Föstudagur, 24. júní 2005
Hægðu á þér – tökum slysin úr umferð!
Í vikunni hófst þjóðarátak Vátryggingafélags Íslands gegn umferðarslysum. Er þetta fimmta sumarið í röð sem VÍS stendur fyrir því. Ekki veitir af því að minna á mikilvægi þess að fara varlega í umferðinni. Í átaki VÍS að þessu sinni er athyglinni að mestu beint að þeirri nöpru staðreynd að beint samhengi sé á milli of mikils hraða og alvarlegra afleiðinga umferðarslysa. Það er margsannað að meirihluti banaslysa í umferðinni verður á þjóðvegum landsins og slys utan borgar- og bæjarmarka eru jafnan mun alvarlegri en innan þéttbýlismarka. VÍS mun samhliða þessu þjóðarátaki standa fyrir auglýsingaherferð þar sem ökumenn eru hvattir til að draga úr hraðanum. Samhliða því verður vakin athygli á nýjum leiðbeinandi umferðarmerkjum sem Vegagerðin mun setja upp í sumar á hættulegum vegaköflum á landinu. Verða þau sett upp á svokölluðum svartblettum þar sem slysahætta er jafnan mjög mikil.
Það hefur verið dapurlegt að fylgjast með fréttum seinustu vikna af alvarlegum slysum í umferðinni og dapurlegum örlögum fjölda fólks sem látið hefur lífið í þessum slysum. Nú þegar hafa 13 einstaklingar látið lífið á árinu í umferðarslysum. Sérstaklega hefur verið dapurlegt að heyra fréttir af skelfilegum umferðarslysum hér í nágrenni heimabæjar míns, Akureyri, en fjórir hafa látist í tveim hörmulegum slysum í Öxnadal seinustu vikur. Á árinu 2004 létu 23 einstaklingar lífið í 20 umferðarslysum. Ef marka má tölur sem kynntar voru við upphaf þjóðarátaksins hafa níu af 13 banaslysum á þessu ári orðið í dreifbýli, eða tæplega 70%. Árið 2004 urðu 65% banaslysa í dreifbýli. 70% banaslysa það sem af er þessu ári hafa orðið í dreifbýli. Þetta eru dapurlegar tölur sem þarna sjást. Á bakvið þessar nöpru tölur eru fjölskyldur í sárum einstaklingar í sorg vegna sorglegs fráfalls náinna ættingja.
Lengi hef ég verið mikill talsmaður þess að hafa öfluga umfjöllun um umferðarmál og minna fólk sífellt á mikilvægi þess að keyra varlega og varast slys. Umferðarslys eru sorgleg og tíðni þeirra hérlendis er alltof mikil. Umferðarslys breyta lífi fólks að eilífu. Ekkert verður samt eftir þau. Þeir vita það best sem misst hafa náinn ættingja eða vin í slíku slysi hversu þung byrði það er að lifa eftir þau sorglegu umskipti og sárin sem fylgja slíku dauðsfalli gróa seint eða aldrei. Það er sorgleg staðreynd eins og fyrr segir að árlega er fjöldi fjölskyldna í sárum vegna dauðsfalls af völdum umferðarslyss. Síðustu ár hafa Umferðarráð og síðar Umferðarstofa staðið sig vel í að tjá sig um þessi mál og koma boðskapnum sem einfaldast og best til skila. Sérstaklega fannst mér þetta heppnast best í auglýsingaherferð á síðasta ári þar sem hljómaði tónverk Jóns Ásgeirssonar við Vísur Vatnsenda Rósu og sýndar voru myndir af vegum og myndir látinna kristölluðust þar.
Það er dæmi um auglýsingaherferð sem heppnast, látlaus en þó áhrifamikil og kemur mikilvægum boðskap til skila. Það er þó mitt mat að Umferðarstofu hafi brugðist hrikalega bogalistin seinustu vikurnar. Mér hefur blöskrað nýlegar auglýsingaherferðir Umferðarstofu, það er alveg einfalt mál og lái mér hver sem vill. Þær skjóta hátt í efnistökum en það er skotið svo langt yfir markið að vart hefur sést annað eins lengi. Birst hafa auglýsingar sem eru Umferðarstofu til skammar. Sérstaklega ein þeirra sem sýndi barn detta fram af svölum. Sjálfsagt er að fá fram umræðu og vekja fólk til lífs um þessi mál og tryggja umferðaröryggi. En þarna er alltof langt gengið. Verst fannst mér að sjá börn notuð í þessu skyni með þessum grófa hætti þar sem farið er langt yfir strikið. Er það ekki Umferðarstofu til framdráttar að auglýsa með þessum hætti og taldi ég að þessi lágkúrulega framsetning myndi fá menn á þeim bænum til að hugsa sinn gang. Sú varð nú ekki aldeilis raunin.
Fyrir nokkrum vikum birtist okkur önnur auglýsingaherferð þar sem smákrakkar á leikskóla ausa út úr sér fúkyrðunum og sjást svo í lokin fara heim með foreldrunum sem ausa þar fúkyrðum yfir næsta ökumann. Þessar auglýsingar missa marks og eru ekki til neins. Nema þá að Umferðarstofa sé orðin að málverndarráði allt í einu! Umferðarstofa á að beita sér fyrir auglýsingum í takt við það sem hefur birst seinustu árin, mun frekar en feta sig á þessa braut. Mega auglýsingar um stórmál sem þarf að vekja fólk til umhugsunar um ekki ganga of langt og þurfa aðilar að passa sig, enda auðvelt að feta sig út af brautinni og misstíga sig hrapalega. Til Umferðarstofu eru skilaboðin frá mér einföld: það þarf ekki að skjóta hátt til að hitta í mark. Einfaldur og beinskeyttur boðskapur með mannlegu yfirbragði virkar best. Einfalt mál!
En ég fagna þjóðarátaki VÍS í umferðarmálum. Ragnheiður Davíðsdóttir leiðir þetta þjóðarátak sem fyrr af miklum krafti og er öflugur talsmaður þess. Í grunninn séð vekur þetta okkur öll til lífsins í þessum efnum, eða ég ætla rétt að vona það. Dapurleg umferðarslys seinustu ára og hörmuleg örlög fjölda Íslendinga sem látist hafa eða slasast mjög illa í skelfilegum umferðarslysum á að vera okkur vitnisburður þess að taka til okkar ráða það þarf að hugleiða stöðu mála og reyna að bæta umferðarmenninguna. Í kjörorði þessa þjóðarátaks er komin lykilsetning okkar í umferðinni að mínu mati: Hægðu á þér tökum slysin úr umferð!
Stefán Friðrik Stefánsson
stebbifr(a)simnet.is
Breytt 6.10.2006 kl. 13:19 | Facebook
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004