Mánudagur, 6. mars 2006
Mánudagspósturinn 6. mars 2006
Íslam í Evrópu er heitt málefni í dag, ekki sízt í kjölfar teikningamálsins svokallaða. Ég var gestur Egils Helgasonar í Silfri Egils í gær þar sem við ræddum einmitt um þessi mál. Er skemmst frá því að segja að að mínu mati er vandamálið í þessu sambandi að sjálfsögðu ekki fólkið sjálft, þ.e. múslimarnir. Múslimar eru vitaskuld ekkert verra fólk en hverjir aðrir og þar finnst bæði gott fólk sem og svartir sauðir eins og annars staðar. Munurinn er kannski sá að svörtu sauðirnir á þeim bænum eru sennilega hættulegustu mennirnir sem finnast í heiminum í dag. Ég hef hins vegar persónulega alltaf nálgast innflytjendamálin í heild fyrst og fremst á forsendum einstaklingshyggjunnar vegna þeirrar einföldu staðreyndar að við erum jú öll einstaklingar þegar allt kemur til alls, óháð kynþáttum, trúarbrögðum, kynjum, uppruna o.s.frv. Að mínu mati snýst þetta aðallega um hugsunarhátt. Vitanlega mótar umhverfið fólk allajafna mjög mikið og þar með t.a.m. sá menningarheimur sem það elst upp við.
Það hefur verið sagt um múslima að sú samfélagsgerð sem þeir búi flestir við í múslimskum ríkjum sé að mörgu leyti hliðstæð og sú sem við Evrópumenn bjuggum við á miðöldum, þar sem trúarlegir leiðtogar voru á kafi í veraldlegum málum og höfðu þar gríðarleg áhrif, enda engin sérstök skil á milli trúarlegs og veraldslegs valds þá. Reyndar bara á annan veginn þó því veraldlegir höfðingjar áttu ekki að skipta sér af andlegum málefnum og gátu jafnvel átt á hættu að vera bannfærðir ef þeir vildu ekki hlýta valdi kirkjunnar manna eins og dæmi eru um.
Svona er þetta enn hjá múslimum víðast hvar að því er bezt virðist og þennan heim hafa þeir flutt með sér til Evrópu og komizt upp með vegna fjölmenningarstefnunnar, miskilins umburðarlyndis, barnaskapar og ekki sízt pólitískrar rétthugsunar sem eiga að stóru leyti auðvitað uppruna sinn í slæmri samvizku Evrópumanna vegna nýlendutímans og glæpa nasista í stríðinu. Sambærileg þróun hefur ekki átt sér stað í múslimaheiminum og hér á Vesturlöndum varðandi aðskilnað veraldlegs og andlegs valds og því er þetta allt saman enn í einum graut á þeim bænum eins og ýmsir hafa orðað það.
Ég er sjálfur sannfærður um að minnihluti múslima séu öfgamenn, en ég held engu að síður að það sé ljóst að öfgamennirnir hafi gríðarlega mikil völd á meðal margra múslima, jafnvel mikils meirihluta þeirra. Hliðstætt og var með kaþólsku kirkjuna á miðöldum. Þessir öfgamenn hafa áhrif sín og völd aðallega í krafti ótta og þá auðvitað fyrst og síðast trúarlegs ótta. Fremst í flokki þessara einstaklinga fara hinir svokallaðir ímamar sem virðist hafa ríka tilhneigingu til að verða bókstafstrúaðir öfgamenn. Það er því kannski ekki að furða að ríki eins og Danmörk, Frakkland og Holland hafi verið að reyna að koma slíkum aðilum úr landi.
Vandamálið er þó m.a. það að í krafti nútímatækni geta þessir öfgamenn komið boðskap sínum á framfæri til skoðanabræðra sinna á Vesturlöndum, t.d. í gegnum internetið. Annar galli er að flestir þessara ímama eru þegar komnir með ríkisfang í viðkomandi löndum og því hægara sagt en gert að vísa þeim úr landi. T.d. mun raunin vera sú núna í Danmörku. Rætt hefur verið um það í dönsku ríkisstjórninni að vísa ímömum, sem tóku þátt í að æsa upp hatur í garð Danmerkur og Dana í múslimaheiminum, úr landi en niðurstaðan mun hafa verið sú við nánari athugun að það væri einungis hægt í undantekningartilfellum þar sem þeir eru flestir komnir með danskt ríkisfang.
Ég er alveg viss um að næsta öfgastefna sem við þurfum að takast á við sé íslamisminn sem er sem slíkur alveg sambærilegur á við nasismann, kommúnismann og fasismann eins og Salmann Rushdie og félagar bentu á í yfirlýsingu á dögunum. Sameiginleg einkenni eru t.d. andúðin á gyðingum, andstaða við lýðræðið og hugmyndin um að viðkomandi aðilar séu á einhvern hátt yfir aðra hafnir. Það sem gerir íslamismann hins vegar mun hættulegri og erfiðari viðureignar er að hann skákar í skjóli trúarbragða og spilar á þá aðila á Vesturlöndum sem virðast tilbúnir að umbera allt sem framkvæmt er í nafni þeirra.
Að lokum má nefna að ýmis samtök íslamista, bæði í löndum múslima og í Evrópu, líta þá þróun mjög jákvæðum augum að múslimar flytjist í miklum mæli til Evrópu og Vesturlanda og ýta jafnvel undir hana. Frá þeirra bæjardyrum séð er í raun um svipaða hugmyndafræði að ræða og hjá nasistum með "Lebensraum". Tryggja sér varanleg yfirrráð yfir ákveðnum landssvæðum í krafti fólksfjölda. Þetta er vitaskuld ekkert nýtt í sögunni og má t.d. benda á hvernig nýlendustefnan var framkvæmd í Ameríku. Það má því í raun segja að við séum í dag að verða vitni að nýrri nýlendustefnu sem að þessu sinni beinist gegn Evrópumönnum sjálfum.
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is
Meginflokkur: Mánudagspósturinn | Aukaflokkur: Hjörtur J. | Breytt 27.4.2007 kl. 23:22 | Facebook
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004