðarseggjunum. Ef kveikt er í einni bifreið og eldurinn breiðist yfir í aðra er það aðeins skilgreint sem svo að ein bifreið hafi verið skemmd. Ef kveikt er í bifreið en það er hægt að gera við hana er hún ekki talin með. M.ö.o. eru aðeins taldar þær bifreiðir sem beinlínis er kveikt í og sem eyðileggjast algerlega í kjölfar þess.

Franskir fjölmiðlar, sem og ýmsir erlendir fjölmiðlar, hafa tekið virkan þátt í því að undanförnu að gera sem minnst úr ástandinu. Þannig viðurkenndi t.d. Jean-Claude Dassier, framkvæmdastjóri frönsku fréttastofunnar LCI, á ráðstefnu í Amsterdam fyrr í þessum mánuði að hann hefði ritskoðað fréttaflutning stofunnar um óeirðirnar. Sagðist hann ekki vilja stuðla að því að stjórnmálin í Frakklandi myndu færast til hægri vegna þess að hún hefði „sýnt brennandi bifreiðar“ í fréttatímanum.

Eins og fjallað var um í áhugaverðum pistli Egils Helgasonar á Vísi.is á dögunum eru vægast sagt skiptar skoðanir á því hvað hafi valdið þessum óeirðum. Það vantaði ekki að fyrstu viðbrögð ófárra væru hin klassíska afsökunarárátta þar sem ódæðisverkin eru flestum öðrum að kenna en ódæðismönnunum sjálfum. Egill bendir einmitt á þetta í öðrum pistli á Vísi.is og tekur þar gott dæmi um mennina sem frömdu hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11. september 2001. Af umfjöllunum sumra af þeim atburði mátti halda að hryðjuverkamennirnir hefðu nánast verið neyddir til að fremja þann ógeðslega verknað. Það voru nógir til að mæla þeim bót og afsaka gerðir þeirra á alla lund.

Annað dæmi um þetta mætti nefna frá því fyrir ári þegar hollenzki kvikmyndatökumaðurinn Theo van Gogh var myrtur á hryllilegan hátt um hábjartan dag á götu í Amsterdam af ungum múslima fyrir þá “sök” að hafa gert kvikmynd um kúgun kvenna í heimi íslam. Höfundur handritsins fékk í kjölfarið morðhótanir og varð að fara í felur, en höfundurinn, Ayaan Hirsi Ali, er af sómölskum uppruna og þingkona á hollenzka þinginu. Hún er þekkt fyrir að hafa gagnrýnt íslam harðlega, m.a. út frá eigin reynslu. Fleiri hollenzkir þingmenn, sem talað höfðu fyrir því að tekið væri á innflytjendamálum landsins, fengu einnig morðhótanir.

Það var enginn skortur fyrst í stað á fólki sem var tilbúið að afsaka morðið á van Gogh vinstri hægri. Unga manninum hlyti að hafa gengið illa í skóla, fundist hann einangraður í hollenzku samfélagi, átt fáa eða enga vini o.s.frv. Síðar kom í ljós að þetta var allt fjarri sanni. Honum hafði gengið vel í skóla, verið vinamargur og á allan hátt vegnað vel. Engu að síður reyndist hann móttækilegur fyrir öfgasinnuðum sjónarmiðum. Eftir að þetta varð ljóst þögnuðu afsökunarraddirnar í það skiptið.

Nákvæmlega það sama er uppi á teningnum í Frakklandi nú. Afsökunaráráttan er í algleymingi. Ákveðnir háværir aðilar keppast við að afsaka gerðir óeirðarseggjanna á alla kanta og leita að sök hjá flestum öðrum en þeim sjálfum. Óeirðarseggirnir sjálfir eru m.ö.o. algerlega ábyrgðarlausir þegar kemur að þeirra eigin gerðum! Þetta er allt einhverjum öðrum að kenna. Og ríkið á að leysa úr öllum vandamálum þessa fólks. Ríkið á að útvega vinnu, félagslega aðstoð og hvað þetta heitir nú allt saman. Staðreyndin er engu að síður sú að ein helzta ástæðan fyrir ástandinu í Frakklandi er sá gríðarlegi sósíalismi og ríkisvæðing sem þar er til staðar sem drepur niður allt frumkvæði og stuðlar að lélegu efnahagsástandi og þar með miklu og viðvarandi atvinnuleysi.

“Lausn” franskra stjórnvalda á málinu er engu að síður sú að auka enn á sósíalismann, koma á eins konar atvinnubótavinnu, tugum þúsunda starfa, og dæla enn meira fjármagni í alls kyns aðra félagslega aðstoð. Eins og margir hafa bent á hefur þegar verið varið háum fjárhæðum í Frakklandi í félagsaðstoð í gegnum tíðina við nákvæmlega þá einstaklinga sem nú eru að kveikja í bifreiðum og leikskólum. Evrópusambandið hefur sömuleiðis heitið Frökkum háum fjárhæðum til að byggja upp hverfin sem óeirðarseggirnir hafa lagt í rústir. Eina lausnin á efnahagslegri hlið þessara mála er að draga úr sósíalismanum, en ekki auka á hann, og þá almennilega. Koma á auknu frelsi í efnahagsmálum og auka þannig svigrúm fyrirtækja og þar með atvinnuþáttöku fólks og vöxt efnahagslífsins.

Það er t.a.m. gríðarlega erfitt að segja fólki upp í Frakklandi sem hefur leitt til þess að frönsk fyrirtæki hafa haldið að sér höndum með að ráða nýtt starfsfólk og reyna hreinlega að forðast það. Svona hefur þetta verið í áratugi og er raunar sama ástand víðast hvar innan Evrópusambandsins, ekki sízt í Þýzkalandi sem er einmitt ein ástæðan fyrir viðvarandi lélegu efnahagsástandi þar í landi. Miðstýringin og reglugerðafargan Evrópusambandsins og Frakklands sjálfs gerir það síðan að verkum að það er hrein martröð að koma á fót nýjum fyrirtækjum í landinu, en ný og ört vaxandi fyrirtæki væru annara þau fyrirtæki sem líklegust væru til að ráða til sín það fólk sem nú gengur um götur og brennir bifreiðar og byggingar. Ekki bætir síðan neitt að atvinnuleysisbætur eru mjög háar í Frakklandi sem þýðir að ófáir freistast frekar til að hanga á þeim en vinna láglaunastörf.

En staða efnahagsmála í Frakklandi og sósíalisminn þar í landi er þó langt því frá eina ástæðan fyrir óeirðunum. Þar kemur margt fleira til þó tengt sé. Frönsk stjórnvöld, sem og stjórnvöld víðast hvar á Vesturlöndum, hafa fylgt gríðarlega ábyrgðarlausri stefnu í innflytjendamálum á undanförnum áratugum, svonefndri fjölmenningarstefnu eða “multiculturalism”. Þessi stefna gengur í stuttu máli út á það að aðfluttir einstaklingar eru hvattir til þess að halda algerlega í menningu sína, tungu o.s.frv. í stað þess að lögð sé áherzla á að þeir aðlagist þeirri menningu og því samfélagi sem þeir flytja til. Fjölmenningarstefnan er þannig í raun andstaða þess sem kallað hefur verið aðlögun. Ekki hefur síðan bætt úr skák að tekið hefur verið við allt of miklum fjölda fólks til flestra vestrænna landa í gegnum tíðina.

Afleiðing þessarar stefnu er sú að það verða til mörg ólík þjóðfélög innan þess lands sem um er að ræða sem oftar en ekki eiga litla eða enga samleið og lítið eða ekkert sameiginlegt. Þetta hefur verið kallað Balkanskagavæðing, á ensku “Balkanization”, en eins og kunnugt er hefur Balkanskaginn ekki beint verið talinn friðsamasti hluti Evrópu í gegnum tíðina. Fjölmenningarstefnan leiðir af þessum sökum ekki sízt til þess að aðfluttir einstaklingar einangrast oftar en ekki í þeim löndum sem þeir flytja til og verða ekki fullgildir þátttakendur innan þeirra. Það sem nú er að gerast í Frakklandi er gott dæmi um þessa þróun og skilgetið afkvæmi fjölmenningarstefnunnar. Það er auðvitað furðulegt að á sama tíma og allir gera sér grein fyrir því að ástandið á Balkanskaganum sé gríðarlegt vandamál séu ráðamenn á Vesturlöndum á fullu að sá fyrir sama ástandi í eigin heimalöndum.

Ráðamenn víða á Vesturlöndum hafa þó sem betur fer í síauknum mæli verið að átta sig á því undir það síðasta hvert fjölmenningarstefnan hefur verið að leiða lönd þeirra og má þar nefna t.a.m. Danmörku, Holland og Bretland. Í upphafi árs 2004 gaf hollenzka þingið út 2.500 blaðsíðna skýrslu um innflytjendamál landsins og stóðu allir flokkar þingsins að henni. Í skýrslunni voru síðustu þrjátíu árin gerð upp í þessu sambandi og komizt að þeirri niðurstöðu að fjölmenningarstefnan hefði leitt Holland inn í ógöngur og að innflytjendastefna hollenzkra stjórnvalda hingað til væri ein stór mistök.

Eitt af því sem þykir hafa einkennt umræðu fjölmiðla um ástandið í Frakklandi er að svo virðist sem ekki hafi mátt nefna orðið "múslimar" í tengslum við hana. Ófáir hafa keppst við að fullyrða að trúarbrögð eða uppruni komi málinu ekkert við. Ég skal ekki segja um það sjálfur, en mér skilst að nær allir þeir sem staðið hafa fyrir óeirðunum séu múslimar. Um þessa hlið málsins hafa ýmsir fjallað og þá ekki sízt í ýmsum brezkum dagblöðum. M.a. var það gert með ítarlegum hætti í nýjasta tölublaði hins virta brezka tímarits The Spectator. Einar fjórar greinar í blaðinu fjölluðu um ástandið í Frakklandi og íslam.

Í greinunum kemur m.a. fram að vaxandi áhyggjur séu í Evrópu af þeim mikla fjölda múslima sem hafi sezt að í álfunni. Í kringum 20 milljónir manna mun vera um að ræða sem fjölgar stöðugt. Múslimar séu hreinlega að verða að ríkjum innan ríkja Evrópu að sögn greinahöfunda The Spectator. Aðlögun sé lítil sem engin, viljinn til þess að sama skapi lítill og líkurnar aukist stöðugt á að til verði einhvers konar sjálfstjórnarsvæði, þar sem íslömsk lög gilda en ekki lög viðkomandi ríkis. Egill Helgason fjallaði einmitt talsvert um umfjallanir The Spectator í pistli sínum um málið á Vísi.is. Það er þó ekkert nýtt að greinahöfundar blaðsins fjalli um þessi mál frá þessari hlið.

Að mati greinahöfunda The Spectator og fleiri stjórnmálaskýrenda snúnast óeirðirnar í Frakklandi, sem og víðar í Evrópu, fyrst og fremst um yfirráð yfir landssvæði. Í París hófust óeirðirnar einmitt vegna þess að frönsk yfirvöld hugðust koma á lögum og reglu í þeim úthverfum borgarinnar sem eru að mestu leyti byggð innflytjendum, en um áratugur er síðan þau gáfust hreinlega upp á því og lögðu lögregluna í þessum hverfum hreinlega niður. Síðan hefur glæpum í hverfunum stórfjölgað þannig að hver sem er hættir sér ekki inn í þau. Í frétt á Mbl.is er einmitt vitnað í unga innflytjendur í Árósum í Danmörku sem stóðu fyrir óeirðum þar fyrir skemmstu: „Lögreglan á að halda sig í burtu því þetta er okkar yfirráðasvæði. Við ráðum hér.“

Þessi þróun er hvorki eitthvað nýtt né eitthvað sem bundið er við Frakkland. Svona er þetta víðast hvar í Vestur-Evrópu. Stutt er síðan greint var frá því í fréttum að þúsund múslimar, sem tilheyra hreyfingu sem kallar sig Hizb-ut-Tahrir, komu saman í Kaupmannahöfn til ársþings. Þar fordæmdu þeir „gjörspillta, vestræna menningu“ og hvöttu stuðningsmenn sína í Danmörku til að taka ekki þátt í lýðræðislegum sveitastjórnarkosningum sem fram fóru þar í landi á dögunum. Og þetta er ekki fyrsta skiptið sem slíkt hefur átt sér stað í Vestur Evrópu. Slíkar samkomur hafa annað slagið átt sér stað bæði í Danmörku, Noregi, Bretlandi og víðar. M.a. munu ýmsir múslimskir trúarleiðtogar í Bretlandi hafa fagnað 11. september ár hvert yfir árásunum á Bandaríkin síðan þær áttu sér stað 2001. Þetta er auðvitað ískyggileg þróun þó rétt sé að taka fram að þetta á auðvitað alls ekki við um alla múslima eins og þeir leggja sig.

Ef staðið hefði verið með réttum hætti að þessum málum strax í upphafi, og lögð áherzla á aðlögun og það með almennilegum hætti, stæðu menn án efa frammi fyrir mun færri vandamálum í þessum efnum í dag en raunin er. Afleiðingin þess að það var ekki gert er að gríðarlegur uppsafnaður vandi er fyrir hendi sem ekki verður auðvelt að leysa úr ef það er þá hægt. Við Íslendingar stöndum þó mun betur að vígi í þessum efnum en flestar eða allar nágrannaþjóðir okkar. Hér hefur þessi þróun ekki verið eins lengi í gangi og því mögulegt að taka þessi mál föstum og ábyrgum, en um leið sanngjörnum, tökum þannig að a.m.k. megi lágmarka þau vandamál sem eiga það til að fylgja miklum aðflutningi fólks til nýrra landa.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband