Leita í fréttum mbl.is

R-listinn mjólkar borgarbúa

Talsvert hefur verið ritað að undanförnu um þá ákvörðun borgarfulltrúa R-listans að hækka álögur á íbúa Reykjavíkur upp í það hámark sem leyfilegt er samkvæmt lögum. Er ekki skrítið að þetta komi illa við marga enda skattahækkanir aldrei neitt til að gleðjast yfir. Hafa ennfremur ófáir bent á að þetta útspil gangi þvert á margítrekaðar yfirlýsingar forsvarsmanna R-listans á undanförnum árum um að álögur yrðu ekki hækkaðar heldur leitast við að halda þeim í algeru lágmarki. Sú staða sem nú er uppi kemur þó í sjálfu sér ekki óvart enda má segja að um dæmigerð vinnubrögð sé að ræða af hálfu margra vinstrimanna þegar kemur að fjármálastjórn á vegum hins opinbera. Eytt er um efni fram og skattgreiðendur svo látnir taka skellinn þegar allt er komið í óefni sem oftar en ekki vill verða raunin.

Útsvar íbúa Reykjavíkur hækkar úr 12,7% í 13,03% samkvæmt ákvörðun sem borgarfulltrúar R-listans tóku þann 16. nóvember sl., en hærra má útsvar sveitarfélaga ekki vera lögum samkvæmt. Einnig ákvað R-listinn að fasteignaskattar Reykvíkinga yrðu hækkaðir eins og hitt hafi ekki verið nóg. Segir í fréttatilkynningu R-listans að þessi aukna skattheimta verði einkum notuð til að greiða niður skuldir Reykjavíkurborgar.
Má segja að það sé í sjálfur sér ákveðið þroskamerki hjá borgarfulltrúum R-listans að þeir séu farnir að viðurkenna að skuldsetning Reykjavíkurborgar sé vandamál en hingað til hafa þeir harðneitað því og jafnvel sagt að skuldir borgarinnar væru „góðar“ hvernig sem hægt er að komast að slíkri niðurstöðu. Þeir sem bentu á vandann voru síðan kallaðir lygarar eða eitthvað þaðan af verra af forsvarsmönnum R-listans.

Þann tíma sem R-listinn hefur stjórnað Reykjavíkurborg hafa skuldir borgarinnar margfaldast. Vandamálið er reyndar orðið svo slæmt að forystumenn R-listans sjá sér sífellt minna fært að neita þeirri staðreynd. Þetta kom t.a.m. vel fram þegar fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir árið 2004 var sett fram í lok síðasta árs. Skattahækkanirnar nú eru síðan enn ein staðfesting á þessu.

Ef Reykjavíkurborg væri vel rekin gerðu menn væntanlega ráð fyrir því að til aukins kostnaðar kynni að koma á ýmsum sviðum. En það virðist vera lenzka hjá ófáum vinstrimönnum að telja að rétt sé að eyða öllu því fé sem þeir hafi yfir að ráða þegar þeir komast með fingurna í opinberan rekstur. Hver kannast ekki við vinsælt orðalag á vinstrivængnum: „vannýttir tekjustofnar“? Svo þegar aðstæður koma upp sem kalla óhjákvæmilega á aukin útgjöld er eina ráð þeirra að hækka álögur á skattgreiðendur. Eitthvað sem ætti alltaf að forðast eins og heitan eldinn.

Hjörtur J. Guðmundsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband