Leita í fréttum mbl.is

Þjóðarhreyfingin og opnunartími búða. (úr einu í annað)

Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands telja Íslendingar nú 293.291 manns.
Íslendingar nálgast nú óðfluga 300 þús. en það er ekki það sem þessi pistill fjallar um.
Lítill hópur manna sem hefur kosið að kalla sig þjóðarhreyfingu hóf stórt og mikið átak fyrir um tveimur mánuðum síðan til að kaupa auglýsingu í stórblaðinu New York Times. Ég hef áður tjáð mig um þetta svokallaða átak. Það sem er athyglisvert er að sá hópur sem myndar þessa ,,hreyfingu” spannar aðeins um 0.0016% þjóðarinnar. Það væri svo sem ekki í frásögu færandi að fjögurra manna hópur myndi samtök, nema jú ef samtökin kjósa að kalla sig Þjóðarhreyfingu og ætla sér síðan í kjölfarið að hasla sér völl sem talsmenn þjóðarinnar erlendis.

En eins og áður sagði ákvað þessi hópur að hefja stórt og mikið átak fyrir auglýsingunni. Haldinn var blaðamannafundur þar sem um 0,0034% þjóðarinnar bættist við og mótmælti harðlega ákvörðun lýðræðislega kjörna fulltrúa þjóðarinnar um að styðja pólitískt innrás Bandamann í Írak.
Þarna voru s.s. komin um 0,0051% þjóðarinnar sem ætlaði sér að tala fyrir tæplega 300 þúsund manns.

Haft var eftir einum talsmanna hreyfingarinnar að um 5.000 manns hefðu styrkt átakið og nú hefði safnast rúmlega 3 milljónir króna, en það er það sem þurfti fyrir auglýsingunni. Gott og vel. Fimm þúsund manns er svo sem ágætis fjöldi.
Reyndar ekki mikið miðað við það að söfnunin tók rúmlega tvo mánuði og samkvæmt „Þjóðarhreyfingunni“ voru pottþétt 80% þjóðarinnar andsnúnir ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Ekki förum við að kalla forsvarsmenn hreyfingarinnar lygara þannig að við skulum gefa okkur að fimm þúsund manns hafi séð á eftir fjármagni í söfnunina. Það sem er athyglisvert við það er að aðeins 1,7% þjóðarinnar styrkti þá í raun og veru átakið mikla. Hvar voru þá hin 78,3% þjóðarinnar sem voru samkv. ,,Þjóðarhreyfingunni" svona rosalega mikið á móti stuðningi ríkisstjórnarinnar við bandamenn?

Og áfram smá talnaleikur. Auglýsingin kostar 2,9 milljónir króna. Það þýðir að þeir 5.000 manns sem styrktu söfnunina hafa gefið 580 kr. á mann. Vissulega má vera að einhver afgangur sé að söfnuninni og þá hafa menn greinilega gefið meira. Ef að 5.000 manns hringdu í söfnunarsíma hreyfingarinnar hafa safnast um 5 milljónir. Gaman væri að vita ef svo er og hvort að peningurinn fari þá í raun og veru „óskiptur“ til Rauða Krossins eins og fyrr hafði verið samið um.

Nú gæti einhver sagt að aðeins tveir menn hafi tekið þessa „afdrífaríku“ ákvörðun og það telji nú ekki margar prósentur. Hins vegar má ekki gleyma því að þessir ,,tveir” menn eru lýðræðislega kosnir til að fara með þessi mál. En það er nú önnur umræða.

En staðreynd málsins er nú sú að aðeins 1,7% þjóðarinnar styrktu málefnið.
Já, hreyfingin taldi það gefa sér rétt til að tala fyrir þjóðina.
Lýðræðið eins og það leggur sig?

Opnunartími búða
Og út í annað. Dómsmálaráðherra lagði í vikunni fram frumvarp um að rýmka um opnunartíma verslana á hátíðisdögum. Hingað til hafa lög um þetta verið frekar ósanngjörn þar sem ,,stórar” bensínstöðvar hafa mátt hafa opið en ekki verslanir. Árið 2003 lokaði lögreglan 10-11 verslun með valdi þar sem tekin hafði verið ákvörðun um að hafa opið. Gott og vel, brotin voru lög um opnunartíma verslana og slíkt á auðvitað ekki að gera.
Málið er hins vegar að það eiga ekki að vera slík lög til. Ríkisvaldið á ekki að ákveða hvenær landinn má versla og hvenær ekki. Vissulega er málið ekki svo einfalt þar sem líka er verið að hugsa um frítíma og hvíldarrétt starfsfólks. Sú umræða á að fullu rétt á sér og að sjálfsögðu þurfa að vera leikreglur á milli atvinnurekenda og í þessu tilfelli VR um að starfsfólk hafi rétt á hvíld.

Formaður VR var ekki par hrifinn af ákvörðun ráðherrans af því að VR hafði ekki verið haft með í ráðum. Ég tel ekki að sú viðleitni eigi rétt á sér af því að það eina sem ráðherran er að gera er að rýmka rétt verslunareigenda til að hafa opið eins og þeim þykir þurfa, m.ö.o. hann er að koma í veg fyrir það að laganna verðir þurfi að mæta og loka búðunum vegna þess að þau eru að brjóta lög um opnunartíma.Það er síðan samningsatriði milli eigenda fyrirtækjanna og starfsmanna (já, eða VR) að semja um vinnutíma og svo frv. Það væri t.a.m. ekki ósennilegt að umræddir helgidagar yrðu „löglegir“ frídagar fastráðins starfsfólks og ef að búðir vildu hafa opið yrðu þeir að kalla inn aukafólk eða að bjóða það góð laun að starfsfólkið vilji vinna að fúsum og frjálsum vilja. Um slíkt yrði samið í kjarasamningum. Það mál kemur hins vegar löggjöf Dómsmálaráðherra ekkert við og ég styð þetta frumvarp hans heilshugar.

Ganga mætti enn lengra í þessum málum en Björn Bjarnason hefur hér stigið fyrsta skrefið

Gísli Freyr Valdórsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband