Miðvikudagur, 9. febrúar 2005
Tímaskekkja í útvarpslögum
Tungumálið er eitt af því sem sameinar okkur sem þjóð. Það er órjúfanlegur hluti af sögu okkar og menningu. Því er eðlilegt að menn leitist við að standa vörð um það. Slíkir tilburðir geta þó gengið allt of langt eins og nýleg dæmi sýna.
Síðastliðinn fimmtudag komst útvarpsréttarnefnd að þeirri niðurstöðu að útsendingar Skjás Eins á knattspyrnuleikjum í ensku úrvalsdeildinni með enskri lýsingu, brytu í bága við 1. mgr. 8. gr. útvarpslaga.
Þar segir:
,,Efni á erlendu máli, sem sýnt er á sjónvarpsstöð, skal jafnan fylgja íslenskt tal eða texti á íslensku eftir því sem við á hverju sinni. Það á þó ekki við þegar fluttir eru erlendir söngtextar eða þegar dreift er viðstöðulaust um gervitungl og móttökustöð fréttum eða fréttatengdu efni sem sýnir að verulegu leyti atburði sem gerast í sömu andrá. Við þær aðstæður skal sjónvarpsstöð, eftir því sem kostur er, láta fylgja endursögn eða kynningu á íslensku á þeim atburðum sem orðið hafa. Skal lögð áhersla á að allt tal og texti sé á lýtalausu íslensku máli.
Niðurstöðu nefndarinnar má telja eðlilega miðað við það hvernig löggjöfinni er háttað, þó vissulega megi deila um hvort flokka eigi útsendingar frá knattspyrnuleikjum sem fréttatengt efni. Í úrskurði sínum leggur nefndin áherslu á þann tilgang útvarpslaganna ,,að vernda og efla íslenska tungu og beri að hafa hliðsjón af honum við skýringu á 1. mgr. 8. gr. laganna.
Ekki skal efast um að sá tilgangur býr að baki umræddri lagagrein.
Ekki fæ ég betur séð en að í umræddu lagaákvæði gæti forræðishyggju sem erfitt er að réttlæta. Vandséð er að umræddar útsendingar séu á nokkurn hátt skaðlegar íslenskri tungu, eða grafi undan þeirri viðleitni manna ,,að vernda hana og efla. Ekki veit ég til að það hafi verið talið skaðlegt móðurmálskunnáttu manna að læra önnur tungumál. Hér hlýtur að vera um tvískinnung að ræða því mikil áhersla er jú lögð á tungumálakennslu í starfi grunnskóla og framhaldsskóla. Ekki þekki ég dæmi þess að það nám hafi grafið undan íslenskukunnáttu fólks. Mannsheilinn er nefnilega þeim kostum búinn að geta tileinkað sér margt án þess að það bitni hvað á öðru!
Sjálfur hef ég lengi haft gaman að enskri knattspyrnu. Sem unglingur hlustaði ég gjarnan á útsendingar BBC þegar uppáhaldsliðið mitt var að keppa. Ég efast stórlega um að það hafi skaðað íslenskukunnáttu mína. Sé henni ábótavant eru aðrar ástæður fyrir því!
Í seinni tíð hefur komið fyrir að ég horfi á liðið mitt í endurvarpaðri útsendingu úr hollensku sjónvarpi, með hollenskum þulum. Merkilegt nokk þá er ég ekki enn farinn að rugla hollenskunni og íslenskunni saman! Hvort það er af því að ég sé svo tregur og seinn að tileinka mér hollenskuna skal ósagt látið!
Vert er að hafa í huga að verulegur hluti afþreyingarefnis í íslensku sjónvarpi er á enskri tungu. Í langflestum tilvikum er efnið birt með íslenskum texta. En einnig er aðgengi að erlendum sjónvarpstöðvum mun greiðara en var fyrir nokkrum árum að ekki sé talað um aðgengi að efni á hinum ýmsu tungumálum á netinu. Því tel ég að þær greinar útvarpslaga sem ganga svo langt sem að framan er rakið séu í besta falli tímaskekkja en hallast raunar fremur að því að þeirra hafi aldrei verið þörf. Meðan eftirspurn er eftir efni með íslenskum texta eða knattspyrnuleikjum með íslenskum lýsendum eru líkur fyrir því að slíkt verði í boði.
Ég tel rétt að breyta útvarpslögum í þá veru að heimildir til útsendinga á erlendum tungumálum verði rýmkaðar. Yfirvöld menntamála ættu að taka því fagnandi að fá aðstoð við enskukennslu í formi lýsinga á knattspyrnuleikjum. Var ekki einhvern tímann sagt að maður lærði tungumál best þegar um væri að ræða efni sem vekur áhuga manns? Hér er um að ræða íþyngjandi reglur sem ekki eru bara óþarfar heldur beinlínis til óþurftar.
Nú hafa 15 þingmenn lagt fram á Alþingi frumvarp til breytinga á umræddum lögum í þá veru að heimilt verði að senda út íþróttaviðburði með erlendum lýsingum.
Ég skora á Alþingi að samþykkja frumvarpið fljótt og vel.
Þorsteinn Magnússon
Breytt 6.10.2006 kl. 13:19 | Facebook
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004