Leita í fréttum mbl.is

Gleðileg jól Úkraína

Á sunnudaginn kemur, annan dag jóla, ganga Úkraínumenn að kjörborðinu þriðja sinni á innan við tveimur mánuðum. Í fyrri umferð kosninganna sem fram fór 31. október hlaut enginn frambjóðandi hreinan meirihluta og þurfti því að kjósa aftur milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hlutu. Seinni umferðin fór fram 21. nóvember síðastliðinn og var hin opinbera niðurstaða sú að Yanukovych forsætisráðherra hefði sigrað með tæplega þriggja prósentustiga mun. Flestir þekkja í grófum dráttum atburðarásina sem fylgdi í kjölfarið. Strax vöknuðu miklar grunsemdir um að brögð hefðu verið í tafli við framkvæmd kosninganna og svo fór að hæstiréttur landsins ógilti úrslit þeirra.

Með nokkurri einföldum – en jafnframt sanni – má segja að Yanukovych þessi sé fulltrúi afturhaldsaflanna í landinu en mótframbjóðandi hans, Viktor Yushchenko leiðtogi stjórnarandstöðunnar vill stíga skref í átt til frelsis. Hann vill aukna samvinnu við vesturlönd á meðan Yanukovych vill líta meira til valdhafanna í Kreml.

Úkraína hefur aðeins búið við sjálfstæði í 13 ár, þ.e. frá því að Sovétríkin leystust upp.
Í landinu búa um 48 milljónir manna. Tæpur þriðjungur þeirra lifir undir fátæktarmörkum samkvæmt nýlegri skýrslu CIA. Samt eru í landinu miklar auðlindir, einkum í formi jarðefna, s.s. olíu og jarðgass – svo dæmi séu tekin. Nánari upplýsingar um land og þjóð er að finna í fyrrnefndri skýrslu.

Fullvíst má telja að aukið frelsi í atvinnulífi og viðskiptum í landinu sé lykillinn að aukinni hagsæld líkt og annars staðar. Landið er enn að verulegu leyti í fjötrum ríkisforsjár – sem eru leifar frá alræðistímanum. Þrátt fyrir breytt stjórnarform hefur gengið fremur hægt að breyta löggjöfinni til samræmis við lýðræðislegt skipulag.

Þó Viktor Yushchenko teljist sennilega ekki sérlegur hægrimaður á vestrænan mælikvarða verður að telja hann mun líklegri en andstæðing hans til að hrinda nauðsynlegum umbótum í framkvæmd. Það er því óskandi að Úkraínumenn beri gæfu til þess að kjósa rétt á sunnudaginn kemur og að engin brögð verði í tafli að þessu sinni.

Þorsteinn Magnússon


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband