Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 7. mars 2005

Siv Friðleifsdóttir gagnrýndi Davíð Oddsson, utanríkisráðherra, á Alþingi í vikunni fyrir að hafa látið þau orð falla í samtölum við fjölmiðla að hann gæti ekki séð að neitt nýtt hefði gerzt í Evrópumálunum hér á landi í kjölfar ályktunar flokksþings Framsóknarflokksins fyrir rúmri viku síðan.
Ekki væri hægt að sjá á texta ályktunarinnar að stefna flokksins hefði nokkuð breyzt þrátt fyrir yfirlýsingar Halldórs Ásgrímssonar, forsætisráðherra, um að ályktunin markaði tímamót. Gagnrýndi Siv Davíð fyrir að líta málið öðrum augum en Halldór og talaði um að nýjan tón á stjórnarheimilinu vegna ummæla Davíðs um málið.

Eins og áður segir hefur Halldór Ásgrímsson talað talsvert um meint tímamót vegna ályktunar flokksþings Framsóknarflokksins í Evrópumálum. Hann hefur þó verið eins og hrópandinn í eyðimörkinni í þeim efnum þar sem þeir eru fáir sem tekið hafa undir skilning hans á efni ályktunarinnar. Þetta er auðvitað ekki skrítið ef menn kynna sér ályktunina, aðdraganda þess að hún var samþykkt á flokksþinginu og ekki sízt ályktun flokksþings framsóknarmanna í Evrópumálum árið 2003 sem er svo að segja alveg eins en gengur þó nokkuð lengra ef eitthvað er.

En aftur að ummælum Sivjar. Manni kom nú þetta upphlaup hennar mjög á óvart vægast sagt enda erfitt að sjá tilefnið fyrir því (sumir hafa reyndar sagt að Siv hafi aðeins verið gerð út af Halldóri sem ekki hafi lagt í að segja þetta sjálfur). Davíð var inntur svara í fjölmiðlum við því hvort hann væri sammála túlkun Halldóri á ályktun flokksþings framsóknarmanna. Davíð sagði bara sína skoðun, hann gæti ekki séð að nein breyting hefði átt sér stað svo framarlega sem hann væri læs. Hvað átti hann að segja? Svara gegn eigin sannfæringu? Eða bara segjast ekki geta tjáð sig um málið? Hvaða viðkvæmni er þetta í Siv? Vitanlega sagði hann bara sína skoðun.

Og talandi um nýjan tón á stjórnarheimilinu. Ef slíkur tónn er til staðar í þessum efnum er hann ekki kominn frá Davíð. Svo mikið er víst. Ummæli hans voru í fullu samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna en í því sambandi eru ummæli Halldórs í bezta falli á gráu svæði. Samt datt Davíð ekki í hug að vera með eitthvað upphlaup vegna þess heldur lét sér nægja að segja bara sína skoðun þegar eftir því var leitað.

---

Greint var frá því á Mbl.is í gær að Ríkisútvarpið hafi síðast verið rekið með tekjuafgangi árið 1997 en síðan þá hafi samanlagður taprekstur numið ríflega 1400 milljónum króna. Kom einnig fram að á undanförnum áratug hafi eigið fé stofnunarinnar farið úr 2,5 milljörðum króna niður í nánast ekki neitt. Eigið fé stofnunarinnar 80 milljónir í árslok 2003, en talið er að það hafi nær horfið á síðasta ári.

Rekstrarhalli Ríkisútvarpsins á síðasta ári nam um 100 milljónum króna samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum efnahagsreiknings.
Fjárhagsáætlanir þessa árs gera ráð fyrir hallalausum rekstri en stjórnendur stofnunarinnar eru svartsýnir á að það takist nema þeim verði heimilað að hækka afnotagjöldin um 7%. Fram á það var farið í nóvember sl., en gjöldin hækkuðu um sama hlutfall í fyrravor.

Maður veit eiginlega ekki hvað segja á við svona fréttum þó þetta komi í sjálfu sér ekki svo á óvart. Hvurslags fjármálastjórn er hjá Ríkisútvarpinu?
Er peningum hreinlega sturtað niður í klósettið þar á bæ?
Og svo er eina lausn manna að hækka í sífellu álögur á almenning til að standa straum af endalausum hallarekstri. Þetta minnir óhugnanlega á stjórnunaraðferðir R-listans hér í Reykjavíkurborg.

Það er löngu tímabært, og rúmlega það, að allur rekstur Ríkisútvarpsins verði tekinn til gagngerrar endurskoðunar og að fram fari upplýst og opin umræða um það hver framtíð stofnunarinnar eigi að vera. Er sjálfsagt að þar séu skoðaðar allar hliðar málsins og þ.á.m. hvort ekki sé rétt að einkavæða Ríkisútvarpið að hluta eða í heild.

---

Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði á Alþingi í vikunni að Íslendingar ættu að stefna að Evrópuaðild. Það er nefnilega það.
Mín spurning er þessi: Hvenær hætti Ísland að vera hluti að Evrópu?

---

Vil að lokum fagna þeirri vinnu sem hafin er í því skyni að endurnýja skipa- og flugvélakost Landhelgisgæzlunnar. Um er að ræða löngu tímabært og þarft verk.

Hjörtur J. Guðmundsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband