Leita í fréttum mbl.is

Geðvondur þingmaður

,,Best að svara þessum andskotum..”
- Yfirskrift á pistli sent út af póstlista Magnúsar Þórs Hafsteinssonar.

Enn og aftur fer Magnús Þór Hafsteinsson þingmaður Frjálslynda flokksins (sem annars er ekki mjög frjálslyndur) mikinn á heimasíðu sinni. Í þetta sinn tekur hann út reiði sína á Staksteinum Morgunblaðsins. Staksteinar voru víst eitthvað vondir við hann um helgina og jafnaðargeðsmaðurinn Magnús sættir sig auðvitað ekki við einhverja gagnrýni.

Það er nú ekki ætlun mín að taka sérstaklega upp hanskann fyrir Morgunblaðið, þó að um ágætis blað sé að ræða. Það er hins vegar athyglisvert þegar ,,háttvirtur” þingmaður eins og Magnús á víst að vera æsir sig á þennan hátt og skrifar eitthvað út í loftið án þess að færa fyrir því nokkur rök. Hann byrjar á því að segja Staksteina ,,hendi skít” í andstæðinga Sjálfstæðisflokksins. Seinna í greininni segist hann þó aldrei lesa blaðið en fer þó frjálsum orðum um að kalla það málgagn Sjálfstæðisflokksins og málpípu sérhagsmunaíhaldsins, hvað sem það nú er. Vonandi á hann ekki við Íhald.is, þó að við séum jú nokkuð sérstakir.

Gagnrýni Moggans var þó ekki harðari en það að höfundi Staksteina fannst skrýtið að þingmaður Frjálslynda flokksins skyldi kenna fjölmiðlum og stjórnarmeirihlutanum um minnkandi traust almennings til þingsins. Já, þetta er sami þingmaður og skrifaði fullur inn á spjallvef um það að hann vildi ,,... fljúga svo norður í Eyjafjörð yfir Kjöl, sprengja Stebbafr og Halldór Blöndal til helvítis, snúa svo til baka yfir heiðina og bomba Björn Bjarna og borgarstjórnaminnihlutan hálfa leið til andskotans og lenda svo við gamla flugturninn á Reykjavíkurflugvelli og hrynja í það á kránum í Miðbænum.”

Magnús heldur síðan langa tölu um að þetta minnkandi traust almennings til Alþingis sé allt Sjálfstæðismönnum að kenna. Ekki er Magnús þó málefnalegri en svo að hann fer með dylgjur og rógburð um menn og maka þeirra.

Magnús segir m.a. ,,Einn af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins er nýorðinn stjórnarformaður eins olíufélaganna sem grunuð eru um að hafa stolið milljörðum af viðskiptavinum sínum.”
Hann gleymir því þó að minnast á það að það eru nýjir eigendur að þessu olíufélagi sem ekkert ólöglegt hafa gert.

Og hinn rólegi þingmaður heldur áfram, ,,Við getum líka litið til þess að núverandi fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins er hugsanlega flæktur í alvarlegt fjármálahneyksli eftir brask með stofnfjárlhluti [...] Hann er þá ekki sá eini af núverandi þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem hefur verið viðriðinn vafasama gjörninga á fjármálasviðinu.”
Þetta eru sterkustu rök Magnúsar. Svona svara hann gagnrýni. Hann sakar menn um að vera ,,hugsanlega” flækta í eitthvað og einhverjir aðrir hafi verið viðrinir eitthvað vafasamt.

En það besta kom í lokin, lesum nú vel og vandlega, ,,Ég gæti líka talið upp langan lista og sagt ljótar sögur af því hvernig vilji Alþingis er hreinlega hunsaður af framkvæmdavaldinu. Til að mynda í nokkrum nýlegum þeim tilvikum þar sem þingið hefur verið svo vitlaust að vísa ályktunum sínum til ríkisstjórnarinnar. [...] Ég held ekki. Hér á landi ríkir ekki þingbundið lýðræði, heldur þingbundið einræði og mér dettur ekki einu sinni í hug að fara að snobba fyrir þessu rugli sem oft er í gangi við Austurvöll.
Ég bara vinn þarna.”

Það er nú gott að vita að Magnús bara vinnur þarna. Er það ekki stóralvarlegt mál ef vilji Alþingis er hunsaður af framkvæmdarvaldinu? Ætlar Magnús bara að sitja á þessum langa lista og ljótum sögum og ekkert að aðhafast? Hvað er orðið um lýðræðið í landinu? Hvar endar þetta allt saman?
Eða er þessi setning Magnúsar kannski bara enn einn rógburðurinn?

Menn eins og Magnús æsa sig við minnstu tilefni. Ef honum er mótmælt brúkar hann munn og kallar menn ljótum nöfnum. Á Alþingi (sem Magnús ber ekki mikla virðingu fyrir) eru menn sem gaspra um málefni án þess að vita nokkuð um þau, þar eru einstaklingar sem halda margra tíma ræður án þess að segja nokkuð bara til þess að tefja mál sem þeim líkar ekki. Þar eru einstaklingar sem kunna ekki að gera bindishnút og neita að ganga með bindi. Þar eru tækisfærirsinnar sem segja A í dag og B á morgun ef skoðankönnun gefur til kynna að A sé ekki vinsælt. Næst stærsti flokkur landsins er enn í ,,stefnumótunarvinnu" þó svo að hann sér búinn að vera starfandi í um sjö ár.

En þó svo að Sjálfstæðisflokkurinn mælist með langmesta fylgið í könnunum er minnkandi traust almennings til Alþingis er víst Sjálfstæðismönnum að kenna. Einmitt.

Og við þetta er svo að bæta að Magnús var óánægður með það að RÚV skyldi ekki rjúfa dagskrá þegar jarðskjálfti varð hér fyrr í vikunni. Samkvæmt hans eigin orðum var ,,einhver sinfónía í gangi” þegar hann ætlaði að stilla á stöðina til að leita sér upplýsingar um skjálftann. Til að öðlast meiri athygli spurði hann síðan forsætisráðherra hvort einhver aðgerðaráætlun væri til um slíkt hættuástand. Vildi þingmaðurinn meina að RÚV hefði gjörsamlega bruðgðis öryggishlutverki sínu.

Það er auðvitað rétt að Rás eitt var ekki snör í snúningum. Ef Magnúsi finnst ,,einhver sinfónía” óþörf ætti hann kannski að snúa sér að framkvæmdarstjóra síns eigin flokks enda gegnir hún því vafasama hlutverki að vera formaður Hollvinasamtaka Ríkisútvarpsins. Það gengur auðvitað ekki að menningarhlutverk RÚV gangi yfir öryggishlutverk RÚV. NFS hefur þó engu ríkisboðnu hlutverki að gegna og sagði frá skjálftanum, það gerði Rás tvö reyndar líka.

Skemmst er þó frá því að segja að það myndaðist ekkert hættuástand.

Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr@simnet.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband