Leita í fréttum mbl.is

Umræða um Evrópumálin?

Fáni Evrópusambandsins

Ófáir stuðningsmenn þess að Ísland gangi í Evrópusambandið eiga það til að kvarta sáran yfir því að ekki sé næg umræða um Evrópumálin hér á landi. Þrátt fyrir þær umkvartanir má ætla að fá mál hafi verið rædd eins mikið og eins ítarlega hér á landi hin síðari ár en samband okkar við Evrópusambandið og stöðu okkar í Evrópu almennt. Sú umræða hefur þó eins og kunnugt er ekki leitt til þess að Ísland gengi í sambandið – sem betur fer – en það mun einmitt vera ástæðan fyrir téðum umkvörtunum íslenzkra Evrópusambandssinna.

Ekki er nefnilega annað að sjá en að þeim þyki umræður um Evrópumálin ekki vera umræður um Evrópumálin nema þær séu á þeirra forsendum, þ.e. að þær snúist um það að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið. Þetta hefur sýnt sig margoft. Ófá eru dæmin um það að forystumenn íslenzkra Evrópusambandssinna hafi fagnað því að umræðan um Evrópumálin hafi hafizt á ný í þau fáu skipti sem eitthvað hefur gerzt sem þeir hafa talið vera sínum málstað til framdráttar á liðnum árum.

Gott dæmi er grein sem Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, ritaði á heimasíðu sína í ágúst á síðasta ári þar sem hann talaði um að það væri „alltaf ánægjulegt þegar umræðan um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu færi af stað hér á landi.“ Fram að þeim tíma sem greinin var skrifuð hafði þó umræðan alls ekkert hætt og þurfti því ekki að hefjast á ný. A.m.k. var ekkert lát á að við sjálfstæðissinnar ræddum málin með virkum hætti. Ágúst hins vegar hafði ekki ritað grein um Evrópumálin í ár áður en hann reit umrædda grein ef marka má það efni sem finna má á heimasíðunni hans.

Tilefni greinar Ágústar var fundur norrænna krataforingja hér á landi sl. sumar þar sem þeir lýstu því m.a. yfir að Ísland ætti að sækja um aðild að Evrópusambandinu, eins og þeim komi það eitthvað við hvernig við Íslendingar högum okkar utanríkismálum. En sem sagt, með þessari yfirlýsingu fannst Ágústi umræðan um Evrópumálin aftur hafa hafizt hér á landi þar sem verið var að fjalla um málin á forsendum Evrópusambandssinna.

Annað ágætt dæmi er grein sem Björgvin G. Sigurðsson, annar þingmaður Samfylkingarinnar, ritaði í lok árs 2003 í Morgunblaðið þar sem hann sagði marga hafa orðið fyrir vonbrigðum með litla umræðu um málaflokkinn það árið. Þarna átti hann væntanlega við eigin skoðanabræður enda var engan bilbug að finna á okkur sjálfstæðissinnum það árið þó umræðan hafi kannski verið með rólegra móti. Sem kunnugt er fór nefnilega allur vindur úr íslenzkum Evrópusambandssinnum í upphafi kosningabaráttunnar fyrir alþingiskosningarnar 2003 í kjölfar þess að Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, ákvað að setja Evrópusambandsaðild ekki á oddinn fyrir kosningarnar eftir að skoðanakannanir höfðu ítrekað sýnt að mikill meirihluti Íslendinga væri andvígur aðild.

Þannig að það er sem sagt ekki umræða um Evrópumálin að mati íslenzkra Evrópusambandssinna nema hún fari fram á þeirra forsendum. Þeir sem tala fyrir því að Ísland eigi ekkert erindi í Evrópusambandið eru ekki að ræða málin samkvæmt þeirra áliti. Þessi afstaða Evrópusambandssinna er væntanlega beintengd þeirri forlagahyggju sem einkennir gjarnan málflutning þeirra. Þ.e. að halda því fram að Ísland muni fyrr eða síðar neyðast til þess að ganga í Evrópusambandið og því þýði ekkert að vera að spyrna við fótum (sem er auðvitað talsverð breyting frá því fyrir nokkrum árum síðan þegar Evrópusambandssinnar vildu gjarnan meina að við værum að missa af einhverri hamingjulest til paradísar með því að ganga ekki í sambandið). Umræðan um Evrópumálin hljóti því ávallt að miðast við það að Ísland gangi í Evrópusambandið – að þeirra mati. Önnur nálgun á málinu flokkast ekki undir það að ræða málin.

Þetta sjónamið er auðvitað út í hött og lýsir í bezta falli ótrúlegri þröngsýni. Að einblínt sé svona á einn og aðeins einn mögleika fyrir okkur Íslendinga í samskiptum okkar við Evrópusambandið er ekki beint til marks um mikla víðsýni. Það sést nefnilega alltaf betur að íslenzkir Evrópusambandssinnar vilja ekki ræða aðra möguleika í þessum efnum en aðild að sambandinu. Öðrum möguleikum sjá þeir allt til foráttu og það jafnvel án þess að þeir hafi fengið sérstaka athugun eins og sú leið að gera tvíhliða samninga við Evrópusambandið eins og Svisslendingar hafa gert. Nei, Evrópusambandsaðild er það eina sem þessir menn virðast sjá og vilja ræða. Og svo saka þeir aðra um þröngsýni.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband