Föstudagur, 20. maí 2005
Tilvistarkreppa breska Íhaldsflokksins
Fullyrða má að úrslit bresku þingkosninganna þann 5. maí sl. hafi verið eilítil vonbrigði fyrir breska Íhaldsflokkinn og forystumenn hans. Þrátt fyrir að úrslitin hafi hvergi nærri verið eins slæm og í tveim fyrri kosningum þar áður, 1997 og 2001, voru þau samt sem áður ekki viðunandi. Hinsvegar er það óneitanlega svo að þó að Verkamannaflokkurinn hafi unnið sögulegan sigur og náð að tryggja sér völd þriðja kjörtímabilið standa þeir eftir með veikari meirihluta og brothættari stöðu. Þrátt fyrir það varð það vonbrigði fyrir íhaldsmenn að ná ekki 200 þingmönnum á breska þingið. Sálfræðilega var það í raun sá þröskuldur sem þeir höfðu sett sér fyrir kosningarnar. Næðist það markmið ekki væru það slæm úrslit tákn um það að kjósendur væru að senda flokknum þau skilaboð að hann væri ekki verðugur þess að taka við valdataumunum í landinu og þyrfti að fara í allsherjar naflaskoðun. Vissulega var flokkurinn alveg á mörkum þess að ná 200 þingsætum en lykilmarkmið kosninganna náðist ekki og í kjölfar þess tekur við uppstokkun.
Nú er óneitanlega spurt: hvaða breytingar þurfa að verða á breska Íhaldsflokknum? Fyrst og fremst tel ég stöðu þeirra eftir kosningarnar vera byggða á því að flokkurinn sé ekki að spila á þær áherslur sem mestu skipta. Það vantar aðra útfærslu af hægristefnu í lykilpunkta flokksins og hefur gert um nokkurn tíma að mínu mati. Segja má að Michael Howard hafi þrátt fyrir þessi úrslit mátt vel við una að sumu leyti. Honum tókst, þrátt fyrir að honum tækist ekki að tryggja sér forsætisráðherrastólinn og lyklavöldin í Downingstræti 10, að byggja vissan grunn undir flokkinn. Hann náði með forystu sinni að endurheimta þá virðingu sem flokknum hafði skort eftir afhroðið í þingkosningunum 1997, þegar John Major féll af valdastóli og tapaði fyrir Tony Blair, sem heillaði þá landsmenn og leiddi Verkamannaflokkinn til stærsta kosningasigurs í landinu í marga áratugi. Þrátt fyrir tap að þessu sinni vissulega er breski Íhaldsflokkurinn samhentari nú en lengi áður og menn voru í seinustu kosningum sameinaðir í að vinna saman sem heild.
Þingkosningarnar 2001 voru gríðarleg vonbrigði fyrir íhaldsmenn. Þeir náðu aðeins að bæta við sig einu þingsæti frá afhroðinu 1997. Þá voru fáir sem spáðu því að flokkurinn ætti séns í kosningunum næstu, enda hafði sterkur meirihluti Blair haldið miklu forskoti sínu. Eftir kosningarnar sagði William Hague, eftirmaður Majors á leiðtogastóli, af sér leiðtogaembættinu með hvelli strax daginn eftir kosningarnar. Vali á leiðtoga hafði verið breytt og í stað þess að þingflokkurinn og forystumenn innan hans veldu leiðtogann voru það flokksmenn sjálfir sem völdu leiðtogann í kjörinu 2001. Við tók því póstkosning um leiðtogaembættið - var kosið á milli Iain Duncan Smith og Kenneth Clarke. Duncan Smith vann nokkurn sigur og hann tók við leiðtogakeflinu um haustið 2001. Alla tíð var forysta hans misheppnuð, honum skorti bæði kraftinn og þokkann til að leiða fleytuna áfram. Fór það svo á árinu 2003 að jafnvel hörðustu flokkshestar íhaldsmanna voru algjörlega vissir um tap í næstu kosningum. Forysta Duncan Smith var dæmd misheppnuð.
Í októberlok 2003 leiddi fjöldi þingmanna Íhaldsflokksins vantrauststillögu til höfuðs Duncan Smith. Var hún samþykkt og hann neyddist til að segja af sér leiðtogastöðunni. Í byrjun nóvember gaf Michael Howard kost á sér til leiðtogastöðunnar og náðist full samstaða um hann. Var endurkoma hans í forystu breskra stjórnmála nokkuð glæsileg og margra mati allnokkuð óvænt. Hann var reyndur stjórnmálamaður og lengi áður verið í forsvari flokksins. Hann hefur setið á breska þinginu frá 1983 og varð ráðherra árið 1990 á svipuðum tíma og valdauppstokkunin innan flokksins varð í kjölfar brotthvarfs Margaret Thatcher í forystusveit breskra stjórnmála árið 1990. Sat Howard í stjórn John Major allan forsætisráðherraferil hans. Hann var atvinnumálaráðherra 1990-1992, umhverfisráðherra 1992-1993 og innanríkisráðherra 1993-1997. Eftir ósigur flokksins í kosningunum 1997 gaf Howard kost á sér í leiðtogakjöri flokksins. Fleyg urðu ummæli Ann Widdecombe um hann er leiðtogakjörið fór fram: There is something of the night about him. Howard tapaði í leiðtogakjörinu og varð minna áberandi í forystunni.
En í árslok 2003 var tími Howard loks kominn. Í kjölfar leiðtogaskiptanna jókst fylgi flokksins verulega og á tímabili á árinu 2004 bjuggust við því að hann gæti í raun fellt Blair af valdastóli, sem tekinn var að dala allverulega í vinsældum vegna Íraksmálsins. Segja má að Verkamannaflokkurinn hafi brugðist við óvinsældum Blair með því að setja Gordon Brown í fremstu víglínu kosningabaráttu flokksins á þessu ári með Blair og með því hafi flokkurinn í raun unnið kosningasigurinn sögulega, þann þriðja í röðinni. Þó að Michael Howard hafi ekki tekist ætlunarverkið, eins og fyrr segir, hefur breski Íhaldsflokkurinn óneitanlega styrkst til mikilla muna. Hann hefur öðlast trúna á sig og náð vissulega mun sterkari stöðu í þinginu og getur mun betur nú höggvið í þingmeirihlutann sem hefur látið verulega á sjá. En í stjórnmálum er barist um völd og áhrif. Það er það sem baráttuafl alls snýst um. Án þeirra fer óneitanlega svo að viðkomandi flokkar og stjórnmálamenn hafa ekki áhrif.
Það er mitt mat að þó að Howard hafi ekki verið leiðtoginn sem færði Íhaldsflokknum völdin í Downingstræti og forystuna í þinginu í Westminster verði hans minnst sem leiðtogans sem sameinaði flokkinn til átaka og vann þann grunn sem nauðsynlegur er til að byggja á. Á þeim grunni er hægt að byggja upp flokk sem getur komist til valda og náð þeim virðingarsess sem breskir íhaldsmenn hafa þráð mjög í stjórnarandstöðu seinustu átta ára. Michael Howard hefur nú tilkynnt að hann ætli sér að stíga til hliðar, hann ætlar að hætta sem leiðtogi fyrir árslok. Í spjallþætti David Frost á BBC um seinustu helgi talaði þessi margreyndi stjórnmálamaður út um stöðuna, bæði hvað sig varðaði og ekki síður Íhaldsflokkinn í heild sinni. Hann sagði að flokknum hefði mistekist að ná sambandi við kjósendur. Að mati hans þarf flokkurinn að vera öflugri í hægristefnu sinni og verða meiri málsvarar ferskra tækifæra í hægrimennsku nútímans. Flokkurinn þurfi í senn bæði að breyta áherslum í takt við það sem venjulegir Bretar vilja og takast að finna sömu bylgjulengd og kjósendur vilja.
Sú sem færði breska Íhaldsflokknum einn mesta valdasess sinn á síðustu öld og tryggði áhrif hans í breskum þjóðmálum um langa hríð var Margaret Thatcher. Undir forystu hennar var bresku samfélagi gjörbreytt á níunda áratugnum. Með járnkrafti var hvert stórmálið leitt til lykta; staða bresks efnahagslífs batnaði gríðarlega, stjórn var komið á útgjöld ríkissjóðs, hlutur ríkisins í efnahagslífinu var minnkaður til muna og síðast en ekki síst tók hún til hendinni og einkavæddi fjölda ríkisfyrirtækja. Hún tók á verkalýðsfélögunum og barði þau til hlýðni miskunnarlaust og sagði ómögulegt að láta stjórnast af dyntum þeirra. Margaret Thatcher var umdeildur stjórnmálamaður, hún var hinsvegar stjórnmálamaður framkvæmda og markaði sér stefnu sem ekkert mannlegt gat beygt frá því að yrði að veruleika. Nú í dag er þessarar öflugu forystukonu minnst fyrir það helst að hafa breytt ekki bara bresku samfélagi, heldur í senn forystumynstri breskra stjórnmála. Hún breytti auðvitað sínum flokki og leiddi hann í gegnum þessa tíma, en ekki síður stjórnarandstöðunni. Vart má á milli sjá nú hvor flokkurinn fylgir meira grunnáherslum hennar.
Segja má að breski Íhaldsflokkurinn hafi verið sjálfum sér verstur þegar Margaret Thatcher var í raun ýtt til hliðar af eigin flokksmönnum í nóvembermánuði 1990. Á augnabliksandartaki óvinsælda í skoðanakönnunum og tímabundnu mótstreymi var farsælasta forystumanni flokksins á 20. öld lykilstjórnmálamanni breskra stjórnmála í marga áratugi ýtt til hliðar. Þá atburðarás má lesa í bókinni The Downing Street Years. Sú saga er rituð snilldarlega af frú Thatcher sjálfri. Á einum dagparti í nóvember 1990 rann upp fyrir henni ljós sú staða sem hún var komin í. Henni hafði mistekist mjög naumlega að sigra í leiðtogakjöri flokksins, hafði talið sig örugga og einbeitti sér ekki með þeim krafti að kjörinu sem hún hefði gert ef hún hefði skynjað stöðuna betur. Á köldu fimmtudagssíðdegi í London í nóvember 1990 gerði Margaret Thatcher sér grein fyrir því að jafnvel hennar nánustu samverkamenn á 15 ára leiðtogaferli og 11 ára forsætisráðherraferli voru að segja henni pent að hér væri komið að leiðarlokum. Hún gæti ekki unnið þingkosningarnar 1992 og hún gæti ekki unnið leiðtogaslaginn. Jafnvel hennar nánustu samherjar í ríkisstjórn og lykiláróðursmeistarar voru að gefa hana upp á bátinn.
Það er enginn vafi á því þegar pólitísk saga Bretlands er skoðuð 15 árum eftir afsögn Margaret Thatcher í nóvember 1990 að það var röng ákvörðun íhaldsmanna að láta hana fara. Hún átti að standa og falla með verkum sínum og leiða flokkinn áfram. Henni átti að vera treyst fyrir því að fara í kosningarnar 1992 og skilja bæði við flokkinn og bresk stjórnmál með öðrum hætti. Ég tel að breski Íhaldsflokkurinn sé enn í rusli, stefnulega sem forystulega séð eftir það óráð margra íhaldsmanna að gefa forystu Thatcher upp á bátinn, líkt og varð árið 1990. Þó að John Major hafi með naumindum tekist að halda völdum í kosningunum 1992 hefur flokkurinn verið ein rúst eftir að Thatcher fór frá og flokkurinn átt í mikilli tilvistarkreppu. Eyðimerkurganga seinustu átta ára er því afleiðing þess að flokkurinn veiktist hugsjónalega séð sem forystulega og er enn að vinna úr þeirri krísu sem fylgdi brotthvarfi Margaret Thatcher. Segja má að sú eyðimerkurganga gæti tekið langan tíma enn. Það fer þó auðvitað allt eftir því hvernig haldið verður á spilunum innan breska Íhaldsflokksins.
Nú er vissulega komið að krossgötum fyrir Íhaldsflokkinn í starfi sínu. Þar þarf að fara fram mikil endurnýjun í forystuliði að mínu mati og ekki síður hugmyndafræðileg vinna við að bæði marka flokknum nýja tilveru og sóknarfæri. Það er alltaf svo að nýjir leiðtogar koma til sögunnar og þessi grunnvinna skilar árangri. Við sjáum bara hvernig Verkamannaflokkurinn hafði það lengi vel. Þeir voru í stjórnarandstöðu í heil 18 ár og áttu lengi í miklu basli við að marka sér grunn til að lyfta sér til nýrra hæða. Það tókst og það mun íhaldsmönnum takast, fyrr en síðar. Hinsvegar vantar breskum íhaldsmönnum verulega á að hugmyndafræðilega heildin sé heil og menn hafa helst misreiknað sig í því að hafa ekki öfluga framtíðarsýn að boða. Það var helsti akkilesarhæll þeirra í annars góðri kosningabaráttu fyrir nokkrum vikum. Það kann aldrei góðri lukku að stýra að leiða kosningabaráttu án framtíðarsýnar og leiðsagnar til framtíðar um verkefni samtímans. Það verður verkefni næsta leiðtoga að taka við keflinu og halda verkinu áfram.
Ljóst er að margir muni sækjast eftir leiðtogastöðunni og þar muni þingmenn til fjölda ára og nýjir þingmenn leitast eftir forystu flokksins: fulltrúar bæði gamla og nýja tímans. Að mínu mati er nauðsynlegt að menn fari nýjar áttir og velji fólk nýrra tíma til að leiða flokkinn einmitt inn í nýja tíma. Breski Íhaldsflokkurinn hefur í stöðunni mörg sóknarfæri og allmörg tækifæri er þeir feta sig inn á þetta kjörtímabil og eru að hefja leitina að þeim sem á að leiða þá alla leið í Downingstræti 10. Framundan á krossgötunum er því langur vegur. Nú vantar íhaldsmönnum rétta leiðtogann inn í framtíðina til að tryggja að þeir nái í mark með áherslur sínar og lykilmarkmið. Spennandi tímar eru því framundan í breskum stjórnmálum að mínu mati. En í grunninn séð veltur allt þetta á íhaldsmönnum sjálfum. Vilja þeir komast til valda? Vilja þeir stokka sig og flokkinn upp með það að markmiði að ná aftur fyrri sess? Þetta er allt undir þeim sjálfum vissulega komið.
Stefán Friðrik Stefánsson
stebbifr(a)simnet.is
Breytt 6.10.2006 kl. 13:19 | Facebook
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004