Leita í fréttum mbl.is

Aldrei aftur verkfall

Með lögum hefur nú verið bundinn endi á langt og strangt kennaraverkfall sem lokað hefur öllum opinberum grunnskólum landsins.
Hver stjórnmálamaðurinn á fætur öðrum hefur með heitstrengingum lýst því yfir að þetta megi aldrei gerast aftur. Fagnaðarefni er að ekki hefur þurft að framfylgja öllum þáttum laganna, þar sem deiluaðilar hafa loksins samið sín á milli. En sveitarfélögin virðast ekki hafa náð sínum markmiðum um breytingar á starfsháttum grunnskóla og breyttan vinnutíma, og virðist jafnvel miðstýringin hafa verið aukin m.a. með því að launapottur skólastjórnenda, eina leið þeirra til að verðlauna góða kennara, hefur verið nánast aflagður.

Því verður ekki á móti mælt að verkfallið kom flestum heimilum landsins í opna skjöldu, enda hefur verkföllum hér á landi fækkað mikið undanfarin ár, þetta var orðið fjarlæg martröð úr fortíð stéttaátaka og miðstýringar þjóðfélagsins.
Jafnvel stjórnarandstöðuþingmenn hafa lýst því yfir að með frekari lagasetningum sé rétt að koma í veg fyrir að svona lagað gerist á ný á Íslandi á 21. öldinni. Hafa menn helst verið að horfa til hinna norðurlandanna, hvernig málunum er háttað þar og hvað læra megi af því. En sá lærdómur á varla við í þessu tilviki nema að litlu leyti, því auðvitað getum við ekki bara gefið eftir öllum kröfum kennara líkt og virðist undirliggjandi hjá þeim sem þangað vilja helst horfa. Eðlilegra væri að við lærðum af sögunni og færðum okkur á ný yfir í meiri sveigjanleika og frelsi í skólamálum landsins líkt og hefur skilað sér í því að í flestum öðrum atvinnugreinum starfar stétt með stétt.

Frekari lagasetning frá Alþingi þarf því að tryggja aukið sjálfsstæði hvers skóla, frekari heimildir skólastjórnenda til að verðlauna góða kennara og reka slæma þvert á allar prófgráður viðkomandi manna, aukin áhrif foreldrafélaga hvers skóla fyrir sig á starfsemina, réttindi foreldra til að taka börn sín úr skólum og kenna þeim heima, auknar kröfur á kennara um að þeir standi sig, aukna samkeppni milli skóla um nemendur og þá jafnframt fjármagn, valfrelsi foreldra um hvaða skóla börnin fara í, að hætt sé að borga kennurum laun fyrirfram, aukna áherslur á einkaskóla og síðast en ekki síst heimild til fækkunar starfsmanna í skólum, og styttingar grunnskólans um eitt ár í sparnaðarskyni fyrir sveitarfélögin.
Einnig þarf að leysa lífeyrissjóðsmál kennara enda eru lífeyrisskuldbindingar ríkisins orðnar þungur baggi á þjóðfélagið.

Ein af fréttum vikunnar í þeim farsa sem fór af stað þegar tilkynnt var um lögin, flestum kennurum til léttis enda höfðu þeir í stolti sínu ekki getað samþykkt samning lakari en kröfur þeirra voru um – en jafnframt flestum sveitarfélögum landsins algerlega ofviða – var að kennarar ætluðu ekki að vinna vinnuna sína þegar þeir snéru aftur í skólana, ef þeir á annað borð mættu. Að kennarar sitji með hendur í skauti í vinnunni væri náttúrulega algerlega óásættanleg vinnubrögð fyrir alla foreldra, líkt og formaður Heimils og skóla hefur sagt, og ýtti bara undir raddir þess efnis að kennarar séu ekkert annað en stríðaldnar barnapíur, þó höfundur þessar greinar vilji ekki meina að svo sé.

Heyrst höfðu raddir, sem sjálfsagt er að taka undir, að foreldrar sem hefðu kost á því, og aðrir aðstandendur sem gengið hafa í störf kennara undanfarnar vikur ætluðu að mæta í skólana í vikunni til að fylgjast með að kennarar ynnu sína vinnu og er það vel. Jafnvel að ef kennarar mættu ekki tækju aðstandernurnir að sér kennsluna, enda margir orðnir vanir slíku. Nú hefði líklegast heyrst hljóð úr horni ef fólk án lögverndaðra réttinda sem kennarar gengi þannig í störf fólks sem ekki lét svo lítið að mæta til starfa, en fróðlegt hefði verið að sjá hvort að gæði kennslunnar hefðu orðið eitthvað lakari, eða aginn eitthvað lakari í íslenskum kennslustofum við það. Sérstaklega nú á dögum þegar sífellt fleiri skólar, má þar nefna Ingunnarskóla í Grafarholti sem dæmi, senda ekki einu sinni börnin heim með verkefni að loknum skóladegi.

Ósagt skal látið hvort þeir treysti ekki foreldrunum til að sjá um kennsluna, en alla vega er það raunin að ríkið treystir ekki foreldrum þessa lands til að sjá um kennslu barna sinna. Jú, því sú er raunin að hér á landi, öfugt við t.d. í Svíþjóð, Bandaríkjunum, Noregi og víðar, að ekki er lengur heimilt fyrir heimavinnandi foreldra að sjá alfarið um uppfræðslu eigin barna, sem var jú lykillinn að læsi og varðveislu tungunnar í gegnum aldirnar hér á landi. Með allri þeirri tækni sem nú er fyrir hendi er ekkert því til fyrirstöðu nú á upplýsingaöld að þeir fáu heimavinnandi foreldrar sem eftir eru í landinu, eða jafnvel aðrir aðstandendur, afar og ömmur sem hvort eð er hafa margir hverjir nú orðið nokkurra vikna reynslu af að vera með barnabörnin geti séð um alla mikilvægustu hluta kennslu a.m.k. yngri deilda Grunnskólans, kannski að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Auðvitað ættu foreldrarnir þá að geta haldið eftir meiru af launum sínum ef þeir þannig gætu sparað hinu opinbera kostnað á þann hátt eða fengið endurgreiðslu nokkur veginn jafngilda því sem skólarnir fá sem kostnað á hvern nemenda; slíkt gæti jafnvel gert fleiri fjölskyldum kleyft að hafa annað foreldrið meira og minna heima til að sjá um börnin í lífsgæðakapphlaupi nútímans hvar þau verða oft afskipt með tilheyrandi vandamálum líkt og bent hefur verið á í umræðunni.

En vandi íslenska skólakerfisins er hin mikla miðstýring og skortur á sveigjanleika enda hefur sú alda uppgangs og vaxtar sem farið hefur um þjóðfélagið í kjölfar aukins frelsis á síðustu árum farið fram hjá því. En það er vandi sem lagasetning getur leyst þó auðvitað leysi lagasetning jafnan engan vanda eins og svo oft hefur verið klifað á í fjölmiðlum í umræðunni um verkfallið undanfarið. En það er nokkuð ljóst að það að setja meiri peninga inn í kerfið leysir ekki grundvallarvanda þess, svo að hugmyndir Vinstrihreyfingarinnar Græns framboðs um hækkun útsvarsheimildarinnar nú þegar ríkið hyggst lækka sína skatta er ekki svarið, þó auðvitað eigi kjörnir fulltrúar sveitarfélaganna að bera ábyrgð á hve háir skattarnir eru sín megin.

Það er kjósenda að dæma um hverjum sé svo best treystandi til að halda sig innan skynsamlegra marka í samneyslunni en endanleg breyting stærsta sveitarfélagsins frá því að vera með einna lægstu álögurnar á landsvísu yfir í þær hæstu mögulega nú nýlega ætti að tryggja að nýjir, hæfari menn séu ráðnir af borgurunum í næstu kosningum.

En undanfarnar vikur hafa kennt okkur að nóg er komið af því að kennarasambandið beiti börnunum fyrir sig í úreltri stéttabaráttu sinni. Kominn er tími til að á milli skólanna og kennaranna ríki raunveruleg samkeppni um bestu starfskraftana og bestu launin, því svo sannarlega er nóg af virkilega hæfileikaríkum kennurum þarna úti, þó ekki hafi þeir allir prófgráðu upp á það. Einnig er rétt að taka undir með þeim sem bent hafa á að kennarar ættu að semja við hvert sveitarfélag fyrir sig, en slíkt er þó einungis mögulegt þegar sérhver kennari ræður sig á einstaklingsforsendum líkt og gerist á almenna vinnumarkaðnum. Þá verður aldrei aftur verkfall.

Höskuldur Marselíusarson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband