Leita í fréttum mbl.is

„Ísland opnasta land í Evrópu“

Á undanförnum árum hafa ýmsir aðilar hér á landi haldið því statt og stöðugt fram að Ísland væri á góðri leið með að verða að einhvers konar fasistaríki þegar kæmi að málefnum innflytjenda og að íslenzk stjórnvöld gerðu allt sem í þeirra valdi stæði til þess að koma í veg fyrir að erlendir einstaklingar gætu sezt hér að. Sérstaklega hefur þessu verið haldið fram í tengslum við komur fólks til landsins sem óskað hefur eftir pólitísku hæli hér. Hafa fjölmiðlar ennfremur tekið virkan þátt í því í gegnum tíðina að skapa umrædda mynd af stefnu stjórnvalda í þessum málum. Var þetta sérstaklega áberandi fyrir rúmu ári síðan þegar frumvarp dómsmálaráðuneytisins til breytinga á útlendingalögum lá fyrir Alþingi.

Í síðustu viku var greint frá því að nokkrir erlendir einstaklingar, sem sótt hafa um pólitískt hæli hér á landi og eru í umsjá félagsþjónustu Reykjanesbæjar á meðan mál þeirra eru skoðuð, hafi farið í kröfugöngu um bæinn og kvartað yfir því að það tæki langan tíma að afgreiða mál þeirra hjá hinu opinbera. Sögðust þeir hafa lítið við að vera á meðan mál þeirra væru skoðuð og kröfuðust þess að fá hér búsetu- og atvinnuleyfi ef marka má fréttir fjölmiðla af málinu. Höfðu þeir uppi stór orð um íslenzk stjórnvöld og sögðu þeim m.a. vera sama um sig og að þau litu ekki á sig sem mannverur.

Fyrst í stað höfðu flestir fjölmiðlar ekki fyrir því að kanna hver afstaða fulltrúa stjórnvalda kynni að vera til málsins utan Morgunblaðið sem hafði strax samband við Hjördísi Árnadóttur, félagsmálastjóra Reykjanesbæjar. Í kjölfarið rættist smám saman úr fréttaflutningi annarra fjölmiðla af málinu. Kom í ljós að mótmælendurnir höfðu á engan hátt komið kvörtunum sínum á framfæri við félagsmálayfirvöld í Reykjanesbæ og kom Hjördís algerlega af fjöllum þegar hún frétti af mótmælunum.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 26. júní sl. var síðan rætt við Jóhann R. Benediktsson, sýslumann á Keflavíkurflugvelli, en embætti hans rannsakar flest þau mál sem koma upp vegna umsókna um hæli hér á landi. Sagði Jóhann að fyrir lægi að langflestir hælisleitendur, sem kæmu hingað til lands, væru að misnota flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna og væru í reynd ekki pólitískir flóttamenn. Sagði hann rannsókn þessara mála flókna og taka sinn tíma og ekki bætti síðan úr skák í þeim tilfellum sem viðkomandi einstaklingar gæfu upp rangar upplýsingar um sig, en fjölmörg slík mál kæmu upp á hverju ári. Sagði hann ennfremur að aðbúnaður hælisleitenda hér á landi væri mun betri en í öðrum löndum þar sem þeir væru yfirleitt geymdir í sérstökum búðum og fengju ekki að fara frjálsir ferða sinna ólíkt því sem gerðist hér á landi.

Sagt var frá því í fréttatímanum að t.a.m. hafi einn þeirra einstaklinga, sem tóku þátt í mótmælunum í Reykjanesbæ, óskað eftir hæli hér á landi í fyrra. Þegar íslenzk yfirvöld hafi farið að rannsaka mál hans hafi hann látið sig hverfa af landi brott. Eftir það hafi frétzt af manninum í Hollandi þar sem hann hafi einnig sótt um hæli. Þegar þarlend yfirvöld hafi farið að rannsaka mál hans hafi hann leikið sama leikinn og látið sig hverfa. Það hafi síðan verið í janúar á þessu ári sem hann hafi komið aftur hingað til lands og þá undir öðru nafni en þegar hann kom hingað fyrst. Hann hafi óskað eftir atvinnu- og dvalarleyfi hér en ekki fengið og þá óskað eftir hæli sem flóttamaður í annað sinn. Sagði að lokum í fréttinni að vitað væri að maðurinn hefði nú þegar stöðu flóttamanns í Þýzkalandi.

Kvöldið eftir ræddi síðan Stöð 2 við Þóri Guðmundsson hjá Rauða krossi Íslands. Sagði hann Rauða krossinn ekki gera miklar athugasemdir við það hvernig flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna væri framfylgt hér á landi og að hann teldi Ísland vera eitt opnasta land Evrópu í þessum efnum. Sagði hann ennfremur eðlilegt að það tæki tíma að kanna vel mál þeirra sem sæktu um hæli hér á landi svo hægt væri að skera úr um það hverjir ættu rétt á hæli og hverjir ekki. Sagði hann að hvert land hefði rétt á að setja reglur um það hverjir kæmu til landsins og hverjir ekki og að það væri ekkert óeðlilegt við það. Þeir sem uppfylltu ekki skilyrði íslenzkra stjórnvalda, sem og skilyrði flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, ættu ekki rétt á að vera hérna.

Óneitanlega eru einkum þau orð Þóris, að Ísland sé eitt opnasta land Evrópu þegar kemur að möguleikum útlendinga til að setjast hér að, merkileg í ljósi þeirra fullyrðinga sem getið var í upphafi greinarinnar. Ljóst er að þær fullyrðingar eru algerlega úr lausu lofti gripnar og rúmlega það. Það gleymist líka í hamagangnum, við að láta stjórnvöld líta illa út í þessum málum en alla þá sem sækja hér um hæli vel, að einstaklingar sem óska eftir stöðu flóttamanna hér á landi á fölskum forsendum, og leggja þar með mikla vinnu á stjórnvöld við að komast til botns í málum þeirra, eru með því að tefja afgreiðslu á málum þeirra einstaklinga sem raunverulega kunna að eiga rétt á hæli hér á landi. Um þá hlið málsins er þó ekkert fjallað í fjölmiðlum.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband