Föstudagur, 26. nóvember 2004
Taktlausa gráttríóið

Til að halda lengt greinarinnar í skefjum kýs ég að kalla þremenningana einu nafni Steingrím Arnar Skarphéðinsson. Ástæða þess að þeir urðu svo uppvægir nú var sú að ríkisstjórnin samþykkti að hrinda fyrirhuguðum skattalækkunum í framkvæmd.
Steingrímur hafði meðal annars þetta að segja:
,,Við höfum alla fyrirvara á þessum áformum bæði hvað varðar innihald þeirra og þó ekki síður aðstæður nú til þess að fara út í og ákveða skattalækkanir langt inn í framtíðina. Það er að okkar mati efnahagslegt glapræði!
Það er nefnilega það! Það á þá kannski einungis að ákveða skattalækkanir til skamms tíma í senn. Ekki að móta stefnu til framtíðar heldur breyta sköttunum fyrirvaralaust helst þá til hækkunar líkt og tíðkast hjá Reykjavíkurborg.
Arnar sagði m.a. þetta:
,,Ég hefði byrjað á því að hækka persónuafsláttinn og þar af leiðandi að hækka skattleysismörkin sem hefði komið launþegum miklu jafnar niður og hækkað rauntekjur þeirra sem lægstar hafa tekjurnar.
Það virðist vera að formaður Frjálslynda flokksins hafi verið svo upptekinn við æfingar á harmakveini stjórnarandstöðunnar að hann hafi gleymt að kynna sér efnisatriði skattalagabreytinganna! Þær fela einmitt í sér umtalsverða hækkun persónuafsláttarins!
Steininn tók úr með málflutningi Skarphéðinssonar
,,Það sem að stendur auðvitað upp úr með þessar tillögur er að þeir fá mest sem hafa mest, þeir sem hafa minnst og jafnvel úr ákaflega litlu að spila, þeir fá langminnst og sumir fá ekki neitt! Það er það sem er ósanngjarnt. Síðan tel ég auðvitað að það sé nú þörf á mörgu öðru í þessu samfélagi heldur en að eyða milljörðum til þess að fóðra vasa þeirra sem eru mjög hálaunaðir.
Nema kvað?
Það er svo sem ekki við málefnalegri rökum að búast hjá flokki sem hefur enn ekki mótað sér heildstæða stefnu, en hefur þess í stað tileinkað sér baráttuaðferðir erlendra jafnaðarmannaflokka sem felast einkum í slagorðum án raunverulegs innihalds.
Það væri gaman að vita hvernig formaður Samfylkingarinnar ætlar að fara að því að lækka tekjuskatta á þá sem lægst hafa launin. Sá hópur er sem kunnugt er með tekjur langt undir skattleysismörkum og borgar því engan tekjuskatt fyrir!
Þetta er kannski verðugt verkefni fyrir framtíðarhóp Samfylkingarinnar að leysa úr.
Össur virðist líta svo á að ríkið eigi þá peninga sem menn afla og gefi mönnum hluta þeirra til baka af gæsku sinni.
Þannig sé verið að ,,færa fólki fúlgur fjár með skattalækkunum.
Tökum sem dæmi að ég þyggi mánaðarlega 100 krónu styrk hjá Össuri til rannsókna á bleikjum í Þingvallavatni og tvær krónur frá Steingrími J. til sama verkefnis. Svo minnkar fjárþörf mín svo ég ákveð að hætta að þiggja styrk Steingríms og þiggja einungis 70 kr frá Össuri mánaðarlega. Þá er ég náttúrulega að hlunnfara Steingrím stórkostlega samkvæmt kenningum Össurar!
Ég er að ,,færa Össuri 30 krónur meðan Steingrímur ,,fær einungis tvær!
Það verður hver að dæma fyrir sig hversu skynsamlegur svona málflutningur er.
Áróðurinn var þó jafnharðan rekinn ofan í þremenningana því Tryggvi Þór Herbertsson forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands var næstur tekinn tali:
,,Mér sýnist að þetta komi vel fyrir þá tekjulægstu og fyrir svona lágar millitekjufjölskyldur og barnafjölskyldur og annað slíkt,
þá sýnist mér þetta koma vel út já.
og síðar:
,, [Rannsóknir sýna] það að skattalækkanir sem eru tilkynntar með góðum
fyrirvara koma betur niður á hagkerfinu upp á þenslu en skattalækkanir
sem eru tilkynntar allt í einu.
Svo hafa sumir úr stjórnarandstöðunni klifað á því að það eigi að hlusta á sérfræðingana!
Tilvitnuð viðtöl birtust í sjónvarpsfréttum RÚV laugardagskvöldið 20. nóv. sl.
Vinstrimenn berja sér gjarnan á brjóst og segjast vilja rétta hlut þeirra sem minnst hafa og vilja eigna sér slíka stefnu. Þeir reyna að ná henni fram með ýmiss konar sértækum aðgerðum. Þeir kjósa að setja atvinnulífinu þröngar skorður með miklum álögum til að ,,ná fram réttlæti.
Staðreyndirnar tala hins vegar sínu máli. Vinstrimenn virðast oft gleyma því að það eru fyrirtækin sem veita fólki atvinnu. Til að þau geti greitt há laun þurfa þau að búa við hagstæð rekstrarskilyrði. Kaupmáttur lægstu launa hefur aldrei hækkað sem neinu nemur þegar vinstri stjórnir hafa setið við völd. Síðan 1995 hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna hækkað um ca. 30 % þar af lægstu launanna mest.
Hvað skyldu þremenningarnir hafa sagt við 4 % hækkun tekjuskattsins í stað lækkunar?
Hver skyldi taka mark á þessum málflutningi stjórnarandstöðunnar?
Ég efast um að þeir geri það sjálfir.
Þorsteinn Magnússon
Greinin birtist áður í Morgunblaðinu þann 24. nóvember s.l.
Breytt 6.10.2006 kl. 13:19 | Facebook
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004