Leita í fréttum mbl.is

Jafnrétti orðið misrétti

Síðastliðin ár hefur umræðan um jafnan rétt kynjanna skotið mikið upp kollinum. Þetta er reyndar umræða sem hefur verið viðloðandi – líklega síðustu áratugina.
Hún er auðvitað bara mismikil og oft illa með farin.

Nú er íhaldsmaðurinn auðvitað hlynntur jafnrétti og mér finnst það bara hið besta mál ef að ég og konan mín eigum jafnan rétt og jafn mikil tækifæri í lífinu.

Ég velti fyrir mér nokkrum atriðum varðandi jafnrétti.

Jóhanna Sigurðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar hefur oft reynt að slá pólitískar keilur með alls kyns fyrirspurnum til ráðherra varðandi kynjahlutföll og jafnrétti.
Ekki það að hún geti ekki náð í þessar upplýsingar sjálf, en allavega.
T.d. óskaði hún eftir skriflegu svari við
fyrirspurn til fjármálaráðherra um kynjaskiptingu í stjórnum og stjórnunarstöðum tíu stærstu lífeyrssjóða landsins. Önnur fyrirspurn þar sem aftur er óskað eftir skriflegu svari kemur frá Jóhönnu sama dag. Og spurningin er einföld, ,, Hvernig er kynjaskiptingin í stjórnum 50 stærstu hlutafélaganna á atvinnu- og fjármálamarkaði?” Spurningum þessum er varpað fram þann 6. okt. s.l. og svar berst frá fjármálaráðherra (eða öllu heldur frá einhverjum skrifstofumanni á launum hjá ríkinu) tæplega mánuði seinna eða þann 2. nóv. Hér verður þó ekki farið nánar út í þá skrýtnu staðreynd að þingmenn geti komið með slíkar fyrirspurnir og komist hjá því að hafa fyrir því að finna slíkar upplýsingar sjálf. Það er efni í annan pistil.

Spurningarnar tvær eru athyglisverðar. Líklega átti Jóhanna von á því að þarna kæmi í ljós að meirihluti stjórnenda í þessum fyrirtækjum og lífreyrissjóðum væru karlar. Það finnst henni líkega hið versta mál. Þetta endurspeglar í raun umræðuna um kvenréttindi sem komin er á algera villigötur. Í kjölfarið á þessu eru nokkrar spurningar sem mér datt í hug um þetta.

Af hverju spurði Jóhanna um 50 ,,stærstu” fyrirtækin?
Er e.t.v. verra að karlar séu við stjórn í stærri fyrirtækjum? Ef að 5 manna kvenstjórn er við völd í meðalstóru fyrirtæki, er það á ekki jafn mikið ,,óréttlæti” eins og ef að það væri 5 manna karlstjórn í stórfyrirtæki.
Annað. Þessi 50 fyrirtæki sem hún spurði um hljóta að vera meðal 50 ,,stærstu” af því að þau eru vel rekin. Burt séð frá því hvort kynið sé við stjórnvölinn. En það skiptir Jóhönnu líklega engu máli. Hún vill að það sé jöfn kynjaskipting á þessum bæjum.Af hverju spurði hún ekki: Hversu margar konur eru undir stýri hjá Steypustöðinni?
eða hvernig er kynjaskiptingin á sjómönnum?

Nú geri ég ráð fyrir að Jóhanna og félagar hennar í Samfylkingunni vilji beita sér fyrir því að það verði sett lög varðandi kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja.
Líklegast munu þau einbeita sér að lífeyrissjóðunum, fjármálafyrirækjum og stórfyrirtækjum. Krafan mun vera um allavega helmingaskipti kynja í stjórnum fyrirtækja. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem um þessar mundir undibýr stefnumótum Samfylkingarinnar, var spurð í sjónvarpsþætti á dögunum hvort að hún myndi beita sér fyrir slíkum lögum. Hún neitaði því ekki en ,,vonaði” að til slíks þyrfti ekki að koma.

Má þá ekki eiga von á því í framhaldinu að Samfylkingin (ef hún verður þá til) muni í framtíðinni beita sér fyrir því að helmingur allra vörubílstjóra verði konur?
Mun flokkurinn ásamt Feminstiafélagi Íslands ekki beita sér fyrir því að helmingur allra smiða og rafvirkja á landinu verði konur? Er það ekki ,,eðlileg þróun” og ,,jafnrétti.” Hvernig stendur á því að stjórnmálamenn sem þykjast láta sér annt um jafnréttismál einblína bara á það að konur verði áhrifamiklar í stjórnum fyrirtækja. Oftast eru þetta jafnaðarmenn sem svona tala en vilja þó ekki láta jafnt yfir alla ganga.
Tökum dæmi: Í stjórn stórfyrirtækis starfa 8 manns – 2 konur og 6 karlar. Lögin ganga í gildi og þá þarf að taka upp á því reka 2 karla.
Af hverju? Voru þeir ónothæfir? Alls ekki, þeir voru bara karlar! Er þá ekki jafn raunhæft að reka mikið af kennurum og ráða helming allra kennara sem karla? Er þá ekki jafn raunhæft að reka kassastelpur í stórverslunum og ráða inn helming karla?

Mikið hefur heyrst frá Feminstafélagi Íslands um þessi mál sl. ár og hefur heilt stjórnmálaafl, Samfylkingin, tekið að mestu leyti undir skoðanir þess félags.
Fyrir síðustu Alþingiskosningar fannst Samfylkingunni mikilvægt að kona yrði næsti forsætisráðherra. Það er svo sem ekki við öðru að búast þar sem formaður flokksins er ónothæfur í stjórnun en hins vegar er þetta mjög hættulegt hugarfar. Það þarf ekki konu í stól forsætisráðherra. Það þarf hæfan einstakling sem hefur vit á því sem hann er að gera. Ef það síðan er kona, þá er það bara hið besta mál. Reyndar hið allra besta mál!
Þarna vildu menn þó koma lélegum stjórnmálamanni sem hafði á 9 árum tekist að koma höfuðborginni næstum á hausinn, svikið samstarfsmenn sína og farið óundirbúin í framboð með lítið fyrir sér nema persónulegt hatur á þáverandi forsætisráðherra, í forsætisráðherrastól.
Af hverju, jú af því að þá væri það í fyrsta skipti sem kona yrði forsætisráðherra.
Aldrei lagði Samfylkingin mikið upp úr leiðtogahæfileikum ISG.

Feministar og þeir sem tala hvað hæst fyrir ,,jafnrétti” kynjanna hafa eins og áður sagði lagt mikið upp úr því að konur nái árangri í fyrirækjum og í stjórnunarstöðum í þjóðfélaginu. Það er svo sem ekkert við það að athuga að konur nái árangri.
Auður í krafti kvenna er gott dæmi um framlag kvenna til atvinnulífsins.
Maður veltir samt einu fyrir sér. Hvernig líta feminstar þá á þær konur sem kjósa það að mennta sig ekki og einbeita sér að heimilinu og börnunum?
Eru þær verri eða ,,lélegri” konur en ella?
Eru þær að missa af því sem heimurinn hefur að bjóða?
Eru þær fastar í gamaldags hugsunarhætti? Þetta eru alls ekki ósanngjarnar spurningar.
Sú kona sem sér fram á það að maður hennar geti unnið fyrir þeim tekjum sem heimilið þarf til að reka sig og kýs í framhaldi af því að einbeita sér að barnauppeldi og að sinna góðu heimili, er ekki verri kona en menntaða konan sem er deildarstjóri eða forstjóri.
Hins vegar líta gallharðir feminstar niður á slíkar konur.

Nú er ég líklega búinn að koma mér í vandræði með því að skrifa slíkan pistil.
Því að um leið og maður gagnrýnir Feminstafélag Íslands og/eða þá þingmenn sem þykjast standa að jafnréttisbaráttu, er maður víst orðinn karlremba.
Þá er maður gamaldags og skilur ekki ,,nútímann.”

Staðreyndin er hins vegar sú að ég og konan mín höfum alveg jafn mikla möguleika og jafn mikinn rétt í lífinu. Við erum ung, eigum alla framtíðina fyrir okkur og getum valið okkur þá leið sem við viljum fara í lífinu. Við getum bæði menntað okkur og lagt á okkur að ná langt (hvernig sem það er svo skilgreint). Best er auðvitað að við tökum sameiginlegar ákvarðanir og styðjum við bakið hvort á öðru til að láta drauma okkar rætast. En við eigum jafn mikla möguleika.

Gísli Freyr Valdórsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband