Leita í fréttum mbl.is

„Ekkí í mínu nafni“

Það er athyglisvert þessa dagana að fylgjast með félagsskap nokkrum hér í bæ sem kosið hefur að kalla sig Þjóðarhreyfinguna. Þarna starfar vinnuhópur fjögurra einstaklinga sem telur sig hafa vit fyrir þjóðinni og ætlar nú að taka sér það fyrir hendur að tala fyrir hönd þjóðarinnar erlendis. Nýjasta uppátæki „Þjóðarhreyfingarinnar“ (sem er samsett af fjórum einstaklingum) er að standa fyrir söfnun á fé meðal landsmanna og er ætlunin að kaupa auglýsingu í The New York Times. Með auglýsingunni ætlar þessi félagsskapur að biðjast afsökunar fyrir hönd allra Íslendinga á stuðningi Íslands við innrásina í Írak?

Það er vert að skoða nokkur atriði varðandi þetta.
Skv. yfirlýsingu „hreyfingarinnar“ á að standa í auglýsingunni, „Við, Íslendingar, mótmælum eindregið yfirlýsingu íslenskra stjórnvalda um stuðning við innrás Bandaríkjanna og „viljugra“ bandamanna þeirra í Írak í mars 2003. Með þeirri yfirlýsingu voru brotin íslensk lög, alþjóðalög – og íslensk lýðræðishefð.“

Síðar í yfirlýsingunni segir að ákvörðunin hafi aðeins verið tekin af tveimur mönnum. Þetta er einmitt það sem þessir fjórir einstaklingar, ásamt nokkrum listamönnum, eru að skammast yfir. Að lítill hópur manna hafi tekið ákvörðun fyrir hönd allrar þjóðarinnar. Þá er ekki úr vegi að spyrja: Hvaðan kemur forsvarsmönnum hinnar sjálfskipuðu "Þjóðarhreyfingar" vald til að tala fyrir hönd Íslendinga á alþjóðavettvangi, já eða bara yfir höfuð? Hvort sem það er á síðum The New York Times eða annars staðar? Hvaða lýðræðislega umboð hafa þessir einstaklingar til þess að tala fyrir hönd þjóðarinnar sem slíkrar? Ekki nokkurt einasta.

Þessi hreyfing telur sig þó geta lagt nöfn allra Íslendinga við þessa auglýsingu. Reyndar liggur ekkert fyrir á þessari stundu hversu margir Íslendingar studdu umtalaða innrás. Það sem liggur hins vegar fyrir er að enn situr sama ríkisstjórn sem í lýðræðislegum kosningum var veitt endurnýjað umboð til stjórnarmyndunar stuttu eftir að stuðningur við innrásina var ákveðinn. Þjóðarhreyfingin var að vísu ekki til þá.

Annað sem vert er að velta fyrir sér. Það er ljóst að það er ekki stríðshrjáð Írak sem á hug allan og hjarta hreyfingarinnar. Í áðurnefndri yfirlýsingu segir: „Verði afgangur af söfnunarfénu, rennur hann óskiptur til Rauða kross Íslands til hjálpar stríðshrjáðum borgurum í Írak.“ Hvers vegna ekki að nota allan peninginn sem safnast í mannúðarmál í stað þess að stríðshrjáðir borgarar Írak séu bara látnir mæta afgangi þegar The New York Times hefur fengið sitt?

Ef að Þjóðarhreyfingin ætlar að biðja írösku þjóðina afsökunar, af hverju kaupa þeir þá ekki auglýsingu í íröskum fjölmiðli? Það er til nóg af þeim, þeir lifa góðu lífi, og ná vel til Íraka. Í dag starfa fjölmiðlar í Írak án afskipta Bandaríkjamanna og hafa fullt málfrelsi. Það er alveg ljóst. Ætli margir Írakar lesi The New York Times? Hver skyldi vera tilgangurinn með þessu uppátæki? Að biðja Íraka afsökunar? Að lina þjáningar stríðshrjáðra borgara í Írak? Eða kannski bara að upphefja þá sem standa að uppátækinu? Svo þeir fái kannski viðtal við sig í The New York Times í kjölfarið auk annarrar fjölmiðlaumfjöllunar? Spurning.
Getur verið að hreyfingin sé að vinna sér inn stig meðal vinstrimanna hér á landi og geta sér orðstír erlendis á sama tíma?

Á sama tíma eru þingmenn stjórnarandstöðunnar aða fara fram á að Íslendingar láti taka sig af lista hina viljugu þjóða. Þannig hefur stjórnarandstaðan, þjóðarhreyfingin og örfáir listamenn sameinast um að þeir telji innrás þessa ólöglega og það sem verra er, óréttmæta. Helst bera þeir fyrir sig orð Kofi Annan, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, þar sem hann lýsti því yfir í viðtali fyrr í haust að hann „teldi“ að innrásin væri ólögleg af því að Öryggisráð S.Þ. hefði ekki samþykkt hana. Hins vegar hefur innrásin aldrei verið úrskurðuð ólögleg og enginn ákæra verið gefin út. Það að leika sér að orðum annars vegar og fella dóm hins vegar er ekki það sama og skýr skil ættu að vera þar á milli.

Aldrei heyrði maður þingmenn stjórnarandstöðunnar og hvað þá heila „þjóðarhreyfingu” hefja upp raust sína þegar Saddam Hussein, synir hans og annað hyski, gengu um Írak, nauðgandi, drepandi og rænandi þegna sína því að lifa í frelsi og velmegun. Ekki er ekki við öðru að búast en þessir sömu aðilar vilji að Saddam Hussein sé enn við völd. Það liggur ljóst fyrir að nauðsynlegt var að koma manninum frá og einnig liggur ljóst fyrir að sá hinn sami reyndi að framleiða gereyðingarvopn og það sem ennþá verra er, ekki er ljóst hvað hann ætlaði sér að gera með þau. Það að vopnin finnist ekki í dag gerir innrásina ekki ólögmæta né óþarfa. Vitað er að Saddam Hussein átti vopn og af einhverjum ástæðum sá hann ástæðu til að vísa vopnaeftirlitsmönnum SÞ úr landi. Hins vegar virðist enginn vita hvar þessi vopn eru en hafa skal í huga að hingað til hafa heldur engin merki fundist um að þau hafi verið eyðilögð.

Þeir íslensku ráðamenn sem tóku þá ákvörðun að styðja innrás bandamanna inn í Írak til að koma Saddam Hussein frá völdum eiga hrós skilið fyrir djarfa ákvörðun. Írakar munu í framtíðinni standa í þakkaskuld við hinar „viljugu” þjóðir.

Gísli Freyr Valdórsson

Birtist einnig í Morgunblaðinu þann 10. des 2004


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband